Skip to main content

Anna Kristjánsdóttir

Anna Kristjánsdóttir var gerð að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 28. febrúar 2013.

 AdalSky21   AdalSky23  

AdalSky19

Fyrstu kynni af upplýsingatækni

Anna Kristjánsdóttir hefur átt nána samleið með upplýsingatækni í nær 50 ár án þess að hafa
starfað við venjuleg skilgreind störf á þeim vettvangi. Hún lauk bakkalár gráðu frá Háskóla
Íslands í stærðfræði og sagnfræði ásamt uppeldisfræðum til kennslu. Kynni hennar af notkun
tölva tengdust námi hennar í stærðfræði og voru á fyrsta námskeiði Odds Benediktssonar fyrir
verkfræðinema veturinn 1965-1966 en þar var kennt forritunarmálið Fortran auk nokkurrar
umfjöllunar um þróun tölvubúnaðar. Vandalítið þótti henni að sjá gagnsemi tölvutækninnar
fyrir verkfræðinga en efnið vera síður brýnt fyrir eigin áhugasvið, sem voru kennsla unglinga
– einkum í stærðfræði. 

Framhaldsnám erlends og breytt sýn
Í framhaldsnámi til candidat-gráðu, nokkrum árum síðar í Kaupmannahöfn, breyttist sýn
hennar er hún lærði eitt fyrsta forritunarmálið sem var skiljanlegra fyrir almenning en Fortran.
Umhugsun vaknaði: „Svona mál geta allir lært - Þá á þessi þekking erindi til allra – Hún á að
hafa áhrif á allt skólanám.“ Þetta var veturinn 1970-1971 og lokaverkefni Önnu 1972 var um
áhrif tölvuvæðingar á stærðfræðinám 13-18 ára unglinga. Í skrifunum var einnig komið
nokkru almennar að námi og varpað fram spurningunni um hvar almenningur myndi fá
aðgang að tölvum, líklegast í bókasöfnum. Þá var einnig fjallað dálítið um hugsanleg áhrif á
skólastarf almennt og að tæknin myndi gefa möguleika í skólum á að fást við viðameiri,
áhugaverðari og víðtækari viðfangsefni en ella og að þau gætu gengið þvert á námsgreinar.

Aðstæður á Íslandi upp úr 1970
Er heim kom tafði tvennt að hafist væri handa en Anna tók við starfi kennsluráðgjafa og síðar
námstjórn í stærðfræði, ásamt kennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð og í menntun
kennara. Skólar höfðu ekki efni á að fjárfesta í tölvubúnaði fyrstu árin eftir 1972. Og þekking
á tölvuvæðingu, jafnvel vitund um hana, var nær engin meðal starfsmanna menntamála.

Hönnun námskeiðs og meginspurningar
Fimm árum síðar voru að koma tölvur á markað, auðveldar í meðförum og á viðráðanlegu
verði fyrir skóla. Anna Kristjánsdóttir leitaði þá samstarfs við Reiknistofnun Háskóla Íslands
og Endurmenntunardeild Kennaraháskóla Íslands um að kosta fyrsta námskeiðið fyrir
grunnskólakennara. Jón Þór Þórhallsson og síðar Páll Jensson forstöðumenn RHÍ tóku
erindinu mjög vel og einnig Rósa Þorbjarnardóttir endurmenntunarstjóri. Við hönnun
námskeiðsins hafði Anna Kristjánsdóttir þrjár spurningar að leiðarljósi: Hvernig er hægt að
eiga samskipti við tölvu? Við hvað eru tölvur notaðar í þjóðfélaginu? Hvað varða tölvur
fræðasvið mitt (hvers einstaks þátttakanda) og kennslu á þeim vettvangi? Námskeiðið 1978
var hið fyrsta nokkurra á árum sem í hönd fóru. Þar tóku fyrst þátt kennarar unglingastigsins
en brátt einnig barnakennarar. Vart varð vissrar tortryggni meðal háskólakennara en þeir töldu
„barnakennara“ ekki eiga erindi á tölvunámskeið.

Á námskeiðum 1978-1983 kom í ljós að síðasta spurningin var þátttakendum erfiðust, enda
kallaði hún á breytingar á sýn og viðhorfum kennara. Námskeiðið átti ekki erlenda fyrirmynd
og flest brautryðjendanámskeið í nágrannalöndum fjölluðu á þessum tíma aðeins um fyrstu
spurninguna, þ.e. kenndu um tækin og forritun fyrir þau.

