Skip to main content

Ítarefni um Ský

Skýrslutæknifélag Íslands, Ský, hefur starfað síðan 1968 og því elstu samtök á Íslandi sem starfa að UT og óháð stofnunum og hagsmunasamtökum. Ekki þarf að taka fram að tækniheimurinn hefur gengið í gegnum margar byltingar á þeim tíma. Fáir höfðu aðgang að tölvum fyrir 38 árum en eru fyrir löngu orðnar almenningseign og órjúfanlegur hluti, og ómissandi í daglegu lífi fólks á öllum aldri og fyrir starfsemi þjóðfélagsins. Með tilkomu öflugra og hraðvirkra tölvuneta hefur heimurinn orðið sem eitt og haft í för með sér að UT-fyrirtæki á Íslandi geta selt vörur, þjónustu og sérfræðiþekkingu sína um allan heim. Ský hefur fylgt þessari byltingu frá upphafi og starfið tekur jafnan mið af tíðarandanum þó nafnið endurspegli rætur tækninnar.

Félagar í Ský, sem eru áhugafólk um upplýsingatækni, koma víða að úr atvinnu- og viðskiptum og spanna litríka flóru upplýsingatækninnar með mismunandi áherslur og starfsemi félagsins endurspeglar það á margvíslegan hátt. Aðalstarfsemi félagsins er funda- og ráðstefnuhald.

Félagið stendur fyrir tugum atburða á hverju ári. Heilsdagsráðstefnur eru þar stærstar þar sem tekin eru fyrir tiltekin málefni í UT og þau krufin til mergjar þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar halda fyrirlestra. Hádegisfundir njóta einnig vinsælda þar sem stutt, hnitmiðuð erindi eru haldin þar sem gjarnan eru tekin fyrir málefni sem eru í brennidepli þá stundina.

Félagið heldur úti vef þar sem eru upplýsingar um starfsemi félagsins, komandi atburði, faghópa, stjórn og nefndir en þar eru einnig birtar daglega nýjar fréttir úr tækniheiminum, greinar eftir innlenda höfunda og svo er aðgangur að tímaritinu Tölvumál en félagið hefur gefið úr tímarit síðastliðin þrjátíu ár.

Vefurinn hefur að geyma PDF-skjöl af tímaritinu en það kom síðast út í desember síðastliðnum og hafði að geyma sextán greinar eftir innlenda höfunda. Vaxandi þáttur í starfseminni undanfarin ár eru faghópar þar sem tilteknum málum innan UT eru gerð ítarleg skil.

Faghóparnir eru: UT-konur sem eru samtök kvenna sem starfa í upplýsingatækni, Fókus sem starfar að upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu, Faghópur um vefstjórn sem starfar að veftækni, Öryggishópur sem hefur staðið fyrir ráðstefnum í tengslum við öryggismál, Öldungadeild sem starfar að sögulegri varðveislu gagna og tækja UT á Íslandi og Faghópur um fjarskiptamál sem stofnaður var í mars 2008.


Einn af hornsteinum félagsins er starf Tölvuorðanefndar sem hefur starfað óslitið frá árinu 1968. Í nýrri útgáfu Tölvuorðasafns, sem kom út síðastliðið haust, eru um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti á rúmlega 6500 hugtökum sem lúta að upplýsingatækni og tölvunotkun. Þetta er fjórða útgáfa og eru hugtök um 30% fleiri en í síðustu útgáfu, enda er safnið nú 555 blaðsíður að stærð.

Líklega eru Íslendingar einna lengst á veg komnir með íslenskun tölvumáls ef litið er til hinna Norðurlandanna. Tölvuorðasafn er afrakstur af áratuga starfi orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands.

Orðanefndarmenn eru brautryðjendur tölvutækninnar á Íslandi og hafa fjölbreytilega reynslu af tölvunotkun allt frá upphafsárum tölvuvinnslu á Íslandi. Auk þess hafa þeir fengið til samvinnu við sig fjölmarga sérfræðinga í fremstu röð. Ský er meðlimir í evrópskum samtökum skyldra félaga, CEPIS, á fulltrúa í Fagráði í upplýsingatækni, FUT, Samtökum um rafrænt Ísland og í Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið.