Displaying items by tag: Nettenging

Nettenging gegnum Hafró og „Prótókoll-stríðið“

Tenging Íslands við umheiminn um tölvunet var í raun og veru endalok stríðs sem hafði staðið í nokkur ár, en Maríus Ólafsson, reiknifræðingur hjá Reiknistofnun á þessum tíma, líkir því við trúarbragðadeilur. Þær deilur snerust um val milli tveggja leiða til gagnaflutninga: svokallaðrar rásaskiptingar (OSI, Open Systems Interconnection) og pakkaskiptingar (IP, Internet Protocol), og stóðu nær eingöngu milli tæknimanna.

Árið 1983 kom ungur tölfræðingur, Gunnar Stefánsson, frá námi í Bandaríkjunum og fór að vinna hjá Hafrannsóknastofnun. Á námsárunum hafði hann kynnst því hvernig bandarískir háskólar voru farnir að tengja sig saman með neti sem var kallað ARPANET (The Advanced Research Projects Agency Network). Evrópskir háskólar tengdust einnig með skyldu neti og allsherjarnet um allan heim var í burðarliðnum. Gunnari fannst alveg augljóst að hið sama yrði að gerast hér en fékk litlar undirtektir. „Viðbrögðin hér voru að þetta væri nú bara fyrir tölvukalla. Fax og sími virkuðu ágætlega,“ rifjaði Gunnar upp rúmum þrjátíu árum síðar.

En Gunnar vissi hvað hann var að fara og þá þegar höfðu myndast spjallhópar á þessum netum, „usenet“, þar sem vísinda- og fræðimenn skiptust á upplýsingum úr fræðum sínum.

„Kosturinn við þetta var að þarna hafði maður aðgang að stórum og breiðum hópi, áður voru menn hver í sínu horni að setja upp kerfi, hugbúnað og annað til að tengja tölvurnar saman með símalínum. Þarna var allt í einu kominn risastór hópur, mörg þúsund manns, og þegar háskólarnir komu inn gerðumst við áskrifendur að þessum fréttagrúppum, sem það hét, og þetta var notað til að senda spurningar og fá upplýsingar. Fyrirspurnirnar voru sendar inn á spjallrásina og svar kom seinna. Símatengingarnar voru svo hægvirkar og dýrar að spurningarnar voru sendar þegar tölvurnar hringdu, nokkrum sinnum á sólarhring.[1]

Þremur árum síðar, árið 1986, kom reiknifræðingurinn Maríus Ólafsson einnig heim frá námi, en hann hafði kynnst sams konar umhverfi í Kanada, og fór að vinna á Reiknistofnun. Saman fóru þeir Gunnar að undirbúa að koma á betri tengingu við umheiminn. Þeir höfðu samband við Póst og síma og vildu fá að tengjast í gegnum hann en menn þar á bæ voru ófáanlegir til þess enda var Póstur og sími með allt annað kerfi til slíkra gagnaflutninga. Fyrirkomulagið var þannig að Póstur og sími gerði hvort tveggja, að votta tæki og búnað og selja hann, sem leiddi meðal annars til þess að símamódem voru óheyrilega dýr. Árið 1986 var komið á UUCP-tengingu (Unix-to-Unix Copy) milli Hafrannsóknastofnunar við Skúlagötu og Amsterdam. Það var tenging sem byggðist á Unix-stýrikerfi, sem var tiltölulega ódýrt og meðfærilegt. Þetta UUCP-alheimsnet var keyrt milli fjölnotendatölva með Unix-stýrikerfi sem notendur tengdust með 24x80 skjáum. Árið 1988 voru þúsundir nemenda og starfsmanna Háskóla Íslands komnir með netfang á þessu neti.[2]

Nettenging við alþjóðleg tölvunet var því orðin að veruleika. Sú gerð tengingar sem Evrópumenn og evrópsk símafélög, meðal annars á Íslandi, börðust fyrir byggðist á allt annarri tækni en þeirri sem komið hafði verið upp fyrir forgöngu Hafrannsóknastofnunar og Reiknistofnunar Háskólans. Maríus Ólafsson orðar þetta þannig: „Þetta kerfi var kallað OSI, sem stendur fyrir Open Systems Interconnection, og Evrópumenn vildu það fremur en internettæknina vegna þess að þeir vildu ekki að heimsnetið yrði byggt á amerískri tækni. En það fyndna við þetta er að tæknin er upprunalega frönsk, það var Frakkinn Louis Pouzin sem byggði fyrsta pakkaskipta netið í Frakklandi (CYCLADES).[3] Sú tækni hafði mikil áhrif á hönnun netsins í byrjun og reyndist miklu betri en símatæknin, sem er rásaskipt.“[4]

OSI-kerfið átti sér ýmsa talsmenn, Landssíminn var til að mynda hallur undir það kerfi. Fleira en andúð á amerískum lausnum olli því að Evrópubúar vildu lengi vel halda í þessa tækni. Hægt var að gjaldfæra fyrir hvern sendan pakka en í TCP/IP-kerfinu (internetkerfinu) var aftur á móti engin innbyggð leið fyrir mælingar á gjaldtöku. Í Evrópu voru menn því enn um sinn uppteknir af því að búa til staðla sem byggðu á OSI og þeirra á meðal voru skráaflutningastaðall (X.25) og tölvupóststaðall (X.400). „Það var fáránlega dýrt að nota X.25 í venjulegum samskiptum með mótöldum ,“ segir Helgi Jónsson sem var hjá Reiknistofnun Háskólans og SURÍS á þeim tíma sem þessi barátta um samskiptastaðla var í algleymingi.[5] „Eitt sinn sátum við niðri á Hótel Borg, ég og Páll Jensson forstöðumaður RHÍ. Páll spurði mig hver væri eiginlega munurinn á TCP/IP og OSI. Ég sagði honum að á meðan kerfiskarlar í Evrópu hittust og ræddu OSI væru ungir og frjóir námsmenn í háskólum í Bandaríkjunum að vinna að TCP/IP-stöðlum; hvort myndir þú velja?“[6]

Óhætt er að halda því fram að með UUCP-tengingunni hafi Ísland verið komið í samband við umheiminn, internetið var komið til Íslands árið 1986 og efldist hröðum skrefum næstu árin. Allar helstu stofnanir þjóðfélagsins voru orðnar nettengdar 1986: menntastofnanir, stjórnsýslan, þar með ráðuneytin og Alþingi, Ríkisútvarpið, Landsvirkjun og Póstur og sími, tengdar alneti, sem var og er í rauninni mörg sjálfstæð net. En breytingin sem kom með UUPC var sú að gáttir höfðu verið opnaðar á milli þeirra þannig að þau tengdust saman í eitt allsherjar heimsnet, alnet sem er nú orðinn snar og sjálfsagður hluti af lífi okkar og tilveru.

Stofnaður var félagsskapur Unix-notenda á Íslandi í framhaldi af þessum miklu breytingum á tölvuumhverfi og hröðum umskiptum í umhverfi þeirra sem voru með tengingar til útlanda. Eftir aðeins þrjú ár höfðu 40–60 tölvur á sautján stofnunum verið tengdar þessu fyrsta íslenska tölvuneti með svonefndum TCP/IP-tengingum: Hafrannsóknastofnun, SURÍS, Reiknistofnun Háskólans, Flugmálastjórn, Raunvísindastofnun, Strengur hf., Orðabók HÍ, Tölvudeild Ríkisspítala, Íslensk málstöð, IBM á Íslandi, Verkfræðistofnun HÍ, Magnús hf., Norræna eldfjallastöðin, Grunnskólinn á Kópaskeri, Rannsóknastofa landbúnaðarins og HP á Íslandi (Hewlett Packard).

Með þessari tengingu fékkst aðallega tvennt: alþjóðlegur tölvupóstur og aðgangur að „usenet“-hópunum. Til þess að geta notað tölvupóstkerfið fengu notendur skráð netföng sem enduðu á .is.

HInet verður til

Árið 1987 var ákveðið að Háskóli Íslands, að frumkvæði starfsmanna Reiknistofnunar Háskólans, myndi koma upp gagnaneti (glerþráðaneti) á háskólalóðinni. Vorið 1988 lá fyrir frumáætlun um hraðvirkt gagnanet og var fyrsti hlutinn settur upp skömmu eftir að stofnunin fluttist í Tæknigarð, snemma í febrúar 1989. Spennan var mikil þegar taka átti búnaðinn í notkun og í ljós kæmi hvort hann ynni samkvæmt tilskyldum stöðlum:

Vart var við smá taugatitring þegar þessi fyrsti hluti glerþráðanetsins var prófaður. Enda e.t.v. ekki nema von, því þetta var í fyrsta sinn sem glerþráður var notaður fyrir tölvuumferð hérlendis. Ekki var dagurinn sérstaklega uppörvandi til slíkra tilrauna, mánudagurinn 13. febrúar. Sem betur fer reyndist auðvelt að koma glerþráðum fyrir þó splæsingin á honum sé vandaverk en Breiðbandsdeild Pósts og síma sá um þann þátt verksins.

Netið nær nú [í október 1990] til ellefu bygginga.[7]

Við hönnun á háskólanetinu, HInet, var áhersla lögð á eftirfarandi þætti: að tölvu- og vélbúnaðartengingar væru samkvæmt Ethernet-stöðlum, að samskipti milli tölva væru samkvæmt IP-stöðlum – það sama gilti um fjarskiptabúnað – og að Unix-stýrikerfi væri notað á netþjónum og vinnustöðvum.

SURÍS og Internet á Íslandi hf.

Tölvudeild Hafró rak útlandasambandið (UUCP-tengingu til Amsterdam) fyrstu árin. Rekstrarkostnaði var dreift milli þeirra sem nýttu tenginguna. Undir lok árs 1989 var rekstrarkostnaður orðinn það mikill að Hafró gat ekki lengur séð um reksturinn. Ákveðið var að SURÍS tæki við netinu (ISnet) síðla árs 1989. SURÍS hafði verið stofnað til þess að koma á samvinnu um rekstur upplýsinga og tölvunets fyrir rannsóknaraðila hér á landi og var því rökrétt að færa rekstur netsins til SURÍS.

SURÍS samdi við Reiknistofnun Háskóla Íslands og Háskóla Íslands um að annast daglegan rekstur netsins og skráningu léna. SURÍS stofnaði Internet á Íslandi hf. 17. maí 1995, og tók það við rekstri ISnet, lénaskráningu og sá um þátttöku í NORDUnet-samstarfi.

Þann 18. júlí 1990 var gefin út auglýsing nr. 321/1990 hjá samgönguráðuneytinu. Í henni var að finna breytingar á reglum um notkun leigulína. Línum fyrir gagnaflutninga var skipt í þrjá flokka. Blátt bann var lagt við tengingu þriðja aðila við gagnalínur í flokki 1 og flokki 2. Skilyrði fyrir notkun gagnalínu í flokki 3 voru þess eðlis að útilokað var að verða við þeim.

Þessar hörmulegu reglur voru því þess eðlis að ekki var unnt að nota leigulínur til nettenginga. Ljóst var að breytingarnar voru gerðar að undirlagi Póst- og símamálastofnunar.

Ekki var hægt að kenna ráðherranum um þennan ófögnuð. Hann var ekki sérfróður um netmál. Hann hefur í góðri trú farið eftir ráðleggingum ráðgjafa sinna. Ráðgjafarnir voru hins vegar frá Póst- og símamálastofnun.[8]

Í víðneti eru leigulínur líflínur netsins. Hefðu reglur um notkun gagnalína samkvæmt þessari auglýsingu náð fram að ganga hefði það næsta víst gengið af neti SURÍS, ISnet, dauðu. SURÍS mótmælti og sendi harðorð bréf til ráðherra. Hið sama gerði Helgi Þórsson forstöðumaður RHÍ. Fundir voru haldnir og mótmælin dugðu til þess að banni við notkun samkvæmt auglýsingunni var ekki framfylgt. Í auglýsingunni voru einnig tilgreindar töluverðar gjaldskrárhækkanir sem komu sér afar illa fyrir SURÍS og viðskiptavini sem tengdir voru ISnet um leigulínur.

Árið áður höfðum við byrjað tilraunir með ókeypis hugbúnað frá Northwestern University. Hugbúnað sem breytti venjulegri PC tölvu í einfaldan rúter; þetta var gert með hugbúnaði sem hét og heitir PCroute. Hægt var að nota rúter með þessum búnaði til að tengja net saman yfir leigulínu með lághraða mótöldum. Við höfðum þegar notað PCroute til að tengja einstaka aðila við ISnet. Þegar hækkun gjalda á leigulínum kom til virtist lítið vera hægt að gera til mótvægis.

Um vorið 1992 ákvað ég að athuga hvort unnt væri að breyta PCroute hugbúnaðinum; breyta honum þannig að í stað leigulína væru notaðar venjulegar símalínur. Hugmyndin var að hafa upphringi PCroute rútera tengda við mótald og símalínu bæði í netmiðstöð og hjá viðskiptavini. Rúterar kæmu á sambandi þegar samskipta var þörf. Samband væri svo rofið að samskiptum loknum. Garðar Georg Nielsen fékk það hlutverk að búa til prótótýpu til að kanna hvort þessi breyting væri yfirhöfuð möguleg. GGN lauk þessu verkefni í júní 1992.

Upphringi PCroute, PCroute með breytingum GGN, virkaði en var ekki áreiðanlegur. PC tölvan sem keyrði búnaðinn átti til með að frjósa í tíma og ótíma. GGN var sumarmaður hjá RHÍ og verkefnið virtist sjálfdautt þegar hann hætti síðar um sumarið. Ég tók þá verkefnið upp á mína arma og vann að því utan vinnutíma. Undir áramót 1992 var loks komin útgáfa sem virkaði.[9]

Búnaðurinn var þróaður áfram og reyndist afar gangviss við upphringinetsambönd og var reyndar einnig notaður við fastar leigulínur í stað upprunalega PCroute. Með upphringi-PCroute reyndust samskipti yfir leigulínur vera hraðari en áður. Hraðaaukning kom til vegna breytinga sem gerðar voru á hugbúnaðinum. Upphringinetsambönd voru jafnhraðvirk og netsambönd yfir fastar línur. Mörg af minni fyrirtækjunum sem höfðu UUCP-tengingu við ISnet notuðu PCroute þegar þau skiptu yfir í TCP/IP-nettengingu. Reyndar fór svo að mörg fyrirtæki notuðu þennan búnað við fyrstu tengingar sínar við ISnet.

Á árinu 1996 fór að rofa til í leigulínumálum. Reglugerð 608/1996 var gefin út 30. október 1996. Fimmta grein reglugerðarinnar byrjar svona: „Jafnræði. Fjarskiptafyrirtæki skal leigja línur sömu tegundar á eins kjörum.“

Reglugerð 608/1996 var sett samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984, sbr. nr. 32/1993 og með hliðsjón af tilskipun 92/44/EBE frá 5. júní 1992 og ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB 94/439/EBE frá 15. júní 1994.

Hverjir voru tengdir við internetið 1995?

Í febrúar 1995 birtist yfirlitsmynd í tímaritinu Tölvumálum, sem sýndi þá íslenska aðila sem tengdir voru internetinu.

isnet.1994
Ísnet, tengingar 1994. Tölvumál 1. tölublað, 1995.[10]

Aðstandendur SURÍS stofnuðu Internet á Íslandi hf. 17. maí 1995 (INTIS). Útlandalínan var færð upp í 1 Mbps (megabitar á sek). Samgönguráðuneytið tilkynnti lækkun á verði leigulína til útlanda og í boði var tveggja ára samningur með 15% afslætti og fimm ára samningur með 30% afslætti. En Póstur og sími krafðist fyrirframgreiðslu fyrir allt tímabilið. 

Mikið var reynt til að ná samkomulagi sem unnt væri að sætta sig við milli Pósts og síma og INTIS. Frá fundi þessara aðila í mars 1997 var meðal annars reynt að fá einhvers konar „pakka“ fyrir notendur, sem sumir voru æði stórir, vegna netsambands við Evrópu.

Póstur og sími

Í febrúarblaði Tölvumála 1992 lýsir Hákon Sigurhansson verkfræðingur háhraðaneti Pósts og síma. Hann fjallar meðal annars um þau staðarnet sem sett hafi verið upp á árunum þar á undan, bæði þau sem voru á afmörkuðu svæði en einnig ef tengt var milli landshluta eða bæjarhluta. „Fram til þessa hafa menn tengt staðarnet sem eru fjarri hvort öðru saman með leigulínum eða með Gagnaneti Pósts og síma.“[11] Lýsing Hákonar í Tölvumálum er tæknileg, en hann getur þess að gjaldskráin fyrir Gagnanetið henti ekki vel fyrir háhraðatengingar á milli staðarneta. Eini valkosturinn í viðbót sé leigulína frá Pósti og síma, sem hann einn hafi afnot af.[12]

PosturOgSimi
Fjallað var um háhraðanet Pósts og síma í 1. tölublaði Tölvumála 1992.[13]

Hákon bendir á að gagnanetið bjóði ekki upp á sama hraða og staðarnet en háhraðanetið eigi að leysa úr því, gjaldskrá sé hins vegar ekki tilbúin. Hákon gerir ekki ráð fyrir öðrum kostum en Pósti og síma, enda var það í takt við þau lög og reglur sem þá giltu. Þar á bæ var á þessum tíma fullur vilji til að styðja alla helstu staðla sem enn voru við lýði, ekki bara TCP/IP heldur þá sem síðar urðu undir í þróuninni.

Miðheimar

Í apríl 1994 var fyrirtækið Miðheimar hf. stofnað og var það fyrst á Íslandi til að selja aðgang að vefnum til einstaklinga og fyrirtækja. Það var einnig fyrsta vefsíðufyrirtækið hér á landi og framleiddi til dæmis vefsíður fyrir Björk Guðmundsdóttur, Landsbankann, Morgunblaðið, Flugleiðir og fleiri. Miðheimar buðu upp á internetið í pakka þar sem voru leiðbeiningar og disketta með aðgengilegum hugbúnaði fyrir PC og Mac.

Forveri Miðheima var centrum.is sem Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Róbert Viðar Bjarnason stofnuðu árið 1993. Centrum.is var ein fyrsta internetveitan á Íslandi og sú fyrsta sem bauð upp á SLIP-aðgang sem opnaði aðgang að vefnum, nokkrum mánuðum eftir að fyrsti vefvafrinn, NCSA Mosaic, kom út. Við stofnun Miðheima tók það fyrirtæki við rekstri centrum.is. Róbert stóð að stofnun dótturfyrirtækis í Danmörku 1995, centrum.dk. Skíma var stofnuð 1994 eins og Miðheimar og sameinuðust fyrirtækin árið 1997 undir stjórn Dagnýjar Halldórsdóttur. Nokkru síðar var Miðheimar-Skíma selt Símanum[15]

Nýjum símalínum bætt við

Í júlí 1996 hóf Póstur og sími að selja internettengingar til almennings. Árið eftir var tekin í notkun föst lína til Montreal í Kanada og annarri bætt við nokkrum mánuðum síðar þannig að heildarflutningsgetan var orðin sex megabitar á sekúndu. Síminn tók þetta ár í notkun línu til Bandaríkjanna og útlandasambönd urðu samtals tíu megabitar. Í lok þessa árs höfðu 24.828 tölvur verið tengdar.

Árið 1999 var enn bætt við línum og aðrar stækkaðar og heildarflutningsgeta ISnet fór í 47 megabita. Á því ári tók Íslandssími í notkun 34 megabita samband til Bandaríkjanna.

ISnet.2000
Árið 2000 tóku þeir Maríus Ólafsson og Helgi Jónsson saman yfirlit yfir nettengingar á Íslandi.[16]

Árið 2000 keypti Íslandssími, sem varð síðar Vodafone, hluta Háskóla Íslands og annarra ríkis- og rannsóknastofnana (nema Alþingis) í Internet á Íslandi. Jafnframt var samböndum ISnet til Stokkhólms lokað. Internet á Íslandi tók þá að sér að reka svokallaðan skiptipunkt netumferðar á Íslandi (Internet exchange). Þegar fram eru komin fleiri en tvö netþjónustufyrirtæki á sama svæði myndast þörf fyrir samtengipunkt, þar sem viðskiptavinir fyrirtækjanna þurfa að geta náð sambandi hverjir við aðra. Ef þau tengdust ekki þýddi það að umferð milli viðskiptavina þeirra myndi flæða um útlandasamböndin, og gat það verið mjög óhagkvæmt fyrir alla aðila. Internet á Íslandi hf. setti því upp „Reykjavik Internet Exchange“, RIX, árið 2000 og þar tengdust allir helstu netþjónustuaðilar landsins og skiptust á umferð. Maríus Ólafsson skýrði þetta svo:

Það sem merkilegt er við þessa skiptipunkta er að yfirleitt er ekki þörf á sérstökum samningum milli aðila, og hvorugur greiðir hinum fyrir umferð enda tengingin augljóslega beggja hagur. Stærstu aðilarnir á markaðnum hér á landi (Síminn og Vodafone) voru auðvitað ekkert hrifnir af þessu framtaki (þeir sáu ekki þörf á því þar sem allir þessir aðilar gætu einfaldlega tengst þeim og greitt þeim fyrir tengingu – og ef það eru bara tveir þjónustuaðilar er engin þörf á slíkum tengipunkti) en auðvitað sáu tæknimenn þeirra ljósið strax og tengdust fljótlega. [17]

Framhald tenginga við heimsnetið var að Íslandssími bætti við sambandi við Evrópu og Lína.Net tók í notkun 45 megabita samband til Bandaríkjanna. Þar með var 39.901 tölva tengd. Rannsókna- og háskólanet Íslands (RHnet) var stofnað formlega 24. janúar 2001 til þess að koma á hraðvirku neti háskóla- og rannsóknastofnana og tengjast NORDUnet beint, og í gegnum það stærstu háskólanetum Evrópu og Ameríku.[18] Fjöldi tengdra tölva var kominn í 54.668. Árið eftir var RHnet stækkað í 155 megabita samband og á því ári fór fjöldi tengdra tölva upp í 68.261 og árið 2003 fór fjöldinn í 104.786.

Árið 2004 voru íslenskir stafir leyfðir í lénanöfnum, HIVE opnaði 45 megabita samband til Bandaríkjanna og fjöldi tengdra tölva fór í 139.427. Árið 2005 var samband RHnets stækkað í 310 megabita á Cantat-strengnum og var þá Landssími Íslands með samtals 465 megabita á Farice, HIVE með 45 megabita og Og Vodafone með 310 megabita á Farice.[19]

 

[1] Viðtal við Gunnar Stefánsson 24. nóv. 2014.

[2] Maríus Ólafsson. Athugasemdir í tölvupósti í apríl 2016.

[3] Því miður var CYCLADES drepið niður af franska ríkissímafélaginu. Maríus Ólafsson, apríl 2016.

[4] Maríus Ólafsson. Viðtal tekið 14. nóv. 2014.

[5] Helgi Jónsson. Viðtal tekið 2. apríl 2016.

[6] Sama heimild.

[7] Helgi Jónsson: Stutt ágrip af sögu HInet og staða netsins í október 1990. Handrit.

[8] Helgi Jónsson. Athugasemdir í tölvupósti í apríl 2016.

[9] Sama heimild.

[10] Kristinn Einarsson: Internet. Tölvumál, 1. tbl., 20. árg., febrúar 1995, bls. 13. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2363121

[11] Hákon Sigurhansson, verkfræðingur. „Háhraðanet Pósts og síma,“ Tölvumál, 1. tbl., 17. árg., bls. 15.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild, bls. 17.

[15] Dagný Halldórsdóttir, Skíma-Miðheimar. Frjáls verslun, 3. tbl., 58. árg. 1997. Bls. 73. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=233218&pageId=3178145&lang=is&q=Mi%F0heimar

[16] Yfirlit fengið frá Maríusi Ólafssyni, 2016.

[17] Maríus Ólafsson í athugasemdum við viðtal hans við  14. nóv. 2014.

[18] Maríus Ólafsson, viðtal við  14. nóv. 2014. Sjá einnig: http://www.rhnet.is/

[19] SagainternetsinsMarius.txt

Áratugur samfélagssviptinga

Áratugnum 2005–2014 lyktaði á því að fimmtíu ár voru frá komu fyrstu tölvunnar til Íslands. Í upphafi hans var góðæri á Íslandi. Bankakerfið hafði þanist út og meðal annars dregið til sín mikið og hálaunað vinnuafl í tölvugeiranum, einkum hugbúnaðargerð. Snemma árs 2008 voru blikur á lofti í efnahagsmálum og gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hóf að lækka, enda hafði það að margra mati verið alltof hátt skráð í þenslu undangenginna missera. Um mánaðamótin september–október varð bankahrun á Íslandi þegar allir þrír stóru bankarnir féllu. Þeir höfðu allir töluverð umsvif erlendis og höfðu vaxið langt umfram það sem þeir þoldu. Afleiðingarnar voru gríðarlegar og skyndilega fengu Íslendingar smjörþefinn af því hvað gerist þegar innviðum samfélagsins er ógnað.

Á ögurstundum sem þessum er mikilvægt að bregðast hratt og örugglega við. Mikill fjöldi Íslendinga er staddur erlendis hverju sinni og ennfremur útlendingar á Íslandi. Mikið reið á að halda greiðslumiðlun gangandi þrátt fyrir fall bankanna og tryggja viðtöku og uppgjör kortagreiðsla.

Strax og hrunið varð gekkst Seðlabankinn í ábyrgð fyrir kortagreiðslumiðlun á Íslandi. Skipta þurfti um uppgjörsmynt milli Íslands og allra erlendu kortafélaganna nánast yfir nótt. Tryggja þurfti að greiðslur til erlendu kortafélaganna fyrir úttektir Íslendinga erlendis næðust tímanlega á uppgjörsreikninga erlendis, þrátt fyrir hryðjuverkalög sem Bretland setti á Ísland og allar millifærslur sem áður höfðu verið rafrænar voru núna handgerðar og sættu sérstöku eftirliti.

Með samstilltu átaki allra sem komu að greiðslumiðlun á Íslandi tókst að halda alþjóðlegri greiðslumiðlun hnökralausri. Einstaka korthafi lenti í vandræðum erlendis ef viðkomandi seljandi taldi að íslenska greiðslukortið myndi ekki virka lengur, en engar ráðstafanir voru gerðar í posum erlendis til að koma í veg fyrir notkun íslenskra korta. Þess má einnig geta að greiðslumiðlun innan Íslands var algerlega hnökralaus. Innviðir greiðslukortakerfanna héldu þegar á reyndi.[1]

Samfélagið lék á reiðiskjálfi og mótmæli í miðborg Reykjavíkur voru stigvaxandi eftir því sem leið á veturinn 2008. Samfélagsmiðlarnir léku umtalsvert hlutverk í þeirri atburðarás og að sumra mati lykilhlutverk. Í lok janúar 2009 féll ríkisstjórnin og minnihlutastjórn var skipuð fram að alþingiskosningum í apríl. Alþingi skipaði rannsóknarnefnd sem skilaði frá sér skýrslu í apríl 2010 þar sem ítarlega var fjallað um aðdraganda og ástæður hrunsins.[2]

Afleiðingar hrunsins voru margvíslegar, bæði mælanlegar og huglægar. Atvinnuleysi fór vaxandi og var óvenju mikið á íslenskan mælikvarða, fór hæst í 9,3% í febrúar 2010. Hrunið hafði töluverðar afleiðingar fyrir fólk sem starfaði í upplýsingatæknigeiranum. Heilu tölvudeildunum, einkum í bönkunum, var sagt upp og fólk sem hafði verið keypt frá hugbúnaðarhúsunum og oft notið bestu launanna í stéttinni stóð skyndilega uppi án atvinnu. Til að byrja með héldu flestir að sér höndum.

Þeim óx fiskur um hrygg sem höfðu séð upplýsingatæknina sem farveg fyrir lýðræðisumræðu. Hugtök eins og „edemocracy“[3], lýðræðisleg beiting upplýsingatækni, urðu hluti af umræðunni og hugmyndum um íbúalýðræði hrundið í framkvæmd. Sveitarfélög fóru í auknum mæli að tileinka sér möguleika til notkunar netsins í samskiptum við íbúana.  

netnot
Hlutfall reglulegra netnotenda í Evrópu. Úr Hagtíðindum 2015:1.[4]

Eftir 2010 fór að bera á efnahagslegum batamerkjum, atvinnuleysi minnkaði og ferðaþjónustan naut góðs af tiltölulega lágu gengi íslensku krónunnar auk þess sem athygli hafði óvænt beinst að Íslandi við Eyjafjallajökulsgosið árið 2010, sem lagði flugumferð víða um Vesturlönd á hliðina.

