Displaying items by tag: Bankar

Þegar tveir áratugir voru liðnir frá upphafi tölvualdar á Íslandi má segja að tölvutæknin hafi staðið á tímamótum. Stöðlun stýrikerfa hófst og þar með framgangur risans Microsoft. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir vexti og viðgangi einkatölvunnar á heimsvísu.

Árið 1985 var mikið talað og skrifað um tölvutækni, Íslendingar höfðu nýverið uppgötvað einkatölvuna, námskeið voru víða haldin í meðferð hennar, ungt fólk var komið á kaf í að skrifa hugbúnað fyrir tölvur og jafnvel að selja hann til útlanda. Sífellt fleiri keyptu tölvur, stór og smá fyrirtæki, opinberar stofnanir og einstaklingar, eftir að tollar á tölvum voru felldir niður og söluskatturinn lækkaður verulega.

Tölvunet urðu til víðs vegar um heiminn, einkum hjá mennta- og rannsóknastofnunum, og fljótlega var farið að tengja þau saman í það net sem sem síðar þróaðist og varð almenningseign. 

Opinberir aðilar fóru að fikra sig í áttina að notkun á samtengdum einkatölvum (PC) í stað stór- og miðtölva; spurningin var hvorn valkostinn skyldi velja. Landsvirkjun var meðal þeirra sem völdu að kaupa einkatölvur í stað þess að nota stórtölvu og valdi því dreift tölvukerfi í stað miðstýrðs. Í því fólst líka að hægt var að kaupa tölvubúnað af hverjum sem væri, í stað þess að vera háður einum, stórum aðila.

Mjög ör þróun var í vinnslugetu tölvanna og brátt voru starfsmenn komnir með einkatölvur með 4 MIPS (millions instructions per second) hver, en miðtölvan/smátölvan VAX-11/780 frá Digital sem þessar mörgu PC-tölvur leystu af hólmi hafði verið 1 MIPS.[1] Á móti kom ör þróun annarra tölva en PC-nettengdu tölvanna. Það var valkostur sem margir litu hýru auga. Þetta voru fjölnotendatölvur sem hægt var að tengja við bæði skjái og annan búnað og Digital bauð upp á tímaskiptakerfi (time sharing) sem einnig var góður kostur fyrir sum fyrirtæki.

Samfélagslegt umrót, óðaverðbólga og svonefnt misgengi launa og skulda settu svip sinn á níunda áratuginn en um lok hans var gerð „þjóðarsátt“ í því skyni að stöðva víxlhækkanir launa og verðlags. Tíundi áratugurinn heilsaði með dálítilli efnahagskreppu hér á landi, á Norðurlöndum og víðar. Atvinnuleysi fór um stund vaxandi víða um land. En þetta var einnig tími nýrra hugmynda og trúar á afléttingu íþyngjandi regluverks. Trú sem að sumu leyti þróaðist upp í ofurtrú. Einkavæðing hófst á ýmsum sviðum samfélagsins. Ísland varð hluti af innri markaði ESB (þá EB) í gegnum EES og íslensk fyrirtæki mættu bæði aukinni samkeppni og tækifærum.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1985–1994

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Stórtölvur – runuvinnsla, beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvur, fjarvinnsla. Margir notendur, margir viðskiptamenn; miðtölvur – margir notendur sem voru líka viðskiptamenn; beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvu. Einkatölvur – einn notandi, mikill sveigjanleiki; samtenging einkatölva. Einkatölvur notaðar sem skjástöðvar við stórtölvur; stórtölvuhugbúnaður „fluttur á einkatölvur“ (servera). Biðlara-miðlaraumhverfið.

Forritunarmál þessa tíma voru: Fortran, Basic, LISP, Smalltalk, Clipper, RPG, PL/1, Natural.

Gagnagrunnar: Ýmsir venslaðir gagnagrunnar. Gögn á diskum, diskettum og segulböndum, ADABAS, Oracle, Informix. NorskData.

Stýrikerfi: MS-DOS, Windows 2.x, Windows 3.x, Windows NT, SunOS 2.x, SunOS 3,x, Version 8-9 Unix, OS/2, RISC OS, Linux 1.x, Linux RedHat.

Vafrar: Mosaic, Netscape Navigator, Internet Explorer.

Framtíð falin í hugbúnaðariðnaði?

Á ráðstefnu sem Alþýðubandalagið stóð fyrir haustið 1985 undir heitinu „Ný sókn“ flutti Páll Jensson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans, erindi þar sem hann ræddi meðal annars framtíðarhorfur í íslenskum rafeindaiðnaði. Hann taldi að yrði rétt haldið á málunum gætu þúsundir haft atvinnu af hugbúnaðariðnaði um næstu aldamót en ráðamenn virtust ekki átta sig á möguleikum tölvutækninnar í nýsköpun atvinnulífsins. Markaður fyrir hugbúnað stækkaði um fjörutíu prósent á hverju ári og í nágrannalöndunum væri milljörðum króna varið til þróunarstarfs og markvisst stefnt að því að gera tölvuiðnað að nýrri atvinnugrein. Hér á landi væri hún ekki til sem slík í opinberum skýrslum, þótt um þær mundir störfuðu tvö til þrjú hundruð manns við hugbúnaðargerð á Íslandi:

Þessi tala vex undra hratt eða líklega um fjórðung milli ára, sem þýðir um tíföldun eða eina stærðargráðu á hverjum áratugi. Fyrir tuttugu árum var greinin ekki til, fyrir tíu árum taldi hún nokkra tugi manna, og með sama vexti nokkur þúsund árið 1994. Erum við þá virkilega að tala um atvinnumöguleika fyrir nokkra tugi þúsunda upp úr næstu aldamótum?[2]

En mikilvægt væri að bregðast við: „Ef ekki, þá höfum við misst af tækifærum, sem allar nágrannaþjóðir okkar munu grípa, og valið okkur sess meðal láglaunaðra og vanþróaðra ríkja heims.“

Tölvusetning blaða hefst

Ýmislegt var þó að gerast á Íslandi, sem gat gefið von um að innlendur hugbúnaðariðnaður ætti sér von. Þannig vakti fyrirtækið Rafrás hf. athygli þetta haust fyrir þýðingar- og samskiptaforrit, hannað í samvinnu við Raunvísindadeild Háskólans, sem gerði kleift að flytja texta sem sleginn hafði verið inn á tölvu beint inn í setningarbúnað prentsmiðju. Þessi bylting átti eftir að hafa mikil áhrif á alla vinnu í prentsmiðjum. Frá því fjögur dagblöð sameinuðust um rekstur prentsmiðjunnar Blaðaprents, árið 1970, höfðu þau verið unnin í svonefndri offsettækni. Hún var að vissu leyti byggð á tölvutækni, en allur texti þó hamraður á ritvélar, síðan sleginn inn á setningarvél sem færði hann inn á gatastrimil og svo þræddur í gegnum „rafmagnsheila“ sem spýtti textanum út úr sér á ljósnæmum pappír. Textaræmurnar voru að lokum skornar niður í hæfilegar lengdir og límdar inn á síðurnar, sem voru yfirfærðar á sérstakar plötur og þær að lokum settar á rúllur prentvélanna.[3]

Öllum þessum handtökum átti tölvutæknin eftir að útrýma. Áratug eftir að Blaðaprent tók til starfa, í kringum 1980, voru blaðamenn farnir að slá textann beint inn á tölvur. Það féll í misgóðan jarðveg meðal lærðra prentara og í málgagni þeirra, Prentaranum, voru þessari nýju tækni gerð góð skil árið 1979 (5.–8. tbl.). Haft var eftir skólastjóra sænska blaðamannaskólans, Lars Furhoff, að reynslan hefði verið „vægast sagt ömurleg“. Það var niðurstaða hans eftir hálfsmánaðardvöl hjá bandaríska stórblaðinu New York Times, þar sem blaðamenn hefðu að miklu leyti tekið yfir störf prentara. Útlit blaðsins hefði versnað til muna, efni blaðsins væri allt óvandaðra og verr unnið og blaðamennskan öll yfirborðskenndari. Sala blaðsins og auglýsinga í það hefði minnkað verulega.[4] Sums staðar á Norðurlöndum urðu tafir á þessari þróun en hér á landi völdu stéttarfélögin að ganga til samvinnu við útgefendur um innleiðingu nýrrar tækni.

Norsk Data á Íslandi

Morgunblaðið og síðar DV og Vikan notuðu útgáfukerfi frá Norsk Data á níunda áratugnum. Upphaflega var kerfi frá Norsk Data notað til að halda utan um textavinnslu og gögn með uppflettimöguleikum og þótt það mikið nýnæmi, eins og lesa mátti í Morgunblaðinu 2. nóvember 1983.

Þetta kerfi býður í framtíðinni upp á fleiri möguleika við textavinnsluna, til dæmis getur kerfið tekið við greinum, sem hafa sögulegt gildi og nauðsyn er á að geyma. Þessar greinar mun tölvan skrá í sérstakt safn, er síðan er hægt að leita í út frá ýmsum lykilorðum eða nöfnum. Ennfremur er unnt að geyma inn í þessu kerfi ýmsar upplýsingar, sem koma blaðamönnum að notum við frétta- og greinaskrif. Aðrir möguleikar, sem gefast munu í framtíðinni er útlitsteiknun á skerma, en allt slíkt er handvirkt enn í dag.[5]                                                                                                                    

Augljóslega sá greinarhöfundur ekki fyrir sér að allar greinar yrðu varðveittar og aðgengilegar innan tveggja áratuga né fleira sem fylgdi þeirri byltingu sem fyrir höndum var. Norsk Data á Íslandi var á þessu tímabili til en varð ekki langlíft og mest var skipt beint við Norsk Data í Noregi.

Metnaðarfull tilraun með ADA-þýðanda

Nokkrir Íslendingar reyndu á þessum tíma að hasla sér völl erlendis á sviði hugbúnaðariðnaðar. Ein þeirra tilrauna var markaðssetning erlendis á fyrsta forritaþýðanda forritunarmálsins ADA á vélamál, sem einkatölvur skildu. ADA var upphaflega skrifað fyrir bandaríska varnarmálaráðuneytið og sniðið fyrir stórtölvur. Þarna voru á ferðinni Vilhjálmur Þorsteinsson og félagar hans hjá Íslenskri forritaþróun. Þeir stofnuðu árið 1985 nýtt fyrirtæki, Artek, sem hafði það verkefni eitt að vinna að þessum forritaþýðanda. Því var hrundið af stað með hjálp Frumkvæðis hf., sem hafði beinlínis verið stofnað í þeim tilgangi að hjálpa nýjum fyrirtækjum í hugbúnaðariðnaði, með því að leggja fram áhættufjármagn og draga sig svo út úr fyrirtækjunum þegar rekstur þeirra væri kominn vel á veg. Félagarnir voru stórhuga, auglýstu í erlendum tölvutímaritum, áætluðu að stofna útibú í Bandaríkjunum og stefndu á að selja þúsund þýðendur en 200 hefðu dugað til að fá til baka þróunar- og auglýsingakostnað.[6]

Artek hóf útflutning vorið eftir, fyrst til Bandaríkjanna, og hafði þar einn starfsmann en síðan fór afurðin að seljast í Evrópu og fyrirtækið opnaði skrifstofu í Frakklandi þar sem sex menn einbeittu sér að sölumennskunni. Franska menntamálaráðuneytið undirritaði samning um kaup á hugbúnaðinum fyrir þarlenda háskóla og yfirvöld í öðrum Evrópulöndum íhuguðu málið. „Við gerðum okkur grein fyrir því að hugbúnaður okkar væri nokkuð á undan tímanum þegar hann kom á markað,“ sagði Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður og forritari við Morgunblaðið, og hélt áfram: „Nú er markaðurinn að vakna og þá er mikill akkur í því að vera þekkt nafn.“ [7]

Þrátt fyrir góðar viðtökur erlendis reyndist markaðssetningin of kostnaðarsöm svo gripið var til þess að bjóða Artek til sölu erlendis og samið við bandaríska fyrirtækið Lattice um markaðssetningu. Áætlanir voru uppi um að auka hlutafé í Artek og styrkja stöðu þess hér á landi.[8] Vilhjálmur rifjaði upp 28 árum síðar að þeim hefði tekist ljúka þessu þannig að fjárfestarnir hefðu sloppið þokkalega skaðlausir frá því:

En þetta varð ekki sú sigurganga sem sumir höfðu spáð. Ég held samt að í prinsippinu hefðum við alveg getað náð þessu. Sum félaganna sem við vorum að keppa við voru ekkert stærri en við eða öflugri, útaf fyrir sig, í starfsmannafjölda, tæknilegri getu eða slíku. Það sem hinsvegar háði okkur á þessum tíma var að okkur vantaði útflutningsþekkingu, menn kunnu ekki á þetta, að starfa erlendis. Það vantaði lögfræðiþekkingu og þekkingu á markaðssetningu, menn […] kunnu ekki að gera áætlanir, vissu ekki hvað hlutirnir kostuðu. En þetta hefur alveg gjörbreyst. Það tók alveg áratug að læra á þetta. Svo komu fyrirtæki eins og Oz, sem fóru í gegnum þetta allt, fengu peninga erlendis, réðu fólk erlendis, gerðu samstarfssamninga, og upp úr þessu hafðist gríðarleg þekking, sem fór svo víða og fólkið úr Oz stofnaði ný félög, hvaða skoðun sem maður svo hefur á Oz.[9]

Frá TölvuMyndum til TM Software

Árið 1986, þegar mikið var að gerast í tölvutækni á Íslandi, stofnuðu tveir ungir menn, Friðrik Sigurðsson og Bjarni Júlíusson, hugbúnaðarfyrirtækið TölvuMyndir. Þeir sérhæfðu sig í hönnun tölvukerfa með myndræna framsetningu og lögðu „ennfremur mikla áherslu á hönnun og forritun gagnasafnskerfa, ýmist til stuðnings myndbirtingar eða stakra kerfa“.[10] Eitt af fyrstu verkefnum þeirra var að sjá um tölvugrafík í fyrsta kosningasjónvarpi Stöðvar 2 og sagði Friðrik rúmum þrjátíu árum seinna að það hefði vissulega ýtt þeim úr vör. Bjarni hvarf til annarra starfa en Friðrik hélt áfram rekstri TölvuMynda. TölvuMyndir urðu brátt stórveldi á íslenskum tölvumarkaði og Friðrik Sigurðsson lyfti grettistaki í þróun fyrirtækisins, í því rekstrarumhverfi sem var á Íslandi fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu.[11]

Upp úr þessu skrifuðu Friðrik og Bergþór Skúlason, sem vann einnig við þetta kosningakerfi, lítið PC-forrit sem hét Þjóðráður og var sett á markað. Ef slegnar voru inn kosningatölur eða -spár reiknaði það út hverjir næðu kjöri og unnt var að „leika sér“ með þessa útreikninga líkt og gert var í kosningasjónvarpi. Þetta forrit seldist allvel, meðal annars keyptu það þingmenn og fjölmiðlamenn. Friðrik segir að þarna hafi hann áttað sig á því að unnt væri að skrifa forrit og selja á Íslandi.

Áratug síðar kom Burðarás inn sem hluthafi í TölvuMyndum. Í framhaldi var ákveðið að færa fyrirtækið inn í Skyggni, sem var hýsingarfyrirtæki. Skyggnir var að jöfnu í eigu Burðaráss hf., sem var aftur í eigu Eimskips, og Strengs hf., hugbúnaðarhúss. Með sameiningu þessara fyrirtækja rann aukið fé inn í hugbúnaðariðnaðinn en áður höfðu peningamenn ekki sýnt eins mikinn áhuga á að fjárfesta þar.[12] Rekstur hugbúnaðarfyrirtækisins gekk vel næsta áratuginn og það sótti á erlenda markaði; hafði starfsstöðvar í tólf löndum árið 2005. Nauðsynlegt þótti að breyta nafninu og gera það alþjóðlegt og TM Software varð fyrir valinu. Undir því voru sameinuð allmörg dótturfyrirtæki TölvuMynda, sem einbeittu sér hvert um sig að gerð hugbúnaðar fyrir ákveðin svið, lausnir fyrir sjávarútveg, upplýsingakerfi á heilbrigðissviði, hugbúnað fyrir fjármálafyrirtæki og veitukerfi.[13] Árið 2006 voru starfsmenn orðnir 450 og viðskiptavinir 1800. En á seinni hluta þess árs vildi einn af eigendunum selja eina einingu fyrirtækisins en Friðrik ekki. Hann ákvað því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri en TM Software rann fljótlega að mestu leyti inn í Nýherja.[14]

Hér er hins vegar ástæða til þess að staldra við og spyrja hver geti verið skýringin á því að þessi nýja atvinnugrein, hugbúnaðargerð, blómstraði í höndunum á þeim TölvuMyndamönnum. Friðrik Sigurðsson skýrir það svo og byggir á langri reynslu:

Hugmyndafræðin var að ná stöðu á íslenska markaðnum, skilja hann og ná síðan stöðu á erlendum markaði. Þetta virkaði því ef við hefðum ekki gert þetta þyrfti okkar fólk að vinna við erlend kerfi og skapa verðmæti fyrir aðra. Það er ekkert mál að hafa fullt að gera við innleiðingu kerfa frá öðrum löndum, en í staðinn sköpuðum við mikil verðmæti innanlands. TölvuMyndir uxu upp í 450 manna fyrirtæki, langstærsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi og var alla tíð langstærsti vinnustaður tölvunarfræðinga á Íslandi.[15]

Haustið 1991 var áætlað að um fjörutíu fyrirtæki væru starfandi í hugbúnaðariðnaði með um þúsund manns í vinnu. Í september tóku um tuttugu þeirra sig saman og stofnuðu Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja til þess að vinna að hagsmunamálum hugbúnaðariðnaðar á Íslandi og stuðla að eflingu hans, innanlands sem utan. Formaður samtakanna var kosinn Friðrik Sigurðsson hjá TölvuMyndum og Morgunblaðið hafði eftir honum að atvinnugreinin hefði ekki notið aðstoðar né fyrirgreiðslu af nokkru tagi og því mikilsvert að stofna eigin hagsmunasamtök. Fyrsta verkefni samtakanna átti að vera að fá viðurkenningu stjórnvalda á því að hugbúnaðargerð væri iðnaður.[16]

Tölvuvæðing í þágu landbúnaðarins

Nýting tölvutækni í þágu landbúnaðarins bauð upp á ýmsa möguleika og langt er síðan bændur tölvuvæddust. Búreikningastofa landbúnaðarins í Bændahöllinni tók tölvutæknina í sína þjónustu á sjöunda áratugnum. Hvernig kom þetta vinnuumhverfi Þorbjörgu Oddgeirsdóttur fyrir sjónir, er hún kom úr verslunarnámi í Edinborg seint á sjöunda áratugnum?

Þegar ég kem heim frá Edinborg árið 1968 má segja að það sé lítil kreppa hér og það var ekki auðvelt að fá vinnu. […] Góð vinkona mín vann á Búreikningastofu landbúnaðarins og hún lét mig vita að það vantaði starfskraft í tölvuskráningu. Ég sótti um og fékk starfið. Við vorum tvær í götunardeildinni, við skráðum upplýsingar á löng gataspjöld. Það fyrsta sem við skráðum voru sauðfjárskýrslur og hrútaskýrslur ásamt bókhaldi bænda.

Á þessum tíma var tölvuvæðing Búnaðarfélags Íslands að byrja. Ég var tvítug þegar ég kom hingað til starfa og var langyngst á vinnustaðnum. ... eldri starfsmönnum þótti það algjör firra að ráða inn tvær stelpur og koma með eitthvert tæki fyrir þær að vinna á. Þetta var hugarfarið í þá daga en Ketill A[rnar] Hannesson, yfirmaður búreikningastofunnar og Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur, sem við unnum náið með, voru mjög almennilegir alla tíð.

Móðurtölvan hjá Mjólkursamsölunni

Á þessum árum voru um fjörutíu starfsmenn í Bændahöllinni og segir Þorbjörg starfsemina hafa líkst umhverfinu sem er í dag með tilkomu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML).
„Ketill var sá sem forritaði allt en við þurftum að vinna allt í móðurtölvu úti í bæ sem var fyrst staðsett hjá IBM en lengst af hjá Mjólkursamsölunni við Laugaveg þar sem við vorum með aðstöðu. Við þurftum að fara með öll gataspjöldin þangað en síðan breyttist það og stór tölva kom með stórum floppídiskum á undan stóru PC-tölvunum,“ útskýrir Þorbjörg og segir jafnframt:

Við vorum með aðstöðu á annarri hæðinni í Bændahöllinni þar sem jafnframt var kaffistofa fyrir starfsmenn eftir að Upplýsingaþjónusta ameríska hersins og bókasafn þeirra flutti út úr húsi. Við vorum hluti af tölvudeild fyrirtækisins. […] Hér voru reiknaðar út jarðræktarskýrslur og hér var líka Vélasjóður sem var með skurðgröfumenn í vinnu úti um allt land og var í nánu samstarfi við ræktunarsamböndin.[17]

Þá er vert að geta um sláturhúsakerfi Marels sem breytti aðstæðum í allri vinnslu í sláturhúsum.

Sjávarútvegurinn og framþróunin – Hafró í fararbroddi

Tölvubúnaður, bæði vél- og hugbúnaður, var snemma snar partur í framþróun sjávarútvegsins. Hafrannsóknastofnun hefur oft komið við sögu í íslenskri tölvuvæðingu. Þar á bæ voru áhugasamir einstaklingar sem skildu vel möguleika tölvanna. Á níunda áratugnum var Þorkell Helgason stærðfræðingur að vinna fyrir Hafró við gerð líkana sem mátu stærð og þróun þorskárganga.[18] Í Þjóðviljanum í janúar 1984 er viðtal við Þorkel í kjölfar fundar Líffræðingafélagsins og Hafró. Þar kemur fram að unnið hafði verið að gerð ítarlegs reiknilíkans af fiskistofnum og fiskveiðum hér við land á vegum nokkurra stofnana um fjögurra ára skeið. Fremstar í flokki í þeim hópi voru Raunvísindastofnun Háskólans og Hafrannsóknastofnun. Á þessum tíma var ofveiði, einkum á þorski, mjög til umræðu hér á landi og skammt í að kvótakerfið yrði sett á. Þorkell segir um notagildi líkansins í viðtalinu: 

Þorkell.Helga.veidar
Frétt Þjóðviljans um hugbúnað fyrir stjórnun fiskveiða, Þorkell Helgason á kynningarfundi.

Reiknilíkön eru til þess að prófa hugmyndir. Ekki til þess að taka með þeim ákvarðanir, það er verkefni stjórnmálamannanna. Hinn eini sannleikur fæst kannski ekki með því einu að láta tölvu reikna fyrir sig […] . Það má sem dæmi nefna, að hægt er að spá nokkur ár fram í tímann um þorskafla og afkomu þorskveiðiflotans að gefnum forsendum um stærð, samsetningu og gerð fiskiskipaflotans. Ennfremur má prófa áhrif ýmissa breytinga á fiskiveiðistjórn, svo sem aukningu eða minnkun á skrapdagakerfinu eða áhrif á möskvastærðarbreytingar. Þá hefur verið unnið að útvíkkun á reikniaðferðum við stofnstærðarmat og mælingu sóknar. Hefur þar verið beitt tölfræðilegum aðferðum sem gerir það m.a. kleift að áætla óvissu í stofnstærðarmati. […] reynt hefur verið að áætla stærð fiskigangna frá Grænlandi, en óvissa um þessar göngur veldur vandamálum við allt mat á stofnstærð.[19]

Skrifstofuhugbúnaður

Margt af þeim hugbúnaði sem fluttur var inn, aðlagaður eða jafnvel skrifaður frá grunni á Íslandi flokkast undir það sem kalla má skrifstofuhugbúnað og margir voru um hituna á þeim markaði. Ritvinnsla og töflureiknar voru hluti af honum, einnig utanumhald á skjölum og ýmsir fleiri eiginleikar, stundum mismunandi milli hugbúnaðarkerfa en oft og tíðum með áþekka virkni, enda þarfirnar þekktar.

ALL IN 1 skjámynd 1990
Skjámynd af ALL-IN-1 hugbúnaðinum frá Digital (KÓS) frá seinni hluta 9. áratugarins fram yfir 1990

ALL-IN-1 frá Digital var hugbúnaður frá Kristjáni Ó. Skagfjörð og var sterkur á markaði á árunum kringum 1990. KÓS lét laga hugbúnaðinn að íslenskum aðstæðum. Sigurður G. Tómasson var fenginn til þess að þýða notendaviðmótið á íslensku. Kerfið fól í sér tölvupóst, dagatal og tímaskipulag, addressubók, ritvinnslu og skjalavörslu. Auk þess mátti innlima utanaðkomandi kerfi í ALL-IN-1, til dæmis töflureikna, sem fylgdu ekki með kerfinu.

Ritvinnslukerfið frá Digital (WPS-PLUS) hentaði ekki íslenskunni og því var brugðið á það ráð að kaupa þýskt kerfi (DECtext) sem leyfði nauðsynlegar breytingar. Þarna var í mörg horn að líta. Gísli Már Gíslason vann til að mynda við að kenna forritinu að skipta orðum milli lína samkvæmt íslenskum reglum. Töflureiknir sem fylgdi íslensku útgáfunni var 20/20 frá Access Technology.

Meðal þeirra sem notuðu þetta kerfi var Vegagerðin sem nýtti það með tengingu við margar útstöðvar stofnunarinnar. Kerfið var einnig notað í Seðlabanka Íslands. Skjáirnir sem notaðir voru sýndu eingöngu texta; grafískir skjáir komu ekki fyrr en síðar.[20]

Töflureiknar fyrir tíma Excel
Visicalc-töflureiknirinn fyrir Apple-einkatölvur kom fyrst fram á sjónarsviðið hér á landi árið 1981. Fyrstu auglýsingunum um þennan hugbúnað var sérstaklega beint til þeirra sem áttu viðskipti við tollvörugeymsluna. Það var Radíóbúin sem auglýsti þennan hugbúnað svona:

tollvorugeymslan
Apple-tölvur með margvíslegum hugbúnaði sem gagnast við erfiðar aðstæður. Auglýsingin birtist í ýmsum myndum frá 1981.

VERSLARÐU VIÐ TOLLVÖRUGEYMSLUNA?

Þá átt þú erindi við Apple-tölvuna.

Ert þú að dragast afturúr bara af því þú hefur ekki tölvu? Klukkustundir verða að mínútum. Allir kannast við pappírsflóðið, sem fylgir Tollvörugeymslunni og alla vinnuna. Það er því ómetanlegt að hafa möguleika á að útbúa nauðsynleg gögn til úttektar á sem skemmstum tíma.

Ert þú einn þeirra sem segir við viðskiptavin. „Ég gat ekki afgreitt þetta í dag, þetta er nefnilega inni í Tollvörugeymslu“, og viðskiptavinurinn fer ef til vill annað? Hefur þú efni á því?

Ein af þeim lausnum sem fylgdu Apple-tölvunni til að leysa þetta mál var einmitt töflureiknirinn Visicalc. 

Árið 1983 má fyrst sjá merki þess að töflureiknirinn Multiplan fyrir PC-tölvur hafi hafið innreið sína á Íslandi. Það ár er tölvan Panda 64 auglýst í Frjálsri verslun og sérstaklega tekið fram í auglýsingu frá I. Pálmason að hún sé búin Multicalc fyrir áætlanagerð. Þess er getið í auglýsingunni að um erlendan hugbúnað sé að ræða.[21] Verslunin Benco auglýsti ári síðar NEC-APC-tölvur, 16 bita einkatölvu með 2,4 milljóna stafa diskarými með Multicalc, í sama blaði.[22] En það var ekki nóg að bjóða upp á töflureikni, það þurfti líka að kunna að nota hann.

Tölvuskólinn Tölvufræðslan auglýsti í Frjálsri verslun árið 1985 námskeið í töflureikninum Multiplan með svohljóðandi texta:

Töflureiknarinn

MULTIPLAN

Notkun töflureikna er að verða mjög útbreidd við skýrslugerðir, fjárhagsáætlanir og rekstraráætlanir. …

Námskeiðið veitir góða æfingu í notkun töflureiknisins Multiplan og áætlanagerð í litlum fyrirtækjum.[23]

Bókhald – þegar fundur hjá sáttasemjara gat gerbreytt kerfinu
Bókhaldsforrit, hvort sem voru birgða- eða launabókhald eða annað bókahald, voru af ýmsum stærðum og gerðum, íslensk og erlend og bæði stakstæð og með tengingu í önnur forrit. Það gerði mönnum oft erfitt fyrir við að tölvuvæða launabókhald hversu miklar breytingar gátu verið gerðar á kröfum til bókhalds, forsendum og því sem ætlast var til að haldið væri utan um. Þetta var að nokkru leyti séríslenskt fyrirbrigði og á ofanverðum níunda áratugnum var ekki einungis tekin upp staðgreiðsla skatta, heldur gerðar margháttaðar breytingar sem meðal annars gátu gerbreytt öllum forsendum í launakerfum. Félagarnir Ágúst Guðmundsson og Eggert Claessen hjá Tölvumiðlun fluttu til að mynda inn erlent launakerfi á árinu 1988 og fóru út í að aðlaga það íslenskum aðstæðum. Þegar varan var orðin fullmótuð og „stabíl“ kom upp eitt og annað sem kallaði á breytingar. Næturlangir fundir hjá sáttasemjara gátu gerbreytt forsendum í kerfinu og þingfundur á milli jóla og nýárs, með mikilvægum lagabreytingum, aftur kollvarpað því sem var búið að setja inn í það. Tvö skattþrep og breytingar á þeim voru flækjustig sem einnig útheimti yfirlegu og forritunarkunnáttu. Þeir sem ekki voru með forritara á sínum snærum duttu út úr samkeppninni og hækkuðu þröskuldinn fyrir aðra sem vildu hasla sér völl á sama sviði.[24] Hugbúnaðurinn H-laun var ein af lausnunum sem voru þróaðar til að mæta þessum aðstæðum, en hann var sérhæfður fyrir launaútreikninga.

Landupplýsingakerfi – svo hver og einn þyrfti ekki að grafa eigin skurð

Upphaf samvinnu um Landupplýsingakerfi Reykjavíkur var samstarfsverkefni borgarverkfræðings, rafmagnsveitunnar, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og símans. Gagnaveitan bættist við síðar. Samsýn annaðist sölu og þjónustu við kerfið. Síðar kom Borgarvefsjáin, notendaviðmót byggt á vafra sem geymir ekki gögn en sækir í fyrrgreint kerfi.[25]

Þegar farið var að huga að samræmingu á vinnu símans, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og rafmagnsveitunnar, sem hver um sig hafði eigin teikningar fyrir lagnir, komu skipulagsyfirvöld í Reykjavík einnig inn í myndina. Þetta var ákveðið að samræma svo borgin yrði ekki útgrafin og hver og einn þyrfti að grafa sinn eigin skurð fyrir sínar lagnir. Á stórsýningu tölvunarfræðinema við Háskóla Íslands í nýbyggingu Borgarleikhússins í október 1986 var landsupplýsingakerfið fyrst sýnt og vakti myndræn framsetning á Reykjavíkurborg mikla athygli.[26]

Leitað var fanga erlendis og skoðuð kerfi sem gætu hentað fyrir Ísland, til dæmis með tilliti til aldursdreifingar. Horfa þurfti fram í tímann og átta sig á því hvernig líklegt væri að standa þyrfti að uppbyggingu á leikskólum og skólum svo eitthvað sé nefnt. Kerfi frá ESRI í Kaliforníu, Arc/Info var valið. Efnt var til útboðs og var HP á Íslandi falið að sjá um vélbúnaðarhluta kortaupplýsingakerfisins 1990.[27] Borgarvefsjáin, sem löngu síðar kom fram, er af sama toga og geymir margs konar landupplýsingar.

Tölvuráðgjöf og fagmennska

Fáar greinar hafa vaxið jafnhratt og upplýsingatæknigeirinn. Á fyrstu áratugunum voru oft hlutfallslega hærri upphæðir í húfi fyrir fyrirtæki og stofnanir við val á tölvubúnaði en nú. Því fóru menn að leita ráðgjafar við val á tölvubúnaði og upp spratt umræða um fagmennsku á því sviði.

Í Tölvumálum Skýrslutæknifélagsins í ársbyrjun 1988 er þetta mál á dagskrá. Þá ritar Stefán Ingólfsson verkfræðingur um þörfina á því að koma á fót fagfélagi tölvuráðgjafa og segir meðal annars:

Þeir sem kalla sig tölvuráðgjafa eiga ekki nema nafnið sameiginlegt. Í hópi þeirra eru margir hæfir menn sem hafa mikinn starfsmetnað og hafa skilað góðu starfi. Aðrir kalla sig ráðgjafa í tölvumálum þó að störf þeirra eigi lítið sammerkt með ráðgjöf. Oft er um illa dulbúna sölumennsku að ræða. …

Aðili, sem leitar ráða hjá sérfróðum aðila um hvernig hann geti best komið tölvumálum sínum verður að geta treyst því að ráðgjafinn eigi ekki hagsmuna að gæta. Þessi hagsmunatengsl eru af ýmsum toga. Augljósust eru þau að sjálfsögðu þegar “ráðgjafi“ mælir með því að keyptur sé tölvubúnaður sem hann flytur sjálfur inn eða notað tölvukerfi sem hann eða fyrirtæki hans hafa hannað. Sama máli gildir þegar “ráðgjafinn“ tekur við þóknun frá tölvuinnflytjenda.[28]

Þessi orð ritaði Stefán í tilefni af því að á komandi aðalfundi Skýrslutæknifélagsins átti að fjalla um efnið og Halldór Kristjánsson, þá nýlega orðinn stjórnarmaður í Skýrslutæknifélaginu, hélt erindi um málefnið. Halldór hafði komist á snoðir um að þvíumlík vinnubrögð væru alsiða. Væri þessi raunin taldi hann að ekki væri hægt að tala um óháða ráðgjöf, en ekki varð hann sérlega vinsæll fyrir vikið. Í framhaldi af umfjöllun hans voru settar reglur um ráðgjöf af þessu tagi fyrir ríkisstofnanir og hann fékk að heyra að hann væri kallaður „Halldór heiðarlegi“ og þá ekki til hróss. „Ég var ungur og prinsippmaður,“ segir Halldór, en hann gladdist yfir því að þessi vinnubrögð voru aflögð.[29]

Í næsta tölublaði Tölvumála er umfjöllun Halldórs sjálfs um málið þar sem hann segir meðal annars:

Æ oftar heyrast þær raddir að óeðlilegt sé að sama fyrirtækið sé ráðgefandi og eigi síðan þátt í sölu vél- eða hugbúnaðar beint eða óbeint. Þetta valdi hagsmunaárekstrum sem oftar en ekki bitna á viðskiptamönnum þess. Því miður er margt sem bendir til þess að tölvuráðgjöf hér á landi eigi lítið skylt við hefðbundna ráðgjöf sem tíðkast hefur hér á landi um langan aldur og til dæmis verkfræðistofur og rekstrarráðgjafar veita. Þegar fyrirtæki leitar til ráðgjafa ætlast það til þess að fá faglega úttekt á þörfum sínum og ráðgjöf um val á leiðum til að leysa tiltekin vandamál eða verkefni.[30] 

Halldór bendir í grein sinni á betri vinnubrögð, sem myndu felast í eftirfarandi skrefum:

 1. Þarfagreiningu fyrirtækis.
 2. Úttekt á leið leiðum sem til greina koma.
 3. Þarfagreiningu deilda og starfsmanna.
 4. Tillögu um uppbyggingu kerfis (skýrslu).
 5. Útboði
 6. Mati á útboðum
 7. Samningagerð og pöntun
 8. Eftirliti
 9. Eftirfylgni, fylgst með þróun tölvumála innan fyrirtækis.[31]

Í kjölfar erindisins og greinarinnar var umfjöllun í viðskiptahluta DV, sem vakti talsverða athygli. Þar segir Halldór einmitt frá því atviki sem vakti áhuga hans á að uppræta þessi vinnubrögð:

Halldór segir ennfremur að sér hafi verið boðin þóknun frá ákveðnu fyrirtæki fyrir að ráðleggja mönnum að kaupa tölvur þess. „Þar bauðst mér allt að 20 prósent þóknun. Ég benti á móti á að þetta snerist um siðgæði, það að bera fyrst af öllu hag tölvukaupandans sem leitar hefur til þín fyrir brjósti.“[32]

Halldór liggur ekki á skoðun sinni á þessum skorti á fagmennsku. „Það er ekkert annað en fullkomið siðleysi í viðskiptum þegar einhver maður sem hefur gott hvolpavit á tölvum opnar stofu sem ráðgjafi og ráðleggur mönnum síðan út og suður að kaupa ákveðna tegund af tölvu sem hann fær þóknun fyrir að ráðleggja.“[33]

Nettengingar og tölvusamband við umheiminn

Allt frá því um 1980 hafði IBM á Íslandi á leigu fasta símalínu til Vínarborgar og tengdist þannig alþjóðaneti IBM og væntanlega hafa ýmis önnur tölvufyrirtæki tengst sínum birgjum á sama hátt. Aðrar tengingar voru ekki fyrir hendi.

Árin áður en internetið varð almenningseign

Ýmsir reyndu að nýta sér tæknina til hraðari og öflugri samskipta áður en internetið varð almenningseign. Á seinni hluta níunda áratugarins voru ýmsar snjallar lausnir prófaðar. Meðal annars notaði íslenskt fyrirtæki þeirra Halldórs Kristjánssonar og Guðmundar Ólafssonar þá tækni að senda telex-skeyti gegnum tölvu og bauð upp á það í áskrift. Varð þessi þjónusta nokkuð vinsæl, en dó fljótlega út með tilkomu tölvupóstsnotkunar almennings og internetsins.[34]

Fyrir daga TCP/IP voru fjarskipti bundin í misjafna samskiptastaðla sem buðu upp á greið samskipti milli þeirra sem notuðu sama kerfi en gátu hins vegar ekki haft samskipti sín á milli. Meðal þeirra sem var að finna hér á landi var SDLC frá IBM, sem var allsráðandi hjá Reiknisstofu bankanna, SKÝRR og Sambandinu, sem voru með tengingar úti um allt land. Digital var með eigið samskiptakerfi og sömu sögu má segja um Burroughs, Data General og Quante.[35]

Hugbúnaður sem leyfði faxsendingar gegnum tölvu var notaður hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð um miðjan níunda áratuginn samhliða tölvupósti og ekki fullljóst hvaða samskiptatækni yrði ofan á. Það voru einkum starfsmenn tölvudeildarinnar sem nýttu ýmiss konar tækni til samskipta við útlönd: telex, fax og X.25-tölvupóst. [36]

Stórfyrirtæki tengdust inn á net með mótöldum og telextæki. Mótöld voru býsna dýr og álagning mikil. „Það var varla á færi venjulegs heimilis að kaupa mótald enda voru þau í upphafi ekki til á heimilum, nema hjá einstaka nördum,“ segja fyrrum starfsmenn Tæknivals.[37] Það leiddi til þess að einn af starfsmönnum fyrirtækisins, Ómar Örn Ólafsson, var sendur til Taívan til að finna miklu ódýrari mótöld og flytja inn. Sá galli var á gjöf Njarðar að innflutningsleyfi voru vandfengin og hlíttu reglum um innhringingar frá Pósti og síma. Reglurnar voru verulega íþyngjandi en voru réttlættar með því að ella væri hætt við að símkerfi landsins legðist á hliðina. Ómar var því settur í að forrita mótald, sem hlítti öllum reglunum. Það tókst og þótt ferðin til Taívan hafi verið dýr varð hún ábatasöm í sölu.[38] 

Háskólinn fær tölvur að gjöf

Á níunda áratugnum var talsvert um að leiðandi fyrirtæki í tölvurekstri gæfu tæki til stórra aðila, svo sem Háskóla Íslands, og höfðu þau þannig oft áhrif á næstu skref tölvuvæðingar HÍ.

Síðsumars 1985 skýrði Guðmundur Magnússon háskólarektor frá því á blaðamannafundi að IBM á Íslandi hefði gefið Háskóla Íslands tölvubúnað. Tölvunni fylgdi stjórn- og fjarskiptabúnaður, ásamt fjárstyrk til að standa undir símakostnaði til ársloka 1987.[39] Nokkru fyrr á árinu hafði Kristján Ó. Skagfjörð afhent forsvarsmönnum Reiknistofnunar aðra tölvu að gjöf, í tilefni af tuttugu ára afmæli stofnunarinnar. Hún var af gerðinni Professional 380, sú nýjasta og öflugasta í þeirri tölvufjölskyldu, og unnt var að tengja hana við þær tvær VAX-tölvur sem RHÍ hafði áður keypt af Skagfjörð og Digital, með svonefndu Ethernet-nærneti.[40] Þetta varð vísirinn að tölvuneti Háskóla Íslands sem enn í dag byggir alfarið á Ethernet, sem er lagið undir TCP/IP.[41]

Ekki reyndist gjöf IBM til Háskólans eins mikilvæg fyrir stöðu Íslands í tölvunetsamfélaginu og vonir stóðu til. Þessi tölvubúnaður opnaði vissulega leið til að taka þátt í tölvuneti háskóla og rannsóknarstofnana í Evrópu (European Academic and Research Network – EARN), sem hafði verið hleypt af stokkunum í Genf snemma árs 1984. En nettengingin var bæði hægvirk og dýr og rekstri þessa tölvubúnaðar var hætt árið 1988. Sams konar samband fyrir notendur Háskóla Íslands fékkst hins vegar á ódýrari hátt með samvinnu innan innanlandsnetsins ISnet.

Á árinu 1987 gaf Einar J. Skúlason (EJS) Reiknistofnun Háskólans fyrstu Unix-vélina og með henni tengdust RHÍ og Hafró við netið, fyrst með upphringisambandi en fljótlega fastri leigulínu. Sama ár var SURÍS, Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi, stofnað til að stuðla að notkun OSI (Open Systems Interconnection) í tölvusamskiptum á Íslandi. Þetta ár var ISnet formlega stofnað sem hinn íslenski hluti EUnet. IANA (Internet Assigned Numbers Authority) fól SURÍS að úthluta lénum með endingunni .is hinn 25. nóvember þetta ár. ISnet tók upp svæðisnetföng (domain addressing) í tölvupósti, sem síðar var farið að nefna lén. Þessi þróun er rakin í gleggra samhengi á sérstakri tímalínu með kaflanum.

