Samskipti milli kennara og foreldra barna í leikskólum

tværVið erum tvær mæður með börn á leikskóla,  önnur búsett í Bandaríkjunum og hin á Íslandi. Okkur langar að skoða smáforrit sem tengjast samskiptum á milli kennara og foreldra barna í leikskólum. Við fengum veður af því að verið sé að innleiða smáforrit sem heitir Karellen í leikskólum landsins og eftir að hafa heyrt um það langaði okkur að skoða það aðeins betur. “Smáforritinu er ætlað að auðvelda kennurum að miðla skilaboðum, upplýsingum um viðveru barna og myndum af leik og starfi.” (Karellen, 2014).

Samkvæmt heimasíðu Karellen eru tvö viðmót á forritinu, annað er fyrir kennarana til að skrá upplýsingarnar og hitt fyrir foreldra til að fylgjast með. Foreldrar geta fylgst með ýmsum upplýsingum um barnið svo sem mætingu, svefn, hversu vel var borðað í matmálstímum og hvað var á boðstólnum. Einnig geta foreldrar séð matseðil og viðburðadagatal leikskólans. Foreldrar geta einnig séð skilaboð frá kennurum og sent þeim skilaboð á móti. Einnig er hægt að tilkynna um veikindi og fjarvistir barna í smáforritinu. Kennarar geta að sjálfsögðu skráð allar þessar upplýsingar í gegnum sitt viðmót ásamt því að hægt er að halda utan um lista yfir aðstandendur barnanna og upplýsingum um þá. (Karellen, 2014).

Við vitum um og þekkjum til svipaðs smáforrits sem er meðal annars notað í leikskólum í Bandaríkjunum. Smáforritið heitir Preciuostatus og er notað til þess að skrá ýmsar upplýsingar um barnið, sem foreldrið hefur svo aðgang að. Upplýsingarnar frá leikskólanum koma bæði í tölvupósti og í sjálft smáforritið í símann. Með þessu smáforriti getur foreldrið séð flestar sömu upplýsingar og við töldum upp í tengslum við Karellen smáforritið. Það er þó ekki hægt að skoða matseðil eða viðburðadagatal og heldur ekki hægt að tilkynna um fjarvistir barna.

“Ég hef reynslu af því að nota smáforritið Precioustatus í leikskóla í Bandaríkjunum og ég get sagt að mér finnst þetta alveg ómissandi. Ég var sérstaklega háð þessu forriti þegar barnið mitt var að byrja á leikskólanum og þegar það var yngra og gat ekki sagt mér frá deginum sínum. Barnið mitt hefur verið í leikskóla á Íslandi þar sem ég gat nálgast flestar af þessum upplýsingum en ég þurfti að leita þær uppi á tveimur til þremur stöðum á leikskólanum. Og myndir gat ég séð á Facebook síðu leikskólans.” (Brynhildur Ásta Bjartmarz, 2017).

“Verandi þriggja barna móðir með tvö börn á leikskóla, á sitthvorri deild, þá get ég sagt að það getur tekið sinn tíma að fá þær upplýsingar sem maður vill fá um börnin sín með því að tala við kennara þeirra. Oft eru þeir kennarar sem voru með þeim á matmálstímum farnir heim úr vinnunni eða þá komnir yfir á aðra deild. Einnig ef börnin eru úti að leika þegar þau eru sótt getur alveg tekið sinn tíma að fara inn á leikskóla til þess að fá þessar upplýsingar. Leikskóli barnanna minna er ekki með Facebook síðu en eru með vefsíðu þar sem settar eru inn fréttir, matseðill, myndir af starfi og fleira en í dagsins amstri gleymist mjög oft að líta þar inn.” (Erla Björg Jensdóttir, 2017).

“Ég get sagt að fyrir mitt leiti tel ég að það myndi koma sér afskaplega vel að vera með smáforrit sem myndi auðvelda öll samskipti við kennara barnanna minna ásamt því að láta mann vita með tilkynningum í síma/spjaldtölvu hvaða viðburðir eru væntanlegir. Oft eru sérstakir litadagar á leikskólanum þar sem börn eru hvött til að mæta öll í sama lit þann daginn og er þá tilkynning um það sett upp á töflu daginn áður. En þessar tilkynningar hafa mjög oft farið framhjá okkur og orðið til þess að börnin missa af því.” (Erla Björg Jensdóttir, 2017).

Teljum við óhætt að fullyrða að þetta sé framtíðin í samskiptum milli foreldra og leikskólakennara í landinu. En við vitum að nú þegar er farið að notast við þetta smáforrit á einhverjum leikskólum og einnig er verið að þróa og prófa annað álíka forrit sem nefnist Humu. Auðvitað verða alltaf persónuleg samskipti á milli foreldra og kennara þegar börn eru sett á leikskóla og sótt þaðan og einnig í foreldraviðtölum en með þessum eða samskonar smáforritum verður mun meiri samvinna og betri og greiðari samskipti á milli heimilis og skóla.

Höfundar: Brynhildur Ásta Bjartmarz og Erla Björg Jensdóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildir Karellen. (2014). Leikskólaapp | Karellen. Sótt 30.janúar 2017 af http://www.karellen.is/karellen-mobile.html