Skip to main content
30. júní 2009

Andlát Baldur Jónsson

               baldur jonsson Baldur Jónsson, fæddur 20.01.1930, dáinn 28.06.2009

Baldur Jónsson, prófessor og málfræðingur, lést í Reykjavík 28. júní sl.
Baldur var fæddur 20. janúar 1930. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1958 með málfræði sem kjörsviðsgrein. Að loknu framhaldsnámi erlendis starfaði Baldur sem kennari og prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Baldur var frumkvöðull í máltölvunarrannsóknum (sem nú kallast tungutækni eða máltækni) hann stjórnaði fyrstu máltölvunarrannsóknum hér á landi 1973 til 1980. Baldri var mjög umhugað um málrækt og var höfundur fjölmargra nýyrða, m.a. í flugmáli, málfræði og tölvutækni. Baldur var formaður Íslenskrar málnefndar 1978–1988. Hann beitti sér fyrir stofnun Íslenskrar málstöðvar 1985 og veitti henni forstöðu og varð málstöðin skrifstofa málnefndarinnar. Baldur var aðalhvatamaður að stofnun Málræktarsjóðs 1991. Sem formaður Íslenskrar málnefndar og forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar hafði Baldur mikil áhrif á störf orðanefnda og beitti sér m.a. fyrir gerð Orðabanka Íslenskrar málstöðvar (sem nú er rekinn af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) þar sem aðgangur er að fjölmörgum íðorðasöfnun.

Það var einmitt á vettvangi íðorðafræðinnar sem Baldur kom til liðs við Skýrslutæknifélagið. Hann settist fyrst í orðanefnd félagsins árið 1976 í tíð Jóhanns Gunnarssonar sem formanns og hefur setið í orðanefndinni óslitið síðan. Orðanefndin hefur á þeim tíma sent frá sér fjórar útgáfur Tölvuorðasafns, 1983, 1986, 1998 og 2005 og hefur fjöldi orða aukist með hverri útgáfu.
Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins hefur það að markmiði að gera Íslendingum kleift að tala og rita um tölvutækni á góðri íslensku. Baldur lagði þar mikið til málanna. Hann tók mikinn þátt í að skipuleggja starf nefndarinnar og nefndin hafði fundaraðstöðu í Íslenskri málstöð lengst af. Málnefndin gaf út fyrstu þrjár útgáfur Tölvuorðasafnsins í ritröð sinni. Baldur lagði nefndinni til af óþrjótandi nægtabrunni þekkingar sinnar á íslensku máli. Hann áttaði sig á sköpunarkrafti málsins og aldrei var gefist upp þótt sum viðfangsefnin virtust óviðráðanleg. Tölvumálið liti töluvert öðru vísi út ef hans hefði ekki notið við. Hugkvæmni hans og smekkvísi var við brugðið og andi hans svífur yfir öllu efni sem nefndin sendi frá sér.

Baldur var gerður að heiðursfélaga Skýrslutæknifélags Íslands á aðalfundi félagsins í janúar 1997. Hann var kjörinn í Vísindafélag Íslendinga 1974 og sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1991.

Félagar Baldurs í orðanefndinni, Sigrún Helgadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns, sakna sárt góðs samstarfsmanns og ekki síður góðs vinar.
Við höfum nú unnið saman óslitið frá árinu 1978 aldrei hefur fallið skuggi á það góða samstarf.

Félagið sendir eftirlifandi eiginkonu Baldurs, Guðrúnu Stefánsdóttur, og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Baldurs Jónssonar.

Fh Orðanefndar Ský
Sigrún Helgadóttir

Skoðað: 5786 sinnum