Fyrstu IP-tölunum var úthlutað árið 1988 til SURÍS, og Hafrannsóknastofnun og Reiknistofnun tóku upp TCP/IP-innra net og tengingu sín á milli. Á þessu ári var Grunnskólinn á Kópaskeri tengdur með UUCP-upphringisambandi við Reiknistofuna en samtals voru fimmtán aðilar tengdir þessu neti. Á Kópaskeri var Pétur Þorsteinsson skólastjóri og mikill áhugamaður um nettengingar.[42]

Á þessum tíma voru í notkun nokkrar gerðir nettenginga, breytilegar eftir framleiðendum tölvubúnaðarins. Þannig var EARN-tengingin bundin IBM-stórtölvunum, en Digital notaði aðra tengingu. Tilraunir voru gerðar til þess að tengjast með EARN-sambandinu en það komst aldrei almennilega í gagnið því þetta kerfi var háð því að leigulína fengist hjá Pósti og síma en það var kostnaðarsamt, og sambandið var því of hægvirkt og gallað til að vera ásættanlegt til lengdar. Þetta var einfaldlega úrelt tækni og gjafatölvan var tekin niður þegar orðið var endanlega orðið ljóst að önnur tækni til að flytja gögn milli landa yrði ofan á.[43]

Margar gerðir nettenginga tölva voru reyndar á níunda áratugnum og höfðu mismunandi eiginleika, meðal annars tengingin Arcnet hjá Örtölvutækni. „Með Arcnet voru menn eylönd, út af fyrir sig, með nokkrar tölvur samtengdar. Við vorum að selja og setja upp svoleiðis pakka fyrir litlar skrifstofur,“ rifjar Arnlaugur Guðmundsson upp frá árunum í Örtölvutækni.[44]

NORDUNET og NORDFORSK

Í nóvember 1985 gengust Skýrslutæknifélag Íslands og Reiknistofnun Háskólans fyrir eins dags ráðstefnu um tölvunet og norrænt samstarf. Á sama tíma var haldinn í Reykjavík stjórnarfundur í NORDUNET-verkefninu, sem var á vegum NORDFORSK,[45] og snerist um að efla möguleika norrænna háskóla til gagnasamskipta sín á milli og við umheiminn. Þetta samstarf var talið afar áhugavert fyrir Íslendinga þar eð von var á að gagnanet Pósts og síma kæmi Íslandi í samband við umheiminn fyrir árslok (1985). Háskóli Íslands var eini norræni háskólinn sem ekki hafði komið sér upp tölvuneti en á málþinginu kynnti Jóhann Gunnarsson, framkvæmdastjóri RHÍ[46], áætlun um slíkt háskólanet, sem skyldi nefnt ISANET. Fram kom að Háskólinn hefði í hyggju að velja svonefnt breiðband[47] til að tengja saman allar tölvur Háskólans, frekar en grunnbandsnet, þótt hið fyrrnefnda væri dýrara. Breiðbandið hafði hins vegar mun meiri flutningsgetu og nýttist betur til gagnaflutninga þar eð þar mátti koma fyrir mörgum rásum af mismunandi tagi samhliða og nýta fyrir síma, myndsendingar og tölvupóstsendingar. Lagning þessa breiðbands var þegar hafin í húsin á vestursvæði Háskólans, hús verkfræði- og raunvísindadeildar.[48]

isanet.haskolans
Áætlun um háskólanet (ISANET). Morgunblaðið, 12. desember 1985.

En breiðbandið lét bíða eftir sér og í samtali við Morgunblaðið í mars 1985 gagnrýndi Júlíus Sólnes, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ný fjarskiptalög, sem voru skömmu áður samþykkt á Alþingi. Um leið höfðu verið samþykkt ný lög um útvarpsstarfsemi og með þeim var rofinn einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps- og sjónvarpsútsendinga. Júlíus taldi að nýju fjarskiptalögin hefðu takmarkað frjálsræði við rekstur tölvuboðveitna og útilokað að einstaklingar eða félög gætu nýtt sér þá nýju tækni. Hann taldi að breyta þyrfti lögunum þannig að sveitarfélög gætu átt og rekið slíkar boðveitur, eins og þau gætu rekið útvarpsstarfsemi, samkvæmt útvarpslögunum. Morgunblaðið hefur eftir Júlíusi:

Ég hef tilhneigingu til að líta á þjónustu sem þessa sömu augum og aðra almenningsþjónustu. Hvers vegna ættu sveitarfélög ekki að reka boðveitur rétt eins og þau reka rafveitur og hitaveitur? Þannig gæti tölvuboðveitan keypt margvíslegt efni af einstaklingum og fyrirtækjum og séð um dreifingu þess.[49]

Sigfús Björnsson, dósent við HÍ, hafði sams konar framtíðarsýn og Júlíus og skrifaði meðal annars í 1. tölublað Skipulagsmála höfuðborgarsvæðisins á þessu sama ári um hættuna á því að „tölvuboðveitur í þéttbýli“ myndu ekki verða frjálsar, eins og útvarpssendingar urðu með nýju útvarpslögunum, vegna þess að þær lentu undir ströngum fjarskiptalögum. Sigfús benti á að einmitt það að í því kerfi gætu boð borist til baka frá neytendum fæli sér stóraukna möguleika til félagslegrar þjónustu, sem gæti orðið lyftistöng fyrir atvinnulífið í viðkomandi bæjarfélagi:

Félagsleg þjónusta fælist til dæmis í upplýsinga- og pöntunar- og greiðsluþjónustu ýmiss konar, námskeiðahaldi, tölvufundum og persónulegum samskiptum á tölvuneti, þ. á m. þjónusta við aldraða og sjúka á heimilum. Stoð við atvinnulíf fælist til dæmis í sjálfvirkri vörslu, mælaaflestri, skoðanakönnunum og samskiptum fyrirtækja gegnum tölvunet við starfsfólk, sem af ýmsum ástæðum yrði að vinna á heimili sínu. Að færa vinnustað inn á heimili, ef þörf krefur, með hjálp tölvuboðveitu bæjarfélags er raunhæf launabót til þegnanna, til dæmis fjölskyldna þar sem báðir makar verða að „vinna úti“, einstæðra foreldra, hreyfihamlaðra, skólaskyldra barna og unglinga o.fl. Atvinnulífið í því sveitarfélagi nyti hæfs vinnukrafts í lengri tíma og með minni truflunum og gildir þetta almennt á vetrum þegar samgönguleiðir teppast.[50]

Bein tölvutenging Háskóla Íslands og annarra aðila á ISnet við erlenda aðila var við lýði frá árinu 1986 með UUCP og frá 1989 með TCP/IP.

Hröð þróun í notkun léna

Árið 1990 var tekin í notkun föst lína til Stokkhólms og tuttugu tölvur voru tengdar ISnet. Þá voru þessi lén í notkun: hi.is, hafro.is, falcon.is, os.is, hp.is, hugbun.is, ibm.is, ismennt.is, rala.is, rsp.is, strengur.is, isbank.is, islag.is, ejs.is, tmh.is, simi.is, vedur.is og marel.is. Á yfirliti yfir lén í Evrópulöndum frá því 1. október það ár eru 14 lén og eitt undirlén tilgreind á Íslandi en Svíþjóð var með flest lén á þeim lista, 6112 og 34 undirlén.[54]

Á þessum árum var þróunin hröð eins og sést á meðfylgjandi töflu sem teygir sig fram undir aldamót, en einkum voru það fyrstu árin sem voru áhugaverð[55]:

Ár Tengdir aðilar Tengdar tölvur
við ISnet
1990 19 (lén) 20
1991 30 250
1992 - 739
1993 55 1.761
1994 70 4.527
1995 130 8.310
1996 250 11.542
1999 - 28.788

Nánar er fjallað um þróun nettenginga á Íslandi í sérkafla. 

Tímalína nettenginga á Íslandi 1986 til 2000

Þróun internets á Íslandi frá 1986 til ársins 2000 má setja upp í þessa tímalínu.

isnet.tengingar.1988
Ísnet, tengingar 1988.

stofnsamningur internet a islandi
Stofnsamningur Internet á Íslandi frá 24. maí 1995.[52]
Þar er greint frá tilgangi félagsins með áherslu á að vinna eftir alþjóðlegum stöðlum. Notendur eru einkum taldir verða mennta- og rannsóknarstofnanir.

1986: Hafró tekur í notkun UUCP-tengingu við EUnet; RHÍ setur upp EARN-samband og X.400-samband; Reiknistofnun Háskólans tekur í notkun UUCP-samband við Hafró.

1987: EJS gefur RHÍ sína fyrstu Unix-vél; SURÍS stofnað til að stuðla að OSI-notkun á Íslandi; ISnet stofnað (undir stjórn ICEUUG); Nafngiftum undir .is úthlutað til SURÍS; ISnet tekur upp svæðisnetföng.

1988: ISnet hefur tíu aðila tengda; Fyrstu IP-tölunum úthlutað til SURÍS; Hafró og RHÍ taka upp TCP/IP; NORDUnet (IP yfir X.25) sett á laggirnar; EARN-samband lagt niður.

1989: RHÍ tekur við rekstri ISnet undir hatti SURÍS, hættir rekstri X.400-gáttar; isgate er sett upp með styrk frá Rannsóknaráði; Útlandasamband flutt til NORDUnet (IP yfir X.25); ISnet verður hluti af Internet.

1990: DNS-þjónusta fyrir .is flutt á isgate; 9,6 bps föst lína til Stokkhólms tekin í notkun.

1991: Útlandalína uppfærð í 56 kbs.

1994: 70 aðilar tengdir við ISnet – tæplega 4000 tölvur tengdar; Útlandalína uppfærð í 128 kbs.

1995: SURÍS stofnar Internet á Íslandi hf. 17. maí; Internet á Íslandi hf. tekur yfir rekstur ISnet og aðrar skyldur SURÍS.

1996-2000: Internet á Íslandi hf. heldur áfram uppbyggingu og rekstri á ISnet og úthlutun léna.

2000: Íslandssími hf. kaupir um 90% hluta í Internet á Íslandi hf.; Netrekstur Internet á Íslandi hf., INTIS/ISnet, seldur til Fjarskiptafélagsins Títans hf.; Internet á Íslandi hf. leggur árherslu á skráningu léna. Stuttnafni breytt úr INTIS í ISNIC.[51] 

Tölvupóstur - prentuð netfangaskrá þótti nauðsynleg

Ýmsir voru þegar farnir að nota tölvupóst þegar hér var komið sögu. Flestir fengu tölvupóst í tengslum við vinnu sína en einnig voru dæmi um að tölvuskólar og tölvuþjónustufyrirtæki úthlutuðu notendum sínum netfangi. IBM á Íslandi hóf notkun tölvupósts innanhúss árið 1981 og árið 1983 var fengin föst símalína til útlanda og tengdust starfsmenn þá alheimsneti IBM. Hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð var farið að nota tölvupóst í samskiptum við Danmörku með sérstakri tækni um eða fyrir 1985.[56] Hjá Ríkisspítölunum voru um 90 manns með eigið netfang árið 1988. Í byrjun voru það fá netföng í notkun á Íslandi að gefin var út bók með öllum netföngum sem voru í notkun á landinu. Þetta var eins konar símaskrá þeirra sem höfðu aðgang að tölvupósti.[57]

Að tala um tæknina á íslensku

Fljótlega eftir að tölvuöld hófst á Íslandi byrjaði öflug barátta fyrir því að unnt væri að hafa orð á öllu sem þessa nýju tækni snerti, á íslensku.

Fljótlega eftir að Skýrslutæknifélagið var stofnað, árið 1968, hófust menn í forystu þess handa um að safna orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Ekki leið á löngu uns stofnuð var orðanefnd á vegum félagsins, sem varð strax mjög virk, og sex árum síðar (1974) gaf nefndin út fyrsta orðalista sinn, tölvuprentað handrit undir yfirskriftinni Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. Áður hafði nefndin sent frá sér stutta, óformlega orðaskrá. Frá 1978 störfuðu fjórar manneskjur í nefndinni að söfnun til útgáfu Tölvuorðsafns: Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns.

Fyrsta útgáfa orðasafnsins kom út 1983 og hafði að geyma rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum, en engar skilgreiningar fylgdu hugtökunum. Önnur útgáfa orðasafnsins kom út árið 1986, undir ritstjórn Sigrúnar, og innihélt tæplega 2600 hugtök. Þeim fylgdu skilgreiningar, skýringar og dæmi þar sem það átti við. Þriðja útgáfan kom út 1997 og hafði að geyma um 5800 íslensk og ensk heiti á rúmlega 5000 hugtökum; sú fjórða kom 2005 og innihélt um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti; skilgreiningar orðanna og skýringar fylgdu í þessum tveimur útgáfum. Ritstjóri tveggja síðastnefndu útgáfnanna var Stefán Briem. Baldur Jónsson lést sumarið 2009 og var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út og það var gefið út sem fimmta útgáfa orðasafnsins, eingöngu í rafrænu formi, aðgengilegt til leitar, á vef Skýrslutæknifélagsins. [58]

Þrjátíu ár í forystu tölvuorðanefndar

Sigrún Helgadóttir, formaður Tölvuorðanefndar, lærði stærðfræði og tölfræði í Bretlandi á árunum 1965 til 1971. Á þeim tíma þurftu nemendur í þessum fræðum einnig að læra forritun, en Bretar voru þá að stíga sín fyrstu skref í tölvuvæðingu, líkt og við hér á landi, og komu fljótlega upp stórum tölvumiðstöðvum við háskóla sína, sem námsmenn höfðu aðgang að. Sigrún vann á hinni ungu Reiknistofnun sumarið 1969, þegar hún var í námsleyfi, og eftir að hún kom heim frá námi, í árslok 1973, fékk hún vinnu þar. Hún gerðist félagi í Skýrslutæknifélaginu þegar í upphafi en þegar hún fór að vinna á Reiknistofnun var Oddur Benediktsson prófessor, forstöðumaður Reiknistofnunar, formaður félagsins og árið 1978 bað hann Sigrúnu að taka að sér formennsku í Orðanefndinni. Hún leiddi nefndina eftir það í þrjá áratugi. Sigrún segir svo frá:

Ég […] geri ráð fyrir að mönnum hafi þótt mikilvægt að unnt væri að tala um þessa nýju tækni á íslensku. Þegar ég kom heim frá námi var mjög erfitt að finna leiðbeiningar í forritun og ég fór að skrifa kennslubók í Fortran og leiðbeiningar með tölvukerfum Háskólans á íslensku. En það var ekki auðvelt. Orðin voru ekki til né heldur orðalagið. Núna er þetta allt orðið miklu þroskaðra, það er hægt að tala og skrifa um tölvutækni á íslensku að mestu leyti, nema menn séu komnir út í mjög tæknileg atriði. En það sem snýr að almenningi er auðveldara. Náttúrlega bætist alltaf við nýtt og þegar ekkert er unnið í þessu safnast vandamálin saman.[59]

Fyrstu árin var unnið allskipulega að orðasöfnun og stuðst við ISO-staðla. Sigrún kynnti sér hvað gert hefði verið annars staðar á Norðurlöndum og komst að því að bæði Norðmenn, Svíar og Danir hefðu tekið upp staðla en alþjóðlegar nefndir tekið fyrir orðaforða í tölvutækninni, flokkað hann niður og skilgreint.

Þessir staðlar voru bæði á ensku og frönsku og við gengum einfaldlega í þá þegar við unnum að Tölvuorðasafninu, fyrstu og annarri útgáfu. En eftir því sem á leið þurftum við að sjálfsögðu að taka fyrir heiti og hugtök sem voru ekki í stöðlunum. […] Síðan var þetta náttúrulega lesið yfir af sérfræðingum og þeir komu þá með tillögur um orð sem vantaði. Ég las líka mikið af orðalistum í alls konar bókum, þegar ég var ritstjóri, en þegar við gáfum út þriðju bókina var Stefán Briem ráðinn ritstjóri og þetta gekk þá betur því ritstjórinn gat unnið milli fundanna og undirbúið þá.

Vinnunni vatt síðan áfram, ár eftir ár, allt var unnið í sjálfboðavinnu, nema hvað safnað var fyrir launum ritstjórans hjá stofnunum og fyrirtækjum. Verkefni ritnefndarmanna var að finna hugtök sem þurfti að þýða, eða taka á móti ábendingum, finna skilgreiningar og leggja þær fyrir nefndina. Það kallaði oft og tíðum á talsverða eftirgrennslan og grúsk því að:

Eiginlega er ekki hægt að gefa einhverju heiti sem maður veit ekki hvað er, þannig að ef einhver spyr, sendir inn fyrirspurn: Hvað á að kalla þetta? þarf maður fyrst að finna út 99% hvað það merkir, annars er ekki hægt að gefa því almennilegt heiti. Þess vegna eru svona orðalistar dálítið erfiðir, það kemur ekki alltaf fram hvað það er sem er verið að gefa heiti.

ordanefnd3
Tölvuorðanefnd: Þorsteinn Sæmundsson, Baldur Jónsson, Sigrún Helgadottir og Örn Kaldalóns

Tölvuorðanefnd tók upp þau vinnubrögð að hafa skýringar á orðunum og index eða hugtakaskrá aftast í síðasta orðalistanum. Sigrún skrifaði mest af skilgreiningunum en orðanefndarmaðurinn Baldur Jónsson, íslenskufræðingur og lektor við Háskólann, og allmargir sérfræðingar aðrir lásu mismunandi kafla. Opinber stuðningur við þetta starf var alla tíð fremur lítill, styrkur fékkst þó frá Lýðveldissjóði, sem þá var enn til, Málræktarsjóði og Ráðgjafarnefnd um upplýsinga- og tölvumál. Íslensk málstöð var stofnuð 1985, mest fyrir forgöngu Baldurs Jónssonar, og orðanefndin hafði aðsetur hjá Málnefndinni. Fyrri útgáfur tölvuorðasafnsins voru settar á vef Málstöðvarinnar en hún hafði ekki bolmagn til að setja þetta nýja efni inn í íðorðabankann, sem hafði verið stofnaður 1997. Því var sett upp vefsetur Skýrslutæknifélagsins (sky.is) þar sem aðgangur er að tölvuorðasafninu eins og það leggur sig. En telur Sigrún að árangur hafi orðið af þessu orðasöfnunarstarfi?

Við fáum náttúrulega endalaust skammir fyrir hvað við séum gamaldags og þetta séu asnaleg orð og svoleiðis. En sama er, þegar upp er staðið og maður lítur í kringum sig og les það sem fólk skrifar er alveg greinilegt að ástandið er orðið allt annað en það var fyrir þrjátíu árum; það er hægt að skrifa um þetta efni og þessi orð seytla inn í orðaforðann, en hvaðan þau koma skiptir náttúrulega engu máli. Ég get nefnt dæmi um orð eins og gjörvi, sem við settum inn í fyrstu bókina í örvæntingu okkar, til að hafa eitthvað yfir processor. Ég heyrði allskonar skýringar á þessu orði; það er komið af orðinu örgjörvi sögðu sumir. En það er rangt, örgjörvar voru ekki til þegar bókin kom út, árið 1983.[60]

Staðgreiðsla skatta

Um miðjan níunda áratuginn var farið að ræða um nauðsyn þess að opinber gjöld yrðu staðgreidd í stað þess að skattgreiðendur þyrftu að telja fram laun liðins árs og standa skil á þeim sjálfir – eftir á. Um þetta var þvargað og þjarkað meirihluta árs 1987, alveg fram í desember. Sjálf lögin um staðgreiðslu skatta voru samþykkt í mars það ár[61] en lagabreytingar sem nauðsynlegar voru taldar vegna framkvæmda málsins ekki samþykktar fyrr en þegar komið var fram í desember 1987.[62]

Skúli Eggert Þórðarson, síðar ríkisskattstjóri, rifjar upp að þetta hafi valdið nokkrum vandræðum því starfsmenn skattsins hafi ekki getað byrjað á undirbúningi þessarar miklu kerfisbreytingar fyrr en í mars:

Staðgreiðslan er fyrsta tölvukerfi skattyfirvalda sem er hannað og skipulagt þannig að það er „online“, það er að segja lifandi kerfi frá degi til dags, en ennþá var það rekið inni í SKÝRR. Þetta var mikið verkefni því við höfðum svo lítinn tíma, níu mánuði til þess að undirbúa innheimtuna. SKÝRR-menn hömuðust við að setja þetta upp og það tókst að hefja innheimtu staðgreiðslunnar 1. janúar 1988, fyrir harðfylgi starfsmanna Ríkisskattstjóra og SKÝRR, sem var mikið afrek. Þetta lagði grunninn að frekari vélvæðingu og virðisaukaskattinum, sem kom tveimur árum seinna, og ákveðið var að gera sama með hann 1990, hafa hann „online“. [63]

rsk005
Verkefni ríkisskattstjóra voru margvísleg á ofanverðum níunda áratugnum, en þá var meðal annars tekin upp staðgreiðsla skatta. Þessi mynd er frá árinu 1987 og er af Jóni Zóphoníassyni og Guðríði Jóhannsdóttur skoða gögn á tölvuskjá.

Næsta stóra skrefið sem tekið var í tölvuvæðingu skattkerfisins var þegar keypt var fyrsta miðtölvan fyrir Ríkisskattstjóra, árið 1992. Tvö árin á undan höfðu tölvuráðgjafar velt því fyrir sér hvað best væri að gera og niðurstaðan var að setja upp svokallaðan „biðlara-miðlara“ þannig að ein tölva eða hugbúnaður sækir upplýsingar til miðlara annars hugbúnaðar eða tölvu í öðru tölvukerfi, í gegnum tölvunet; biðlari getur líka hegðað sér eins og miðlari og sent önnur gögn til baka.[64] Þetta var gert til þess að draga úr kostnaði en rekstur tölvukerfanna var orðinn mjög dýr. Í framhaldi af þessu var sett upp „víðnet skattkerfisins“, og vélar á öllum skattstofunum og síðar hjá yfirskattanefnd og Ríkisskattstjóra þegar þau urðu til. Allt þetta var að lokum tengt saman.

Gagnsemi þessara tæknilegu framfara sýndi sig berlega árið 1991. Þá voru gerðar umfangsmiklar skattbreytingar, sem ollu miklum breytingum á framtölum eftir að frumáætlun á þeim fór fram, og breyta þurfti framtölum tugþúsunda framteljenda. Áður voru breytingarnar reiknaðar út í vélum en síðan þurfti að breyta framtölunum handvirkt. En þegar allt hafði verið tengt saman og samband komið milli hinna ýmsu kerfa skattsins dugði að breyta viðkomandi reit á framtalinu og reiknaðist þá skattbreytingin inn í viðkomandi kerfi og barst til innheimtumanns.[65]

Framhald tölvuvæðingar í bankakerfinu

Breytingar voru að verða í tölvuvæðingu í bankakerfinu og kenndi þar margra grasa. Hér verður stiklað á því stærsta.

Tölvumiðstöð sparisjóðanna stofnuð

Í byrjun árs 1989 stofnuðu stærstu sparisjóðirnir Tölvumiðstöð sparisjóðanna. Henni var ætlað að sjá um kerfi sem Reiknistofan gat ekki séð um, alls kyns skýrslugerð, bókhald og fleira. Hér var tekið næsta skref í þróuninni: Reiknistofa bankanna byggðist á stórtölvukerfinu, miðlægri tölvu og skjáum á útstöðvum en hin nýja tölvumiðstöð sparisjóðanna byggðist á miðlægum miðlara og einmenningstölvum úti í sparisjóðunum, sem tengdar voru við miðlarann. Sparisjóðirnir sameinuðust síðar allir um tölvumiðstöðina, einnig lánastofnun sparisjóðanna, og úr varð Sparisjóðabanki Íslands.[66]

Reiknistofa bankanna í vexti

Holberg Másson skrifaði í Morgunblaðið að Reiknistofa bankanna (RB) hefði á þessum tíma verið stærsta tölvumiðstöð landsins ásamt SKÝRR. Árið 1990 var velta Reiknistofunnar reyndar ögn meiri en starfsmenn færri, en þó 120 talsins. Þá höfðu SKÝRR og RB tekið upp samstarf um öryggismál. Í grein sinni um RB veltir Holberg því upp hvort ef til vill ætti að huga að frekari samvinnu.

Í viðtali við Þórð Sigurðsson forstjóra RB kom fram, að dregið hefur úr aukningu aðgerða í stórtölvu RB. Samt var 20,1% aukning á aðgerðafjölda fyrstu 6 mánuði þessa árs miðað við í fyrra. …

Að nokkru leyti má segja að RB hafi verið í samkeppni við tölvudeildir bankanna. Meðan RB hefur getað veitt góða þjónustu á góðu verði, hefur lítil tilhneiging verið hjá bönkunum að fara út í eigin tölvuvæðingu, en með aukinni samkeppni verða til sérþarfir, sem ekki nýta hagkvæmni sameiginlegrar vinnslu. [67]

Holberg fjallar síðan um reynslu annarra landa, meðal annars í Danmörku.

Þórður sagði, að engin athugun hefði verið gerð á því hjá RB, hvort hagkvæmt væri að flytja eitthvað af þeim verkefnum, sem í dag eru keyrð á stórtölvu yfir á minni tölvur. […] Hann sagði, að enda þótt RB væri stórtölvumiðstöð á íslenskan mælikvarða, þá væri RB það ekki á alþjóða mælikvarða og þess vegna væri margt það hægt hér, sem ekki er hægt annarsstaðar. Ísland er eina landið í heiminum, þar sem allt bankakerfið sameinaðist í einni miðstöð og því fylgdu ýmsir kostir […] Síaukið tölvuafl vegna beinlínuvinnslu á afgreiðslutíma bankanna skapar ónotað tölvuafl utan þess tíma og hafa bankar og sparisjóðir fengið 40% afslátt af þeim föstu keyrslum, sem framkvæma má á nóttunni. [68]

Á þessum tíma voru sameiningar bankanna á Íslandi mál málanna og því var möguleg sameining SKÝRR og RB skoðuð í því samhengi.

Ljóst er að sameiginlegur rekstur á tölvusamstæðum og tölvuneti Reiknistofu bankanna og Skýrr myndi skila umtalsverðum sparnaði. Reynslan erlendis sýnir að sameining skilar a.m.k. 20% lækkun í rekstrarkostnaði slíkra tölvumiðstöðva. …

Slæmt væri ef sparnaður bankakerfisins vegna sameiningar banka og fækkunar starfsfólks tapaðist að nokkru leyti vegna aukins kostnaðar við tölvu og upplýsingavinnslu.[69]

Afgreiðslukerfi (POSar) - „rafgreiðslur á sölustað“

Upp úr 1990 komu til skjalanna hinir svokölluðu POSar. Þeir voru meðal annars nauðsynlegir fyrir debetkortagreiðslur, en kreditkortin hafði verið hægt að „strauja“ og kröfðust þau því ekki rafrænnar tengingar.

POS stóð fyrir „Point of Sale“ og hver posi var í raun sérstakur sölustaður, en tengdur miðlægu kerfi. „Þetta var rosaleg breyting og í raun gerbylting,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson verkfræðingur um þessa breytingu er hann lítur til baka.[71]

Greiðslur um posa eða sérstök kassakerfi voru á tímabili kallaðar „Rafgreiðslur á sölustað“, eða RÁS-kerfið (EFTPOS: Electronic Fund Transfer at Point of Sale). Kjartan Jóhannsson hjá Reiknistofu bankanna lýsti fyrstu posunum hér á landi þannig:

Posi er lítil tölva með innbyggðu mótaldi, segulrandarlesara og prentara, litlum skjá og takkaborði og hefur möguleika á að safna og geyma nokkurt magn gagna. …

Flestir posar hér á landi eru í eigu Greiðslumiðlunar hf. sem leigir þá söluaðilum. RÁS-þjónustan, sem er sjálfstætt apparat, samstarfsverkefni kortafyrirtækjanna, banka og sparisjóða en rekið af Greiðslumiðlun hf. Annast RÁS-þjónustan forritun og þjónustu við posana og sér einnig um mikinn hluta samskipta við söluaðila og verslanir vegna þeirra.[72]

Einnig skilgreinir Kjartan kassakerfi og notendur þeirra með þessum hætti:

Stærri verslanir hafa oft á tíðum í stað posa svokölluð búðakassakerfi, sem meðal annars leysa hlutverk posanna, þ.e. að lesa segulrönd, senda heimildarbeiðni og prenta kvittun. Kassakerfin hér á landi eru aðallega frá þremur aðilum: EJS hf, Hugbúnaði hf. og Tákni hf, en einnig hafa stærri aðilar s.s. olíufélög sérstök kassakerfi af ýmsu tagi.[73]

Debetkortin voru tekin upp á Íslandi 1993 og var gengið út frá því að nýta fyrirliggjandi tækjakost og kerfi sem byggt hafði verið upp fyrir kreditkortin, það er RÁS-kerfið. Þá voru um fjögur þúsund kassar og posar tengdir því kerfi en fimm árum síðar, 1998, hafði þeim fjölgað í rúmlega átta þúsund.[74]

Posavélar með innbyggðum GSM-símum komu til skjalanna árið 1999. Í 1. tbl. Tölvumála það ár segir svo frá þessum áfanga:

Point á Íslandi hefur nú nýverið hafið sölu á posavél með innbyggðum GSM síma til heimildarhringingar. … Point hefur einnig hannað hugbúnaðinn í hann þannig að hann getur tekið á móti öllum greiðslukortum sem aðrar posavélar taka á móti hérlendis.

Í stuttu máli má segja að GSM posinn vinni alveg eins og hefðbundinn posi nema í stað þess að nota hefðbundna símalínu þá notar hann GSM til tengingar við greiðslukortafyrirtækin auk þess hefur hann innbyggt batterí og verður þannig óháður rafmagni og símalínu[75]

Stórfelld verðlækkun á tölvum

Einmenningstölvur voru að sækja mjög í sig veðrið um þetta leyti, ekki síst sökum þess að árið 1982 ákváðu stjórnvöld að fella niður 30% vörugjöld sem lögð höfðu verið á „tölvubúnað til samkeppnisiðnaðar“ og í febrúar árið eftir var felldur niður 23,5% söluskattur, sem lagður hafði verið ofan á 7% toll, þannig að 1984 lækkaði verð á öllum tölvum og búnaði sem þeim tilheyrði um liðlega 32%. Salan tók verulegan kipp.[76] Dráttur varð þó á því að tollyfirvöld felldu niður aðflutningsgjöldin vegna óskýrleika í orðalagi þar um, en það var gert í september.[77]

 • fyrsti.IBM.PC IBM 5150 PC-tölva
  Fyrsta PC-tölvan, 1981
 • Makki.1984 Fyrsta Macintosh-einkatölvan
  Hún kom á markaðinn árið 1984.
 

Netið og notendurnir

Með útbreiðslu internetsins og einkatölvunnar voru almenningur, fyrirtæki og stofnanir komin í alveg nýja stöðu. Notkun á tölvum varð útbreiddari og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.

MUD: Fjölspilunarleikur án grafísks viðmóts

Tölvuleikir voru ekki ný bóla á áratugnum 1985–1995. Hins vegar varð áhugaverð breyting á leikhegðun í tölvuleikjum með tilkomu internetsins. Rætur leiksins MUD (Multi User Dungeon) eru í eldri gerð hans, sem rakin er til ársins 1978. Nýrri internetútgáfa leiksins var til umfjöllunar í Tölvumálum árið 1992 í greininni „Hvað er þetta MÖDD?“ sem félag áhugamanna um MUD er skrifað fyrir.[78] Leikurinn var þá orðinn vinsæll fjölnotendaleikur yfir internetið, en margir MUD-leikir voru á markaði. Það merkilega við hann þá var að viðmótið var ekki grafískt og krakkarnir, sem voru kjarni spilaranna, þurftu að nota örvatakka og önnur tákn á lyklaborðinu til að spila leikinn.[79] Ef viðmót MUD-leiks frá 1992 er skoðað sést að það þarf innvígðan spilara til að finna eitthvað af viti út úr því sem sést á skjánum.

Tolvuleikurinn.mud
Viðmót MUD-leikjanna var ekki flókið.

Foreldrar MUD-spilara þessa tíma komust fljótt að raun um að nauðsynlegt var að fá aðra símalínu inn í húsið, því MUD- spilarinn í fjölskyldunni teppti símalínuna, sem mótald heimilisins tengdist. Ein þeirra sem hvað áköfust voru í spilamennskunni skrifaði síðar lokaritgerð í mannfræði árið 1993 um MUD: „Myndun samfélags á tölvuneti“.[80] Eitt af því sem einkenndi samfélagið voru samskiptin milli spilaranna:

Samskipti við aðra eru einmitt afar stór og jafnvel stærsti þátturinn þegar MUD er spilað og er félagslegi þátturinn ekki síst það sem fólk er að sækjast eftir. Þarna gefst möguleiki á því að kynnast fólki frá fjarlægum heimshlutum og eru mörg dæmi um vináttusambönd sem hafa orðið til í gegnum þennan leik. Þó nokkur fjöldi útlendinga hefur komið til Íslands til að hitta vini sína … og jafnframt eru þeir orðnir æði margir staðirnir erlendis þar sem íslenskir muddarar eru velkomnir gestir.[81]

Spilarar hérlendis töldu ekki eftir sér að leggja á sig talsverða vinnu til að geta spilað eins og fram kemur í greininni í Tölvumálum. Umhverfi MUD-spilara á Íslandi er lýst þannig:

Í dag eru 200 stór, opin MUD í heiminum. Á Íslandi er einungis eitt kerfi sem opið er öllum, starfrækt í dag, en eru þó uppi áform um uppsetningu á fleirum. […]

Íslenska kerfið varð til fyrir um tveimur árum og var notkun í fyrstu takmörkuð við vissa tíma dags, en nú er kerfið opið allan sólarhringinn.[82]

Þótt MUD-leikir þessa tímabils hafi verið ólíkir þeim tölvuleikjum sem seinna komu á markað, einkum fjölspilunarleikjum, þá kom það ekki í veg fyrir að höfundar greinarinnar frá árinu 1992 í Tölvumálum sæju fram í tímann, kannski furðu langt fram í tímann, um þróun tölvuleikja:

Nýlega hafa komið fram myndræn MUD en þau hafa þó ekki náð mikilli útbreiðslu, meðal annars vegna tæknilegra örðugleika. Ef til vill á þetta eftir að þróast meira í átt til þeirra nýjunga sem komið hafa fram í hugmyndum um „virtual reality“ þar sem fólk spennir á sig hjálm með sjónvarpsskjá, setur á sig hanska og getur gripið um ímyndaða hluti ásamt því að ganga um og skoða svæði sem hvergi eru til nema í minni tölvunnar. Slíkt krefst þó tækni sem ekki er orðin almenn í dag, hvað svo sem síðar verður.[83]

Þótt spilararnir sem spiluðu MUD væru að stærstum hluta ungt fólk og krakkar er forvitnilegt að skoða þá skilgreiningu á spilurunum, sem sett er fram í nefndri grein:  

Flestir muddara eru skólafólk, nemendur og kennarar við hinar ýmsu greinar í háskólum heimsins. Marga muddara er einnig að finna meðal stærri stofnana sem halda uppi öflugum tölvukerfum, svo sem banka, háskólastofnana og tölvufyrirtækja. Einnig hafa nemendur og jafnvel kennarar í greinum sem varða mannleg samskipti og eðli mannsins haft mikinn áhuga á muddinu […] Dæmi eru um það að fatlaðir einstaklingar sem hafa fjarlægst hið raunverulega líf eigi sér í rauninni sitt líf í mudheiminum.[84]

Sjálfsafgreiðslutölva á Reykjavíkurflugvelli 1990–1991

Merkileg nýjung, sem kom fram tiltölulega snemma en náði þá ekki að slá í gegn, var sjálfsafgreiðslutölva fyrir farmiðakaup frá IBM sem var sett upp á Reykjavíkurflugvelli veturinn 1990–1991. Sjálfsalinn var settur upp og virkaði vel, en vandinn var sá að illa gekk að fá fólk til að nota hann. Ekki tókst að fá fjárveitingu fyrir fólk sem kenndi almenningi á sjálfsalann, þótt rök mætti færa fyrir því að þessi nýjung myndi spara vinnu síðar, þegar fólk yrði orðið vant því að afgreiða sig sjálft. Tilraunin varð því skammvinnari en vonir höfðu staðið til.[85]

Villur og vandræði

Eitt af því sem hefur ávallt verið öruggur fylgifiskur hugbúnaðargerðar og vélbúnaðarsölu er að villur koma upp og undarleg hegðun krefst skoðunar, skýringa eða lagfæringar. Notendur klóra sér í kollinum og skilja hvorki upp né niður þegar eitthvað gerist sem á ekki að geta gerst. Með vaxandi hugbúnaðargerð var farið að huga að hugbúnaðarprófunum en vélbúnaðarprófanir eiga sér lengri sögu, þótt ekki hafi þær alltaf dugað til að skýra skrýtna hegðun tækja og tóla. Sögur eru til af furðulegum bilunum og oftar en ekki heyrist það fornkveðna: „Já, en þetta virkar á minni tölvu!“ – eða þá að illa gengur að endurframkalla vandamál þegar tölvusérfræðingar eða -viðgerðarmenn eru mættir á staðinn.

Í fyrirtæki einu í Reykjavík á níunda áratugnum komu æ ofan í æ upp vandamál við notkun á dýrum prentara; truflanir og hökt. Innflytjendur prentaranna voru duglegir að koma á staðinn eftir vinnutíma en það brást ekki að þá prentuðu tækin hnökralaust. Það var ekki fyrr en prentarinn var staðinn að verki á vinnutíma að vandamálið kom í ljós. Það var notkun rafmagnsheftara á sömu skrifstofu sem olli truflunum og nauðsynlegt reyndist að aðskilja prentarann og heftarann.[86]

Sumar villur og vandamál sem upp hafa komið hafa verið vandleystari og krafist grunnbreytinga á kóða. Þekktast þeirra vandamála er auðvitað 2000-vandinn sem fjallað er um í sérstökum kafla en fleiri vandamál sem tengjast tölustöfum fengu fólk til að klóra sér í kollinum. Þannig virkaði röntgenkerfið á Borgarspítalanum á níunda áratugnum ekki rétt á öllum tölvum. Vandinn lá í því að sumar tölvurnar meðtóku ekki að tímasetningar notuðu ýmist einn eða tvo tölustafi til að tákna klukkustundina, það er einn tölustaf fram til klukkan tíu á morgnana og síðan tvo. Truflanirnar hættu klukkan tíu að morgni en fram að því var tíminn skráður vitlaust, til dæmis 80:5 eða 90:5. Það var ekki fyrr en svo hittist á að sérfræðingur var mættur fyrir klukkan tíu að unnt var að takast á við málið og lagfæra villuna.[87]

Frumkvöðlar í fámennum tölvufyrirtækjum á Íslandi þurftu því að bregða sér í alls konar hlutverk og leysa hin ólíklegustu vandamál.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga

Rekja má upphaf tölvuvæðingar sveitarfélaga til þess að Logi Kristjánsson, sem þá var bæjarstjóri í Neskaupstað, aflaði sér menntunar á sviði rafrænnar gagnavinnslu (EDV) og vakti áhuga sveitarstjórnarmanna á málinu á 33. fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga haustið 1977. Sveitarstjórnarmenn áttuðu sig á því að tölvur væru framtíðin í stjórnsýslunni og samþykktu tillögu Loga um að skipuð yrði samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga og tekið yrði upp samstarf við SKÝRR. Af hvorugu varð en ákveðið að komið yrði á fót „samskiptamiðstöð sveitarfélaga“.

Í upphafi keypti samskiptamiðstöðin fjárhags- og gjaldendabókhald Endurskoðunar hf. og samið var við Loftleiðir um rekstur, keyrslu og viðhald kerfanna. Ljóst var að nauðsynlegt væri að Samband íslenskra sveitarfélaga legði miðstöðinni til stofn- og rekstrarstyrk á meðan hún væri að slíta barnsskónum en í framtíðinni yrðu þeir sem nytu þjónustu hennar að bera rekstrarkostnaðinn.

Rekstur Samskiptamiðstöðvarinnar hófst árið 1979 og fyrsta heila starfsárið nutu tuttugu sveitarfélög þjónustu hennar. Um ári síðar voru sveitarfélögin orðin þrjátíu, með íbúatölu frá 250 manns til 12.000. Liðlega fjórðungur þjóðarinnar bjó í þessum sveitarfélögum. Samskiptamiðstöðin notaði tvö tölvukerfi fyrir þjónustu sína, annað var fyrir fjárhagsbókhald en hitt fyrir gjaldendabókhald. Árið 1983 var nafni samskiptamiðstöðvarinnar breytt í Tölvuþjónusta Sambands íslenskra sveitarfélaga og Logi Kristjánsson, sem verið hafði stjórnarformaður samskiptamiðstöðvarinnar, var ráðinn framkvæmdastjóri hennar frá haustinu 1984. Starfsemin var rekin sem aðskilinn þáttur í rekstri sambandsins og var til húsa á fjórðu hæð að Háaleitisbraut 11, og sveitarfélög sem nutu orðið þjónustu miðstöðvarinnar voru þá orðin áttatíu. Tölvuþjónustan var samstarfsvettvangur og samræmingaraðili sveitarfélaga á sviði tölvumála og hafði frumkvæði að gerð hugbúnaðar, annaðist viðhald hans og þróun, veitti ráðgjöf um val á vél- og hugbúnaði og leiðbeindi um notkun hans.

Fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög

Árið 1985 bauð Tölvuþjónustan út vinnu við að smíða hugbúnað fyrir einkatölvur, staðlað fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög. Sex tilboð bárust, og voru opnuð 15. febrúar. Stjórn Tölvuþjónustu sveitarfélaga ákvað að semja við Tölvumiðlun hf., sem átti lægsta tilboðið.[88] Um sumarið kynnti Tölvuþjónustan hugbúnað sem saminn hafði verið hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og fékk heitið SATS-10. Þetta var samhæfður hugbúnaður fyrir rúmfræðilega útreikninga og hönnun, kerfi sem fyrst og fremst var sniðið að þörfum tæknimanna sveitarfélaga en átti einnig að henta verkfræðistofum, verktökum og öðrum sem unnu að skipulagi.[89]  

Einkatölvur fyrir sveitarfélögin – tvöfalt diskettudrif og 720.000 tákn

Vorið 1985 auglýsti Tölvuþjónustan að hún vildi kaupa „einkatölvur og annan búnað fyrir sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki þeirra“ og reiknaði með að fá afhentar fimmtíu vélar með mismunandi fylgibúnaði, á tveimur árum.[90] Þetta leiddi til þess að gerðir voru hagstæðir samningar fyrir sveitarfélögin við nokkra tölvusala um tölvur, prentara, teiknara og disklinga á hagstæðu verði. Einnig nauðsynlegan hugbúnað fyrir stóru tölvurnar, sem notaðar voru fyrstu árin, sem og PC-tölvur starfsmanna sveitarstjórna.[91] Verðkönnun Tölvuþjónustunnar vorið 1985 bar þann árangur að ákveðið var að mæla með því við sveitarfélögin að þau keyptu Advance 88d-tölvur og Microline-prentara, samkvæmt tilboði frá Míkró hf. Þeir höfðu umboð fyrir OKI-prentara og hugbúnað og höfðu leyst ýmis mál varðandi íslenska stafasettið. Logi Kristjánsson lýsti þessum tækjum svo að þetta væru tölvur með „tvöföldu diskettudrifi og væri hægt að geyma 720.000 tákn inni á hverju þeirra“. Hver tölva kostaði 54 þúsund krónur og einnig mátti fá hana með tíu megabæta diski, en þá kostaði hún 89 þúsund krónur.[92] Til þess að setja það í samhengi hversu dýr tæki slíkir prentarar voru á þeim tíma þá nægði Míkró að selja einn prentara á mánuði til að eiga fyrir húsaleigu og launum starfsmanna, sem um þær mundir voru reyndar fáir.[93]

Náð í gögnin

Árið 1986 var ákveðið að Tölvuþjónustan skyldi reka gagnabrunn, svo sveitarfélögin hefðu aðgang að ýmsum gagnaskrám og þeim væru auðveldaðar boðsendingar sín á milli. Gagnabrunnur sveitarfélaganna var tengdur við tölvu SKÝRR og veitti sveitarfélögunum aðgang að þeim skrám sem höfðu þýðingu fyrir þau, í gegnum „mini-tölvur“ starfsmanna. Starfsmenn hringdu í símanúmer gagnabrunnsins á tölvuneti Pósts og síma og fengu þá upp valmynd ýmissa skráa. Meðal þeirra voru Þjóðskrá, fasteignaskrá, Lagasafn, reglugerðasafn um sveitarstjórnarmál, vinnumiðlun og atvinnuleysisskráning, hagtölur sveitarfélaga, lánasjóður sveitarfélaga, launatöflur og launasamningar, gagnabanki bókasafna, tölvuþing og gagnabrunnur Byggðastofnunar. Þá var unnið að því í samvinnu við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bókhaldskerfi bæjarins yrði opnað og almenningur ætti aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu bæjarins, til að mynda með aðgangi um skjá í bókasöfnum, og hafið var samstarf við bæjarstjórn Kópavogs um að dreifa fundargerðum og dagskrá bæjarstjórnarfunda til bæjarbúa um net Pósts og síma.

Logi Kristjánsson rifjar upp að margar skemmtilegar hugmyndir í þessa veru hafi verið í farvatninu, sem urðu þó aldrei að veruleika. „Þó að mörg skref hafi verið stigin síðar vantar nokkuð á að hugmyndum um gagnsæi og gagnvirkni hafi verið komið á. Tengingin við SKÝRR var til staðar en því miður ekki mikið notuð. Ein orsökin var verðskráin hjá opinberu aðilunum,“ segir hann.[94]

Tekið mið af stærð sveitarfélaga

Í lok níunda áratugarins voru viðskiptavinir Tölvuþjónustunnar orðnir um 95 með íbúafjölda nálægt 140 þúsundum, eða 90% íbúa utan Reykjavíkur. Kerfum sem voru í notkun hafði fjölgað verulega, þau voru orðin tólf eða þrettán, en grunngerðir kerfanna þrjár, eftir stærð sveitarfélaga. Verkefnum fjölgaði, staðgreiðsla skatta var tekin upp á þessum tíma og skipt úr nafnnúmerum í kennitölur, sem hvort tveggja jók mjög álag á Tölvuþjónustuna. Aðeins einn starfsmaður vann hjá Tölvuþjónustunni fram til 1986.

Tölvuþjónustan varð að bregðast við fjölgun tölva því ekki voru á markaðnum forrit sem stóðust þær kröfur sem gerðar voru til að mynda til samræmds bókhaldslykils. Því var slíkt kerfi boðið út á árinu 1985 og samið við Tölvumiðlun. Einkatölvur urðu smám saman allsráðandi og því fækkaði kerfisgerðum Tölvuþjónustunnar. Árið 1993 voru meginlínurnar orðnar tvær, annars vegar einkatölvulína, með eða án nettengingar, og hins vegar IBM System/36-línan, en síðar á því ári tóku við AS/400-tölvur. Verkefnum Tölvuþjónustunnar fjölgaði stöðugt en fjölmörg sveitarfélög voru komin með mótöld og því gátu starfsmenn Tölvuþjónustunnar unnið í beinum tengslum við tölvur viðkomandi sveitarfélaga auk þess sem þeir fóru um landið og héldu námskeið fyrir starfsmenn sveitarfélaga og leiðbeindu þeim.

Þremur árum síðar, árið 1996, voru 112 sveitarfélög með 156.387 íbúa orðin aðilar að þessu samstarfi en utan þess stóðu 53 sveitarfélög, með 7.161 íbúa, en þar er Reykjavíkurborg undanskilin. Samstarfið náði til fjögurra tölvukerfa: Fjárhagsbókhalds sveitarfélaga, launakerfis, gjaldendabókhalds, álagningakerfis fyrir fasteignagjöld og leikskólakerfisins MÖMMU. Tölvuþjónusta sveitarfélaga var eigandi kerfanna en ýmis hugbúnaðarfyrirtæki skrifuðu þau.

Lóðsinn og ALSAM II

Tölvukerfið Lóðsinn var samstarfsverkefni sjávarútvegsráðuneytisins, Hafnarsambands sveitarfélaga og Tölvuþjónustunnar. Fyrsta útgáfa var skrifuð hjá Íslenskri forritaþróun en sú næsta hjá TölvuMyndum. Kerfið hélt utan um ferðir skipa, landaðan afla og annan flutning um hafnir landsins, ásamt gerð reikninga, og sendi upplýsingar daglega til Fiskistofu. Annað kerfi, sem hét ALSAM II, hélt utan um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun og var í notkun hjá 50–60 vinnumiðlunarskrifstofum um allt land. Nokkru fleiri sveitarfélög áttu aðild að síðastnefndu tveimur kerfunum en voru í reglulegu samstarfi við TS.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga lögð niður

Rekstur Tölvuþjónustu sveitarfélaganna gekk upp og ofan þessi árin, vegna mikils stofn- og viðhaldskostnaðar við vélbúnað og hugbúnað, óstöðugs efnahagsástands og gríðarlegrar verðbólgu. Almælt var það viðhorf ráðamanna sveitarfélaganna að þjónustugjöld væru of há en árið 1995 voru viðhorf sveitarstjórnarmanna til Tölvuþjónustu sveitarfélaganna könnuð og niðurstaðan var fremur jákvæð; nærri helmingur taldi að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að bjóða áfram upp á tölvuþjónustu. Hins vegar fannst svipuðu hlutfalli enn að þjónustugjöldin væru of há.

Engu að síður var Tölvuþjónusta sveitarfélaganna lögð niður sumarið 1997 og utanumhald fært út til þeirra tölvufyrirtækja sem skrifað höfðu hvern og einn hugbúnað. En fjórtán árum síðar, árið 2011, lagði framtíðarhópur SSH til að sveitarfélögin létu gera athugun á hagkvæmni þess að taka upp sameiginleg upplýsingakerfi vegna bókhalds, uppgjörs og fjármálastjórnar sveitarfélaganna. Í rauninni var með þessu verið að leggja til að Tölvuþjónusta sveitarfélaganna yrði endurvakin. Eftir að hún var lögð niður fóru sveitarfélögin hvert í sína áttina og allt samráð um samstarf í rekstri tölvukerfa sveitarfélaganna rann út í sandinn. Framtíðarnefndin taldi að þótt sveitarfélögin gætu þá orðið tengst í gegnum internetið væri mikilvægt að þau hefðu sameiginlegt upplýsingakerfi um bókhald, uppgjör og fjármálastjórn sveitarfélaganna. Með því að sameinast um sömu kerfislausnir ættu sveitarfélögin að geta tryggt gæði kerfanna.[95]

 

[1] Halldór Kristjánsson var ráðgjafi í þessu verkefni og man vel átök milli PC-manna og stórtölvusinna.

[2] Þjóðviljinn 17. október 1985, aukablað: Ný sókn.

[3] Þjóðviljinn 9. nóvember 1983, 12. BYLTING í prentiðnaðinum -  Örtölvutæknin gerir tvísetningu á texta óþarfa.

[4] Prentarinn 5.-8. tbl. 1979, 12. Breytt viðhorf við útgáfu dagblaða.

[5] Tækniþróun í 10 ár. Morgunblaðið 251.tbl. II. (2.11.1983), bls. 52-53.

[6] NT 11. okt. 1985. Sá fyrsti sinnar tegundar í heimi íslensk Forritaþróun sf. þróar ADA þýðanda fyrir einkatölvur.  Þjóðviljinn 17. okt. 1985. Hugvit Ríflega í askana látið?

[7] Morgunblaðið 5. feb. 1987. Tíminn vinnur með Artek Forráðamenn fyrirtækisins eru bjartsýnir. Ada þýðandinn hlýtur góðar móttökur og erlendir aðilar bjóða fjármagn og samvinnu.

[8] Frjáls verslun 6. tbl. 1987. Artek gerir sölusamning við Lattice.

[9] Viðtal við Vilhjálm Þorsteinsson 26. sept. 2014.

[10] Morgunblaðið 8, október 1987, B 16. Með myndræna framsetningu gagna að leiðarljósi.

[11] Frosti Bergsson, 2016.

[12] Viðtal við Friðrik Sigurðsson. Tíminn 14. mars. 1996. Strengur hf. og Skyggnir-TölvuMyndir hf.: Hugbúnaðarrisi hefur senn störf

[13] Morgunblaðið 17. febrúar 2005, B 2. TölvuMyndir verða TM Software.

[14] Morgunblaðið 20. desember 2006, 17. Hættir hjá TM Software. Viðtal  við Friðrik Sigurðsson.

[15] Viðtal við Friðrik Sigurðsson í mars 2015.

[16] Morgunblaðið 19. sept. 1991, B 16. Samtök hugbúnaðarfyrirtækja stofnuð - Markmiðið er að vinna að hagsmunamálum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja

[17] Hættir eftir 47 ára starf fyrir bændur. Bændablaðið, 15. júlí 2015. https://www.bbl.is/folk/haettir-eftir-47-ara-starf-fyrir-islenska-baendur/11499/. Sótt 29.12.2015.

[18] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[19] Mun auðvelda stjórnun veiðanna. Þjóðviljinn. 14. tbl. (18.01.1984), bls. 8.

[20] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[21] Auglýsing í Frjálsri verslun, 4.tbl. 42.árg. 1983, bls. 18.

[22] Sama heimild.

[23] Starfsmennt. Auglýsing í Frjálsri verslun, 1.tbl. 44.árg. 1985, bls. 82.

[24] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[25] Arnlaugur Guðmundsson, 2016.

[26] Sama.

[27] Hewlett Packard hreppti kortaupplýsingakerfi borgarinnar. Morgunblaðið – viðskiptablað, 18. janúar 1990. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/43966/

[28] Stefán Ingólfsson: Fagfélag tölvuráðgjafa. Tölvumál, 1. tbl. (01.01.1988), 13. árg.  Bls. 4.

[29] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[30] Halldór Kristjánsson: Tölvuráðgjöf, er þörf á uppstokkun. Tölvumál, 2. tbl. (01.02.1988), 13. árg., bls. 16.

[31] Sama heimild., bls. 17-18.

[32] Tölvuráðgjafar þiggja sölulaun. DV, 55. tbl. 7. mars 1988, bls. 8.

[33] Sama heimild.

[34] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[35] Einar Haukur Reynis, athugasemd í tölvupósti til SKÝ, 27.5. 2016.

[36] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[37] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals. 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.

[38] Sama heimild.

[39] Morgunblaðið 29. ágúst 1985, 2. IBM á íslandi gefur Háskóla Íslands tölvubúnað: Kemur Íslandi í mikilvæg sambönd við umheiminn — segir Guðmundur Magnússon rektor.

[40] Morgunblaðið 11. apríl 1985, C 1. AFMÆLISGJÖF.

[41] Maríus Ólafsson. Athugasemdir í tölupósti, apríl 2016.

[42] Nánar er fjallað um áhrif Péturs í kaflanum um menntamál.

[43] Svar Maríusar Ólafssonar á tölvupósti við fyrirspurn  11. mars 2015

[44] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið 2.9. 2015.

[45] Norræn stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sinnir menntun og rannsóknum.

[46] Hann var forstöðumaður RHÍ 1982-1983 eb frá 1983-1987 framkvæmdastjóri.

[47] Skilgreining á því hvað átt er við með breiðbandi er ekki alltaf sú sama á þessum árum. Það sem virðist vera átt við hér er að fyrirhugað hafi verið að nýta einhvers konar símatækni við að netvæða háskólasvæðið. Að mati Maríusar Ólafssonar hefði slíkt verið tímaskekkja á sama tíma og háskóla vítt og breitt um heiminn voru taka upp Ethernet staðla.

[48] Mbl. 12. des. 1985, B 6-7. Um tölvunet og norræna samvinnu — eftir Gunnar Ingimundarson.

[49] Morgunblaðið 24. mars 1985. 14-15. Boðveitukerfi – breiðbandsnet: Hindrar einokun Pósts og síma eðlilega þróun?

[50] Sama heimild.

[51] Helgi Jónsson: Úr tölvupósti frá árinu 2000. SURÍS var stofnað 9. febrúar 1987.

[52] Úr fórum Maríusar Ólafssonar.

[53] Yfirlit fengið frá Maríusi Ólafssyni, 2016.

[54] ftp://ftp.ripe.net/ripe/hostcount/History/RIPE-Hostcount.90-Oct-10

[55] Frekari upplýsingar um fjölda léna má sjá hér: https://www.isnic.is/tolur/hostcount-history.html

[56] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[57] Arnheiður Guðmundsdóttir. Minnispunktar vegna viðtala 2014 og 2015.

[58] Söguvefur Sky: http://sky.is/index.php/forsiea11

[59] Viðtal við Sigrúnu Helgadóttur 5. nóv. 2014.

[60] Sama heimild.

[61] Althingi.is Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda 1987 nr. 45 30. mars. Sótt á vefinn 18.3. 2015

[62] Althingi.is 130. Frumvarp tillaga [125. mál] um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sótt á vefinn 18.3. 2015.

[63] Viðtal við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[64] http://is.wikipedia.org/wiki/Bi%C3%B0lari sótt a vefinn 18. mars 2015.

[65] Byggt á viðtali við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[66] Viðtal við Jón Ragnar Höskuldsson 3. okt. 2014.

[67] Holberg Másson: Reiknistofa bankanna er stærsta tölvumiðstöð landsins. Morgunblaðið – viðskiptablað. 29. ágúst 1991. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/73023/

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[71] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[72] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild, bls. 9.

[75] Elfar Guðjónsson: GSM posar fáanlegir. Tölvumál 24. árg. 1. tbl. 01.03. 1999, bls. 14.

[76] Morgunblaðið 2. mars 1983, 17. Tölvubúnaður til samkeppnisiðnaðar:  Fella niður að- flutningsgjöld.

[77] Alþýðublaðið 6. sept. 1983, 1. Félag íslenskra iðnrekenda kvarta undan tollyfirvöldum: Tafið fyrir afgreiðslu á tölvum

[78] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 35.

[79] Maríus Ólafsson. Viðtal tekið 23.11. 2015.

[80] Arnlaugur Guðmundsson, tölvubréf 9.11.2015. Dóttir hans Hlíf Arnlaugsdóttir var spilarinn og höfundur BA-ritgerðarinnar. http://stirni.is/thankar/. Sótt 29.11.2015.

[81] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 36.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild, bls. 37.

[84] Sama heimild.

[85] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[86] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[87] Sama heimild.

[88] NT 19. mars 1985. Tölvuþjónusta sveitarfélaga.

[89] Morgunblaðið 7. júlí 1985. SATS-10 hugbúnaðurinn kynntur.

[90] DV 4. maí 1985, auglýsing.

[91] Þar sem annarra heimilda er ekki getið er stuðst við óútgefna samantekt Loga Kristjánssonar um sögu Tölvuþjónustu sveitarfélaga 1979-1997.

[92] Morgunblaðið 4. júlí 1985, B 5. Samband íslenskra sveitarfélaga  valdi Advance-tölvu .

[93] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[94] Logi Kristjánsson, athugasemd við texta, gerð í apríl. 2015.

[95] Byggt á: Tölvuþjónusta sveitarfélaga 1979 – 1997. Samantekt Loga Kristjánssonar 2015.

Á áratugnum 1975–1984 fór tölvuvæðing stofnana og atvinnulífs að festast í sessi þar sem nýjar tölvur hentuðu smærri aðilum betur en fyrstu stórtölvurnar. Farið var að nota tölvuskjái og sívinnslu við almenn skrifstofustörf.[1]

Hugbúnaðargerð í núverandi mynd hófst á Íslandi um þetta leyti. Formlegt háskólanám í tölvunarfræði var tekið upp og allt spilaði þetta saman með þeim samfélagsbreytingum sem urðu á tímabilinu. Framhaldsskóla- og háskólamenntun efldist á öllum sviðum, útskrifuðum nemendum fjölgaði og fleiri valkostir buðust í námi. Atvinnulíf þróaðist í átt til meiri fjölbreytni. Uppgangur en óstöðugleiki var í samfélaginu, tíðar gengisbreytingar og átök á vinnumarkaði. Tekin var upp vísitölutrygging lána vegna verðbólguspretta sem urðu af og til. Myntbreyting sem varð undir lok þessa tímabils var tilraun til þess að koma á meiri stöðugleika en á sama tíma urðu afdrifaríkar breytingar á högum fólks. Hlutfallið milli verðlags, verðtryggðra lána og óverðtryggðra launa, sem reynt hafði verið að halda stöðugu, raskaðist. Í þessu andrúmslofti fólust bæði tækifæri og hindranir og óhætt er að fullyrða að þau mörgu nýju fyrirtæki sem urðu til á þessum árum hafi fengið sinn skerf af því að glíma við margs konar ytri aðstæður. Í lok þessa tímabils komu PC-tölvurnar á markað á Íslandi en það var ekki fyrr en um og eftir 1985 að notkun þeirra náði fyrst útbreiðslu. Stórtölvurnar og miðtölvurnar áttu markaðinn. Í raun var þetta áratugur miðtölvanna. Nettenging margra PC-tölva varð ekki útbreidd fyrr en talsvert síðar.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1975­–1984

Vélbúnaður: Tölvum fjölgaði verulega og voru þær settar upp um allt land. Nokkrar stórtölvur voru frá IBM, aðallega 370/xx-tölvur, en miðtölvur urðu fjölmargar og voru af ýmsum gerðum. Miðtölvur voru upphaflega áþekkar stórtölvum en minni, ódýrari og meðfærilegri og hægt að nota þær í skrifstofurými – þróuðust síðar í aðra átt en stórtölvur. Á síðari hluta þessa tímabils komu smátölvur (minicomputers) og einkatölvur til sögunnar.

Stýrikerfin voru að mestu bundin tölvugerðum. Á IBM 360/370-tölvum voru DOS VSE, og VM/370. Á IBM[2] S/3x- og S/3x-tölvum var innbyggt stýrikerfi. Á Digital-tölvum var VMS-stýrikerfið og á einkatölvum ber einkum að nefna PC DOS, Apple DOS og Apple OS. Að auki komu ýmis Unix-stýrikerfi til sögunnar.

Runuvinnsla var allsráðandi í fyrstu en nokkuð var um fjarvinnslu þar sem færslur voru sendar um símalínu og niðurstöður vinnslu til baka á sama hátt. Beinlínuvinnsla hófst en fyrstu skjáirnir komu um 1975–1976 og voru tengdir við stórtölvur, til dæmis hjá Samvinnutryggingum sem voru fyrstar hér á landi til að taka notendaskjái í notkun[3] (IBM setti fyrstu skjáina á markað um 1964). Í stórtölvu- og miðtölvuumhverfinu voru margir notendur sem voru líka viðskiptamenn og tenging skjástöðva var æ algengari. Töflureiknar, ritvinnsla, tölvugrafík.

Gögn voru á gataspjöldum, diskum og segulböndum en gataspjöldin hurfu fljótlega og disklingar urðu aðalskráningartækið. Lyklaðar diskaskrár voru algengar og fyrstu vensluðu gagnagrunnarnir komu fram á sjónarsviðið, innbyggt í IBM S/38-tölvunum en í stórtölvunum var ADABAS-kerfið ráðandi.

Forritunarmál: Í stórtölvum og miðtölvum voru forritunarmálin Fortran IV, BASIC, APL, RPG, PL/I og ALGOL ríkjandi en Basic í smátölvum og einkatölvum.

Miðtölvur koma til sögunnar

Þegar áratugur var liðinn frá því að fyrstu rafeindareiknarnir komu til landsins hafði tölvutækninni fleygt mikið fram og verð á vélunum jafnframt lækkað verulega. Opinberar stofnanir og fyrirtæki af stærri gerðinni gátu keypt sinn eigin tölvubúnað og annast verkefni sem eingöngu reiknistofurnar stóru, Reiknistofnun Háskólans, SKÝRR og Reiknistofa bankanna réðu við áður.

IBM var sem fyrr stærst á markaðnum og frá fyrirtækinu komu tölvur af nýrri kynslóð, sem fékk auðkennið IBM System/3x. IBM forritaði launa-, fjárhags-, viðskipta- og gjaldendabókhald fyrir þessar tölvur. Forritin voru seld um allt land. Keppinautar tóku þó að rísa upp og ný vörumerki tölva komu sem óðast á markaðinn: Burroughs, Digital PDP, Quantel og Wang.

Á þessu tímabili áttuðu menn sig óðum á mikilvægi tölvutækninnar og því að í henni lægju gríðarlegir framtíðarmöguleikar. Kennsla hófst við Háskóla Íslands í nýrri fræðigrein, tölvunarfræði, sem stuðlaði að því að upp reis ný atvinnugrein á Íslandi: hugbúnaðariðnaður. Hver uppfinningamaðurinn af öðrum tók að nýta sér hina nýju tækni ýmsum atvinnugreinum til hagsbóta, ekki síst sjávarútveginum.

Einkatölvur koma til landsins

Einkatölvur bárust til landsins undir lok tímabilsins og áhugi á tölvum og þeim óendanlegu möguleikum sem í þeim voru fólgnir breiddist hratt út meðal almennings. Tölvuskólar spruttu upp og farið var að undirbúa tölvuvæðingu skólakerfisins. Líkja má fyrsta áratug tölvuvæðingar á Íslandi, frá 1964–1974, við fæðingarhríðir og ef til vill má teygja þá samlíkingu lengra og líkja næsta tímabili við unglingsár. Þá ólgaði ýmislegt undir niðri sem fáir vissu hvað úr yrði og í lok tímabilsins varð sú sprenging sem leiddi með ógnarhraða til þess tölvuveruleika sem við búum við nú. Margt gerðist samtímis.

Haustið 1975 hóf Þorsteinn Hallgrímsson verkfræðingur, starfsmaður IBM á Íslandi, að setja upp beinlínuvinnslukerfi, sem tengdi móðurtölvu við útstöðvar (skjái og prentara) með mótaldi og símalínum. Fjarvinnslukerfi voru engin nýlunda hér á landi en þetta var fyrsta beinlínukerfið þar sem notaðir voru skjáir og skrárnar sem unnið var með uppfærðar jafnóðum, og kvittanir sendar til baka. Þetta gaf möguleika á gagnkvæmum samskiptum og var nýtt af margs konar fyrirtækjum og stofnunum, meðal annars fjármálastofnunum ýmiss konar og opinberum stofnunum, háskólum og rannsóknastofnunum, og menn tóku að flytja gögn fram og til baka um símalínurnar. Fyrstu kerfin voru sett upp veturinn 1975–1976 hjá SKÝRR og Sambandi íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og haustið 1976 hófst beinlínuvinnsla hjá SÍS þar sem umboðsmenn Samvinnutrygginga voru tengdir kerfinu og vorið 1977 hjá ýmsum viðskiptavinum SKÝRR, þar á meðal Rafmagnsveitunni, Bifreiðaeftirlitinu og Gjaldheimtunni.[4] Næsta ár bættist Veðurstofan við.

Það merkilega var að fjölmiðlar virðast ekki hafa áttað sig fyllilega á þýðingu fjarvinnslu og beinlínuvinnslu og ekki er að sjá að neinn þeirra hafi beinlínis sagt frá því að unnið væri að uppsetningu þess, hvað þá hlutverkinu sem því væri ætlað. Í tímaritinu Frjálsri verzlun var þó sagt frá tölvuvæðingu KEA á Akureyri haustið 1975 og nefnt að Kaupfélagið hefði leigt símalínu til að senda gögn til úrvinnslu í höfuðstöðvum Sambandsins í Reykjavík, og fá niðurstöðurnar til baka.[5]

Tölvutæknin breiðist út

Á útmánuðum 1976 var tölvutæknin farin að breiðast um sveitarfélög utan Reykjavíkur. Tekið var í notkun staðlað forritakerfi til að vinna gjaldendabókhald, sem auðveldaði alla vinnu við innheimtu og skráningu útsvars og fasteignagjalda (sjá sérkafla). Tölvutæknin var útbreiddust í bönkunum en stór fyrirtæki eins og samvinnuhreyfingin, stóru sjávarútvegsfyrirtækin, olíufélögin, tryggingafélögin, Flugleiðir, Krabbameinsfélag Íslands, Póstur og sími og Mjólkursamsalan höfðu einnig tekið tölvutæknina í sína þjónustu og tölvur höfðu verið settar upp víða um land: í Bolungarvík, Stykkishólmi, Vestmannaeyjum, á Egilsstöðum, Akureyri, Siglufirði, Norðfirði, Seyðisfirði og víðar. Um svipað leyti komst einnig á fyrsta fjarvinnslusambandið við útlönd, milli tölvu Flugleiða á Íslandi og móðurtölvu í Atlanta í Bandaríkjunum, sem tók við bókunum farmiða.

Í úttekt á stöðunni í tölvumálum í tímaritinu Frjálsri verzlun, sem áður var vísað til, bendir greinarhöfundur á að árin fimm á undan hafi vinnsluhraðinn í minni venjulegra tölva aukist allt að því þrjátíufalt og verð á tölvum jafnframt lækkað. Hann taldi að þróunin yrði sú að fyrirtæki og stofnanir, sem þá höfðu aðgang að sameiginlegum, stórum tölvum, myndu koma sér upp litlum tölvum og „rauntímavinnsla“ og „beinlínuvinnsla“ myndu ryðja sér mjög til rúms. Sú tækni var þá þegar orðin mjög algeng erlendis, til dæmis á skattstofum, í bönkum og hjá bifreiðaeftirlitum og greinarhöfundurinn taldi að hinn íslenski markaður héldi „með miklum hraða inn í þróunina og eftir 3–4 ár mun [íslenski markaðurinn standa] jafnfætis öðrum þjóðum hvað tölvuþróun snertir.“ [6]

Þá er að geta smátölva, minicomputers. Árið 1979 voru til að mynda 35 Burroughs-tölvusamstæður í gangi á Íslandi og flokkuðust flestar undir stórar smátölvur. Mjólkursamsalan í Reykjavík var með stærstu tölvuna en Íslenska járnblendifélagið á Grundartanga var einnig með stóra vél í notkun. Þessum tölvum er lýst þannig: „Þær eru sambyggðar í einum ramma, tölva, prentari, diskdrif, skermur og lyklaborð.“[7]

Í miðju skammdeginu veturinn 1976 skrifaði ungur maður, Reynir Hugason, pistil í dagblaðið Vísi undir yfirskriftinni „Framfarir og tæknimál“. Þar upplýsti hann að svonefndum „upplýsingabönkum“, þar sem upplýsingar væru geymdar í „elektrónísku formi“, á segulböndum eða seguldiskum, hefði fjölgað verulega á undanförnum árum. „Almennt er búist við gífurlegum framförum í upplýsingamálum á næstkomandi áratug vegna þessarar tækni“, segir í grein Reynis Hugasonar, en hann átti svo sannarlega eftir að láta að sér kveða á þessum vettvangi, sem síðar verður nefnt.[8]

Hundrað kílómetrar í næstu tölvu

Fjölmargir einstaklingar létu til sín taka í þeirri þróun sem komin var af stað og jók stöðugt skriðþungann. Vonlaust verk er að gera öllu því fólki einhver skil sem þar kom við sögu en reynt verður að nefna örfáar lykilpersónur, í viðbót við þær sem þegar hafa verið nefndar.

Einn þeirra Íslendinga sem höfðu aflað sér menntunar sem nýttist í tölvufræði og hófu að láta til sín taka í íslensku samfélagi er Jón Þór Þórhallsson eðlisfræðingur. Hann nam eðlisfræði fyrst í Þýskalandi en stundaði síðan rannsóknir við Háskólann í Alberta í Kanada og loks við Háskólann í Vancouver í Bresku Kólumbíu. Hann kom heim til Íslands árið 1974.

Þegar Jón Þór vann að doktorsritgerð sinni í fræðilegri eðlisfræði við Háskólann í Gießen í Hessen í Þýskalandi um og upp úr sjöunda áratugnum var langt í frá sjálfsagt að unnt væri að fá aðgang að tölvum til að létta sér róðurinn. En hann þurfti að reikna heilmikið vegna ritgerðarinnar og ákvað að fá að grípa til tölvu. Sá hængur var þó á að ekki var nema ein virkilega afkastamikil tölva í Þýskalandi um þær mundir og til hennar þurfti hann því að aka með öll sín skjöl, um hundrað kílómetra leið. Að fenginni doktorsgráðu í Þýskalandi hélt Jón Þór til Kanada til að stunda rannsóknir og kennslu. Hann tók meðal annars þátt í að móta afnot stúdenta og kennara af tölvum við nám og kennslu, en um þær mundir var víða komið á tölvuverum við háskóla vestra. Jón Þór rifjar upp þessa tíma:

Þetta var á þeim tíma, upp úr 1970, þegar allir skólar vildu fara að kenna tölvunarfræði en enginn vissi eiginlega hvað það var. Tölvunarfræði varð til úr tveimur greinum, annars vegar voru það stærðfræðimenntaðir menn, hinsvegar verkfræðimenntaðir. Þeir sögðu við mig: Þú veist meira um þetta en við, það er best að þú kennir þetta. Þannig fór ég að kenna tölvunarfræði og við settum af stað tölvuþjónustu, sem ég var í forsvari fyrir. Og það er sá vinkill sem ég kem með heim til Íslands; bæði í Bresku Kólumbíu og Alberta rákum við þetta sem þjónustu, þetta var eins og bókasafnið, nemendur og kennarar gátu komið þarna og fengið þjónustu.[9]

Reiknistofa Raunvísindadeildar

Þegar Jón Þór Þórhallsson kom heim til Íslands eftir fimmtán ára vist í útlöndum, árið 1974, tók hann við starfi forstöðumanns Reiknistofnunar Háskólans af Oddi Benediktssyni. Stöðu stofnunarinnar innan Háskólans hafði þá verið breytt og hún færð undir Raunvísindastofnun. Það fyrirkomulag gafst ekkert sérlega vel, sem sést á því að forstöðumaðurinn kom strax með tillögu um að Reiknistofu Raunvísindadeildar, eins og hún hét þá, yrði skipt í reiknifræðistofu og reikniþjónustu en þriðja hlutverkið sem stofnuninni var fengið var fyrirlestra- og námskeiðahald til þess að kynna nýjungar.[10]

Jóni Þóri þótti starfsemi Reiknistofnunar einkennast um of af lélegri þjónustulund því sú regla ríkti að kennarar Háskólans hefðu forgang að tölvunni en nemendur mættu afgangi. Þessu vildi hann breyta, í samræmi við þann anda sem ríkti í kanadísku háskólunum. Hann fékk meðal annars góðan stuðning Halldórs Guðjónssonar, kennslustjóra Háskólans, til þess að bæta alla aðstöðu og gera stofnunina að þjónustustofnun fyrir nemendur og vísindamenn. Næsta skref var stigið árið 1976 þegar gamli rafeindaheilinn vék fyrir nýrri tölvu, IBM 360/30. Þetta var raunar ekki ný vél heldur „gamla“ vélin, sem SKÝRR lagði af þegar sú stofnun fékk nýja vél. Gerður var sérstakur samningur milli Háskólans og IBM á Íslandi um þessi viðskipti, og að Háskólinn fengi tölvuna endurgjaldslaust til þriggja ára, sem urðu raunar fjögur.

Ekki voru allir hrifnir. Til var „starfshópur um auðhringi“ sem taldi þetta misráðið, í honum voru „nokkrir kunnáttumenn“ eins og það var orðað í Þjóðviljanum. Þeir töldu að tölvan væri úrelt, illseljanleg og dýr í rekstri og því eðlilegt að greitt væri með henni. Niðurstaða þeirra var „að menntunaraðstaða Háskóla Íslands megi aldrei miðast við hagsmuni utanaðkomandi aðila og fjölþjóða fyrirtæki, svo sem IBM, gefi ekki slíkar gjafir, nema það samræmist hagsmunum þeirra.“[11]

Um líkt leyti og RHÍ fékk tölvuna gaf menntamálaráðuneytið út reglugerð um starfsemi Reiknistofnunar þar sem hlutverk hennar er skilgreint í fjórum liðum: Hún skyldi annast rekstur reiknimiðstöðvar við Háskóla Íslands, úrvinnslu verkefna kennara, nemenda og annarra starfsmanna, annast reikniþjónustu fyrir aðila utan Háskólans og gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum til að kynna nýjungar.

Gamla tölvan var enn í kjallara Raunvísindahússins en Reiknistofnun fékk inni með þá „nýju“ í Verkfræðihúsi 1, sem þá var risið í grennd við Árnagarð. Hún þurfti annað atlæti en sú gamla, meðal annars varð að setja upp loftkælingu fyrir hana og hækka upp gólfið þar sem henni var komið fyrir. Á nýja staðnum komust í framkvæmd hugmyndir Jóns Þórs um þjónustuhlutverkið við nemendur og kennara. Með breytingum og umbótum gátu þeir sem nýttu sér þessa þjónustu einfaldlega gatað sín spjöld, farið svo með þau suður í Reiknistofnun, sett þau í lesarann og ýtt á takka. Þá fór lesarinn í gang, og menn gengu að prentaranum og sóttu útskriftina.

Nokkru síðar var keyptur Calcomp-tölvuteiknari ásamt teikniforriti, og tölva af gerðinni PDP-11/34 frá Digital Equipment Corporation, DEC, til að stýra honum. Þetta var fyrsta tölva Reiknistofnunar sem búin var skjá sem setið var við meðan slegið var inn það efni sem tölvunni var ætlað að vinna úr. Annað sem telja má markvert við þessi tölvukaup er að Reiknistofnun átti ekki viðskipti við IBM á Íslandi heldur fyrirtæki sem hafði nýverið haslað sér völl á þessum vettvangi, Kristján Ó. Skagfjörð.[12]

Eins og rafmagn úr veggnum og vatn úr krana

Hér virðast hafa orðið nokkur tímamót í tölvuvinnslu á Íslandi er rétt rúmur áratugur var liðinn frá komu fyrstu tölvunnar til Íslands: afkastameiri tölvur en áður, þægilegri og einfaldari í notkun en verið hafði fram að því, hin nýja skilgreining á stöðu Reiknistofnunar Háskólans og það viðhorf forstöðumannsins að stofnunin væri fyrst og fremst þjónustustofnun, fyrir nemendur jafnt sem kennara og utanaðkomandi viðskiptavini. Stöðugt fleiri nýttu sér þessa þjónustu og jókst þá þörfin fyrir kennslu á þessu sviði. Tölvunarfræði var í mótun sem sérstakt fag og tók við af stærðfræði og reiknifræði, sem mörgum þóttu óaðgengileg fög. Þess í stað var megináhersla lögð á forritunina, sem allir þurftu að kunna skil á til að geta nýtt sér tölvutæknina, hvort sem það voru verkfræðingar, viðskiptafræðingar eða jafnvel félagsfræðingar. „Þetta var árið [1975] sem það að nota tölvutæknina byrjaði að verða þjónusta, eins og að fá rafmagn úr veggnum og vatn úr krananum,“ segir Jón Þór Þórhallsson, sem hvarf raunar eftir þetta frá Reiknistofnun, og tók við sem forstjóri SKÝRR 1. apríl 1977.[13]

Almennt má segja að stofnanir og fyrirtæki í ýmiss konar starfsemi og rekstri hafi á þessum tíma séð tækifæri í að taka tölvutæknina í notkun. Þar sem útreikninga var þörf mátti vænta þess að fólk liti tölvutæknina hýru auga. Verkfræðistofan Hnit fékk tölvu árið 1976 og hefur sennilega verið fyrsta verkfræðistofan sem það gerði. Guðmundur Björnsson sem þá var framkvæmdastjóri Hnits segir svo frá tölvukaupunum:

Hnit keypti fyrstu tölvuna, Data General, árið 1976 og var fyrsta verkfræðistofan til þess að taka tölvu í gagnið. Tölvan kostaði að mig minnir 19.476 USD og var hún 19 kg og án harðra diska. Seinna keyptum við sérstakan skáp sem var jafnstór og sjálf tölvan undir lausa harða diska sem voru 5 MB hver. Tölvan var með sérstaka stærð af diskettum sem við urðum að panta frá Data General í Danmörku. Tveimur árum seinna keyptum við svo fyrsta flat bed plottarann sem kom til landsins. Hann keyptum við frá litlu fyrirtæki í Freilassing í Þýskalandi á landamærum Austurríkis og Þýskalands.[14]

IBM og fjarvinnslan

Fjarvinnsla varð snar þáttur í starfi IBM á Íslandi, fyrirtækið þjónaði ýmiss konar samtökum og fyrirtækjum, stórum og smáum, opinberum og einkafyrirtækjum, á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Mestanpart var þetta runuvinnsla, upplýsingarnar voru slegnar inn og síðan keyrðar út í samfelldri lotu, eins og gert var þegar gömlu gataspjaldavélarnar voru notaðar. Ekki var farið út í beinlínuvinnslu í neinum mæli fyrir aðra en IBM sjálft.

Fyrsti formlegi samningurinn sem gerður var við IBM um úrvinnsluþjónustu var við Almennar tryggingar, um útgáfu á endurnýjunarkvittunum bifreiða- og brunatrygginga. Af öðrum stórum fyrirtækjum sem IBM vann fyrir má nefna Eimskip, Flugfélag Íslands, Útvegsbankann, Búnaðarbankann og Landsbankann, Sænska frystihúsið, Kaupmannasamtök Íslands og Olíuverslun Íslands; einnig má telja ýmis smærri fyrirtæki á ýmsum sviðum: Erfðafræðinefnd og ýmsa vísindamenn eins og dr. Stefán Aðalsteinsson, Sigurjón Björnsson sálfræðing og prófessor Jón Steffensen, Borgarspítalann og Ríkisspítala, Tryggingastofnun ríkisins, Íslenska álfélagið, Morgunblaðið og ýmis bifreiðaumboð. En þegar kom fram á seinni hluta níunda áratugarins hafði mjög dregið úr þessari vinnsluþjónustu enda hafði þeim fyrirtækjum fjölgað mjög sem höfðu eigin tölvudeildir og til sögunnar voru komin gagnanet og gagnabankar víða um heim, þótt internetið væri ekki fætt.[15]

Margvísleg vandamál leyst

Nýkrónan
Þegar skipt var yfir í nýkrónur árið 1981 og 100 gömlum krónum var breytt í eina nýja með því að fella tvö núll aftan af öllum upphæðum þurfti að leysa ýmiss konar vanda. Það var ekki nóg að breyta forritum; öll kerfi í gömlum tölvum geymdu gömlu krónuna. Þannig þurfti að búa til algilt kerfi. Lausnin fól bæði í sér leit að „pökkuðum“ tölum og meðhöndlun á undantekningum, meðal annars út af íslenskum stöfum. Heiðurinn af því að þróa þessa lausn átti Jón Vignir Karlsson hjá IBM en síðan þurfti að senda mann til að setja inn leiðréttingar út um allt land.[16]

Brennivínsvélin
Notendur IBM-tölvanna höfðu mismunandi þarfir og stundum þurfti að ganga nokkuð langt til að bjarga málum. Meðal viðskiptavina IBM var ÁTVR. Í verslun þeirra í Borgartúni kringum árið 1979 var sett upp vél, Series/1, til að hafa yfirlit yfir lagerinn. Ýmis mál þurfti að leysa til að hægt væri að nota þessa vél og hún var alls ekki rétta vélin í sum þau verkefni sem á henni hvíldu. Fyrstu árin var ekki hægt að hækka verð á áfengi án þess að breyta forritinu, því ekki var hægt að breyta tölustöfum í kerfi vélarinnar. Örn Kaldalóns hafði séð um að bjarga málum sem tengdust vélinni, en þegar hann flutti til Kanada nokkrum árum eftir að hún var tekin í notkun þurfti að búa svo um hnútana að unnt væri að hækka verðið án hans aðkomu. Eitt skiptið fékk Örn þó símtal til Kanada og hafði þá vélin bilað, en hún var ein þeirra sem þurftu alltaf að vera í gangi. Í ljós kom að enginn vissi almennilega hvar vélin var staðsett. Loks fannst hún í kompu og hafði ofhitnað. Eftir að hún hafði verið ryksuguð gekk hún aftur án vandkvæða. Þessi vél var í notkun í níu ár og var kölluð brennivínsvélin.[17]

Burroughs – annar brautryðjandi

Fyrirtækið Burroughs International var með starfsemi á Íslandi frá árinu 1965 fyrir bandaríska flugherinn á Íslandi. Starfsmaður Burroughs var Áki Jónsson, og fékk hann þjálfun hjá Burroughs í Sviss til að sjá um viðhaldsþjónustu á tölvukerfi bandaríska flughersins á Keflavíkurflugvelli. Hann fylgdi Burroughs til H. Benediktssonar hf. sem fékk Burroughs-umboðið um hríð. Árið 1974 stofnaði hann eigin fyrirtæki, ACO hf., ásamt Garðari Karlssyni og var einnig með Burroughs-vélbúnað. „Við vorum fyrst með þjónustu við Burroughs-tölvurnar en tókum síðan við umboðinu. Starfsemin vatt tiltölulega fljótt upp á sig því á þessum tíma var ný tækni að ryðja sér til rúms hjá prentsmiðjunum, þ.e. blýið var að detta út og tölvur að koma inn,“ er haft eftir Áka í viðtali við Morgunblaðið 1997.[18]

Samkeppnin eykst, Digital keppir við IBM 

Bein afleiðing af örri útbreiðslu tölvutækninnar var mikil þörf fyrir sérsmíðaðan hugbúnað af ýmsu tagi því ekki var í öllum tilfellum fullnægjandi að fá hugbúnaðinn tilbúinn frá útlöndum. Það skapaði ungum og tæknifróðum mönnum, körlum jafnt sem konum, ný tækifæri. Mörg hugbúnaðarfyrirtæki spruttu upp á þessum árum. Mörgum þeirra vegnaði vel en öðrum miður. Hér verða rakin fáein dæmi um það sem var að gerast og reynt að draga upp mynd af því helsta sem við var að glíma.

