Skip to main content

Örn S. Kaldalóns

Örn KaldalónsÖrn S. Kaldalóns
Fæddur 30. ágúst 1945

Örn var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands 9. febrúar 2006.

Örn Kaldalóns hefur starfað við tölvu- og upplýsingatækni alla sína starfsævi. Hann hóf störf mjög ungur hjá Ottó Michelsen og starfaði við fyrirtæki Ottós og arftaka þess, þ.e. IBM á Íslandi frá 1967 og Nýherja frá 1992 til ársins 2004. Fyrstu skref Arnar í forritun voru við fyrirrennara tölvanna eða skýrslugerðarvélar sem voru líka kallaðar "Unit Record" vélar en hann lærði að forrita þær. Þessar vélar unnu úr gögnum á gataspjöldum. Þær voru forritaðar með tengingum. Örn vann við þessar vélar hjá fyrirtæki Ottós, Skýrsluvinnslu Ottós Michelsen. Örn tók síðan próf sem IBM kerfisfræðingur frá IBM Education Center í London 1974. Hann vann eftir það sem kerfisfræðingur hjá IBM á Íslandi og síðar Nýherja til ársloka 2004.

Örn vann við margvísleg verkefni hjá þessum fyrirtækjum. Má m.a. nefna að hann var sérfræðingur í IBM System/3x vélum og forritari hjá IBM á Íslandi til 1982. Á árunum 1982–1983 vann Örn hjá IBM í Kanada og vann þar við kerfisprófanir á Ritvangi (DisplayWriter). Í Kanada tók Örn einnig saman íslenska stafatöflu (CECP 871) sem enn er í notkun á Íslandi í öllum miðlungs- og stórtölvum IBM.

Örn var yfirmaður Þýðingastöðvar Orðabókar Háskólans og IBM og sá um íslenskar málkröfur fyrir IBM á Íslandi 1984–1992.

Örn vann hjá Nýherja 1992 til 2004 sem leiðbeinandi og stjórnaði miðlægu tölvukerfi fyrirtækisins. Hann var einnig fulltrúi gagnvart IBM vegna íslenskra þýðinga og málkrafna en það var verkefni sem hann hafði sinnt fyrir IBM á Íslandi. Á þessum árum var Örn einnig sérfræðingur í Talsjá og EDI-samskiptum. Örn starfar nú sem framkvæmdastjóri ICEPRO-nefndarinnar.

web orn

Örn hefur sinnt margvíslegum félagsstörfum. Hann hefur verið í stjórn Fagráðs í upplýsingatækni frá 1994, varamaður í stjórn ICEPRO frá 1998, trúnaðarmaður VR hjá Nýherja 2001-2004 og í stjórn öldungadeildar Skýrslutæknifélagsins frá 2004.

Síðast en ekki síst hefur Örn verið í Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins frá 1978, í meira en aldarfjórðung. Og það eru störf Arnar á vettvangi orðanefndarinnar sem stjórn félagsins vill þakka og heiðra hann fyrir. Allan þann tíma sem Örn hefur starfað með nefndinni hefur hann verið tæknilegur sérfræðingur nefndarinnar og tengiliður hennar við þá sem sinna daglegu amstri við tölvu- og upplýsingatækni. Auk þess að starfa með orðanefndinni hefur Örn  lagt mikið af mörkum til þess að efla veg íslenskrar tungu í tölvu- og upplýsingatækni þar sem hann hafði nánast óslitið frá 1984–2004 umsjón með þýðingastarfsemi IBM á Íslandi og var fulltrúi gagnvart IBM vegna íslenskra þýðinga og málkrafna. Óhætt er að segja að vegna starfa sinna á þeim vettvangi hafi Örn átt stóran þátt í gerð forstaðals um íslenskar kröfur í upplýsingatækni. Örn var síðan formaður tækninefndar sem endurskoðaði forstaðalinn sem var gefinn út árið 2004 sem íslenskur staðall ÍST 130 Upplýsingatækni – íslenskar kröfur. Í þessum staðli er m.a. kveðið á um hvernig skuli rita dagsetningar og raða íslenskum orðum í stafrófsröð. Örn átti einnig drjúgan þátt í því að tryggja stöðu íslensku í tölvutækninni. Nú eru allir séríslensku stafirnir í hinum veigamikla alþjóðlega staðli ISO 8859. Sá staðall er forsenda þess að við getum notað íslensku í tölvutækni. Örn mun hafa starfað með Jóhanni Gunnarssyni að því máli en þeir nutu aðstoðar Willy Bohn, staðlasérfræðings hjá IBM í Þýskalandi. Örn tók einnig þátt í starfi tækninefndar sem endurskoðaði staðal um íslensk hnappaborð en sá staðall, ÍST 125 Lyklaborð kom út árið 1995.