Eftir efnahagshrunið tók tíma fyrir samfélagið að komast í fyrra horf og sjálfsagt má um það deila hvort svo hafi orðið. Eitt er þó ljóst að hlutur upplýsingatækninnar skertist ekki í þessum umbrotum og í lok tímabilsins sem í hönd fór eftir hrun, árið 2014, var Ísland sem fyrr í hópi þeirra landa sem voru með mesta internetnotkun í heiminum. Ef einungis er litið á þau lönd í Evrópu þar sem netnotkun heimila var hvað mest er Ísland þar á toppnum, 2014, eins og verið hafði um langt skeið; aðeins tvö önnur lönd, Lúxemborg og Holland, voru með jafnhátt hlutfall nettengdra heimila, eða 96%.

Ef litið er til fyrirtækja sem tengdust upplýsingatækni á einhvern hátt árið 2014 þá kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Fyrirtækin í sölu tölva og tölvubúnaðar voru um hundrað talsins, yfir 600 voru í hugbúnaðargerð og önnur fyrirtæki í skyldum rekstri býsna mörg.

hagstofa.fyrirtaeki
Fyrirtæki í tölvutengdum rekstri 2014 samkvæmt leit á vef Hagstofunnar.[5]

Þá ber að geta þess að á tímabilinu varð mikil sprenging í notkun gagna og bæði viðskiptagreind og vöruhús gagna voru í mikilli uppsveiflu.

Þótt áratugurinn 2005–2014 sé fyrst og fremst áratugur mikilla breytinga í tölvu- og upplýsingatækni er ekki síður áhugavert að velta því fyrir sér hvað hafi orðið um eldri tölvubúnað. Er honum alltaf hent jafnharðan á haugana? Ekki alltaf, hjá Íbúðalánasjóði er enn í gangi tölva sem hefur ekki verið slökkt á síðan árið 1999. Hún keyrir á stýrikerfinu OS/2, er búin innbyggðum RAID-diskastæðum og hefur ekki verið endurræst síðan hún hóf vinnslu. Afköstin eru ekki mikil og opinberlega er hún ekki talin vera í notkun, en á meðan ekki er slökkt á henni heldur hún áfram, 24 stundir á sólarhring, sjö daga vikunnar, og gæti alveg haldið því áfram um ókomin ár.[6]

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 2005–2014

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Einkatölvur – einn notandi, mikill sveigjanleiki, töflureiknar, ritvinnsla, tölvugrafík; Sýndartölvur (Virtual Machines); Fækkun netþjóna með tilkomu VMware og ytri gagnageymsla (SAN og NAS); Tilkoma stóru gagnaveranna – Skýið og flutningur hugbúnaðar (og gagna) þangað. Á þessu tímabili varð opinn hugbúnaður af ýmsu tagi útbreiddur, bæði ókeypis (free software) og með opnu hugbúnaðarleyfi (open source).

Forritunarmál þessa tíma voru: Java, C++, C# (í .NET-umhverfi), JavaScript, Objective-C, Python, Ruby on Rails.

Gagnagrunnar: Oracle, MySQL, PostgreSQL, MongoDB, Hadoop, SQL Server.

Stýrikerfi: Unix; Windows: XP, 2000, Vista, 7 og 8; Ýmis Linux-stýrikerfi, meðal annars Red Hat, Debian og Ubuntu.

Vafrar: Netscape, Mozilla Firefox, Internet Explorer, Opera, Apple Safari, Google Chrome.

Rafræn stjórnsýsla í Reykjavík

Í Tölvumálum árið 2011 er fjallað um reynslu Reykjavíkurborgar af rafrænum viðskiptalausnum og ekki síst í samskiptum við birgja. Þar kemur fram að báðir aðilar hafi sparað sér umtalsverðar fjárhæðir með minni pappírsnotkun og bættum afstemmingum; færri starfsmenn þurfi því til að vinna einfaldari verk. Þar segir: „Krafan um ákveðnar upplýsingar á reikningum hefur tryggt að reikningar fara strax í samþykktaferli og öll vinnsla hefur orðið skilvirkari til hagsbóta fyrir Reykjavíkurborg og birgjana sjálfa.“ Móttaka og skráning reikninga þótti einnig öruggari. Ákveðið var að fara út í tilraunaverkefni á þessu sviði.[8]

Áherslan undanfarin ár hefur einkum verið að skapa rafrænar viðskiptalausnir sem gera Reykjavíkurborg kleift að taka móti stórum hluta reikninga frá birgjum rafrænt. Reikningar koma frá 5-6 þúsund birgjum og eru samtals um 200 þúsund reikningar á ári. Um 23 þúsund reikningar koma með SPAN-tækni sem tekin var upp árið 2003 en allir birgjareikningar hafa verið skannaðir inn frá 2003. Tilraunaverkefni með rafræna birgjareikninga var sett upp haustið 2010[…] Mjólkursamsalan (MS) sem er einn stærsti birgi [svo] borgarinnar var tilbúinn að taka þátt í tilrauninni frá upphafi en MS sendir Reykjavíkurborg um 12-13 þúsund reikninga á ári. […] Gert er ráð fyrir að rafrænir birgjareikningar verði á bilinu 50-60 þúsund á næsta ári og við það bætast um 23 þúsund […] reikningar. […]

Næsta verkefni er að senda út alla innri reikninga rafrænt og er undirbúningur á lokastigi. Miðað er við að í lok september 2011 verði allir innri reikningar orðnir rafrænir, en það eru um 6-8 þúsund reikningar á ári![9]

Reykjavíkurborg innleiddi árin 2001–2003 Oracle Business Suite, sem er fjárhags- og launakerfi frá Skýrr, og var því rétt á undan ríkinu að innleiða staðlað erlent kerfi til að halda utan um stærstu mál borgarinnar.[10]

Vöxtur í leikjaiðnaði á Íslandi

Árin 2005–2014 voru sannkallað blómaskeið í leikjaiðnaði á Íslandi þótt ekki hafi alltaf verið siglt lygnan sjó. Leikjaflóran er stór og flestir þeir sem mestum árangri hafa náð hér á landi hafa starfað um allan heim og verið á alþjóðlegum markaði. Leikjaiðnaðurinn hefur óumdeilanlega skapað mörg störf hér á landi og því full ástæða til að fjalla ögn nánar um það sem gerðist á þeim vettvangi á þessum áratug.

Í kringum árið 2009 voru leikjafyrirtæki innan Samtaka íslensks leikjaiðnaðar með samtals 575 starfsmenn innan sinna vébanda og þar af 311[11] á Íslandi, en alls störfuðu tæplega 2700 manns við hugbúnaðargerð og ráðgjöf á Íslandi árið 2008 og hafði þá fækkað ögn frá árinu 2007.[12] Ætla má að meira en einn af hverjum tíu í hugbúnaðariðnaðinum hafi starfað hjá leikjafyrirtækjum.

Þessi þróun varð ekki til úr engu, markvisst var unnið að því að koma leikjafyrirtækjum á laggirnar og efla þau, hlúa að sprotafyrirtækjum og ýta undir nýsköpun í leikjum. Stundum bar þetta árangur, ekki síst í kjölfar efnahagskreppunnar þegar margir litu á nýsköpun í hugbúnaðargerð sem góða aðferð til að vinna gegn afleiðingum bankahrunsins.

En á þessum markaði er einnig gríðarleg samkeppni. Stefán Hrafnkelsson hjá Betware sagði í viðtali við Frjálsa verslun 2011 að um tíu stór fyrirtæki bitust um markaðinn við gerð hugbúnaðar fyrir leikjafyrirtæki og mikið væri um uppkaup á keppinautunum.[13]

Tölvuleikjamarkaðurinn er stór í sniðum á alþjóðlegan mælikvarða, mun stærri en kvikmyndaiðnaðurinn. Stærstu frumsýningar á vinsælum tölvuleikjum hala inn mun meira fé en stærstu frumsýningar vinsælla kvikmynda. Það er því ekki að furða að sífellt fleiri sæki í að mennta sig á þessu sviði og Háskólinn í Reykjavík er til dæmis farinn að bjóða upp á tölvuleikjalínu í kennslu sinni í tölvunarfræði.[14]

Áframhald og nýjungar hjá CCP – 230.000 EVE Online-áskrifendur á nokkrum árum

Eftir að fjölþátttakendaleikurinn EVE Online hafði náð umtalsverðri útbreiðslu á leikjamarkaði víða um heim var það járn hamrað vel af hálfu framleiðandans CCP, enda hefur leikurinn haldið velli vel á annan áratug. Einnig var farið að huga að nýjum leikjum. Árið 2008 voru áskrifendur EVE Online 230.000 um allan heim og starfsmenn CCP voru 340.[15] Flestir urðu starfsmennirnir 660 árið 2011 í nokkrum löndum en flestir þó á Íslandi. Árin þar á eftir fækkaði þeim talsvert þar sem ákveðið var að hætta við einn leikinn, World of Darkness, sem hafði verið í vinnslu í sjö ár, vegna dræmra undirtekta. „Í lok ársins 2013 voru þrumuský á lofti,“ eins og Hilmar Veigar framkvæmdastjóri CCP orðar það. Fyrirtækið stóð þó af sér það áfall en fækkaði bæði starfsmönnum og starfsstöðvum sínum erlendis. EVE Online hélt áfram að vera helsta tekjulind fyrirtækisins en aðrir leikir hafa verið þróaðir og fengið ágætar viðtökur.[16]

fanfest2
Frá Fanfest CCP árið 2004. Aðalsteinn Rúnar Óttarsson (kynnir), Kjartan Pierre Emilsson, Reynir Harðarson, Hilmar Veigar Pétursson, Torfi Frans Ólafsson og Nathan Richardsson.

Kringum leikinn EVE Online hafa allt frá fyrsta starfsári verið haldnar hátíðir erlendis og á Íslandi, Fanfest, fyrir þátttakendur alls staðar að úr heiminum, og hafa þær oft verið mjög fjölmennar.

Fræðslu- og leikjaefni fyrir börn og fullorðna

Snemma var farið að huga að því að nýta tölvur, internet, margmiðlunartækni og aðra þá tækni sem fylgdi tölvuöld til að fræða börn jafnt sem fullorðna. Nokkur dæmi er vert að taka.

Árið 2009 gerði nemandi við Háskóla Íslands, Jóna Rún Gísladóttir, athugun á námsleikjum í leikskólum og fjallaði einn kaflinn um tölvuleiki. Hún benti meðal annars á Krakkasíðu Námsgagnastofnunar og að þeir leikir sem þar var bent á væru sérstaklega framleiddir fyrir skóla á Íslandi. Þeirra á meðal voru Orðakistur Krillu, sem þjálfa nemendur í lestri og að raða orðum í stafrófsröð og lesa rím. Einnig voru þar minnisleikur, stafaleikir og stærðfræðileikir.[17]

Einkaaðilar hafa sótt á þennan markað. Íris Andrésdóttir hjá Gogogic velti því fyrir sér hvernig hægt væri að nýta tölvu- og símatækni á uppbyggilegan hátt fyrir börn. Hún var útivinnandi móðir en jafnframt menntuð í tölvunarfræði og uppeldis- og menntunarfræði: „Í þessum stafræna heimi er „Hvaða leiki get ég leyft barninu mína að spila?“ spurning sem allir foreldrar þurfa að svara“. Hún ákvað að svara því með því að þróa í vinnu sinni leik sem væri einfaldur og örvaði skilningarvitin, Symbol6 Redux, en þessi leikur var framleiddur fyrir iPhone, iTouch og iPad.[18]

Margar metnaðarfullar tilraunir hafa verið gerðar á leikjamarkaðnum á Íslandi. MindGames er eitt dæmið um slíka nýsköpun, en það var eitt af fyrstu fyrirtækjum á alþjóðavísu sem hönnuðu leiki sem byggja á því að virkja heilabylgjur notenda. Tilgangur MindGames var að gera fólki kleift að þjálfa sig í að stjórna eigin streitu og einbeitingu. Leikjunum var stýrt beint með einbeitingu og slökun leikandans, gegnum heilabylgjutól sem voru til á neytendamarkaði.

ToMfaces MindGames
MindGames: Leikmaðurinn hleður upp mynd af einhverjum í lífi sínu sem hefur truflandi áhrif á hann/hana. Tekur upp setningu sem tengist viðkomandi, til dæmis: Þú ert ekki nógu góð(ur). Andlitið og röddin sem geta verið reiðileg í fyrstu breytast eftir því sem leikmaðurinn slakar á, andlitsdrættir mildast og röddin verður lágstemmdari. Hönnun frá Ragnari Má Nikulássyni og Kötlu Rós Völudóttur.

MindGames varð fyrsta fyrirtækið í heiminum til að selja slíka tölvuleiki fyrir iOS, en framleiddi í heildina þrjá leiki fyrir það stýrikerfi og einnig fyrsta fjölspilunartölvuleikinn á Facebook sem stjórnað er með hugaraflinu (í lokaðri beta-útgáfu). Þetta var einnig tilraun til þess að setja á almennan markað dæmi um svokallaða „alvarlega leiki“, („serious games“) – tegund af tölvuleikjum þar sem leikendur öðlast þekkingu eða getu sem nýtist þeim í daglegu lífi við það eitt að spila.[19]

Heimsmenningarhatid MindGames
Frá heimsdegi barna í Gerðubergi 2012. Barn að leika leikinn 28 Spoons Later, leik frá MindGames. Leikmaðurinn á að einbeita sér til að beygja skeiðar til þess að forðast að vera étinn af uppvakningi. Ljósmyndari: Hannes Högni Vilhjálmsson.

Tölvuleikurinn Maximus Musicus, sem íslenska tölvuleikjafyrirtækið Fancy Pants Global þróaði fyrir iPhone, er gott dæmi um leik sem sameinar fræðslu og skemmtun.[20] Hann var þróaður eftir karakter úr barnabókum eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Þegar leikurinn kom út var honum og tilgangi hans lýst svo: „Markmiðið með Maximúsinni er að kynna heim klassískrar tónlistar fyrir börnum.“ Kynningin á þessum heimi sígildrar tónlistar var á forsendum barnanna og var á þennan hátt: „Í leiknum fá krakkar að kynnast hljóðfærunum Xylophone, hörpu, píanó og ásláttarhljóðfærum í litlum leikjum ásamt púsluspili, leyniboxi og draumaleik. Leikirnir eru alls 7 í þessari útgáfu.“

Margir tölvuleikir sem náð hafa vinsældum eiga sér hliðstæðu í öðrum miðlum, leikhúsi, bókum eða kvikmyndum, eða öfugt. Það er hliðstætt því sem gerist í eldri miðlum þar sem bók, kvikmynd og sjónvarpsþættir voru algeng röð framleiðslu, en í kringum tölvuleikina er röðin engan veginn skýr.

Framhald vaxtar Betware – þeir fiska sem róa

Áratugurinn 2005–2014 var tími áframhaldandi vaxtar hjá Betware. Ýmis fyrirtæki sóttust eftir því að Betware sameinuðust þeim, á meðan Betware var tiltölulega lítið fyrirtæki, en Stefán Hrafnkelsson framkvæmdastjóri svaraði þeim kurteislega að á meðan fyrirtækið væri með vöxt upp á 100% á ári væri miklu betra að halda áfram á sömu braut. Hann uppskar lítinn fögnuð og í einu tilviki hótanir um að fyrirtækið yrði knésett og ætti enga möguleika á að lifa af.[22] Fyrirtækið hélt sjó og það má segja að það hafi gengið eftir að starfa með því hugarfari sem Stefán lýsti í fyrirlestri á UT-deginum 2010: Þeir fiska sem róa.[23] Fyrirtækið hélt því áfram óbreyttri en vaxandi starfsemi og fleiri viðskiptavinir bættust í hópinn. Þeirra á meðal var stór aðili á spænskum leikjamarkaði, Cirsa, og einnig var mikilvægur samningur Betware um samvinnu við fyrirtækið Microgaming.[24] 

Árið 2013 var Betware selt til austurrísku fyrirtækjasamsteypunnar Novomatic en þá voru starfsmenn hér á landi orðnir vel yfir hundrað talsins og starfsemin hér hefur haldið áfram með svipuðu sniði eftir kaupin.

Plain Vanilla og flaggskipið QuizUp

Fyrsta þekkta afurð leikjafyrirtækisins Plain Vanilla var forritið (appið) Moogies fyrir iPhone og iPad. Það komst á forsíðu netverslunar Apple og gerði það gott um hríð en þegar það hvarf af forsíðunni þá dróst salan saman. Árið 2012 voru starfsmenn Plain Vanilla sjö.[25] The Moogies var ætlaður fyrir börn á aldrinum 2–6 ára.

„Við hjá Plain Vanilla eru mjög spennt að sjá hvernig heimurinn tekur á móti The Moogies,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson framkvæmdastjóri Plain Vanilla. „Apple App Store markaðurinn er gríðarlega stór og samkeppnin er mjög hörð. Við trúum því hinsvegar að The Moogies skari fram úr í flokki tölvuleikja fyrir börn og vonumst því eftir að fá góðar móttökur.“ Á markaðnum skipta einkunnir notenda miklu máli og því viljum við hvetja Íslendinga sem prófa leikinn og hafa gaman af til þess að gefa leiknum einkunn og jafnvel umsögn.“[26]

Moogies gekk ekki sem skyldi og því var farið út í þróun á nýjum leik. Það var svo árið 2012 sem flaggskipið QuizUp kom á markað. Erlendir fjárfestar komu inn í fyrirtækið og þróun leiksins var haldið áfram af fullum krafti og var svo enn þegar sögu þessari lýkur, árið 2014.[27]

Féð verður nýtt til markaðssóknar og frekari þróunar QuizUp, sem er hugbúnaðargrunnur fyrir gerð spurningaleikja fyrir snjallsíma og önnur smátæki.

Með QuizUp geta notendur snjallsíma og tækja sem nota iOS og Android stýrikerfin mæst og keppt sín á milli í spurningarleikjum sem tengjast afmörkuðu áhugasviði, óháð tæki eða staðsetningu í heiminum. Fyrirtækið hefur gefið út fjóra leiki sem byggja á grunninum, þ.á.m. Math QuizUp og Twilight QuizUp, sem gerður var í samstarfi við framleiðendur Twilight kvikmyndanna. […]

Frá því að fyrstu QuizUp leikirnir komu út á síðasta ári hefur fjöldi notenda farið fram úr björtustu vonum og skráðu um milljón nýir notendur sig á síðasta ársfjórðungi.

„Eftir að við gáfum út fyrstu QuizUp leikina á síðasta ári sáum við hversu ótrúlega sterkum böndum fólk binst leikjunum og ekki síður öðrum notendum. Við áttuðum okkur á að hér væri tækifæri til að skapa algjörlega nýjan samskiptavettvang sem við höfum hug á að þróa áfram,“ segir Þorsteinn Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla.

„QuizUp er vettvangur þar sem fólk sem deilir sömu áhugamálum getur kynnst og átt samskipti hvar sem það er í heiminum.“[28]

Gogogic – við reyndum

Fyrirtækið Gogogic var sett á laggirnar vorið 2006. Upphaflega voru starfsmenn aðeins tveir en þremur árum síðar voru þeir orðnir sextán og starfsemin komin í gott húsnæði. Fyrirtækið hélt áfram að sinna tilfallandi vinnu meðfram því að þróa eigin vörur og stefnan sett á leikjagerð. Auglýsingaleikir voru hluti af seldri þjónustu en tengdust jafnframt því sem fyrirtækið vildi einbeita sér að. Þótt ýmsir fjárfestar telji þau fyrirtæki sem einbeita sér að þróun áhugaverðari en þau sem vinna meðfram eða að miklu leyti í öðrum verkefnum, þá eru fleiri hliðar á því máli í tilviki Gogogic eins og fram kom í umfjöllun um fyrirtækið í Tölvumálum 2009:

Sú stefna, að sinna vinnu fyrir aðra meðfram þróun, hefur agað félagið mikið. Það þurfti strax að koma sér upp grunnferlum, læra að skila af sér vinnu til notenda og halda utan um verkefni frá byrjun til enda. Þetta, ásamt því að stofnendur félagsins ákváðu snemma að stofna ekki til langtíma skulda, varð sennilega til þess að fyrirtækið gat staðið af sér versta storminn í kjölfar þess sem gerðist í íslenska viðskiptalífinu haustið 2008. Þó varð félagið fyrir talsverðum búsifjum vegna samdráttar í útseldri vinnu en aginn og fjárhagsleg seigla skilaði af sér Kreppuspilinu, sem gefið var út í desember þetta sama ár.[29]

Fyrsti stóri leikur fyrirtækisins var Vikings of Thule. Þegar mest var spiluðu 60 til 70 þúsund manns leiki frá fyrirtækinu í hverjum mánuði. Haustið 2013 var engu að síður ákveðið að hætta starfsemi Gogogic. Jónas Björgvin Antonsson lýsti löngum aðdraganda að þessari ákvörðun í viðtali við Vísi 19. september það ár:

„Flestir ráðlögðu okkur frá því að stofna til rekstrar á þessum tíma þegar uppgangurinn var hvað mestur. Og ég er ekki viss um að við hefðum hætt okkur út í þetta ef við hefðum vitað að tveimur árum síðar værum við staddir með lítið sprotafyrirtæki í brjáluðum bransa í algjöru efnahagshruni með gjaldeyrishöftum,“ segir hann.

Hann segir að það hafi fyrst og fremst verið ástríða sem hafi drifið fyrirtækið áfram og afkoma þess hafi verið með ágætum á árunum fyrir hrun. „Við reyndum þetta en þetta fór ekki eins og við vonuðumst til, þannig er lífið bara stundum og þá reynir maður bara aftur.“[30]

Margmiðlun í ferðaþjónustu

Margmiðlun hefur haldið innreið sína í ferðaþjónustu og á hvers kyns söfnum. Gerbreytt mynd blasir við gestum safna, unnt er að upplifa söfn og ferðamannastaði með nýjum hætti með margmiðlunartæki og sífellt fleiri sjá viðskiptamöguleika í því að bjóða ferðalöngum upp á sérstaka upplifun með hjálp tölvutækninnar. Þarna má nefna tæknisafnið að Skógum og Eldheima í Vestmannaeyjum svo dæmi séu tekin. Fyrirtækin Gagarín og Locatify eru meðal þeirra sem haslað hafa sér völl á þessu sviði með einhverjum hætti.[31]

Hver voru áhrif bankahrunsins á Íslandi á upplýsingatækni?

Þegar litið er á áhrif bankahrunsins á sögu upplýsingatækni er útilokað að draga upp svarthvíta mynd af því sem gerðist. Nokkur atriði koma upp í umræðum oftar en önnur: Þegar fyrirtæki, stofnanir og almenningur þurftu að spara í þrengingum var auðvelt að slá á frest kaupum á tölvubúnaði, bæði vélbúnaði og hugbúnaði. Hins vegar varð skyndilega stóraukið framboð af vel menntuðu fólki í hugbúnaðargerð, þar sem bankarnir höfðu sogað til sín mikið vinnuafl en sögðu nú upp stórum hluta starfsfólks síns. Bankarnir höfðu sprengt upp laun hugbúnaðarfólks, jafnvel í enn ríkari mæli en netbólan um árþúsundamótin, og þetta gekk að einhverju leyti til baka. Loks skipti það máli hvort fyrirtækin voru á heimamarkaði eða alþjóðlegum markaði. Gjaldeyrishöftin sem sett voru á höfðu áhrif, til dæmis lög um skilaskyldu á gjaldeyri. Þau komu einkum við fyrirtæki sem voru mest á erlendum markaði. Áhrif haftanna voru bæði mikil og flókin, bæði á þau fyrirtæki sem voru háð aðföngum frá útlöndum og einnig á þau sem seldu vörur sínar erlendis. Breytingar á gengi höfðu líka áhrif. Hin huglægu áhrif, traustið sem viðskiptavinir erlendis höfðu á vöru frá landi þar sem bankakerfið hafði hrunið, voru eitt af því sem sumir stjórnendur fyrirtækja fundu fyrir.[32]

Sala hugbúnaðar og vélbúnaðar hrynur

Innflutningur vélbúnaðar fyrstu misserin eftir hrun stöðvaðist nánast. Fyrirtæki og einstaklingar endurnýjuðu ekki hjá sér tölvubúnað á þessu tímabili. Eitt af því fáa sem hélt fyrirtækjunum á floti var sala á þjónustu.[33] Í ársskýrslum stórra fyrirtækja í hugbúnaðargerð og vélbúnaðarsölu mátti glöggt sjá að aðstæður voru erfiðar. Í ársskýrslu Nýherja fyrir árið 2009 segir meðal annars um það ár og er eflaust dæmigert fyrir flest fyrirtæki á þessu sviði:

Aðstæður á markaði einkenndust af miklum samdrætti í eftirspurn vegna minni fjárfestinga en áður í tæknibúnaði og uppsetningu hugbúnaðarkerfa. Vörusala dróst saman um tugi prósenta, reiknað í erlendri mynt og samhliða því minnkuðu verkefni tæknimanna og sérfræðinga við uppsetningu á tæknibúnaði og innleiðingu á tengdum hugbúnaði. Þrengingar í íslensku atvinnulífi valda því að fjárfesting fyrirtækja í nýjum hugbúnaðarleyfum og uppsetningu hugbúnaðarkerfa hefur verið í lágmarki, auk þess sem mikill samdráttur er í verkefnum og vinnuráðgjöf sérfræðinga í því sviði.[34]

Jákvæðu áhrifin á upplýsingatækni

Sveiflurnar í framboði á hugbúnaðarfólki á Íslandi hafa oft orðið snöggar, en þó sjaldan eins og eftir efnahagshrunið árið 2008. Þá var Hjálmar Gíslason að hugleiða að byggja upp þróunarstarf fyrirtækis síns, DataMarket, í Úkraínu, þar sem nánast útilokað var að fá þann fjölda hæfs íslensks hugbúnaðarfólks til starfa sem hann sóttist eftir. Í kjölfar hrunsins urðu miklar uppsagnir í bönkunum og skyndilega var talsverður fjöldi reynslumikils fólks á lausu og tilbúið til starfa annars staðar í hugbúnaðargeiranum. Af starfsemi DataMarket í Úkraínu varð aldrei[35] og ekki er ósennilegt að viðlíka hafi átt sér stað annars staðar á íslenska markaðnum.

Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský sér þessa þróun í víðu samhengi er hún lítur til baka með viðskiptablaði Morgunblaðsins árið 2011 í viðtali sem bar yfirskriftina „UT-geirinn styrktist við bankahrunið“:

„Upp úr kreppuárinu 2008 sjáum við […] spretta fjölda sprotafyrirtækja sem einbeita sér að hugbúnaði fyrir snjallsíma.“

Arnheiður segir þróunina árið 2008 hafa verið athygliverða fyrir margra hluta sakir. Margir hafi átt von á því versta en raunin hafi orðið sú að upplýsingatæknigeirinn styrktist ef eitthvað er. Hluta skýringarinnar segir Arnheiður að sé að leita í því að samkeppni við bankana um hæfileikafólk hafi minnkað. „Og þegar kreppa skellur á fer fólk einfaldlega að reyna að bjarga sér og finna upp eitthvað nýtt,“ segir hún.[36]

Vefiðnaðurinn og vefsöfnun

Á nýrri öld fór hugbúnaður að færast í auknum mæli yfir á vefinn. Það var því engin tilviljun að SVEF, Samtök vefiðnaðarins, fagsamtök fólks í vefþróun, voru stofnuð í desember árið 2005 og tóku þá meðal annars við því hlutverki að veita árleg vefverðlaun, sem veitt hafa verið frá árinu 2000. Fyrir var faghópur um árangursríka vefstjórnun innan Ský, sem stofnaður var árið 2004.

Um hlutverk samtakanna segir á vefsíðu þeirra:

Samtök vefiðnaðarins (SVEF) eru fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi. Samtökin hafa það að markmiði að miðla þekkingu og efla fagleg vinnubrögð í greininni, vera samræðuvettvangur félagsmanna og andlit stéttarinnar út á við.

SVEF sér árlega um framkvæmd Vefverðlaunanna, en fyrsta verðlaunaafhendingin var haldin árið 2000. Félagið stendur árlega fyrir ráðstefnunni IceWeb, sem er metnaðarfull alþjóðleg ráðstefna um vefmál, auk fjölda smærri fyrirlestra, umræðufunda og mannfagnaða fyrir félagsmenn.

