Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Hausmynd1

Nýmæli

 Hér verða birtar fréttir frá orðanefndinni og tillögur um þýðingar. Stundum verða settar fram hugmyndir sem eru ekki endanlegar en gott væri að fá viðbrögð tölvunotenda við. Sendið athugasemdir og fyrirsprunir til formanns nefndarinnar, Sigrúnar Helgadóttur, sigrun.h@simnet.is.

 

Orðanefnd og Tölvuorðasafn

Fljótlega eftir stofnun Skýrslutæknifélags Íslands var hafist handa um að safna íslenskum orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Í þessu skyni var stofnuð orðanefnd á vegum félagsins árið 1968. Hefur nefndin unnið ötullega að því að koma með tillögur að íslenskum orðum í tölvuheiminum og stuðla þannig að því að góð íslensk orð séu notuð í tölvugeiranum. Hér má fletta upp orðum í Tölvuorðasafninu og hér má skoða Tölvuorðasafnið.

Orðanefndin heldur úti Facebook hópnum Íslensk tölvuorð þar sem fara oft fram líflegar umræður um orð.

Hér fyrir neðan er listi yfir þá sem hafa starfað í orðanefndinni frá upphafi. Þeir fjórir nefndarmenn sem störfuðu i nefndinni 1978 til 2013 undirbjuggu fimm útgáfur af Tölvuorðasafninu, 1983, 1986, 1998, 2005 og 2013. Fimmta útgáfan frá 2013 var eingöngu gefin út rafrænt og er nú aðgengileg til leitar í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Saga Tölvuorðasafnsins 1968 til 2013


Orðanefndir frá upphafi:

Orðanefnd 2020 - 2021
Arnheiður Guðmundsdóttir
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
Linda Björk Bergsveinsdóttir
Sigurður Emil Pálsson
Torfi Þórhallsson
Viktor Jón Helgason

Orðanefnd 2019 - 2020
Arnheiður Guðmundsdóttir
Linda Björk Bergsveinsdóttir
Sigurður Emil Pálsson

Orðanefnd 2018 - 2019
Heiða Dögg Jónsdóttir
Sigurður Emil Pálsson
Þorvarður Kári Ólafsson

Orðanefnd 2017 - 2018
Heiða Dögg Jónsdóttir
Sigurður Emil Pálsson
Þorvarður Kári Ólafsson

Orðanefnd 2016 - 2017
Heiða Dögg Jónsdóttir
Birna Guðmundsdóttir
Jón Ragnar Höskuldsson
Sigurður Emil Pálsson
Þorvarður Kári Ólafsson

Orðanefnd 2009 - 2013
Sigrún Helgadóttir
Þorsteinn Sæmundsson
Örn S. Kaldalóns

Orðanefnd 1979 - 2009
Baldur Jónsson
Sigrún Helgadóttir
Þorsteinn Sæmundsson
Örn S. Kaldalóns

Orðanefnd 1978 - 1979
Baldur Jónsson
Grétar Snær Hjartarson
Jón A. Skúlason
Sigrún Helgadóttir
Þorsteinn Sæmundsson
Örn S. Kaldalóns

Orðanefnd 1976 - 1978
Baldur Jónsson
Bjarni P. Jónasson
Jóhann Gunnarsson
Jón A. Skúlason
Þórir Sigurðsson

Orðanefnd 1971 - 1976
Bjarni P. Jónasson
Jóhann Gunnarsson
Jón A. Skúlason
Þórir Sigurðsson

Orðanefnd 1968 - 1971
Bjarni P. Jónasson
Einar Pálsson
Gunnar Ragnars
Oddur Benediktsson

Tölvuorðasafn - 5 útgáfa

Tölvuorðasafn 5. útgáfa 2013

Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman

Rétthafar

Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands, Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns, eiga höfundarrétt að því verki sem er birt í þessari útgáfu. Orðanefndin hefur með bréfi dags. 28. febrúar 2013 afhent Skýrslutæknifélagi Íslands vefsetrið til varðveislu. Nefndarmenn luku um leið störfum í orðanefndinni og óska þess að efni 5. útgáfu frá 2013 verði látið standa óbreytt. Umsjón Tölvuorðasafns og frekari þróun þess verður í höndum Skýrslutæknifélagsins með leyfi höfunda. Frá 30. október 2019 er Tölvuorðasafnið aðgengilegt til leitar í Íðorðabanka Árnasofnunar.

