Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Hausmynd1

Raus

Frá ómunatíð hafa menn rausað um gerðir sínar og hugsanir og nú er kominn nýr miðill, lýðnet og veraldarvefur, þar sem aðrir geta fylgst með rausinu. Einhverjum hefur hugkvæmst að gefa þessu athæfi nýtt heiti og tala um blogg, að blogga og jafnvel bloggun. En er nokkur þörf á þessum nýju heitum þó að miðillinn sé nýr? Er ekki ágætt að halda áfram að rausa og leyfa öðrum að lesa rausið? Og sá sem rausar er rausari. Ef menn vilja minna á nýja miðilinn mætti kalla athæfið vefraus.

Tálmi

Væri ekki ráð að snúa á tölvuþrjótana með því að koma sér upp nettálma? Tölvunet er ekki gamalt fyrirbæri en í nútímaþjóðfélagi verður ekki þverfótað fyrir tölvunetum. Þau eru ekki ólík vegakerfi, liggja um allt og eru oftast tengd öðrum netum, ýmist sem almenn net eða einkanet, og tölvueigendur eru nú óðum að tengjast neti. Um leið hefur myndast þörf fyrir að stjórna umferð á þessu nýja rafræna leiðakerfi og verjast ágangi óboðinna gesta. Í varnarskyni er oft notaður búnaður sem kallast firewall á ensku. Upprunaleg merking þess orðs er eldfastur eða eldtraustur veggur. Menn hafa freistast til að þýða þetta enska orð orðrétt á íslensku og kalla eldvegg. En svo óheppilega vill til að íslenska orðið eldveggur er fyrir í málinu og hefur nánast gagnstæða merkingu við enska orðið, táknar svo mikinn eld að hann lítur út eins og logandi veggur. Aðrar tillögur um heiti á þessu hugtaki, svo sem netvörn, netvirki og netvari, hafa ekki hlotið miklar undirtektir.    Flestir kannast úr vegamáli eða ferðamáli við samsettu orðin farartálmi og vegartálmi. Hér er nú lagt til að þessi varnarbúnaður á tölvuneti verði kallaður nettálmi sem má stytta í tálmi þegar ekki er hætta á misskilningi. 

Netald

Ýmis tæki í innanhússtölvuneti eru tengd saman gegnum smátæki sem á ensku er kallað hub. Eldri merking þessa enska orðs er hjólnöf eða nöf. Í 3. útgáfu Tölvuorðasafns var hub þýtt með nöf. Það heiti hefur þó ekki komist í almenna notkun. Sumir nota heitið tengibox sem gæti reyndar átt við ýmislegt annað óskylt tölvuneti, auk þess sem síðari hluti þess orðs er ekki mjög íslenskulegur. Þetta tæki minnir að sumu leyti á mótald sem menn kannast við sem millitæki til að tengja t.d. heimilistölvu gegnum símalínu við lýðnetið. Orðanefnd  leggur því nú til að hub verði kallað netald. 

Dræsubúnaður

Þeir sem sækja sér hugbúnað á veraldarvefnum verða stundum fyrir því að auglýsingar taka að birtast á tölvuskjánum óumbeðið. Þetta getur verið hvimleitt en er oft það gjald sem menn greiða fyrir „ókeypis“ hugbúnað. Hugbúnaður sem ber með sér auglýsingar með þessum hætti er á ensku kallaður adware. Hér er lagt til að á íslensku verði slíkur hugbúnaður kallaður dræsubúnaður.
 

Slitrun og heilun

Það ástand á diski að skrár eru í mörgum hlutum eða eyður eru á milli skráa kallast á ensku fragmentation. Hér er nú lagt til að þetta ástand verði kallað slitrun á íslensku (er tvístur í 3. útg. Tölvuorðasafns). Tala má um að diskur slitrist eða að hann sé slitraður og einnig má tala um slitraðar skrár. Diskurinn nýtist hins vegar betur ef skrárnar eru í heilu samfelldu lagi á diskinum. Unnt er að sjá til þess að svo verði með aðgerð sem á ensku kallast defragmentation. Hér er nú er lagt til að þessi aðgerð verði kölluð heilun á íslensku (er samstykkjun í 3. útg. Tölvuorðasafns). Þá má tala um að heila diskinn og að diskurinn sé heilaður. 