Félagar í SVEF eru um þrjú hundruð og meðal þeirra er fagfólk á sviði upplýsingatækni svo sem forritarar, prófarar og vefarar, ásamt markaðsfólki, stjórnendum og hönnuðum.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir hjá Hugsmiðjunni, sem var formaður SVEF um skeið (2010–2014), segir að upphaflega hafi samtökin einkum verið virk grasrótarsamtök fólks með þekkingu á vefmálum. Hist hafi verið og spjallað saman á bjórkvöldum þar sem tveir eða þrír sáu um að fræða hina um ýmislegt sem gagnlegt var í vefmálum. Þörfin hafi verið knýjandi því litla hefðbundna menntun hafi verið hægt að sækja sér í viðmótsforritun á þessum tíma. Það hafi hins vegar lagast mjög á árunum eftir 2010 þegar ljóst var að ekki hafi verið hægt endalaust að útskrifa bara bakendaforritara úr íslenskum skólum.[37]

Vefverðlaun mæla árangur

Vefverðlaunin eru veitt í mörgum flokkum og að miklu að keppa. Þau eru því mikið aðhald fyrir fyrirtækin, jafnt þau stóru sem hin smærri, sem eiga góða möguleika í sumum flokkunum og hafa unnið til verðlauna sem tvímælalaust hafa komið þeim betur á kortið. Verðlaunin eru líka ágæt leið til að mæla árangur fyrirtækjanna frá ári til árs.[38]

Þrátt fyrir mikla samkeppni milli fyrirtækja í vefiðnaðinum er jafnframt mikið samstarf með þeim og fólk innan greinarinnar hefur verið örlátt á að miðla þekkingu sinni til annarra í sama fagi. Þetta hefur gert íslenskan vefiðnað sterkari en ella að mati Ragnheiðar H. Magnúsdóttur hjá Hugsmiðjunni.[39] 

Vefforritarar verða eftirsóttari

Flestir þeir sem starfa við hugbúnaðargerð eru sammála um að áherslan í hugbúnaðargerð hefur færst mjög mikið yfir á vefinn frá því sem áður var. Framboð á öppum, forritum fyrir símtæki og spjaldtölvur, er orðin allsráðandi en þau voru tiltölulega fátíð í hugbúnaðargerð fyrr en snjallsímarnir og spjaldtölvurnar komu til sögunnar.

Sigrún Eva Ármannsdóttir, forstöðumaður veflausnasviðs hjá Advania, hefur lengi fylgst með þróun vefmála og verið stjórnandi í fyrirtækjum sem einkum hafa verið á því sviði tölvutækni. Hún telur að mikil umskipti hafi orðið á viðhorfi til hugbúnaðarlausna á vefnum, ekki síst meðal tölvunarfræðinga, frá því kringum 2010. „Þegar maður var að ráða fólk til starfa í vefforritun um 2010 var ekki auðvelt að finna fólk með menntun á sviði tölvunarfræði, sem kunni að forrita fyrir vef. Þetta hefur breyst algjörlega, nú leggja bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík, þar sem ég hef verið að kenna, talsverða áherslu á vefforritun.“ Og hún sér fleiri breytingar: „Það sem hefur einnig breyst er að hugbúnaðarsvið bankanna eru farin að sækja í þessa þekkingu, en það gerðu þau ekki áður nema í tengslum við markaðsdeildir, sem höfðu vefsíður bankanna á sínum snærum. Lengi vel var gat í mörgum hugbúnaðardeildum hvað varðaði vefþekkingu.“ Sigrún Eva segir að hugsa þurfi högun upp á nýtt: „Flest er hægt að nálgast gegnum nettengingu, venjuleg notendaforrit á borð við Excel og Word til dæmis. JavaScript er orðin mikilvæg þekking en það brýtur hefðbundna þriggja laga hönnun.“[40] Nokkuð vanti hins vegar upp á að kaupendur hugbúnaðar geri sér grein fyrir því að það getur til að mynda verið alveg jafndýrt að setja upp vefverslun eins og venjulega búð.

Það þarf starfsfólk til að setja búðina upp, stilla upp vörum og sinna þeim. Öll bisnesslógík þarf að vera hin sama og í venjulegri búð. Það þarf að hafa bókhaldskerfi fyrir vefverslunina og sinna útstillingum og rétt eins og venjuleg búð þarf á kassakerfi að halda þá þarf sams konar afgreiðslukerfi að vera til staðar á vefverslun. [41]

Að mati Sigrúnar Evu voru stærstu tímamótin um árþúsundaskiptin þegar aðgengið að netinu var orðið almennt og tæknin hætt að vera fyrirstaða. Hún telur einnig að kringum árið 2011 hafi orðið önnur mikilvæg umskipti.

Mantran mín er sú að það hafi orðið ákveðin umskipti þá, þá var eins og allt breyttist, snjallsímarnir voru orðnir mjög öflugir og notendurnir búnir að læra á rándýru símana sína. Skyndilega var fólk komið með tölvuna sína í vasann. Og þá var upplýsingatæknigeirinn ekki alveg tilbúinn. Það tekur sinn tíma að þjálfa fólk upp í nýju umhverfi.

Það hafa orðið svo mikil umskipti, núna er hægt að vera staddur í búð, taka mynd á símann, senda hana gegnum Wi-Fi-tengingu eða 4G og spyrja fólkið heima: Hvernig líst þér á?[42]

Sigrún Eva er sannfærð um að framhald verði á yfirstandandi byltingu, fræðilega séð hafi gagnaflutningsgeta verið grundvöllur þessara umbreytinga, en afleiðingin sé verulega breytt notendahegðun. Nú sé hægt að gera allt gegnum netið, þjónustan bjóði upp á allt frá geymslu á gögnum í skýinu, í stöðluðum lausnum eins og Dropbox eða allt öðrum, til þess að sækja um fæðingarvottorð eða fara í bankann, og svo sé hægt að versla og bera sama verð. „Window-shopping hefur fengið allt aðra merkingu en áður, fólk tekur gluggarúntinn núna bara á símanum sínum.“[43]

Ragnheiður hjá Hugsmiðjunni er ánægð með að Háskólinn í Reykjavík bjóði nú upp á nám í vefforritun. „Ég held það sé kominn tími á það almennt í hugbúnaðariðnaðinum að fá fleiri tegundir af fólki til starfa, konur og karla, einstaklinga með ólíkar áherslur. Það er ef til vill annað fólk sem sækir í vefforritun en hefðbundna bakendaforritun og það sem hefur verið vinsælast til þessa. Þetta er líka spurning um ímynd fagsins. Nördaímyndin með þykku gleraugun hefur verið sterk, en kannski fer fagið að laða að sér hipsterana líka.“[44] Ari Kristinn Jónsson rektor HR er sammála því að vefforritun sé góð viðbót við valkosti í náminu í HR en segir þó að það sé mjög krefjandi að kenna fólki að þróa hugbúnað í vefumhverfi og það krefjist ekki síður góðs grunns í grunnatriðum tölvunarfræði, forritun, gagnameðhöndlun og slíku en aðrar leiðir í tölvunarfræðinámi. Þetta nám þurfi því að þróa enn frekar.[45]

Á framhaldsskólastigi er það einkum Tækniskólinn sem hefur boðið upp á nám sem tengist vefhönnun og árið 2014 var farið að undirbúa nýtt nám á vegum skólans en þá var unnið að því að bjóða upp á diplómanám á vegum skólans í vefþróun.

Vefumsjónarkerfi – hröð þróun á vefnum

Vefumsýslukerfi eða vefumsjónarkerfi (CMS – content management system) fóru að koma á markað hér á landi í þeirri mynd sem við þekkjum upp úr árþúsundamótum. Um 2005 höfðu þau náð verulegri útbreiðslu á Íslandi og tvö kerfi sem enn eru mjög útbreidd fyrir stærri viðskiptavini voru þá komin á markað, Eplica frá Hugsmiðjunni og LiSA frá INNN (síðar Eskli og Advania). Smærri fyrirtæki og jafnvel einyrkjar sjá hins vegar um þarfir þeirra sem þurfa einfaldari og umfangsminni vefi og hefur verið nokkuð mikil sátt í greininni um þetta fyrirkomulag. Nokkur fyrirtæki hafa einnig sinnt flóknari lausnum í vefumsýslu og oft með nokkurri sérhæfingu.

Stutta lýsingu á vefumsjónarkerfi má lesa í ritinu Bókin um vefinn eftir Sigurjón Ólafsson. Hann segir um vefumsjónarkerfi að þau séu:

[…] nauðsynlegt verkfæri fyrir alla vefstjóra. Kerfin gera honum auðvelt að vinna við vef án þess að hafa djúpa tækniþekkingu. Þau gera kleift að vinna með texta, setja inn greinar, fréttir skjöl og myndir. Í mörgum þeirra er boðið upp á stýringar á réttindum notenda sem og stillingar fyrir vefþjóna og leitarvélar svo fátt eitt sé nefnt.

Sá fyrirvari er þó settur að ekkert vefumsjónarkerfi er það fullkomið að engin þörf sé á lágmarksþekkingu á HTML og tækni vefsins.[46]

Vefumsjónarkerfin hafa gengið í gegnum svipuð stig þróunar og önnur fyrirtæki á hugbúnaðarsviði. Sigrún Guðjónsdóttir, sem kom til starfa hjá INNN snemma á fyrsta áratug 21. aldar, mætti til leiks með viðskiptaáætlun, sem hún vann að í átakinu FrumkvöðlaAuði. Hún lýsir fyrstu árunum hjá INNN sem kaótískum tímum, þar sem fólk var sett í sölumennsku og verkefnastjórnun án mikils fyrirvara. Forritarar unnu mestalla sína vinnu hjá viðskiptavinum úti í bæ. Hún reyndi sitt besta til að koma aðeins meiri böndum á vinnufyrirkomulagið þegar hún fékk tækifæri til þess, en hún var framkvæmdastjóri INNN í nokkur ár um miðbik fyrsta áratugar aldarinnar.[47] Þróun vörunnar, LiSA, gekk þrátt fyrir allt vel og varð aðalvara Eskils þegar fyrirtækin sameinuðust og hélt síðan áfram inn í Advania.

Ókeypis stöðluð alþjóðleg vefumsýslukerfi á borð við Joomla, Drupal og WordPress hafa í seinni tíð orðið útbreidd en íslensku vefumsýslukerfin hafa í æ ríkari mæli verið notuð í flóknari og stærri vefi, bæði vefverslanir og fyrir stærstu einka- og opinberu aðilana. Þá hefur fjöldi smærri aðila sinnt vefsmíðum og vefhönnun og sumir þróað kerfi kringum sína hönnun en aðrir boðið upp á aðstoð við að nýta ókeypis, stöðluð vefumsýslukerfi.

Á UT-vefnum er fjallað um helstu þarfir sem góð vefumsýslukerfi þurfa að uppfylla, viðmiðin eru fyrir opinber fyrirtæki og stofnanir. Þessi viðmið eru unnin út frá þarfagreiningu, aðgengismálum, notenda- og öryggissjónarmiðum.[48]

Það hefur breytt nokkuð þróun vefumhverfis hve mikill hraði er í allri þróun á vefnum. Vafrar breytast í hverjum mánuði og það þarf að hafa sig allan við að halda í við þessa þróun. Sumir hafa brugðið á það ráð að gefa út fleiri og smærri uppfærslur á vefumsýslukerfum en þörf var á fyrstu árin[49] sem þau voru á markaði hér á landi og er sú þróun alþjóðleg. Þetta krefst líka aukinnar teymisvinnu því möguleikar vefumsjónarkerfanna verða sífellt fjölbreyttari og alls konar nýrri þekkingu þarf að miðla.[50]

Vefsöfnun – að efnið á vefnum týnist ekki um aldur og ævi

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur um árabil staðið fyrir því að safnað sé saman öllum íslenskum vefsíðum sem settar eru á veraldarvefinn. Haustið 1996 hófu þrír aðilar að safna vefsíðum til varðveislu, hver á sínum forsendum. Internet Archive safnaði vefsíðum frá öllum heiminum, Þjóðbókasafn Ástralíu safnaði veftímaritum gefnum út á ástralska vefnum og Þjóðbókasafn Svía safnaði öllum sænskum vefsíðum. Framtak Svía varð til þess að þjóðbókasöfn Norðurlanda hófu haustið 1997 samstarf um þróun forrita til að safna vefsíðum, leita í söfnunum og birta vefsíðurnar. Þetta gekk erfiðlega en lagði grunninn að því að Norðurlöndin urðu 2003 stofnaðilar að alheimssamtökum um söfnun og varðveislu veraldarvefsins (International Internet Preservation Consortium IIPC – www.netpreserve.org). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur alla tíð tekið mjög virkan þátt í samtökunum bæði hvað varðar tækniþróun og stjórnun.

Skylduskil til bókasafna breyttust er núverandi lög tóku gildi árið 2003, og gera ráð fyrir því að efni á vefsíðum lúti sömu skylduskilum og önnur útgáfa. Á vef safnsins er nánar fjallað um hvernig þetta er í framkvæmd:

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þjóðbókasafn Íslendinga. Eitt meginhlutverk þjóðbókasafna er að safna til hins ýtrasta öllu efni sem út er gefið í viðkomandi landi, varðveita þetta efni til framtíðar og gera það aðgengilegt öllum sem vilja nota það til fróðleiks og rannsókna. […]

Skylduskil til Landsbókasafns ná yfir allt efni útgefið á pappír, örgögn og skyggnur, hljóðrit, stafrænt efni, efni útgefið á almennu tölvuneti og samsett efni. Skylduskil á rafrænu efni ná meðal annars yfir vefsíður, en safninu ber að safna þeim og varðveita á sama hátt og annað efni.[51]

Safnið stefnir að því að framkvæma árlega þrjár heildarsafnanir af öllum íslenska vefnum og er þá er tekið afrit af þjóðarléninu .is, en forrit eru undanskilin. Jafnhliða heildarsöfnunum er stöðugt safnað sérstökum völdum vefsíðum sem breytast ört. Helstu viðmið varðandi val á þessum vefjum eru að þeir geymi efni sem telst áhugavert í þjóðfélagslegri umræðu hér á landi, svo sem fréttaefni, stjórnmálaskrif, fregnir af menningaratburðum, tíðindi af landsbyggðinni og fleira. Þegar sérstakir merkisviðburðir eiga sér stað í þjóðfélaginu, til dæmis kosningar á landsvísu, er framkvæmd samfelld söfnun á lénum sem varða slíka viðburði, en söfnunin verður tímabundin. Til viðbótar íslenska vefnum er safnað efni sem varðar Ísland eða Íslendinga og er til á öðrum lénum en .is.[52]

Þorsteinn Hallgrímsson fyrrverandi aðstoðarlandsbókavörður hefur áhugaverða kenningu um það hvers vegna farið var að safna íslenskum vefsíðum með þeim hætti sem gert er. „Vefsöfnunin varð til út frá þessari áráttu bókasafnsfólks að missa ekki af neinu og sleppa engu. Það var mjög mikið af efni sem eingöngu var til á vefnum og þetta efni gat horfið, yrði ekki til um aldur og ævi.“ Hann telur að það hafi verið gæfa bókasafnanna á öllum Norðurlöndum að þar var framsækið fólk í forsvari, sem skildi tæknina, tölvunarfræðingar og annað tölvufólk sem vildi miðla því efni sem á boðstólum var.

Notendur geta leitað að eldri vefsíðum með því að fara inn á síðuna vefsafn.is og slá inn vefslóð ákveðinnar síðu. Þar er hægt að velja dagsetningu og sjá hvernig vefurinn leit út á þeim tíma. Þannig er tekið skjáskot af flestum vefjum á Íslandi og hægt að sjá hvernig tiltekinn vefur hefur þróast.

Í árslok 2014 var fjöldi íslenskra léna um 50.000 og vefsafnið um 60 terabæti að stærð. Þess ber að geta að þegar talað er um fjölda skjala í vefsafninu þá er átt við fjölda tilvika þar sem ákveðin slóð hefur verið heimsótt á ákveðnum tíma. Hafi sama slóðin verið heimsótt oft, sem oftast er, þá telst hver heimsókn vera sjálfstætt afrit. Venjuleg „vefsíða“ samanstendur yfirleitt af nokkrum fjölda slóða, þar sem myndir, stílsnið og fleira á síðunni hafa eigin slóðir. Þá er einnig um nokkurt magn „tæknilegra“ skjala í kerfinu, til dæmis uppflettingar á IP-tölum léna.

Tími sprota- og nýsköpunarfyrirtækjanna

Sprota- eða nýsköpunarfyrirtæki hafa verið hluti af íslenskri hugbúnaðarsögu nánast frá því hún hófst, í mismiklum mæli þó. Þá hefur hlutverk sumra þessara fyrirtækja breyst í áranna rás. Frumkvöðlafyrirtæki stofnað árið 1971 getur haft meiri einkenni nýsköpunarfyrirtækis ennþá árið 2005 heldur en nýstofnað fyrirtæki sem fæst ekki við neina nýsköpun. Dæmi er lýsing á stöðu stoðtækjafyrirtækisins Össurar frá árinu 2005. Um það leyti fór fram mikil nýsköpun á vegum fyrirtækisins en jafnframt var það að kaupa upp ýmis önnur fyrirtæki á sama sviði og var stórt og öflugt, þannig að umfang og eðli fyrirtækisins var ólíkt sprotafyrirtækjum. Engu að síður var fyrirtækið frumkvöðull í mikilli nýsköpun, bæði á hug- og vélbúnaðarsviði.[53] Marel er annað leiðandi fyrirtæki á Íslandi sem stóð fyrir mikilli nýsköpun í hug- og vélbúnaði án þess að tilheyra hug- eða vélbúnaðargeiranum. Í auglýsingu frá árinu 2011 segir: „Framsæknar tækja- og hugbúnaðarlausnir okkar byggja á hugviti, verkþekkingu og nánu samstarfi við matvælaiðnaðinn í meira en aldarfjórðung. Með stöðuga nýsköpun að leiðarljósi hefur Marel umbreyst úr sprotafyrirtæki í heimsleiðtoga á sínu sviði.“[54] Skilgreiningar hér lúta þessum fyrirvara.

Í umfjöllun um tvö hundruð áhugaverð sprotafyrirtæki á Íslandi í Frjálsri verslun sumarið 2009 er einmitt komið inn á þennan skilgreiningarvanda:

Listinn, sem var byggður á gagnagrunni Samtaka iðnaðarins og tilnefningum fjárfesta og ráðgjafa, vakti mikla athygli enda einskorðaðist umræðan um sprotafyrirtæki á Íslandi oftast um Össur, Marel og CCP. Þessi fyrirtæki hafa verið góðir fánaberar nýsköpunar og vaxtarfyrirtækja á Íslandi en geta varla talist til sprotafyrirtækja lengur. Þau eru vaxin upp úr þeim fasa.[55]

Það að hugbúnaðarfyrirtæki sé lítið og nýtt á markaðnum gerir það ekki sjálfkrafa að nýsköpunarfyrirtæki, að minnsta kosti ekki í augum fjárfesta, sem hafa augun opin fyrir slíkum fyrirtækjum. Þar getur skipt sköpum hvort fyrirtækin haldi skarpri sýn á þróun nýsköpunarhugbúnaðar og séu ekki að dreifa kröftum sínum um of í tilfallandi verkefni, sem hafa ekkert með þróun hugbúnaðarins að gera.[56]

Á lista Frjálsrar verslunar yfir hundrað áhugaverð sprotafyrirtæki sumarið 2008, rétt fyrir efnahagshrunið, er langstærsti einstaki hópur fyrirtækja á listanum hugbúnaðarfyrirtæki og mörg þeirra enn í rekstri, einhver reyndar undir nýju nafni.[57]

100sprotar
100 áhugaverðustu sprotafyrirtækin árið 2008 að mati tímaritsins Frjálsrar verslunar

Sprotar, englar og Gullegg

Fjármögnun sprotafyrirtækja hefur tekið breytingum og haustið 2008, nokkrum dögum fyrir bankahrunið, var nýr fjárfestingarsjóður, Frumtak, stofnaður og starfaði í óbreyttri mynd í rúm fjögur ár. Um svipað leyti var kynnt til sögunnar hugtakið „viðskiptaenglar“ í íslensku viðskiptalífi, en íslensk samtök þeirra, Iceland Angels, höfðu meðal annars verið til umfjöllunar í Viðskiptablaðinu í júní 2008:

Íslensku viðskiptaenglasamtökin Iceland Angels fagna komu Viðskiptasmiðjunnar. Viðskiptasmiðjan er hraðbraut nýrra fyrirtækja sem gefur [svo] frumkvöðlum kleift að stofna fyrirtæki, þróa það og prófa með aðstoð leiðbeinenda, ráðgjafa og ráðgjafarstjórna sem hafa mikla reynslu af rekstri sprotafyrirtækja og víðtæka viðskiptaþekkingu. […]

Í tilkynningu vegna þessa segir: „Það er gríðarlega mikilvægt að ný og öflugri fyrirtæki verði til á Íslandi. Íslenskir viðskiptaenglar fagna því að með tilkomu Viðskiptasmiðju Klaks og Háskólans í Reykjavík er hægt að auka fagmennsku á fyrstu skrefum fyrirtækja,“ segir talsmaður íslensku englasamtakanna, Dr. Eggert Claessen. Eggert bætir við að það er mikilvægt að „topp fólk komi að því að móta ný fyrirtæki og hjálpa til við virðissköpun. […]“

Íslensku englasamtökin Iceland Angels hófu starfsemi fyrr á árinu og eru nú sex sprotafyrirtæki í leit að fjármagni búin að skrá sig hjá samtökunum. …Uppbygging Iceland Angels er í höndum Klaks – Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.[58]

Í tímaritinu Tölvumálum 2009 er einnig ítarleg umfjöllun um sprotafyrirtæki. Júlía Pálmadóttir Sighvats segir þar meðal annars í grein sinni að nokkuð vel sé hlúð að nýsköpun á landinu um þær mundir: „Á Íslandi er margvíslegt stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun og hægt er að sækja námskeið, fá ráðgjöf og handleiðslu sem og að sækja um styrki eða annars konar fjármögnun til framkvæmdar nýsköpunar.“ [59] Annar greinarhöfundur, Andri Heiðar Kristinsson, ber í sinni umfjöllun stuðningsumhverfið á Íslandi saman við hvað gerist á heimsmælikvarða. Hann vísar til ýmissa atriða, svo sem veitingar Gulleggsins í frumkvöðlakeppni Innovit:

Ef horft er til fremstu stuðningsumhverfa nýsköpunar í heiminum s.s. hjá MIT háskóla, Stanford, í Kísildalnum og víðar þá eiga þessi svæði það sameiginlegt að ekki er byggt á miðstýrðum stuðningi til fyrirtækja – heldur fjölbreyttum aðgerðum ólíkra aðila sem frumkvöðlarnir sjálfir sjá að miklu leyti um að móta. Það er því frábært að sjá umhverfið á Íslandi vera að fara í þessa átt, en undanfarið hafa sprottið upp fjölmargir mismunandi aðilar sem vinna að þessum málum. Má t.d. nefna Hugmyndaráðuneytið, Nýsköpun.org, Viðskiptasmiðjuna hjá Klakinu, Hugmyndahús HR og Listaháskólans, frumkvöðlasetur í gömlu bönkunum og svo mætti áfram telja. Þessum fjölbreytileika þarf að viðhalda og efla.[60]

Með grein Júlíu birtist mjög forvitnilegur listi um stuðningsumhverfið sem hún vísar til.

nyskopunarfyrirtaeki
Yfirlit yfir stuðning við sprotafyrirtæki í Tölvumálum 2009[61]

Reynslusögur fulltrúa sprotafyrirtækja eru ágæt heimild um það hvernig kerfið virkar í framkvæmd. Dæmi af slíkri reynslusögu er fyrirtæki sem spratt sem afurð í námi nemanda í Háskólanum í Reykjavík og hér er stutt saga um það ferli sem fjármögnunin gekk í gegnum:

Háskólinn í Reykjavík lagði til verkefnisins hvers kyns aðstöðu, búnað og sérfræðinga, en auk þess var rannsóknarverkefnið styrkt af Rannsóknarsjóði í fimm ár. Þá tók Tækniþróunarsjóður við og styrkti sprotafyrirtækið við vöruþróunina. Því til viðbótar hafa fengist ýmsir smærri styrkir frá Nýsköpunarsjóði, Rannsóknarnámssjóði og fleiri aðilum.

[…]

Sprotafyrirtækið Eff2 Technologies er gott dæmi um hvernig öflug háskóladeild, eins og tölvunarfræðideild HR, með aðgang að rannsóknarfé gegnum samkeppnissjóði, getur orðið uppspretta kraftmikilla og mikilvægra sprotafyrirtækja. Því miður er það samt svo að styrkjakerfið er hlutfallslega of lítið á Íslandi og því eru slík dæmi, eins og áður var sagt frá, alltof fá. Þrátt fyrir að Ísland leggi hlutfallslega mikið fé til rannsókna og þróunar á alþjóðavísu, samkvæmt opinberum tölum, fer aðeins lítill hluti þess fjár til samkeppnissjóða. […]

Þessi takmörkun á rannsóknarfé í samkeppnissjóðum hefur haft þrjár meginafleiðingar gegnum tíðina, sem allar eru alvarlegar fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki. Í fyrsta lagi eru of fáir styrkir veittir á ári hverju. … Í öðru lagi eru styrkirnir alltof smáir og ná yfir of skamman tíma.[62]

Listar yfir sprotafyrirtæki voru áfram fastur liður í umfjöllun Frjálsrar verslunar um nokkurra ára skeið kringum 2010 auk annarrar og mikillar umfjöllunar um sprotafyrirtæki í blaðinu. Það var í takt við það að orðið var í margra huga lausnarorð á tíma kreppu og það endurspeglast í forsíðugrein blaðsins sumarið 2009:

Í rannsókn á sprotafyrirtækjum, sem gerð var sumarið 2009, kemur fram að mikil gróska er í íslenska sprotaumhverfinu.

Á heildina litið virðist sem sprotafyrirtækjum vegni vel á Íslandi. Það tekur að jafnaði nýtt fyrirtæki fjögur til fimm ár að ná hagnaði frá því það er stofnað, samkvæmt rannsókninni. Þetta er eðlilegur tími miðað við erlendar rannsóknir.[63]

Árið 2011 var árleg umfjöllun Frjálsrar verslunar um sprotafyrirtæki á fjörutíu síðum. Enn eru hugbúnaðarfyrirtæki áberandi en breiddin í tegundum fyrirtækja er meiri en fyrr. Það ár var í fyrsta sinn stutt umsögn um fyrirtækin hvert fyrir sig um hvað geri þau áhugaverð. Ef litið er á upplýsingatækni og tengdar greinar má sjá athugasemdir á borð við þessar:

„Hátækni húðarinnar í brjálaðri útrás“ (Orf), „Þróar flottar veflausnir fyrir tónlistariðnaðinn“ (grapewire.com), „Grafík og gervigreind mótar ævintýraheim“ (katrin-olina.com), „Bestir í bestun á birgðum“ (AGS), „Eru að taka yfir heimilisbókhaldsmarkaðinn“ (Meniga), „Vilja gera gögn að uppfræðandi upplýsingum“ (DataMarket), „Uppáhaldsstaður ferðalanga sem vilja hoppa út í heim“ (Dohop), „Myndgreiningar sem gera lögregluna margfalt skilvirkari“ (Videntifier), „Skjalastjórnun á sterum“ (Gagnavarslan) og „Eru að gera vefinn gemsagóðan … á verulegri siglingu“ (Mobilitus).[64]

Á þessu ári, 2011, voru margir farnir að líta til baka til hrunsins og umfjöllun Frjálsrar verslunar er engin undantekning:

Fyrsta sprotablaðið var gefið út korter í bankakreppu. Hugmyndin var að það gæti markað nýja tíma þar sem þjóðin gæti þá ekki lengur stólað á að þverrandi auðlindir og að kaup- og sölusamningar gætu skapað hagsæld til lengri tíma. … Kjaftshögg kreppunnar virtist eitt augnablik hafa vakið þjóðina af værum blundi. Þrátt fyrir að pappírsauðurinn hefði þurrkast út á skömmum tíma var von, jafnvel vor, í loftinu. Svigrúm var fyrir nýja hugsun og aðferðafræði. … Þremur árum síðar hefur þjóðin sjaldan verið sundraðri. Það er engin sameiginleg uppbygging í gangi, … Óvissan er enn mikil og fáir taka áhættu. …

Í ljósi þess hve sorglegt er hvað hefði verið hægt að gera, og er enn hægt að gera, er aðdáunarvert að enn sé gróska í fyrirtækjasköpun á Íslandi. Enn er hægt að finna 100 flott sprotafyrirtæki. … Þörf er á meiri nýsköpun, frumkvöðla og ný og umbreytt fyrirtæki.[65]

Sprotafyrirtæki fengu aðstöðu víðar – viðskiptasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Torgið við Austurvöll, auglýsti eftir umsóknum eftir aðstöðu og fékk sjötíu slíkar sem voru kynntar snemma árið 2009 og þar var hugbúnaður og vefir áberandi.[66] Í maí sama ár var umfjöllun um ástæður þess að sprotar væru vænlegur kostur í kreppu:

Þrátt fyrir djúpa efnahagslægð hafa sprotafyrirtæki náð góðum árangri að undanförnu. Þar ræður mestu að ráðdeild einkenndi reksturinn í eignabólunni á undanförnum árum og skuldir reynast þeim ekki fjötur um fót nú, þegar verðmæti hafa gufað upp í stórum stíl.