Formáli

Prentvæn útgáfa  Rit þetta má ekki fjölfalda með neinum hætti án skriflegs leyfis rétthafa.

Tölvuorðasafn fyrir þýðingaminni

Saga tölvuorðasafnsins 1968-2013

Saga tölvuorðasafnsins 1968-2013

Fljótlega eftir stofnun Skýrslutæknifélags Íslands var hafist handa um að safna íslenskum orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Í þessu skyni var stofnuð orðanefnd á vegum félagsins árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en nefndin hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá.

Á tímabilinu frá 1978 til 2013 hafa fjórir einstaklingar starfað í nefndinni, þau Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Þessi samstarfshópur tók saman efni í fimm útgáfur Tölvuorðasafns. Fyrsta útgáfan var gefin út 1983 og hafði að geyma rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum. Engar skilgreiningar eða skýringar fylgdu hugtökunum. Árið 1986 gaf nefndin út aðra útgáfu orðasafnsins. Nú voru hugtökin tæplega 2600 og þeim fylgdu um 3100 íslensk heiti og nær 3400 ensk heiti. Í þetta sinn fylgdu skilgreiningar, skýringar og dæmi þar sem það átti við. Ritstjóri þessarar útgáfu var Sigrún Helgadóttir. Þriðja útgáfa orðasafnsins var gefin út 1997 og hafði þá að geyma um 5800 íslensk heiti og um 6500 ensk heiti á rúmlega 5000 hugtökum. Flestum hugtökum fylgdu skilgreiningar og skýringar. Ritstjóri þriðju útgáfu var Stefán Briem. Fjórða útgáfan var gefin út 2005. Þá voru hugtökin orðin um 6500 og þeim fylgdu um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti. Skilgreiningar og skýringar fylgdu eins og áður flestum hugtökum. Ritstjóri var Stefán Briem.

Baldur Jónsson lést sumarið 2009. Var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út. Árangur af því starfi birtist (2013) sem fimmta útgáfa sem eingöngu var rafræn og aðgengileg til leitar á sérstöku vefsetri. Hugtökum fjölgaði um 3,8% og einnig voru gerðar minni háttar lagfæringar og breytingar á því efni sem fyrir var í safninu. Stefán Briem aðstoðaði orðanefndina við frágang á efninu fyrir leitarvefinn og til prentunar orðasafnsins sem PDF-skjal.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar var opnaður í nóvember 1997. Þriðja útgáfa Tölvuorðasafnsins var með fyrstu orðasöfnum sem aðgengileg voru í orðabankanum. Við opnun bankans var þar bráðabirgðaútgáfa sem síðan var uppfærð þegar orðasafnið kom út snemma árs 1998. Ekki tókst að koma fjórðu útgáfunni inn í orðabankann sem nú heitir Íðorðabankinn.

Árið 2006 var fjórðu útgáfu Tölvuorðasafnsins komið fyrir til leitar á sérstökum vef. Það gerðu starfsmenn fyrirtækisins Spurl, aðallega Viðar Másson. Viðar sá einnig um að koma fimmtu útgáfunni fyrir á vefsetrinu til leitar. Frá 30. október 2019 hefur fimmta útgáfa Tölvuorðasafnsins verið aðgengileg til leitar í Íðorðabanka Árnastofnunar.

