Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Hausmynd1

Viðtal við Hjálmar Gíslason hjá Spurl ehf um leitarvélina Emblu

,,Embla á að vera besta leitarvél á Íslandi um ókomin ár og stefnt er á útrás,” segir Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Spurl ehf.

Leitarvélin Embla sem hleypt var af stokkunum 1. nóvember sl. er samstarfsverkefni Spurl ehf., Orðabókar Háskóla Íslands og mbl.is.  Að sögn Hjálmars Gíslasonar, framkvæmastjóra Spurl ehf., er markmiðið að gera Emblu að mjög lifandi leitarvél, helst þannig að fréttir og dægurmálaumræða sé aðgengileg þar nánast um leið og hún gerist.  Tölvumál ræddi við Hjálmar um tæknina á bak við leitarvélina og framtíðarsýn en hann segir meðal annars að stefnt sé að því að gera Emblu að bestu leitarvél á Íslandi og að verið sé að kortleggja Evrópumarkaðinn.

Leitarvélar eru orðnar eitt helsta viðmót notenda á Netinu og segir Hjálmar að án góðra leitarvéla væri Netið og gagnsemi þess aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem við þekkjum þar sem þær komi reglu á hið ótrúlega magn upplýsinga sem þar sé að finna.  ,,Á eftir tölvupósti er vefleit mest notaða tól sem Netið hefur upp á að bjóða. Þetta eitt gerir leitarvélar að aðlaðandi kosti fyrir auglýsendur, en þar kemur líka fleira til. Þegar netnotandi slær inn leitarorð, er hann í raun að gefa mjög nákvæmar upplýsingar um það sem er honum efst í huga á þeim tímapunkti. Þetta opnar tækifæri til að birta notandanum ákaflega markvissar auglýsingar sem hann er miklu líklegri til að smella á heldur en hefðbundna auglýsingaborða. Slíkar auglýsingar eru meira að segja hjálplegar fyrir notandann, þannig að allir njóta góðs af.”

Leitarvél sem skilur beygingar og áfastann greini
Hjálmar segir að sú þróun sem nefnd er að framan hafi í raun verið kveikjan að Emblu þar sem Spurl hafi séð ákveðin tækifæri í séríslenskri leit.  ,,Flest öll leitartækni á uppruna sinn í hinum enskumælandi heimi og enska er satt að segja mjög einföld þegar kemur að textaleit. Ensk orð hafa fáar orðmyndir og einfaldar. Þessu er talsvert öðruvísi farið með okkar ástkæra ilhýra tungumál, með okkar beygingar, kyn, tölur og áfastan greini. Engu að síður er ljóst að þegar notandi slær inn í leitarvél orð eins og ,,flugvöllur” ætlast hann til að finna einnig vefsíður þar sem talað er um ,,flugvöllinn í Vatnsmýri” eða ,,flugvelli á Vestfjörðum” - slík skjöl fara hins vegar fyrir ofan garð og neðan hjá almennum leitarvélum.  Við lögðum af stað með þetta vandamál sem útgangspunkt og höfum tekið mið af þessu og fleiri séríslenskum atriðum við smíðina, s.s. að hjálpa  notendum við að leiðrétta stafsetningar- og ásláttarvillur og hreinlega að kenna leitarvélinni dálítið á íslenskt ,,veflandslag”, þ.e. hvar líklegt er að finna upplýsingar um ákveðna, sértæka hluti.”

Áherslan á íslensku hefur fallið í kramið hjá notendum
Að sögn Hjálmars hefur Emblu verið mjög vel tekið frá því hún var sett á laggirnar í nóvember sl.  ,,Ég held að það sé óhætt að segja að áherslan á íslenskuna og íslenska vefinn hafi fallið vel í kramið hjá notendum. Við höfum fengið mikil viðbrögð frá notendum sem almennt hafa verið mjög jákvæð. Þó má segja að kvartanir og ábendingar um betrumbætur séu meira virði, því að þó það sé gaman að heyra af því sem vel er gert, benda neikvæðu skrifin á tækifæri til betrumbóta og veita innsýn í það hvernig hægt er að
þjónusta notendurna enn betur. Við reynum því að hvetja fólk til að setja sig í samband og segja hug sinn - hver svo sem hann er.  Varðandi auglýsingar tengdar efnisorðum þá eru þær nýjung hér á landi þannig að það hefur tekið nokkurn tíma að kynna þann möguleika og kosti hans fyrir auglýsendum. Sú vinna er nú að fara af stað af meiri krafti og nær undantekningalaust sjá menn tækifærin í þessum kosti um leið og þeir leiða hugann að honum.”

Aðferðafræðin á við flest önnur tungumál Evrópu
Spurður um þróun á sams konar leitarvélum fyrir önnur lönd sem hafa ekki ensku sem móðurmál segir Hjálmar að verið sé að skoða ýmsa möguleika í þá veru.  ,,Við erum að kortleggja leitarmarkaðinn í Evrópu og átta okkur á því hvar tækifærin liggja, bæði út frá markaðslegum forsendum, en einnig því hvar okkar tækni nýtist best.  Aðferðafræðin sem við erum að nota fyrir íslenskuna á vel við fyrir flest tungumál í Evrópu og við höfum verið að gera tilraunir t.d. á dönsku og sænsku sem lofa mjög góðu.  Við viljum fara inn á þessa markaði með öflugum samstarfsaðilum sem þekkja viðkomandi markaði og hafa þegar aðgang að stórum notendahópum og sambönd við auglýsendur. Við höfum kynnt þessa möguleika fyrir þó nokkrum aðilum og erum að vinna í því loka fyrstu samstarfssamningunum á þessum mörkuðum.”

,,Töfrasvör” Emblu

En hver er framtíðarsýn Emblu?  ,,Embla á að vera besta leitarvél á Íslandi um ókomin ár. Við munum halda áfram að fínpússa íslenskukunnátuna og aðra þætti í leitarniðurstöðunum en auk þess höfum við verið að eyða umtalsverðu púðri í að aðstoða fólk sem er í leit að sértækum upplýsingum. Sláirðu t.d. inn nafn á þjóðþekktum einstaklingi í Emblu færðu tengil á æviágrip hans úr bókinni Samtíðarmenn, sláirðu inn símanúmer færðu tengil til að fletta upp rétthafa númersins og sláirðu inn bókartitil færðu upplýsingar um bókina og möguleika á að kaupa hana. Þarna eru enn miklir möguleikar og ég sé fyrir mér að Embla muni eiga slík "töfrasvör" við allt að helmingi leitarfyrirspurna innan skamms.  Markmiðið er að gera Emblu að mjög lifandi leitarvél, helst þannig að fréttir og dægurmálaumræða sé aðgengileg þar nánast um leið og hún gerist. Þetta er reyndar á eins árs planinu hjá okkur og er nokkuð sem hægt er að gera með sérþekkingu á íslenska vefnum og vegna þess að íslenski vefurinn er þó ekki stærri en hann er.”