Skip to main content

Baldur Jónsson

Baldur Jónsson, prófessor
Fæddur 20. janúar 1930
Dáinn 28. júní 2009

Baldur var gerður að heiðursfélaga Skýrslutæknifélags Íslands á aðalfundi félagsins 31. janúar 1997.

Hann var forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar frá árinu 1985 til 1999 og jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í Háskóla Íslands en hafði þá reyndar verið háskólakennari allt frá því um 1960. Baldur var formaður Íslenskrar málnefndar 1978 til 1988. Einnig má geta þess að hann stjórnaði fyrstu máltölvunarrannsóknum hér á landi 1973 til 1980, Baldur var kjörinn í Vísindafélag Íslendinga 1974 og sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1991. Baldur átti sæti í orðanefnd Skýrslutæknifélagsins í rúm tuttugu ár frá árinu 1976.

Baldur tók stúdentspróf frá MA 1949 og lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla íslands 1958. Hann stundaði nám í germönskum málvísindum í University of Michigan í Ann Arbor, Bandaríkjunum 1959. Baldur sótti máltölvunarnámskeið í Svíþjóð 1972, Noregi 1973 og Danmörku 1974, enn fremur alþjóðlegan sumarskóla í máltölvun í Pisa á Ítalíu 1972.

Hann var lektor í íslensku og íslenskum bókmenntum í háskólunum í Gautaborg og Lundi 1960 til 1963, sérfræðingur á Orðabók Háskólans 1963-1965, lektor í HÍ 1965-1977 og dósent 1977-1984. Baldur var forstöðumaður íslenskrar málstöðvar og prófessor í íslenskri málfræði við HÍ frá 1985.

Auk fastra starfa sinnti Baldur margvíslegum aukastörfum og félagsstörfum. Má þar m.a. nefna að hann var málfarslegur ráðunautur á fréttastofu Ríkisútvarpsins 1970 til 1984, stóð fyrir námskeiði máltölvunarsérfræðinga á vegum Norrænu rannsóknarnámskeiðanna og HÍ sumarið 1981, sat í ráðgjafarnefnd Reiknistofu Raunvísindastofnunar HÍ 1973 til 1976, var formaður Íslenskrar málnefndar 1978 til 1988, sat í stjórnarnefnd Nordterm, samtaka norrænna íðorðastofnana, 1986 til 1990 og var í nefnd skipaðri af samgönguráðherra til að undirbúa útgáfu nýyrðasafns úr flugmáli frá 1987 til 1992. Þá var Baldur í fulltrúaráði Association for Literary and Linguistic Computing 1975 til 1985. Stjórnarformaður Málræktarsjóðs var hann frá 1991 - 1994. Einnig má geta þess að hann stjórnaði fyrstu máltölvunarrannsóknum hér á landi 1973 til 1980. Baldur var kjörinn í Vísindafélag Islendinga 1974 og sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1991.

Meðal ritstarfa Baldurs má nefna Tíðni orða í Hreiðrinu, Tilraunaverkefni í máltölvun, 1975, Mályrkju Guðmundar Finnbogasonar, 1976, og Orðstöðulykil að Hreiðrinu 1978.

Orðanefnd hefur starfað á vegum Skýrslutæknifélagsins frá því fljótlega eftir stofnun þess árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta orðaskrá. Árið 1983 sendi orðanefndin frá sér fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns, sem jafnframt var fyrsta ritið í ritröð  Íslenskrar málnefndar. Baldur átti sæti í orðanefnd Skýrslutæknifélagsins í rúm tuttugu ár frá árinu 1976.  

(https://timarit.is/page/2363938?iabr=on)

Baldur lést þann 28.06.2009 og er hér að finna minningarorð félagsins um hann.