Útgáfur Tölvuorðasafnsins

Tölvuorðasafn 5. útgáfa 2013
Tölvuorðasafn 4. útgáfa 2005
Tölvuorðasafn 3. útgáfa 1998
Tölvuorðasafn 2. útgáfa 1986
Tölvuorðasafn 1. útgáfa 1983


Orðanefnd og ritstjóri sem unnu að fimm útgáfum Tölvuorðasafns

Hér eru upplýsingar um nefndarmennina fjóra, Baldur Jónsson, Sigrúnu Helgadóttur, Þorstein Sæmundsson og Örn Kaldalóns og einnig Stefán Briem sem vann lengi með nefndinni sem ritstjóri


Íslensk táknaheiti

Árið 2003 kom út sem Smárit Íslenskrar málefndar ritið Íslensk táknaheiti sem Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins tók saman. Efni þess er ekki aðgengilegt í Íðorðabanka Árnastofnunar en sækja má pdf-skjal með heftinu á þetta vefsetur (Taknaheiti.pdf).


Skammstafanir

Hér er listi yfir skammstafanir sem eru notaðar í Tölvuorðasafninu.


Rit Tölvuorðanefndar

1. Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. 2. útgáfa. Skrifuð sem handrit. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Skýrslutæknifélag Íslands. [Reykjavík] 1974.

2. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. [Ritstjóri: Sigrún Helgadóttir.] Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 1983.

3. Örfilmutækni. Íslensk-ensk orðaskrá með skýringum og ensk-íslensk orðaskrá. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman í samvinnu við nokkra áhugamenn. Tölvumál 1985, 10. árg., 2. tbl., bls. 7–25.

4. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 2. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Sigrún Helgadóttir. Íslensk málnefnd. Reykjavík 1986.

5. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Íslensk málnefnd. Reykjavík 1998.

6. Íslensk táknaheiti. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Íslensk málnefnd. Reykjavík 2003. (PDF)

7. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 4. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Reykjavík 2005.

8. Tölvuorðasafn. 5. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Rafræn útgáfa. Tölvuorðasafnið. Reykjavík 2013. (PDF)

Tölvuorðasafn - 3. útgáfa - Styrkveitendur

Styrkveitendur 3. útgáfu

 • Lýðveldissjóður
 • Málræktarsjóður
 • Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT)
Gullstuðlar:
 • Apple-umboðið hf.
 • Mjólkursamsalan í Reykjavík
 • Nýherji hf.
 • Reiknistofa bankanna
Silfurstuðlar:
 • Íslandsbanki hf.
 • Seðlabanki Íslands
 • Tölvumiðstöð sparisjóðanna
Bronsstuðlar:
 • Digital á Íslandi ehf.
 • Morgunblaðið
 • Opin kerfi hf.
 • Póstur og sími hf.
Aðrir styrkveitendur:
 • Einar J. Skúlason hf.
 • Iðnlánasjóður
 • Johan Rönning hf.
 • Kreditkort hf.
 • Kögun hf.
 • Landsbanki Íslands
 • Landsvirkjun
 • Olíufélagið hf.
 • Samtök iðnaðarins
 • Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
 • Smith og Norland hf.
 • Strengur hf.
 • Teymi hf.
 • Tölvuþjónustan TÍR hf.
 • Vátryggingafélag Íslands hf.

Tölvuorðasafn - 4. útgáfa - Formáli

Formáli að 4. útgáfu

Tölvuorðasafn kemur nú út í fjórða sinn. Það kom fyrst út 1983, og birtust þar tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk á liðlega 700 hugtökum. Í annarri útgáfu 1986 var skilgreiningum hugtaka bætt við og safnið stækkað mjög. Hugtökin voru nær 2600 að tölu, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti nær 3400. Þriðja útgáfa var gefin út aukin og endurbætt 1998 með rösklega 5000 hugtökum með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum. Í fjórðu útgáfunni sem hér birtist, enn aukin og endurbætt frá þriðju útgáfu, eru rúmlega 6500 hugtök með um 7700 íslenskum heitum og um 8500 enskum heitum. Hugtökum hefur því fjölgað um 30% frá þriðju útgáfu.