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins (SI), segir sprotafyrirtæki hafa meiri möguleika til þess að blómstra nú en fyrir bankahrunið. „Það hafa einkum þrjú atriði staðið í vegi fyrir frekari sókn sprotafyrirtækja. Skortur á fjármagni, erfið samkeppnisstaða varðandi starfsfólk og erfið samkeppnisstaða vegna gengisskráningar. Tvö af þessum atriðum hafa stórlega lagast, þrátt fyrir erfiðleikana í efnahagslífinu. Eftir sem áður er aðgengi að fjármagni afleitt. En flest þessara fyrirtækja hafa lært að það borgar sig ekki að skuldsetja sig á meðan uppbyggingin stendur yfir. Þau eru flest í góðum málum, með stöðugar tekjur og eru að byggja upp flókna tækni, oft einkaleyfisvarða. Þetta skapar mikil tækifæri til framtíðar og það hafa mörg fyrirtæki verið að ná eftirtektarverðum árangri að undanförnu, þrátt fyrir heimskreppuna,“ segir Davíð.[67]

Nýsköpunarmiðstöðin setti upplýsingaveituna sprotar.is í loftið í október 2012. Þar var að finna yfirlit yfir þau fyrirtæki sem skilgreind eru sem sprotafyrirtæki. Á því ári voru þau 135 talsins og tekið fram að listinn væri ekki tæmandi. Þar er líka að finna skilgreiningu á sprotafyrirtækjum sem fá inni á síðunni: Að fyrirtækin séu lítil eða meðalstór, sem reyndar á við um flest íslensk fyrirtæki, en áskilið er að þau séu íslensk og starfi á íslenskri kennitölu. Fyrirtækin starfi í nýsköpun í einhverri mynd og séu vaxandi fyrirtæki í rannsóknum og þróun eða leiðandi tæknifyrirtæki í sinni grein. Þær greinar sem eiga heima á þessum vef, sprotar.is, falla í eftirtalda flokka:

 • Afþreying – leikjatækni
 • Byggingartækni
 • Efnistækni
 • Framleiðslutækni
 • Heilbrigðistækni
 • Líftækni
 • Menntatækni
 • Nanótækni
 • Orkutækni
 • Sjávarútvegstækni
 • Umhverfistækni
 • Upplýsingatækni

Eins og sjá má er nýsköpun víðar en í tölvugeiranum en þó má gera ráð fyrir því að flestir þessir flokkar nýti sér tölvutækni.[68]

Stóru fyrirtækin á upplýsingatæknisviði 2014

Auk fjölbreyttrar flóru sprotafyrirtækja eru allmörg öflug fyrirtæki á talsvert eldri grunni starfandi á Íslandi undir lok tímabilsins sem þessi fimmtíu ára saga upplýsingatækni spannar. Flest eiga þau bakgrunn í sameiningarferli, en þó eru til dæmi um annars konar fyrirtæki, svo sem þau sem hafa vaxið eftir að hafa verið klofin frá móðurfyrirtækjum.

Hér verður stiklað á því helsta um stærstu upplýsingatæknifyrirtæki landsins um 2014, með fleiri en sjötíu starfsmenn, og greint frá síðustu stóru sameiningu upplýsingatæknifyrirtækja á tímabilinu.

Nýherji eftir 2007

Nýherji varð til á grunni IBM á Íslandi árið 1992 eins og fram hefur komið. Félagið fór á Opna tilboðsmarkaðinn árið 1995 og tveimur árum síðar á Verðbréfaþing Íslands. Það er enn sem fyrr meðal stærstu upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi og á allmörg dótturfélög bæði hér á landi og erlendis. Það eru einkum kaup sem fram fóru á árinu 2007 sem styrktu stöðu fyrirtækisins á Íslandi. Þá keypti fyrirtækið ráðandi eignarhlut í TM Software hf. og dótturfélögum þess, eMR heilbrigðislausnum ehf., Vigor ehf. og Skyggni ehf. Skyggnir og Nýherji voru sameinuð undir nafni Nýherja árið 2011 en eMR og TM Software hins vegar undir nafni TM Software. TEMPO, verkefnaumsjónar- og tímaskráningarlausn TM Software, var tekið út úr þeirri samsteypu árið 2014. Vigor og Applicon voru sameinuð undir nafni Applicon árið 2011, en Applicon í Danmörku var selt árið 2014.

Nýherji var, líkt og mörg önnur stærri fyrirtækja á íslenskum upplýsingatæknimarkaði, virkur gerandi í þeim umskiptum sem orðið hafa hjá upplýsingatæknifyrirtækjum.[69] Fyrirtækið vinnur að alhliða þjónustu í upplýsingatækni og er skráð í Kauphöllinni (2014).

Breytingar á eignarhaldi í aðdraganda sameininga og uppskipta

Advania varð til eftir umfangsmikið sameiningarferli sem fór fram á árunum 2009–2010 og lyktaði þannig að stórt fyrirtæki varð til, fyrst undir hinu gamalkunna nafni Skýrr. Ýmsar eignabreytingar, sumar eldri en aðrar nýrri, urðu í aðdraganda þessarar sameiningar. Hér verða raktar nokkrar þeirra.

Hluthafafundur Símans í árslok 2005 hafði þá samþykkt að Skipti og Íslenska sjónvarpsfélagið rynnu inn í samstæðu Símans og hafði nú augastað á því að ná undirtökunum í Kögun, en Síminn var síður en svo einn um hituna og varð að lokum undir. Framvindan var nokkuð flókin. Árið 2004 keypti Kögun Opin Kerfi Group og þar með Skýrr og EJS og frá áramótum 2005 var fyrirtækið undir nafni Kögunar.

Þótt vöxtur Kögunar […] sem hafði frá aldamótum sameinað fjölda fyrirtækja í upplýsingaiðnaði og hugbúnaðargerð á Íslandi, […] hafi verið mikill á árinu 2004 var ævintýraleg útþensla Kögunar með yfirtökum á erlendum fyrirtækjum rétt byrjuð. Í febrúar 2006 keypti Síminn 27% í Kögun og í mars keypti Exista 10%. Þegar kom að aðalfundi Kögunar áttu Síminn og Exista samtals 39%. Straumur - Burðarás og stjórnendur Kögunar sem áttu 56% atkvæða stóðu hins vegar saman gegn Exista og Símanum og skömmu eftir aðalfundinn keypti Skoðun, dótturfélag Dagsbrúnar, fjárfestingarfélag á vegum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hlutabréf Kögunar af Straumi og stjórnendum félagsins alls 51% og gerði í framhaldi öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Kaupin voru skuldsett, fjármögnuð með lánsfé og útgáfu nýs hlutafjár í Dagsbrún. Í maí var Kögun skráð úr Kauphöllinni.[70]

Á bak við þessa sögu voru fleiri atburðir. Fljótlega eftir yfirtöku Kögunar á Opin Kerfi Group voru gerðar breytingar á Skýrr og hópur fólks hætti hjá Skýrr og réði sig til Símans.

Frá Skýrr til Advania

Þórólfur Árnason tók við stjórnartaumum í Skýrr árið 2006 og var þar til ársins 2009 þegar miklar breytingar urðu, í einni stærstu sameiningu sem orðið hefur á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Í þeim áfanga sameiningarferlisins voru einnig fleiri upplýsingatæknifélög.[71] Svofelld fréttatilkynning var gefin út af því tilefni:

Eskill, Kögun, Landsteinar Strengur og Skýrr hafa verið sameinuð í eitt fyrirtæki, sem mun starfa undir nafni þess síðastnefnda. […]

Sameining fyrirtækjanna undir nafni Skýrr var tilkynnt starfsfólki á hádegisfundi nú í dag, miðvikudaginn 18. nóvember, og tekur gildi nú þegar. Starfsfólk sameinaðs fyrirtækis er um 320 talsins og áætlaðar tekjur 2009 eru tæplega 5 milljarðar króna.[72]

Sameiningin kom í kjölfar bankakreppunnar og efnahagshrunsins og kom sumum stjórnendum ekkert sérlega á óvart, þótt þeir hafi ekki allir verið með í að undirbúa og skipuleggja ferlið frá upphafi.[73] EJS bættist í hópinn um það bil ári síðar og var starfsmannafjöldi hins sameinaða fyrirtækis þá orðinn um 470. Skýrr keypti Thor Data Center í nóvember 2011. Í kjölfarið fylgdi stækkun gagnaversins og kaup á ofurtölvu til vísindarannsókna á Norðurlöndum.

Stofnanir sem hafa yfirumsjón með háhraðatölvum til vísindarannsókna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi hafa í sameiningu fjárfest og gangsett nýstárlega háhraðatölvu á Íslandi, sem hýst er í gagnaverinu Advania Thor Data Center í Hafnarfirði. Nýnæmið við þessa ofurtölvu felst í hugmyndinni, staðsetningunni og rekstri tölvunnar, frekar en í tækninni. Umræddur tölvubúnaður er frá HP og Opnum kerfum.

Í byrjun árs 2012 var fyrirtækinu valið nýtt nafn, Advania, og undir því nafni sameinuðust Skýrr, HugurAX og norræn dótturfyrirtæki. Þá var Advania orðið eitt stærsta upplýsingatæknifyrirtæki Norðurlanda með 1100 starfsmenn í fjórum löndum, þar af um 600 á Íslandi.[74]

Nýir eigendur, sænska félagið AdvInvest AB, keypti hlutafé Framtakssjóðs Íslands í Advania um mitt ár 2014.

Opin kerfi aftur til stofnandans 2007

Ekki urðu þó öll fyrirtækin í þessari samsteypu hluti af þeirri stóru sameiningu sem lyktaði með því að Advania varð til. Síðla árs 2007 keypti OK2, eignarhaldsfélag í eigu Frosta Bergssonar, Opin kerfi ehf. af Opin Kerfi Group hf. Fyrirtækið var sameinað upplýsingatæknifyrirtækinu Titan ehf. í mars 2008, en eigendatengsl voru milli félaganna. Er Titan hóf starfsemi árið 2006 voru það Frosti Bergsson, starfsmenn frá Opnum kerfum og Síminn hf. sem komu að því og áttu hver um sig þriðjungshlut.[75]

Í frétt um fyrirtækið frá því í september það ár segir:

Frosti Bergsson, fyrrum stjórnarformaður Opinna kerfa, og Síminn hf. hafa gengið til liðs við upplýsingatæknifyrirtækið Titan ehf., sem tekur til starfa á næstum vikum og ætlar sér stóra hluti á upplýsingamarkaði.

Titan mun í fyrstu einbeita sér að söluráðgjöf á miðlægum lausnum fyrir stærri fyrirtæki […][76]

Saga Opinna kerfa frá þeim tíma hefur verið viðburðarík, áherslan var áfram lögð á sölu vélbúnaðar en einnig fetað nýja stigu. Einna stærsta skrefið var árið 2012 með samstarfi Opinna kerfa og Verne Global. Verne opnaði eitt fullkomnasta gagnaver heims að Ásbrú í Reykjanesbæ. Þetta olli nokkrum breytingum á starfsemi Opinna kerfa eins og greint var frá á vef fyrirtækisins:

Samsetning viðskiptavina fyrirtækisins hefur tekið nokkrum breytingum síðustu misseri og þar hefur samstarfið við Verne Global aukið vægi þjónustu við erlenda viðskiptavini […] og má þar nefna stórfyrirtækið BMW. Starfsemin í gagnaverinu og umfang þessa hluta rekstrarins er af áður óþekktum skala hérlendis hvað varðar reiknigetu, afköst og geymslupláss.[77]

Stærsti viðskiptavinurinn í þessari samvinnu er þýski bifreiðaframleiðandinn BMW. Fyrirtækin hafa þurft að sanna sig gagnvart þessum kröfuharða viðskiptavini, sem vill fá allt vottað í samræmi við ISO-staðla og gerir miklar kröfur varðandi skjölun og prófanir, meðal annars gagnvart gagnaflutningi um FarIce-strenginn. „Vinnubrögð þeirra eru til fyrirmyndar og góður prófsteinn á okkar vinnu og tækjabúnað.“[78]

LS Retail – seldi Microsoft AX-hugbúnaðarlausnina

Fyrirtækið LS Retail varð hluti af ALMC árið 2009 þegar allar eigur gamla Straums-Burðaráss fóru í nýja félagið í kjölfar nauðasamninga. Fyrirtækið á rætur sínar í Landsteinum-Streng (LS-hluti nafnsins er arfur frá því) og stærsti hluti hugbúnaðarframleiðslu fyrirtækisins eru viðbætur fyrir smásöluverslun og veitingarekstur, byggðar ofan á viðskiptahugbúnaðinn Microsoft Dynamics NAV (með rætur í Navision). Fyrirtækið seldi LS Retail AX-hugbúnaðarlausn sína til Microsoft árið 2009[79] og hefur auk þess þróað eigin hugbúnaðarlausn fyrir smærri smásölufyrirtæki.

Markaður fyrirtækisins hefur lengi verið að mestu leyti erlendis en fyrirtækið hefur selt lausnir sínar til samstarfsaðila víða um heim og hefur sterka stöðu á sínu sviði á ýmsum fjarlægum mörkuðum, meðal annars er fyrirtækið með skrifstofu í Bandaríkjunum og Dúbaí, en sú síðarnefnda var opnuð kringum áramótin 2013–2014:

LS Retail hefur náð mjög góðri fótfestu í þessum heimshluta og hefur í hyggju að auka útbreiðslu hugbúnaðar síns fyrir verslanir, veitingarekstur og snjalltæki,“ segir Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, […]. „Meira en helmingur smásöluverslana í Miðausturlöndum notar nú þegar lausnir frá LS Retail og við höfum þannig tekið þátt í uppgangi Dubai í alþjóðasamhengi og hyggjumst styrkja stöðu okkar til framtíðar með þessari skrifstofu.[80]

Lengst af hefur sala til samstarfsaðila, sem löguðu lausnir LS Retail að kröfum á sínu svæði, verið ráðandi mynstur í starfsemi fyrirtækisins.

Meniga – stórt nýsköpunarfyrirtæki

Meniga er nýtt fyrirtæki og ekki með rætur í eldri fyrirtækjum. Það var enn á lista vefsins sprotar.is fimm árum eftir stofnun þess snemma árs 2009 en var þó orðið æði stórt með hátt í hundrað manns í vinnu og veltu upp á milljarð árið 2014. Þroskað nýsköpunarfyrirtæki[81] frekar en sprotafyrirtæki að mati Georgs Lúðvíkssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins. [82] Nýsköpun Meninga er á sviði heimilisfjármála og það er einnig að feta sig í áttina að markaðs- og greiningarvinnu á fjármálasviði.

Nokkuð vel hefur gengið að fá fjárfesta að fyrirtækinu og var staðan árið 2015 að mati Georgs gerbreytt frá því um árþúsundamótin, en um það leyti stofnaði hann fyrsta nýsköpunarfyrirtækið sem hann kom að, Dímon. Fagfjárfestar hafa komið til sögunnar, en áður voru það fyrirtæki í öðrum rekstri, Síminn, Flugleiðir, Eimskip og fleiri aðilar sem voru umsvifamiklir í fjárfestingum, auk örfárra sjóða. Þessi mikla breyting hefur verið til hins betra að mati Georgs. Þegar fyrirtækið var stofnað var talsvert framboð af vel menntuðu fólki á sviði hugbúnaðargerðar og það sem kom Meniga einkar vel var að margt af því fólki sem kom frá bönkunum hafði talsverða þekkingu á starfsemi og innviðum bankanna. Um 90% af innkomu fyrirtækisins eru vegna erlendra viðskipta en auk íslensku bankanna þriggja eru vel yfir tuttugu bankar í Evrópu og víðar um heim að nota hugbúnað frá Meniga. Hinn hraði vöxtur fyrirtækisins er engin tilviljun, stofnendurnir ætluðu sér að ná þeim árangri enda er hraður vöxtur stærsti einstaki áhrifavaldurinn í velgengni nýsköpunarfyrirtækja.[83] Þótt bankamarkaðurinn sé í eðli sínu hægur og íhaldssamur er yfirleitt hægt að reikna með föstum viðskiptum áfram þegar ísinn hefur verið brotinn.

Önnur stór fyrirtæki

Leikjafyrirtækin CCP og Novomatic (áður Betware) falla bæði í þennan hóp, en þegar hefur verið fjallað nokkuð um þau. Þá er starfsmannafjöldi Reiknistofu bankanna einnig vel yfir sjötíu. Loks má nefna stórar tölvudeildir fyrirtækja og þá ekki síst bankanna, sem voru aftur farnir að ná til sín starfsmönnum í hugbúnaðargeiranum þegar kom fram á árið 2014, rétt eins og fyrir bankahrunið. Flest ríkisfyrirtæki eru komin aftur með eigin tölvudeildir, eftir samdrátt á árunum eftir efnahagshrunið 2008. 

Tölvutæknin ekki aðeins á skrifborðinu

Spjaldtölvur og lesbretti

Spjaldtölvur eru engin ný bóla, en vinsældir þeirra urðu þó ekki umtalsverðar fyrr en um og upp úr árinu 2010 með tilkomu iPad. Síðan hafa þær slegið í gegn í ýmsum útfærslum og frá mörgum framleiðendum. Nokkrum árum fyrr komu lestölvurnar (lesbretti) til sögunnar, sú fyrsta frá Sony 2004. Útbreiddust þeirra er Kindle frá Amazon sem kom fram árið 2007. Sony-lestölvan hélt velli en bæði Kindle og Nook frá Barnes & Noble bókabúðunum skutust fram fyrir hana í vinsældum.

Saga spjaldtölvanna er þó ögn eldri. Ein fyrsta spjaldtölvan er talin vera Newton MessagePad 100 frá árinu 1993, sem var, eins og iPad-inn síðar, frá Apple. Framleiðslu hennar var hætt fimm árum síðar, 1998. Tími spjaldtölvunnar var ekki runninn upp.

Orðrómur hafði verið um að slík vara væri á leiðinni er iPad-inn kom á markað í Bandaríkjunum í janúar 2010. Útbreiðslan um allan heim var hafin og iPad-inn oft fréttaefni. Til að mynda segir í frétt í Morgunblaðinu 26. apríl að Bretar séu að búa sig undir að fá iPad á sinn markað og þykir það tíðindum sæta.[84]

Um leið og spjaldtölvan iPad kom á markað í Evrópu fór umfjöllun um hana að aukast í íslenskum fjölmiðlum. Skortur á samhæfingu við Flash frá Adobe í fyrstu útgáfum iPad var gagnrýndur í dómi um tölvuna hjá rýnanda Fréttablaðsins. [85] Síðar varð það minna atriði og fundnar voru leiðir fyrir þá sem enn vildu geta notað Flash. Í mati á spjaldtölvunni var horft um margt á aðra þætti en þá sem nú þykja mikilvægastir. Rýnandi Fréttablaðsins telur einn helsta kost hennar vera þann að hún henti vel til lesturs bóka og tímarita. Hann nefnir líka netráp og tölvupóstskrif, Facebook-stöðuskrif og „annað lítilræði“. Hins vegar telur hann skorta á samkeyrslu nokkurra forrita og að lyklaborð sé nauðsynlegt fyrir meiri vinnslu. Kvikmyndir og tónlist megi kaupa og leigja á iTunes, þrátt fyrir að þetta sé fremur dýr þjónusta.[86]

20120920 114211
Menntavísindafólk framtíðarinnar að læra að nýta sér spjaldtölvur í starfi sínu. Framhaldsnemar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands í menntabúðum haustið 2012 á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun. Á myndinni sjást frá vinstri til hægri Ingibjörg Anna Arnarsdóttir, Hugrún Elísdóttir, Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, Berglind S. Harðardóttir, Hildur Heimisdóttir og Bryndís Steina Friðgeirsdóttir. Nýtt spjaldtölvusett sem keypt hafði verið við Menntavísindasvið var tekið í gagnið við þetta tækifæri.

Lestölvurnar eða lesbrettin, sem komu á markað aðeins fyrr, voru allt annars konar tæki. Þær voru eingöngu ætlaðar til lestrar rafbóka og tímarita. Mörg tímarit buðu upp á áskriftir fyrir lestölvur og Kindle, sem varð fljótlega þeirra útbreiddust, var framleidd fyrir bóksöluvefinn Amazon og bauð upp á gríðarlegan fjölda titla. Þær voru með svarthvítum skjá og augljóslega verið að líkja eftir bókum í stærð og letri. Þessi einfaldleiki varð líka til þess að hægt var að bjóða upp á rafhlöðuendingu í allt að mánuð, með hóflegri notkun og stuttum tengitíma við netið.

Rafbækur á netinu – fyrstu íslensku tilraunirnar

Skammt var öfganna á milli í umræðu hérlendis að minnsta kosti um það hvort lestölvurnar myndu ganga af bókum dauðum. Sumir spáðu því að svo yrði en aðrir voru ósammála og töldu að bækur myndu halda velli. Þeir sem höfðu reynt að lesa bækur á tiltölulega þungum fartölvum áranna kringum 2010 töldu að spjald- og lestölvurnar myndu breyta miklu. „Þrátt fyrir mýgrút af lesefni á Netinu hef ég aldrei enst heilan kafla í tölvu – ef frá er talið sýnishorn síðustu bókar rithöfundarins Dan Brown á rafrænu formi, […] [meira] af forvitni en áhuga. Þreytan yfir leiðitömu efni og þungi fartölvunnar í kjöltunni sagði fljótt til sín.“ Þetta segir rýnandi Fréttablaðsins og bendir á að öðru máli gegni um lestur bóka á iPad, þrátt fyrir of hátt verð bóka fyrir tækið. Hann nefnir að vísu Kindle-lestölvuna til sögunnar en hefur ekki prófað hana[87] og var ekki sá eini sem virtist á því að iPad frekar en Kindle yrði ofan á við bóklestur. Edda útgáfa gerði samning við Apple um dreifingu á rafrænum bókum á árinu 2010.[88]

Notkun spjaldtölva í skólum vakti snemma áhuga skólafólks og ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að útbúa íslenskt kennsluefni fyrir slíkar tölvur. Vogaskóli var líklega fyrstur íslenskra skóla til að kaupa Kindle fyrir hóp nemenda sína og var það tilraunaverkefni sem fór í gang veturinn 2011–2012. Kanna átti hvort tækið ýtti undir lesáhugann og svo þótti mikill kostur að tækið kæmi í staðinn fyrir þungan bókastafla. [89] Gagnrýnt hefur þó verið að allt viðmót flestra lestölva er á ensku. Samtök blindra og sjónskertra bentu einnig á að notkun slíkra tölva væri brot á jafnrétti til náms því þær nýttust aðeins sjáandi. 

Rafbækur hafa verið að skjóta upp kollinum á almennum markaði á Íslandi og hafa bæði bóksalar og forlög hugað að þessu en þróunin hefur verið hæg. Eymundsson fór að selja rafbækur haustið 2011 en í fyrstu aðeins erlenda titla. Bókatíðindi byrjuðu að auglýsa íslenskar rafbækur árið 2012 og voru þá 94 titlar í boði en fækkaði nokkuð tvö næstu árin.[90]

Snjallsímar, DoCoMo í Japan og iPhone úti um allt

Snjallsímar hafa á örfáum árum orðið að þeim öflugu tölvum sem flestir bera með sér í vasanum og grípa til þegar þeim hentar. Stundum er tengingin gegnum þráðlaust net, Wi-Fi, en stundum gegnum símann sjálfan með 3G eða 4G.

Fyrsti snjallsíminn til að ná almennri útbreiðslu var DoCoMo, japanskur snjallsími sem varð mjög vinsæll þar í landi kringum árþúsundamótin, en náði ekki útbreiðslu utan Japans. Líklega er það BlackBerry-síminn sem komst næst því að vera fyrirboði þess sem koma skyldi á árinu 2003, en snjallsímabyltingin hófst fyrir alvöru með tilkomu iPhone um mitt ár 2007 og um svipað leyti voru keppinautar tilbúnir með sínar útfærslur.

Snjallsímarnir þróuðust hratt í að geta það sama eða meira en margar almenningstölvur og þannig var staðan árið 2014. Stærstu tölvur landsins fyrstu áratugi upplýsingatækni á Íslandi höfðu minni vinnslugetu en símar nútímans. En geta hinna ljúfu risa, tölva fyrri tíma, var nýtt með slíkri útsjónarsemi og hugmyndaauðgi að ósennilegt er að snjallsímarnir gætu fetað í öll fótspor þeirra. Einkum ef litið er til þeirra margvíslegu verkefna sem þær leystu. Hlutverkið er líka ólíkt, snjallsímarnir eru vissulega til gagns fyrir hvern og einn notanda en ekki síður til gamans og afþreyingar. Tölvuvæðing fyrri ára hafði hins vegar oftast þann tilgang að leysa flókin viðfangsefni, sem ekki var kostur á að leysa fyrr. Umfang úrlausnarefnanna og flækjustig, svo og sá hraði sem fékkst með tilkomu tölvanna, var einfaldlega bylting í starfi fyrirtækja, stofnana, opinberra aðila og einstaklinga. Bylting ólík öðrum byltingum.

Snjallsímarnir hafa breytt tölvunotkun og aðgangi að upplýsingum á þann hátt að erfitt er að hugsa sér heim án þeirra og dómur sögunnar mun ákvarða hvort þessar byltingar eru hliðstæðar.

Hátæknisímar sem komu á undan eiginlegum snjallsímum þóttu ekki endilega mjög aðlaðandi kostur. Tveimur árum áður en iPhone kom á markaðinn frá Apple sendi fyrirtækið einmitt frá sér hátæknisíma. Þá var ritaður pistill í Tímarit Morgunblaðsins, og endurspeglar kannski tíðaranda þessa tíma, ársins 2005.

Ég á síma sem er þeim kostum búinn að hægt er að taka á honum ljósmyndir og hreyfimyndir, taka upp hljóð og spila mp3-skrár, senda margmiðlunarskeyti, lesa gögn þráðlaust í og úr tölvu, samstilla dagbók og heimilisfangaskrá, skrifa niður minnipunkta, spila leiki, lesa WAP-síður, senda SMS-skeyti og lesa vefsíður, svo fátt eitt sé talið, en hann er reyndar orðinn gamall og því ekki mjög fullkominn. Já, og meðan ég man; það er líka hægt að hringja úr honum. […]

Þarfaþing eða tískuvarningur? Þegar fyrstu farsímarnir komu á markað fyrir rúmum tveimur áratugum var aðalkosturinn við þá að hægt var að nota þá til að hringja nánast hvar sem maður var staddur. […] með tímanum hafa farsímar breyst úr því að vera þarfaþing í að vera tískuvarningur og veigamikið stöðutákn fyrir yngra fólk […] Aðrir markhópar hafa aftur á móti eiginlega setið á hakanum, til að mynda eldra fólk, en þeir eru líka fjölmargir meðal yngra fólks sem engan áhuga hafa á flóknum hátæknisímum - þeir vilja bara síma til að hringja og senda SMS-skeyti.[91]

Svarið við þessum vangaveltum margra var að framleiða síma sem voru einfaldir og sumir báru einfaldleikann í nafninu, svo sem síminn Simply. Þetta voru einfaldir símar sem buðu upp á fáar aðgerðir. Um útbreiðslu þeirra fer fáum sögum því fljótlega lá í loftinu að snjallsímarnir myndu taka yfir markaðinn en umfjöllun um þessa síma afhjúpar margs konar vangaveltur sem enn eimir eftir af:

Annað sem ýmsir hafa átt erfitt með að sætta sig við er hve farsímar hafa minnkað og þá um leið lyklaborð þeirra og skjáir. Simply-símarnir eru aftur á móti stærri en gengur og gerist og lyklaborðið því stærra líka. Símanum er líka stjórnað að mestu með hnöppum á tólinu sjálfu, til dæmis þarf ekki að fara í sérstaka valmynd til að lækka í símanum eða læra takkarunu - á símanum er einfaldlega hnappur til að hækka og lækka í hringingunni. Á símanum er líka hnappur til að læsa lyklaborðinu, þegar rafhlaða hans er við það að tæmast blikka á skjánum boð um að hlaða þurfi símann, ljós blikkar á símanum þegar SMS-skeyti hefur borist og honum fylgir kví til að geyma hann í og hlaða líkt og með þráðlausan heimilissíma.[92]

iPhone frá Apple kom á markaðinn í júní 2007 og notaði stýrikerfið iOS. Árið eftir komu á markaðinn símar með öðru stýrikerfi, Android, sem einnig náðu mikilli útbreiðslu og Windows-símar eru einnig í hópi þeirra sem eru áberandi á markaðnum í lok þess tímabils sem þessi saga greinir frá, 2014–2015.

