Skip to main content

Sigurjón Pétursson

Sigurjón PéturssonSigurjón Pétursson
Fæddur 22. júní 1950

Sigurjón var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi félagsins 5. febrúar 2008.

Hann hefur verið framkvæmdastjóri Landsteina Strengs hf. frá árinu 2004. Hann var framkvæmdastjóri Verk-og kerfisfræðistofunnar hf. (VKS) og í framkvæmdastjórn Kögunar 2000-2006. Hann var einnig framkvæmdastjóri Stjórnunardeildar Skýrr hf. 1996-2000. Hann hefur mjög mikla reynslu í sameiningu fyrirtækja og endurskipulagningar rekstrar en hann á 10 slík verkefni að baki.

Sigurjón hefur starfað sem:
  • Stundakennari við HÍ í Upplýsingatækni III á 3. og 4. ári í Viðskipta- og hagfræðideild 1996-1998.
  • Framkvæmdastjóri markaðs- og samningamála Fjarhönnunar ehf. 1995-1996.
  • Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjóvá-Almennra trygginga hf. frá stofnun félagsins 1989-1995.
  • Aðalfulltrúi Sjóvátryggingafélags Íslands hf. í öllum undirbúningi og skipulagsvinnu vegna sameiningar Sjóvá og Almennra trygginga hf. Einnig hafði hann yfirumsjón með sameiningu rekstrar Ábyrgðar og Sjóvá-Almennra.
  • Framkvæmdastjóri Sameinaða líftryggingafélagsins hf. frá 1985-1995. 
  • Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjóvátryggingafélags Íslands hf. 1984-1989.
  • Starfsmanna- og skipulagsstjóri Sjóvátryggingafélags Íslands hf. 1977-1984.
  • Leiðsögumaður og frönsku túlkur hjá Ferðaskrifstofu Úlfars Jacobsen 1971-1973.

Sigurjón Pétursson kom fyrst inn í stjórn Skýrslutæknifélagsins árið 1979 og sat í ritstjórn Tölvumála frá september það sama ár til janúar 1983. Hann var formaður félagsins á árunum 1983 til 1987. Ýmislegt skemmtilegt og fróðlegt gerðist á þeim árum sem Sigurjón var formaður.

Útgáfa fyrsta Tölvuorðasafnsins í bókarformi árið 1983 og það var fyrsta bókin sem var unnin algjörlega í tölvu og send síðan í prentsmiðju þar sem hún var prentuð út. Félagið eignaðist í fyrsta sinn opna skrifstofu og fastan starfsmann hana Kolbrúnu Þórhallsdóttur.  Skrifstofan var að Suðurlandsbraut 4. Haldnar voru miklar ráðstefnur og sýningar á tölvum og tölvutækni m.a. í húsnæði Húsgagnahallarinnar. Hafið var mikið og öflugt samstarf með skýrslutæknifélögum á hinum Norðurlöndunum.  Sóttir voru m.a. ársfjórðungslega fundir í því sambandi. Tölvumál komst á annað þroskastig í nóvember 1982 (nánar tiltekið 8.tbl. 7. árgangur) með því að koma út reglulega innbundið en var áður frekar í lausblaðaformi.

Sigurjón hefur sinnt öðrum margvíslegum félagsstörfum. Hann var fomaður Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga 1990-1995, formaður tækninefndar íslensku bílatryggingafélaganna 1988-1995, formaður skólanefndar Tryggingaskólans 1990-1995, formaður Landssambands íslenskra vélsleðamanna 1986-1988, stjórnarformaður Korts hf. 1999-2000, formaður sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju frá 1996 og varaformaður Handknattleikssambands Íslands frá 1996.