Orðanefndin hélt áfram reglulegum fundum eftir að 3. útgáfa Tölvuorðasafns birtist á prenti. Fram til ársins 2002 hafði því safnast nokkurt efni. Þá var sótt um styrk frá Norrænu málráði til þess að vinna frekar úr því, bæta við það og koma efninu fyrir í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Norrænt málráð styrkti á þeim tíma sérstaklega orðabókarverkefni á þeim málsvæðum á Norðurlöndum sem kallast „lítil“, þ.e. þar sem töluð er íslenska, færeyska, grænlenska og samíska. Í október 2002 veitti málráðið nefndinni styrk að upphæð 125 þúsund danskar krónur. Ákveðið var að ráða Stefán Briem til þess að vinna með nefndinni en Stefán var ritstjóri þriðju útgáfu Tölvuorðasafns. Stefán og orðanefndin unnu að þessu verkefni allt árið 2003. Ekki varð þó af því að endurbæturnar yrðu settar í orðabankann þar sem unnið var við endurskoðun á tölvukerfi bankans árið 2004.

Seint á árinu 2003 veitti menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nefndinni rausnarlegan styrk sem skipti sköpum fyrir framhald verkefnisins. Í byrjun árs 2004 fékk nefndin einnig styrki frá Skýrslutæknifélaginu og nokkrum einkafyrirtækjum. Því var ákveðið að halda endurskoðun orðasafnsins áfram. Vorið 2004 þótti viðbótin orðin svo mikil að rétt væri að gefa verkið út sem prentaða bók auk þess að koma því fyrir í orðabankanum. Íslensk málnefnd treysti sér ekki til þess að gefa bókina út og sneri orðanefndin sér þá til forsvarsmanna Hins íslenska bókmenntafélags sem hafði staðið að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns ásamt Íslenskri málnefnd. Forsvarsmenn bókmenntafélagsins tóku málaleitan orðanefndarinnar vel og kemur nú afrakstur samstarfsins fyrir sjónir lesenda. Orðanefndin vann við undirbúning handritsins ásamt ritstjóranum, Stefáni Briem, veturinn 2004–2005. Styrkja hefur verið aflað frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað við útgáfuna. Einnig styrkir Menningarsjóður útgáfuna. Lista yfir styrkveitendur er að finna á blaðsíðu 10. Orðanefndin þakkar styrkveitendum kærlega fyrir veittan stuðning.

Orðanefndin hélt fundi sína í Íslenskri málstöð frá því að málstöðin tók til starfa í byrjun árs 1985 þangað til haustið 2002 og Íslensk málnefnd gaf Tölvuorðasafn út í 2. og 3. útgáfu. Orðanefndin og Skýrslutæknifélagið færa Íslenskri málnefnd og málstöðinni þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu. Frá hausti 2002 hefur orðanefndin haldið fundi sína í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37. Orðanefndin þakkar fyrir afnot af þeirri aðstöðu og gott viðmót starfsfólks Nýherja.

Í þremur fyrstu útgáfum Tölvuorðasafns var einkum stuðst við skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóðlega raftækniráðinu. Hún heitir nú Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Staðlaráð Íslands, sem er aðili að þessum stofnunum fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir þær á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits.

Orðanefnd hefur starfað á vegum Skýrslutæknifélagsins frá stofnun þess árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá um sama efni. Bjarni P. Jónasson var fyrsti formaður nefndarinnar og starfaði með henni í tíu ár frá 1968 til ársloka 1977. Með honum störfuðu Einar Pálsson (1968–1971), Gunnar Ragnars (1968–1971), Oddur Benediktsson (1968–1971), Jóhann Gunnarsson (1971–1978), Jón A. Skúlason (1971–1979), Þórir Sigurðsson (1971–1978) og Baldur Jónsson frá 1976. Jóhann Gunnarsson tók við formennsku í nefndinni af Bjarna og gegndi því starfi til haustsins 1978. Þá komu til liðs við nefndina Grétar Snær Hjartarson (1978–1979), Sigrún Helgadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Sigrún Helgadóttir varð formaður nefndarinnar haustið 1978. Frá 1979 hafa því fjórir starfað í nefndinni, þ.e. Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Nefndin hefur haldið fundi reglulega, að jafnaði um 25 sinnum á ári. Fundir hafa þó orðið tíðari síðustu mánuði fyrir hverja útgáfu.