Kristján Ó. Skagfjörð (KÓS) – ungir stjórnendur breyta mörgu

KÓS var virt og gamalgróið innflutningsfyrirtæki af gamla skólanum, stofnað árið 1912, og flutti inn margs konar vörur eins og þá tíðkaðist: Matvörur, byggingarefni, vélar og tæki. Um 1970 hafði ný kynslóð tekið við rekstrinum og stjórnendur fóru að gæla við þá hugmynd að stofna tæknideild, sem byði upp á fjarskiptatæki fyrir skip og báta.[19] Árið 1975 var sérstök tölvudeild stofnuð hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð. Deildin var undir stjórn Frosta Bergssonar, ungs tæknifræðings sem átti eftir að láta mjög að sér kveða á þessum vettvangi. Hann náði samkomulagi við stóran bandarískan tölvuframleiðanda, Digital Equipment Corporation, um innflutning á tölvum og bauð viðskiptavinum hvort tveggja: viðgerðaþjónustu á sjálfum vélunum og hugbúnaðarþjónustu.[20]

365 fyrirtæki Kristján O Skagfjörð 2
Frosti Bergsson við tölvuviðgerðir hjá KÓS. DV, 1979. Ljósmyndari: Einar Ólason. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Fyrsta tölvan sem Reiknistofa Háskólans keypti sem var ekki frá IBM var Digital frá Kristjáni Ó. Skagfjörð (KÓS). Tölva Reiknistofnunar var ekki fyrsta Digital-tölvan sem kom til Íslands. Fyrsta Digital-tölvusamstæðan frá Skagfjörð var afhent Almennu verkfræðistofunni snemma árs 1976. Þetta var öflug tölva (PDP 11/04) eftir því sem gerðist á þeim tíma og sérstaklega sniðin fyrir vísindastarfsemi. Hún hafði 32 kílóbæta minni, tvöfalda diskettustöð, myndskjá, lyklaborð og prentara, sem einnig hafði lyklaborð. Stýrikerfið var þannig úr garði gert að mögulegt var að nota algengustu forritunarmálin sem þá voru í notkun: Fortran IV, BASIC, APL og ALGOL. Almenna verkfræðistofan varð þannig fyrsta verkfræðistofan á Íslandi sem tók fullbúna tölvu í sína þjónustu til verkfræðilegra útreikninga, ásamt bókhaldsverkefnum, og því markaði þetta nokkur tímamót í íslenskri tölvuvæðingu.[21]

Önnur tölva var hermir í Sjómannaskóla Íslands, var hann notaður við kennslu fyrir stýrimenn. Tölvan, Digital PDP 8, gegndi hlutverki hermis og gegnum hana var hægt að stýra skipi og sjá kort af landi.[22]

Síðan tókst hinum ungu stjórnendum nýrrar tölvudeildar KÓS að fá hverja ríkisstofnunina á fætur annarri til að kaupa Digital-tölvur: Vegagerðina, Póst & síma, Seðlabankann, Borgarspítalann, RARIK, Landsvirkjun. Eina tölvusamstæðu keypti Lífeyrissjóður verslunarmanna og Reykjavíkurborg keypti tölvu og hugbúnað fyrir borgarbókhaldið. Loks tókst Skagfjörð að krækja í sjálfa Reiknistofnun Háskólans, sem Frosti segir fjörutíu árum síðar að hafi verið einskonar gæðastimpill á Skagfjörð sem tölvusala og á Digital-tölvur. Hann telur sennilegt að þau kaup þessa frumkvöðuls í tölvuvinnslu á Íslandi hafi ráðið miklu um að svo margir ákváðu þegar fram liðu stundir að skipta við fyrirtækið.

Þótt tölvurnar væru býsna fullkomnar á þessa tíma mælikvarða þá var minnisskortur viðvarandi vandamál, einkum þegar vinna þurfti með mikið umfang gagna. Pétur Blöndal stærðfræðingur, sem var um þessar mundir að vinna fyrir Lífeyrissjóð verslunarmanna, stóð í því á nóttunni að þjappa gögnum, svo ekki þyrfti að kaupa eins mikið af diskum, auk þess að forrita á tölvunum. Þannig spöruðust nokkur megabæti, og hvert megabæti var dýrmætt og dýrt á þessum árum.[23]

Gísli Már Gíslason, sem einnig starfaði hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð á þessum tíma, segir að með vaxandi tölvunotkun hafi þörfin fyrir sveigjanleika aukist. Styrkur VAX-tölvukerfanna, sem KÓS flutti inn, var einmitt sveigjanleiki.[24] Auk þess voru tölvurnar 32 bita og mun hraðvirkari en fyrri gerðir tölva á þessum markaði og með meira minni.[25] Gísli Már heillaðist af samhæfingunni innan VAX-fjölskyldunnar, allt frá borðtölvum til mini-tölva, sem gátu unnið saman. Menn gátu keypt sér lítinn VAX og stækkað smám saman og nýtt stýrikerfi var ekki vandamál heldur var hægt að færa forrit á milli eininganna án mikillar fyrirhafnar.[26] Um VAX-kerfin segir í fréttabréfi KÓS frá árinu 1983:

Þó aðeins séu liðin 4 ár frá því að fyrsta VAX kerfið kom til landsins hefur útbreiðsla þess verið með ólíkindum og nú eru seld á annan tug slíkra kerfa. Fyrsta kerfið fékk Reiknistofa Háskólans árið 1979 og var það VAX-11/780 sem þá var hraðvirkasta tölvan hér á landi með tilliti til reiknihraða. Kerfi þetta markaði vissulega tímamót í tölvuvinnslu á Íslandi og ekki leið á löngu þar til aðrir fylgdu í kjölfarið, en það urðu Landsvirkjun og Rafmagnsveita Reykjavíkur. Notkun VAX kerfanna var í byrjun aðallega á tæknisviðinu en á síðustu árum hefur útbreiðslan einnig náð til viðskiptamarkaðarins og má þar nefna Sparisjóðinn í Keflavík, Verslunarbankann og Framkvæmdasjóð Íslands.[27]

Notkun fyrirtækisins á eigin tölvubúnaði er gott dæmi um tíðarandann. Gísli Már tók þátt í að skrifa bókhaldskerfi til innanhússbrúks í Fortran. Búnaðurinn var PDP-tölva með tveimur útstöðvum, annarri fyrir skrifstofuna en hin var skjár fyrir matvörudeildina. Pantanir voru skrifaðar á blað og afhentar stúlku sló þær inn í tölvuna. Fjölbreytt starfsemi var áfram innan fyrirtækisins og vaxandi tölvudeild með sautján starfsmenn var aðeins hluti af henni.[28]

KÓS ákvað snemma að semja við fyrirtæki í hugbúnaðargerð um samstarf, þannig að forritarar hugbúnaðarfyrirtækjanna skrifuðu hugbúnaðinn fyrir Digital-tölvur, sem fylgdi þá að sjálfsögðu með í kaupunum. Eitt af þessum hugbúnaðarkerfum var viðskipta-, fjárhags- og birgðabókhaldskerfið BIRKI, sem var hannað af Þróun, nýstofnuðu fyrirtæki Halldórs Friðgeirssonar. Einnig voru fullkomin birgðabókhaldskerfi sett upp hjá fjölda stofnana og fyrirtækja, meðal annars skipasmíðastöðinni Stálvík, fjölmörgum kaupfélögum, Sól hf., Héðni/Garðastáli og Kristjáni Ó. Skagfjörð sjálfum. Þá seldi Skagfjörð tölvur til Menntaskólans við Hamrahlíð, sem tók til starfa haustið 1966, til að halda utan um stundatöflu áfangakerfisins. Annað stórt og viðamikið hugbúnaðarkerfi seldi fyrirtækið með vélbúnaði sem var settur upp í loftskeytastöðinni í Gufunesi. Það hafði það hlutverk að hafa stjórn á samskiptum Gufuness við flugmenn sem fóru um flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland.[29]

365 Elías Davíðsson
Elías Davíðsson, einn fyrsti forritari landsins, 1981. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Heldur treglega gekk fyrir einkaaðila til að byrja með að komast inn á gafl hjá fjármálaráðuneytinu og ná samningum við ríkisfyrirtæki sem undir það heyrðu. Innandyra ríkti mikil tregða til að leyfa ríkisstofnunum að skipta við aðra en SKÝRR, sem hafði einmitt verið komið á laggirnar til að þjóna opinberum fyrirtækjum og stofnunum, og ráðamenn töldu að engin ástæða væri til að breyta því. Þetta varð til þess að bæði Vegagerðin og Póstur & sími þurftu að bíða í hartnær ár eftir að fá leyfi fjárveitingavaldsins til að leysa tæki sín úr tolli og byrja að nota þau. Það gekk ekki heldur baráttulaust að koma upp eigin, sjálfstæðu tölvukerfi á Borgarspítalanum, en hann hafði verið tengdur SKÝRR með símalínu um hríð og tölvuvinnsla spítalans farið fram þar. Elías Davíðsson, sem var einn af fyrstu forriturum landsins og starfaði um árabil hjá IBM á Íslandi, barðist fyrir því lengi á árunum í kringum 1980 að fá að kaupa tölvu fyrir spítalann. Það hafðist að lokum og varð fyrsta skrefið að tölvuvæðingu spítalanna í Reykjavík.

Þannig brotnaði ísinn á íslenskum tölvumarkaði, með innkomu Digital, og árið 1984 var Skagfjörð kominn með umtalsverða markaðshlutdeild á tölvumarkaðnum svo IBM bar ekki lengur þann ægishjálm yfir markaðnum sem fyrirtækið hafði áður gert.[30]

Skrifstofuvélar blanda sér í slaginn

Skrifstofuvélar voru gamalgróið fyrirtæki sem seldi, eins og nafnið bendir til, skrifstofuvélar af ýmsu tagi. Snemma á níunda áratugnum blönduðu Skrifstofuvélar sér í slaginn um sölu tölvubúnaðar.

Sigríður Olgeirsdóttir minnist þess er hún fór að vinna hjá Skrifstofuvélum árið 1984. Fyrirtækið var nýfarið að selja tölvur sem hétu Televideo, en höfðu áður aðeins selt ritvélar. Þá sárvantaði fólk sem hafði verið í tölvutengdu námi. Hún var kerfisfræðingur að mennt svo hún var umsvifalaust ráðin, gegnum síma. Hjá Skrifstofuvélum fékkst hún við að skrifa hugbúnað fyrir PC-tölvur, en hún hafði áður unnið í stórtölvu- og miðtölvuumhverfi. Um 1985 fóru Skrifstofuvélar síðan að selja IBM-vélar, System 34 og 36, sem voru mjög vinsælar á þessum tíma. Græni skjárinn sem einkenndi þessar tölvur olli því að þær og fleiri álíka tölvur voru kallaðar því virðulega nafni „græna slímið“. Vélin var ekki einkatölva (PC) heldur margir samtengdir skjáir og „það var mikil bylting þegar þessi vél kom,“ segir Sigríður. [31]

Gísli J. Johnsen – seldu IBM-PC

Fyrirtækið Gísli J. Johnsen var annað gamalgróið fyrirtæki sem fór að selja tölvur. Um tildrög þess sagði Erling Ásgeirsson, sem þá hafði nýverið keypt fyrirtækið, í viðtali við Frjálsa verslun 1985: „Það var árið 1982 að ég réðst í að kaupa þann hluta fyrirtækisins Gísla J. Johnsen sem seldi skrifstofuvélar og skrifstofubúnað.“[32] Erling hafði áður unnið hjá IBM. „Ári eftir að ég keypti fyrirtækið hófust viðræður við IBM um að fyrirtækið tæki að sér söluumboð fyrir IBM-PC tölvurnar sem þá voru nýjar á markaðnum. Þessar tölvur eru mjög hagkvæmar og góð sala hefur verið í þeim og hafa þær átt sinn þátt í aukningunni sem orðið hefur hjá fyrirtækinu. Sala á tölvum og tölvubúnaði er nú um helmingur af umsetningu fyrirtækisins.“[33] Fyrirtækið hélt áfram að selja skrifstofuvélar og búnað, svo sem ljósritunarvélar svo og rekstrarvörur, samhliða tölvunum.

Míkró – teiknaðir íslenskir stafir og PC-samhæfðar tölvur

Eitt af fyrirtækjum þessa tímabils var Míkró, sem Ágúst Guðmundsson og Eggert Claessen stofnuðu árið 1983. Fyrirtækið seldi bæði hugbúnað og vélbúnað. Míkró hóf að flytja inn OKI-prentara frá Japan snemma á níunda áratugnum og hugbúnað sem þeim fylgdu. Prentararnir slógu í gegn og í notkun þeirra voru ýmis tæknimál leyst. Til að mynda var hægt að setja upp íslenska stafi í þessa prentara. Aðferðin var nokkuð ólík því sem síðar var notað. Það þurfti hreinlega að teikna upp íslensku stafina. Á þessum tíma þurfti sérhver innflytjandi tölva og tölvubúnaðar að búa til sitt eigið stafasett. „Við fengum source-kóða frá OKI í Japan og gátum því gert allar þær breytingar sem við vildum. Við fórum líka að flytja inn IBM-eftirlíkingar af einkatölvum (IBM PC compatible).“ Þ-ið var ekki mögulegt að móta með 9 nála prentunum og ý var líka erfitt. Það var margt sem þurfti að lagfæra, til dæmis að stilla hvert bil sérstaklega milli stafa. Á þessum tíma var farið að prenta út eyðublöð fyrir C-gíró og fáir prentarar réðu við það aðrir en OKI-prentararnir. Félögunum hjá Míkró gekk verkefnið vel. Út frá þessum lausnum komu önnur verkefni. Árið 1985 var Marel í uppsveiflu og meðal annars var farið að bjóða upp á búnað frá þeim í sovéska togara. „Ég fékk það hlutverk að draga upp kyrillíska stafi fyrir Marel svo þeir gætu afhent sína prentara með kyrillísku letri,“ segir Ágúst Guðmundsson, og það gekk upp, þetta letur var notað með búnaði Marel.[34]

Iðntækni hf. – 100 fermetra skjámynd af skákum í einvígi Fischers og Spasskís 1972

Iðntækni hf. er fyrirtæki sem Gunnlaugur Jósefsson og fleiri stofnuðu með þróun rafeindatækja í huga. Fyrirtækið hannaði og hóf framleiðslu afgasmæla sem fylgdust með brennslunýtingu og álagi díselvéla fyrir skip, umferðateljara fyrir Vegagerð ríkisins og vélgæslukerfi til að greina bilanir, til dæmis í verksmiðjum, virkjunum og skipum. Í kjölfarið fylgdi hönnun á gjaldmælum fyrir leigubíla en vélrænir gjaldmælar, sem höfðu verið í íslenskum leigubílum um árabil, voru löngu úreltir og gátu ekki sýnt rétt verð vegna örrar verðbólgu. Einnig sá Iðntækni um uppsetningu fyrstu flugumferðartölvunnar í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, sem sýndi komu- og brottfarartíma.

skakeinvigid.mbl.7.juni.1972
Skákeinvígi Fishers og Spasskís kallaði á nýja notkun tölvutækni á Íslandi og sá Iðntækni um framkvæmdina. Morgunblaðið 7. júní 1972.

Þegar skákeinvígi Fischers og Spasskís var haldið á Íslandi sumarið 1972 var Iðntækni falið að hanna og setja upp búnað til að lýsa skákunum með því að varpa mynd á 100 fermetra sýningartjald fyrir ofan sviðið í Laugardalshöllinni.

Iðntækni átti drjúgan þátt í því að höggva skarð í þá yfirburðastöðu sem IBM hafði haft á Íslandi. Fyrirtækið seldi smátölvur frá Wang Laboratories og Texas Instruments. Þær voru með 80x24 stafa skjá og forritaðar með BASIC-túlki þannig að fá mátti villuviðbrögð við forrituninni um leið og innsláttarvillur slæddust inn. Tölvurnar voru þannig búnar að hægt var að afrita lausa diska gegnum þann harða. Þótt geymslurýmið (10 MB) þætti lítið núna dugði það til að halda úti vinnslu mismunandi kerfa á sömu tölvu með útsjónarsemi.

Heimilistæki – Wang sterkt vígi

Heimilistæki tóku fullan þátt í sölu á tölvubúnaði og tóku meðal annars við tölvukerfi Iðntækni. Það var þó salan á Wang-tölvum sem reyndist þeirra sterkasta vígi. Heimilistæki tóku við Wang-umboðinu 1977 og tíu árum síðar voru sextán manns starfandi við tölvudeildina, sem seldi vélbúnað og hugbúnað og sá um viðhald tölvanna. Hugbúnaðardeildin sá um aðlögun á hugbúnaði frá Wang og þýðingu forrita en sala á vélbúnaði og viðhaldsþjónusta var hryggjarstykkið í starfsemi deildarinnar.[35]

Radíóbúðin – Apple-tölvan var nýr heimur

Radíóbúðin stóð á gömlum merg í sölu útvarpstækja, sjónvarpa og hljómflutningstækja er fyrirtækið hóf sölu á tölvum frá Apple. Það var árið 1981. Apple-tölvan var auglýst mikið og auglýsingunum beint til einkaaðila og fyrirtækja, einkum þeirra smærri. Áhersla var lögð á fjölhæfni tölvunnar við að leysa flókin verkefni sem snertu verslun og rekstur fyrirtækja og í auglýsingu var Apple-tölvan nefnd „einkatölva deildarstjórans“ og kostum hennar lýst þannig:

Apple-tölvan er alveg nýr heimur. Heimur þar sem maður og tölva takast í hendur. Apple býður upp á þriðja kostinn, en ekki aðeins val milli risatölvu eða engrar. Apple er einkatölva, jafn auðveld í notkun og bifreið, en eins lítil og létt og ritvél, en álíka ódýr og venjuleg ljósritunarvél. Apple er tæki sem léttir þér störfin, eyðir pappírsflóði og gerir þér kleift að taka skjóta, en örugga ákvörðun. Apple-tölvan kannar fyrir þig afleiðingar væntanlegra ákvarðana þinna. Hún sér um að leysa stjórnunarverkefni (til dæmis fjárhagsáætlun, rekstraráætlun o.s. frv.) og getur jafnvel skrifað bréf og skýrslur. Apple er fjölhæft verkfæri, sem getur unnið eftir miklum fjölda forrita, hvort sem þú ert lögfræðingur eða læknir, sölu-, markaðs-, skrifstofu- eða fjármálastjóri.[36]

Apple-tölvurnar urðu ekki sterkar á markaði stórfyrirtækja, en náðu ágætri útbreiðslu í skólakerfinu[37] og meðal hönnuða og auglýsingafólks.

Bankakerfið

Á þessum árum fóru bankarnir í auknum mæli að uppgötva möguleika tölvutækninnar. Þeir fóru að nokkru leyti ólíkar leiðir en áttu samvinnu, flestir og stundum allir, á mörgum sviðum.

Forskot Iðnaðarbankans – stytti vinnutíma bankagjaldkera

Reiknistofa bankanna (RB) var og er eins konar taugamiðstöð bankakerfisins og leysti vissulega brýnt vandamál, sem var eftirlit með innistæðulausum ávísunum. En bankarnir voru eftir sem áður „handvirkir“ ef svo má segja því allar færslur voru skráðar í bakvinnslu og ýmist unnið úr þeim hjá RB eða hjá tölvudeildum bankanna. Iðnaðarbankamenn tóku sig til og tölvuvæddu bankann, fyrstan íslenskra banka, og tóku upp tölvuvætt afgreiðslukerfi og gjaldkeraafgreiðslu. Það var um mitt ár 1979 og Valur Valsson bankastjóri lýsti því þannig fyrir blaðamanni Morgunblaðsins

IBM 3600 kerfið er hannað með það fyrir augum að leysa á samræmdan hátt, í einu og sama kerfinu, öll verkefni innan bankans, sem krefjast beinna afnota af tölvu, eins og til dæmis allar tegundir afgreiðslu, fyrirspurnir viðskiptamanna og fleira í þeim dúr. [38]

Færslum í bankanum hafði fjölgað mjög árin á undan, um meira en 60% á árunum 1972–1976, og árið 1978 varð nærri þriðjungsaukning. Valur sagði að þetta hefði valdið nokkrum byrjunarörðugleikum en haft er eftir Ægi Hafberg, formanni starfsmannafélags bankans, í heilsíðugrein um málið í Morgunblaðinu að starfsmenn væru mjög ánægðir með þetta nýja kerfi, sérstaklega með þá ákvörðun bankans að hafa starfsfólk með í ráðum frá upphafi eins og gert hafði verið. Starfsfólkið var einnig almennt ánægt með það að í flestum tilfellum stytti hin nýja tækni vinnutíma gjaldkera bankans, þeir gátu kallað fram lokauppgjör á kvöldin og stemmdi það við peningana í kassa höfðu þeir lokið sínu verki. Þetta var alfarið framtak Iðnaðarbankans og stjórnstöð tölvunnar stjórnaði vinnslu afgreiðsluvélanna í aðalbankanum og útibúunum um símalínur. Ekki voru öll útibúin tengd við móðurtölvuna í aðalbankanum eins og hugmyndin var í upphafi því ekki hafði tekist að fá línu í Hafnarfjörð og lína til Akureyrar hefði orðið óheyrilega dýr hefði hún fengist á annað borð.[39]

Meðal þeirra sem unnu við forritun þessa nýstárlega tölvukerfis voru Halldór Friðriksson hjá IBM, Ólafur Rósmundsson hjá RB og Þorsteinn Hallgrímsson, sem starfaði þá hjá IBM á Íslandi. Hann segir að forvígismennirnir hafi fundið kerfi, sem notað var á Spáni, og fengið að kaupa það. Það var notað til að sjá um alla forritun á útstöðvum í bankanum, hjá gjaldkerum og utanumhaldið um þá þætti, og tengdi allt saman. Kerfið sá um alla umsýslu sparisjóðsreikninga bankans en aðrar gjaldkerafærslur, svo sem ávísanir, víxlar og fleiri færslur, voru færðar inn og sendar á hverju kvöldi til úrvinnslu hjá Reiknistofu bankanna.

Nokkrum árum síðar (1983­–1984) náðu hinir bankarnir samkomulagi um sameiginlegt útboð á gjaldkerakerfi fyrir alla bankana og þar urðu þau tíðindi að tekið var tilboði fyrirtækisins Einars J. Skúlasonar, sem var með Kienzle-gjaldkeravélar. Þetta var mikið áfall fyrir IBM, sem hafði verið allsráðandi á þessu sviði, en hins vegar mikil lyftistöng fyrir Einar J. Skúlason, sem varð síðar þekkt undir heitinu EJS sem síðar varð hluti af Advania. Á 70 ára afmæli EJS árið 2009 var þessi atburður rifjaður upp í tímaritinu Frjálsri verslun:

Árið 1984 gerði fyrirtækið samning við bankastofnanir um tölvuvæðingu afgreiðslustaða bankanna. Kerfið var mikið að umfangi, 130 miðlægar tölvur frá Kienzle, 500 vinnustöðvar fyrir gjaldkera og 600 afgreiðsluskjáir fyrir gagnaskráningu og upplýsingagjöf. Þetta var eitt stærsta tölvukerfi á landinu, enda notað í bankaafgreiðslu um land allt.[40]

Þorsteinn Hallgrímsson telur að ástæður þessa vals hafi verið margar, ein sú að stjórnendur bankanna hafi ekki viljað verða of háðir IBM heldur fá inn nýja birgja, jafnvel þótt þeir hefðu minni reynslu en IBM á Íslandi.[41] Samvinnubankinn klauf sig frá þessu sameiginlega útboði og úr varð að IBM skrifaði gjaldkerakerfi fyrir hann, sem var í eitt af fáum skiptum sem IBM á Íslandi tók að sér að forrita heilt kerfi.[42]

Tölvuvæðing stjórnsýslunnar

Furðu skammt er liðið frá því opinberir embættismenn sátu við púlt, með lindarpenna í hendi og færðu persónuupplýsingar þegnanna inn í prótókoll. Upphaf endaloka þess var tilkoma Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar árið 1952 og þunglamalegra skýrslugerðarvéla, sem spöruðu mörg handtökin við að halda uppi reglu og skipulagi í samfélaginu. Eftir að tölvuvæðing þessarar skýrsluvæðingar hófst, með tilkomu IBM-vélarinnar gömlu árið 1964, var þróunin hröð og þegar farið var að tengja tölvur saman með símalínum og senda gögn fram og til baka varð gerbreyting á stjórnsýslunni. Hjá SKÝRR hófst fjarvinnsla 1973 og beinlínuvinnsla 1977 sem opnaði nýja og áður óþekkta möguleika.

Bifreiðaskráin – uppflettingar allan sólarhringinn í fyrsta sinn

Mikilvægt skref í þeirri þróun var stigið snemma árs 1980, þegar lögreglustjóraembættið í Reykjavík var tengt SKÝRR og aðgangur opnaðist að bifreiðaskrá, sem starfsmenn Bifreiðaeftirlits ríkisins höfðu fært á tölvutækt form. Lögreglan í Reykjavík var tengd SKÝRR um mánaðamótin janúar­–febrúar og tveimur tölvuskjáum komið fyrir í lögreglustöðinni við Hlemm, öðrum í skrifstofunni og hinum í fjarskiptastöðinni, sem er opin allan sólarhringinn. Á þessum skjáum var hvort tveggja hægt, að skrá og fletta upp sektum og fletta upp í bifreiðaskrá, hvenær sólarhrings sem var, og var hvort tveggja lögreglumönnum til mikils hægðarauka í störfum þeirra.[43]

Átta árum eftir að bifreiðaskrá var tölvuvædd var ríkisstofnunin Bifreiðaeftirlit ríkisins lögð niður og stofnað nýtt hlutafélag, Bifreiðaskoðun hf. Ríkið átti helmingshlut, tryggingafélögin fjórðung hlutafjárins en Bílgreinasamband Íslands, Félag bifvélavirkja og Félag íslenskra bifreiðaeigenda samanlagt helming. Jafnframt var tekið upp nýtt kerfi skrásetningarnúmera bifreiða, svonefnt fastnúmerakerfi, í stað gamla kerfisins, þar sem númeraskiltin báru einkennisbókstaf hvers umdæmis og skiltin fylgdu eigendunum þegar skipt var um bíl.[44] Þetta nýja fyrirkomulag á bifreiðaskoðun vakti talsverðar deilur í þjóðfélaginu, ýmsir töldu skaðlegt að ríkið hætti að skoða bíla landsmanna og óttuðust margir að þjónusta við landsbyggðina myndi minnka. Einnig töldu menn að með þessu væri tvímælalaust stefnt í áttina til einkavæðingar, sem mörgum þótti miður gott. En í skjóli þessarar „hálfeinkavæðingar“ þróaðist sameiginlegur upplýsingabanki sem öll fyrirtæki í bílaiðnaði, tryggingafélög og lögregla nutu góðs af.

Skatturinn tölvuvæddur

Tölvuvæðing skattsins hófst í raun jafnskjótt og fyrir lá að Skýrsluvélar fengju sína fyrstu tölvu, haustið 1964. Í tilefni af því var Jón Zóphoníasson, starfsmaður hjá skattstjóra, sendur til Noregs að læra forritun hjá IBM í Osló á árinu 1962 og varð því einn hinna fyrstu hér á landi sem hlutu starfsheitið kerfisfræðingur. Í tengslum við þennan undirbúning var stofnað embætti ríkisskattstjóra, sem Sigurbjörn Þorbjörnsson gegndi fyrstur manna. Það embætti hafði yfirumsjón með framkvæmd þessarar tæknivinnslu um allt land. Snemmsumars 1964 héldu Jón og Óttar Kjartansson, einn af fyrstu starfsmönnum Skýrsluvéla, til Kommunernes hulkortcentral í Kaupmannahöfn til frekari úrvinnslu og prófana á forritum og frumdrögum verkefna, sem tölvan nýja var svo mötuð með.

Ýmsar breytingar voru að verða á skráningum hjá skattinum. Hætt var að raða framtalsmöppum eftir heimilisföngum eins og gert hafði verið og lét Hagstofan fyrir frumkvæði skattstofunnar og fleiri gera sérstakt fæðingarnúmer fyrir alla einstaklinga tólf ára og eldri. Nöfnum var raðað eftir stafrófsröð og hvert nafn fékk úthlutað ákveðnum fjölda númera með sex tölustöfum sem táknuðu fæðingardag, mánuð og ár, en aftan við það var bætt tveggja stafa tölu fyrir hvern og einn einstakling.[45] Þetta kerfi var tekið upp árið 1959 og í tengslum við það voru gefin út nafnskírteini. Árið 1978 var farið að gefa út launamiða sem tengdust nafnnúmerunum og voru notaðir við vélræna úrvinnslu álagningar. Árið 1980 var tekin í notkun ný gerð skattframtala þar sem hver reitur var númeraður og fjárhæðir vélskráðar í reitina. Með þessu jukust möguleikar á vélrænum samanburði upplýsinga.[46]

Með aukinni vélvæðingu stórjókst skráningarvinna hjá skattstjórum, sem ekki hafðist undan, þótt stærstu skattstofurnar fengju skráningarvélar sem flýttu mjög fyrir. En tækniþróunin var hröð. Árið 1980 var búið til eyðublað með nokkrum tugum reita sem voru allir tölvutækir þannig að keyra mátti allar upphæðir saman við önnur gögn, og voru það merkileg tímamót í sögu íslenska skattkerfisins. Önnur markverð tímamót voru tveimur árum síðar, þegar Innkaupastofnun ríkisins keypti 33 einkatölvur fyrir skattstofur landsins. Eftir útboð urðu fyrir valinu tölvur af gerðinni Tandy-Radio Shack, sem voru 64 kílóbæti, með átta tomma diskettustöð. Þær voru því ekki ýkja fullkomnar á nútímamælikvarða enda þótt þær væru fjölhæfar eftir því sem þá gerðist og gætu „talað“ við stóru tölvurnar. Skattstofurnar áttu til að mynda að geta skráð allar skattskýrslur á diskettu og sent upplýsingarnar símleiðis til Skýrsluvéla, sem reiknuðu út skattinn og sendu síðan útreikningana til baka símleiðis.[47]

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og starfsmaður skattstjóra á þessum tíma, rifjar upp að þessar tölvur hafi þó ekki reynst vel, þær hafi verið frumstæðar og tvískiptar, þannig að annars vegar voru vél og skjár í einu lagi, hins vegar stórt og mikið disklingadrif. „Þessum vélum var dreift á allar skattstofur landsins og til ríkisskattstjóra en þær þóttu nú ekki góðar og menn áttuðu sig fljótt á því að þessi kaup væru ekki til frambúðar, ef við getum orðað það þannig, þótt þau væru hagkvæm og ódýr,“ segir Skúli Eggert.

Einmenningstölvurnar, PC-tölvurnar, voru að verða algengar og 1984 var ráðist í að kaupa íslenskar Atlantis-vélar fyrir skattstofurnar. Ári síðar voru keyptar Island-vélar, einnig settar saman hérlendis, og IBM-vélar. Samtímis var farið að innleiða næsta stig þróunarinnar, beinlínuvinnslu, til að tengjast skrám hjá SKÝRR. Skúli Eggert rifjar upp þessa þróun frá bæjardyrum langreynds starfsmanns skattstjóra:

Ríkisbókhaldið, sem seinna varð Fjársýsla ríkisins, var að vinna að nýju tölvukerfi sem hét tekjubókhald ríkisins og var fyrst og fremst innheimtubókhald. Það var online-kerfi og fyrstu skjáirnir voru settir upp 1983 hjá Ríkisskattstjóra og svo fór þetta um landið. Ég man að á Skúlagötu var bara ein vél sem menn höfðu aðgang að og var fyrst og fremst notuð til að fletta upp í henni hvernig innheimta söluskattsins var og svo framvegis. Þarna voru einnig önnur kerfi, bifreiðaskrá, fasteignaskrá og eitthvað fleira, og þetta hélst í hendur: annars vegar að koma verkfærum út á skattstofurnar og síðan að taka upplýsingarnar úr framtölunum og fá lista inn til baka.[48]

Seint á árinu 1986 var síðan unnt að skoða framtölin á skjá og starfsfólk skattsins þurfti ekki lengur að hafa pappírsútgáfu fyrir framan sig. Þetta var í upphafi frumstætt að því leyti að hefðu verið gerðar breytingar á framtalinu sáust þær ekki á skjánum, aðeins frumskjalið. En úr því var bætt fljótlega. Með sívaxandi gagnamagni kom í ljós að nafnnúmerakerfið var sprungið. Þess vegna þurfti að byrja að endurnýta nafnnúmer látins fólks, sem gat komið sér afar illa. Því var ákveðið árið 1987 að taka upp nýtt kerfi, sem gert var úr fæðingarnúmeri hvers einstaklings, að viðbættum fjórum tölum, sem fundnar voru eftir ákveðnu kerfi, og var þetta nefnt kennitala. Með beinlínuvinnslu hjá SKÝRR hófst á þessu ári enn einn þáttur í tæknivæðingunni: hægt var að fletta upp hverjum og einum einstaklingi eftir kennitölu og skoða á tölvuskjá allar skráðar upplýsingar.

Ýmsar stofnanir og fyrirtæki þurftu að gera breytingar hjá sér til að taka upp nýju kennitölurnar og tengja þær við gömlu nafnnúmerin. Arnheiður Guðmundsdóttir, sem vann hjá Ríkisspítölunum, greinir frá því hvernig farið var að því að flytja síðasta kerfi spítalans, bólusetningarkerfi fyrir rauða hunda, milli tölva spítalans:

Ástæðan fyrir því að þetta kerfi var enn á PDP-vélinni var sú að það átti eftir að finna kennitölur allra sem voru með gögn í kerfinu en byrja átti að nota kennitölur þann 1. jan. 1987. Gömlu gögnin voru geymd niður á nafnnúmer einstaklings en þar sem um langa sögu af gögnum var að ræða var búið að endurnýta nafnnúmer margra þar sem það var alltaf gert þegar einhver lést að nafnnúmerið hans var nýtt aftur. Nafnnúmerum, sem var átta stafa númer, var úthlutað í stafrófsröð og var númerakerfið löngu sprungið. Því var til í dæminu að eitt nafnnúmer í gamla tölvukerfinu tilheyrði jafnvel þremur einstaklingum og þurfti að leggjast í heilmikla vinnu við að finna út hvaða gögn tilheyrðu hvaða einstaklingi þegar gögnin voru tengd við kennitölur, sem var nýtt tíu stafa kerfi[49]

Kennitölurnar byggðust á fæðingardegi viðkomandi, ásamt tveimur raðtölum og einni vartölu og síðan auðkenndi síðasti stafurinn á hvaða öld viðkomandi var fæddur.

Slagurinn um kreditkortin

Á seinni hluta níunda áratugarins kynntust Íslendingar nýju greiðslufyrirkomulagi á ferðum sínum erlendis: greiðslukortum. Þau voru ekki gjaldgeng á Íslandi, en snemma á árinu 1980 var farið að aflétta gjaldeyrishömlum sem lengi höfðu gilt. Í framhaldi af því veitti Seðlabankinn heimild til þess að úthluta mönnum greiðslukortum, „sem sannanlega þurfa þeirra með“. Þetta voru fyrst og fremst embættismenn sem ferðuðust á vegum ríkisins, kaupsýslumenn og aðrir sem önnuðust erindisrekstur erlendis. Sigurður Jóhannsson hjá Seðlabankanum sagði við Morgunblaðið að þetta væri öryggisráðstöfun „því að víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, gæti verið erfitt að komast inn á hótel án slíkra greiðslukorta.“[50]

Ekki var því verið að innleiða almenn greiðslukort á Íslandi heldur voru þau bundin við kort útgefin af íslenska Seðlabankanum og háð allmiklum takmörkunum. En innan skamms tryggði framtakssamur Íslendingur að næsta skref yrði stigið.

Haraldur Haraldsson athafnamaður var á ferð vestur í Bandaríkjunum 1979 og lenti í ýmsum óþægindum sakir þess að hann var ekki með greiðslukort eins og orðið var alsiða vestanhafs. Því ákvað hann að taka höndum saman við Gunnar Bæringsson, Gunnar Þór Ólafsson og fleiri um að stofna greiðslukortafyrirtæki, sem fékk nafnið Kreditkort. Það var stofnað 13. janúar 1980 og hóf starfsemi hér á landi 10. júlí með því að gefa út bankakort í samstarfi við fyrirtækið Eurocard. Á blaðamannafundi skýrðu þeir frá því að á annað hundrað verslana og þjónustufyrirtækja hefðu þegar ákveðið að taka upp þessa þjónustu. Eitthvað var um að stór fyrirtæki neituðu að taka við þessum kortum, þar á meðal voru Flugleiðir, Hótel Saga, Hótel Borg og Rammagerðin.[51] Á kynningarfundinum kom fram að allir gætu sótt um að fá kreditkort en ekki væri þó unnt að verða við öllum umsóknum, aðeins þeir sem „kunnir væru af skilvísi gætu fengið kortin, og þau yrðu ekki endurnýjuð nema korthafar sýndu skilvísi og áreiðanleik“.[52] Önnur takmörkun á notkun greiðslukorta í byrjun var sú að enn mátti ekki nota þau erlendis, vegna strangra gjaldeyrisreglna. Þó hafði Seðlabankinn losað lítillega um höftin þannig að Íslendingar gátu notað kreditkort erlendis með vissum skilyrðum og rætt var um að reglurnar yrðu rýmkaðar enn þannig að Kreditkort gætu gefið út alþjóðlegt Eurocard.[53]

Tæpum tveimur árum síðar hóf Landsbankinn útgáfu Visa-korts en merkilegt er að það virðist litla sem enga athygli hafa vakið í fjölmiðlum. Vorið 1983 stofnuðu fimm bankar og þrettán sparisjóðir með sér nýtt kortafyrirtæki, Visa-Ísland (nú Valitor), sem gaf út Visa-kort til notkunar erlendis samkvæmt gildandi reglum gjaldeyrisyfirvalda og stefnt var á að gefa út slík kort til notkunar innanlands.[54]

Ekki leist öllum vel á þennan nýja greiðslumáta, ýmsir spáðu að hann yrði til mikillar bölvunar. Haraldur rifjaði þetta upp í samtali við Morgunblaðið þegar þrjátíu ár voru liðin frá stofnun Kreditkorta hf., og sagði þá meðal annars: „Kreditkort mættu óskaplegum mótbyr í fyrstu. Kortin áttu að auka verðbólgu, þrengja að kaupmönnum og koma neytendum í skuldafen enda hækkuðu þau vöruverð. Einn þingmaður líkti kortum við eiturlyf þegar málið kom til umræðu á Alþingi og fjölmiðlar fóru hamförum.“[55] Þetta var nú fullmikið sagt því sé litið yfir fjölmiðlaumfjöllunina reynist hún hafa verið nokkuð yfirveguð, þótt hörð gagnrýni sæist líka.

Handraðar/tölvubankar/hraðbankar

Þegar hér er komið sögu höfðu um nokkurt árabil verið í notkun erlendis vélar sem nefndar voru ATM (automated teller machine). Ekki bólaði þó á slíkum vélum hérlendis og áfram voru skrifaðar pappírsávísanir, en innistæðulausar ávísanir voru ekki mikið vandamál lengur. Það var ekki fyrr en einn bankanna tók sig til og setti upp sína eigin kassa að hreyfing komst á málið. Aftur var það Iðnaðarbankinn sem reið á vaðið.

Iðnaðarbankamenn settu upp fyrsta sjálfvirka peningakassann á Íslandi í anddyri aðalbankans við Lækjargötu haustið 1984 og nefndu fyrirbærið „tölvubanka“. Þar áttu viðskiptavinir bankans að geta tekið út peninga af ávísanareikningi eða sparisjóðsreikningi sínum hvenær sólarhrings sem var, með sérstöku lykilkorti sem bankinn útvegaði og veitti þeim aðgang að anddyri bankans og þessu peningatæki sjálfu, sem tengt var inn í bankann með símalínu. Morgunblaðið hafði eftir Ragnari Önundarsyni bankastjóra í viðtali að skoðanakönnun hefði sýnt að viðskiptavinir ættu þá ósk helsta að afgreiðslutími bankans yrði lengdur, og þetta væri svar við því.[56]

hradbanki.idnadarbankans
Tölvubanki Iðnaðarbankans, 1984. Nú er þessi þjónusta þekktari sem hraðbanki.
NT, 20. nóvember 1984.