Kippuskrá

Til þess að auðvelda flutning skráa milli tölva eða vegna öryggisafritunar er stundum notuð sú aðferð að pakka mörgum samstæðum skrám í eina skrá. Um leið eru skrárnar oft þjappaðar og í pakkanum fylgja með upplýsingar um skrárnar . Þessi eina skrá er síðan skráð á geymslumiðil eða flutt í aðra tölvu þar sem henni er pakkað upp og upphaflegar skrár þannig endurheimtar. Á ensku er skrá af þessu tagi kölluð archive format file, archive file eða einfaldlega archive. Hér er lagt til að slík skrá sé kölluð kippuskrá á íslensku. Heitið er fengið af líkindum við fuglakippu og lyklakippu, því að í kippuskrá er skráakippa.

Kippuskrár eru til með ýmsu sniði sem minnt er á í nafnauka skránna og geta þær borið íslensk heiti eftir nafnaukanum. Dæmi eru zip file sem hefur nafnaukann .zip og kallast því zip-skrá; cabinet file, cab file sem hefur nafnaukann .cab og kallast því cab-skrá; tar file sem hefur nafnaukann .tar og kallast tar-skrá á íslensku.

Rásasmit

Í rafmagnstækni er alþekkt að óæskileg merki geta borist á milli tveggja rafrása sem liggja hlið við hlið. Þetta fyrirbæri er kallað crosstalk á ensku og gefur heitið til kynna að það hafi orðið til í símamáli. Séu rásirnar símalínur er þetta fyrirbæri stundum kallað milliheyrsla á íslensku. Fyrirbærið er hins vegar alls ekki takmarkað við að talmerki berist á milli rafrásanna. Því hefur í Tölvuorðasafni verið lagt til að crosstalk sé kallað rásasmit á íslensku.

Greint er á milli þess hvort rásasmitið er við þann enda sem fjarst er sendistað merkis eða næst honum. Lagt er til að far-end crosstalk verði kallað fjarendasmit og near-end crosstalk verði kallað nærendasmit.

Minnisberi

Ör þróun er nú í gerð lítilla aflangra gagnamiðla, sem eru sérstaklega ætlaðir til að bera mikið magn stafrænna gagna á milli stafrænna tækja, svo sem tölva og stafrænna myndavéla. Gerð þessara gagnamiðla byggist á samrásum og þeim er stungið í samband við tölvu í USB-tengi hennar. Á ensku er algengasta heitið á þessum miðli memory stick. En einnig hafa verið notuð heitin pen drive og sjaldnar memory bar. Þessi þrjú ensku heiti skírskota öll til aflangrar lögunar miðilsins. Hér er lagt til að á íslensku verði þessi miðill kallaður minnisberi og er þá tekið mið af hlutverki hans frekar en lögun. Ef til vill koma heitin stautur eða minnisstautur til greina ef menn vilja heldur vísa til lögunarinnar en hún er fallvölt eins og svo margt í heimi nýjunganna.

 

Dílar og deplar

Í stafrænni myndvinnslu er algengt að lýsa flatri mynd með því að hugsa sér hana skipta upp í fjölmarga rétthyrnda reiti, sem kallast dílar og hafa hver um sig tiltekinn lit og tiltekinn styrkleika. Til þess að lýsa skerpu myndar er oft tilgreindur fjöldi díla á lengdareiningu. Minnt er á dílana hér og nú vegna þess að ennþá ber nokkuð á því að enska orðið pixel, sem er stytting á picture element, (eða afbakaða myndin pixill) rati inn í íslenskar auglýsingar um stafrænar myndavélar, skanna og annan tölvubúnað í stað þess ágæta orðs díll.

Varast ber að rugla saman dílum og deplum. Depill er jafngildi enska heitisins dot. Þegar til dæmis litaprentari prentar stafræna mynd getur hann þurft að prenta marga depla fyrir hvern díl myndarinnar til að mannsaugað skynji réttan lit og birtu á prentuðu myndinni. Til þess að lýsa því hversu fíngerðri prentaðri mynd ákveðinn tölvuprentari getur skilað er oft tilgreindur fjöldi depla á lengdareiningu.

Vélvera

Eitt af hugarfóstrum nútímamannsins er að í framtíðinni, jafnvel náinni framtíð verði á ferli alls kyns blendingar lifandi veru og vélar. Enska heitið á þessu fyrirbæri er cyborg, myndað af ‘cybernetic organism’, og hér er lagt til að það verði kallað vélvera á íslensku.

Ýmsar skilgreiningar eru til á vélveru þar sem lífræni þátturinn og vélræni þátturinn gegna mismunandi stóru hlutverki. Samkvæmt sumum skilgreiningum eru vélverur nú þegar á meðal vor, t.d. maður með gangráð og maður með gervifót. En samkvæmt öðrum skilgreiningum eiga vélverur einungis heima í framtíðinni og minna á vísindaskáldsögur.