Möguleikar snjallsímanna eru miklir, ekki síst í hugbúnaðargerð. Innlendur eða aðlagaður hugbúnaður, aðallega smáforrit (öpp), er til fyrir margs konar þjónustu svo sem bankaþjónustu, greiðslur fyrir vörur og þjónustu og leiki, og er þá fátt eitt nefnt. 

Útbreiðsla snjallsíma hefur verið ævintýraleg. Í umfjöllun Margrétar Rósar Einarsdóttur í tímaritinu Tölvumál var staðan tekin árið 2014. Í greininni er góð úttekt á því hver staða snjallsíma var orðin og spáð í framtíðina.   

Eru snjalltækin að taka yfir heiminn? Það er ekki að furða að þessari spurningu sé velt upp, þar sem 45% aukning var á notkun snjallsímtækja árið 2014. […]

Með tilkomu þráðlausra tækja á borð við snjallsíma og spjaldtölva hafa möguleikar notenda í fjarskiptatækni gjörbreyst. Umrædd tæki eru í raun alhliða samskiptatæki […] nýtast allt í senn sem sími, tölva, myndavél, myndbandstæki, staðsetningartæki, tónlistarspilari o.fl. Tækin gera notendum kleift að gera nánast hvað sem er óháð staðsetningu. …

… neytendahegðun fólks á Netinu [er] búin að taka mjög hröðum breytingum. Fólk er ekki lengur háð því að tengjast Netinu í gegnum gömlu góðu borðtölvuna. Með tækjum eins og snjallsímum og spjaldtölvum er fólki nú til dags kleift að sækja sér stafrænt efni og upplýsingar eða sinna helstu erindum nánast hvar sem er og hvenær sem er.[93]

Allir á samfélagsmiðlana

Það var ekki fyrr en á vordögum 2015, rétt eftir að það tímabil sem er viðfang þessarar sögu var liðið, að gerð var marktæk könnun á notkun Íslendinga á samskiptamiðlum. Gallup gerði könnunina og vakti það undrun margra þegar í ljós kom að sambærileg könnun hafði ekki verið gerð fyrr.

„Þetta er fyrsta mælingin á notkun Íslendinga á samfélagsmiðlum. Það hefur aldrei verið almennilega skoðað hversu vinsælt Facebook er á Íslandi, hvað þá hinir samfélagsmiðlanir,“ segir Andri Már Kristinsson, sérfræðingur í markaðsmálum á netinu hjá Landsbankanum.[94]

gallup
Notendur samfélagsmiðla, skipting samkvæmt gögnum frá Gallup, tölur birtar í Nútímanum í ársbyrjun 2015.[95]

Þar af leiðandi verður hér notast við þessa könnun þótt hún hafi strangt til tekið komið nokkrum mánuðum of seint til að passa inn í tímaramma sögunnar. Nútíminn birti myndrænt yfirlit yfir niðurstöður könnunarinnar byggt á gögnum frá Gallup og sýnir það glöggt hversu stór hluti þjóðarinnar notaði þessa miðla.

Snapchat og Instagram, hvort tveggja nýrri miðlar en Facebook, raðast í annað og þriðja sætið og það er ekki fyrr en í fjórða og fimmta sæti sem samfélagsmiðlar ögn eldri í hettunni komast að. Twitter hafði ekki náð sömu útbreiðslu hér á landi og víða annars staðar. Þessir þrír eldri samfélagsmiðlar tilheyra tímanum fyrir 2014, en Snapchat er einungis skoðað lítillega í samhengi við Twitter. LinkedIn hefur nokkra sérstöðu og er meira notað í tengslum við vinnumarkaðinn; fólk og fyrirtæki nota vefinn til að kynna sig og fylgjast með félögum sínum og fyrirtækjum.

Raunar höfðu áður verið gerðar kannanir á samfélagsmiðlum, en þá í markaðsskyni, til að kanna hverjir þeirra væru útbreiddastir á Íslandi, meðal annars könnun fyrir matvælaframleiðandann Kellogg’s sem vefmarkaðsstofan Hálendið gerði haustið 2013. Niðurstöðurnar varðandi Facebook voru svipaðar, en þá var það Instagram sem var í öðru sæti og Snapchat að taka flugið. Þótt þessi könnun sé ólík hinni fyrri er áhugavert að skoða aðeins þær upplýsingar sem mátti lesa í fréttatilkynningu um könnunina:

In­sta­gram er næst vin­sæl­asti sam­fé­lags­miðill Íslend­inga. Face­book trón­ir sem fyrr á toppn­um, seg­ir í frétta­til­kynn­ingu.

„Twitter, sam­skiptamiðill sem bygg­ir á stutt­um texta­skila­boðum og hef­ur náð mikl­um vin­sæld­um víða um heim, hef­ur ekki slegið jafn dug­lega í gegn hér á landi. […]

Í könn­unni var einnig spurt um viðhorf fólks til ým­issa sam­skiptamiðla. 81% sögðu að Face­book og Insta­gram væri góð leið til að miðla eig­in lífi. 82% sögðu að notk­un þess­ara tveggja sam­skiptamiðla skapi aukna nánd í sam­skipt­um við vini og ætt­ingja. 77% sögðu þá vera góða leið til að mynda ný tengsl og 94% sögðu þá nýt­ast við að viðhalda tengsl­um. 35% segja þessa tvo sam­skiptamiðla vera hent­ugt hjálp­ar­tæki í maka­leit.[96]

Fleiri en fólk í makaleit og markaðsmenn hafa áhuga á samfélagsmiðlunum. Alls kyns hópar og starfsstéttir nýta þá. Forvitnilegt er að skoða umræðu frá Læknadögum sem haldnir voru rétt upp úr áramótum 2014–2015. „Læknar mega ekki vera of varkárir gagnvart netinu, við þurfum að vera til staðar,“ er haft eftir Davíð B. Þórissyni bráðalækni í Pressunni í tilefni af erindi sem hann hélt um málefnið:

Davíð segir marga þekkja hinn svokallaða Google-sjúkling; þann sem finnur fyrir sjúkdómseinkennum og sjúkdómsgreinir sjálfan sig í kjölfarið með hjálp netsins. Þá fari margir og leiti ráða í hópum á Facebook eða á síðum á borð við bland.is og fái þar misgóð ráð frá fólki sem hafi aldrei lært læknisfræði. „Þessir einstaklingar verða alltaf til staðar og þess vegna þurfum við að vera þetta Google fyrir sjúklingana,“ segir Davíð.

Hann segir samfélagsmiðlana geta verið einfalt en jafnframt öflugt tæki fyrir lækna til að miðla upplýsingum bæði til einstaklinga og almennings. […] Þetta spari læknum tíma og veiti bæði læknum og sjúklingum öryggi. Sjúklingurinn verður ekki eins háður lækninum.[97]

Í þessari umræðu meðal lækna var áhersla á að fara ekki yfir mörkin með tilliti til laga og siðareglna lækna. En engu að síður tóku fleiri undir með Davíð og Jón Snædal öldrunarlæknir sagði: „Það er skynsamlegra að nota þá [samfélagsmiðlana] en forðast þá. Þessi miðlar gefa okkur meira tækifæri til dreifingar á upplýsingum en nokkru sinni áður.“[98]

Facebook: 89% útbreiðsla á Íslandi upp úr 2014

Facebook hefur verið í sókn frá því það kom fyrst fram og Ísland er ekki aðeins á sama róli og önnur lönd, heldur hefur Facebook náð að verða miðill þorra þjóðarinnar, þvert á alla aldurshópa. Væntanlega hefur það gerst smátt og smátt og þau 89% þjóðarinnar sem voru á Facebook 2015 hafa ekki verið þar frá upphafi. 

Markaðssetning á Facebook er alltaf að verða umfangsmeiri og ekki alltaf skynsamlega notuð eins og Andri Már Kristinsson fjallaði um í tengslum við könnun Gallup á samfélagsmiðlum:

[…] minntist Andri á svokallaða Like-leiki á Facebook þar sem fólk þarf að „læka“ ákveðnar síður fyrirtækja til þess að eiga möguleika á að fá vinning. […]

„Fyrirtæki eru að fara ansi ódýra leið í því að afla sér vinsælda. […] Þau eru ekki að fá einstaklinga til að fylgja þeim vegna áhuga á fyrirtækinu, heldur bara til að vinna verðlaun. Fyrirtæki þurfa að horfa til lengri tíma til að koma á innihaldsríku sambandi, svo að fólk hafi áhuga á því sem þau hafa að segja.“[99]

YouTube og Myspace – mikil tónlist, margt fleira

Skemmtimiðlar á netinu voru ekki raunhæf hugmynd í upphafi veraldarvefsins. Til þess var gagnaflutningur alltof hægur og bæði vinnslu- og geymsluminni tölva alltof lítið. En fólk sá í hillingum að í framtíðinni yrði unnt að spila tónlist og horfa á kvikmyndir og sjónvarpsefni á netinu. Snemma á 21. öldinni var farið að undirbúa ýmsar leiðir til að miðla skemmtiefni og einhverjum fróðleik í bland gegnum netið umfram það sem gerðist þegar fólk skiptist á mynd- og hljóðskrám gegnum tölvupóst, ef póstveitan leyfði svo stórar sendingar, eða gegnum irkið.

Það voru þrír fyrrum starfsmenn greiðslumiðlunarinnar PayPal sem skópu YouTube, sem var opnað fyrir upphleðslu efnis í febrúar 2005. Rétt rúmu ári fyrr höfðu tveir félagar í Los Angeles opnað Myspace-vefsvæðið, sem hafði einkenni bæði YouTube og Facebook. Þessar tvær leiðir í að miðla efni voru í eðli sínu nokkuð ólíkar. Á Myspace miðlaði fólk aðallega eigin efni á vefsvæði. Myspace náði mikilli útbreiðslu um tíma, einkum í hópi yngra fólksins. Margir notuðu Myspace til að koma list sinni á framfæri. Í ágúst 2006 var Myspace enn helmingi stærra en YouTube á alþjóðavísu[100]

Lítið var vitað um stöðuna á Íslandi um þetta leyti, en þó má geta þess að Myspace var vinsælasti skemmti- og samfélagsmiðillinn í könnun eins framhaldsskóla á Íslandi, MA, veturinn 2007­–2008. Myspace hafði þá vinninginn yfir Facebook, 71,3% nemenda notfærðu sér Myspace en aðeins 21,6% Facebook. Aðrir miðlar voru ekki skoðaðir í þeirri könnun.[101]

Á YouTube var umgjörðin látlaus, þangað var hægt að hlaða inn myndskeiðum, skoða, deila og ræða. Tónlistarmyndbönd voru og eru langfyrirferðarmest á YouTube og með tíð og tíma leysti það líklega ýmsar mislöglegar videó- og tónlistarveitur af hólmi, svo sem Napster og LimeWire.

Vöxtur YouTube var ævintýralegur og í grein Árna Matthíassonar í Morgunblaðinu 2. september 2006 bendir hann á að 70.000 myndskeið séu sett inn á YouTube á hverjum sólarhring! Íslendingar áttu sinn hlut á efnisveitunni því fljótlega bárust fréttir af því að þekktir íslenskir tónlistarmenn á borð við Björk og Sykurmolana væru vinsæl á YouTube.[102]

Árið 2006 keypti Google YouTube og 2008 rann Myspace inn í Facebook-veldið. Þessi fyrstu ár samfélagsvefsvæðanna voru því um margt lýsandi, en næsti áratugur, 2005–2014, var hinn raunverulegi áratugur samfélagsmiðlanna og efnisveitanna.

Twitter seint í gang á Íslandi

Twitter hefur náð mikilli útbreiðslu víða erlendis, en hafði einhverra hluta vegna ekki slegið í gegn hér á landi fyrir 2014. Ef aftur er litið til umfjöllunar Andra Más Kristinssonar þá er haft eftir honum í Vísi í framhaldi af fyrrnefndri könnun Gallup um samfélagsmiðla vorið 2015:

Andri segist hafa búist við því að Twitter væri vinsælli hér á landi en raun ber vitni og að Snapchat nyti minni vinsælda. „Snapchat virðist vera miðill sem hefur hitt í mark, sérstaklega hjá ungu fólki. […] spurning hvernig fyrirtæki geta nýtt sér þennan vettvang, því þarna eru engar auglýsingar.“

Fyrirtæki hafa brugðið á það ráð að búa til efni á Snapchat eins og hver annar notandi […]

Hvað Twitter varðar segir hann að ákveðinn hópur sem er þar inni sjáist síður á Facebook. Tækifæri gætu falist í því fyrir markaðsfólk. „Menn þurfa að átta sig á því hverjir eru á hvaða samfélagsmiðlum og hvers konar samband menn eiga á hverjum miðli fyrir sig.“ [103]

Margs konar virkni

Skilin milli skilaboðamiðla, samfélagsmiðla og tölvusíma urðu sífellt óskýrari þegar á leið. Skype-síminn hélt leiðandi stöðu en bætti við sig skilaboðavirkni og samfélagsmiðillinn Facebook varð smátt og smátt einnig skilaboðamiðill og loks einnig með tölvusímavirkni.

Mörkin milli sjónvarps og internets verða óskýrari

Alllangt er síðan farið var að gera tilraunir með það að láta sjónvarp og tölvur renna saman og ýmsar leiðir hafa verið farnar í því skyni. Þessar tilraunir hafa verið misvel heppnaðar, til að mynda voru flestar eldri tilraunir til að taka internetið inn í sjónvarpið andvana fæddar einfaldlega vegna mikils munar á upplausn sjónvarpa annars vegar og tölvuskjáa hins vegar. En í grein í Tölvumálum árið 2011 fjallaði Ágúst Valgeirsson um nýjar lausnir sem voru að ryðja sér til rúms og síðan hefur þróunin verið ör.

Símafyrirtækin hafa kynnt IP sjónvarpslausnir sem æ fleiri heimili nota enda mikill gangur í ljósleiðara og ADSL væðingu hérlendis. Í sjónvarpi er talað um línulega dagskrá, sem er þegar við setjumst fyrir framan sjónvarpið og horfum á áður auglýsta dagskrá á þeim tíma sem tilgreindur er og svo er ólínuleg dagskrá, sem er þegar áhorfandinn velur sjálfur hvenær hann vill horfa á efnið. Gott dæmi um þetta er aðgangur að tveggja vikna efni helstu sjónvarpsstöðva á IP sjónvarpskerfum hérlendis. Annað sem mikið er rætt um í sjónvarpsheimum er sjónvarp númer tvö sem í dag er tölvan/spjaldatölvan eða snjallsíminn en ekki annað sjónvarp. [104]

Efnisveitur koma til sögunnar

Erlendis hafa efnisveitur á borð við Netflix (1997) og Hulu (2007) sífellt orðið stærri hluti af sjónvarpsnotkun fólks. Netflix hefur gengið í gegnum nokkrar tæknibyltingar, leigusíðu fyrir sjónvarpsefni á netinu, efni í áskrift og DVD-leigu, áður en hún varð að eiginlegri efnisveitu þar sem notendur streymdu sjónvarpsefni og kvikmyndum. Útbreiðsla Netflix til landa utan Bandaríkjanna hófst á fyrsta áratug aldarinnar og náði meðal annars til margra landa Suður-Ameríku og Evrópu 2014. Þá hafði Netflix líka hafið gerð eigin efnis. Efnisveitan Hulu býður upp á aðgang að ýmsu sjónvarpsefni í áskrift, meðal annars frá bandarísku sjónvarpsstöðvunum ABC og NBC, sem eru meðal eigenda Hulu, auk Disney-fyrirtækisins. Þessu efni er streymt um internetið og auglýsingar standa undir kostnaði við ókeypis hluta veitunnar. Í áskriftarhlutanum sleppa notendur við auglýsingar. Hulu var í byrjun árs 2015 eingöngu fáanlegt í Bandaríkjunum og Japan og á bandarískum yfirráðasvæðum víða um heim, en formlega séð er aðgangur annars staðar frá varinn með því að skoða frá hvaða IP-tölu notandinn er og þar með frá hvaða landi.

OZ enn á ný

Fyrirtækið OZ komst aftur í sviðsljósið Íslandi eftir nokkurra ára hlé og þá á sviði gagnvirkrar dreifiveitu sjónvarpsefnis. OZ bauð þá þjónustu sem streymir sjónvarpsefni gegnum netið, líkt og aðrar efnisveitur, og notaðist við skýjalausnir. OZ þróaði hugbúnað og vélbúnað fyrir gagnvirka dreifiveitu sjónvarpsefnis. Þjónustan streymir sjónvarpsefni gegnum netið og gerir notendum kleift að stýra sinni dagskrá sjálfir, taka upp sitt uppáhaldsefni til einkanota sem geymt er á tölvuskýi, horfa á beina útsendingu, gera hlé á afspilun og spóla til baka óháð staðsetningu. OZ-appið kom á markað í júní 2013 í þessu skyni.[105]  

Skýið og áhrif þess

Skýið eða tölvuskýið hefur verið til umræðu lengi, en það var varla fyrr en um eða eftir 2010 að notkun þess varð útbreidd. Sumir hafa líkt skýinu við gömlu stórtölvurnar, þar sem allt var aðgengilegt á einum stað, forrit, vinnsla og gögn.

Ýmir Vigfússon fjallaði um tölvuskýið árið 2011 í Tölvumálum. Þar segir hann frá ýmsum byrjunarörðugleikum sem við er að etja í notkun tölvuskýja, en einnig frá möguleikunum og því hvernig þetta allt saman fór af stað:

Árið 2006 hóf Amazon.com að leigja út sýndarvélar undir nafninu Elastic Compute Cloud (EC2) – fyrsta tölvuskýið. Notendur tiltaka hversu margar sýndarvélar þeir þurfa og hvaða stýrikerfi eigi að keyra á þeim, og fá í staðinn IP tölur þar sem unnt er að tengjast sýndarvélunum í gegnum Secure Shell. Ef búist er við mörgum fyrirspurnum má fjölga sýndarvélum, eða fækka þeim sé þess þörf. Leigan er nokkrar krónur fyrir hvern klukkutíma sem örgjörvakjarni er notaður, og svipuð verðskrá fyrir minnisnotkun, geymslurými og nettraffík. Helsti kosturinn við EC2 er því kostnaðarlíkanið: Þú borgar fyrir það sem þú notar. Þetta er ekki ósvipað því hvernig við borgum fyrir aðgang að raf- og vatnsdreifikerfum.[106]

Þar sem allmargir höfðu einhverja reynslu af notkun ýmiss konar sýndarvélalausna, ekki síst hjá hugbúnaðarfyrirtækjum, var þessi hugsun þeim síður en svo framandi, þótt hýsingin væri komin í skýið margumtalaða.

Í skýjunum

Um mitt ár 2011 var grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins um möguleika skýsins. Guðmundur Arnar Þórðarson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja, fjallaði þá um hvaða möguleika skýið byði upp á. Yfirskrift greinarinnar var: „Skýið veitir meira frelsi“ og þar var kostum skýsins lýst þannig: „Með nokkrum smellum er starfsmaðurinn kominn með sína vinnustöð og forrit í hvaða tölvu sem er. Er líka hægt að nota hana þó ekki sé hægt að komast í netsamband, t.d. á flugi eða úti á ströndinni.“[107] Þarna er augljóslega verið að kitla, og ekki í fyrsta sinn, þær kenndir að hægt sé að sitja í góðu veðri, á framandi slóðum, og vinna vinnuna sína þar. Og í sjálfu sér alveg með réttu. Öryggi gagnanna sem unnið er með er einnig tekið fyrir. „Guðmundur segir skýið geta skapað aukið öryggi. Ef vinnutölvan glatast hverfa ekki með henni gögn og vinna starfsmannsins. Halda má áfram að vinna órofið í næstu tölvu.“[108] Forsendan er að treysta þeirri skýjahýsingu sem notuð er. Þegar þetta var ritað var vinnsla í skýinu ekki orðin eins útbreidd árið 2014, þótt aðeins þrjú ár hefðu þá liðið. Umræða um skýið hafði verið í gangi um allmargra ára skeið. Margir voru farnir að skutla myndum inn á Facebook, bloggið sitt eða Dropbox og rit- og tölvuvinnsla á skýinu, til dæmis í Google Docs og Sheets var að verða æ fleirum töm. Guðmundur lýsir því hvernig þessi vinnubrögð mátti færa inn á skrifstofurnar:

„Í sinni einföldustu mynd snýst skýið um að útstöð og forrit starfsmannsins eru sýndarvædd. Það þýðir að svo lengi sem hægt er að tengjast netinu getur hvaða tölva sem er orðið að vinnustöð,“ segir hann. „Ég get sest við tölvuna hans afa gamla og með nokkrum smellum byrjað að vinna og haft öll sömu forrit og gögn til taks og ég er vanur.“

Hægt er að tvinna saman lausnir í skýinu og hefðbundin forrit í hverri tölvu. Þannig getur t.d. ritvinnsla farið fram í ský-forriti, eða í dæmigerðu ritvinnsluforriti, og starfsmaður flutt og sótt gögn þar á milli eins og hann þarf. Guðmundur nefnir Facebook sem dæmi um ský-lausn, enda fer engin gagnavinnsla fram hjá notandanum né þarf hann að hlaða niður forritum; hann þarf bara að slá inn lykilorð og hefur þá aðgang að allskyns samskiptaleiðum, gögnum og tæknilegum lausnum til að létta sér lífið.[109]

Alltaf í vinnunni eða alltaf í fríi?

Í þessari grein er gengið út frá því að öllum, bæði starfsmönnum og fyrirtækjum, þyki það jákvæð þróun að unnt sé að ná sambandi við starfsmenn og stjórnendur hvar og hvenær sem er, jafnvel í fríum. Og þarna er bent á þætti sem ótvírætt hafa ýtt undir notkun ýmissa skýjalausna:

Með því að nota skýið á að vera hægt að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að halda sambandi og sinna verkefnum í fríinu, að ekki sé talað um að auðvelda fólki að vinna heima. Þar segir Guðmundur m.a. komna skýringuna á því hvers vegna ský-lausnir séu meira notaðar af fyrirtækjum erlendis, enda geti það t.d. sparað starfsmönnum ferðir til og frá vinnu, og eins hentað vel þar sem starfsfólkið þarf mikið að vera á ferðinni milli ólíkra markaðssvæða.

Ef ekki er hægt að tengjast netinu, t.d. um borð í flugvélum, þarf það ekki að þýða glataðar vinnustundir. „Hægt er að taka verkefni eða hugbúnað út úr sýndarútstöð tímabundið, og vinna áfram án netsambands ef þess þarf.“ [110]

Kostir og gallar þess að vera alltaf til taks hafa löngum verið efni skiptra skoðana, ekki síst með aukinni tæknivæðingu. Á UT-vefnum er að finna hugleiðingar frá árunum 2011–2014 um notkun tölvuskýja.

Með tilkomu tölvuskýja hefst þróun á nýju viðskiptalíkani fyrir tölvuþjónustu þar sem stefnt er að því að hægt verði að kaupa upplýsingatækniþjónustu á svipaðan hátt og rafmagn þ.e. að greitt sé í samræmi við notkun. […]

Tölvuský er tiltölulega nýtt hugtak. Í því felst aðferð til að lækka kostnað, auka nýtingu búnaðar og auka afköst tölvudeilda. Það er gert með því að kaupa aðgang að gagnageymslum, hugbúnaði og þjónustu þar sem aðeins er greitt fyrir það gagnarými sem nýtt er eða fyrir hugbúnað og þjónustu í samræmi við notkun, svo dæmi sé tekið. Lítil umræða hefur farið fram um tölvuský fyrir opinbera aðila á Íslandi og almennt má segja að opinberi geirinn á Norðurlöndum hafi hingað til helst horft til svokallaðra einkaskýja eða opinberra skýja sem ná aðeins til opinbera geirans.[111]

Tölvumennina úr húsi?

Notkun skýjalausna breytti umhverfi hins almenna notanda jafnt sem fyrirtækja, þar sem skýið hýsir bæði gögn og forrit. Hýsingin var á stórum tölvum, rétt eins og í árdaga tölvutækni á Íslandi þegar stórtölvurnar réðu ríkjum, en munurinn var sá að nú var hún einhvers staðar á óþekktum stað. Fyrir venjulegt fyrirtæki gat þetta þýtt eftirfarandi, eins og Halldór Kristjánsson verkfræðingur bendir á: „Við erum með öflugar vélar sem hýsa bókhaldskerfi úti í bæ, þar fer bankaþjónustan fram og geymsla á ljósmyndum. Allt er þetta komið í skýið.“[112] Hann bætir því við að stjórnendum fyrirtækja finnist afskaplega gott að þurfa ekki að leiða hugann of mikið að tölvuvinnslunni. Möguleiki sé fyrir hendi, jafnvel hjá stórum fyrirtækjum, að sleppa alveg við að vera með tölvumenn innanhúss, sem stundum komi með tillögur um eitthvað sem stjórnendur skilja ekki eða vilja ekki. Með því að vera með alla vinnslu utan fyrirtækisins, á skýinu eða úti í bæ (sem getur verið það sama) er hægt að vera laus allra mála og borga bara ákveðið gjald fyrir það. Þá er Office-pakkinn keyrður annars staðar, þar er bókhaldið líka og fyrirtækið er laust við flest það sem gert er í tölvunni. Ókosturinn er hins vegar sá að það þarf að reka hugbúnaðinn og ef eitthvað kemur upp á, prentari stöðvast til dæmis, þá er enginn á staðnum til að bregðast við. Því verður þó varla á móti mælt að ákveðin hugsanabreyting hefur átt sér stað varðandi notkun hugbúnaðar. Það er ekki lengur gert ráð fyrir því að fyrirtæki þurfi að láta sérsmíða eða laga allt að sínum þörfum, heldur sé raunverulega hægt að nota það sem til er. Eins og Halldór bendir á eru almennir starfsmenn yfirleitt vel tölvulæsir og geta því auðveldlega nýtt sér staðlaðan hugbúnað og átt samskipti vegna bókhalds, og söludeildir nota söluforrit á borð við salesforce.com sér að ágætu gagni. Halldór segir það hafa komið sér á óvart hversu útbreidd notkun þess konar hugbúnaðar er orðin, en hann hefur fylgst vel með þróun tölvumála hjá íslenskum fyrirtækjum.[113]

Viðskiptagreind

Viðskiptagreind (Business Intelligence) er hugtak sem hefur sett æ ríkari svip á gerð hugbúnaðar og notkun hans á árunum eftir árþúsundamótin. Hugtakið er ekki nýtt af nálinni en þau tæki og tól sem notuð eru til að greina og vinna með alls kyns gögn til að gera þau nýtileg í viðskiptum verða sífellt fjölbreyttari og öflugri. Viðskiptagreind felst meðal annars í því að nýta tæki og ferli til að greina og birta gögn, oft úr stórum gagnagrunnum eða vöruhúsum gagna, og á seinni árum hefur athyglin beinst í æ ríkari mæli að því að vinna með gríðarlegt magn gagna (Big Data). Markmiðið er að nýta þessi gögn og birta á þann hátt að þau geti gefið fólki færi á að taka sem allra skynsamlegastar ákvarðanir, byggðar á öflugum grunni gagna sem sett eru fram á auðskilinn hátt.