Uppsetning „tölvubankanna“ hafði verið undirbúin með mikilli leynd veturinn 1983 til 1984 og þetta átti að koma keppinautunum á óvart, líkt og gjaldkerakerfið tölvuvædda áður. „Iðnaðarbankinn var alltaf að stríða hinum bönkunum,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson, sem tók þátt í þessum undirbúningi á vegum IBM, ásamt öðrum starfsmanni IBM, Bergþóru K. Ketilsdóttur. Yfirleitt voru hraðbankarnir í stórtölvuumhverfinu en Iðnaðarbankinn var með IBM System/36[57] og það var óvenjulegt. En í Bandaríkjunum fannst kerfi sem leyfi fékkst fyrir og var það notað. Örtölvutækni smíðaði kortalesara fyrir Iðnaðarbankann, sem las öll kort og stýrði opnun inn að tölvubankanum.[58]

Þessum nútímalegu bönkum tölvualdar fjölgaði næstu mánuði, þeir voru orðnir fjórir í janúarlok 1985 og meðal annars var opnaður tölvubanki á Akureyri.[59] Í mars var svo opnaður fyrsti tölvubankinn utan banka, í Vörumarkaðnum á Eiðistorgi, raunar áður en formlegt leyfi hafði borist frá bankaeftirlitinu og viðskiptaráðuneytinu.[60] Leyfið barst eftir nokkurn drátt. Nýja tæknin olli mikilli breytingu á bankaviðskiptum. Matthías Á. Mathiesen, viðskipta- og bankamálaráðherra, komst að þeirri niðurstöðu að tölvubankarnir væru hvorki bankaútibú né umboðsskrifstofur „heldur miklu frekar eins konar sími eða frímerkjasjálfsali, langt frá póststöð“ og þar af leiðandi þyrfti ekki sérstakt leyfi til að setja upp „sjálfvirka afgreiðslukassa (tölvubanka)“.[61]

Að áliðnum apríl var orðið ljóst að viðskiptavinir höfðu tekið þessari nýjung fegins hendi því 65% afgreiðslu tölvubankans voru utan almenns afgreiðslutíma og í framhaldi af því buðu Iðnaðarbankamenn forráðamönnum annarra banka að nota tölvubankakerfi sitt.[62]

Ráðamenn Búnaðarbankans og Landsbankans sáu sitt óvænna og auglýstu þegar í apríllok að þeir hygðust standa að því sameiginlega að setja upp „kortavélar“ sem þeir nefndu hraðbanka og buðu fleiri bönkum með. Einhverjum fannst sem Iðnaðarbankamenn hefðu þjófstartað. En ráðamönnum Iðnaðarbankans var þó boðið að sitja fund um þennan fyrirhugaða, sameiginlega hraðbanka.[63]

Orðið „tölvubanki“ virðist hafa verið notað yfir hraðbanka til að byrja með og einnig „handraði“. En haustið 1985 birtist í blaði Sambands íslenskra bankamanna, Sambandstíðindum, þessi klausa: „Það er athyglivert, að nafnið „tölvubanki“ virðist ekki eiga uppá pallborðið hjá öllum bönkunum, því nafnið „hraðbanki“ heyrist æ oftar.“[64] Rafrænir gagnabankar voru einnig nefndir tölvubankar og því gat orðið ruglingur.

Iðnaðarbankamenn buðu 14–18 ára táningum aðgang að tölvubankaþjónustu síðsumars 1985, með svonefndu T-korti.[65] Um haustið gátu viðskiptavinir greitt reikninga sína í tölvubönkunum, allt að 99.999 krónum, og sagt var að bankinn væri sá fyrsti í Evrópu sem byði upp á slíka þjónustu.[66]

Þótt Iðnaðarbankamenn sætu einn undirbúningsfund um opnun hins almenna hraðbankakerfis voru þeir ekki með og svar við tölvubanka þeirra sá ekki dagsins ljós fyrr en 15. apríl ári síðar. Þá opnuðu viðskiptabankarnir, að Iðnaðarbankanum undanskildum, ásamt sparisjóðunum, loksins sína hraðbanka byggða á sameiginlegu kerfi, tíu talsins á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Gefin voru út hundrað þúsund bankakort sem nota mátti í hraðbönkunum og sem ábyrgðarkort við tékkaviðskipti.[67]

Þegar hér er komið sögu hafði tölvutæknin breiðst út um allt þjóðfélagið, í fyrirtækjum og stofnunum, sem gerði að verkum að unnt var að skrá upplýsingar af meiri nákvæmni en áður. Þorsteinn Hallgrímsson bendir á að meginbreytingarnar séu í rauninni tvær:

Reiknistofan hafði gífurlegar breytingar í för með sér í íslensku fjármálalífi, vegna þess að þar sameinaðist allt undir einum hatti, þá var hægt að gera þetta allt á einum stað, sem lagði grunn að því sem síðar gerðist. Í framhaldi af því kom fjarvinnslan og beinlínuvæðingin, fyrst gegnum runuvinnslu. Diskettustöðvar voru út um allt land þar sem allar ávísanir voru skráðar og sendar inn til Reiknistofu á nóttunni þannig að ekki var lengur hægt að leggja tékka inn á einum stað, til að mynda á Raufarhöfn, sem síðan kom fram þremur eða fjórum dögum seinna.[68]

Íslenskt tölvuvor

Verulegt líf var nú komið í umræður um tölvutæknina og hvernig mætti nýta hana, meðal annars í skólakerfinu. Í september 1982 var haldin í Reykjavík ráðstefna norrænu tölvusamtakanna (NDU = Nordisk databehandling union) sem 130 manns sóttu, svipaður fjöldi frá hverju Norðurlandanna. Þar var fjallað um tölvumál og menntun, með áherslu á almenna fræðslu um tölvutækni í skólum í tíu erindum. Á vegum menntamálaráðuneytisins voru starfshópar að fjalla um menntun kennara á grunn- og framhaldsskólastigi og tölvufræðslu í almennu námi og tækninámi. Þá var verið að undirbúa kaup á tölvubúnaði fyrir framhaldsskólana.[69]

Á útmánuðum 1983 rann upp tími tölvusýninga á Íslandi. Í mars stóð Félag tölvunarfræðinema í Háskóla Íslands fyrir Tölvusýningu í Tónabæ þar sem öll helstu tölvufyrirtæki landsins voru með sýningarbása og tölvunarfræðinemar kynntu námið, en það stunduðu þá áttatíu manns, og ríflega þrjú þúsund manns sóttu sýninguna.[70] Tölvunarfræðinemar auglýstu sýninguna í sjónvarpi en gátu ekki nýtt sér kosti tölvutækninnar við auglýsingagerðina, frekar en aðrir á þeim tíma, heldur skröpuðu stafi á spjald að þeirra tíma hætti.[71] Um haustið efndu Skýrslutæknifélag Íslands og Stjórnunarfélagið til sýningar sem nefndist „Skrifstofa framtíðarinnar“, sem var stærsta tölvusýning á Íslandi fram að því. Jafnframt var haldin á opnunardaginn málstefna undir sömu yfirskrift. Sýningin fór fram í Húsgagnahöllinni á Bíldshöfða og sýnendur voru tuttugu á 700 fermetra sýningarsvæði. Þar voru sýndar allar helstu nýjungar í tölvutækni, frá smátölvum til stærri véla og áhersla lögð á að sýna hvernig skrifstofusjálfvirkni gekk fyrir sig, með samtengingu ólíkra kerfa og verkþátta. Um 5000 manns sóttu sýninguna.[72] Á þessari sýningu var forveri Macintosh-tölvanna frá Apple sýndur, LISA, en það var fyrsta tölvan sem stýrt var með „mús“. Fleiri fylgdu í kjölfarið, Rainbow-tölvurnar frá Digital voru til dæmis með mús og þótti það mikið skref í framfaraátt.

Í janúarlok 1984 stóð Kennaraháskóli Íslands fyrir tölvusýningu með þátttöku fjölda fyrirtækja sem versluðu með tölvur og/eða tölvutengdar vörur og hugbúnað. Í tengslum við hana fjölluðu Jón Torfi Jónasson lektor, Karl Jeppesen deildarstjóri og Sævar Hilbertsson yfirkennari um tölvur og skólastarf.[73] Enn var opnuð mikil tölvusýning í marslok, aftur í Tónabæ, sem IBM á Íslandi stóð fyrir í samvinnu við aðra sem seldu IBM-einkatölvuna, Gísla J. Johnsen hf., Skrifstofuvélar hf. og Örtölvutækni sf. annars vegar en hins vegar ýmsa framleiðendur og þjónustufyrirtæki fyrir tölvur, Kerfi hf., Frum hf. og Tölvubankann. Áhersla var lögð á að sýningin væri aðgengileg jafnt fyrir lærða sem leika enda var aðsóknin góð, raunar hin mesta að slíkri sýningu til þessa en um 9000 manns litu inn þá daga sem hún stóð, frá miðvikudegi og út helgina.[74]

Það var einmitt á slíkri sýningu í mars 1984 í Tónabæ sem Örtölvutækni sýndi nettengingu, þar sem tengdar voru saman PC-tölvur í net. Árið 1983 hafði Novell komið með slíka lausn fram á sjónarsviðið, NetWare, en Örtölvutækni var með aðrar tengingar og búnað, Kovac og Arcnet. „Jú, jú, þetta virkaði, en það var ekkert auðvelt að halda utan um þetta og stækka,“ sagði Arnlaugur Guðmundsson.[75]

Vaknandi hugbúnaðariðja

Óhætt er að segja að hugbúnaðargerð á Íslandi hafi blómstrað fram eftir níunda áratugnum. Morgunblaðið gerði úttekt á þessari nýju grein árið 1985 og komst að þeirri niðurstöðu að gerð forrita og hönnun tölvugerða væri orðinn „vænlegur og hraðvaxandi atvinnuvegur á Íslandi“ og gera mætti ráð fyrir því að í þeirri grein væru á milli þrjátíu og fjörutíu fyrirtæki, og þar störfuðu 300–400 manns.

Af þessum blómlegu hugbúnaðarfyrirtækjum nefnir blaðið Frum hf., Íslenska forritaþróun, Proco, Rekstrartækni, verkfræðistofuna Streng, Tölvuvinnslu og kerfishönnun (TOK), Tölvubankann, Tölvuþekkingu, Vistfang og Þróun. Allt voru þetta lítil fyrirtæki með örfáa starfsmenn, einstaka þó allt upp í 15–20, meðal þeirra verkfræðistofur sem höfðu starfað um nokkurt árabil en bætt hinni nýju tækni við starfsemi sína. Flest fengust þau á einn eða annan hátt við verkefni á sviði viðskipta og tækni fyrir fyrirtæki og stofnanir, önnur einbeittu sér aðallega að þróun sérhæfðs hugbúnaðar sem tengdist ákveðnum verkefnum innan fyrirtækja, eða þróuðu staðlaða forritapakka sem boðnir voru á almennum markaði. Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel farin að flytja út hugbúnað og bjóða stöðluð forrit til sölu erlendis. Þar fyrir utan voru fyrirtæki sem seldu vélbúnað, svo sem IBM á Íslandi, Gísli J. Johnsen, Atlantis, Microtölvan, Kristján Ó. Skagfjörð og Radíóbúðin, en stunduðu öll einhverja forritaþróun að auki, ekki síst IBM. Á þessum tíma voru einnig tekin til starfa íslensku rafeindafyrirtækin Póllinn á Ísafirði og Óðinn í Vestmannaeyjum.[76]

Nú var hugbúnaðarfólk farið að sérhæfa sig meira en áður hafði verið. Gunnar Ingimundarson, einn stofnanda Hugar hf., hafði starfað áður hjá Félagi íslenskra iðnrekenda, sem var forveri Samtaka iðnaðarins. Hann þekkti vel þarfir iðnaðarins og vildi gjarnan sérhæfa sig á því sviði.

Hugur hf. var fyrirtæki sem ætlaði að sérhæfa sig í hugbúnaði fyrir íslensk fyrirtæki, framleiðslufyrirtæki og slíkt, sem voru með eigin hugbúnað eða annan hugbúnað sem við ætluðum að staðfæra og laga að þörfum fyrirtækjanna. [77]

Auk þess að vinna að þessu setta marki átti Hugur hf. eftir að blanda sér í ýmsa aðra þróun á íslensku hugbúnaðarsviði, meðal annars með aðkomu að útbreiddum viðskiptalausnum.

Ævintýri ungu mannanna

Fjölmiðlaumfjöllun um þá sem athygli vöktu í upplýsingatækniheiminum fór vaxandi. Oft voru það ungir menn, sumir með tölvunarfræðinám frá Háskólanum að baki, en alls ekki allir. Þeir áttu það flestir sammerkt að hafa kynnst tölvuheiminum, „ánetjast“ honum og sumir stofnað fyrirtæki í forritaþróun. Margir urðu gerendur í heimi tölva og hugbúnaðar um langt skeið. Friðrik Sigurðsson, Frosti Bergsson og Bjarni Júlíusson voru þeirra á meðal en hér verður sagt frá þeim frumkvöðli sem kom hvað yngstur fram á sjónarsviðið, Vilhjálmi Þorsteinssyni. 

„Undrastrákurinn“

Vilhjálmur Þorsteinsson var aðeins nítján ára að aldri þegar hann fór að gera sig gildandi í forritaþróun. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð um áramótin 1984–1985, en rak þá í félagi við Örn Karlsson hugbúnaðarfyrirtækið Íslenska forritaþróun sf. Þeir höfðu fimm manns í vinnu og fyrirtækið hafði fyrir áramótin selt bókhaldsforrit fyrir örtölvur til yfir hundrað fyrirtækja hér á landi og flutt út „hugbúnað til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins“ eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við Morgunblaðið.[78] Það er því ekki að undra þótt þeir hjá hinum hugbúnaðarfyrirtækjunum hafi kallað hann „undrastrákinn“.

JIM 011 019 4 4
Febrúar 1984, Lagningardagar í MH. Nemendur í Hamrahlíðarskóla að vinna sem hjónabandsmiðlarar, nota tölvu til þess og mata hana á upplýsingum. Vilhjálmur, Jón og Ágúst sáu um miðlunina. Standandi þriðji frá vinstri er Vilhjálmur Þorsteinsson, sem þá var menntaskólanemi. Ljósmyndari: Jim Smart. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Vilhjálmur var ekki nema þrettán eða fjórtán ára þegar hann fékk áhuga á tölvum og elektróník og þreifaði sig áfram við að setja saman lítil rafeindaspjöld. Þetta var á árunum 1978 og 1979, þegar fyrstu einmenningstölvurnar voru að koma fram, fyrst í Bandaríkjunum og síðan í Evrópu: Apple 2, Commodore PET (kom fram 1977), TRS 80 og nokkur önnur merki. Hér fóru nokkrir frumkvöðlar að flytja inn einkatölvur: Radíóbúðin tryggði sér mjög snemma umboð fyrir Apple, og Þór í Ármúlanum, sem seldi annars dráttarvélar, tryggði sér umboð fyrir Commodore-tölvur. Síðar komu Sinclair og Spectrum frá Bretlandi, 1981 eða 1982, og voru seldar í póstverslun á mjög lágu verði, kostuðu 70–80 sterlingspund. Commodore sló í gegn, seldist í hundruðum þúsunda eintaka og var fyrsta teikn um komandi einmenningstölvubyltingu. Vilhjálmur Þorsteinsson rifjar upp þessa tíma:

Því spáð að það ætti eftir að verða mikil bylting þegar tölvurnar yrðu orðnar svo litlar og aðgengilegar að þær yrðu á hvers manns borði, á skrifstofum og víðar. Hjá BBC voru gerðir sjónvarpsþættir sem hétu „The Mighty Micro“, „Hin máttuga örtölva“, sem voru sýndir hér á landi. Þar flutti maður sem hét Christopher Evalds pælingar sínar um þessa tölvubyltingu, sem væri að fara að skella á, og hvaða breytingar það myndi hafa í för með sér. Andrúmsloftið var þannig að menn þurftu að kynna sér þetta og vera með, annars gætu þeir misst af einhverri lest og það lá einhver spenningur í andrúmsloftinu.

Ein af leiðunum til að fylgjast með var að lesa tölvutímarit, sem þeir hjá Bókabúð Braga á Hlemmi voru duglegir við að flytja inn. Menn skráðu sig í áskrift og þeir tóku frá blöð handa manni, til dæmis Personal Computer World, sem var helsta breska blaðið og mikið keypt hér. Þetta las maður algjörlega upp til agna til að fylgjast með. Þar las ég um Apple-tölvuna og um gervigreind. Það var mikil gróska og mörg ný merki komu fram, til að mynda Commodore PET, og það er athyglisvert að lesa í þessum blöðum nú, sjá svona eftirá hvað var að fæðast á þessum tíma.[79]

Vilhjálmur var einn þeirra sem ráku augun í auglýsingar Tölvuskólans haustið 1979 og segir 35 árum síðar að sér hafi sýnst þetta vera kjörið tækifæri fyrir sig. Hann hafi aldrei séð tæki sem þessar Commodore-tölvur nema í blöðum og mætti á fyrstu kynningu hjá Reyni Hugasyni, settist við eina tölvuna og hafði meðferðis forrit sem hann hafði skrifað í forritunarmálinu BASIC og ætlaði að hamra það inn á tölvuna.

Það gekk og karlinn tók eftir mér, hann hefur séð eitthvað í mér því hann bauð mér vinnu við að þýða forrit úr ensku á íslensku fyrir þessa tölvu. Hann hafði keypt safn af forritum á kassettum frá útlöndum og ætlaði að þýða sum þeirra á íslensku og selja hér – ætlaði ekki að borga höfundarrétt eða neitt! Ég var ráðinn í þessa sumarvinnu, að þýða textann með þessum forritum á íslensku og þannig hófst minn ferill í upplýsingatækni. Fyrir mig var þetta algjört himnaríki því hinn kosturinn á sumarvinnu hefði verið að vinna í pulsuvagni. Ég er feginn því alla tíð síðan að hafa fengið þetta tækifæri.[80]

Svo fór að Vilhjálmur hóf samstarf við Reyni um rekstur Tölvubúðarinnar árið 1981, en sú búð var ótrúlega snemma á ferðinni, margar fylgdu svo í kjölfarið. Þar var talsvert úrval af míkrótölvum og boðið var upp á íslenska stafi bæði á tölvunum og prenturunum. Það kom í hlut Vilhjálms að setja inn ýmsar breytingar á stýrikerfum tölvanna til að geta unnið með, prentað og birt íslensku stafina á skjá. Í framhaldi af því tók hann að sér að þýða bandarískt viðskiptaforrit og laga að íslenskum aðstæðum.

Þannig byrjaði ég í viðskiptahugbúnaðarbransanum. Á árunum 1981 og 1982 var selt töluvert af þessum tölvum inn í fyrirtæki, sem keyptu þær fyrir bókhald, viðskiptamannakerfi og birgðabókhald. Tollskýrslugerð var mjög vinsælt viðfangsefni og Ísland áttunda og níunda áratugarins var gósenland heildsala. Ég veit ekki hvað voru margar heildsölur í Reykjavík, þær voru áreiðanlega á annað hundrað; menn fengu sér umboð og gátu rekið heildsölu með tveim, þrem, fjórum starfsmönnum og stórar verslanir þurftu að skipta við kannski 15–20 heildsala og voru sífellt að fást við tollskýrslur og útreikninga og halda utan um viðskiptamenn og lagera. Menn þurftu að fá sér tölvu til að halda utan um þetta, svo að það varð strax töluverður bissness. Ég held að þessi viðskiptakerfi frá Tölvubúðinni hafi verið komin í 60–80 fyrirtæki þegar mest var.[81]

Reynir fjölgaði mjög starfsfólki og flutti ári síðar alla starfsemina, Tölvubúðina og Tölvuskólann, undir sama þak, í Skipholti 1. Einhverju sinni átti hann von á manni í atvinnuviðtal en var upptekinn og bað Vilhjálm að taka viðtalið að sér. Umsækjandinn hét Örn Karlsson og var að koma úr námi í tölvunarfræði í Svíþjóð. Þegar hann kom í starfsviðstalið bjóst hann við að á móti honum tæki verkfræðingur og eigandi Tölvuskólans en þess í stað sat hann frammi fyrir fimmtán ára gömlum pilti. Þegar Vilhjálmur rifjar þetta upp segir hann Erni til hróss að hann hafi ekkert látið það á sig fá – og hann fékk starfið. Þeir tveir áttu síðan eftir að starfa lengi saman.

Örn skrifaði forritið Ritþór, sem ég held að sé örugglega fyrsta íslenska ritvinnsluforritið fyrir einmenningstölvur. Það var skrifað á vélamáli fyrir Commodore og hefur örugglega farið í 30–40 eintökum. Ritþór studdi íslenskuna alveg og var eiginlega forritunarafrek; það var bara 32 kílóbæta minni í þessum tölvum og það þurfti að rúma bæði forritið sjálft og textann, sem var skrifaður þannig að það þurfti að skrifa forritið í sem allra þéttustum vélamálskóða til að það væri eitthvert pláss fyrir textann.[82]

Árið 1983 slitnaði upp úr samstarfinu milli Tölvuskólans og Tölvubúðarinnar og búðin var seld. Þeir félagar Vilhjálmur og Örn stofnuðu eftir þetta félag sem þeir nefndu Íslenska forritaþróun, til þess að taka á móti þeirri PC-byltingu sem var að skella á, búa til viðskiptahugbúnað og fyrirtækjahugbúnað á PC-tölvur. Fyrstu tölvurnar sem þeir fengu voru þó ekki PC-tölvur heldur Rainbow-tölvur frá Kristjáni Ó. Skagfjörð, sem fyrirtækið lagði þeim til.

Atlantis – íslensk tölva fyrir íslenskar þarfir

Íslenska upplýsingabyltingin varð ekki á skömmum tíma heldur tók mörg ár. Íslendingar létu sér ekki nægja að setja saman hugbúnað og hagnýta sér vélbúnað, heldur kom að þeim tímapunkti að ungir íslenskir tölvarar blönduðu sér í sjálfa tölvuframleiðsluna. Haustið 1983 kynnti fyrirtækið Atlantis hf. tölvu með sama nafni, fyrstu tölvuna sem sett var saman að öllu leyti hér á landi og miðuð við íslenskar þarfir. Viðskipta- og iðnaðartölvunni Atlantis var sérstaklega ætlað að „þjóna verkefnum á sviði bókhalds, ritvinnslu og framleiðslustýringar,“ eins og höfundarnir og tölvusmiðirnir, Ingólfur Arnarson og Páll Árnason, útskýrðu fyrir blaðamanni Þjóðviljans.

Atlantis.islensk.tolva
Atlantis, íslensk tölva, og Ingólfur Arnarsson framkvæmdastjóri Atlantis hf, DV 10.04 1984.

Atlantis-tölvan var með bandarískum örgjörva sem hét Intel 8088 en sett saman hér sem IBM-samhæfð tölva. Hún gat sinnt íslenskum þörfum og tekið við forritum á íslensku, var með íslensku lyklaborði, hafði tvö diskettudrif og minni sem rúmaði 128 þúsund stafi, jafngildi 128 kílóbæta, 0,128 megabæti. Ingólfur sagði blaðamanni að hann teldi þetta vera stóran áfanga í íslenskum rafeindaiðnaði þar sem verið væri að flytja nýja þekkingu inn í landið. Stofnendur Atlantis höfðu lagt tvær milljónir króna í þessa framleiðslu og Ingólfur fullyrti að markaður fyrir tölvurnar virtist jafnvel meiri en talið var í fyrstu þar eð tölvan gæti sinnt þörfum margra smærri fyrirtækja, sem hefðu ekki efni á stærri tölvum. Fyrsti kaupandinn að Atlantis-tölvunni var Iðntæknistofnun Íslands.[83]

Það virðist svona eftir á að hyggja hafa verið dálítil fífldirfska að leggja út í tölvuframleiðslu á Íslandi, fyrir þennan örmarkað. En um hríð virtist þetta ætla að ganga, töluvert seldist til opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga. Það gekk þó ekki upp, fyrirtækið fór í þrot og var tekið til gjaldþrotaskipta sumarið 1988.[84]

Fleiri fyrirtæki, til dæmis Örtölvutækni sf., settu saman PC-samhæfðar IBM-tölvur og seldu undir eigin vörumerki.

GRÁ 001 044 1 4
Gunnar Karl Guðjónsson vinnur við íslenska Atlantis-tölvu 1986. Ljósmyndari: Guðjón Róbert Ágústsson. Ljósmyndasafn Íslands.

Það er forvitnilegt að rifja upp hvað menn hugsuðu um framtíðina í þessum efnum haustið 1983. Guðmundur Hannesson, deildarstjóri söludeildar IBM, sagði í blaðaviðtali í október það ár: „Mörgum finnst eflaust nóg um þær breytingar sem tölvutæknin hefur orsakað í þjóðfélaginu nú þegar en ég hygg að þær eigi þó eftir að verða stórkostlegri á næstu árum en margan grunar í dag.“ Hann útskýrði að til væru upplýsingabankar víða úti í hinum stóra heimi, tölvubankar tengdir saman með símalínum, sem unnt væri að fá aðgang að og panta upplýsingar um hvaðeina. Með því að þrýsta á einn takka væri til að mynda unnt að fá yfirlit frá tölvubanka í Róm, London eða hvaða borg sem er, yfir allt sem skrifað hefði verið um ákveðin tæknisvið, biðja um útskrift af því sem óskað væri eftir að skoða nánar og prenta hana út, og allt þetta tæki ekki nema 5–10 mínútur. „Framfarirnar eru meiri en auga á festir, sagði Guðmundur. Næstu sjö árin á undan hafði stöfum sem rúmuðust á hverjum seguldiski í stórri tölvu fjölgað úr fimm milljónum í 570 milljónir, þannig að ekki færi ýkja mikið fyrir til að mynda einum árgangi af dagblaði, upplýsti hann, og ekki tæki nema örfáar sekúndur að kalla fram upplýsingar sem á þyrfti að halda hverju sinni.[85]

Rafeindaiðnaður eflist

Framleiðni og Marel – rafeindavogir sítengdar við tölvur

Rafeindatækni tók hraðstígum framförum með tilkomu örtölvutækninnar snemma á níunda áratugnum. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands ýtti undir tækniþróun og tók meðal annars höndum saman við nýstofnað fyrirtæki sem nefndist Framleiðni hf., ásamt Sjávarafurðadeild Sambandsins og nokkrum frystihúsum, um að þróa nýja gerð rafeindavoga, sem voru settar saman hjá rafeindavinnustofu Öryrkjabandalags Íslands. Þær voru tæknilega fullkomnari en þekkst hafði áður og markaðssettar undir vörumerkinu Marel. Talið var að með þessum vogum mætti auka hagkvæmni í rekstri frystihúsa allverulega og spara milljónatugi.[86] Þær voru margfalt nákvæmari en eldri vogir og sítengdar við tölvur. Það skapaði mikla möguleika á gagnavinnslu og skráningu, sem hafði mikla þýðingu við rekstur bæði fiskvinnsluhúsa og sláturhúsa, jók verulega nýtingu afurðanna og gaf gott yfirlit yfir samhengið í rekstrinum, með umfangsmikilli tölvuskráningu.[87]

Þróunin var hröð. Fjölbreytnin jókst í framleiðslu Framleiðni hf. og náði til hvers konar tölvubúnaðar til nota í fiskvinnsluhúsum. Óskir tóku að berast frá fyrirtækjum utan fiskvinnslunnar um tæki og þjónustu, þar á meðal frá sláturhúsum og iðnaðarfyrirtækjum. Svo fór að starfsemin rúmaðist ekki öll innan ramma Framleiðni hf. og því var fyrirtækið Marel hf. stofnað um starfsemina 17. mars 1983. Að því stóðu Samband íslenskra samvinnufélaga, nýstofnaður Samvinnusjóður Íslands og flestöll frystihúsin sem seldu framleiðslu sína á vegum Sjávarafurðadeildar Sambandsins.[88]

Undir lok ársins 1983 voru gagnaskráningartæki fyrirtækisins í notkun í þrjátíu fyrirtækjum og útflutningur á rafeindavogunum frá Marel þá þegar hafinn.[89] Gerður hafði verið samningur við norska fyrirtækið Scanvest-Ring A/S um sölu og dreifingu á rafeindavogum og tölvubúnaði fyrir fiskiðnað í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, og um samvinnu á sviði þróunar, aðlögun tækjanna að norskum aðstæðum, auk þess sem stefnan var tekin á ný svið fiskiðnaðar, svo sem skelfiskvinnslu og fiskeldi. Stefnt var að því að samræma rafeinda- og tölvubúnað Marels hf. við skýrsluvinnslutölvu, meðal annars vegna launa- og bónusútreikna, aflabókhalds, áætlanagerðar og fleira þannig að unnt yrði að bjóða frystihúsunum heildarkerfi til skráningar og gagnavinnslu. Ætlunin var að íslenskum fiskiðnaði yrði boðið upp á svipað kerfi, en það varð undirstaða bónuskerfis þess sem tekið var upp í íslenskum frystihúsum á áttunda áratugnum.[90]

Póllinn – varað við leka og hráefni nýtt

Árið 1966 stofnuðu fimm menn á Ísafirði, bræðurnir Óskar, Haukur og Ingólfur Eggertssynir, ásamt Gunnari Steinþórssyni og Hans W. Haraldssyni, rafverktakafyrirtækið Pólinn hf. Þar var rekið fullkomið rafmagnsverkstæði, útvarps- og sjónvarpstækjaverkstæði og verslað með rafmagnsvörur og heimilistæki. Póllinn annaðist einnig viðgerðir á öllum almennum heimilistækjum, kælitækjum fyrir frystihús og skip auk þess sem fyrirtækið var með verulega verktakastarfsemi. Pólsmenn hönnuðu, framleiddu og gerðu tilraunir með ýmiss konar rafeindatæki: spennustilla fyrir báta og frystihús, hleðslutæki fyrir skip og báta, og straumlokur. Eitt af því sem þeir fundu upp og framleiddu var nýtt tæki sem var ætlað að vara við leka um borð í skipum. Því var komið fyrir á botni skipa og setti sjálfvirkt í gang viðvörunarflautur ef vatn tók að hækka í botni skipsins. Tækið hafði þegar sannað gildi sitt, varaði fólk við í tíma þegar bátur var við það að sökkva í höfninni í Bolungarvík. Þá hannaði Póllinn og smíðaði rafeindastýrð brunaviðvörunartæki og búnað sem sá til þess að ýmis tæki sem við hann voru tengd slægju út við ákveðna hámarksraforkunotkun, til að spara orku. Loks má nefna rafeindatæki sem átti eftir að sanna gildi sitt: rafeindavog til nota í vinnslurásum frysti- og fiskvinnsluhúsa. Á henni var vigtaður allur sá fiskur sem fór frá fiskmóttöku að vinnsluvélum og síðan það sem fór frá vélunum. Þannig mátti fylgjast náið með nýtingu hráefnisins á algjörlega sjálfvirkan hátt, skrá það og reikna nýtingarhlutfallið.[91]

Hvor tveggja vigtarkerfin, frá Pólnum og Marel, juku mjög nýtingu og hagkvæmni í fiskiðnaði og athuganir sýndu að hvert prósent sem nýtingin ykist myndi þýða þrettán milljónir króna í auknar tekjur. Samkvæmt athugunum sem gerðar voru um 1980 gat þessi tækni aukið nýtingu í flökunarvélum um eitt til þrjú prósent, jafnvel allt upp í sex prósent.[92]

Örtölvutækni – frá heyhitamæli til hitaveitukerfa

Arnlaugur og Björgvin Guðmundssynir unnu hjá Orkustofnun fram eftir áttunda áratugnum við þróun örtölvutækni og rafeindabúnaðar til að mæla hita og dýpt í borholum. Arnlaugur pantaði eina fyrstu einmenningstölvuna, Commodore PET, að utan árið 1977, en pöntunin fékk ekki brautargengi. Árið eftir flutti Þór hf. eina slíka tölvu inn og eftir að hafa kynnt hana í mánuð fékk Arnlaugur að kaupa hana fyrir Orkustofnun. Tölvan var einkum notuð til útreikninga á fjórðu, fimmtu og sjöttu gráðu filterum sem notaðir voru í mælitækjum sem smíðaðir voru fyrir jarðhitadeild OR.

Það var svo árið 1978 sem þeir Arnlaugur og Björgvin, ásamt Heimi Sigurðssyni, stofnuðu lítið fyrirtæki, Örtölvutækni, til þess að þróa áfram örtölvutækni- og rafeindabúnaðinn sem þeir höfðu þróað hjá Orkustofnun og framleiða tæki byggð á honum. Framkvæmdastjóri var Heimir Sigurðsson. Strax árið eftir kynntu þeir félagar lítið tæki sem hentaði bændum afar vel: heyhitamæli til að fylgjast með hitamyndun í hlöðum. Hægt var að setja hitaskynjara á víð og dreif um heyið og tækið sjálft skipti á milli þeirra og varaði við ef hitinn fór upp fyrir ákveðið hitastig. Áður hafði fyrirtækið kynnt sjóhitamæla, sem komnir voru um borð í allmörg fiskiskip og fjögur varðskipanna, og mátti nota þessa mæla til að fylgjast með hitastigi í afgasi og í lofti.[93] Einnig smíðuðu þeir olíunotkunarmæla fyrir fiskiskip, til að auka hagkvæmni í olíunotkun, enda voru þessir mælar settir í 70–75% fiskiskipaflotans. Lítið örtölvubretti, sem var hjartað í þessu tæki, var síðan nýtt í flugstjórnartæki sem þeir smíðuðu fyrir Flugmálastjórn, aðeins forritið var frábrugðið.

Þegar farið var að nota örtölvutæknina til að mæla og skrá niðurstöður var nauðsynlegt að hafa tölvuskjá en slík tól voru ekki á hverju strái á Íslandi. Örtölvutækni fór því að flytja inn skjái frá framleiðanda í Bandaríkjunum. Þeir voru ekki búnir séríslenskum stöfum en fyrirtækið sá um að aðlaga þá.[94]

Næsta skref var að Örtölvutækni fór að bjóða upp á sérsmíðaðar tölvur til að leysa ákveðin verkefni, hanna móðurborð með minni og inn- og útrásum, skrifa sérstakt tungumál og forrita frá grunni. Ein af þeim tölvum sem þeir smíðuðu var gerð til þess að annast þýðingar milli tækja í rauntíma, til dæmis milli tölvu og prentara, svo sem Norsk Data eða IBM og HP-laserprentara. Fékk hún nafnið Baldur og seldist í tugum eintaka, meðal annars til fjarskiptastöðvarinnar í Gufunesi. Þá settu þeir saman tölvuna Loka úr kössum, móðurborðum og fleiru. BIOS-inn var endurskrifaður til þess að auka hraða vélanna í ræsingu og vinnslu.[95]

Síðar, eftir 1984, tók Örtölvutækni að sér að selja IBM PC-vélar, sem seldust vel um þær mundir, og var eina fyrirtækið fyrir utan Skrifstofuvélar og Gísla J. Johnsen sem það gerði.

oliueydslumaelir.fra.ortolvutaekni
Olíueyðslumælir frá Örtölvutækni. Þjóðviljinn 12. mars 1982.

Fyrirtækinu óx fiskur um hrygg og tók að sér að smíða rafeindastýrt kerfi fyrir Hitaveitu Suðurnesja í samstarfi við Verk- og kerfisfræðistofuna. Kerfið fylgdist með hita, rennsli og spennum og gerði meðal annars mögulegt að rekja í hvaða röð bilanirnar urðu, allt niður í hundraðasta hluta úr sekúndu. Í framhaldi smíðuðu þeir litlar mælitölvur, örtölvuútstöðvar sem notuðu 30 til 40 nema í hverri útstöð til að fylgjast með 1000–1200 mælipunktum, með nákvæmni upp á millisekúndur. Í Fréttabréfi KÓS segir nánar frá þessu verkefni:

Í kerfisráðnum eru tvær örtölvustöðvar sem Örtölvutækni hannaði, smíðaði og forritaði, og aðaltölva sem sér um almenna gagnavinnslu og samskipti við gæslumenn.

Kerfisráðurinn vaktar … mælistærðir svo sem gufuþrýsting á ýmsum stöðum, vatnsrennsli, ástand dæla o.fl. o.fl. Frá stjórnborði kerfisins er unnt að fjarstýra ýmsum rofum og reglum, ræsa og stöðva dælur o.s.frv. VKS hannaði og forritaði aðaltölvukerfið, en í því er notuð PDP-11/23 tölva Í kerfinu er einnig VTV30 stýrieining fyrir litskjá og BARCO litskjár í háum gæðaflokki.

Þessi tvö tölvukerfi eru bæði fyrstu kerfi sinnar tegundar sem búin eru til hér á landi, og má telja að hvort um sig hafi verið umfangsmesta tölvukerfið til tæknirekstrar sem gert hafði verið hér á landi á sínum tíma. [96]

Örtölvutækni var gert að hlutafélagi á seinni hluta níunda áratugarins og þeir Heimir, Arnlaugur og Björgvin, sem upphaflega höfðu mest verið í verkfræðivinnu og framleiðslu, voru komnir á kaf í viðskipti en hættir í framleiðslu. Þar kom að hallaði undan fæti og Örtölvutækni hf. fór í þrot. Jón Ólafsson hjá Skífunni keypti þrotabúið og tókst að rétta reksturinn við. 

Sjávarútvegurinn tölvuvæddur

Vorið 1978, þegar tölvuvæðing fiskvinnslunnar var að komast á fullan skrið, lauk ungur maður, Sigurður Bergsveinsson, þriggja missera námi í útgerðartækni við Tækniskólann. Hann hafði farið á sjóinn árið 1966 og aflað sér skipstjórnarréttinda en var kominn í land. Er hann lauk námi sá hann auglýst eftir starfsmanni hjá IBM og ákvað að sækja um þótt hann vissi ekkert um tölvur. Í ljós kom að verið var að leita að manni með þekkingu á sjávarútvegi – og hann var ráðinn.

Sigurður rifjar upp stöðuna þegar hann hóf afskipti af tölvuvæðingunni:

Þá hafði tölvuvæðing sjávarútvegsfyrirtækja hafist, ákveðnar tæknibreytingar, sem urðu þess valdandi að fyrirtækin sáu sér fært að kaupa eigin tölvur, voru að eiga sér stað. Þá jókst mjög vinnan í kringum þetta og segja má að við höfum tölvuvætt sjávarútveginn á nokkrum árum, nánast öll meiriháttar fyrirtæki. Ég starfaði sem forritari, kerfisfræðingur og yfirmaður í hugbúnaðardeild. Síðan fór ég í sölu, varð sölumaður, eða markaðsfulltrúi hét það, til 1989. Á þessum árum áttu svokallaðar miðtölvur sviðið (System/3x). [97]

Hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) var unnið að sameiginlegum bókhaldslykli fyrir sjávarútvegsfyrirtækin á árunum 1962 til 1965 og um svipað leyti hófst tölvufærsla birgðaskýrslna á vegum SH hjá IBM. Skýrsluvéladeild Sambands íslenskra samvinnufélaga hóf að færa bókhald fyrir ýmis frystihús og fiskverkunarstöðvar innan Sambandsins. Frá 1963 var unnið að því hjá frystihúsunum í Vestmannaeyjum að taka upp afkastahvetjandi launakerfi, bónus, og þau urðu fyrst til að taka það upp. Sameiginleg skrifstofa frystihúsanna hóf sameiginlega úrvinnslu á bónusútreikningum í ársbyrjun 1967, með fullkominni reiknivél.

Vísir 22.10.1981 mynd
Rekstrartækni sf. - Kristján Sigurgeirsson og Gísli Erlendsson stofnendur ásamt Má Sveinbjörnssyni. Vísir 22.10.1981.

Árið 1972 stofnuðu tveir tæknifræðingar, Gísli Erlendsson og Kristján Siggeirsson, fyrirtækið Rekstrartækni og hófu að sinna sameiginlegri úrvinnslu bónusreikninga fyrir frystihúsin í Reykjavík, á Suðurnesjum og víðar. Rekstrartækni keypti þremur árum síðar öfluga tölvu af gerðinni IBM System/3 til að annast þessa vinnslu, og notaður var hugbúnaður sem starfsmenn fyrirtækisins og IBM höfðu forritað í sameiningu. Þetta vatt upp á sig þegar Reiknistofa Vestfjarða tók til starfa 1975, en að henni stóðu nokkur fiskvinnslufyrirtæki á Ísafirði. Vestfirðingarnir keyptu í samvinnu við Rekstrartækni samskonar tölvu og hugbúnað.

Nokkuð afgerandi tímamót urðu árið 1975 þegar IBM setti á markaðinn nýja tölvu sem var minni, talsvert öflugri og ódýrari en fyrri tölvur og varð til þess að allflest fyrirtæki réðu við slík tölvukaup. Þetta olli sprengingu í framboði á hugbúnaði, fyrirtæki í tölvuþjónustu spruttu upp um allt land og framundan voru gríðarlegar breytingar á öllu því sem snerti meðhöndlun upplýsinga í fiskiðnaðarfyrirtækjum. Næstu árin þróaðist fjöldi lausna á þessu sviði, í samvinnu viðskiptavina, sölusamtaka og hugbúnaðardeildar IBM, og mynduðu kjarna tölvuvæðingar í íslenskum sjávarútvegi næstu tíu til fimmtán árin. Þetta var ásamt öðru undirstaða þeirrar tækni sem þróaðist út frá rafeindavogum frá fyrirtækjum eins og Marel og Pólnum. Helstu kerfin sem tóku að þróast með vaxandi tölvuvæðingu innan fiskiðnaðarins voru: Aflabókhald, bónus, skipverjalaun, fjárhagsbókhald, birgðabókhald, umbúðalager, veðsetningarskýrslur, framlegð og birgðahald skipa.

KRH 0577 007 3 2
Tölvuvædd fiskvinnsla í Ísbirninum 1979. Myndin er tekin fyrir IBM. Ljósmyndari: Kristjón Haraldsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Einnig varð mikil breyting árið 1978 þegar IBM setti á markaðinn tölvu af gerðinni System/34, sem var búin tölvuskjá, aðskildum frá móðurtölvunni. Það gerði mögulegt að dreifa vinnslunni þannig að fleiri starfsmenn en þeir sem unnu í bókhaldsdeildunum gátu tekið þátt í að afla, skrá og vinna úr gögnum. Á sama ári var tekið í notkun gagnasöfnunarkerfi þróað hjá IBM, í samvinnu við nokkur frystihús. Kerfið var byggt á skráningartækjum þar sem hægt var að nota segulkort til að skrá upplýsingar, tengja við þau vogir og önnur tæki, og mátti nota lyklaborð í tengslum við þessi skráningartæki. Kerfið gat tekið á móti upplýsingum þar sem þær urðu til, jafnóðum, á formi sem tölvan gat lesið beint. „Ekki er ofmælt að þetta kerfi hafi valdið byltingu í nýtingu tölvutækninnar við fiskiðnað,“ segir Sigurður Bergsveinsson.

Fjöldamörg fyrirtæki tóku kerfið í notkun, meðal annars Ísbjörninn, Útgerðarfélag Akureyringa, Íshúsfélag Ísfirðinga og Síldarvinnslan í Neskaupstað. Í Vestmannaeyjum voru öll fiskiðnaðarfyrirtækin tengd saman í eitt kerfi og fyrirtækið Samfrost hf., sameign frystihúsanna, var stofnað, meðal annars til að reka þessa sameiginlegu tölvumiðstöð.[98]

Sigurður Bergsveinsson rifjar þetta upp:

Við tengdum saman öll frystihúsin í Vestmannaeyjum með tölvulögnum, sem var allviðamikil framkvæmd. Þetta var fyrir daga nettengingar þannig að við lögðum kapla í rör, sem við grófum niður og gátum ekki dregið í nema vissa lengd til að slíta þá ekki. Þess vegna urðum við að hafa brunna með vissu millibili. Þannig voru öll frystihúsin í Eyjum tengd saman í einni tölvu í Samfrosti. Þetta gerðu menn þá til að nýta sér hagkvæmnina því þessi tækni var náttúrulega talsvert dýr. Það voru sett upp aflestrartæki, gagnalestrartæki, og þau tengd við vogir sem vigtuðu frá vélum og fólki, frá vinnslulínunum, og stimpilklukkur fyrir tímaskráningu og allt safnaðist þetta á einn stað. Við vorum líka að leika okkur með grafík en þarna voru einhverjir fyrstu skjáirnir sem voru teknir í notkun. En þeir voru í svokölluðum stafaham, ekki grafískir eins og núna, heldur höfðu þeir bara stafi sem við notuðum til að búa til súlur, sem þóttust vera grafískar![99]

Um þetta leyti komu fyrstu einkatölvurnar fram á sjónarsviðið og fiskiðnaðarfyrirtækin hófu fljótlega að nota slíkar tölvur.