Athygli beint að í meiri mæli að kennaramenntun og endurmenntun
Anna Kristjánsdóttir var ráðin lektor í stærðfræði við Kennaraháskóla Íslands árið 1980, síðar
dósent í stærðfræði og frá 1991 prófessor í stærðfræðimenntun. Hún hóf þegar í stað að fjalla
um notkun tölva í námi við kennaranema sem varð m.a. til þess að nemendur hennar stóðu að
opinni ráðstefnu fyrir kennaranema og grunnskólakennara í ársbyrjun 1982: „Hvað varða
tölvur grunnskólann?“ Áhugi var á þessum árum víða að vakna sem kom fram í beiðni frá
mörgum skólum um fyrirlestra fyrir kennara og stundum foreldra og einnig í ásókn fjölmiðla í
viðtöl um „tölvur í skólastarfi“.

Snemma árs 1982 tilnefndi menntamálaráðuneyti hóp undir forystu Odds Benediktssonar til
að fjalla um tölvu- og aðra tæknivæðingu í skólum. Skýrslunni „Nýja upplýsingatæknin í
skólum. Lokaskýrsla starfshóps um tölvu- og aðra tæknivæðingu í skólum.“ var skilað í
árslok. Þar kom heitið upplýsingatækni líklega fyrst fram og átti lengi á brattann að sækja. Í
skýrslunni var lögð áhersla á mikilvægi menntunar starfandi kennara og kennaranema á þessu
sviði og skrifaði Anna Kristjánsdóttir, sem átti sæti í starfshópnum, fylgirit með skýrslunni
undir heitinu: „Drög að áætlun um menntun grunnskólakennara í nýju upplýsingatækninni.“
Síðar var þetta viðfangsefni einnig tekið fyrir af sérskipuðum vinnuhópi undir forystu Jóns
Torfa Jónasonar en í honum átti Anna Kristjánsdóttir einnig sæti.

Óformlegum starfshópi var komið á innan Kennaraháskóla Íslands undir heitinu „tölvunefnd
KHÍ“. Anna veitti honum forystu en auk þess sátu endurmenntunarstjóri, aðstoðarrektor og
forystumaður sérkennslu í nefndinni. Kennaraháskólinn sótti síðla árs 1982 um fé vegna
kaupa á einföldum tölvubúnaði til kennslu. Umsóknin var til menntamálaráðuneytis, enda í
samræmi við niðurstöður starfshóps ráðuneytisins. Skýrslur starfshópa ráðuneytisins á þessum
vettvangi voru hins vegar aldrei gefnar út á vegum ráðuneytisins og erindi KHÍ alfarið hafnað.

Í ársbyrjun 1983 skilaði Anna Kristjánsdóttir greinargerð um rannsóknir til yfirmanna KHÍ.
Þar var auk stærðfræði fjallað um athuganir á nýtingu tölva í námi og mikilvægi þess að
stunda rannsóknir varðandi slík málefni. Farið var fram á að staðfest væri heimild til hennar
um að sinna slíku þótt það væri ekki skilgreint í starfsheiti hennar. Erindið var, eftir ítrekun,
samþykkt munnlega haustið 1983. Ekki liggur fyrir hve algengar rannsóknaskýrslur
háskólakennara voru á þessum tíma en ljóst er að í þessu erindi var í fyrsta sinn farið fram á
að rannsóknir á þessu sviði væru metnar fullgildar og að það yrði talið mikilvægt fyrir
skólastarf að fræðimenn innan kennaramenntunar kæmu að þeim og miðluðu afrakstri af þeim
svo og úrvinnslu erlendra heimilda til kennara, kennaranema og almennings.

Tengsl Íslendinga og samstarf við erlend samtök og fleiri aðila 1983-1989
Ljóst var orðið, er hér var komið, að innan forystu Skýrslutæknifélags Íslands var bæði
skilningur og óvenjumikill áhugi á upplýsingatækni í námi og hlutverki hennar við nýbreytni
og þróun. Félagið átti samstarf við önnur Norðurlönd um Nordisk Data Union (NDU) og var
ráðstefnan „EDB og skolepolitik“ haldin hér á landi haustið 1983, fyrst slíkra fjölþjóðlegra
ráðstefna hér á landi. Þar mættust til viðræðna stjórnmálaforysta, sérfræðingar í tölvufræðum
og forystumenn skólamanna landanna allra. Anna Kristjánsdóttir átti sæti í undirbúningi
Skýrslutæknifélags og menntamálaráðuneytis. Vegna veikinda formanns dagskrárnefndar
kom það í hennar hlut að stjórna ráðstefnunni.