Einn af mikilvægum þáttum viðskiptagreindar er þekking á þörfum viðskiptavina (Customer Intelligence). Hún hefur meðal annars verið skilgreind sem leið 21. aldarinnar til að herma eftir kaupmanninum á horninu þar sem markmiðin eru:

 • Að koma á tengslum við viðskiptavininn – með rauntímasamskiptum.
 • Bera kennsl á hann – með persónumiðuðu markaðsstarfi.
 • Bjóða gildi sem eiga erindi – með réttu vöruframboði og samkeppnishæfu verði.
 • Þróa skilning á viðskiptavininum – með því að flokka hann, dýpka þekkingu á honum, uppfylla væntingar og nýta viðeigandi gögn, greiningar og sjálfvirkni í þessu skyni.[114]

Mörg íslensk fyrirtæki bjóða upp á gagnleg tól til nýtingar viðskiptagreindar, bæði innlend og erlend. DataMarket, sem stofnað var árið 2008, byggðist á því að safna saman margvíslegum gögnum af ólíkum uppruna á einn stað og gera þau aðgengileg á samræmdan hátt. Fyrirtækið náði talsverðri útbreiðslu á þessu sviði hér á landi og erlendis. Árið 2014 var fyrirtækið selt til fyrirtækisins Qlik sem er eitt af þekktustu fyrirtækjum á sviði viðskiptagreindar í heiminum. Viðskiptalausnir Qlik eru vel þekktar hér á landi og af stórum viðskiptavinum fyrirtækisins hérlendis má nefna Reykjavíkurborg og Samskip.

Meðal annarra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í því að þróa og nýta lausnir viðskiptagreindar má nefna Wise, íslensku bankana og Marorku, sem hefur notað slíkar lausnir til hagnýtingar upplýsinga við rekstur skipaflota.

Þau íslensku fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í viðbótum við Microsoft Dynamics-hugbúnaðinn NAV og AX hafa mörg hver einnig einbeitt sér að hugbúnaðarlausnum sem byggja á viðskiptagreind.

Fyrirtæki á sviði viðskiptagreindar hafa með sér ýmiss konar samstarf. IcePro er einn vettvangurinn. IcePro skilgreinir sig sem hlutlausan vettvang fyrir opinbera aðila, einkafyrirtæki og lausnaraðila, þar sem kostur gefst á því að sitja við eitt borð, miðla af reynslu, setja stefnu, skilgreina ferli og sannreyna tækni. IcePro hefur það hlutverk að safna þekkingu innanlands sem erlendis og miðla henni til aðildarfyrirtækja í formi verkefnaþátttöku, ráðstefnuhalds og ýmiss konar kynninga.[115]

Orkan og umhverfið á Íslandi: Umræða og veruleiki

Oft hefur komið upp umræða um að nýta orkuna á Íslandi í þágu upplýsingatækni og hátæknifyrirtækja á því sviði. Einn sterkasti angi þeirrar umræðu hefur verið spurningin um gagnaver á Íslandi, sem orðin eru að veruleika nú þegar.

Gagnaverið Thor Data Center

Gagnaverið Thor Data Center var sett á laggirnar í Hafnarfirði árið 2010 en fyrirtækið var stofnað ári fyrr. Stærsti viðskiptavinur þess var frá upphafi Opera Software í Noregi. Byrjunarerfiðleikar einkenndu fyrstu starfsárin og árið 2011 skrifaði Landsbankinn undir fjármögnunarsamning við fyrirtækið til að fjármagna nýjan gagnagám. Í frétt á viðskiptasíðum Morgunblaðsins segir af þessu tilefni:

Gagna­ver Thor Data Center bygg­ist á sér­út­bún­um& gáma­ein­ing­um sem hýsa gögn og gagna­vinnslu fyrirtækja. Fram kem­ur í til­kynn­ingu, að eft­ir að nýi gám­ur­inn verður kom­inn í gagnið hafi af­kasta­geta gagna­vers­ins marg­fald­ast og muni fé­lagið geta annað hýs­ing­arþörf fleiri stórra fyr­ir­tækja. […]

Thor Data Center er eina gagna­verið sem starf­rækt er á Íslandi og bygg­ir þjón­usta þess á umhverfisvænni raf­orku.[116] 

Skýrr, síðar Advania, keypti fyrirtækið og rann það inn í samsteypuna árið eftir, eða síðla árs 2011. Advania Thor Data Center keypti ofurtölvu til vísindarannsókna á Norðurlöndum á árinu 2012. Notagildi tölvunnar er margvíslegt en einkum í þágu vísinda:

Stofnanir sem hafa yfirumsjón með háhraðatölvum til vísindarannsókna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi hafa í sameiningu fjárfest og gangsett nýstárlega háhraðatölvu á Íslandi, sem hýst er í gagnaverinu Advania Thor Data Center í Hafnarfirði. Nýnæmið við þessa ofurtölvu felst í hugmyndinni, staðsetningunni og rekstri tölvunnar, frekar en í tækninni. Umræddur tölvubúnaður er frá HP og Opnum kerfum.[117]

Opera Software stórjók svo viðskipti sín við gagnaverið á árinu 2013. Fyrirtækið tengist Íslandi á þann hátt að Opera-vafrinn er upphaflega sprottinn frá þeim tíma er Íslendingurinn Jón von Tetzchner var enn í forsvari fyrir fyrirtækið. Það var nýr vafri, Opera Mini-vafrinn fyrir tölvur, snjallsíma, sjónvörp og önnur nettengd tæki, sem var ástæða þessarar miklu aukningar á umsvifum Opera hér á landi. Aukningin leiddi af sér stóraukna internetumferð til Íslands og mikla orkuþörf, eða sem svaraði 2–3 þúsund manna bæjarfélagi á Íslandi. Aðaláherslan í markaðssetningu gagnaversins var „að markaðssetja Ísland sem umhverfisvænan valkost sem hefur þá sérstöðu að byggja á endurnýjanlegri orku. Gagnaverin geta skapað þjóðinni miklar gjaldeyristekjur,“ eins og Gestur G. Gestsson forstjóri Advania orðaði það árið 2013.[118]

Advania hafði á þessum tíma hafið samstarf við Verne Global um stækkun gagnavers á Ásbrú.[119] Árið 2014 var í framhaldi af því farið að undirbúa stækkun gagnavera Advania og sjónum beint að Reykjanesbæ. Þá voru viðskiptavinir fyrirtækisins orðnir áttatíu, og enn var Opera stærstur þeirra.[120] 

Gagnaver Verne – Suðurnesjarokið kælir þúsundir tölva

Innkoma Verne Holdings hófst á áformum um að reisa gagnaver á svæði gamla varnarliðsins á Suðurnesjum og var stefnt að því að opna það um áramótin 2008–2009, eða um svipað leyti og efnahagshrunið á Íslandi varð. Í kjölfarið urðu allnokkrar tafir á opnuninni. Í umfjöllun um framkvæmdirnar í DV haustið 2009 er farið yfir áformin í viðtali við Björgólf Thor Björgólfsson, eiganda fjárfestingarfélagsins Novator, sem átti Verne Holdings að stórum hluta.

Gagnaverið mun hýsa rafræn gögn fyrir ýmis alþjóðleg fyrirtæki og veita þeim ýmiss konar þjónustu við þessi gagnasöfn. […]

Lykilatriði í starfsemi gagnaversins eru tveir sæstrengir til og frá landinu sem notaðir verða til að flytja gögnin. Annar þessara strengja, Danice, var tekinn í notkun í gær [skrifað í byrjun september 2009] en framkvæmdir við hann hófust í ágúst í fyrra. […]

Lykilforsenda í rekstri gagnaversins er að tengslin við Evrópu séu tryggð með tveimur sæstrengjum, bæði Danice og Farice, ef annar skyldi bila því viðskiptavinir gagnaversins verða að hafa tryggt aðgengi að gagnasöfnum sínum hér á landi.[121]

Það var síðan í febrúar 2012 að Verne hóf formlega starfsemi sína á Ásbrú. Á forsíðu Víkurfrétta fimmtudaginn 9. febrúar 2012 segir: „Suðurnesjarokið kælir þúsundir tölva.“[122] Þar kemur fram að þetta sé fyrsta alþjóðlega gagnaverið í heiminum sem knúið sé með grænni orku og pláss sé fyrir fimm þúsund netþjóna í fyrsta áfanga. Stærsti einstaki viðskiptavinur gagnaversins var bílaframleiðandinn BMW í samstarfi við Opin kerfi, en aðrir aðilar voru smærri.

Verne Global […] valdi Opin kerfi sem sinn þjónustuaðila hérlendis við þau fyrirtæki sem vilja hýsa sitt umhverfi í gagnaverinu. […] hefur tekist í góðri samvinnu við erlenda lykil birgja að byggja upp viðskiptasambönd við fyrirtæki eins og BMW sem reka tölvuumhverfi sitt í gagnaverinu. […]

Tækifæri hvað varðar gagnaversiðnaðinn og tækni eru því óþrjótandi og tíminn er núna til að gera sem mest úr stöðunni, skilgreina verkefnin, fjárfesta í spennandi vegferð og skapa forskot í alþjóðlegri samkeppni. […] flest í okkar umhverfi, byggir meira og meira á tækjum sem tengjast saman gegnum háhraðanet og upplýsingum sem er miðlað í gegnum með þjónustu sem hýst er í skýinu eða miðlægt.[123]

Samfélagsumræða á nýrri öld

Samfélagsáhrif samfélagsmiðla

Notkun samfélagsmiðlanna hefur orðið uppspretta umræðu og vangaveltna um áhrif þeirra á samfélagið, bæði hér á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Ljóst er að margt af því sem hefur mótað bæði mannkynssöguna og Íslandssöguna á 21. öldinni má rekja beint til áhrifa samfélagsmiðlanna. Í upphafskaflanum um áratuginn 2005­–2014 er drepið á áhrif samfélagsmiðlanna í búsáhaldabyltingunni svokölluðu og hið svokallaða arabíska vor um og upp úr 2010 og framhald þess er gott dæmi um mátt samfélagsmiðlanna í alþjóðlegu samhengi.

Frelsi og jafnrétti

Opinn hugbúnaður
Íslendingar hafa lengi tekið þátt í þróun svokallaðs „opins hugbúnaðar“ (open source), sem byggist á því að kóði frá einum sé opinn öðrum til notkunar, aðlögunar og breytinga. Stefna stjórnvalda í þessum málaflokki er kynnt á UT-vefnum (upplýsingatæknivefnum):

Ríkisstjórnin samþykkti í mars 2008 stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað. Verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu vann stefnuna og studdist m.a. við skýrslu um opinn hugbúnað sem gerð var fyrir forsætisráðuneytið 2005, stefnur annarra þjóða og margvíslegt efni frá Evrópusambandinu. […] Í stefnunni kemur fram að þess skuli gætt að gefa frjálsum og opnum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði og ávallt skuli leitast við að gera sem hagstæðust innkaup.[124]

Í tímaritinu Tölvumálum 2011 er sagt frá notkun frjáls hugbúnaðar í Menntaskólanum í Reykjavík. Fyrrverandi nemendur skólans tókum höndum saman ásamt skólayfirvöldum, ráðuneyti og einkaaðilum og uppfærðu tölvukerfi skólans og byggðu alfarið á frjálsum hugbúnaði við þá uppfærslu. Um markmiðið með þessari aðgerð er sagt í blaðinu:

Þegar verkefnið hófst var MR skuldbundinn til að greiða umtalsverð hugbúnaðarleyfisgjöld á ári hverju, til þess eins að halda óbreyttu kerfi gangandi. Megnið af þessum gjöldum runnu beint úr landi, en með frjálsum hugbúnaði vonast skólayfirvöld til að geta haldið þessu fé innan landssteinana og nýtt til uppbyggingar eða kennslu.

Annar mikilvægur eiginleiki frjáls hugbúnaðar er að hann gerir yfirleitt hóflegar kröfur til vélbúnaðar og gamlar tölvur nýtast betur en ella. Frá sjónarmiði notenda virðast „Linux tölvur“ hraðari, en frá sjónarmiði þeirra sem halda utan um buddustrenginn lengir frjáls hugbúnaður líftíma hverrar tölvu og frestar útgjöldum. Til samanburðar hefði þurft að kaupa yfir 100 nýjar tölvur ef MR hefði kosið að uppfæra í nýlega útgáfu af Windows eða Mac OS X. […] Einungis tíminn getur leitt í ljós hver heildarniðurstaðan verður, en frjáls hugbúnaður var hagkvæmasta leiðin til að uppfæra tölvukerfi skólans á þessum tímapunkti.[125]

Kynjaumræðan
Á einstökum tímabilum hefur hlutur kvenna verið nokkuð stór í tölvunarfræðinámi og útskriftarárgangurinn 1984 frá Háskóla Íslands var til að mynda með nokkuð jöfnum kynjahlutföllum.[126] Um svipað leyti var líka vinsælt að fara til Danmerkur í kerfisfræðinám og þangað sóttu konur frá Íslandi enn frekar en karlarnir.[127]

Hlutur karla í greininni hefur þrátt fyrir framansagt löngum verið mun stærri en kvenna. Spurt hefur verið hvernig unnt sé að jafna hlut kynjanna í upplýsingatækni, meðal annars árið 2011 í Tölvumálum. Bilið milli kynjanna virtist lítið haggast. Um árin frá 1997–2010 segir:

Svo virðist sem minnkandi umræða um mikilvægi upplýsingatækninnar hafi að einhverju leyti orðið til þess að draga úr áhuga nemenda á að sækja nám í greininni, því eftirspurn eftir menntuðu fólki á þessu sviði er svo sannarlega til staðar. […] Þegar tölvunarfræðin er skoðuð sérstaklega má sjá gríðarlegan samdrátt í nemendafjölda frá árinu 2000 (fyrir utan örlitla aukning á fjölda karlmanna síðustu tvö árin, 2009-2010). Þessi skortur á áhuga á upplýsingatækni virðist hafa átt frekar við um kvenþjóðina. Á árinu 2001 voru nær 30% nemenda í tölvunarfræði konur en á árinu 2010 voru konur aðeins 12,5% af heildarnemendafjölda. Þetta hlutfall hefur farið nær stöðugt minnkandi og í einstökum árgöngum hefur það farið allt niður í 5%. Til samanburðar var 51% í nemenda í viðskiptafræði kvenkyns á árinu 2010 og ríflega 62% af heildarfjölda nemenda á háskólastigi.[128]

NOTA.KVENNA
Hér má sjá sveiflur í aðsókn nemenda, kvenna og karla, að tölvunarfræðinámi við Háskólann í Reykjavík á árunum 1998 til 2003. Á þessum árum var mikil eftirspurn eftir nemendum með einhverja þekkingu í forritun og tölvunarfræði. Mikil uppsveifla er í aðsókn að náminu fram að árinu 2000. Það ár var einnig metfjölgun á umsóknum kvenna í tölvunarfræði. Eftir aldamótin og eftir að netbólan sprakk dalaði aðsókn beggja kynja að náminu. Í kaflanum um fyrstu háskólanemana í tölvunarfræði má sjá yfirlit yfir útskriftarnemendur skipt eftir kynjum á árunum 1976-2014.[129]

Netkaffihús og netaðgangur á bókasöfnum

Á tíunda áratug síðustu aldar voru tölvur og nettengingin ekki endilega aðgengilegar fyrir alla. Þá spruttu upp fjölmörg netkaffihús (internet café) þar sem unnt var að komast í tölvur og nettengingu að vild, yfirleitt gegn greiðslu. Samhliða þessu var mjög víða farið að bjóða upp á aðgang að tölvum og interneti á almenningsbókasöfnum fyrir notendur safnanna, yfirleitt ókeypis. Fyrsta netkaffihúsið á Íslandi var sett á laggirnar í Reykjavík árið 1995 og nefndist það Síbería sem eflaust hefur vísað til alþjóðaorðsins „cyber“, sem mörg erlend netkaffihús kenndu sig við. Einar Örn Benediktsson var stofnandi Síberíu.[130] Í kjölfarið spruttu upp netkaffihús úti um allt land[131] en á nýrri öld og með smærri tækjum varð þróunin sú að boðið var upp á nettengingar víða, fyrst gegn gjaldi en með tímanum varð fátítt að rukkað væri fyrir tengingu.

 

[1] Bergþóra K. Ketilsdóttir, ábendingar í tölvupósti apríl 2016.

[2] Skýrsla Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010.

[3] „Betri Reykjavík“ er gott dæmi um virka notkun þessarar hugmyndafræði. Sjá meðal annars http://www.citizens.is/

[4] http://www.hagstofa.is/talnaefni/atvinnuvegir/upplysingataekni/upplysingataekninotkun/ Sótt 21.11.2015.

[5] http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__fyrirtaeki__fjoldi__fyrirtaeki/FYR01001.px/table/tableViewLayout1/?rxid=fa8a12dc-9ce2-4cbd-8395-d03aea17476b Sótt 21.11.2015.

[6] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[7] http://www.sky.is/index.php/16-lidhnir-atburdhir/1403-opinn-hugbunaeur

[8] Birgir Björn Sigurjónsson: Ávinningur Reykjavíkurborgar af rafrænum viðskiptalausnum. Tölvumál, 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 32. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf . Sótt 14.11. 2015.

[9] Sama heimild.

[10] http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-761/940_read-396

[11] Ólafur Andri Ragnarsson: Leikaiðnaðurinn er alvöru iðnaður. Tölvumál 1. tbl. 34. árg. 2009. Bls. 40.

[12] Hagstofa Íslands: Upplýsingaiðnaður. Fjöldi fyrirtækja og fjöldi starfandi 1998-2008.

[13] Varkár spilamaður. Frjáls verslun, 73. árg. 7. tbl. (01.07.2011), bls. 43. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380126&pageId=6247847&lang=is&q=sprotafyrirtæki Sótt 13.11. 2015.

[14] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[15] Útgerðarmaður í ímynduðum heimi. Frjáls verslun, 4. tbl. 70. árg. 01.04. 2008, bls. 88.

[16] Hilmar Veigar Pétursson. Viðtal tekið 20.10. 2015.

[17] https://notendur.hi.is/jrg4/Leikur_sem_kennsluafer/Tolvuleikir.html Sótt 3.11.2015.

[18] Symbol6 Redux: viðtal við leikjaframleiðandann Írisi Andrésdóttur hjá Gogogic. http://www.pressan.is/Leikjapressan/Skoda_Adrir_leikir/symbol6-redux-vidtal-vid-leikjaframleidandan-irisi-andresdottur-hja-gogogic

[19] Upplýsingar frá Deepa Iyengar framkvæmdastjóra og einum af stofnendum MindGames. Tölvupóstur 2. september 2016.

[20] Nýr íslenskur tölvuleikur. Viðskiptablaðið, 22. júlí 2013. http://www.vb.is/frettir/nyr-islenskur-tolvuleikur/93792/; http://www.pressan.is/Leikjapressan/Skoda_Adrir_leikir/nyr-islenskur-leikur-fyrir-iphone

[21] Nýr íslenskur leikur fyrir Iphone. http://www.pressan.is/Leikjapressan/Skoda_Adrir_leikir/nyr-islenskur-leikur-fyrir-iphone Sótt 3.11.2015.

[22] Stefán Hrafnkelsson segir frá slíkum hótunum frá íslenskum athafnamanni. Viðtal tekið 21.10. 2015.

[23] Stefán Hrafnkelsson. Viðtal tekið 21.10. 2015 og glærur: http://www.ut.is/media/ut-dagurinn-2010/Betware.pdf Sótt 19.11. 2015.

[24] http://www.businesswire.com/news/home/20100519005824/en/Betware-Receives-License-Market-Microgaming-Casino-Games Sótt 19.11. 2015.

[25] Handan við öppin. Frjáls verslun, 74. árg. 7. tbl. (01.07.2012), bls. 55. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=379035&pageId=6218920&lang=is&q=Plain Vanilla. Sótt 15.11.2015.

[26] http://sport.moi.is/tol-og-taeki/2011/11/03/islenski-tolvuleikurinn-the-moogies-fer-i-solu-a-apple-app-store-i-dag/

[28] Setja 300 miljónir í íslenska leikjaframleiðandann Plain Vanilla. visir.is, 9. apríl 2013. http://www.visir.is/setja-300-milljonir-i-islenska-leikjaframleidandann-plain-vanilla/article/2013130409186 Sótt 15.11.2015.

[29] Reynslusaga: Sprotalíf. Tölvumál. 1. tbl. 34. árg. nóvember 2009, bls. 20. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Sk%201%20tbl%202009_SKJ.pdf Sótt 14.11.2015.

[30] Gogogic hættir rekstri – „Við reyndum“. visir.is. 19. september, 2015. http://www.visir.is/gogogic-haettir-rekstri----vid-reyndum-/article/2013130918938 Sótt 17.11.2015.

[31] http://gagarin.is/ og https://locatify.com/; Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, spjall á UTmessu í febrúar 2016.

[32] Hilmar Veigar Pétursson sagði að viðskiptavinir, til dæmis Kínverjar, hefðu gert kröfur um að fyrirtækið væri með fé til reiðu fyrir rekstri CCP í Kína eftir hrunið.

[33] Viðtal við Sigrúnu Evu Ármannsdóttur, 28.10.2015.

[34] Nýherji. Ársskýrsla 2009, bls.2. http://www.nyherji.is/servlet/file/store718/item36628/Arsskyrsla_Nyherja_hf._2009.pdf Sótt 16.11.2015.

[35] Hjálmar Gíslason. Viðtal tekið 1.10. 2015.

[36] UT-geirinn styrktist við bankahrunið. Morgunblaðið – viðskiptablað. 10. mars, 2011. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1370525/?item_num=61&searchid=4ccae7f8674791400c0a3195991688878ad779f2 Sótt 22.11.2015.

[37] Ragnheiður H. Magnúsdóttir. Viðtal tekið 25.11.2015.

[38] Sama heimild.

[39] Ragnheiður H. Magnúsdóttir. Viðtal tekið 25.11.2015.

[40] Sigrún Eva Ármannsdóttir. Viðtal tekið 28.10. 2015.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Ragnheiður H. Magnúsdóttir. Viðtal tekið 25.11.2015.

[45] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[46] Sigurjón Ólafsson: Bókin um vefinn. Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjóra. Rv. 2015, bls. 162.

[47] Sigrún Guðjónsdóttir. Viðtal tekið 20.9.2015.

[48] http://www.ut.is/vefhandbok/yfirlit/val/mat/nr/3142 Sótt 17.11.2015.

[49] Ragnheiður H. Magnúsdóttir. Viðtal tekið 25.11.2015.

[50] Sama heimild.

[51] http://landsbokasafn.is/index.php/markhopatenglar/utgefendur/skylduskil Sótt 4.11. 2015.

[52] Sjá http://vefsafn.is/index.php?page=um-vefsafnid

[53] Háþróuð tækni og háleit markmið. Fréttablaðið, 20. mars 2005, bls. 12. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=265573&pageId=3759553&lang=is&q=Össur Sótt 12.11.2015.

[54] Með hugvit að vopni. Auglýsing frá Marel. Hér: Frjáls verslun, 73. árg. 8.-9. tbl. (01.08.2011) Bls. 133. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380127&pageId=6248060&lang=is&q=sprotafyrirtæki Sótt 11.11.2015.

[55] Dr. Eyþór Ívar Jónsson: 200 áhugaverð sprotafyrirtæki. Frjáls verslun, 71. árg. 7. tbl. (01.07.2009), bls. 23. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380213&pageId=6252515&lang=is&q=sprotafyrirtæki Sótt 12.11.2015.

[56] Þetta viðhorf kom fram í viðtali við Vilhjálm Þorsteinsson 9.9.2015.

[57] Dr. Eyþór Ívar Jónsson: 100 áhugaverð sprotafyrirtæki. Frjáls verslun, 70. árg. 7. tbl. (01.07.2008), bls. 18-19. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380212&pageId=6252400&lang=is&q=SPROTAFYRIRTÆKI Sótt 11.11.2015.

[58] http://www.vb.is/frettir/viskiptaenglar-vilja-meiri-nyskopun-a-islandi/16896/ Sótt 11.11.2015.

[59] Júlía Pálmadóttir Sighvats: Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Tölvumál. 1. tbl. 34. árg. nóvember 2009, bls. 6. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=388614&pageId=6621617&lang=is&q=P%E1lmad%F3ttir%20Sighvats Sótt 14.11.2015.

[60] Andri Heiðar Kristinsson: Stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja í heimsmælikvarða. Tölvumál. 1. tbl. 34. árg. nóvember 2009, bls. 8. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Sk%201%20tbl%202009_SKJ.pdf Sótt 14.11.2015.

[61] Júlía Pálmadóttir Sighvats: Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Tölvumál. 1. tbl. 34. árg. nóvember 2009, bls. 7. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Sk%201%20tbl%202009_SKJ.pdf Sótt 14.11.2015.

[62] Reynslusaga: Um tilurð sprotafyrirtækis. Tölvumál. 1. tbl. 34. árg. nóvember 2009, bls. 18. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Sk%201%20tbl%202009_SKJ.pdf Sótt 14.11.2015.

[63] Dr. Eyþór Ívar Jónsson: Áhugaverðustu sprotafyrirtæki Íslands: Sprettur á Íslandi. Frjáls verslun, 71. árg. 7. tbl. (01.07.2009), bls. 20-22.

[64] 100 áhugaverðir sprotar. Frjáls verslun, 73. árg. 7. tbl. (01.07.2011), bls. 32-33. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380126&pageId=6247847&lang=is&q=sprotafyrirt<æki/a>. Sótt 12.11.2015.

[65] Eyþór Ívar Jónsson: Byggjum upp þekkingar- og nýsköpunarhagkerfi. Frjáls verslun, 73. árg. 7. tbl. (01.07.2011), bls. 34. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=380126&pageId=6247847&lang=is&q=sprotafyrirtæki

[66] 70 umsóknir um aðstöðu fyrir ný sprotafyrirtæki í kjölfar kreppu. Morgunblaðið, 9. janúar 2009. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1263437/

[67] Sprotasókn í kreppu. Morgunblaðið, 7. maí 2009. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1281711/

[68] http://www.sprotar.is . Ef aðeins er hakað í Upplýsingatækni og Afþreyingu – leikjatækni voru 251 fyrirtæki sýnd 12.11. 2015.

[69] Af vef Nýherja: http://www.nyherji.is/nyherji/fyrirtaekid/saga/ Sótt 22.11.2015.

[70] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 145-146.

[71] Sjá kafla um þá sameiningu.

[72] Af vef Advania: https://www.advania.is/um-advania/fjolmidlar/frettir/frett/2009/11/18/Sameining/ Sótt 21.11.2015.

[73] Sigrúnu Evu Ármannsdóttur framkvæmdastjóra Eskils, sem var meðal smærri fyrirtækja í sameiningunni, kom þessi þróun ekki á óvart og taldi að hún hafi legið í loftinu.

[74] Af vef Advania: https://www.advania.is/um-advania/fjolmidlar/frettir/frett/2012/01/20/Advania/

[75] Frosti Bergsson. Tölvupóstur 7.12.2015.

[76] Titan hefur senn starfsemi. Fréttablaðið, 15. september 2006, bls. 21. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=272512&pageId=3916120&lang=is&q=Titan Titan. Sótt 5.12. 2015.

[77] Af vef Opinna kerfa: https://opinkerfi.is/opin-kerfi/opin-kerfi-fyrirtaekid/saga-ok/. Sótt 24.2.2018.

[78] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 13.10. 2015.

[79] Pressan, 22.september 2009. http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/microsoft-kaupir-islenskan-hugbunad---risastor-samningur-a-islenskan-maelikvarda Sótt 21.11.2015.

[80] LS Retail opnar nýja skrifstofu í Dubai. Morgunblaðið – viðskiptafréttir. 24. janúar 2014. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1495662/?item_num=12&searchid=15b31ede9ad1eda7279aa1e9008010c1ebf351f1&t=657089679&_t=1448281933.13 Sótt 23.11.2015.

[81] Mature startup.

[82] Georg Lúðvíksson. Viðtal tekið 23.11.2015.

[83] Sama heimild.

[84] Bretar búa sig undir iPad. Morgunblaðið 26.apríl 2010. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=337994&pageId=5320267&lang=is&q=spjaldt%F6lv Sótt 18.11.2015.

[85] Heitasta sófatæki í heimi. Fréttablaðið 1. maí 2010, bls. 76. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=323646&pageId=5075659&lang=is&q=spjaldt%F6lv Sótt 18.11.2015.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Bókaþjóðin orðin nettengd. Fréttablaðið, 16. nóvember, 2010, bls. 30. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=325868&pageId=5102099&lang=is&q=spjaldt%F6lv Sótt 17.11.2015.

[89] Kampakátir með Kyndilinn. Morgunblaðið 11. janúar 2012. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1406841/?item_num=0&searchid=ddd5a3fe80c9aed65930acbcc2c1f5dd8fdb773c Sótt 18.11.2015.

[90] Sala á rafbókum ólík eftir efni og útgáfum. Morgunblaðið 13. janúar 2015. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1538296/?t=330380809&_t=1447901356.28 Sótt 18.11.2015.