Fyrirtækið Radíómiðlun var einnig framarlega í flokki í tölvuvæðingu sjávarútvegsfyrirtækja en það fyrirtæki gaf til að mynda út fyrsta geisladiskinn með öllum sjókortum kringum Ísland.[100]

Flugleiðir – vertu sæll Gabríel, komdu sæll Alex

Frá árinu 1972 til 1981/1982 voru Flugleiðir með bókanir sínar í tölvukerfi sem staðsett var í Atlanta í Bandaríkjunum. Á þessum áratug breyttist margt og er skipt var um kerfi í áföngum 1981 til 1982 varð mönnum tíðrætt um breytingarnar. En fleira var að gerast. Í Árbók háskólans fyrir háskólaárin 1976–1979 kemur fram að Reiknistofnun Háskólans hafi unnið að gerð tölvukerfis fyrir Flugleiðir, til að skipuleggja ferðir flugáhafna. Frumkvæðið kom frá Verkfræðistofnun Háskólans.[101] „Þetta er margbrotnara viðfangsefni en ætla mætti að óreyndu og er mikið fjárhagslegt atriði, að vel sé að þessum hlutum staðið. Reynsla er nú komin á þetta nýja kerfi, sem leysir af hólmi seinlega og mjög sérhæfða handavinnu,“ er haft eftir Þorgeiri Pálssyni dósent í Tölvumálum árið 1978 um þetta kerfi.[102]

flugleidir
Vinsamlegast sýnið okkur þolinmæði. Auglýsing frá Flugleiðum. Tíminn, 8. nóvember 1981.

Í vetrarbyrjun 1981 fóru Flugleiðir að nota nýtt tölvukerfi við bókanir á flugferðum á Íslandi og til útlanda. Í tilefni af þessum áfanga auglýsti félagið: „Það er von okkar og vissa að þetta nýja kerfi verið til þess að þjónusta okkar og þeirra, sem sjá um sölu farmiða okkar, verði betri og þægilegri en nokkru sinni fyrr.“[103]

Tölvukerfið leysti af hólmi ferðaskráningartölvu í Bandaríkjunum sem Flugleiðir höfðu notað. Hún hafði þjónað vel eins og fram kom í þessari klausu í Tölvumálum frá árinu 1977:

Flugleiðir [eru] aðili að merkilegu fjarvinnslukerfi, sem nefnt er GABRIEL. Aðilar að þessu sama kerfi eru mörg önnur flugfélög og þau ekki öll af minni sortinni. Miðstöð kerfisins er í Atlanta í Bandaríkjunum, en það tengist síðan aðalskrifstofunni hér í Reykjavík og söluskrifstofum vítt og breitt í Bandaríkjunum og Evrópu.[104]

Tímarnir voru að breytast og tölvukerfin með.

Í Dagblaðinu 10. október 1981 kemur fram ágætis lýsing á því hvernig nýja kerfið leysir það gamla af hólmi:

Til þess að bæta þjónustu við farþega sína hafa Flugleiðir nú hætt samskiptum við Gabríel. Það er tölva sú í Bandaríkjunum sem skráð hefur fram að þessu allar ferðir. Nú hafa Flugleiðir komið sér upp eigin tölvukerfi sem á að gera ferðaskrifstofum kleift að fá mun fyrr upplýsingar um laus sæti og fleira því fylgjandi. Einnig spara Flugleiðir á sama tíma síma og skeytakostnað.[105]

Nýja kerfið fékk nafnið Alex og var það í aðra röndina vísun í nafn eins frumkvöðla íslenskra flugmála, Alexanders Jóhannessonar, fyrrum háskólarektors. Í umfjöllun í Morgunblaðinu í nóvember 1981 var boðað að kerfið myndi með vorinu ná til millilandaflugs og yrði nýtt til að skoða uppruna farþeganna, sem var nýlunda:

Með samdrætti í Atlantshafsflugi félagsins, hefur orðið mikil breyting á uppruna farþega. Árið 1975 komu 47% farþega frá Norður-Ameríku, en nú eru flestir farþegar skráðir á svonefndu Norðursvæði, þ.e. á Íslandi og í N-Evrópu. Með tilkomu nýrrar tölvu Flugleiða, nýrrar tækni og fyrrgreindrar breytingar á uppruna farþega, hefur félagið ákveðið að frá og með næsta vori [1982] verði eigin tölva einnig nýtt til skráningar millilandafarþega.[106]

Arnarflug tölvuvæðist

Í frétt frá Arnarflugi árið 1983 segir frá því að félagið hafi fljótlega eftir stofnun tekið í notkun fullkomna tölvutengingu með Corda-tölvu frá KLM: „Þjónustan sem tölvan veitir er mjög víðtæk … Farbókanir á svipstund um allan heim með nær öllum flugfélögum heims. Hótelbókanir á rúmlega 300 hótelum um allan heim, auk þess sem unnt er að bóka á skömmum tíma gistingu í þúsundum annarra hótela.“ Auk þess var getið um bókanir bílaleigubíla og skoðunarferða.[107]

Vegagerðin – varðar veginn til frelsis í tölvukaupum ríkisstofnana

Eins og fyrr greinir keypti Vegagerðin tölvu af Kristjáni Ó. Skagfjörð árið 1977[108]. Á þessum árum var mikil tregða við að leyfa ríkisstofnunum að kaupa sér sjálfar tölvur. Helgi Sigvaldason segir í minningum sínum á Söguvef öldungadeildar Skýrslutæknifélags Íslands: „Á þessum árum gilti … algjört bann hjá ríkisstofnunum við því, að þær keyptu sér tölvur, RHÍ átti að sjá um alla tæknilega og vísindalega útreikninga og SKÝRR átti að sjá um alla aðra tölvuvinnslu. Gekk þetta svo langt, að Vegagerðin varð að fá RHÍ til þess að kaupa PDP smátölvu fyrir sig, sem hún tók svo á leigu.“[109]

Tromluteiknari2.skarpari
Tromluteiknari Vegagerðarinnar.

Smátt og smátt var þessum höftum á innkaupum Vegagerðarinnar aflétt og stofnuninni unnt að taka tölvutæknina í þjónustu sína af fullum þunga. Skipaður var starfshópur, Tölvunefnd, sem hélt utan um tölvuvæðinguna. Í byrjun árs 1983 var keypt VAX 11/750 tölva frá Digital og var hún með 1 MB minni en stækkuð í 3 MB. Ennfremur var ákveðið að kaupa smátölvur fyrir umdæmisskrifstofurnar.[110]

Í október 1983 keypti Vegagerðin síðan tölvuteiknara frá Hewlett-Packard, tromluteiknara sem tók blaðstærðir upp í 622x1190 mm og gat hann teiknað bæði á pappír og plast. Þetta var risatæki eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Reykjavíkurborg – bókhald og gagnavinnsla

Reykjavíkurborg tók tölvutæknina snemma í sína þágu. Við stjórnvölinn var fólk sem sá snemma þau tækifæri sem fólust í tölvuvæðingu fyrir sveitarfélög. Björn Friðfinnsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar hélt erindi um notkun tölva á sviði opinberrar stjórnsýslu á októberfundi Skýrslutæknifélagsins 1978 og fjallaði um tölvuvæðingu borgarinnar. Þar benti hann á þá möguleika sem fólust í öllu „frá tölvuvæddu bókhaldi, útskriftar- og innheimtukerfi orkureikninga o.fl. til vinnslu reiknilíkana á dreifikerfi rafmagns. Hann rakti þróun gagnavinnslu á opinberum vettvangi,“ eins og segir í lýsingu af þessum fundi.[111] Reykjavíkurborg var ásamt ríkinu eigandi Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar (SKÝRR) frá stofnun 1952 og var fyrirtækið rekið „sem þjónustufyrirtæki fyrir eignaraðilana, ríkið, Reykjavíkurborg og stofnanir þeirra og annast gagnavinnslu fyrir þessa aðila og hefur nú til afnota tvær tölvur. Starfslið fyrirtækisins er 78 manns (september 1978).“ Á þessum tíma var það einkum launabókhaldið sem unnið var fyrir Reykjavíkurborg hjá SKÝRR.[112]

Almenningstölvan: tákngervingur nútímans

Orðið einkatölva er þýðing á „personal computer“, sem var notað um litlar, alhliða tölvur sem einn maður gat unnið með, ólíkt eldri og stærri gerðum tölva, sem miðaðar voru við að fleiri ynnu við samtímis. Árið 1981 kom fram PC-tölva frá IBM með disklingadrifi og bauð upp á notkun ritvinnslu og annarra forrita af disklingum. Hún var þeim kosti búin að hana mátti tengja við nýjustu miðtölvuna frá IBM, System/36, sem var kynnt á því sama ári, og nota hana annaðhvort tengda við hana eða sjálfstætt.

Árið 1976 stofnuðu tveir ungir Bandaríkjamenn, sem báðir hétu Stephen, annar Jobs að eftirnafni, hinn Wozniak, fyrirtækið Apple. Upphafið var í lítilli tölvu sem þeir nefndu Apple I og munu þeir hafa selt um tvö hundruð stykki af henni. Kaupandinn þurfti að setja tölvuna saman að hluta til og forrita hana. Árið eftir sendu þeir frá sér endurbætta útgáfu, Apple II, sem hafði það fram yfir þá fyrri að kaupandinn gat farið að nota hana beint úr kassanum. Fljótlega komust þeir félagar í samband við Japana sem markaðssetti gripinn í heimalandi sínu, og þessi litla tölva sló í gegn á svipstundu. Milljónir Apple-tölva seldust á níunda áratugnum og stöðugt komu fram nýjar og endurbættar gerðir.

Fyrstu PC-tölvurnar voru ekki kynntar Íslendingum fyrr en árið 1983. Það var ekki IBM sem reið á vaðið hér heldur tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörð sem stóð fyrir sýningu á einkatölvum frá Digital í Kristalssal Hótels Loftleiða fimmtudaginn 21. júlí 1983. Digital hafði framleitt tölvur frá árinu 1960 en þetta var fyrsta einkatölvan sem fyrirtækið setti á markað, og svo mikið var haft við að hingað voru sendir starfsmenn fyrirtækisins í Danmörku og á Englandi til að aðstoða við sýningarhaldið. Þrjár gerðir tölva voru sýndar og voru þannig úr garði gerðar að þær mátti tengja við öll stærri tölvukerfi frá Digital, einnig stærri tölvur frá öðrum framleiðendum, auk þess sem þær mátti nota sem sjálfstæðar vinnslueiningar.[113]

IBM á Íslandi kynnti PC-tölvu fyrirtækisins haustið 1983 og lagði áherslu á hin fjölþættu not sem almenningur gæti haft af þessari vél, námsfólk, læknar, lögfræðingar, lagerstjórar, lögreglumenn eða lyfjafræðingar. Fyrirtækið boðaði ódýrari útgáfu, sem nefnd var heimilistölva, kölluð PC Junior, og var þá nýkomin á markað í Bandaríkjunum og Kanada. Hún var með innbyggt diskettudrif, hana mátti einnig tengja við sjónvarp og hún var búin  þeirri nýjung að tölva og lyklaborð voru tengd saman með innrauðum geisla. Guðmundur Hannesson hjá IBM lýsti ágætum þessarar nýju kynslóðar tölva svo: „PC tölvan hefur flesta eiginleika stóru tölvanna og er ætluð til nota í skólum, skrifstofum og í smærri fyrirtækjum en stóri kosturinn við hana er að hún getur tengst öðrum tölvum og má því nota hana jafnt sem útstöð og sjálfstæða tölvu.“[114]

Jafnframt því sem IBM kynnti þessa nýju einkatölvu sína lögðu ráðamenn fyrirtækisins fram allar teikningar að vélinni, sem þýddi einfaldlega að öðrum var þar með boðið að framleiða í hana auka vél- og hugbúnað. Það leiddi til þess að fjölmargir framleiðendur tóku mið af PC og ýmsar slíkar viðbætur urðu til, sem hægt var að nota með vélum frá öðrum framleiðendum og farið var að tala um „PC-samhæfðar vélar“. Allir framleiðendur einkatölva höfðu gott af – og ekki síður notendur. Apple-fyrirtækið tók ekki þátt í þessari samhæfingu, og tölvunotendur skiptust í tvo flokka, sem höfðu nánast trúarlegt yfirbragð.

Einkatölvan eða almenningstölvan, sem Tölvunefnd Skýrslutæknifélagsins mælti með að vélin væri kölluð, hafði náð fótfestu. Hún varð eins konar tákngervingur fyrir nútímann, framfarir og tækni.

Margir voru um hituna. Áki Jónsson hjá ACO minntist þess síðar að ACO hefði verið fyrst fyrirtækja til að flytja inn tölvur frá Taívan í upphafi PC-byltingarinnar í kringum 1983. Það var þó ekki fyrr en um og eftir 1985 að sú gróska sem var í þessum innflutningi náði hámarki. Bjarni Ákason hjá ACO sagði í sama viðtali að 23 fyrirtæki hefðu selt PC-tölvur þegar mest var, en þeim fór síðan ört fækkandi.[115]

Lesbók Morgunblaðsins fjallaði ítarlega um þessa „vél framtíðarinnar“ í þremur greinum sumarið 1983 og í þriðju Morgunblaðsgreininni um haustið var ítarleg umfjöllun um Apple-tölvurnar en nýjasta gerð hennar, LISA, var kynnt á sýningu í Húsgagnahöllinni um sama leyti. Sú tölva þótti að mörgu leyti marka tímamót, vera þægileg og auðveld í notkun, meðal annars vegna þess að notendur þurftu ekki að læra flóknar skipanir til að stjórna henni heldur nægði að benda á táknmyndir á skjánum.[116]

Ásgeir Jakobsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, tók Lesbókargreinarnar saman og byggði þær á samantekt í fyrsta tölublaði bandaríska vikublaðsins Time 1983, sem valdi að þessu sinni ekki mann ársins heldur var tölvan valin vél ársins og mynd af tölvu birt á forsíðu blaðsins. Mikill hluti blaðsins var lagður undir frásögn af vélinni, „sem talin var meiri áhrifavaldur í mannheiminum en nokkur einstakur maður eða mannfélagshópur á árinu sem gekk um garð“.[117]

Í greininni er staða tölvumála í heiminum á árunum eftir 1980 tekin út. Þá töldu 80% Bandaríkjamanna að heimilistölvur yrðu jafnalgengar á heimilum og sjónvarp eða uppþvottavélar voru þá. Árið 1980 seldu tvær tylftir tölvufyrirtækja 724 þúsund heimilis- og einkatölvur, árið eftir voru framleiðendur rúmlega fjörutíu og seldu 1,4 milljónir tækja og 1982 voru fyrirtækin orðin hundrað og seldu 2,8 milljónir tækja. Ein niðurstaða Time-manna var:

Upplýsingaöldin, sem alla heimsbótamenn hefur dreymt um, er nú runnin upp og með henni gagngerð breyting á starfi mannsins og flestum hans lífsháttum, jafnvel hugsun hans. Bandaríkjamenn verða aldrei þeir sömu og áður eftir þá byltingu, sem þar í landi hefur þegar átt sér stað. Hið sama verður uppi á teningnum um allan heim. Iðnríki Vesturlanda og Japan eru að halda sömu leið og Bandaríkin í tölvuvæðingu. 1982 seldust 435 þúsund tölvur í Japan og 392 þúsund í Vestur-Evrópu.[118]

Í seinni grein Lesbókarinnar um almenningstölvur er rætt um þær breytingar á daglegu lífi fólks sem menn þóttust sjá fyrir, ekki síst að hún myndi létta þeim mjög ýmis störf, og ekki verður annað séð en þessi spá hafi ræst býsna vel:

Almenningstölvan breytir mestu á heimilunum og í einkarekstri, í viðskiptum og þjónustu, til dæmis hjá smákaupmönnum, læknum, lögfræðingum, rithöfundum og verkfræðingum, og þetta fólk allt kemur til með að nota sér mikið sambandið við tölvubankana.[119]

Því er spáð að tölvuvæðing heimila muni leiða til þess að skrifstofuvinna í borgum muni leggjast að verulegu leyti niður, fjarskiptasamband gera ferðalög á vinnustaði óþörf, og loks er vitnað í bókina „Þriðja bylgjan“ („The Third Wave“), sem kom út árið 1980, þar sem dregin er upp sú mynd af þjóðlífi 21. aldarinnar að tölvutæknin muni þá hafa „lagt undir sig heiminn og eytt allri miðstýringu og stöðluðu starfi í verksmiðjum, skrifstofum og allri færibandavinnu í iðnaði og þjónustu“.[120]

Í þriðju Lesbókargreininni er meðal annars vitnað í Bandaríkjamanninn Alvin Toffer, sem ímyndaði sér að tölvubyltingin myndi „leiða til þess, sem var fyrir iðnbyltinguna, að fjölskyldan lifði í friði og ró í kofa sínum úti í sveitinni, nema nú verður það „rafeindakofi“, þar sem tækin sjá um alla vinnu og fjölskyldan hefur lært að nota tímann sér til ánægju við hugðarefni sín, leiki og skemmtanir“.[121] Rannsóknir sem gerðar voru 1983 sýndu að tölvuvæðing myndi leiða af sér 16% atvinnuleysi áratuginn á eftir. Því voru ekki allir sammála, og ýmsir bentu á að tölvurnar myndu skapa jafnmörg störf og þær útrýmdu og endurhæfing í ný störf væri óhjákvæmileg. „Það virðist mega búast við því, að það verði hið normala að fólk sé ævilangt að endurhæfa sig.“ Áhrif tölva á börnin voru einnig til umfjöllunar: „Hvernig bregst hin fyrsta tölvukynslóð, en það eru þeir, sem nú eru á barnsaldri, við tölvunni, hvernig er bezt að kenna börnum og unglingum á tölvuna, hvernig er hægt að nota hana sjálfa sem kennslutæki, hvaða vandræðum valda slæmir tölvuritarar og tölvuglæpamenn?“ [122]

Margt var því skrafað um þessa nýju tækni, sem fæstir vissu hvert myndi leiða okkur, og fáa hefur líklega grunað hver staðan yrði eftir þrjá áratugi. En á málþingi sem haldið var á tölvusýningu haustið 1983 spáði Jóhann Pétur Malmquist, tölvufræðingur hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun því, að héldi innflutningur á tölvum og tengdum tækjum áfram næstu árin eins og hann hefði verið síðustu fimmtán árin yrði hver fjölskylda komin með einkatölvu árið 1986, hvert mannsbarn árið 1989 og árið 2000 yrði hver fjölskylda komin með einkatölvu sem væri jafnöflug og tölva sú sem Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkur ráku um þær mundir.[123]

 

[1] Gott dæmi um hvernig það var í framkvæmd er að finna í frásögn Sigurðar Björnssonar í kaflanum um nýtingu nýrrar tækni við rannsókn Geirfinnsmálsins.

[2] Hjálmtýr Guðmundsson. Minnisblað, 2015; Þorsteinn Hallgrímsson: Athugasemdir sendar í mars 2016.

[3] Sigurður Bergsveinsson. 2016. IBM setti fyrstu skjáina á markað erlendis um 1971. https://en.wikipedia.org/wiki/IBM_3270

[4] Upplýsingar frá Þorsteini Hallgrímssyni, 2015.

[5] Tölvutækni: KEA byrjar fjarvinnslu. Frjáls verslun, 2. tbl., 01.02.1975, bls. 15.

[6] Tölvunotkun á Íslandi: Tölvur senn um borð í skipum og í frystihúsunum? Frjáls verslun 3. tbl. 01.03.1976, 13­–15.

[7] Aco hf: Burroughs býður tölvueiningakerfi. Frjáls verslun, 5. tbl. 38. árg. 1979, bls. 35. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3163294

[8] „Flett upp“ í upplýsingabanka í París með fullkomnum tækjum í Stokkhólm, Vísir 25. nóv. 1976, bls. 8.

[9] Jón Þór Þórhallsson. Viðtal tekið 13.11.2014

[10] http://rhi.hi.is/sites/rhi.hi.is/eldri_frettabref/94des/7.htm  Sótt 30.03.2015.

[11] Tölvan frá IBM úrelt og illseljanleg. Ósæmandi æðstu menntastofnun íslendinga að þiggja gjöfina, segir Starfshópur um auðhringi. Þjóðviljinn, 5. mars 1976, bls. 1.

[12] Jón Þór Þórhallsson. Viðtal tekið 12.12.2014.

[13] Sama heimild.

[14] Frásögn Guðmundar Björnssonar, tölvupóstur frá Kristni Guðmundssyni, 21.05.2016.

[15] Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 59–60.

[16] Hjálmtýr Guðmundsson og Örn Kaldalóns. Viðtal tekið 24.09.2015. Bergsveinn Þórarinsson var sá sem fór með þessa lausn um allt land.

[17] Hjálmtýr Guðmundsson og Örn Kaldalóns. Viðtal tekið 24.09.2015. Bergsveinn Þórarinsson var sá sem fór með þessa lausn um allt land.

[18] Nýjar áherslur hjá ACO. Morgunblaðið, 16. mars, 1997. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/320941/

[19] Kristján Ó. Skagfjörð hf., Morgunblaðið 25. júlí 1976, bls. 23-27.

[20] Auglýsing. Frjáls verslun, 9. tbl. 1975.

[21] Fyrsta tölvan frá Skagfjörð (fréttatilkynning frá Skagfjörð). Morgunblaðið 9. des. 1976, bls. 34.

[22] Frosti Bergsson, 2016.

[23] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[24] Sama heimild.

[25] Frosti Bergsson, 2016.

[26] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[27] VAX tölvukerfi á Íslandi. Fréttabréf T-KOS / Tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörð hf. 1983. 1. tbl., bls. 6.

[28] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[29] Tölvur eru ekki bara bókhaldsvélar. Tíminn 17. ágúst 1977, bls. 10; Viðtal við Frosta Bergsson, Andrés Andrésson og Ragnar Magnason 2. mars  2015.

[30] Frosti Bergsson, Andrés Andrésson, Ragnar Magnason. Viðtal tekið 2.3. 2015.

[31] Sigríður Olgeirsdóttir. Viðtal tekið 7.9. 2015.

[32] Við erum ákveðnir í að halda okkar vaxandi markaðshlutdeild áfram. Frjáls verslun, 9. tbl. 44. árg. 1.9.1985, bls. 39-40.

[33] Við erum ákveðnir í að halda okkar vaxandi markaðshlutdeild áfram. Frjáls verslun, 9. tbl. 44. árg. 1.9.1985, bls. 39-40. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=233091&pageId=3168160&lang=is&q=G%EDsli%20J%20Johnsen%20G%EDsli%20J%20Johnsen. Sótt 18.1.2016.

[34] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 23.10.2015.

[35] Wang tölvur í tíu ár. Frjáls verslun, 6. tbl. 46. árg. 1.6.1987, bls. 31. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3169421&issId=233108&lang=1. Sótt 18.1.2016.

[36] Einkatölva deildarstjórans. Morgunblaðið. 16.8. 1981, bls. 19.

[37] Frosti Bergsson, 2016.

[38] Iðnaðarbankinn með nýtt tölvukerfi - IBM 3600: „Leysir á samræmdan hátt öll verkefni innan bankans, sem krefjast af nota af tölvu". Morgunblaðið. 13. nóv. 1979,  bls. 12.

[39] Sama heimild.

[40] EJS 70 ára. Frjáls verslun, 8.-9. tbl. 71. árg. 01.09.2009, bls. 16. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380216&pageId=6253040&lang=is&q=Einar%20J%20Sk%FAlason%20Einar%20J%20Sk%FAlason. Sótt 3.2.2016.

[41] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 2.10. 2015.

[42] Bergþóra Ketilsdóttur. Viðtal tekið 10.11.2014.

[43] Lögreglan tekur tölvutæknina í sína þjónustu. Morgunblaðið, 17. febrúar 1980, bls. 2.

[44] Bifreiðaskoðun Islands hf. Samið um skoðun og skráningu. Morgunblaðið 11. ágúst 1988, bls. 4; Nýja fastnúmerakerfið gengið í gildi: Fyrstu númerin á ráðherrabíl í gær. Þjóðviljinn 28. des. 1988, bls. 2.

[46] Viðtal við Jón Zóphoniasson: Það er allt hægt. Það er bara spurning um tíma og  peninga. Tíund, fréttablað RSK, maí 1994, bls. 19.

[47] Tandy-Radio Shack-umboðið: Seldi skattstofum landsins 33 tölvusamstæður. Morgunblaðið 25. mars 1982, bls. 18.

[48] Skúli Eggert Þórðarson. Viðtal tekið 3. desember 2014.

[49] Arnheiður Guðmundsdóttir. Minnispunktar vegna viðtala 2014 og 2015.

[50] Notkun greiðslukorta erlendis rýmkuð: Kortin þó aðeins veitt embættis- og kaupsýslumönnum. Morgunblaðið 13.06 1980, bls. 32.

[51] Kreditkort „ættleiða" fjölda fyrirtækja. Tíminn 22. júlí 1980, bls. 20; Haraldur Haraldsson, stjórnarformaður Kreditkorts hf.: Meðgöngutími – fæðingarhríðir – fæðing. Svör við ýmissi gagnrýni sem komið hafði á krítarkortin. Morgunblaðið 17. des. 1980, bls. 42.

[52] Senn hægt að verzla út á íslenzk krítarkort. Morgunblaðið 16. janúar 1980, bls. 15.

[53] Sama heimild.

[54] VISA-Island nýtt sameignarfyrirtæki banka og sparisjóða stofnað. Morgunblaðið 12. apríl 1983, bls. 2.

[55] Morgunblaðið 10. júlí 2010, 16. Kreditkortin voru algjör bylting á Íslandi en var líkt við eiturlyf á Alþingi Rétt þrjátíu ár liðin í dag frá því fyrstu greiðslukortin á Íslandi voru gefin út.

[56] Morgunblaðið 25.10. 1984, 3. Nýjung hjá Iðnaðarbankanum: Tölvubanki opinn allan sólarhringinn.

[57] Samkvæmt tölvupósti (26.11. 2017) frá Bersveini Þórarinssyni, sem var í þróunarteymi fyrir hraðbanka hjá IBM var það System/36 sem Iðnaðarbankinn var með.

[58] Arnlaugur Guðmundsson, 2016.

[59] Iðnaðarbankinn: Þjónusta tölvubankans aukin. Morgunblaðið, 31. jan. 1985, bls.2.

[60] Fyrsti tölvubankinn utan afgreiðslna og útibúa. Morgunblaðið, 28. mars 1985, 5.

[61] Ekki amast við tölvubanka Iðnaðarbankans; „Frekar sími en útibú eða umboðsskrifstofa" — segir viðskiptaráðherra sem gefur grænt ljós. Morgunblaðið, 30.mars. 1985, bls. 4.

[62] Morgunblaðið 18. ap. 1985 4 B. 65% afgreiðslu tölvubankans utan almenns afgreiðslutíma Iðnaðarbankinn hefur boðið öðrum bönkum að ganga inn í tölvubankakerfi sitt

[63] Morgunblaðið 9. maí 1985, B 5. Búnaðarbankinn og Landsbankinn bjóða óðrum bónkum með í hraðbankann

[64] Sambandstíðindi 16. árg. 1. sept. 1985, 28.

[65] Morgunblaðið 24. ágúst 1985, 4. Iðnaðarbankínn: Opnar táningum aðgang að tölvubankaþjónustu.

[66] Morgunblaðið 14. september 1985, 5.

[67] Morgunblaðið 11. apríl 1986, 4. Samstarf banka og sparisjóða: Hraðbanki opnaður og gefin út ábyrgðarkort í tékkaviðskiptum

[68] Viðtal við Þorstein Hallgrímsson 3. okt. 2014.

[69] SAMNORRÆN RÁÐSTEFNA UM TÖLVUMÁL OG MENNTUN og FRAMHALD AF SKÓLAMALARAÐSTEFNUNNI. Tölvumál, 6. og 8. tbl. 1983.

[70] 3.200 manns á tölvusýningu í Tónabæ. Morgunblaðið 23. mars 1983.

[71] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[72] Tölvumál 8. tbl. 1983, 11.. SÝNINGIN "SKRIFSTOFA FRAMTÍÐARINNAR"

[73] Morgunblaðið 28. jan. 1984, 26. Tölvusýning í Kennaraháskólanum um helgina.

[74] Morgunblaðið 27. mars 1984, IBM-sýning opnuð; Morgunblaðið 8. apríl 1984, 60; 9000 manns sáu tölvusýningu IBM.

[75] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið 2.9.2015; IBM-sýning opnuð. Morgunblaðið 27. mars, 1984. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119585&pageId=1590426&lang=is&q=tölvur Tónabæ. Sótt 2.12. 2015.

[76] Morgunblaðið 24. jan. 1985, B2-B5.

[77] Gunnar Ingimundarson. Viðtal október 2014.

[78] Morgunblaðið 24. jan. 1985, B4. Þeir kalla hann „undrastrákinn“ 19 ára nýstúdent rekur eitt framsæknasta hugbúnaðarfyrirtækið og stendur þar í ströngu.

[79] Viðtal  við Vilhjálm Þorsteinsson 26. sept. 2014.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Þjóðviljinn 21. október 1983 Fyrsta íslenska tölvan komin á markað.

[84] Morgunblaðið 16. júní 1988, B 3. Atlantis tekið tíl gjaldþrotaskipta.

[85] Þjóðviljinn 9. nóv. 1983, 11. Var einhver að tala um upplýsingabyltingu?

[86] Tíminn 22. jan. 1980, 8. Nýjar rafvogir fyrir frystihús.

[87] Þjóðviljinn 23. jan. 1980, 12. Nýr tækjabúnaður fyrir fiskvinnslustöðvar .

[88] Þjóðviljinn 31. mars 1983, 21; Nýtt fyrirtœki: Marel h.f.  Tíminn 18. ap. 1983, 10. Nýtt tölvufyrirtæki, Marel hf.

[89] Þjóðviljinn 21. nóvember 1983, 14. Sjálfvirkni í fiskiðnaðinum.

[90] Morgunblaðið, 27. nóv. 1983, 2. Marel hf.: Samið um sölu og dreifingu tölvubúnaðar á Norðurlöndum.

[91] Frjáls verslun 1. tbl. 1978, 53. Póllinn h.f., Ísafirði:Er að undirbúa framleiðslu á rafeindatækjum

[92] Þjóðviljinn 7. mars. 1980, 12. TÖLVUVÆÐING FRYSTIHÚSANNA Sérrit Þjóðviljans UM FISKVINNSLU Aukin nýting, minni vinna.

[93] Morgunblaðið 15. júlí 1979, 12. Framleida heyhitamæla og sjóhitamæla .

[94] Sjá kafla um íslensku stafatöfluna.

[95] Arnlaugur Guðmundsson, 2016.

[96] Verk- og kerfisfræðistofan h.f. Fréttabréf T-KOS / Tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörð hf. 1983. 1. tbl, bls. 5.

[97] Viðtal við Sigurð Bergsveinsson 17. október 2014.

[98] Byggt á Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 199-205: Sigurður Bergsveinsson: IBM Á ÍSLANDI OG ÍSLENSKLUR SJÁVARÚTVEGUR og viðtali  við Sig. Bergsveinsson 17. okt. 2014.

[99] Viðtal við Sigurð Bergsveinsson.

[100] Bergþóra K. Ketilsdóttir, tölvupóstur, apríl 2016.

[101] Árbók 1976-1979 (01.01.1979). Háskólaárin. 1976-1979, bls. 108. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=314242&pageId=4922672&lang=is&q=Fluglei%F0ir. Sótt 1.febrúar 2016.

[102] Októberfundurinn. Tölvumál, 3. árg. (01.11.1978), bls. 2. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=182030&pageId=2356466&lang=is&q=t%F6lvukerfi%20Fluglei%F0ir. Sótt 1.febrúar 2016.

[103] “Vinsamlegast sýnið okkur þolinmæði.” Auglýsing. Tíminn, 8. nóvember 1981. Bls 15. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278145&pageId=3994935&lang=is&q=Fluglei%F0ir. Sótt 1.febrúar 2016.

[104] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=182001&pageId=2356132&lang=is&q=t%F6lva%20t%F6lva Sótt 8. 10. 2016.

[105] Ferðum fjölgar bæði innanlands og til útlanda. Dagblaðið, 10. október 1981, bls. 5. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=228856&pageId=3105905&lang=is&q=Fluglei%F0ir%20t%F6lvukerfi. Sótt 1.2.2016.

[106] Farskráning innanlands í tölvu. Morgunblaðið, 10. nóvember 1981, bls. 35. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=118426&pageId=1548258&lang=is&q=t%F6lvukerfi. Sótt 1.2.2016.

[107] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119082&pageId=1571721&lang=is&q=t%F6lva%20ARNARFLUG. Sótt 8. 10. 2016.

[108] Íslensk útflutningsverslun er í tröllahöndum. Frjáls verslun. 7. tbl. 36. árg. 1977, bls. 49. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=232979&pageId=3161304&lang=is&q=Vegager%F0in%20t%F6lvur

[109] http://www.sky.is/images/stories/Oldungadeild/skjol/Minningabrot_Helga_Sigvalda_vefutgafa.pdf

[110] Upplýsingar frá Gísla Má Gíslasyni. 

[111] Októberfundurinn. Tölvumál, 3. árg. (01.11.1978), bls. 2. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=182030&pageId=2356466&lang=is&q=t%F6lvukerfi%20Fluglei%F0ir. Sótt 1.febrúar 2016.

[112] Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar (SKÝRR). Tölvumál, 4. árg. 1. tbl. 01.01.1979, bls. 11. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=182040&pageId=2356623&lang=is&q=Reykjav%EDkurborg. Sótt 3.2.2016.

[113] Morgunblaðið 23. júlí 1983, 26. Kristján Ó. Skagfjörð: Kynntu einkatölvur á Hótel Loftleiðum

[114] Tíminn 24. nóv. 1983, 6. Nýjungar hjá IBM á íslandi: PC EINKATÖLVAN ER LEIÐANDI Á MARKAÐNUM.

[115] Morgunblaðið, 16. mars, 1997. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/320941/

[116] Morgunblaðið 20. nóvember 1983, 20. Lisa -  tölvan sem gerbreytir hugtakinu einkatölva.

[117] Lesbók Morgunblaðsins 11. júní 1983, 2. Almenningstölvan.

[118] Sama heimild, bls. 16.

[119] Lesbók Morgunblaðsins 25. júní 1983, 4. Almenningstölvan – 2. hluti. Ein lítil baun – en var á stærð við herbergi árið 1946.

[120] Sama heimild, bls.6.

[121] Lesbók Morgunblaðsins 9. júlí 1983. Tölvan, rafeindakofinn og sveitasælan.

[122] Sama heimild, bls. 3.

[123] Tíminn 24. nóvember 1983, 10. Spá um tölvuafl á Íslandi, miðað við innflutning síðustu ára: HVER FJÖLSKYLDA KOMIN MEÐ EINKATÖLVU 1986?

Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla samfélagsbreytinga og framfara á Íslandi. Ýmis höft frá fyrri áratugum voru afnumin, konum á vinnumarkaði fjölgaði verulega og velmegun jókst með mikilli síldveiði. Undir lok áratugarins hvarf síldin af Íslandsmiðum og við tóku erfiðir tímar með landflótta. Sumir lögðu í búferlaflutninga allt suður til Ástralíu og margir skiluðu sér ekki aftur til Íslands frekar en síldin. Um allan heim voru þetta tímar mikilla tækniframfara og trúar á að tæknin myndi gerbreyta lífskjörum fólks, enda varð sú að mörgu leyti raunin. Varla er það tilviljun að einmitt á þessum tíma hafi fyrstu tölvurnar komið til Íslands. Tíminn var runninn upp bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

IBM og dvergarnir sjö

Í tölvuheiminum gnæfði risinn IBM yfir aðra með stórtölvur og eigin stýrikerfi. Paul Allen, annar stofnenda Microsoft, notar orðalagið „IBM og dvergarnir sjö“ í æviminningum sínum, en dvergarnir voru Burroughs, Control Data, General Electric, Honeywell, NCR, RCA og UNIVAC. Auk þess voru DEC og fleiri nýrri aðilar að hasla sér völl. Annað einkenndi markaðinn á þessum tíma og það var að hverri tölvu fylgdi sérhæfður hugbúnaðarheimur og þessir heimar sköruðust ekki, ólíkt því sem síðar varð. [1] Í upphafi áttunda áratugarins blés ekki byrlega í íslensku samfélagi; ofan á hrun síldarstofnsins bættist að þjóðin átti í þorskastríði við Englendinga vegna útfærslu landhelginnar. Sjávarútvegurinn var mikilvægasta útflutningsgrein Íslendinga og varla tilviljun að vísindamenn á sviði sjávarútvegs tóku nýjungum í tölvutækni fagnandi. Ásókn í háskólanám jókst, en lítið var um tækifæri fyrir fólk sem vildi starfa í tölvugeiranum.

Íslenskt samfélag var einsleitt og það endurspeglaðist í hinu nýja umhverfi tölvuvæðingar. Tölvurnar voru fáar og stórar og sömuleiðis viðskiptavinirnir, sem voru nær eingöngu stærri fyrirtæki og stofnanir. Síbreytileiki og nýsköpun framtíðarinnar mátti bíða enn um sinn.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1964–1974

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Í upphafi IBM 1401 og IBM 1620, síðar IBM 360-tölvuhögunin (360/xx og 370/xxx) og IBM S/3X-tölvurnar. Tölvur voru fáar fyrstu árin en fjölgaði í u.þ.b. nítján í lok tímabilsins. Hins vegar voru margir viðskiptamenn.

Öll gagnavinnsla var runuvinnsla, í upphafi eingöngu á gataspjöldum en segulbönd og diskar komu fljótt til sögunnar og í lok tímabilsins disklingar til skráningar á færslum. Engar skjástöðvar.

Stýrikerfi: Fyrir IBM 1401 og 1620 – ekkert stýrikerfi. Fyrir IBM 360 og 370 – Disk Operating System (DOS/360) og VM/370, fyrir IBM S/3-tölvurnar – mjög einfalt Operating Control Language (OCL).

Forritunarmál þessa tíma voru Fortran, COBOL, PLI, SPS, Assembler, RPG.

Fyrstu tölvurnar koma til Íslands: Varúð, viðkvæmar vélar!

Háskóli Íslands og SKÝRR fengust á þessum tíma við ýmis verkefni sem hentuðu tölvuvinnslu vel, og það vissu margir starfsmenn HÍ og SKÝRR. Hún gæti stóraukið getu þess mannafla og skrifstofubúnaðar sem tiltækur var. Bæði verkfræði- og viðskiptadeild HÍ sinntu verkefnum þar sem tölvutækni nýttist vel. Almanak Háskólans krafðist einnig mikilla útreikninga sem hentuðu vel fyrir tölvuvinnslu. SKÝRR hélt utan um ýmiss konar tölfræðigögn, verslunar- og hagskýrslur og með því að taka tölvur í sína þjónustu var jókst bæði reiknigeta og úrvinnslugeta.

Keypt mbl Innsida
5. okt 1964 - Fyrsta tölvan/reiknivélin kemur til landsins með Goðafossi til SKÝRR. Ljósmyndasafn Ólafs K. Magnússonar / Morgunblaðsins. Ól.K.M.

Tölvuöld er sögð hafa hafist á Íslandi haustið 1964 þegar tveimur fyrstu tölvunum sem keyptar höfðu verið til landsins var skipað á land í Reykjavík: Fimmta október voru hífðir úr Goðafossi þrír trékassar sem á var letrað stórum stöfum: „Electronic System – Delicate Machine – Handle with care – Very fragile“. Í þeim var vélasamstæða sem Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar höfðu tekið á leigu hjá bandaríska stórfyrirtækinu IBM. [2] Níu dögum síðar, miðvikudaginn 14. október, var skipað upp annarri vélasamstæðu, sem einnig var frá IBM, og átti að fara til Háskóla Íslands. Hún vakti ekki mikla athygli fjölmiðla og var aðeins getið í eins dálks frétt í Morgunblaðinu: „Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins,“ og fátt annað tekið fram en að vélinni hefði verið komið fyrir í hinu nýja raunvísindahúsi Háskólans. [3]

Raunar er ofmælt að tala um tölvuöld að svo komnu máli því enn hafði engum dottið í hug að nefna þessar nýju vélar tölvur. Þær voru oftast nefndar rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili, rafreiknir eða eitthvað slíkt enda voru þetta fyrst og fremst afskaplega afkastamiklar reiknivélar. Orðið tölva var ekki smíðað fyrr en árið eftir að fyrsta tölvan kom til landsins.

rafheili.kemur.til.Islands
Rafheili kemur til Íslands. „Varúð, viðkvæmar vélar!“ Morgunblaðið, 06.10.1964

Það var engin tilviljun að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar og Háskóli Íslands fengu fyrstu tölvurnar sem fluttar voru til landsins. Slík tæki hentuðu ákaflega vel fyrir stofnanir þar sem þörf var fyrir öflugar reikni- og skýrslugerðarvélar. Sú staðreynd að IBM-vélar urðu fyrir valinu var heldur engin tilviljun. Á þessum árum bar bandaríska fyrirtækið International Business Machines höfuð og herðar yfir aðra tölvuframleiðendur. Ottó A. Michelsen, aðaleigandi og forstjóri Skrifstofuvéla hf., sem flutti meðal annars inn IBM-gataspjaldavélar, fylgdist grannt með uppgangi þeirrar tækni sem var tekin að breiðast um hinn vestræna heim og átti eftir að gegna lykilhlutverki í upphafi tölvuvæðingar Íslands.  

