Af hverju sækja stúlkur ekki í UT tengt nám?

Þrátt fyrir að fjöldi rannsókna sýni hversu mikilvæg undirstaða upplýsingatækni er fyrir samfélög stendur það enn að skortur er á upplýsingatæknimenntuðu fólki, a.m.k. í Evrópu. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar litið er til þess að UT er bæði undirstaða tækniframfara og forsenda samkeppnishæfni ríkja.

Þegar litið er á hlutfall kynjanna í greininni verður þetta vandamál enn stærra og furðulegra, en skv. rannsókn sem unnin var fyrir European Schoolnet af Agueda Gras-Velazquez, Alexa Joyce and Maïté Debry eru færri en 20% tölvunarfræðinga á Evrópusambandssvæðinu konur.

 Hér eru nokkrar niðurstöður þessarar könnunar:

  • Stúlkur á framhaldsskólastigi eru svipaðar strákum í getu í UT tengdum fögum.
  • Flestar stúlkur höfðu gaman af upplýsingatækni í skóla en það leiddi ekki til að þær kysu UT tengt nám eða starf.
  • Kvenkyns fyrirmyndir höfðu mikil áhrif á stúlkur þegar þær völdu áframhaldandi nám/starfsvettvang.
  • Þær fyrirmyndir sem voru nefnar voru ekki „tækninördar“ – samt voru flestar mæður jákvæðar gagnvart UT.
  • Í þeim löndum sem mæðurnar voru jákvæðastar voru dæturnar líka jákvæðari.
  • Bæði nemendur og fyrirmyndir telja almennt að tæknigreinar henti karlmönnum betur en konum.
  • Hvorki stúlkur né fyrirmyndir þeirra sáu UT tengd störf bjóða þeim tækifæri til að ferðast, hjálpa öðrum né starfa sjálfstætt.
  • Þegar störf í upplýsingatækni eru skoðuð kemur hins vegar í ljós mikið misræmi er á milli þessarar ímyndar og þess sem störfin raunverulega bjóða upp á.
  • Þetta gefur til kynna að bæði foreldrar og kennarar hafi litla hugmynd um hvað störf í UT fela í sér.

Með Utmessunni 2011 er stigið skref í þá átt að breyta viðhorfum til starfa í UT á Íslandi og sýna bæði foreldrum og nemendum (kvenkyns og karlkyns) að störf tengd upplýsingatækni eru bæði fjölbreytt og skemmtileg. 
 
Þórhildur H. Jetzek, Skýrr

 

Ský - Skýrslutæknifélag Íslands (The Icelandic Computer Society)
480870-0189 | Engjateigi 9 | 105 Reykjavík | 553 2460 | sky@sky.is