[91] Sælir eru einfaldir símar. Tímarit Morgunblaðsins, 18. desember 2005. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1056252/ Sótt 22.11.2015.

[92] Sama heimild.

[93] Margrét Rós Einarsdóttur: Snjallsíma öldin. Tölvumál, 19. febrúar 2015. http://www.sky.is/index.php/toelvumal/item/1748-snjallsima-oeldin Sótt 22.11.2015.

[94] 89 prósent Íslendinga nota Facebook. DV. 29. maí 2015. http://www.dv.is/frettir/2015/5/30/89-prosent-islendinga-nota-facebook/ Sótt 17.11.2015.

[95] Nánast helmingur þjóðarinnar notar Snapchat: Eiginlega allir Íslendingar á Facebook. Nútíminn. 29. maí, 2015. http://nutiminn.is/nanast-helmingur-thjodarinnar-notar-snapchat-eiginlega-allir-islendingar-a-facebook/ Sótt 17.11.2015.

[96] Facebook vinsælust og Instragram er í öðru sæti. Mbl.is 20.9.2013. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2013/09/20/81_prosent_islendinga_a_facebook_2/ Sótt 17.11.2015.

[97] Íslenskir læknar nýja sér samfélagsmiðla í auknum mæli. Pressan. 22. janúar 2015. http://www.pressan.is/(X(1)S(-1%20OR%202+28-28-1=0+0+0+1%20--%20p1p0e55jc00rh2bg2uejczu))/Frettir/Lesafrett/islenskir-laeknar-nyta-ser-samfelagsmidla-i-auknum-maeli Sótt 18.11.2015.

[98] Íslenskir læknar nýja sér samfélagsmiðla í auknum mæli. Pressan. 22. janúar 2015. http://www.pressan.is/(X(1)S(-1%20OR%202+28-28-1=0+0+0+1%20--%20p1p0e55jc00rh2bg2uejczu))/Frettir/Lesafrett/islenskir-laeknar-nyta-ser-samfelagsmidla-i-auknum-maeli Sótt 18.11.2015.

[99] 89 prósent Íslendinga nota Facebook. DV. 29. maí 2015. http://www.dv.is/frettir/2015/5/30/89-prosent-islendinga-nota-facebook/ Sótt 17.11.2015.

[100] https://blog.compete.com/2006/10/18/youtube-vs-myspace-growth-google-charts-metrics/

[101] 3 af hverjum 4 eiga MySpace eða Facebook. Muninn, 81. árg., 2. tbl. 2007-2008, bls. 89.

[102] 70.000 myndskeið á sólarhring. Morgunblaðið. 237. tbl 94. árg. 2. september 2006, bls. 53.

[103] 89 prósent Íslendinga nota Facebook. DV. 29. maí 2015. http://www.DV.is/frettir/2015/5/30/89-prosent-islendinga-nota-facebook/ Sótt 17.11.2015.

[104] Ágúst Valgeirsson: Hvar er sjónvarpið mitt og hvert er það að fara? Tölvumál, 1. tbl. 36. árg, 2011, bls. 30. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf Sótt 14.11.2015.

[105] www.visir.is/paper/serblod/SD130717.pdf Sótt 24.2.2018.

[106] Ýmir Vigfússon: En hvað eru tölvuský? Tölvumál, 15. september 2011. http://www.sky.is/index.php/toelvumal/item/1596-en-hva%C3%B0-eru-t%C3%B6lvusk%C3%BD?

[107] Skýið veitir meira frelsi. Morgunblaðið – Viðskiptablað. 30. júní 2011. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1383770/?item_num=59&searchid=4ccae7f8674791400c0a3195991688878ad779f2

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] http://www.ut.is/fraedsla/tolvusky/ Sótt 21.11.2015.

[112] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[113] Sama heimild.

[114] Helgi Ö. Viggósson: Viðskiptagreind. Þekking nýtt í rauntíma. ­„Er greind í gögnunum?“ Hádegisfundur hjá Ský 9. maí 2012. http://www.sky.is/images/stories/2012_SkjolOgMyndir/14_Vidskiptagreind/Vidskiptavinagreind.pdf

[115] http://www.mbl.is/greinasafn/grein/73023/ Sótt 30.4.2016.

[116] Landsbankinn fjármagnar Thor Data Center. Morgunblaðið, 26.4.2011. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2011/04/26/landsbankinn_fjarmagnar_thor_data_center/ Sótt 21.11.2015.

[117] Af vef Advania: https://www.advania.is/um-advania/fjolmidlar/frettir/frett/2012/04/17/Norraen-ofurtolva-hja-Advania-Thor-Data-Center/

[118] Af vef Advania: https://www.advania.is/um-advania/fjolmidlar/frettir/frett/2013/04/30/Opera-storeykur-vidskiptin-vid-gagnaver-Advania/ Sótt 21.11.2015.

[119] Verne Global og Advania gera samning upp á 1,5 milljarða. Víkurfréttir, 35.tbl. (19.09.2013) 34.árg, bls. 1.

[120] Af vef Advania: https://www.advania.is/um-advania/fjolmidlar/frettir/frett/2014/05/05/Advania-undirbyr-nytt-gagnaver-i-Reykjanesbae/ Sótt 21.11.2015.

[121] Gagnaverið tafðist vegna hrunsins. Dagblaðið VísirDV. 121. tbl. (02.09.2009), bls. 26.

[122] Suðurnesjarokið kælir þúsundir tölva. Víkurfréttir. 6. tbl. 33. árgangur 2012.

[123] http://ok.is/is/um-okkur/frettir/464-30-ara-afmaelisradhstefna-opinna-kerfa

[124] http://www.ut.is/fraedsla/opinn_hugbunadur/

[125] Bjarni R. Einarsson: Frjáls hugbúnaður í Menntaskólanum í Reykjavík. Tölvumál, 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 28. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf

[126] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[127] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10. 2015.

[128] Þórhildur Hansdóttir Jetzek: Hvernig fáum við fleiri konur í upplýsingatækni? Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 23. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf

[129] Sama heimild.

[130] http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3410/4398_view-3716/ Sótt 22.4.2016.

[131] Dæmi um frétt um netkaffihús úti á landi frá 2003 er þegar netkaffi var opnað á Stöðvarfirði: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/739792/

Þegar tveir áratugir voru liðnir frá upphafi tölvualdar á Íslandi má segja að tölvutæknin hafi staðið á tímamótum. Stöðlun stýrikerfa hófst og þar með framgangur risans Microsoft. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir vexti og viðgangi einkatölvunnar á heimsvísu.

Árið 1985 var mikið talað og skrifað um tölvutækni, Íslendingar höfðu nýverið uppgötvað einkatölvuna, námskeið voru víða haldin í meðferð hennar, ungt fólk var komið á kaf í að skrifa hugbúnað fyrir tölvur og jafnvel að selja hann til útlanda. Sífellt fleiri keyptu tölvur, stór og smá fyrirtæki, opinberar stofnanir og einstaklingar, eftir að tollar á tölvum voru felldir niður og söluskatturinn lækkaður verulega.

Tölvunet urðu til víðs vegar um heiminn, einkum hjá mennta- og rannsóknastofnunum, og fljótlega var farið að tengja þau saman í það net sem sem síðar þróaðist og varð almenningseign. 

Opinberir aðilar fóru að fikra sig í áttina að notkun á samtengdum einkatölvum (PC) í stað stór- og miðtölva; spurningin var hvorn valkostinn skyldi velja. Landsvirkjun var meðal þeirra sem völdu að kaupa einkatölvur í stað þess að nota stórtölvu og valdi því dreift tölvukerfi í stað miðstýrðs. Í því fólst líka að hægt var að kaupa tölvubúnað af hverjum sem væri, í stað þess að vera háður einum, stórum aðila.

Mjög ör þróun var í vinnslugetu tölvanna og brátt voru starfsmenn komnir með einkatölvur með 4 MIPS (millions instructions per second) hver, en miðtölvan/smátölvan VAX-11/780 frá Digital sem þessar mörgu PC-tölvur leystu af hólmi hafði verið 1 MIPS.[1] Á móti kom ör þróun annarra tölva en PC-nettengdu tölvanna. Það var valkostur sem margir litu hýru auga. Þetta voru fjölnotendatölvur sem hægt var að tengja við bæði skjái og annan búnað og Digital bauð upp á tímaskiptakerfi (time sharing) sem einnig var góður kostur fyrir sum fyrirtæki.

Samfélagslegt umrót, óðaverðbólga og svonefnt misgengi launa og skulda settu svip sinn á níunda áratuginn en um lok hans var gerð „þjóðarsátt“ í því skyni að stöðva víxlhækkanir launa og verðlags. Tíundi áratugurinn heilsaði með dálítilli efnahagskreppu hér á landi, á Norðurlöndum og víðar. Atvinnuleysi fór um stund vaxandi víða um land. En þetta var einnig tími nýrra hugmynda og trúar á afléttingu íþyngjandi regluverks. Trú sem að sumu leyti þróaðist upp í ofurtrú. Einkavæðing hófst á ýmsum sviðum samfélagsins. Ísland varð hluti af innri markaði ESB (þá EB) í gegnum EES og íslensk fyrirtæki mættu bæði aukinni samkeppni og tækifærum.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1985–1994

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Stórtölvur – runuvinnsla, beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvur, fjarvinnsla. Margir notendur, margir viðskiptamenn; miðtölvur – margir notendur sem voru líka viðskiptamenn; beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvu. Einkatölvur – einn notandi, mikill sveigjanleiki; samtenging einkatölva. Einkatölvur notaðar sem skjástöðvar við stórtölvur; stórtölvuhugbúnaður „fluttur á einkatölvur“ (servera). Biðlara-miðlaraumhverfið.

Forritunarmál þessa tíma voru: Fortran, Basic, LISP, Smalltalk, Clipper, RPG, PL/1, Natural.

Gagnagrunnar: Ýmsir venslaðir gagnagrunnar. Gögn á diskum, diskettum og segulböndum, ADABAS, Oracle, Informix. NorskData.

Stýrikerfi: MS-DOS, Windows 2.x, Windows 3.x, Windows NT, SunOS 2.x, SunOS 3,x, Version 8-9 Unix, OS/2, RISC OS, Linux 1.x, Linux RedHat.

Vafrar: Mosaic, Netscape Navigator, Internet Explorer.

Framtíð falin í hugbúnaðariðnaði?

Á ráðstefnu sem Alþýðubandalagið stóð fyrir haustið 1985 undir heitinu „Ný sókn“ flutti Páll Jensson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans, erindi þar sem hann ræddi meðal annars framtíðarhorfur í íslenskum rafeindaiðnaði. Hann taldi að yrði rétt haldið á málunum gætu þúsundir haft atvinnu af hugbúnaðariðnaði um næstu aldamót en ráðamenn virtust ekki átta sig á möguleikum tölvutækninnar í nýsköpun atvinnulífsins. Markaður fyrir hugbúnað stækkaði um fjörutíu prósent á hverju ári og í nágrannalöndunum væri milljörðum króna varið til þróunarstarfs og markvisst stefnt að því að gera tölvuiðnað að nýrri atvinnugrein. Hér á landi væri hún ekki til sem slík í opinberum skýrslum, þótt um þær mundir störfuðu tvö til þrjú hundruð manns við hugbúnaðargerð á Íslandi:

Þessi tala vex undra hratt eða líklega um fjórðung milli ára, sem þýðir um tíföldun eða eina stærðargráðu á hverjum áratugi. Fyrir tuttugu árum var greinin ekki til, fyrir tíu árum taldi hún nokkra tugi manna, og með sama vexti nokkur þúsund árið 1994. Erum við þá virkilega að tala um atvinnumöguleika fyrir nokkra tugi þúsunda upp úr næstu aldamótum?[2]

En mikilvægt væri að bregðast við: „Ef ekki, þá höfum við misst af tækifærum, sem allar nágrannaþjóðir okkar munu grípa, og valið okkur sess meðal láglaunaðra og vanþróaðra ríkja heims.“

Tölvusetning blaða hefst

Ýmislegt var þó að gerast á Íslandi, sem gat gefið von um að innlendur hugbúnaðariðnaður ætti sér von. Þannig vakti fyrirtækið Rafrás hf. athygli þetta haust fyrir þýðingar- og samskiptaforrit, hannað í samvinnu við Raunvísindadeild Háskólans, sem gerði kleift að flytja texta sem sleginn hafði verið inn á tölvu beint inn í setningarbúnað prentsmiðju. Þessi bylting átti eftir að hafa mikil áhrif á alla vinnu í prentsmiðjum. Frá því fjögur dagblöð sameinuðust um rekstur prentsmiðjunnar Blaðaprents, árið 1970, höfðu þau verið unnin í svonefndri offsettækni. Hún var að vissu leyti byggð á tölvutækni, en allur texti þó hamraður á ritvélar, síðan sleginn inn á setningarvél sem færði hann inn á gatastrimil og svo þræddur í gegnum „rafmagnsheila“ sem spýtti textanum út úr sér á ljósnæmum pappír. Textaræmurnar voru að lokum skornar niður í hæfilegar lengdir og límdar inn á síðurnar, sem voru yfirfærðar á sérstakar plötur og þær að lokum settar á rúllur prentvélanna.[3]

Öllum þessum handtökum átti tölvutæknin eftir að útrýma. Áratug eftir að Blaðaprent tók til starfa, í kringum 1980, voru blaðamenn farnir að slá textann beint inn á tölvur. Það féll í misgóðan jarðveg meðal lærðra prentara og í málgagni þeirra, Prentaranum, voru þessari nýju tækni gerð góð skil árið 1979 (5.–8. tbl.). Haft var eftir skólastjóra sænska blaðamannaskólans, Lars Furhoff, að reynslan hefði verið „vægast sagt ömurleg“. Það var niðurstaða hans eftir hálfsmánaðardvöl hjá bandaríska stórblaðinu New York Times, þar sem blaðamenn hefðu að miklu leyti tekið yfir störf prentara. Útlit blaðsins hefði versnað til muna, efni blaðsins væri allt óvandaðra og verr unnið og blaðamennskan öll yfirborðskenndari. Sala blaðsins og auglýsinga í það hefði minnkað verulega.[4] Sums staðar á Norðurlöndum urðu tafir á þessari þróun en hér á landi völdu stéttarfélögin að ganga til samvinnu við útgefendur um innleiðingu nýrrar tækni.

Norsk Data á Íslandi

Morgunblaðið og síðar DV og Vikan notuðu útgáfukerfi frá Norsk Data á níunda áratugnum. Upphaflega var kerfi frá Norsk Data notað til að halda utan um textavinnslu og gögn með uppflettimöguleikum og þótt það mikið nýnæmi, eins og lesa mátti í Morgunblaðinu 2. nóvember 1983.

Þetta kerfi býður í framtíðinni upp á fleiri möguleika við textavinnsluna, til dæmis getur kerfið tekið við greinum, sem hafa sögulegt gildi og nauðsyn er á að geyma. Þessar greinar mun tölvan skrá í sérstakt safn, er síðan er hægt að leita í út frá ýmsum lykilorðum eða nöfnum. Ennfremur er unnt að geyma inn í þessu kerfi ýmsar upplýsingar, sem koma blaðamönnum að notum við frétta- og greinaskrif. Aðrir möguleikar, sem gefast munu í framtíðinni er útlitsteiknun á skerma, en allt slíkt er handvirkt enn í dag.[5]                                                                                                                    

Augljóslega sá greinarhöfundur ekki fyrir sér að allar greinar yrðu varðveittar og aðgengilegar innan tveggja áratuga né fleira sem fylgdi þeirri byltingu sem fyrir höndum var. Norsk Data á Íslandi var á þessu tímabili til en varð ekki langlíft og mest var skipt beint við Norsk Data í Noregi.

Metnaðarfull tilraun með ADA-þýðanda

Nokkrir Íslendingar reyndu á þessum tíma að hasla sér völl erlendis á sviði hugbúnaðariðnaðar. Ein þeirra tilrauna var markaðssetning erlendis á fyrsta forritaþýðanda forritunarmálsins ADA á vélamál, sem einkatölvur skildu. ADA var upphaflega skrifað fyrir bandaríska varnarmálaráðuneytið og sniðið fyrir stórtölvur. Þarna voru á ferðinni Vilhjálmur Þorsteinsson og félagar hans hjá Íslenskri forritaþróun. Þeir stofnuðu árið 1985 nýtt fyrirtæki, Artek, sem hafði það verkefni eitt að vinna að þessum forritaþýðanda. Því var hrundið af stað með hjálp Frumkvæðis hf., sem hafði beinlínis verið stofnað í þeim tilgangi að hjálpa nýjum fyrirtækjum í hugbúnaðariðnaði, með því að leggja fram áhættufjármagn og draga sig svo út úr fyrirtækjunum þegar rekstur þeirra væri kominn vel á veg. Félagarnir voru stórhuga, auglýstu í erlendum tölvutímaritum, áætluðu að stofna útibú í Bandaríkjunum og stefndu á að selja þúsund þýðendur en 200 hefðu dugað til að fá til baka þróunar- og auglýsingakostnað.[6]

Artek hóf útflutning vorið eftir, fyrst til Bandaríkjanna, og hafði þar einn starfsmann en síðan fór afurðin að seljast í Evrópu og fyrirtækið opnaði skrifstofu í Frakklandi þar sem sex menn einbeittu sér að sölumennskunni. Franska menntamálaráðuneytið undirritaði samning um kaup á hugbúnaðinum fyrir þarlenda háskóla og yfirvöld í öðrum Evrópulöndum íhuguðu málið. „Við gerðum okkur grein fyrir því að hugbúnaður okkar væri nokkuð á undan tímanum þegar hann kom á markað,“ sagði Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður og forritari við Morgunblaðið, og hélt áfram: „Nú er markaðurinn að vakna og þá er mikill akkur í því að vera þekkt nafn.“ [7]

Þrátt fyrir góðar viðtökur erlendis reyndist markaðssetningin of kostnaðarsöm svo gripið var til þess að bjóða Artek til sölu erlendis og samið við bandaríska fyrirtækið Lattice um markaðssetningu. Áætlanir voru uppi um að auka hlutafé í Artek og styrkja stöðu þess hér á landi.[8] Vilhjálmur rifjaði upp 28 árum síðar að þeim hefði tekist ljúka þessu þannig að fjárfestarnir hefðu sloppið þokkalega skaðlausir frá því:

En þetta varð ekki sú sigurganga sem sumir höfðu spáð. Ég held samt að í prinsippinu hefðum við alveg getað náð þessu. Sum félaganna sem við vorum að keppa við voru ekkert stærri en við eða öflugri, útaf fyrir sig, í starfsmannafjölda, tæknilegri getu eða slíku. Það sem hinsvegar háði okkur á þessum tíma var að okkur vantaði útflutningsþekkingu, menn kunnu ekki á þetta, að starfa erlendis. Það vantaði lögfræðiþekkingu og þekkingu á markaðssetningu, menn […] kunnu ekki að gera áætlanir, vissu ekki hvað hlutirnir kostuðu. En þetta hefur alveg gjörbreyst. Það tók alveg áratug að læra á þetta. Svo komu fyrirtæki eins og Oz, sem fóru í gegnum þetta allt, fengu peninga erlendis, réðu fólk erlendis, gerðu samstarfssamninga, og upp úr þessu hafðist gríðarleg þekking, sem fór svo víða og fólkið úr Oz stofnaði ný félög, hvaða skoðun sem maður svo hefur á Oz.[9]

Frá TölvuMyndum til TM Software

Árið 1986, þegar mikið var að gerast í tölvutækni á Íslandi, stofnuðu tveir ungir menn, Friðrik Sigurðsson og Bjarni Júlíusson, hugbúnaðarfyrirtækið TölvuMyndir. Þeir sérhæfðu sig í hönnun tölvukerfa með myndræna framsetningu og lögðu „ennfremur mikla áherslu á hönnun og forritun gagnasafnskerfa, ýmist til stuðnings myndbirtingar eða stakra kerfa“.[10] Eitt af fyrstu verkefnum þeirra var að sjá um tölvugrafík í fyrsta kosningasjónvarpi Stöðvar 2 og sagði Friðrik rúmum þrjátíu árum seinna að það hefði vissulega ýtt þeim úr vör. Bjarni hvarf til annarra starfa en Friðrik hélt áfram rekstri TölvuMynda. TölvuMyndir urðu brátt stórveldi á íslenskum tölvumarkaði og Friðrik Sigurðsson lyfti grettistaki í þróun fyrirtækisins, í því rekstrarumhverfi sem var á Íslandi fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu.[11]

Upp úr þessu skrifuðu Friðrik og Bergþór Skúlason, sem vann einnig við þetta kosningakerfi, lítið PC-forrit sem hét Þjóðráður og var sett á markað. Ef slegnar voru inn kosningatölur eða -spár reiknaði það út hverjir næðu kjöri og unnt var að „leika sér“ með þessa útreikninga líkt og gert var í kosningasjónvarpi. Þetta forrit seldist allvel, meðal annars keyptu það þingmenn og fjölmiðlamenn. Friðrik segir að þarna hafi hann áttað sig á því að unnt væri að skrifa forrit og selja á Íslandi.

Áratug síðar kom Burðarás inn sem hluthafi í TölvuMyndum. Í framhaldi var ákveðið að færa fyrirtækið inn í Skyggni, sem var hýsingarfyrirtæki. Skyggnir var að jöfnu í eigu Burðaráss hf., sem var aftur í eigu Eimskips, og Strengs hf., hugbúnaðarhúss. Með sameiningu þessara fyrirtækja rann aukið fé inn í hugbúnaðariðnaðinn en áður höfðu peningamenn ekki sýnt eins mikinn áhuga á að fjárfesta þar.[12] Rekstur hugbúnaðarfyrirtækisins gekk vel næsta áratuginn og það sótti á erlenda markaði; hafði starfsstöðvar í tólf löndum árið 2005. Nauðsynlegt þótti að breyta nafninu og gera það alþjóðlegt og TM Software varð fyrir valinu. Undir því voru sameinuð allmörg dótturfyrirtæki TölvuMynda, sem einbeittu sér hvert um sig að gerð hugbúnaðar fyrir ákveðin svið, lausnir fyrir sjávarútveg, upplýsingakerfi á heilbrigðissviði, hugbúnað fyrir fjármálafyrirtæki og veitukerfi.[13] Árið 2006 voru starfsmenn orðnir 450 og viðskiptavinir 1800. En á seinni hluta þess árs vildi einn af eigendunum selja eina einingu fyrirtækisins en Friðrik ekki. Hann ákvað því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri en TM Software rann fljótlega að mestu leyti inn í Nýherja.[14]

Hér er hins vegar ástæða til þess að staldra við og spyrja hver geti verið skýringin á því að þessi nýja atvinnugrein, hugbúnaðargerð, blómstraði í höndunum á þeim TölvuMyndamönnum. Friðrik Sigurðsson skýrir það svo og byggir á langri reynslu:

Hugmyndafræðin var að ná stöðu á íslenska markaðnum, skilja hann og ná síðan stöðu á erlendum markaði. Þetta virkaði því ef við hefðum ekki gert þetta þyrfti okkar fólk að vinna við erlend kerfi og skapa verðmæti fyrir aðra. Það er ekkert mál að hafa fullt að gera við innleiðingu kerfa frá öðrum löndum, en í staðinn sköpuðum við mikil verðmæti innanlands. TölvuMyndir uxu upp í 450 manna fyrirtæki, langstærsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi og var alla tíð langstærsti vinnustaður tölvunarfræðinga á Íslandi.[15]

Haustið 1991 var áætlað að um fjörutíu fyrirtæki væru starfandi í hugbúnaðariðnaði með um þúsund manns í vinnu. Í september tóku um tuttugu þeirra sig saman og stofnuðu Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja til þess að vinna að hagsmunamálum hugbúnaðariðnaðar á Íslandi og stuðla að eflingu hans, innanlands sem utan. Formaður samtakanna var kosinn Friðrik Sigurðsson hjá TölvuMyndum og Morgunblaðið hafði eftir honum að atvinnugreinin hefði ekki notið aðstoðar né fyrirgreiðslu af nokkru tagi og því mikilsvert að stofna eigin hagsmunasamtök. Fyrsta verkefni samtakanna átti að vera að fá viðurkenningu stjórnvalda á því að hugbúnaðargerð væri iðnaður.[16]

Tölvuvæðing í þágu landbúnaðarins

Nýting tölvutækni í þágu landbúnaðarins bauð upp á ýmsa möguleika og langt er síðan bændur tölvuvæddust. Búreikningastofa landbúnaðarins í Bændahöllinni tók tölvutæknina í sína þjónustu á sjöunda áratugnum. Hvernig kom þetta vinnuumhverfi Þorbjörgu Oddgeirsdóttur fyrir sjónir, er hún kom úr verslunarnámi í Edinborg seint á sjöunda áratugnum?

Þegar ég kem heim frá Edinborg árið 1968 má segja að það sé lítil kreppa hér og það var ekki auðvelt að fá vinnu. […] Góð vinkona mín vann á Búreikningastofu landbúnaðarins og hún lét mig vita að það vantaði starfskraft í tölvuskráningu. Ég sótti um og fékk starfið. Við vorum tvær í götunardeildinni, við skráðum upplýsingar á löng gataspjöld. Það fyrsta sem við skráðum voru sauðfjárskýrslur og hrútaskýrslur ásamt bókhaldi bænda.

Á þessum tíma var tölvuvæðing Búnaðarfélags Íslands að byrja. Ég var tvítug þegar ég kom hingað til starfa og var langyngst á vinnustaðnum. ... eldri starfsmönnum þótti það algjör firra að ráða inn tvær stelpur og koma með eitthvert tæki fyrir þær að vinna á. Þetta var hugarfarið í þá daga en Ketill A[rnar] Hannesson, yfirmaður búreikningastofunnar og Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur, sem við unnum náið með, voru mjög almennilegir alla tíð.

Móðurtölvan hjá Mjólkursamsölunni

Á þessum árum voru um fjörutíu starfsmenn í Bændahöllinni og segir Þorbjörg starfsemina hafa líkst umhverfinu sem er í dag með tilkomu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML).
„Ketill var sá sem forritaði allt en við þurftum að vinna allt í móðurtölvu úti í bæ sem var fyrst staðsett hjá IBM en lengst af hjá Mjólkursamsölunni við Laugaveg þar sem við vorum með aðstöðu. Við þurftum að fara með öll gataspjöldin þangað en síðan breyttist það og stór tölva kom með stórum floppídiskum á undan stóru PC-tölvunum,“ útskýrir Þorbjörg og segir jafnframt:

Við vorum með aðstöðu á annarri hæðinni í Bændahöllinni þar sem jafnframt var kaffistofa fyrir starfsmenn eftir að Upplýsingaþjónusta ameríska hersins og bókasafn þeirra flutti út úr húsi. Við vorum hluti af tölvudeild fyrirtækisins. […] Hér voru reiknaðar út jarðræktarskýrslur og hér var líka Vélasjóður sem var með skurðgröfumenn í vinnu úti um allt land og var í nánu samstarfi við ræktunarsamböndin.[17]

Þá er vert að geta um sláturhúsakerfi Marels sem breytti aðstæðum í allri vinnslu í sláturhúsum.

Sjávarútvegurinn og framþróunin – Hafró í fararbroddi

Tölvubúnaður, bæði vél- og hugbúnaður, var snemma snar partur í framþróun sjávarútvegsins. Hafrannsóknastofnun hefur oft komið við sögu í íslenskri tölvuvæðingu. Þar á bæ voru áhugasamir einstaklingar sem skildu vel möguleika tölvanna. Á níunda áratugnum var Þorkell Helgason stærðfræðingur að vinna fyrir Hafró við gerð líkana sem mátu stærð og þróun þorskárganga.[18] Í Þjóðviljanum í janúar 1984 er viðtal við Þorkel í kjölfar fundar Líffræðingafélagsins og Hafró. Þar kemur fram að unnið hafði verið að gerð ítarlegs reiknilíkans af fiskistofnum og fiskveiðum hér við land á vegum nokkurra stofnana um fjögurra ára skeið. Fremstar í flokki í þeim hópi voru Raunvísindastofnun Háskólans og Hafrannsóknastofnun. Á þessum tíma var ofveiði, einkum á þorski, mjög til umræðu hér á landi og skammt í að kvótakerfið yrði sett á. Þorkell segir um notagildi líkansins í viðtalinu: 

Þorkell.Helga.veidar
Frétt Þjóðviljans um hugbúnað fyrir stjórnun fiskveiða, Þorkell Helgason á kynningarfundi.