Forveri kemur við á Íslandi - 1/2% áfengishækkun könnuð

Ísland var á hraðri leið inn í framtíðina og koma fyrstu tölvanna átti sér aðdraganda. Haustið 1963 fékk Ottó Michelsen leyfi hjá IBM til þess að sýna og kynna á Íslandi reiknivélasamstæðu sem verið var að senda frá Kanada til Finnlands. Sýning á vélinni hófst í húsakynnum fyrirtækisins Ottó A. Michelsen hf., að Klapparstíg 25, miðvikudaginn 23. október, og fjölda manns var boðið að skoða gripinn. Þeirra á meðal voru ráðherrar, framámenn í atvinnulífinu, hagstofustjóri, bankastjórar og fleiri og vakti vélbúnaðurinn hrifningu og þótti nýstárlegur. Meðal gesta var Gylfi Þ. Gíslason, menntamála- og viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Í ævisögu Ottós Michelsen segir að Gylfi hafi umsvifalaust sest við vélina „og með tiltölulega lítilli tilsögn fór hann strax að keyra hana. Hann spurði vélina hversu mikil tekjuaukning fyrir ríkissjóð myndi fylgja því að hækka brennivínið um hálft prósent. Hann fékk svarið á tveimur sekúndum og varð stórhrifinn og hefur sennilega strax hækkað áfengið sem þessu nam. Um það veit ég ekki. Ég er bindindismaður“. [4]

Háskólinn

Heili sem skilur Fortran og getur spilað púsluspil með eldspýtum

Vélin vakti fleiri aðila og Háskólinn stóð fyrir námskeiðum þar sem „kennt hefur verið sérstakt táknmál, „Fortran“, sem heilinn skilur og getur unnið úr“, eins og Alþýðublaðið skýrði frá.[5] Í þeirri frétt er haft eftir Ottó að þetta tæki sé ekki hægt að kalla „rafeindaheila“ heldur sé það einungis reiknivél, sem geti auk þess spilað „pússluspil“ með eldspýtum. Ottó upplýsti blaðamanninn um að vélin hefði tiltölulega stórt minni og unnt væri að mata hana á fimmtíu þúsund atriðum, sem hún ynni síðan úr.

vinnur.arsverk.a.8.klst
Mikil afköst tölvunnar sem kom við á Íslandi voru lofuð í blaðaumfjöllun. Alþýðublaðið, 23.okt. 1963

Ýmsir vísindamenn fengu tækifæri til að láta vélina vinna úr gögnum fyrir sig meðan hún var höfð til sýnis hér. Doktor Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur kom til að mynda með útreikninga tengda athugunum á segulsviðinu. Vélin leysti þá á átta klukkustundum en doktorinn sagði að tekið hefði heilt ár að leysa verkefnið með venjulegum aðferðum. Fleiri vísindamenn lögðu verkefni fyrir nýju reiknivélina: Páll Theódórsson eðlisfræðingur, sem var að fást við rannsóknir á trítíummagni í regnvatni, Sigurjón Rist vatnamælingamaður og Aðalsteinn Sigurðsson fiskifræðingur. Veðurstofan lét einnig gera ýmsa útreikninga fyrir sig sem ella hefðu ekki verið gerðir og Stefán Aðalsteinsson erfðafræðingur lét vinna úr þúsundum skýrslna frá sauðfjárræktarfélögum. [6] Ottó Michelsen segir í ævisögu sinni að þegar hann hafi komið til vinnu klukkan sex að morgni hafi dr. Stefán komið út frá reiknivélinni líkt og ölvaður, faðmað hann að sér og sagt: „Ó, Ottó. Nú er ég úrvinda, en svo glaður, því að ég veit að ég er búinn að inna af hendi tíu ára verk í nótt.“ [7]

Leitað til ríkisstjórnar um fjármögnun

Reiknivélin nýja var fokdýr, kostaði 2,8 milljónir króna, sem var ámóta og verð 5–6 venjulegra íbúða, og samsvarar rúmlega 54 milljónum króna miðað við meðalverðlag ársins 2014. [8] Ottó var hins vegar mikið í mun að Háskólinn eignaðist slíkan grip og beitti sér fyrir því að móðurfyrirtæki IBM í Bandaríkjunum gæfi eftir 60% af kaupverði reiknivélarinnar, eins og áður hafði verið rætt um, og það var kallað háskólaafsláttur. [9] Þá átti enn eftir að fjármagna þau 40% sem eftir stóðu og Ármann Snævarr háskólarektor fól Magnúsi Magnússyni prófessor að afla fjár til kaupanna. Háskólinn hafði ekkert bolmagn til þess að standa straum af þeim sjálfur og var því ákveðið að leita beint til ríkisstjórnar og Alþingis, og hugsanlega fleiri aðila, um fjárframlög til að gera skólanum kleift að taka reiknivélina á leigu, eins og þá voru venjulegir viðskiptahættir IBM.

Fjörutíu kílóbæta tölva á stærð við þrjú píanó

Magnús Magnússon prófessor ræddi málið við Gylfa Þ. Gíslason, viðskipta- og menntamálaráðherra, og hann sýndi því mikinn áhuga en lagði áherslu á að tryggja yrði að tekjur af rekstri vélarinnar stæðu að minnsta kosti undir hluta rekstrarkostnaðarins. Magnúsi var falið að setja á stofn sérstaka reiknistofu sem skyldi annast reksturinn. Hann setti sig í samband við forstöðumenn ýmissa opinberra stofnana og stórfyrirtækja og tókst að sannfæra þá flesta um kosti þess að skipta við hina nýju reiknistofu þannig að þegar í upphafi tókst að tryggja henni fasta viðskiptavini, sem hver lofaði að nota reiknivélina í eina til þrjár klukkustundir í hverjum mánuði.

365 skólar Háskóli Íslands 5
Desember 1963 - Ármann Snævarr rektor Háskóla Íslands skrifar undir samning um kaup á. Til vinstri er Ottó A. Michelssen, í baksýn eru Trausti Einarsson, Magnús Magnússon og Jóhannes L.L. Helgason háskólaritari. Ljósmyndari Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Næsta verkefni Magnúsar var að skrifa fjárlaganefnd Alþingis og biðja um fjárstyrk til kaupanna. Meðan hann sat við að skrifa bréfið hringdi Gylfi Þ. og spurði hvað myndi kosta að kaupa vélina í stað þess að leigja hana. Þótt Magnús hefði gert ráð fyrir því að taka vélina á leigu gat hann upplýst ráðherrann um nokkuð nákvæmt kaupverð í íslenskum krónum. Um tíu mínútum síðar hringdi Gylfi aftur og sagði að ákveðið hefði verið að í tilefni þess að tíu ár væru frá því að Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður myndi bankinn gefa Háskóla Íslands þá fjárupphæð sem vantaði upp á heildarkaupverð reiknivélarinnar. Í ljós kom að Gylfi var á fundi bankaráðsins þegar hann hringdi, og var raunar formaður þess. Þar hafði einmitt komið til umræðu hvernig væri við hæfi að minnast þessara tímamóta í sögu bankans og Gylfi lagði þetta til. Það var samþykkt og með því tryggt að Háskóli Íslands fengi sinn fyrsta rafeindareikni af gerðinni IBM 1620 Model II, í þremur hlutum og hver hluti á stærð við píanó. [10]

Í byrjun vetrar 1964 var rafeindareikninum komið fyrir í nýju húsi Raunvísindadeildar Háskólans vestur á Melum og samtímis tók til starfa nýja stofnunin, Reiknistofnun Háskólans, undir stjórn prófessors Magnúsar Magnússonar. Vélin var reiknivél af nýjustu gerð, sem hafði verið kynnt í fyrsta sinn í desember ári fyrr, og var talsvert fullkomnari en næsta módel á undan. Nú er hægt brosa yfir tæknilegri lýsingu á þessari vél: Hún hafði 40 þúsund tákna minni, sem eru 40 kílóbæti eða 0,04 megabæti, inntaks-/úrtakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari en henni fylgdu hvorki seguldiskar né prentari. Síðar voru keypt með fjárstyrk frá bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) tvö utanáliggjandi seguldiskadrif, sem hvort um sig hafði tveggja milljóna tákna minni, það er tvö megabæti, og línuprentari var fenginn að láni hjá IBM. [11] Síðar var minni reikniheilans aukið úr 40 kílóbætum í 60. Hjálmtýr Guðmundsson var einn þeirra sem prófuðu að vinna á þessari vél þegar hann vann hjá Ottó A. Michelsen/IBM. Hann reyndi að nota vélina til að finna samhengi milli ýmissa breytna og forritunartíma og kostnaðar. Verst þótti honum að hafa ekki getað hellt sér meira út í að forrita á þessari vél, því það var sérlega áhugavert að hans mati. [12]

Sólarhringur í að reikna út þriggja stunda veðurspá

Þegar reiknivélinni nýju hafði verið komið fyrir voru haldin kynningarnámskeið fyrir yfirmenn stofnana og forráðamenn verkfræðifyrirtækja um gagnsemi vélarinnar. Kynnt voru ýmis forrit sem notuð voru á þessum upphafsárum: COGO (Coordinate Geometry) og PERT (Program Evaluation and Review Technique) og fljótlega fjölgaði verkefnum Reiknistofnunar. Margar verkfræðistofur svo og verkfræðideild HÍ hófu að nýta sér háskólatölvuna, og þótti hún hafa gríðarlega mikil og góð áhrif á árangur starfs þeirra. Kennarar og stúdentar úr viðskiptadeild Háskólans sýndu tilkomu hennar hins vegar takmarkaðan áhuga. Á vormisseri 1965 var haldið Fortran-námskeið fyrir verkfræðinema á þriðja ári. Haustið 1965 komst fastara skipulag á þessi námskeið og þau gerð að skyldunámskeiðum fyrir verkfræðistúdenta. Háskóli Íslands mun hafa verið meðal fyrstu háskóla á Norðurlöndum til að gera forritun að föstum þætti í námi við skólann.

Undir árslok 1964 skrifaði doktor Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, einn af þeim ungu mönnum sem höfðu kynnst þessu nýja undratæki nútímans, í Tímarit verkfræðingafélags Íslands:

Tæp átján ár eru liðin síðan fyrsta rafeindareiknivélin kom fram á sjónarsviðið. Á þessum stutta tíma hefur notkun slíkra véla rutt sér svo til rúms, að þær mega nú heita ómissandi í flestum greinum vísinda og tækni. Rafeindareiknirinn, sem Reiknistofnun Háskólans hefur nú tekið í notkun, boðar því tímamót í tæknimálum hér á landi. Að vissu leyti mætti líkja þessum atburði við þá breytingu, sem varð, þegar jarðýtur og skurðgröfur tóku við af skóflu og haka.[13]

Fjöldi verka var unninn með hjálp nýju tölvunnar. Verkfræðingar Vegagerðar ríkisins notuðu tölvuna til að reikna út og hanna seinni hluta Reykjanesbrautar, milli Hafnarfjarðar og Keflavíkurflugvallar, sem var fyrsta stórverkefni í vegagerð á Íslandi. Verkfræðingar hjá borgarverkfræðingi Reykjavíkur hófu hönnun á götum í Reykjavík með þessari nýju tækni. Unnin var langtímaáætlun um orkukerfi landsins og áætlun um notkun uppistöðulóna og nýtingu jarðhita í samvinnu við Raforkumálaskrifstofuna sem síðar varð Orkustofnun. Veðurstofan vann úr upplýsingum um veðurfar og meðal annars var reynt að spá fyrir um sjólag við Íslandsstrendur svo gefa mætti út viðvaranir til fiskiflotans. Þá var tölvan mötuð á veðurgögnum frá Veðurstofunni síðdegis og síðan var ætlunin að gefa út spá á miðnætti. Þetta gekk vel, að því undanskildu að það tók IBM 1620 heilan sólarhring að reikna út þriggja klukkustunda spá!

Hafrannsóknastofnunin og síldargöngurnar

Eðlilega var reynt að beita þessari nýju reiknitækni á undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn. Hafrannsóknastofnun sendi verkefni á gataspjöldum til úrvinnslu í tölvu til Noregs áður en fyrstu tölvurnar komu til Íslands. Sérfræðingar stofnunarinnar unnu úr gögnum um síldargöngur og greindu meðal annars upplýsingar um veiðisvæði, aflamagn, fjarlægð og siglingartíma til næstu löndunarhafnar. Tilgangurinn var að skipuleggja veiðar og löndun á sem hagkvæmastan hátt til að geta beint veiðiskipunum til þeirrar hafnar sem best hentaði hverju sinni. Eigendur síldarskipanna og síldarverksmiðjanna sýndu þessu þó lítinn áhuga, hugsanlega með það í huga að gæta hagsmuna verksmiðjueigenda.[14]

Hafrannsóknastofnun notaði eigið starfsfólk til að forrita og laga erlend forrit að þörfum stofnunarinnar[15] og innan hennar byggðist upp mikil þekking og því engin furða að stofnunin væri framarlega á sviði framfara í tölvutækni á Íslandi.

Manntalsgögn

Á árinu 1965 tók Reiknistofnun að sér merkilegt verkefni í erfðafræði, sem styrkt var af bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) og byggði á manntali 1910 og yngri gögnum. Þessar manntalsskrár voru með hjálp forritsins Symbolic Programming System (SPS) tengdar við þjóðskrá fyrir lifendur, eða andlátsskýrslur, með tilliti til dauðaorsakar. Einnig voru fæðingartölur frá 1910 og eftir það tengdar þjóðskrá eða andlátsskýrslum. Þannig var sett upp gagnasafn um 85 þúsund manns í manntalinu og 165 þúsund fæddra eftir það, að samanlögðu um 250 þúsund manns. Þá voru blóðflokkaskýrslur 27 þúsund manna tengdar gagnasafninu. Þessi einstaki gagnabanki var síðan notaður til ýmiss konar erfðarannsókna á fólki. Verkefnið vakti umtalsverða athygli á alþjóðavettvangi, var kynnt víða í Bretlandi og Bandaríkjunum og leiddi til þess að Reiknistofnun fékk lausa seguldiska, sem hvor rúmaði tvær milljónir bæta. 

365 skólar Háskóli Íslands 6
Maí 1965, rafreiknir Háskóla Íslands, Reiknistofnun Háskólans. F.v. Þórhallur Einarsson, dr. Ragnar Ingimarsson, Helgi Sigvaldason, Oddur Benediktsson og prófessor Magnús Magnússon forstöðumaður deildarinnar.
Ljósmyndari: Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Þegar á fyrsta ári Reiknistofnunar Háskólans voru gerðar áætlanir um að setja upp módel fyrir íslenskt efnahagslíf, meðal annars í samráði við hollensk-bandaríska prófessorinn Tjalling Koopmans, sem hlaut síðar nóbelsverðlaun í hagfræði (1975). Þetta var talið fremur auðunnið, einkum vegna þess hve einhæft efnahagslífið var. Forrit sem var sérsniðið fyrir verkefni af þessu tagi fékkst frá háskólanum í Vínarborg en lítið varð úr þessum áformum, vegna áhugaleysis íslenskra hagfræðinga. Árið 1966 var fasteignamat á Íslandi tölvuvætt og grundvöllur lagður að því fasteignamati sem enn er stuðst við, einnig tölvuvæðingu borgarskipulags í Reykjavík og útreikningum á „byggingavísitölu“. Þetta var síðar tengt fasteignaskráningu, fasteignaverði og byggingarkostnaði.

Fyrstu tilraunir til útreikninga á hagkvæmni fiskveiða

Árið 1969 gerðu starfsmenn Reiknistofnunar Háskólans, í samvinnu við Fiskifélag Íslands, tilraun til að auka hagkvæmni fiskveiða. Byggt var á söfnun og greiningu mikils magns gagna frá íslenska togaraflotanum, meðal annars um stærð og fjölda togara, aflamagn, helstu veiðisvæði og ýmislegt fleira. Borin var saman hagkvæmni togara af mismunandi stærð og niðurstaðan varð sú að hagkvæmasta stærð togara væri milli 400 og 500 tonn. En hvorki stjórnvöld landsins né forystumenn í sjávarútvegi sýndu minnsta áhuga og eftir þetta voru smíðaðir stærri og óhagkvæmari togarar.[16]

Umsvif utan háskólasamfélagsins

Varla verður fjallað um fyrstu ár tölvuvæðingar á Íslandi án þess að fjalla um þátt IBM og SKÝRR í þeirri sögu en hún var oft nátengd, eins og sjá má.

SKÝRR – frá stórum og þungum reiknivélum til gataspjalda

Fyrirrennarar Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar, skammstafað SKÝRR, voru Hagstofa Íslands, sem tók til starfa árið 1914, og Rafmagnsveita Reykjavíkur, sem hóf starfsemi 1921. Stærstu verkefni þessara stofnana voru að halda utan um mannfjöldatölur, breytingar á búsetu og annað slíkt, verslunar- og hagskýrslur, rafmagnsnotkun, innheimtu og bókhald. Báðar stofnanirnar fengu fljótt stórar og þungar reiknivélar og vélar til að skrifa út reikninga. Sumarið 1949 fékk Hagstofan skýrslugerðarvélar frá IBM í Bandaríkjunum, fyrst og fremst í tengslum við úrvinnslu á tíu ára manntali, sem þá var unnið að.

skrytla.ur.morgunbladinu
Skrýtla úr Morgunblaðinu um nýja rafeindaheilann. Morgunblaðið, 15.10.1964

Árið 1952 tókst samstarf með stofnununum tveimur um að taka á leigu hjá IBM gataspjaldakerfi, sem var margfalt afkastameira en gömlu vélarnar. Þannig varð til sérstakt fyrirtæki, sem fékk nafnið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Vélarnar voru settar upp í skrifstofu Rafmagnsveitunnar að Tjarnargötu 12, yfir gömlu slökkvistöðinni, en stofnanirnar áttu sinn helming hvor í þessu nýja fyrirtæki. Fljótlega gat SKÝRR tekið að sér verkefni fyrir ýmsar aðrar skrifstofur ríkis og bæjar og fleiri aðila, og 1957 flutti fyrirtækið í eigið leiguhúsnæði, að Skúlagötu 50. Upprunalega hugmyndin að stofnun Skýrsluvéla kom raunar frá dr. Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni, sem varð síðar landlæknir. Hann lagði til að Rafmagnsveitan, Hagstofan og Heilsuverndarstöð ríkisins hefðu samvinnu í þessum efnum af því að árið 1950 stóð til að Alþjóða heilbrigðisstofnunin (World Health Organization, WHO), tæki verulegan þátt í berklarannsóknum hér á landi. Ekkert varð þó af því og ekki heldur að Heilsuverndarstöðin yrði með í hinu nýja skýrslugerðarfyrirtæki en dr. Sigurður mun hafa setið í stjórn Skýrsluvéla um skeið vegna aðildar sinnar að málinu.

Þjóðskrá – fyrsta véltæka skrá í heimi

Með nýju skýrslugerðarvélunum sparaðist talsverður mannskapur á skrifstofum stofnananna tveggja, sem nýttist til annarra verka. Ákveðið var að nýta þetta svigrúm til að koma á vélaspjaldskrá yfir alla landsmenn, sem fékk heitið þjóðskrá, og var aðalverkefni Hagstofunnar á árunum 1952 til 1954. Klemens Tryggvason var hagstofustjóri á þessum tíma og bar ábyrgð á nýja verkefninu en Áki Pétursson stýrði þessu nákvæmnisverki á metnaðarfullan hátt. Talið er að hin íslenska véltæka þjóðskrá sé sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, líkt og manntalið 1703 er talið fyrsta manntal heillar þjóðar sem tekið hefur verið og enn er varðveitt.

Sérhannað hús fyrir vélasamstæðu

Gataspjöldin sköpuðu nýja og áður óþekkta möguleika. Snemma árs 1960 var hér á ferð sænskur maður frá IBM í Stokkhólmi og hann kynnti stjórn Skýrsluvéla nýjasta vélbúnaðinn frá fyrirtækinu, vélakerfin 1401 og 1620, af nýrri kynslóð sem þá voru nefndir rafreiknar eða rafeindareiknar á íslensku. Stjórn Skýrsluvéla tók að afla sér upplýsinga um þessar nýju vélar og um tíma stóð til að samstarf yrði haft við Háskóla Íslands um vélakerfi en skólinn hafði eigin hugmyndir og ekkert varð úr því samstarfi. Stjórn SKÝRR hélt ótrauð áfram að undirbúa kaup á þessu nýja vélakerfi og sendi starfsmenn til útlanda í nám og þjálfun í meðferð þessara töfratækja. Vorið 1963 var ákveðið að ráðast í að byggja hús við Háaleitisbraut 9, sérhannað fyrir það vélakerfi sem til stóð að taka á leigu hjá IBM. Húsið var 330 fermetrar að grunnfleti, tvær hæðir ásamt 80 fermetra kjallara og var tilbúið að taka við nýju vélasamstæðunni þetta merka haust, 1964.[17]

Minnisskortur

Fyrstu tölvurnar tvær sem komu til landsins þættu vísast hálfklénar og ekki til stórræðanna nú. Segulminni vinnslueiningar eða miðverks SKÝRR-tölvunnar, IBM 1401, var 4000 stafir, tæplega það sem kallast 4 kB í dag. Hvert bæti, eða stafur, var sex bitar, sem gaf 64 stafagildi, eða möguleika á að skrá 64 mismunandi stafi eða tákn. Til viðbótar voru tveir bitar, annar fyrir „wordmark“, en hinn fyrir „parity check“. Til samanburðar eru bæti nútímatölva átta bitar eða 256 stafagildi, auk parity-bita. Minnið var takmarkað og þessi eining vélarinnar var varla á stærð við skókassa að ummáli. Minniseiningarnar sjálfar voru smágerð völundarsmíð: Hver biti minnisins var agnarsmár málmhringur, þræddur á hring þar sem fjórir vírar fóru í gegnum hvern hring, tveir til að kveikja og tveir til að slökkva auk skynjaravírs. Hins vegar var boxið utan um minnið með öllum tengingum, mögnurum, kælingu og fleiru slíku á stærð við tvo ísskápa.[18]

Áður en tölvurnar komu til landsins notuðu nokkur fyrirtæki svokallaðar skýrsluvélar (Unit Record (UR) machines) til alls konar gagnavinnslu. Þær voru ekki forritanlegar en var eftir atvikum stýrt af töflum og öll gögn, það er skrár og færslur, voru á gataspjöldum.

Stökkið frá gömlu stýranlegu skýrsluvélunum yfir í 1401-vélina var stórt að því leyti til að nú var hægt að skrifa forrit sem mátti geyma og nota aftur og aftur, en UR-vélarnar voru með víruðum tengitöflum og þurfti oftast að tengja þær upp á nýtt við næstu vinnslu því ekki var hægt að geyma svo margar. Það var mikil vinna að tengja slíka töflu.[19] „Mig minnir að við ættum einar þrjátíu tengitöflur í IBM 407 á Klapparstíg 27 í Skýrsluvinnslu Ottó A. Michelsen. Töfluskápurinn náði frá gólfi og upp í loft.“[20]

Áfram var gamla spjaldagatatæknin notuð til að mata vélina á gögnum en undirbúningur vinnslu varð hins vegar talsvert einfaldari. Spjaldalesarinn/-gatarinn skiptist í tvo meginhluta annars vegar inntak eða lesara fyrir gataspjöld, sem annaði 800 spjöldum á mínútu, og hins vegar úttak, spjaldagatara sem gat skilað allt að 250 götuðum spjöldum á mínútu.

Prentarinn var sannkallaður hraðprentari á þess tíma mælikvarða, gat spýtt frá sér allt að 600 línum á mínútu og 48 mismunandi stöfum eða táknum. Hver lína var 132 stafir á breidd og allir stafir jafnbreiðir.[21] Það var mikil framför frá gömlu skrifurunum, sem nefndir voru „tabúlatorar“. Hann hafði það einnig fram yfir þann gamla, og raunar tölvur í mörg ár eftir það, að íslensku stafirnir voru ekki vandamál, hvorki Ð, Þ, Æ Ö og ekki heldur broddstafirnir Á eða É. Síðar komu stafirnir Í, Ó, Ú og Ý. En íslensku sérstafirnir áttu eftir að valda dálitlum vandræðum síðar eins og fram kemur í sérstökum kafla.

Ekki var sérstakt stýrikerfi í IBM 1401 fyrir vinnslu vélarinnar heldur var hvert forrit lesið úr gataspjöldum þegar átti að nota það. Því var til að mynda ekki unnt að vinna fleiri en eitt verkefni samhliða né heldur geyma verkefni í biðminni. Ef forrit klikkaði, sem gat komið fyrir í prófunum, stöðvaðist tölvan og skilaboðin „Process check“ birtust með rauðum stöfum. Þá varð að finna villuna, laga forritið, þýða upp á nýtt og prufukeyra aftur. Enda þótt minni vélarinnar væri ekki nema 4000 tölvustafir mun hún hafa dugað merkilega vel því notað var svonefnt SPS-forritunarmál (Symbolic Programming System), sem innihélt engar fjölskipanir en gerði mönnum kleift að nýta vel þetta takmarkaða minni, með því að beita ýmsum klókindum. Elías Davíðsson fann leið til að beita fjölskipunum í IBM 1401. Forrit hans var nokkurs konar „precompiler“ sem las gataspjald með fjölskipun og gataði ný spjöld með skipunum sem 1401 skildi. Spjaldadekkið sem úr því kom var svo þýtt í SPS eins og venjulega.[22]

Unnt var að vinna launakerfi, bókhald, reikninga, tölfræði og sitthvað fleira með því að nota SPS. Öll forritin voru, rétt eins og gögnin, geymd á gataspjöldum.[23]

Þessi tölva var, eins og allar fyrstu tölvurnar sem komu á vegum IBM, einungis fáanleg til leigu og allt var innifalið. Allur hugbúnaður var innifalinn í leigu vélbúnaðarins, en hann var langdýrastur. Síðar var tekinn upp sá háttur að verðleggja hugbúnað sérstaklega, eða um 1972.[24] Áskilið var að væri tölva tekin úr notkun skyldi flytja hana til baka úr landi eða farga henni, sem gat verið ærið mál og þurfti jarðýtu til að sjá um slík verk.[25]

Hjólin í rafeindareiknivél SKÝRR fóru að snúast þegar í stað því verkefnin voru næg: Fyrir lágu 27 verkefni sem áætlað var að kölluðu á 250 daga vinnu við forritun. Hjá SKÝRR störfuðu átján menn og af þeim voru aðeins þrír forritarar en þeim fjölgaði fljótlega og stjórn félagsins hafði úti öll spjót til að finna hæfa menn til þeirra starfa. Smám saman fjölgaði þeim sem kunnu til þessara verka og átta árum síðar, árið 1972, voru starfsmenn orðnir fimmtíu talsins og rauntekjur Skýrsluvéla höfðu ríflega þrefaldast. [26]

Nýyrðið tölva

Orðið tölva var ekki til haustið 1964 þótt tölvuöld hafi þá hafist á Íslandi. Framan af voru tækin yfirleitt nefnd rafreiknar eða rafmagnsheilar; einnig rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili og rafreiknir. Allt voru þetta tilraunir til að þýða orðið „computer“, því Íslendingar voru ekki á því að taka upp erlent tökuorð fyrir þetta nýja tæki.

vjelraenn.heili
Orðalagið vjelrænn heili var notað í blaðafregn árið 1949. Morgunblaðið, 17. nóvember 1949.

Orðið „rafheili“ sást fyrst í Morgunblaðinu síðla árs 1949 í grein sem bar nafnið „Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum?“[27]

Orðið „vélheili“ sást fyrst í Vísi sumarið 1946, en eins og sjá má af textanum er þar verið að tala um ákveðna vél:

„Vélheili“, eða öðru nafni algerlega sjálfvirk reiknivél, var fundin upp af Howard H. Aiken, sjóliðsforingja. Hafði hann unnið að vélinni í sex ár. Leysir hún verkefni, sem áður tók margar vikur að vinna að, á fáum klukkustundum.[28]

Orðið „rafeindaheili“ sást líklega fyrst í tímaritinu Úrvali árið 1953 í greininni „Geta Rafeindaheilarnir hugsað?“

Einn þeirra sem veltu fyrir sér íslenskun orðsins „computer“ var Páll Bergþórsson veðurfræðingur. Hann ræddi þessi nýju verkfæri í útvarpsþætti sem hann nefndi „Veðrið í vikunni“ og var fluttur 19. desember 1964, einmitt þegar nýbúið var að koma nýju vélinni fyrir í kjallara Raunvísindastofnunar vestur á Melum. Vafalaust hefur hann vitað að árið áður höfðu veðurstofumenn rennt ýmsum tölum sem vörðuðu veður í tilraunaskyni gegnum tölvuna sem Ottó Michelsen fékk lánaða til landsins og fyrr er frá sagt. Fyrst hugleiddi hann hvert væri hlutverk þessa verkfæris: 

Í stuttu máli er það að leysa verkefni og svara spurningum, sem fyrir hann eru lagðar. Næst er svo að athuga, hvort til er á íslensku nafn á hlut eins og þessum, og sé það til, á það að sjálfsögðu að ganga fyrir tilbúnum nöfnum. Það ætti að vera ein meginreglan við nafngiftir nýrra tækja.

Páll vék síðan að gamalli þulu þar sem í er þetta:

Segðu mér nú, vala mín,
það sem ég spyr þig um:
ég skal með gullinu gleðja þig
og silfrinu seðja þig,
ef þú segir mér satt,
en í eldinum brenna þig
og koppinum kæfa þig
ef þú lýgur að mér.

Þetta skýrði Páll með því að fyrr á tíð hefðu börn sett sauðarvölu á höfuð sér, farið með þessa þulu og síðan spurt spurningar, sem svara mátti með já eða nei. Svo steyptu þau völunni fram af höfðinu og niður á gólf. Kæmi kryppan upp sagði valan já, sneri hvilftin upp merkti það nei en legðist valan á hliðina vildi hún ekki svara. Síðan vék Páll að því að vafalítið væri skyldleiki með orðunum vala og völva og vitnaði um það í Völuspá. Þar með var komin sú tillaga Páls, að rafeindareiknivélarnar yrðu kallaðar vala en rafmagnsvala við hátíðleg tækifæri. Hann taldi þetta eiga býsna vel við „þá galdranorn rafeindatækninnar, sem menn leita til með erfiðastar ráðgátur nú á dögum, rafeindareiknivélina“. Ýmsum þótti þessi tillaga Páls skemmtileg, ekki síst samlíkingin við sauðarvöluna, sem svaraði ýmist með já eða nei. Tvíundarkerfið er einmitt undirstaða í tölvutækni, byggð á tölunum 1 eða 0.

Það var hins vegar Sigurður Nordal prófessor sem skaut fram afbrigðinu „tölva“ á árinu 1965 í samtali við Magnús Magnússon prófessor. Sigurður sagði að það orð væri dregið af orðunum vala og tala, en málfræðileg rök eru fyrir því að v komi inn í orðið og vísar það þá til orðsins völva, sem er af sama uppruna.

Menn í Háskólanum voru á báðum áttum og notuðu flestir áfram um sinn orð eins og rafeindareiknivél, rafreiknir og reikniheili. Einn maður hafði þó gripið orðið á lofti og rak harðan áróður fyrir því. Það var Þorsteinn Sæmundsson, ritstjóri Almanaks Háskólans. Í fyrstunni varð honum lítið ágengt meðal þeirra sem unnu við hin nýju tæki, en svo varð almanakið fyrir 1967 fyrsta verkefni rafeindareiknis Háskólans og fékk verknúmerið H0001.[29] Það var prentað og kom út á árinu 1966, og á blaðsíðu 40 greinir ritstjórinn frá því að tölva hafi í fyrsta sinn verið notuð við útreikning almanaksins, en til öryggis hafði hann þó orðið rafeindareiknir innan sviga. Eftir það fékk orðið góðan byr og náði fótfestu óvenjufljótt, af nýyrði að vera. Það er ekki síst þakkað Þorsteini en hann hefur sagt að sú virðing sem Sigurður Nordal naut hafi átt drjúgan þátt í því að menn tóku að nota orðið enda hafi hann óspart beitt nafni Sigurðar fyrir sig í áróðrinum fyrir orðinu.[30]

Tæknin í upphafi: Hraðfleyg þróun

Frá gataspjöldum til seguldiska

Íslendingar fikruðu sig inn á tölvuöld innan við tveimur áratugum eftir að fyrsta frumstæða útvarpslampatölvan var ræst. Það kann að virðast fljótt, en þeir sem tóku þátt í brautryðjendastarfinu benda á að við höfum í rauninni verið sein til að slást í hópinn. Báðar tölvurnar sem komu í upphafi til Háskólans og SKÝRR árið 1964 komu á markað 1960 og voru því orðnar nokkuð úreltar. Næsta kynslóð tölva var komin á markaðinn um það leyti sem Íslendingar voru að gangsetja sínar fyrstu tölvur af eldri kynslóðinni. Að vísu átti SKÝRR-tölvan að koma fyrr en kaupunum var frestað vegna þess að húsið við Háaleitisbraut var ekki tilbúið.

Stjórn SKÝRR tók fljótlega að huga að næsta skrefi og í ágúst 1967 var pöntuð ný tölvusamstæða til að taka við af IBM 1401, en þá voru IBM 360-tölvurnar komnar til sögunnar. Í fyrstunni var hugmyndin að taka afbrigði af þeirri vél sem einungis ynni með spjöld og talið að minnisstærð 8 kB myndi nægja, tvöfalt meira minni en í þeirri vél sem fyrst var tekin í notkun. En í desember, þegar pöntunin var staðfest, hafði hún tekið talsverðum breytingum, og fyrir valinu varð IBM 360/30, sem hafði 16 kB minniseiningu með tveimur diskastöðvum (IBM 2311), segulbandsstöðvum, pappírsræmulesara (IBM 2671) og fleiru. Vélin átti einnig að geta keyrt óbreytt 1401-forrit.

fyrstu.seguldiskar.skyrr
Fyrstu seguldiskar SKÝRR. Laus diskur sést ofan á samstæðunni á neðri myndinni. Þjóðviljinn 29.09.1968

Fljótlega var farið að undirbúa komu hinnar nýju tölvu og starfsfólk Skýrsluvéla fékk meðal annars námskeið fyrir forritara og „operatöra“, eða tölvara eins og starfið var nefnt síðar. Vélin kom til landsins haustið 1968 og var tekin í notkun 1. október. Hún var notuð í tæp þrjú ár en fljótlega kom í ljós að 16 kB minni var bagalega lítið og 1970 var það stækkað í 32 kB. Vinnubrögð breyttust talsvert á þeim tíma sem 360/30-vélin var í notkun og meðal annars var farið að færa skrárnar yfir á segulbönd. Sú færsla, sem var áður tímafrek nákvæmnisvinna í hjálparvélum, var nú unnin í tölvunni sjálfri. Farið var að varðveita hugbúnaðinn á seguldiskum þar sem tölvan gat nálgast forrit á augabragði, og flýtti það gangsetningu verka.

Eftir sem áður voru inntaksgögn skráð á gataspjöld og frá 1969 einnig á gatastrimla að hluta, en lesari fyrir gatastrimla var tekinn í notkun í byrjun þess árs.

Gataspjöld með 80 táknum

Skýrsluvélarnar, sem voru forverar tölvanna (UR-vélar), voru ekki forritunarlegar en var stýrt af töflum og öll gögn þeirra á gataspjöldum. Gataspjaldið var á stærð við dollaraseðil við upphaf 20. aldar og hafði tólf láréttar raðir og áttatíu lóðrétta dálka. Þannig rúmuðust áttatíu bókstafir, tölustafir og tákn í hverju spjaldi. Í upphafi tölvuvinnslu á Íslandi voru einnig öll forrit skráð á gataspjöld og geymd þannig. Þrátt fyrir tilkomu segulbanda og seguldiska voru gataspjöldin í notkun vel fram á áttunda áratuginn.

gataspjald1
Lýsing á heiti raða og því hvernig bókstafir, tölvur og tákn voru geymd á gataspjaldi.

Spjöldin voru skráð í skráningarvélum, sem nefndust gatarar. Skráningarfólkið var langoftast stúlkur og nefndust þær götunarstúlkur. Þær voru margar og mikilvægar, því að götun var upphafsliður í gagnavinnslunni og götunin var mikil nákvæmnisvinna.

0.gataspjald
Gataspjald

Gataspjöldin gátu mest geymt áttatíu stafi og olli það oft vandræðum. Til dæmis var ekki hægt að skrá í þjóðskrá nöfn sem voru lengri en þrjátíu stafir og ekki var bætt úr því fyrr en komið var fram á þessa öld. Notendur gerðu þó ýmislegt til að ráða bót á plássleysinu og til dæmis má nefna að þegar Loftleiðir fluttu höfuðskrár sínar af spjöldum á seguldiska var starfsfólk á söluskrifstofum ekki ánægt því það hafði skrifað á spjöldin ýmsar gagnlegar upplýsingar um farþegana sem ekki var gert ráð fyrir í diskaskránum.

Skýrslugerðarvélar gátu lesið götin á meðan spjöldin runnu undir svokallaða bursta, sem þreifuðu á götunum. Vélarnar voru margs konar en hjá IBM voru þessar helstar:

 • Gatari (card punch)
 • Endurgatari (verifier)
 • Raðari (sorter)
 • Samraðari (collator) kallaður „collator“
 • Áritari (interpreter)
 • Summugatari (reproducer)
 • Kalkúlator/reiknivél (calculator)
 • Skýrslugerðarvél (tabulator) kölluð „tabbi“
029.endurgatari
IBM IBM029-gatari/endurgatari
082.radari
IBM 082-raðari
087.samradari
IBM 087-samraðari
0.552.aritari
IBM 552-áritari
0.519.summugatari
IBM 519-summugatari
0.602.reiknivel
IBM 602-reiknivél

Gatarar IBM voru einkum tvenns konar: 024 annars vegar og hins vegar 026, sem gat áritað, það er prentað innihald efst á spjaldið. Það var tiltölulega auðvelt að lesa tölustafi (1 gat), en snúnara að lesa bókstafi (2–3 göt) út úr götunum. Það gat komið sér vel að hafa spjaldið áritað, en áritandi gatari var dýrari en hinn.

Endurgatari (IBM 029) las gataspjald og bar saman við það sem skráð var. Kæmi villa mátti reyna aftur, en ef það sem skráð var passaði ekki í tvígang þá kom hak í spjaldið beint fyrir ofan dálkinn sem villan var í. Fyndist villa varð að endurgera (dúplísera) spjaldið.

Raðarar voru nauðsynlegir til að flokka spjöldin og koma þeim í rétta röð. Raðari las spjöld og flokkaði þau í þrettán mismunandi vasa (stackers). Spjaldabunki sem átti að raða var settur í „fídið“ (the feed), það er kjaftinn, stillt á aftasta dálk svæðisins sem raða átti, og spjöldunum rennt í gegn. Spjöldin voru hirt úr vösunum í réttri röð, stillt á næstaftasta dálk og rennt aftur í gegn og svo koll af kolli, þar til endað var á fyrsta dálki svæðisins. Það var afar mikilvægt að gera ekki „lúkufeil“ því það gat kostað umröðun á öllu slenginu (spjaldabunkanum).
Til að raða stórum skrám, til dæmis yfir 10.000 spjöldum, var byrjað á að „blokka“ spjöldin með því að raða öllu slenginu eftir fyrsta staf og raða síðan einum bunka í einu. Áki Pétursson stærðfræðingur og skákmaður var snillingur í að raða og aðrir lærðu handtökin af honum.

Samraðari (IBM 087 collator) gat lesið tvær skrár í einu og raðað þeim saman (merging) eða borið saman (matching). Hann hafði tvo kjafta og fjóra vasa. Stundum var færsluspjöldum raðað saman við viðskiptamannaskrá til undirbúnings við að prenta út reikninga eða skuldalista, enda spjöldin öll í röð á viðskiptanúmer. Spjöldin urðu að vera í réttri röð, annars stöðvaðist samraðarinn með rauðu ljósi. Eins mátti raða færsluspjöldum saman við vöruskrá til að prenta sölulista með heiti og verði vöru.
Samraðarinn hafði litla töflu sem hægt var að stýra honum með.

Áritari(IBM 552 card interpreter) las spjöld og prentaði innihaldið efst á spjaldið. Það þurfti ekki ef gatað var í IBM 026-gatara. Tengitaflan var afar einföld.

Summugatarinn (IBM 519) gat lesið inntak, til dæmis vörumaster, og gatað upplýsingar á borð við verð í færsluspjöld sem fylgdu á eftir. Það var gert til að undirbúa útreikning í kalkúlator. Einnig gat summugatarinn tengst tabúlator og gatað samtalstölur í spjöld eftir að „tabbinn“ var búinn að leggja saman per viðskipta- eða vörunúmer, eða raunar hvaða númer sem var.

Reiknivélin (IBM 602 calculator) gat lesið svæði í spjaldinu, reiknað útkomu og gatað annars staðar í spjaldið. Kalkúlatorinn skipti sér ekkert af röð spjaldanna. Tengitaflan var sömu gerðar og summugatarinn, en flóknari.

Skýrsluprentarinn (IBM 407 tabulator) var langstærsta og merkilegasta vélin. Hann las spjöld og prentaði út um leið. Ef hvert spjald var prentað var talað um að „lista“ spjöldin, einnig voru prentaðar summutölur. Þegar prentaðir voru til dæmis reikningar, þá prentaðist hausinn úr nafnspjaldinu (viðskiptamaster), hver lína úr færsluspjöldunum og summan neðst úr tabbanum sjálfum. Þá rumdi gjarnan í summugataranum, ef hann var tengdur tabbanum.   

0.407.skyrsluprentari
IBM 407-skýrsluprentari

Skýrsluprentaranum var stýrt með tengitöflu sem var um hálfur metri á kant. Götin í töflunni skiptust í „entry“ og „exit“. Þessu má líkja við það að styðja á hnapp. Straumur sem kom út úr „exit“-inu samsvarar fingrinum en „entry“-ið sem tók við straumnum samsvarar hnappi sem tekur við skipun. Skipunin gat verið ýmiss konar: leggðu saman, dragðu frá, prentaðu summu, hlauptu yfir á nýtt blað og svo framvegis. Úr „exit“-inu komu straumar úr götum gataspjaldanna, en einnig ef vélin fann að nú kom nýtt númer. Númerin urðu að vera í réttri röð og voru á nokkrum stigum, minor, inter, major og final. Tengitöflurnar mátti skipta um eftir verkefnum og á Klapparstíg 25–27 í Skýrsluvinnslu Ottós Michelsen var til dæmis skápur sem tók um þrjátíu töflur og náði frá gólfi til lofts.

Með komu tölvanna var hætt að nota reiknivélina og skýrslugerðarvélina og þegar segulbönd og síðar seguldiskar komu til sögunnar var ekki lengur þörf fyrir raðara, samraðara og summugatara.