Stefán Briem eðlisfræðingur hefur sem ritstjóri 3. og 4. útgáfu Tölvuorðasafns unnið að efnisöflun, þýtt og samið skilgreiningar, undirbúið fundi og setið fundi nefndarinnar. Hann hefur einnig séð um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Nefndin og stjórn Skýrslutæknifélagsins þakka Stefáni sérstaklega vel unnin störf og ánægjulegt samstarf. Án hans framlags hefði orðið erfitt að ljúka þessu verki.

Þegar undirbúningur hófst fyrir þessa útgáfu leitaði nefndin til félagsmanna í Skýrslutæknifélaginu og annarra áhugamanna um tölvutækni um samvinnu við endurskoðun orðasafnsins. Vinnugögn nefndarinnar voru gerð aðgengileg á vefsetri nefndarinnar og áhugamenn um orðaforða tölvutækninnar hvattir til þess að koma athugasemdum á framfæri við nefndina. Ekki bárust margar athugasemdir en ýmsir munu hafa notað vinnugögnin til þess að finna heiti á hugtökum sem ekki höfðu þegar fengið íslenskt heiti. Morgunblaðið veitti aðgang að orða- og hugtakalista á vef sínum mbl.is, SKÝRR veitti aðgang að orðalista sem varð til við þýðingu á Oracle-hugbúnaði og Gísli Hjálmtýsson prófessor við Háskólann í Reykjavík lagði til orðalista um netkerfi og netþjónustu. Allir þessi orðalistar voru notaðir við endurskoðun orðasafnsins og þakkar nefndin þeim sem veittu aðgang að þeim.

Orðanefndin hefur eins og áður leitað til ýmissa sérfræðinga sem hafa veitt góð ráð og lesið yfir einstaka kafla af orðasafninu. Sérstaklega ber að geta Jóhanns Gunnarssonar og Arnalds Axfjörð sem lásu yfir kafla um tölvu- og gagnaöryggi og veittu aðgang að vinnugögnum sínum. Maríus Ólafsson las yfir kafla um orðaforða sem tengist lýðneti og veraldarvef og veitti ráð bæði um orðanotkun og skilgreiningar. Magnús Gíslason svaraði spurningum um ýmis svið tölvutækninnar eins og hann hefur gert við allar fyrri útgáfur Tölvuorðasafns. Orðanefndin þakkar þessum mönnum fyrir góða aðstoð. Einnig vill nefndin þakka þeim fjölmörgu sem hafa hringt eða skrifað og lagt fram fyrirspurnir um orðanotkun en þær hafa oft orðið til þess að nefndin hefur endurskoðað heiti sem þegar voru til eða fundið heiti fyrir ný hugtök.

Tölvuorðasafn hefur verið aðgengilegt í orðabanka Íslenskrar málstöðvar frá því hann var opnaður hinn 15. nóvember 1997 á veraldarvef lýðnetsins. Í fyrstu var sett inn bráðabirgðaútgáfa þriðju útgáfu Tölvuorðasafns en í febrúar 1998 endanleg gerð þriðju útgáfunnar. Eins og þegar hefur komið fram er nú unnið við að endurnýja hugbúnað orðabankans. Ráðgert er að fjórða útgáfa Tölvuorðasafns verði sett í orðabankann þegar þeirri endurskoðun er lokið.

