Jón Þór Þórhallsson
Dr. Jón Þór Þórhallsson, fæddur 21.06.1939
Jón Þór var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands árið 2008. Hann fór til náms í Þýskalandi árið 1959, fyrst við Tækniháskólann í Karlsruhe en síðan við Háskólann í Gießen í Hessen þar sem hann hlaut doktorsgráðu í fræðilegri eðlisfræði og útskrifaðist með láði árið 1967.
Á árunum 1969-1974 starfaði Jón Þór sem prófessor við Red Deer College
í Alberta í Kanada. Þar stundaði hann rannsóknir og kennslu í
eðlisfræði, stærðfræði og tölvunarfræði ásamt því að vera forstöðumaður
tölvuþjónustudeildar háskólans. Árið 1974 kom Jón Þór aftur heim til
Íslands og varð forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans. Því starfi
gegndi hann til 1977 þegar hann varð forstjóri Skýrr hf. Jón Þór var
forstjóri Skýrr í 20 ár, allt til ársins 1997 og samhliða því starfi
var hann einnig dósent við Háskóla Íslands og kenndi upplýsingatækni í
Viðskipta- og hagfræðideild HÍ á árunum 1974-1997.
Árið 1997 stofnaði Jón Þór fyrirtækið European Consulting Partners á
Íslandi ehf. og hefur verið framkvæmdastjóri þess síðan. Á vegum þess
fyrirtækis leiðir Jón Þór alþjóðlegan samstarfsvettvang
ráðgjafafyrirtækja sem sérhæfa sig í viðskiptaþróun hjá
sprotafyrirtækjum og notkun á upplýsingatækni hjá hinu opinbera. Jón
Þór hefur síðan stofnað fleiri fyrirtæki, eða fyrirtækjaklasa, í
Eystrasaltslöndunum. Má þar nefna SIA KSG (Knowledge Solution Group) í
Lettlandi, þar sem hann er stjórnarformaður, og SIA Hospital Organiser,
einnig í Lettlandi, þar sem hann er framkvæmdastjóri.
Undanfarin 10 ár hefur Jón Þór aflað sér mjög sértækrar reynslu í
Eystrasaltslöndunum. Þar hefur hann nýtt þá þekkingu og reynslu sem
hann býr yfir og verið vikur þátttakandi í mikilli uppbyggingu þessara
þjóða. Í Eistlandi hefur hann starfað sem ráðgjafi fyrir
fjármálaráðuneyti Eistlands og unnið að mörgum
fjármálastjórnunarverkefnum og stefnumótun á sviði fjármálastjórnunar.
Jón Þór hefur verið ráðgjafi hjá Þýsku Þróunarsamvinnustofnuninni og
unnið þar að gerð fjárhagsáætlana fyrir EU Phare. Hann var
stjórnarmaður í EISDATA Ltd. 1996-1997. Í Lettland hefur Jón Þór
starfað sem ráðgjafi við stefnumótun sveitarfélaga á sviði
upplýsingatækni. Hann var stjórnarmaður í undirbúningsstjórn LISDATA
Ltd, 1996-1997. Einnig er hann sem fyrr segir stofnandi og forstjóri
KSG frá 2003, og framkvæmdastjóri SIA Hospital Organiser frá 2006. Í
Rússland hefur Jón Þór starfað sem ráðgjafi á sviði upplýsingatækni og
fiskveiðistjórnunar. Hann hefur einnig verið ráðgjafi rafmagnsveitunnar
í Moskvu.
Jón Þór var formaður Skýrslutæknifélagsins frá 1979-1982. Í gögnum
félagsins má finna upplýsingar um að hann hafi stýrt undirbúningi
ráðstefnu í samvinnu við Skýrslutæknifélögin í Danmörku, Finnlandi,
Noregi og Svíþjóð, eða Nordisk Data-union sem haldin var 1982 undir
yfirskriftinni “datadagur 82”. Á formannsárum Jóns Þórs, árið 1981,
hélt félagið fund um örtölvutækni, þar sem spurt var: “Hvað er
örtölva?”. Á svipuðum tíma var skipuð táknstaðlanefnd, til að
endurskoða tillögur að stöðlum um 7 og 8 bita gagnaskráningarkódana.
Félagið hélt einnig námstefnu um skrifstofu framtíðarinnar í samvinnu
við Stjórnunarfélag Íslands árið 1981, og sýningu á skrifstofutækjum
framtíðarnnar haustið 1981. Þá sýningu sóttu hátt á annað hundrað
manns. Fleira má nefna úr félagsstarfinu þessi ár. Starfshópur var
myndaður um stöðlun samninga fyrir kaupleigu
og viðhald á tölvubúnaði.
Tillögur starfshópsins voru síðan birtar í Tölvumálum árið 1980. Enn má
nefna kynningarfundi sem haldnir voru árin 1979 og 1980 um endurskoðun
tölvukerfa, samtengingu tölva í net og flutning gagna með símalínum
milli þeirra. Hér er þó aðeins fátt eitt nefnt.
Jón Þór hefur gegnt lykilhlutverki í mörgum fagfélögum í gegnum tíðina
bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur verið fulltrúi Íslands í störfum
ýmissa félaga á alþjóðlegum vettvangi. Sem dæmi má nefna að hann var
fulltrúi Íslands í stjórnum félaganna IMPACT II og EU INFO 2000,
varaformaður nefndar um upplýsingasamfélagið, stjórnarmaður í Rannís,
fulltrúi Íslands í ráðgjafarnefnd ESB um opinber útboð og
stjórnarformaður í ráðgjafanefnd dómsmálaráðuneytis um rafrænar
kosningar. Starfsferill Jón Þórs hefur verið farsæll og hefur hann
komið víða við í störfum sínum. Í gegnum árin hafa fjölmargar greinar
birst eftir hann, bæði í innlendum og alþjóðlegum tímaritum um
upplýsingatækni.