Í kjölfar ráðstefnunnar bárust Önnu og Yngva Péturssyni boð um að sækja ráðstefnu í
Bretlandi 1984 um kennaramenntun varðandi upplýsingatækni. Ráðstefnan var haldin af
International Federation for Information Processing – IFIP en það eru elstu heildarsamtök um
upplýsingatækni í víðasta skilningi, óbundin stjórnmálaöflum og sköpuðu þau á tímum kalda
stríðsins iðulega mikilvægan vettvang umræðu fagfólks frá bæði austri og vestri. Stofnað var
til þessara samtaka fyrir tilstuðlan UNESCO árið 1960.

Meginstarf IFIP er fólgið í starfi vinnuhópa og afmörkuðum vinnuráðstefnum sérfræðinga. En
einnig hefur IFIP haldið reglulega stærri ráðstefnur á ýmsum sviðum t.d. World Conference
on Computers in Education – WCCE. Ráðstefnan 1984 var á vegum WG3.1 en sá vinnuhópur
fjallar einkum um upplýsingatækni sem tengist framhaldskólum.

Á fundi sínum í lok ráðstefnunnar 1984 ákvað vinnuhópurinn að bjóða Önnu Kristjánsdóttur
aðild að hópnum. Varð það til þess að stjórn Skýrslutæknifélags ákvað að sækja um formlega
aðild að IFIP en stjórnin þekkti nokkuð vel til starfsemi IFIP. Aðild var samþykkt 1986 og
Anna Kristjánsdóttir tilnefnd fulltrúi Íslands gagnvart IFIP.

Aðildin að IFIP opnaði ekki aðeins aðild að stökum ráðstefnum heldur fyrir miklu víðtækari
samskipti og samstarf við fræðimenn og skólamenn á sviði upplýsingatækni innan margra
landa. Verk frumherja í rafrænum samskiptum skóla og kennaramenntunarstofnana eins og
t.d. Evrópuverkefnið PLUTO eru eitt dæmi um samstarf sem Anna kom með kennaranemum
sínum að fyrir 1990.

Stærsta erlenda verkefnið á Íslandi var þó ráðstefnan Educational software at secondary level
in and out of school. Ráðstefnan var haldin sumarið 1989 af menntamálanefnd IFIP en í
samstarfi við Skýrslutæknifélag Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem lagði fram húsnæði.
Þátttakendur komu víða að úr heiminum og gafst íslenskum kennurum kostur á að hlýða á
suma þeirra á sérstakri dagsráðsstefnu í boði IBM. Anna Kristjánsdóttir átti hugmyndina að
þessari ráðstefnu og bar erindið upp við IFIP. Hún stjórnaði skipulagsnefnd og átti sæti í
alþjóðlegu dagskrárnefndinni. Í lok þessarar ráðstefnu var henni boðið persónulega sæti í
menntamálanefnd IFIP vegna vel unnins verkefnis. Í kjölfar þessa stakk Anna upp á
íslenskum frulltrúum í tvo vinnuhópa og störfuðu þeir um nokkurt skeið þar.

Samskipti við erlenda aðila þurfa að vera fjölþætt og gagnkvæm
Anna Kristjánsdóttir hefur stöðugt talað fyrir því að allt eins og mikilvægt sé að sækja
þekkingu til annarra þjóða og kynna hana, aðlaga og nýta við íslenskar aðstæður, sé einnig
mikilvægt að kynna öðrum þjóðum það sem á sér stað hjá okkur sjálfum. Að fjalla um
rannsóknir, nýbreytni og framvindu í eigin ranni við aðrar þjóðir.

Þar hefur aðild að IFIP einnig opnað dyr en kynningar hafa þó náð miklu víðar. Anna hefur
haldið mikinn fjölda erinda, varðandi hlutverk og skipan upplýsingatækni í námi, erlendis,
bæði á ráðstefnum og við einstaka háskóla. Hún hefur átt sæti í dagskrárnefndum fjölmargra
fjölþjóðlegra ráðstefna og birt greinar á sviði sínu í viðurkenndum tímaritum og bókum allt
frá 1985 til 2010. Þessi rit eru öll til í íslenskum bókasöfnum.