Reykjavík í júní 2005

Sigrún Helgadóttir
formaður orðanefndar
Skýrslutæknifélags Íslands

Rit Tölvuorðanefndar

Rit Tölvuorðanefndar

1. Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. 2. útgáfa. Skrifuð sem handrit. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Skýrslutæknifélag Íslands. [Reykjavík] 1974.

2. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. [Ritstjóri: Sigrún Helgadóttir.] Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 1983.

3. Örfilmutækni. Íslensk-ensk orðaskrá með skýringum og ensk-íslensk orðaskrá. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman í samvinnu við nokkra áhugamenn. Tölvumál 1985, 10. árg., 2. tbl., bls. 7–25.

4. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 2. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Sigrún Helgadóttir. Íslensk málnefnd. Reykjavík 1986.

5. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Íslensk málnefnd. Reykjavík 1998.

6. Íslensk táknaheiti. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Íslensk málnefnd. Reykjavík 2003. (PDF)

7. Tölvuorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt. 4. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri: Stefán Briem. Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Reykjavík 2005.

8. Tölvuorðasafn. 5. útgáfa, aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Rafræn útgáfa. Tölvuorðasafnið. Reykjavík 2013. (PDF)

Tölvuorðasafn - 3. útgáfa

Rit Íslenskrar málnefndar 10

Tölvuorðasafn 3. útgáfa 1998

Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt
3. útgáfa, aukin og endurbætt

Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman
Ritstjóri: Stefán Briem

Útgefandi: Íslensk málnefnd, Reykjavík 1998

© 1998 Íslensk málnefnd

Formáli

Styrkveitendur

Inngangur

Tölvuorðasafn - 3. útgáfa - Formáli

Formáli að 3. útgáfu

Tölvuorðasafn kom fyrst út 1983, og birtust þar tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk á liðlega 700 hugtökum. Í 2. útgáfu 1986 var skilgreiningum hugtaka bætt við og safnið stækkað mjög. Hugtökin voru nær 2600 að tölu, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti nær 3400. Tölvuorðasafn birtist hér í þriðja sinn og er enn mjög aukin og endurbætt útgáfa hinnar næstu á undan. Í þessari bók eru rösklega 5000 hugtök með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum.

Stjórn Skýrslutæknifélags Íslands skipaði verkefnisstjórn sem hafði umsjón með verkinu og forgöngu um að safna fé til þess að greiða kostnað við ritstjórn. Í verkefnisstjórn sátu Douglas A. Brotchie, Heimir Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Árið 1993 veitti Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT) Skýrslutæknifélaginu styrk úr sjóði til að tryggja stöðu íslenskunnar í alþjóðlegum samskiptum á sviði upplýsingatækni og boðmiðlunar. Styrkinn skyldi nota til þess að vinna að endurskoðun Tölvuorðasafns. Málræktarsjóður og Lýðveldissjóður styrktu verkið árin 1995, 1996 og 1997. Lista yfir þessa og aðra styrkveitendur er að finna á blaðsíðu 7. Aðstandendur orðasafnsins færa öllum styrkveitendum bestu þakkir.

Frá því að Íslensk málnefnd fékk aðsetur í Aragötu 9 í Reykjavík hefur orðanefnd Skýrslutæknifélagsins haldið fundi sína þar. Íslensk málstöð tók til starfa í byrjun árs 1985 í Aragötu 9. Ritstjórn þessarar bókar hafði einnig aðsetur þar eins og ritstjórn annarrar útgáfu. Málstöðin lét í té tölvubúnað og alla aðra aðstöðu. Notað var efnisflokkunar- og skráningarkerfi málstöðvarinnar við tölvuskráningu orðasafnsins. Íslensk málnefnd er útgefandi orðasafnsins sem er 10. ritið í ritröð málnefndarinnar. Orðanefndin og Skýrslutæknifélagið færa Íslenskri málnefnd og sérstaklega Ara Páli Kristinssyni, forstöðumanni Íslenskrar málstöðvar, þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu.

