Nýyrðasamkeppnin

Alls bárust úrlausnir frá 1763 nemendum í 82 skólum (af 176 á öllu landinu) um allt land.  Árið 2007 voru ríflega 13.000 nemendur í  5.–7. bekk í grunnskólum landsins og lætur því nærri að ríflega 13% nemenda hafi skilað úrlausn. Vinna við yfirferð úrlausna reyndist tímafrekari en gert var ráð fyrir í upphafi.  Í upphafi var gert ráð fyrir að veita þrenn verðlaun. Undirbúningshópurinn hefur nú ákveðið að veita í staðinn 8 viðurkenningar. Einn nemandi fær myndavél og bók og 7 aðrir fá eina bók hver.
Markmið samkeppninnar var að vekja athygli á því að unnt er að nota íslensk orð þar sem oft eru notuð erlend orð eða slettur.  Aðstandendur keppninnar telja að það markmið hafi náðst. Ýmsar góðar tillögur komu fram en fæstar má telja mjög frumlegar enda er ekki unnt að ætlast til þess af þessum aldurshópi. 
Það kemur ekki á óvart að rúmlega 50% nemenda leggja til orðið blandari fyrir mixer.  Nefndin vill sérstaklega vekja athygli á orðunum fjaðurdúkur, stökkdúkur og hoppa fyrir trampolin, orkuþeytingur, þeytingur og orkuskot fyrir boost, lófaspilari og dvergspilari fyrir Mp3, skjóla, hárstrokkur, höfuðstrokkur og strokkur  fyrir buff og leggjabuxur og leggjur fyrir leggings. Flest þessara orða hafa verið notuð áður en ekki er víst að nemendunum hafi verið kunnugt um þau. Enginn nemandi hafði fleiri en tvær af þessum tillögum á úrlausnarblaði sínu. Reynt var að velja úrlausnir þar sem einhver af þessum tillögum kom fyrir og aðrar tillögur þóttu nýtilegar og úrlausnin að öðru leyti þokkalega unnin. Flestar tillögurnar sem hér eru nefndar komu fyrir á mörgum úrlausnum. Undantekningar eru orðin skjóla fyrir buff og dvergspilari fyrir Mp3 en aðeins einn nemandi nefndi hvort orð.
Eftir nokkra umhugsun var ákveðið að veita 1. verðlaun fyrir tillögu um orðið skjóla fyrir buff.  Orðið skjóla er að vísu haft um ‚fötu‘ en í orðinu felst að það geti verið haft um eitthvað sem ‚veitir skjól‘ og þetta fat gerir það svo sannarlega. Annað orð fyrir buff, strokkur, sem kom ríflega 26 sinnum fyrir, er einnig notað um ílát til þess að strokka í rjóma.
Ákveðið var að veita 7 öðrum nemendum viðurkenningar og fá þeir hver eina bók.
Þessar bækur verða veittar sem viðurkenningar:
Íslensk orðabók, fjórða útgáfa. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda útgáfa hf., Reykjavík 2007.
Íslensk samheitaorðabók. Ritstjóri Svavar Sigmundsson. Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur. Háskóli Íslands. Reykjavík 2005.
Tölvuorðasafn, 4. útgáfa aukin og endurbætt. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Ritstjóri Stefán Briem. Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Reykjavík 2005.

Þessir nemendur fá viðurkenningar:
Gréta María Halldórsdóttir 5. bekk í Varmahlíðarskóla (1. verðlaun)
Sigfinnur Andri Marinósson 5. bekk í Varmahlíðarskóla
Halldór Kári Kristmundsson 5. X í Kópavogsskóla
Halla Hauksdóttir 6-G í Hvassaleitisskóla
Annalísa Hermannsdóttir 6. LK í Hofsstaðaskóla
María Lilja Harðardóttir 7- AE í Ártúnsskóla
Guðrún Eiríksdóttir 7-AE í Ártúnsskóla
Victoría Kristín Geirsdóttir 7. bekk í Patreksskóla (Grunnskóla Vesturbyggðar)

Bækur verða sendar til skólanna á næstu dögum.
Hópurinn sem vann að undirbúningi og úrvinnslu keppninnar vill þakka öllum sem veittu aðstoð við undirbúning. Sérstaklega ber að þakka Námsgagnastofnun sem sá um gerð og prentun veggspjalda og efnis sem fór á vef stofnunarinnar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum lagði til vinnu starfsmanna sinna við undirbúning og úrvinnslu. Einnig ber að þakka Skýrslutæknifélagi Íslands, styrktarsjóði Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur og Forlaginu fyrir að leggja til viðurkenningarbækur og menntamálaráðuneytinu fyrir að styrkja verkefnið. Að lokum er vert að þakka þeim sem tóku þátt í gerð veggspjalds með íslenskum tölvuorðum.
Greinargerð um keppnina verður birt bráðlega á vef þeirra stofnana sem stóðu að samkeppninni.

15.01.2009

Ský - Skýrslutæknifélag Íslands (The Icelandic Computer Society)
480870-0189 | Engjateigi 9 | 105 Reykjavík | 553 2460 | sky@sky.is