Fyrstu tölvurnar (IBM 1401 og IBM 1620) unnu í upphafi eingöngu með gataspjöld. IBM 1401 gat lesið spjöld í spjaldalesara (feed) og gatað út ný spjöld í spjaldagatara.  IBM 1620 tengdist mjög fljótlega seguldiskum. Forrit á eigin táknmáli voru götuð og keyrð í gegnum „þýðara“, sem þýddi yfir á vélamál, sem tölvan skildi. Nokkurra hundraða gataspjalda forrit (source deck) gat komist fyrir á fáeinum gataspjöldum þegar tölvan hafði sett það yfir á vélamál (object deck). Forritið var sett í spjaldamatara (fídið) á undan gagnaspjöldunum og stutt var á „load“-hnappinn. Þá las tölvan inn forritið og keyrði það, tók svo við stjórninni og las spjaldabunkann eftir kúnstarinnar reglum. Þar sem ekkert stýrikerfi var í IBM 1401 og 1620 kviknaði rauða „process check“-ljósið og vinnslan stöðvaðist ef forritið klikkaði. Því var um að gera að prófa forritin rækilega.[31]

Segulbönd og disklingar – hraðinn eykst

Með tilkomu næstu IBM-tölvukynslóðar, IBM 360/xx, voru segulbandastöðvar teknar í notkun. Þá las ein stöðin forritið, en hinar gögnin. Allt gerðist hraðar eins og gefur að skilja. Segulbönd mátti lesa og rita á margfalt hraðar en gataspjöld og langtum minna fór fyrir þeim. Þau buðu hins vegar eingöngu upp á „runuaðgang“ (sequential access). Til að hægt væri að raða gögnum þurftu segulbandastöðvarnar að vera minnst fjórar. Röðun gat verið tímafrek, en gerðist að mestu sjálfkrafa, það er án þess að mannshönd kæmi nærri.

Þegar seguldiskar voru tengdir tölvunum varð gífurleg framför. Þeir voru mun hraðari en segulböndin og buðu auk þess upp á „beinan aðgang“ (direct access) og lyklaðar skrár sem flýtti fyrir og kom sér vel við alls konar vinnslu. Diskar gátu verið ýmist lausir (removable) eða fastir.

Forrit mátti einnig geyma á seguldiskum, jafnvel forritshluta. Minni tölvu (core storage) var kallað „innra minni“ en seguldiskar og -bönd „ytra minni“. Vel fór á að hafa bæði segulbönd og diska; þessi tæki unnu vel saman.[32]

Árið 1973 var loks tekið í gagnið skráningartæki fyrir disklinga af gerðinni IBM 3742 og var það fyrir átta tommu disklinga. Eftir það fór að draga úr notkun gataspjaldanna sem inntaksmiðils. Viðamesta verkefnið sem enn byggðist á gataspjöldum árið 1973 var úrvinnsla mikillar mergðar fylgispjalda með skeytum og langlínusamtölum fyrir Landssímann, sem raða þurfti og undirbúa í hjálparvélum. Um þær mundir var þó unnið að því að breyta þessari vinnslutilhögun og leysa gataspjöldin af hólmi með nýrri tækni.[33]

Tölvur sem taka ekki meira rými en þrjú skrifborð

Til marks um hina hröðu tækniþróun í upphafi tölvualdar á Íslandi er að sama haust og tölvurnar tvær komu til Íslands kallaði Ottó Michelsen blaðamenn til fundar til að skýra frá því nýjasta á þessu sviði. Þá var IBM 360 þegar kominn fram og með honum varð stórbylting í þróun tölva, sem átti að gera minni fyrirtækjum kleift að taka þær í sína þjónustu. IBM 360 var raunar heiti á nokkrum tölvum sem komu á næstu árum og leystu hver aðra af hólmi.

Markvert þótti blaðamanni Vísis að tæknimenn IBM sögðu allt stefna í að tölvur (rafreiknar) framtíðarinnar yrðu ekki stærri en mannsheilinn en sú nýja kynslóð tölva sem var verið að kynna var þó ekki komin svo langt. Tækið var þó talsvert minna en tölvurnar tvær sem áður voru komnar voru til landsins og tók ekki meira rými en þrjú meðalskrifborð. Með þeirri vél mátti að sögn tæknimannanna vinna verkefni á borð við bókhald, reikningsyfirlit, viðskiptamannabókhald, söluskýrslur, útreikning vaxta og iðgjalda og ýmsa tölfræði, jafnvel vísindalegar rannsóknir, líkt og þá var þegar gert í tölvu Háskólans. Ein af skýringunum á því að vélin hafði minnkað svona, og minnkaði fljótlega enn meira, var transistorinn, sem hlaut íslenska heitið smári og ruddi sér mjög til rúms á þessum árum. Hann var þá þegar svo smár að hundruð eða jafnvel þúsundir þeirra komust fyrir í einni fingurbjörg. Þetta var náttúrulega gríðarleg breyting ef litið var til útvarpslampanna sem áður voru notaðir og þurftu heilu vélasalina. [34]

Frá vélabókhaldi til tölvuforrita – og nokkur orð um spjaldamokara

Auk Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar voru nokkur fyrirtæki með gataspjaldakerfi og ber þar að nefna Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS), Landsbanka Íslands, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsöluna, Loftleiðir, Búnaðarbankann og Verslunarbankann. Öll unnu þau að eigin verkefnum.

Það var því nokkur nýlunda þegar Skýrsluvinnsla Ottós A. Michelsen tók að bjóða fyrirtækjum úrvinnslu á bókhaldi árið 1963. Fram að því hafði slík starfsemi einungis farið fram hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurbæjar, sem sinnti einvörðungu opinberum fyrirtækjum.

Ottó reið þó ekki feitum hesti frá þeirri starfsemi því rekstur af þessu tagi var á ýmsan hátt erfiður með þeirri tækni sem þá var notuð. Þótt úrvinnslan í gataspjaldavélunum væri vélræn voru vélarnar mataðar handvirkt á upplýsingunum. Minnsta yfirsjón við það starf olli villum í niðurstöðum, sem erfitt gat verið að skilja og leiðrétta, og síðan þurfti að endurtaka vinnsluna. Stundum voru þeir sem mötuðu vélarnar kallaðir „spjaldamokarar“.[35] Algengt var að vinnsla bókhalds fyrir meðalstórt fyrirtæki tæki tvo til fjóra daga og endurtekin vinnsla þýddi að sjálfsögðu töf á því að niðurstöðum væri skilað. Einnig voru vélarbilanir tíðar og tafsamt gat verið að finna þær og gera við. Það gat eðlilega valdið megnri óánægju meðal launafólks þegar útborgun dróst af þessum sökum. Ýmsar sögur eru til af því, þeirra á meðal af flökurunum hjá Sænska frystihúsinu, sem hótuðu því að koma með hnífana fengju þeir ekki borgað.

Það varð úr að IBM yfirtók rekstur Skýrsluvinnslunnar og ýmsa fleiri þætti rekstrar Ottós árið 1967. Þegar SKÝRR fékk nýju tölvuna, System 360/30, var til ráðstöfunar gamla 1401-tölvan sem hafði komið haustið 1964. Sú vélasamstæða samanstóð af spjaldlesara, stjórntölvu, minniseiningu og prentara. Þar eð ekki varð séð að nein verkefni væru fyrir hana nema hjá Skýrsluvinnslunni ákváðu Ottó og hans menn að taka hana í notkun þar. Þeir gerðu það í stað þess að farga þessari aflóga tölvu ellegar senda hana til útlanda. En í ljós kom að hjá hinu alþjóðlega tölvufyrirtæki var ekki til þess ætlast að þannig væri staðið að málum.

Svo var litið á að útibúið á Íslandi hefði í heimildarleysti farið í fjárfestingu. Málið þvældist milli IBM í Danmörku og aðalstöðvanna í París með tilheyrandi skriffinnsku: útreikningar voru gerðir og skýrslur samdar og á endanum var skrifuð löng „réttlætingar- og nauðsynleikagreinargerð“. En á meðan þessu fór fram settu Íslendingarnir búnaðinn upp eins og ekkert hefði í skorist og tóku hann í notkun, og gamla tölvan þjónaði hlutverki sínu dyggilega árum saman. Einhver mun þó hafa fengið skömm í hattinn og Danirnir nöldruðu um „óviðeigandi hátterni“ og að farið hefði verið á svig við það regluverk sem vinna hefði átt eftir. Nokkrum mánuðum síðar kom þó heimild fyrir fjárfestingunni.

Tölva af næstu kynslóð, System 360 Model 20, leysti þessa gömlu tölvu af hólmi nokkrum árum síðar og fljótlega var bætt við diskum og segulböndum, þegar þau komu til sögunnar. Nýjar kynslóðir 360-tölvanna komu svo hver eftir aðra, og var hver þeirra öflugri en sú fyrri.[36]

Flest þeirra fyrirtækja sem voru með gataspjaldakerfi, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsalan, Loftleiðir hf., Samband íslenskra samvinnufélaga og Landsbanki Íslands, fengu árið 1967 tölvur af gerðinni IBM 360/20 og voru tölvur í landinu þá orðnar átta talsins. Eðli verkefnanna breyttist þó lítið því áfram voru notuð gataspjöld, en segulbönd og síðar seguldiskar urðu allsráðandi geymsluform.

Vandi hjá SKÝRR – misst af verulegum tekjufjárhæðum

Þótt ný og öflug tölva væri tekin í notkun hjá Skýrsluvélum haustið 1968 leysti það í sjálfu sér ekki öll fyrri vandamál. Ný vandamál komu í ljós og tók langan tíma og fyrirhöfn að leysa þau.

Grundvallarvandinn lá í skipulagningu verka og „gerð forskrifta“ eins og það er haft í fundargjörð stjórnar Skýrsluvéla 1969, og líklega var átt við að vandinn lægi í forritun. Þeim vanda höfðu menn ýtt á undan sér um hríð óleystum og leiddi af sér að ekki hafði tekist að anna þeim verkefnum sem lágu fyrir, og hægt var „að finna stað með greinilegum dæmum, að þetta ástand hefur orðið til þess að fyrirtækið hefur um skeið misst af verulegum tekjufjárhæðum,“ eins og segir í fundargjörðinni.

365 Skýrsluvélar ríkisins 6
Starfsfólk SKÝRR að vinna að ýmsum verkefnum 1976. Ljósmyndari: Loftur Ásgeirsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sú skýring sem Óttar Kjartansson, höfundur Sögu SKÝRR, gefur á þessum vandræðagangi í bók sinni er að sambúð stjórnar og forstjóra hafi verið stirð um þessar mundir. Víst er að Óttar hafði góða innsýn í innri málefni stofnunarinnar því hann gegndi þar sjálfur ábyrgðarstörfum.

Stjórnin virðist hafa á tímabili hugleitt að gera forstjórann, Bjarna P. Jónasson, að eins konar tæknilegum yfirmanni eða forstjóra en „losa hann undan“ hinni almennu yfirstjórn, en hann óskaði sjálfur eftir leyfi frá störfum í eitt ár frá 1. apríl 1971. Þremur mönnum var falin stjórn fyrirtækisins, Jóni Zóphoníassyni, Hjörleifi Hjörleifssyni og Óttari Kjartanssyni. Jón og Óttar tóku að sér stjórn skipulagningar og forritunar en Hjörleifur varð fulltrúi stjórnarinnar við daglegan rekstur. Í raun var Skýrsluvélum ríkisins skipt upp í deildir með þessu, þannig að kerfishönnun og forritun voru unnin í eigin deild, rétt eins og Hjörleifur hafði stungið upp á. [37]

Í júlí 1972 var doktor Oddur Benediktsson ráðinn til starfa hjá Skýrsluvélum sem ráðunautur stjórnarinnar og til að sinna ákveðnum verkefnum. Þar á meðal var honum ætlað „að gera grein fyrir fyrirkomulagi og afstöðu til Háskóla Íslands varðandi hugsanlegt samband um APL fjarvinnslukerfi og reyna að koma í gang notkunarbókhaldi fyrir tölvuna, þ.e. „Job Accounting““. Eitt af fyrstu verkum Odds var að kanna, ásamt deildarstjóra vinnsludeildar, hagkvæmni þess að skrá inntaksgögn á disklinga í stað gataspjalda, en sú tækni var þá nýlunda. Niðurstaðan varð sú að tekið skyldi á leigu „IBM 3742-skráningatæki“ (IBM 3742 Dual Data Station) en jafnframt að kannaðir skyldu möguleikar á að fá sambærileg tæki frá öðrum en IBM. Þetta sætti nokkrum tíðindum og boðaði breytingar, því ítök IBM á þessum markaði höfðu verið algjör fram að því. Snemma árs 1971 hafði verið pöntuð ný tölva, IBM 370/135 með 96 kB minni, með fjórum bandstöðvum og þremur diskastöðvum. Afgreiðslutíminn var hins vegar áætlaður tvö ár og því ekki von á gripnum fyrr en í byrjun árs 1973. [38]

Árið 1972 voru liðin tuttugu ár frá stofnun SKÝRR og var þess minnst með veglegum hátíðarhöldum 2. júní. Hjörleifur Hjörleifsson stjórnarformaður ritaði af því tilefni grein sem birtist í Morgunblaðinu og lauk á hugleiðingum hans um framtíð Skýrsluvéla og gagnavinnslu á Íslandi, sem telja verður að séu athyglisverðar í ljósi þeirrar þróunar í tölvutækni sem orðið hefur á þeim fjórum áratugum sem síðan eru liðnir:

Eftir aðstæðum hér á landi, má teljast óhjákvæmilegt að SKÝRR hafi forgöngu um það að skapa aðstöðu til þess að nútímakröfum varðandi tölvutækni verði fullnægt, þ.e.a.s. að málum verði þannig hagað, að nægilega stór tæki séu fyrir hendi, að minnsta kosti á einum stað, til þess að leysa úr öllum þeim verkefnum, sem þessu tæknisviði henta með nútíma tækjum. Því er ekki að neita, að við hér höfum dregizt afturúr í hagnýtingu tækninnar, og fyrirsjáanlegt er að breytingar muni verða á næstu árum.[39]

Hjörleifur benti einnig á að fjarvinnsla hefði rutt sér til rúms erlendis og varla myndi dragast að slík vinnubrögð yrðu tekin upp hér. Síðan minntist hann á að athugun á vegum póst- og símamálasambandsins í Evrópu á fjarvinnsluþörf í álfunni benti til þess að eftir 12–15 ár yrði fjarvinnsla á þessu sviði jafnalgeng og talsímanotkun. Ný tæki voru einmitt væntanleg til Skýrsluvéla en stjórnarformaðurinn minnist ekki á það í grein sinni. Þó kemur fram í að minnsta kosti tveimur dagblöðum að þáverandi vél sé orðin of lítil og von á stærri vél, af gerðinni 370/136, sem var þrefalt stærri en sú gamla og hafði sexfalt meira geymslurými.[40]

Blaðamönnum var boðið að heimsækja SKÝRR í tilefni afmælisins. Í umfjöllun blaðanna kom meðal annars fram að fimmtíu starfsmenn ynnu þar störf um 800 manna, sem þörf hefði verið á ef ekki hefði verið sá vélakostur sem stofnunin hafði til umráða. Þar eru einnig nefnd helstu verkefni stofnunarinnar: þjóðskrá, skattskrá og launaútreikningar. Vinnsluhraðinn vakti athygli blaðamannanna; vélin var 52 sekúndur að skrifa 1100 línur með 132 stöfum í hverri, sem eru nærri 150 þúsund stafir. Sagt var frá því að upplýsingar um viðskiptavini stofnunarinnar væru geymdar á 800 segulbandspólum og sem dæmi um hve fljótlegt væri að sækja upplýsingarnar var nefnt að þennan dag hefðu borist 700 greiðslur til Gjaldheimtunnar og það hefði tekið vélarnar sex mínútur að finna þær úr samtals 70 þúsund greiðslum, og færa þær inn.[41]

Stækkandi minni – fjarvinnsla hefst

Verkefnum SKÝRR fjölgaði mjög eftir tilkomu segulbanda- og diskastöðvanna og starfsemin byggðist að nokkru leyti á vinnslu fyrir Þjóðskrá, þar á meðal kjörskrá, auk vinnslu á skattframtölum og innheimtu fyrir ýmsar opinberar stofnanir, þar á meðal rafmagns- og vatnsveitur, síma og Ríkisútvarpið. Til að hafa undan varð starfsfólk SKÝRR að hafa hraðar hendur við tæknilega framþróun fyrirtækisins.[42]

Tölvan sem beðið hafði verið í tvö ár kom loks snemma árs 1973. Hún var búin fjórum bandastöðvum og þremur diskastöðvum en bilaði mikið fyrstu mánuðina. Talið var að minni hennar hefði verið í knappara lagi miðað við þau verkefni sem henni voru ætluð en þá var hafin svonefnd samhliðakeyrsla, farið að setja prentun inn á biðskrá og keyra notkunarskrá, að ógleymdri fjarvinnslunni, sem þá var hafin. Reynt var að bæta þetta með því að auka minni vélarinnar, fyrst í 240 kB seint á árinu. Það bætti úr skák en dugði þó skammt og í ársbyrjun 1974 var minnið enn stækkað, þá í 384 kB.[43]

Það var orðið ljóst þegar árið 1974 að nýja vélin myndi ekki duga til frambúðar og farið var að huga að næsta skrefi. Forstjórinn lagði fram tillögur um vélakaup í janúar 1975 þar sem gert var ráð fyrir að innan tveggja ára yrði bætt við einni tölvu, IBM 370/145, svo Skýrsluvélar yrðu með tvær samtengdar vélasamstæður. Þær átti að keyra næstu þrjú árin með einu aðalstjórnkerfi fyrir runuvinnslu og fjarvinnslu. Nýja vélin var tekin í notkun í mars 1976, sú stærsta fram að því, minni hennar var 786 kB. Þessum tveimur tölvum voru síðan tengdar sjö diskastöðvar, sex bandastöðvar, tveir prentarar, stýritæki, stjórnskjáir og fleira.[44]

Árið 1973 var stigið það mikilvæga skref að tengja saman í fjarvinnslu þær tvær stofnanir sem rutt höfðu brautina í tölvuvinnslu á Íslandi, Háskóla Íslands og SKÝRR. Þessi fyrsta tenging var með svonefndu APL/360-sambandi en það byggðist á forritunarmáli sem þróað hafði verið á sjöunda áratugnum. Það mun hafa verið fyrsta fjölnotakerfið sem hingað barst, sniðið fyrir vísinda- og stærðfræðileg viðfangsefni og notað af nemendum og kennurum Háskólans. Það var ekki vandalaust að keyra fjarvinnsluna því kerfið olli miklu álagi á tiltölulega litla vél SKÝRR. Tengingin við Háskólann var ekki notuð nema í þrjú ár og var oft brösótt. Um sama leyti var komið á tengingu við gjaldkerakerfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík, sem gekk betur, og hún var rekin óslitið þar til Gjaldheimtan var lögð niður, í árslok 1997. [45]

Borgarspítalinn í Reykjavík tengdist SKÝRR árið 1974. Vinnslan fór fram með runuvinnslu sem keyrð var á kvöldin og olli því minna álagi en ella. Þetta kerfi var notað í fjögur ár, eða þar til spítalinn fékk sitt eigið tölvukerfi. Árið 1978 var komin sívinnslu-/fjarvinnslutenging við Borgarspítalann, Háskóla Íslands, Bifreiðaeftirlit ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands en önnur verkefni SKÝRR voru launa- og bókhaldsvinnsla fyrir ríkið og Reykjavíkurborg og umfangsmikil vinnsla fyrir Póst og síma, meðal annars reikningaskrift og orlofsvinnsla, einnig Þjóðskrá, rafmagnsreikningar og margs konar vinnsla fyrir skattyfirvöld.[46]

Tölvuviðgerðir í stað lyfjafræði

Haustið 1956 hófu fjórir ungir menn fornám í lyfjafræði, sem var á vegum lyfsala á Íslandi og var að hluta starfsnám í apótekum. Sama haust hófst kennsla í þeim fræðum í Háskóla Íslands án þess að þessir lyfjafræðinemar hefðu frétt af því, en lyfsalarnir drógu fram eftir haustinu að gera við þá námssamning. Einn þessara fjórmenninga var Jóhann Gunnarsson og hann ákvað að hætta við þetta nám en settist þess í stað í heimspekideild Háskólans og hóf nám í ensku og eðlisfræði og hugðist verða kennari.

Árið 1959 auglýsti Ottó Michelsen eftir tæknimanni og þar sem Jóhann hafði þá stofnað fjölskyldu ákvað hann að sækja um starfið, og fékk það. Ottó og hans menn voru raunar tregir til að taka „svona strák, sem hafði enga reynslu“, eins og hann orðar það sjálfur, þeir vildu fá rafvirkja eða einhvern slíkan. En Jóhann kannaðist við Ottó og bauð honum og Jóni Óttarri Ólafssyni, aðstoðarmanni hans, heim og tókst að sannfæra þá, sýndi þeim meðal annars útvarpsviðtæki og fleira af slíkum toga sem hann hafði sett saman.

365 Skýrsluvélar ríkisins 1
Október 1964, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, SKÝRR. Starfsmenn IBM vinna við að setja upp fyrsta rafeindaheilann sem kemur til Íslands, IBM-1401 hjá SKÝRR. Bjarni P Jónasson forstjóri SKÝRR og Jóhann Gunnarsson við heilann. Ljósmynd: Vísir. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sumarið eftir sendi Ottó hann í skóla hjá IBM í Þýskalandi, eins og hann tíðkaði alla tíð þegar hann réð ungt fólk til starfa, og þar var Jóhann í hálft ár. Svo komu fyrstu tölvurnar til Íslands haustið 1964 og ungir verkfræðingar sem höfðu kynnst þessari nýju undratækni komu heim frá námi, hver af öðrum: Oddur Benediktsson kom með doktorspróf frá Bandaríkjunum, einnig Björn Kristinsson prófessor, Ragnar Ingimarsson, Magnús Magnússon og Helgi Sigvaldason.

Jóhann Gunnarsson rifjar það upp rúmlega hálfri öld síðar að þeir sem unnu við að koma fyrstu vélinni fyrir í kjallara nýbyggingar Raunvísindadeildar vestur á Melum hafi verið hálfhræddir um að þetta gengi ekki, kjallarinn var frekar hrár, þótt hann héldi veðri og vindum. Ýmis vandamál fóru að hrjá vélina, hún átti það til að bila á dularfullan hátt og tók talsverðan tíma að komast að því hvað var að. Einn, ef ekki tveir sérfræðingar voru fengnir að utan til þess að líta á þetta og annar þeirra skrifaði skýrslu um ferðina, þar sem hann kenndi því meðal annars um að tölvan hefði verið sett þarna í kjallara ófullgerðrar byggingar. Svo kom í ljós að þetta var vegna galla í framleiðslu.

Rafeindabúnaðurinn á þessum tölvum var á spjöldum, sem voru heldur stærri en venjuleg spil, og þeim var stungið inn í grindur. Bak við grindurnar voru pinnar og svo voru þræðir, einangraðir vírar, vafðir utan um pinnana og lágu upp og niður, framhjá öðrum pinnum. Þetta var þrætt í vélum í verksmiðjunni og í ljós kom að vírarnir voru of fast dregnir utan um pinnana og þar sem vír fór í vinkil utan um tiltekinn pinna gat hann rofið einangrunina og þá gaf hann samband inn á vitlausan stað. Þetta fór jafnvel eftir veðri eða hitastigi eða einhverju svoleiðis og var óskaplega erfitt að eiga við. En svo fannst út úr því á endanum hvar þetta lá og það var skipt út einhverjum vírum og þetta var lagað, og var alls ekki byggingunni að kenna.[47]

Jóhann kynntist báðum tölvunum í öndverðu, aðallega þó tölvu Skýrsluvéla:

Þessar gömlu tölvur voru ekki flóknari tæknilega en það að maður þurfti aðallega að þekkja elektróníkina, hún var dálítið sundurlaus og hana þurfti að þekkja út í hörgul. Ég lærði aldrei formlega á Háskólatölvuna heldur á hina, sem kom á Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Þær voru ekki eins en það líkar að maður gat áttað sig á þessu. Það var félagi minn sem lærði á Háskólatölvuna en ég þurfti oft að vera með honum í henni, þegar þetta vesen var, og skildi það nógu vel til að það var ekki mikið mál. Þegar maður kunni á aðra þá var þetta ekki svo ólíkt.

Jóhann Gunnarsson vann hjá IBM í 23 ár, fram til 1982, og upplifði gríðarlegar breytingar á tölvutækninni. Frá IBM fór hann til Reiknistofu Háskólans, var forstöðumaður þar í eitt ár og nefndur framkvæmdastjóri í önnur fjögur. Á þessum árum blandaði hann sér talsvert í staðlamál sem tengdust tölvutækni og staðall fyrir íslensk tákn í stýrikerfum einmenningstölva er meðal annars við hann kenndur, nefndur „JG-staðall“, eins og sagt er frá í sérkafla.

Reiknistofa bankanna

Eitt af áhrifamestu afsprengjum tölvutækninnar, sem fór þó hljótt um, er Reiknistofa bankanna. Í nóvember 1970, þegar ekki voru liðin nema sex ár frá því tvær fyrstu tölvur landsins voru ræstar, vestur í Háskóla og á Háaleitisbrautinni, var farið var að ræða í fullri alvöru um stofnun sameiginlegrar reiknimiðstöðvar fyrir íslensku bankana, eins og það var orðað.[48] Ákveðið var að skipa svonefnda „rafreikninefnd“ til að athuga málið og hún skilaði stjórnum bankanna greinargerð tæpu ári síðar. Eftir það var skipuð ný nefnd til að undirbúa stofnun reiknimiðstöðvarinnar. Í henni voru bankastjórarnir Helgi Bergs, Jóhannes Nordal, Jónas Rafnar og Stefán Hilmarsson en þeir fengu sér til aðstoðar dr. Guðmund Guðmundsson hjá Seðlabankanum, Ólaf Rósmundsson hjá Landsbankanum og Þórð Sigurðsson hjá Búnaðarbankanum. Lýst var eftir tilboðum um vélbúnað, sem leiddi til þess að vélar tveggja tölvuframleiðenda þóttu koma til greina, frá IBM og Burroughs. Tilboðinu frá IBM var tekið og leigusamningur undirritaður um IBM-tölvu 370/135 148 kB, tvo OCR-B lesara, 100 MB diska (3330), segulbandastöðvar (80 kB, 3420), 80 og 96 dálka spjaldalesara og prentara sem gat skrifað allt að 2000 línur/mín. Þann 23. mars 1973 voru kjörnir í fyrstu stjórn Reiknistofu bankanna, eins og ákveðið var að hún yrði nefnd, bankastjórarnir Helgi Bergs, Höskuldur Ólafsson, Jónas G. Rafnar, Stefán Hilmarsson og Svanbjörn Frímannsson. Þann 1. september var Einar Pálsson ráðinn forstjóri, en hann hafði starfað um árabil hjá IBM í Danmörku. Starfsfólk var ráðið síðustu mánuði ársins 1973 og hóf flest störf í janúar 1974. [49]

Hjarta viðskiptalífsins

Liður í undirbúningnum á rekstri Reiknistofu bankanna var að Bankamannaskólinn, sem hafði starfað frá árinu 1959, hélt námskeið í mars, apríl og maí til að kynna starfsmönnum bankanna þá þróun sem myndi hefjast með tilkomu Reiknistofunnar. Var þar meðal annars fjallað um „optískan lestur“ (OCR eða rafaugnalestur), fjarsendingar og hönnun sameiginlegs bankabókhalds. Námskeiðið sóttu 38 bankastarfsmenn og ljóst var að fleiri höfðu hug á að kynna sér allar þessar nýjungar svo haldið var annað námskeið, sem 33 sóttu. Kennarar voru Einar Pálsson forstöðumaður, Jón V. Karlsson og Gunnar Ingimundarson frá IBM. [50]

Á árinu 1974 og 1975 birtust allmargar auglýsingar í dagblöðum þar sem Reiknistofa bankanna lýsti eftir starfsfólki:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða eftirfarandi starfsfólk 1. Sérfræðing í stjórnforskriftum. Kostur að hafa þekkingu á DOS, BAL og PL/1 en ekki skilyrði. Umsækjandi verður að geta farið til þjálfunar erlendis. 2. Tölvustjórar. Reynsla eða þekking á tölvustjórn eða forskriftagerð kostur en ekki skilyrði. Keyrslur fara fram undir DOS/VS IBM 370/135. 3. Aðstoðarfólk við móttöku og frágang verkefna, fyrir og eftir tölvuvinnslu. Óskað eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi eða tilsvarandi. […] Skriflegar umsóknir sendist Reiknistofu bankanna, […] fyrir 1. desember 1974.[51]

Og um mitt ár 1975 birtist þessi auglýsing í öðru dagblaði:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða KERFISFRÆÐINGA. Óskað er eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi, viðskiptafræði, eða tilsvarandi. Laun samkvæmt launakerfi bankamanna og eftir menntun og reynslu. Reiknistofa bankanna þjónar bönkum og sparisjóðum landsins. Mjög skemmtilegt starfssvið við þróun og uppbyggingu nýtízku bankakerfa, sem byggist á nýjustu tækni í rafreiknikerfum. Ennfremur þjónusta við viðskiptalíf almennt gegnum bankakerfið.[52]

Starfsemi Reiknistofu bankanna hófst haustið 1973, en í byrjun árs 1974 hófu störf sex starfsmenn til að sinna kerfissetningu, enginn þeirra með reynslu nema Ólafur I. Rósmundsson sem ráðinn var sem kerfisfræðingur og fulltrúi forstjóra. Á þeim tíma var ekki farið að kenna tölvunarfræði í Háskóla Íslands og eins konar meistarakerfi gilti, þannig að fólk sem áhuga hafði á þessu fagi þurfti að ráða sig til fyrirtækja sem höfðu starfsemi á sviðinu og læra af þeim sem reynslu höfðu.

Til að byrja með var Reiknistofan ekkert annað en skrifborð í húsi Búnaðarbankans við Hlemm og við sátum þarna í eitt ár, lásum handbækur og leystum æfingaverkefni í forritun með hjálp gataspjalda. Við röltum svo með spjöldin niður Laugaveginn til IBM, sem var þá á horni Hverfisgötu og Klapparstígs, þar sem spjöldin voru lesin og forritin þýdd. Daginn eftir gat maður svo hugað að niðurstöðunum, en oft fékk maður í fangið blaðastafla með villutilkynningum, ef til dæmis hafði gleymst að skrá semíkommu í enda setningar. Þá var ekki um annað að ræða en skunda upp á Hlemm, leiðrétta og strunsa svo aftur niður á Klapparstíg og gera aðra tilraun. Í ársbyrjun 1975 var Reiknistofan flutt suður í Kópavog, í hús Útvegsbankans í Hamraborg. Þá fékk Reiknistofan sínar fyrstu tölvur, undirbúningur verkefna hófst fyrir alvöru og starfsfólki fjölgaði verulega.[53]

Ákveðið var að fyrsta verkefnið á Reiknistofu bankanna skyldi verða að búa til, hanna og forrita launabókhald bankanna. Það var valið fyrsta verkefnið því það var einfalt og því kjörið æfingakerfi. Áætlað var að það yrði tilbúið um haustið og gæti þá annað launabókhaldi þeirra aðildarbanka sem þess óskuðu. Fyrsta bankaverkefnið sem ákveðið var að ráðast í var að koma á vélrænu eftirliti með ávísana- og hlaupareikningum, sem myndi gera kleift að lesa og „cleara“ allar ávísanir daglega milli banka. Gert var ráð fyrir að þessu verkefni yrði lokið upp úr miðju ári 1975.[54]

Reiknistofan útrými gúmmítékkum

Með vélrænu ávísanaeftirliti vonuðust menn til þess að ná mætti tökum á vandamáli sem hafði aukist verulega hin síðustu ár: Fjöldi innistæðulausra ávísana, svonefndra „gúmmítékka“, olli mörgum miklum áhyggjum. Ein aðferðin í þessum tékkamisferlum var að leggja innistæðulausa ávísun inn í eitt bankaútibú og taka fé út í öðru, áður en fyrri færslan var könnuð og skráð. Menn bundu miklar vonir við að reiknistofan myndi útrýma þessu vandamáli.

Útvegsbankinn flutti í nýtt húsnæði í desember 1974 og Reiknistofa bankanna flutti þangað á útmánuðum 1975.[55] Í skyndikönnun Seðlabankans í byrjun nóvember 1975 reyndust 1254 tékkar vera án innistæðu, að samanlagðri fjárhæð 102,5 milljónir króna (þetta var fyrir gjaldmiðilsbreytingu, þegar tvö 0 voru strikuð aftan af íslensku krónunni). Þetta var þrisvar sinnum meira en í næstu skyndikönnun á undan, sem farið hafði fram í mars sama ár, svo ástandið virðist hafa farið versnandi. Bankarnir höfðuðu miskunnarlaust mál gegn þeim sem staðnir voru að tékkamisferli og í nóvember 1975 voru í gangi um fjögur þúsund slík innheimtumál. Bankamenn höfðu eðlilega áhyggjur af þessu og Morgunblaðið hefur eftir Birni Tryggvasyni, aðstoðarbankastjóra hjá Seðlabankanum:

Það er engum blöðum um það að fletta að ávísanamál bankanna hafa farið úr böndum … Það munu vera nálægt 100 þúsund ávísanareikningar í gangi á landinu og það hefur komið í ljós, að ekki hefur reynzt unnt að hafa nægilegt eftirlit með þeim. En það er að því stefnt að hér verði breyting á og eftirlit með tékkaútgáfunni hert.[56]

Unnið var að málinu hjá Reiknistofu og Einar Pálsson sagði við Alþýðublaðið nokkrum dögum síðar:

Við erum komnir það langt núna, að það sem kemur inn í bankana í dag af tékkum, það er allt lesið vélrænt inn að kvöldi, þannig að þetta liggur allt fyrir daginn eftir. Þetta nær reyndar ekki enn til allra bankanna, en er sem sagt á dyraþrepinu. Viðskiptabankarnir hér í Reykjavík eru komnir inn í þetta kerfi, en einstakir bankar úti á landi ekki enn.[57]

Blaðamaðurinn spurði þá hvort rétt væri að fólk hefði verið að „leika sér með tékka á milli banka“ og fékk þetta loforð frá forstöðumanninum: „Já, en ég mundi segja, að áramótagjöfin verði sú, að það verði lokað fyrir það algerlega.“

Það stóðst og þar með var komin sameiginleg tölvuþjónusta allra banka og sparisjóða eins ríkis, nánast alls fjármálaheims þess. Leiðin, sem valin var, var einsdæmi í heiminum og gerði alla bankaþjónustu lipurri, þægilegri og fljótlegri en væru kerfin fleiri, bæði fyrir bankana og viðskiptavinina. Gunnlaugur G. Björnson, deildarstjóri í Útvegsbanka Íslands, orðaði það svo í samtali við Dagblaðið vorið 1978, þegar reiknistofan var óðum að taka á sig mynd:

Ísland verður eini staðurinn í heiminum þar sem samtímis er bókað milli banka og „clearing“-miðstöðvar þar sem allir tékkar eru eins og fara allir í gegnum sömu vél, eru færðir inn á reikning eiganda og til tekna hjá bankanum sem innleysti hann. Það er ekki bara smæð landsins og peningakerfisins sem gerir þetta mögulegt heldur samvinnan sem um þetta hefur tekizt. Með nútímabúnaði er hægt að koma bókhaldi allra banka á einn stað. Þá þarf ekkert bankaeftirlit, að minnsta kosti ekki eins og það er í dag.[58]

Skýrslutæknifélag Íslands – fyrstu árin

Þannig var staðan í lok fyrsta áratugar tölvuvæðingar. Þessi tiltölulega nýja tækni hafði þá þegar valdið ótrúlegum samfélagsbreytingum, meðal annars gerbreytt viðskiptaháttum og auðveldað öll samskipti manna og upplýsingaöflun. En meiri áttu þó breytingarnar eftir að verða.

Árið 1968, aðeins fjórum árum eftir að fyrstu rafeindareiknarnir voru gangsettir, hóuðu framsýnir menn saman hópi sem hafði áhuga á þessari nýju tækni og stofnuðu Skýrslutæknifélag Íslands. Eins og nafnið bendir til á félagið rætur í því hlutverki sem þessar skrásetningar- og reiknivélar sinntu í upphafi, að auðvelda alls kyns skráningu og skýrslugerð. Félagar SÍ, eins og nafnið var skammstafað í upphafi, hafa ætíð verið áhugafólk um upplýsingatækni, sem kom víða að úr atvinnu- og viðskiptalífinu og spannaði litríka flóru upplýsingatækninnar. Starfsemi félagsins endurspeglar það á margvíslegan hátt.

Fyrsti formaður félagsins var Hjörleifur Hjörleifsson, fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður SKÝRR um hríð. Hann gegndi formennsku til ársins 1975 og mótaði mjög starfshætti félagsins. Fljótlega var stofnuð orðanefnd félagsins, sem varð einn hornsteina starfseminnar. Aðrir í fyrstu stjórn Skýrslutæknifélagsins voru Gunnlaugur Björnsson varaformaður, Jakob Sigurðsson ritari, Svavar Jóhannsson féhirðir, Bjarni P. Jónasson skjalavörður og Magnús Magnússon meðstjórnandi en varamenn voru Sigfinnur Sigurðsson og Sigurður Þórðarson. Um sögu og starfsemi Skýrslutæknifélagsins er fjallað nánar í sérkafla.

 

[1] Paul Allen: Idea Man: A Memoir by the Co-founder of Microsoft, staðsetning (location) 718­–721 af 5087. Kindle-útgáfa. 2012.

[2] Fyrsti rafeindaheilinn kominn til landsins. Verður notaður hjá Skýrsluvélum ríkis og bæjar. Morgunblaðið, 6. okt. 1964, baksíða.

[3] Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins. Morgunblaðið, 16. okt. 1964, bls. 21.

[4] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 149.

[5] Vinnur ársverk á 8 klukkustundum. Alþýðublaðið, 230. tbl., 44. árg., 23. okt. 1963, bls. 16.

[6] Alþýðublaðið, 23. okt. 19 63, bls. 16 og 10.

[7] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[8] Nákvæm tala er 54.222.217 kr. miðað við neysluverðsvísitölu, með húsnæðisliðnum, en 50.102.336 kr. án hans. Útr. Hagstofa Íslands, apríl 2015.

[9] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 150.

[10] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[11] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[12] Hjálmtýr Guðmundsson: Tölvusaga – punktar. 2015.

[13] Rafeindareiknirinn og segulmælingar. Tímarit verkfræðinga 5.­–6. tbl. 1964, bls. 78.

[14] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[15] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[16] Magnús Magnússon: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003; O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Kynnt á The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology, bls, 45­–60.

[17] Að mestu byggt á: Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 16–85.

[18] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[19] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[20] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[24] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[25] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[26] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 81–91.

[27] Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum? Morgunblaðið, 17. nóvember 1949. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=107991&pageId=1274354&lang=is&q=rafheila

[28] Vélheili. Vísir, 9. ágúst 1946, bls. 2. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=80308&pageId=1160040&lang=is&q=V%E9lheili

[29] Þorsteinn Hallgrímsson í athugasemdum í apríl 2016: „Árið 1966 var almanakið stækkað að mun, eða upp í 32 síður. Það ár var tölva háskólans notuð í fyrsta sinn við hina stjörnufræðilegu útreikninga, og var þá unnt að birta sólargangstöflur fyrir sex staði á landinu. Einnig var bætt við kafla um hnetti himingeimsins, tímaeiningar o.fl.“

[30] Baldur Jónsson: Um orðið tölva, Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum, 1994, bls. 37–38.

[31] Þessi kafli er byggður á innsendum texta: Hjálmtýr Guðmundsson, Örn Kaldalóns og Þorsteinn Hallgrímsson unnu textann í samvinnu í mars og apríl 2016 með athugasemdum frá Jóhanni Gunnarssyni.

[32] Sama.

[33] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 91–93.

[34] Tekur rúm á við þrjú meðalskrifborð. Vísir, 28. nóv. 1964, bls. 16.

[35] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir við handrit, apríl 2016.

[36] Í vist hjá IBM, svipmyndir úr sögu IBM á Íslandi. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Skýrslutæknifélag Íslands, öldungadeild, Reykjavík 2008, bls. 53-55 og 57–58.

[37] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 93-94.

[38] Sama heimild, bls. 99.

[39] Sama heimild, bls. 101–102; Lesa 1000 tákn á sek. — prenta 150 þúsund stafi á mínútu. Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkur 20 ára. Morgunblaðið 1. júní 1972, bls. 15.

[40] Skýrsluvélar þrefalda tölvubúnaðinn. Alþýðublaðið, 1. júní 1972; Skýrsluvélar 20 ára. Þjóðviljinn, 3. júní 1972.

[41] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 103-105. Þar er getið um dagblöðin sem þetta er tekið út, og dags.

[42] O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Presented at The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology.

[43] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 107–108.

[44] Sama heimild, bls. 110.

[45] Sama heimild, bls. 109.

[46] Upplýsingar um Tölvustofnanir. Tölvumál, 1. tbl. 1979, bls. 11.

[47] Jóhann Gunnarsson. Viðtal tekið 28.10.2014.

[48] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 6.

[49] Sama heimild.

[50] Gunnar H. Blöndal: Stutt yfirlit um starfsemi Bankamanna skólans frá stofnun 1959 til 1975, Bankablaðið 1. april. 1975, bls. 58.

[51] Auglýsing. Þjóðviljinn 26. nóv. 1974, bls. 12.

[52] Auglýsing. Vísir, 3. júní 1975, bls. 4.

[53] Jón Ragnar Höskuldsson. Viðtal tekið 2.12 2014; Jón Ragnar Höskuldsson, athugasemdir í tölvupósti apríl 2016.

[54] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 7–8.

[55] Heimasíða Reiknistofu bankanna: http://www.rb.is/um-rb/saga/ Sótt 7.2. 2015.

[56] Bankarnir ætla að láta til skarar skríða vegna tékkamisferlis: Nálægt 4 þúsund tékkamál í gangi. Morgunblaðið 13. nóv. 1975, bls. 2.

[57] Áramótagjöf bankanna: Tékkasvik úr sögunni. Alþýðublaðið 21. nóv. 1975, 1.

[58] Þetta er bara hægt á Íslandi: EIN MIÐSTÖÐ FYRIR ALLA OKKAR BANKA. Dagblaðið 23. maí 1978, bls. 4.

Ský - Skýrslutæknifélag Íslands (The Icelandic Computer Society)
480870-0189 | Engjateigi 9 | 105 Reykjavík | 553 2460 | sky@sky.is