Við gerð þessarar bókar hefur eins og áður verið lögð til grundvallar skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóða raftækniráðinu sem nú heitir Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Staðlaráð Íslands, sem er aðili að þessum stofnunum fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir þær á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits.

Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins hefur tekið saman efni í þessa bók eins og fyrri útgáfur orðasafnsins. Skipan orðanefndarinnar hefur verið óbreytt frá 1978. Í nefndinni eiga sæti: Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, sem er formaður nefndarinnar, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Nefndin hefur haldið fundi reglulega síðan undirbúningi að annarri útgáfu lauk, að jafnaði einu sinni í viku. Fundir urðu þó mun tíðari síðustu mánuði þessarar vinnulotu.

Haustið 1995 var Stefán Briem eðlisfræðingur ráðinn ritstjóri verksins. Hann hefur síðan unnið að efnisöflun, þýtt skilgreiningar, undirbúið fundi og setið fundi nefndarinnar. Stefán hefur einnig séð um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Nefndin og stjórn Skýrslutæknifélagsins þakka Stefáni sérstaklega vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.

Fjölmargir sérfræðingar hafa aðstoðað nefndina og ritstjórann við undirbúning þessarar útgáfu. Daði Örn Jónsson, Kristján Arnþórsson og Sigvaldi Óskar Jónsson lögðu til orðalista og annað efni. Starfsmenn Einars J. Skúlasonar hf. lögðu til orðalista fyrir gluggaumhverfi og vinnuhópur í tölvudeild Vátryggingafélags Íslands hf. lagði til skrá um hugtök í hlutbundinni hugbúnaðargerð.

Frá síðustu útgáfu hafa þessir setið fundi með nefndinni þegar fjallað hefur verið um efni sem birtist í þessari bók: Jón R. Gunnarsson, Gísli Hjaltason, Einar Reynis, Magnús Hauksson, Dröfn Hreiðarsdóttir, Magnús Gíslason, Ebba Þóra Hvannberg og Jóhanna Margrét Guðjónsdóttir. Þau Einar Reynis, Magnús Hauksson og Ebba Þóra Hvannberg lásu einnig yfir einstaka efniskafla.

Leitað var til margra sérfræðinga sem lásu yfir efniskafla eða lögðu fram efni á annan hátt. Sérstaklega ber að þakka þessum: Bergi Jónssyni, Eyþóri Arnalds, Friðriki Skúlasyni, Hjálmtý Hafsteinssyni, Jóhanni Gunnarssyni, Jóni Atla Benediktssyni, Jóni Þóroddi Jónssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Jörgen Pind, Kristni Andersen, Magnúsi Má Halldórssyni, Maríusi Ólafssyni, Oddi Benediktssyni, Páli Jenssyni, Páli Valdimarssyni, Sigurði Jónssyni, Snorra Agnarssyni, Stefáni Hrafnkelssyni, Sveini Kjartanssyni, Sven Þ. Sigurðssyni og Þorsteini Þorsteinssyni. Öllu þessu fólki eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

Hinn 15. nóvember 1997 var opnaður á veraldarvef Lýðnetsins orðabanki Íslenskrar málstöðvar. Skýrslutæknifélagið hafði þá gert samstarfssamning við Íslenska málstöð um að 3. útgáfa Tölvuorðasafns yrði í orðabankanum. Handritið, sem lá fyrir á þeim tíma, var sett í orðabankann. Nú, þegar bókin kemur út, verður það efni endurnýjað. Orðabankinn gefur færi á að birta nýtt efni fyrr en unnt er að gera í prentaðri bók. Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins hefur fullan hug á að nýta það tækifæri sem orðabankinn veitir til þess að koma nýju efni á framfæri eins hratt og kostur er.

Reykjavík í janúar 1998

Haukur Oddsson
formaður
Skýrslutæknifélags Íslands
Sigrún Helgadóttir
formaður orðanefndar
Skýrslutæknifélags Íslands