Átakið í menntun kennara á Íslandi 1982 - 1986
Haustið 1983 virtist ekkert skorta til að hefja öflugt átak á vegum Kennaraháskóla Íslands, í
menntun og endurmenntun kennara annað, annað en fjármagn til kaupa á búnaði. Þetta hafði
víða komið fram í viðtölum við fjölmiðla og varð það til að innflytjendur nýrra IBM PC tölva
buðust til að gefa stofnuninni 5 tölvur auk prentara gegn því að stofnunin gerði grein fyrir
hvaða rannsóknir gætu tengst slíkum búnaði og aðgengi hans í náminu. Erindið barst Önnu
Kristjánsdóttur og var hún beðin af forystu KHÍ að skrifa rannsóknatillögu og eiga öll
samskipti við gefanda. Jafnframt að hafa umsjón með uppbyggingu námskeiða, 
mannaráðningum og stjórnun. Stuttar lýsingar voru skrifaðar á rannsóknaverkefnum sem
starfsmenn KHÍ ættu að geta komið á þegar þeir hefðu kynnt sér málefnið í nokkrum mæli
fjölluðu um þrjú svið þar sem tölvur gætu skapað aukið afl í námi. Þau tengdust kennslu
nemenda með sérþarfir, stærðfræðinámi og námi í móðurmáli, einkum ritun.

Vorið 1984 hófst kennsla sem byggð var upp sem 30-36 stunda námskeið. Hún fór að nokkru
fram í fyrirlestrum um vélbúnað og hugbúnað, mikilvægi íslensks máls í tölvunotkun, um
félagsleg áhrif tölvuvæðingar og um erlendar rannsóknir og þróunarverkefni. Við tölvurnar
unnu 3 nemar saman enda skiptu samræður miklu máli í þeim verkefnum sem fengist var við.
Forritunarmálið LOGO opnaði leið að skilningi á möguleikum forritunar í hreyfiskipunum,
tónskipunum, orða-/orðhluta- skipunum o.fl. Þá var skoðaður breskur hugbúnaður á tölvur
sem fengnar voru að láni, en Bretar voru í fararbroddi í hugbúnaðargerð fyrir skóla á þessum
tíma og gættu þess að við gerð hugbúnaðar kæmu að mismunandi einstaklingar með góða
fagþekkingu, mikla kennarareynslu og forritunarkunnáttu auk stjórnanda hvers slíks hóps. Í
nokkrum tilvikum unnu kennaranemar við KHÍ rannsóknarverkefni í skólum varðandi
tölvunotkun, t.d. meðal mjög ungra skólabarna og meðal fatlaðra barna.

Í byrjun ársins 1986 stóð menntamálaráðuneyti fyrir fyrstu ráðstefnu opinberra aðila undir
heitinu „Tölvur og grunnskóli“. Tildrög þessa var sameinuð ósk kennaramenntunar,
fræðslustjóra og námsgagnastofnunar til menntamálaráðuneytisins um að boða til ráðstefnu til
að fjalla ítarlega um þessi mál, en ekki var þá enn komin heildstæð stefna frá yfirvöldum
menntamála.

Í skýrslunni „Tölvur og skólastarf. Menntun kennara.“ gerði Anna Kristjánsdóttir grein fyrir
hvað gert hefði verið og á hverju það byggðist. Að kennslu á námskeiðum hafði þá komið
fjöldi fagmanna en þess var gætt að þeir sem leiðbeindu í verklegu tímunum hefðu allir
menntun í upplýsingatækni og væru menntaðir kennarar fyrir grunnskóla eða framhaldsskóla.
Slíkir einstaklingar voru ekki á hverju strái en áhugi allra var mikill og samhugur um
verkefnið. Meðal kennara við þessi námskeið voru Yngvi Pétursson rektor og Guðbjörg
Sigurðardóttir heiðursfélagi Ský.

Anna Kristjánsdóttir lét af starfi forystumanns upplýsingatækni í námi haustið 1986 er ráðið
var í nýja stöðu á þessum vettvangi og Yngvi Pétursson tók við starfi lektors. Þá höfðu um
500 kennaranemar lokið 30-36 stunda námskeiði á þessu sviði og starfandi kennarar og
skólastjórar sem sótt höðu viðlíka námskeið voru á þriðja hundrað. Mat þátttakenda úr báðum
hópum sýndi bæði áhuga á málefninu og almennt ánægju með námskeiðin.

Fleiri skólastofnanir fara að sinna upplýsingatækni
Þrátt fyrir ráðstefnuna 1986 dróst heildarstefnumótun enn hjá yfirvöldum menntamála
varðandi upplýsingatækni í námi en hins vegar var farið að ráða starfsmenn í
menntamálaráðuneyti og til námsgagnastofnunar sem bjuggu að þekkingu á sviði
upplýsingatækni. Samstarfsvettvangur varð nokkur milli stofnana sem báru ábyrgð á mótun
stefnu, menntun kennara og gerð námsefnis. En mannaskipti voru nokkuð ör og gerði það
samstarf stopulla. Það var til skaða fyrir kennara sem fengu stundum misvísandi upplýsingar
og skýringar.

Skýrslutæknifélag Íslands kemur skýrar fram á sjónarsviðið
Anna Kristjánsdóttir var kjörin í stjórn Skýrslutæknifélags Íslands 1987 og var fyrsti
menntunarfræðingurinn sem tók þar sæti. Hún hafði skrifað greinar í Tölvumál, einkum um
erlend málefni og sett þau í íslenskt samhengi. Einnig hafði hún tekið saman hefti „Iceland
Computers in Educaion. Report to the European Conference on Computers in Education
(ECCE 1988)“. Í framhaldi af þeirri ráðstefnu sameinuðust íslensku þátttakendurnir í
kynningu fyrir skólamenn í Kennslumiðstöð námsgagnastofnunar, sem reyndar hafði verið
vettvangur fyrir slíkt nokkrum sinnum fyrr. Vel kom fram við þetta samstarf að það skipti
máli að vinna markvisst saman.

Það varð til þess að Anna Kristjánsdóttir leitaði stuðnings stjórnar Skýrslutæknifélagsins um
að eiga frumkvæði að íslenskri ráðstefnu „Tölvunotknun í námi“ sumarið 1991. Boðið var til
samstarfs fulltrúum frá menntamálaráðuneyti, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands,
Reiknistofnun Háskóla Íslands, 3F Félagi tölvukennara, Námsgagnastofnun, Félagi
fræðslustjóra og Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Ráðstefnan var fjölsótt og fyrsta víðtæka
tækifærið sem frumkvöðlar í hópi skólamanna fengu til að kynna hugmyndir sínar og gjörðir á
þessum vettvangi. Tölvumál birtu skrif þeirra en nær engin tímarit önnur birtu slíkar greinar.

Ráðstefnan 1991 var sú fyrsta af þremur sem Skýrslutæknifélagið átti frumkvæði að og kom
Anna Kristjánsdóttir að þeim öllum en dró sig þó í hlé er fólki fjölgaði sem hafði fram að bera
mikilvæga þekkingu og reynslu. 1996 var þriðja ráðstefnan haldin, sama árið og
stefnumótunin „Í krafti upplýsinga“ var gefin út. Björn Bjarnason menntamálaráðherra átti
frumkvæði að því verki en fékk til vinnunnar meginfrumkvöðla þessaras mála úr
menntakerfinu og viðurkenndi þar með mikilvæg brautryðjendastörf þeirra. Anna
Kristjánsdóttir kom að skrifum um menntamálin en þann hóp leiddi Guðbjörg Sigurðardóttir.

Skýrslutæknifélag Íslands átti mjög mikilsverðan þátt í þróun og eflingu upplýsingatækni í
námi á Íslandi og er erfitt að sjá hvernig mál hefðu þróast hefði ekki verið þar forysta sem
skildi mikilvægi málsins. Anna Kristjánsdóttir hefur sérstaklega beint þökkum sínum til
Halldórs Kristjánssonar en þau gegndu saman starfi formanns (HK) og varaformanns (AK).

Barnsskóm slitið en skilning á samhengi skortir ef ekki er aðgát höfð
Haustið 2001 var Anna Kristjánsdóttir beðin um að koma til starfa við háskóla í Noregi vegna
uppbyggingar doktorsnáms þar. Hún starfaði að mestu þar árin 2002-2010 og hvarf því að
mestu af sjónarsviði menntamála og upplýsingatækni á Íslandi. Hún hefur þó fylgst með
skrifum á Íslandi og verkefnum og hugleitt hvernig unnt sé að koma í veg fyrir að „hjólið sé
stöðugt fundið upp innan sömu aðstæðna“.

Anna hefur unnið úr heimildum í sögu Skýrslutæknifélags Íslands og mikli fleiri gögnum sem
varða upplýsingatækni í námi. Hún vinnur að ritun bókar sem varpar ljósi á hálfrar aldar skeið
þessara mála í íslensku samfélagi.

Anna á sæti í Öldungadeild Ský og mun taka þátt í nýjum faghópi sem stofnaður verður á
aðalfundi Ský 2013.