Reiknilíkön eru til þess að prófa hugmyndir. Ekki til þess að taka með þeim ákvarðanir, það er verkefni stjórnmálamannanna. Hinn eini sannleikur fæst kannski ekki með því einu að láta tölvu reikna fyrir sig […] . Það má sem dæmi nefna, að hægt er að spá nokkur ár fram í tímann um þorskafla og afkomu þorskveiðiflotans að gefnum forsendum um stærð, samsetningu og gerð fiskiskipaflotans. Ennfremur má prófa áhrif ýmissa breytinga á fiskiveiðistjórn, svo sem aukningu eða minnkun á skrapdagakerfinu eða áhrif á möskvastærðarbreytingar. Þá hefur verið unnið að útvíkkun á reikniaðferðum við stofnstærðarmat og mælingu sóknar. Hefur þar verið beitt tölfræðilegum aðferðum sem gerir það m.a. kleift að áætla óvissu í stofnstærðarmati. […] reynt hefur verið að áætla stærð fiskigangna frá Grænlandi, en óvissa um þessar göngur veldur vandamálum við allt mat á stofnstærð.[19]

Skrifstofuhugbúnaður

Margt af þeim hugbúnaði sem fluttur var inn, aðlagaður eða jafnvel skrifaður frá grunni á Íslandi flokkast undir það sem kalla má skrifstofuhugbúnað og margir voru um hituna á þeim markaði. Ritvinnsla og töflureiknar voru hluti af honum, einnig utanumhald á skjölum og ýmsir fleiri eiginleikar, stundum mismunandi milli hugbúnaðarkerfa en oft og tíðum með áþekka virkni, enda þarfirnar þekktar.

ALL IN 1 skjámynd 1990
Skjámynd af ALL-IN-1 hugbúnaðinum frá Digital (KÓS) frá seinni hluta 9. áratugarins fram yfir 1990

ALL-IN-1 frá Digital var hugbúnaður frá Kristjáni Ó. Skagfjörð og var sterkur á markaði á árunum kringum 1990. KÓS lét laga hugbúnaðinn að íslenskum aðstæðum. Sigurður G. Tómasson var fenginn til þess að þýða notendaviðmótið á íslensku. Kerfið fól í sér tölvupóst, dagatal og tímaskipulag, addressubók, ritvinnslu og skjalavörslu. Auk þess mátti innlima utanaðkomandi kerfi í ALL-IN-1, til dæmis töflureikna, sem fylgdu ekki með kerfinu.

Ritvinnslukerfið frá Digital (WPS-PLUS) hentaði ekki íslenskunni og því var brugðið á það ráð að kaupa þýskt kerfi (DECtext) sem leyfði nauðsynlegar breytingar. Þarna var í mörg horn að líta. Gísli Már Gíslason vann til að mynda við að kenna forritinu að skipta orðum milli lína samkvæmt íslenskum reglum. Töflureiknir sem fylgdi íslensku útgáfunni var 20/20 frá Access Technology.

Meðal þeirra sem notuðu þetta kerfi var Vegagerðin sem nýtti það með tengingu við margar útstöðvar stofnunarinnar. Kerfið var einnig notað í Seðlabanka Íslands. Skjáirnir sem notaðir voru sýndu eingöngu texta; grafískir skjáir komu ekki fyrr en síðar.[20]

Töflureiknar fyrir tíma Excel
Visicalc-töflureiknirinn fyrir Apple-einkatölvur kom fyrst fram á sjónarsviðið hér á landi árið 1981. Fyrstu auglýsingunum um þennan hugbúnað var sérstaklega beint til þeirra sem áttu viðskipti við tollvörugeymsluna. Það var Radíóbúin sem auglýsti þennan hugbúnað svona:

tollvorugeymslan
Apple-tölvur með margvíslegum hugbúnaði sem gagnast við erfiðar aðstæður. Auglýsingin birtist í ýmsum myndum frá 1981.

VERSLARÐU VIÐ TOLLVÖRUGEYMSLUNA?

Þá átt þú erindi við Apple-tölvuna.

Ert þú að dragast afturúr bara af því þú hefur ekki tölvu? Klukkustundir verða að mínútum. Allir kannast við pappírsflóðið, sem fylgir Tollvörugeymslunni og alla vinnuna. Það er því ómetanlegt að hafa möguleika á að útbúa nauðsynleg gögn til úttektar á sem skemmstum tíma.

Ert þú einn þeirra sem segir við viðskiptavin. „Ég gat ekki afgreitt þetta í dag, þetta er nefnilega inni í Tollvörugeymslu“, og viðskiptavinurinn fer ef til vill annað? Hefur þú efni á því?

Ein af þeim lausnum sem fylgdu Apple-tölvunni til að leysa þetta mál var einmitt töflureiknirinn Visicalc. 

Árið 1983 má fyrst sjá merki þess að töflureiknirinn Multiplan fyrir PC-tölvur hafi hafið innreið sína á Íslandi. Það ár er tölvan Panda 64 auglýst í Frjálsri verslun og sérstaklega tekið fram í auglýsingu frá I. Pálmason að hún sé búin Multicalc fyrir áætlanagerð. Þess er getið í auglýsingunni að um erlendan hugbúnað sé að ræða.[21] Verslunin Benco auglýsti ári síðar NEC-APC-tölvur, 16 bita einkatölvu með 2,4 milljóna stafa diskarými með Multicalc, í sama blaði.[22] En það var ekki nóg að bjóða upp á töflureikni, það þurfti líka að kunna að nota hann.

Tölvuskólinn Tölvufræðslan auglýsti í Frjálsri verslun árið 1985 námskeið í töflureikninum Multiplan með svohljóðandi texta:

Töflureiknarinn

MULTIPLAN

Notkun töflureikna er að verða mjög útbreidd við skýrslugerðir, fjárhagsáætlanir og rekstraráætlanir. …

Námskeiðið veitir góða æfingu í notkun töflureiknisins Multiplan og áætlanagerð í litlum fyrirtækjum.[23]

Bókhald – þegar fundur hjá sáttasemjara gat gerbreytt kerfinu
Bókhaldsforrit, hvort sem voru birgða- eða launabókhald eða annað bókahald, voru af ýmsum stærðum og gerðum, íslensk og erlend og bæði stakstæð og með tengingu í önnur forrit. Það gerði mönnum oft erfitt fyrir við að tölvuvæða launabókhald hversu miklar breytingar gátu verið gerðar á kröfum til bókhalds, forsendum og því sem ætlast var til að haldið væri utan um. Þetta var að nokkru leyti séríslenskt fyrirbrigði og á ofanverðum níunda áratugnum var ekki einungis tekin upp staðgreiðsla skatta, heldur gerðar margháttaðar breytingar sem meðal annars gátu gerbreytt öllum forsendum í launakerfum. Félagarnir Ágúst Guðmundsson og Eggert Claessen hjá Tölvumiðlun fluttu til að mynda inn erlent launakerfi á árinu 1988 og fóru út í að aðlaga það íslenskum aðstæðum. Þegar varan var orðin fullmótuð og „stabíl“ kom upp eitt og annað sem kallaði á breytingar. Næturlangir fundir hjá sáttasemjara gátu gerbreytt forsendum í kerfinu og þingfundur á milli jóla og nýárs, með mikilvægum lagabreytingum, aftur kollvarpað því sem var búið að setja inn í það. Tvö skattþrep og breytingar á þeim voru flækjustig sem einnig útheimti yfirlegu og forritunarkunnáttu. Þeir sem ekki voru með forritara á sínum snærum duttu út úr samkeppninni og hækkuðu þröskuldinn fyrir aðra sem vildu hasla sér völl á sama sviði.[24] Hugbúnaðurinn H-laun var ein af lausnunum sem voru þróaðar til að mæta þessum aðstæðum, en hann var sérhæfður fyrir launaútreikninga.

Landupplýsingakerfi – svo hver og einn þyrfti ekki að grafa eigin skurð

Upphaf samvinnu um Landupplýsingakerfi Reykjavíkur var samstarfsverkefni borgarverkfræðings, rafmagnsveitunnar, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og símans. Gagnaveitan bættist við síðar. Samsýn annaðist sölu og þjónustu við kerfið. Síðar kom Borgarvefsjáin, notendaviðmót byggt á vafra sem geymir ekki gögn en sækir í fyrrgreint kerfi.[25]

Þegar farið var að huga að samræmingu á vinnu símans, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og rafmagnsveitunnar, sem hver um sig hafði eigin teikningar fyrir lagnir, komu skipulagsyfirvöld í Reykjavík einnig inn í myndina. Þetta var ákveðið að samræma svo borgin yrði ekki útgrafin og hver og einn þyrfti að grafa sinn eigin skurð fyrir sínar lagnir. Á stórsýningu tölvunarfræðinema við Háskóla Íslands í nýbyggingu Borgarleikhússins í október 1986 var landsupplýsingakerfið fyrst sýnt og vakti myndræn framsetning á Reykjavíkurborg mikla athygli.[26]

Leitað var fanga erlendis og skoðuð kerfi sem gætu hentað fyrir Ísland, til dæmis með tilliti til aldursdreifingar. Horfa þurfti fram í tímann og átta sig á því hvernig líklegt væri að standa þyrfti að uppbyggingu á leikskólum og skólum svo eitthvað sé nefnt. Kerfi frá ESRI í Kaliforníu, Arc/Info var valið. Efnt var til útboðs og var HP á Íslandi falið að sjá um vélbúnaðarhluta kortaupplýsingakerfisins 1990.[27] Borgarvefsjáin, sem löngu síðar kom fram, er af sama toga og geymir margs konar landupplýsingar.

Tölvuráðgjöf og fagmennska

Fáar greinar hafa vaxið jafnhratt og upplýsingatæknigeirinn. Á fyrstu áratugunum voru oft hlutfallslega hærri upphæðir í húfi fyrir fyrirtæki og stofnanir við val á tölvubúnaði en nú. Því fóru menn að leita ráðgjafar við val á tölvubúnaði og upp spratt umræða um fagmennsku á því sviði.

Í Tölvumálum Skýrslutæknifélagsins í ársbyrjun 1988 er þetta mál á dagskrá. Þá ritar Stefán Ingólfsson verkfræðingur um þörfina á því að koma á fót fagfélagi tölvuráðgjafa og segir meðal annars:

Þeir sem kalla sig tölvuráðgjafa eiga ekki nema nafnið sameiginlegt. Í hópi þeirra eru margir hæfir menn sem hafa mikinn starfsmetnað og hafa skilað góðu starfi. Aðrir kalla sig ráðgjafa í tölvumálum þó að störf þeirra eigi lítið sammerkt með ráðgjöf. Oft er um illa dulbúna sölumennsku að ræða. …

Aðili, sem leitar ráða hjá sérfróðum aðila um hvernig hann geti best komið tölvumálum sínum verður að geta treyst því að ráðgjafinn eigi ekki hagsmuna að gæta. Þessi hagsmunatengsl eru af ýmsum toga. Augljósust eru þau að sjálfsögðu þegar “ráðgjafi“ mælir með því að keyptur sé tölvubúnaður sem hann flytur sjálfur inn eða notað tölvukerfi sem hann eða fyrirtæki hans hafa hannað. Sama máli gildir þegar “ráðgjafinn“ tekur við þóknun frá tölvuinnflytjenda.[28]

Þessi orð ritaði Stefán í tilefni af því að á komandi aðalfundi Skýrslutæknifélagsins átti að fjalla um efnið og Halldór Kristjánsson, þá nýlega orðinn stjórnarmaður í Skýrslutæknifélaginu, hélt erindi um málefnið. Halldór hafði komist á snoðir um að þvíumlík vinnubrögð væru alsiða. Væri þessi raunin taldi hann að ekki væri hægt að tala um óháða ráðgjöf, en ekki varð hann sérlega vinsæll fyrir vikið. Í framhaldi af umfjöllun hans voru settar reglur um ráðgjöf af þessu tagi fyrir ríkisstofnanir og hann fékk að heyra að hann væri kallaður „Halldór heiðarlegi“ og þá ekki til hróss. „Ég var ungur og prinsippmaður,“ segir Halldór, en hann gladdist yfir því að þessi vinnubrögð voru aflögð.[29]

Í næsta tölublaði Tölvumála er umfjöllun Halldórs sjálfs um málið þar sem hann segir meðal annars:

Æ oftar heyrast þær raddir að óeðlilegt sé að sama fyrirtækið sé ráðgefandi og eigi síðan þátt í sölu vél- eða hugbúnaðar beint eða óbeint. Þetta valdi hagsmunaárekstrum sem oftar en ekki bitna á viðskiptamönnum þess. Því miður er margt sem bendir til þess að tölvuráðgjöf hér á landi eigi lítið skylt við hefðbundna ráðgjöf sem tíðkast hefur hér á landi um langan aldur og til dæmis verkfræðistofur og rekstrarráðgjafar veita. Þegar fyrirtæki leitar til ráðgjafa ætlast það til þess að fá faglega úttekt á þörfum sínum og ráðgjöf um val á leiðum til að leysa tiltekin vandamál eða verkefni.[30] 

Halldór bendir í grein sinni á betri vinnubrögð, sem myndu felast í eftirfarandi skrefum:

 1. Þarfagreiningu fyrirtækis.
 2. Úttekt á leið leiðum sem til greina koma.
 3. Þarfagreiningu deilda og starfsmanna.
 4. Tillögu um uppbyggingu kerfis (skýrslu).
 5. Útboði
 6. Mati á útboðum
 7. Samningagerð og pöntun
 8. Eftirliti
 9. Eftirfylgni, fylgst með þróun tölvumála innan fyrirtækis.[31]

Í kjölfar erindisins og greinarinnar var umfjöllun í viðskiptahluta DV, sem vakti talsverða athygli. Þar segir Halldór einmitt frá því atviki sem vakti áhuga hans á að uppræta þessi vinnubrögð:

Halldór segir ennfremur að sér hafi verið boðin þóknun frá ákveðnu fyrirtæki fyrir að ráðleggja mönnum að kaupa tölvur þess. „Þar bauðst mér allt að 20 prósent þóknun. Ég benti á móti á að þetta snerist um siðgæði, það að bera fyrst af öllu hag tölvukaupandans sem leitar hefur til þín fyrir brjósti.“[32]

Halldór liggur ekki á skoðun sinni á þessum skorti á fagmennsku. „Það er ekkert annað en fullkomið siðleysi í viðskiptum þegar einhver maður sem hefur gott hvolpavit á tölvum opnar stofu sem ráðgjafi og ráðleggur mönnum síðan út og suður að kaupa ákveðna tegund af tölvu sem hann fær þóknun fyrir að ráðleggja.“[33]

Nettengingar og tölvusamband við umheiminn

Allt frá því um 1980 hafði IBM á Íslandi á leigu fasta símalínu til Vínarborgar og tengdist þannig alþjóðaneti IBM og væntanlega hafa ýmis önnur tölvufyrirtæki tengst sínum birgjum á sama hátt. Aðrar tengingar voru ekki fyrir hendi.

Árin áður en internetið varð almenningseign

Ýmsir reyndu að nýta sér tæknina til hraðari og öflugri samskipta áður en internetið varð almenningseign. Á seinni hluta níunda áratugarins voru ýmsar snjallar lausnir prófaðar. Meðal annars notaði íslenskt fyrirtæki þeirra Halldórs Kristjánssonar og Guðmundar Ólafssonar þá tækni að senda telex-skeyti gegnum tölvu og bauð upp á það í áskrift. Varð þessi þjónusta nokkuð vinsæl, en dó fljótlega út með tilkomu tölvupóstsnotkunar almennings og internetsins.[34]

Fyrir daga TCP/IP voru fjarskipti bundin í misjafna samskiptastaðla sem buðu upp á greið samskipti milli þeirra sem notuðu sama kerfi en gátu hins vegar ekki haft samskipti sín á milli. Meðal þeirra sem var að finna hér á landi var SDLC frá IBM, sem var allsráðandi hjá Reiknisstofu bankanna, SKÝRR og Sambandinu, sem voru með tengingar úti um allt land. Digital var með eigið samskiptakerfi og sömu sögu má segja um Burroughs, Data General og Quante.[35]

Hugbúnaður sem leyfði faxsendingar gegnum tölvu var notaður hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð um miðjan níunda áratuginn samhliða tölvupósti og ekki fullljóst hvaða samskiptatækni yrði ofan á. Það voru einkum starfsmenn tölvudeildarinnar sem nýttu ýmiss konar tækni til samskipta við útlönd: telex, fax og X.25-tölvupóst. [36]

Stórfyrirtæki tengdust inn á net með mótöldum og telextæki. Mótöld voru býsna dýr og álagning mikil. „Það var varla á færi venjulegs heimilis að kaupa mótald enda voru þau í upphafi ekki til á heimilum, nema hjá einstaka nördum,“ segja fyrrum starfsmenn Tæknivals.[37] Það leiddi til þess að einn af starfsmönnum fyrirtækisins, Ómar Örn Ólafsson, var sendur til Taívan til að finna miklu ódýrari mótöld og flytja inn. Sá galli var á gjöf Njarðar að innflutningsleyfi voru vandfengin og hlíttu reglum um innhringingar frá Pósti og síma. Reglurnar voru verulega íþyngjandi en voru réttlættar með því að ella væri hætt við að símkerfi landsins legðist á hliðina. Ómar var því settur í að forrita mótald, sem hlítti öllum reglunum. Það tókst og þótt ferðin til Taívan hafi verið dýr varð hún ábatasöm í sölu.[38] 

Háskólinn fær tölvur að gjöf

Á níunda áratugnum var talsvert um að leiðandi fyrirtæki í tölvurekstri gæfu tæki til stórra aðila, svo sem Háskóla Íslands, og höfðu þau þannig oft áhrif á næstu skref tölvuvæðingar HÍ.

Síðsumars 1985 skýrði Guðmundur Magnússon háskólarektor frá því á blaðamannafundi að IBM á Íslandi hefði gefið Háskóla Íslands tölvubúnað. Tölvunni fylgdi stjórn- og fjarskiptabúnaður, ásamt fjárstyrk til að standa undir símakostnaði til ársloka 1987.[39] Nokkru fyrr á árinu hafði Kristján Ó. Skagfjörð afhent forsvarsmönnum Reiknistofnunar aðra tölvu að gjöf, í tilefni af tuttugu ára afmæli stofnunarinnar. Hún var af gerðinni Professional 380, sú nýjasta og öflugasta í þeirri tölvufjölskyldu, og unnt var að tengja hana við þær tvær VAX-tölvur sem RHÍ hafði áður keypt af Skagfjörð og Digital, með svonefndu Ethernet-nærneti.[40] Þetta varð vísirinn að tölvuneti Háskóla Íslands sem enn í dag byggir alfarið á Ethernet, sem er lagið undir TCP/IP.[41]

Ekki reyndist gjöf IBM til Háskólans eins mikilvæg fyrir stöðu Íslands í tölvunetsamfélaginu og vonir stóðu til. Þessi tölvubúnaður opnaði vissulega leið til að taka þátt í tölvuneti háskóla og rannsóknarstofnana í Evrópu (European Academic and Research Network – EARN), sem hafði verið hleypt af stokkunum í Genf snemma árs 1984. En nettengingin var bæði hægvirk og dýr og rekstri þessa tölvubúnaðar var hætt árið 1988. Sams konar samband fyrir notendur Háskóla Íslands fékkst hins vegar á ódýrari hátt með samvinnu innan innanlandsnetsins ISnet.

Á árinu 1987 gaf Einar J. Skúlason (EJS) Reiknistofnun Háskólans fyrstu Unix-vélina og með henni tengdust RHÍ og Hafró við netið, fyrst með upphringisambandi en fljótlega fastri leigulínu. Sama ár var SURÍS, Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi, stofnað til að stuðla að notkun OSI (Open Systems Interconnection) í tölvusamskiptum á Íslandi. Þetta ár var ISnet formlega stofnað sem hinn íslenski hluti EUnet. IANA (Internet Assigned Numbers Authority) fól SURÍS að úthluta lénum með endingunni .is hinn 25. nóvember þetta ár. ISnet tók upp svæðisnetföng (domain addressing) í tölvupósti, sem síðar var farið að nefna lén. Þessi þróun er rakin í gleggra samhengi á sérstakri tímalínu með kaflanum.

Fyrstu IP-tölunum var úthlutað árið 1988 til SURÍS, og Hafrannsóknastofnun og Reiknistofnun tóku upp TCP/IP-innra net og tengingu sín á milli. Á þessu ári var Grunnskólinn á Kópaskeri tengdur með UUCP-upphringisambandi við Reiknistofuna en samtals voru fimmtán aðilar tengdir þessu neti. Á Kópaskeri var Pétur Þorsteinsson skólastjóri og mikill áhugamaður um nettengingar.[42]

Á þessum tíma voru í notkun nokkrar gerðir nettenginga, breytilegar eftir framleiðendum tölvubúnaðarins. Þannig var EARN-tengingin bundin IBM-stórtölvunum, en Digital notaði aðra tengingu. Tilraunir voru gerðar til þess að tengjast með EARN-sambandinu en það komst aldrei almennilega í gagnið því þetta kerfi var háð því að leigulína fengist hjá Pósti og síma en það var kostnaðarsamt, og sambandið var því of hægvirkt og gallað til að vera ásættanlegt til lengdar. Þetta var einfaldlega úrelt tækni og gjafatölvan var tekin niður þegar orðið var endanlega orðið ljóst að önnur tækni til að flytja gögn milli landa yrði ofan á.[43]

Margar gerðir nettenginga tölva voru reyndar á níunda áratugnum og höfðu mismunandi eiginleika, meðal annars tengingin Arcnet hjá Örtölvutækni. „Með Arcnet voru menn eylönd, út af fyrir sig, með nokkrar tölvur samtengdar. Við vorum að selja og setja upp svoleiðis pakka fyrir litlar skrifstofur,“ rifjar Arnlaugur Guðmundsson upp frá árunum í Örtölvutækni.[44]

NORDUNET og NORDFORSK

Í nóvember 1985 gengust Skýrslutæknifélag Íslands og Reiknistofnun Háskólans fyrir eins dags ráðstefnu um tölvunet og norrænt samstarf. Á sama tíma var haldinn í Reykjavík stjórnarfundur í NORDUNET-verkefninu, sem var á vegum NORDFORSK,[45] og snerist um að efla möguleika norrænna háskóla til gagnasamskipta sín á milli og við umheiminn. Þetta samstarf var talið afar áhugavert fyrir Íslendinga þar eð von var á að gagnanet Pósts og síma kæmi Íslandi í samband við umheiminn fyrir árslok (1985). Háskóli Íslands var eini norræni háskólinn sem ekki hafði komið sér upp tölvuneti en á málþinginu kynnti Jóhann Gunnarsson, framkvæmdastjóri RHÍ[46], áætlun um slíkt háskólanet, sem skyldi nefnt ISANET. Fram kom að Háskólinn hefði í hyggju að velja svonefnt breiðband[47] til að tengja saman allar tölvur Háskólans, frekar en grunnbandsnet, þótt hið fyrrnefnda væri dýrara. Breiðbandið hafði hins vegar mun meiri flutningsgetu og nýttist betur til gagnaflutninga þar eð þar mátti koma fyrir mörgum rásum af mismunandi tagi samhliða og nýta fyrir síma, myndsendingar og tölvupóstsendingar. Lagning þessa breiðbands var þegar hafin í húsin á vestursvæði Háskólans, hús verkfræði- og raunvísindadeildar.[48]

isanet.haskolans
Áætlun um háskólanet (ISANET). Morgunblaðið, 12. desember 1985.

En breiðbandið lét bíða eftir sér og í samtali við Morgunblaðið í mars 1985 gagnrýndi Júlíus Sólnes, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ný fjarskiptalög, sem voru skömmu áður samþykkt á Alþingi. Um leið höfðu verið samþykkt ný lög um útvarpsstarfsemi og með þeim var rofinn einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps- og sjónvarpsútsendinga. Júlíus taldi að nýju fjarskiptalögin hefðu takmarkað frjálsræði við rekstur tölvuboðveitna og útilokað að einstaklingar eða félög gætu nýtt sér þá nýju tækni. Hann taldi að breyta þyrfti lögunum þannig að sveitarfélög gætu átt og rekið slíkar boðveitur, eins og þau gætu rekið útvarpsstarfsemi, samkvæmt útvarpslögunum. Morgunblaðið hefur eftir Júlíusi:

Ég hef tilhneigingu til að líta á þjónustu sem þessa sömu augum og aðra almenningsþjónustu. Hvers vegna ættu sveitarfélög ekki að reka boðveitur rétt eins og þau reka rafveitur og hitaveitur? Þannig gæti tölvuboðveitan keypt margvíslegt efni af einstaklingum og fyrirtækjum og séð um dreifingu þess.[49]

Sigfús Björnsson, dósent við HÍ, hafði sams konar framtíðarsýn og Júlíus og skrifaði meðal annars í 1. tölublað Skipulagsmála höfuðborgarsvæðisins á þessu sama ári um hættuna á því að „tölvuboðveitur í þéttbýli“ myndu ekki verða frjálsar, eins og útvarpssendingar urðu með nýju útvarpslögunum, vegna þess að þær lentu undir ströngum fjarskiptalögum. Sigfús benti á að einmitt það að í því kerfi gætu boð borist til baka frá neytendum fæli sér stóraukna möguleika til félagslegrar þjónustu, sem gæti orðið lyftistöng fyrir atvinnulífið í viðkomandi bæjarfélagi:

Félagsleg þjónusta fælist til dæmis í upplýsinga- og pöntunar- og greiðsluþjónustu ýmiss konar, námskeiðahaldi, tölvufundum og persónulegum samskiptum á tölvuneti, þ. á m. þjónusta við aldraða og sjúka á heimilum. Stoð við atvinnulíf fælist til dæmis í sjálfvirkri vörslu, mælaaflestri, skoðanakönnunum og samskiptum fyrirtækja gegnum tölvunet við starfsfólk, sem af ýmsum ástæðum yrði að vinna á heimili sínu. Að færa vinnustað inn á heimili, ef þörf krefur, með hjálp tölvuboðveitu bæjarfélags er raunhæf launabót til þegnanna, til dæmis fjölskyldna þar sem báðir makar verða að „vinna úti“, einstæðra foreldra, hreyfihamlaðra, skólaskyldra barna og unglinga o.fl. Atvinnulífið í því sveitarfélagi nyti hæfs vinnukrafts í lengri tíma og með minni truflunum og gildir þetta almennt á vetrum þegar samgönguleiðir teppast.[50]

Bein tölvutenging Háskóla Íslands og annarra aðila á ISnet við erlenda aðila var við lýði frá árinu 1986 með UUCP og frá 1989 með TCP/IP.

Hröð þróun í notkun léna

Árið 1990 var tekin í notkun föst lína til Stokkhólms og tuttugu tölvur voru tengdar ISnet. Þá voru þessi lén í notkun: hi.is, hafro.is, falcon.is, os.is, hp.is, hugbun.is, ibm.is, ismennt.is, rala.is, rsp.is, strengur.is, isbank.is, islag.is, ejs.is, tmh.is, simi.is, vedur.is og marel.is. Á yfirliti yfir lén í Evrópulöndum frá því 1. október það ár eru 14 lén og eitt undirlén tilgreind á Íslandi en Svíþjóð var með flest lén á þeim lista, 6112 og 34 undirlén.[54]

Á þessum árum var þróunin hröð eins og sést á meðfylgjandi töflu sem teygir sig fram undir aldamót, en einkum voru það fyrstu árin sem voru áhugaverð[55]:

Ár Tengdir aðilar Tengdar tölvur
við ISnet
1990 19 (lén) 20
1991 30 250
1992 - 739
1993 55 1.761
1994 70 4.527
1995 130 8.310
1996 250 11.542
1999 - 28.788

Nánar er fjallað um þróun nettenginga á Íslandi í sérkafla. 

Tímalína nettenginga á Íslandi 1986 til 2000

Þróun internets á Íslandi frá 1986 til ársins 2000 má setja upp í þessa tímalínu.

isnet.tengingar.1988
Ísnet, tengingar 1988.

stofnsamningur internet a islandi
Stofnsamningur Internet á Íslandi frá 24. maí 1995.[52]
Þar er greint frá tilgangi félagsins með áherslu á að vinna eftir alþjóðlegum stöðlum. Notendur eru einkum taldir verða mennta- og rannsóknarstofnanir.

1986: Hafró tekur í notkun UUCP-tengingu við EUnet; RHÍ setur upp EARN-samband og X.400-samband; Reiknistofnun Háskólans tekur í notkun UUCP-samband við Hafró.

1987: EJS gefur RHÍ sína fyrstu Unix-vél; SURÍS stofnað til að stuðla að OSI-notkun á Íslandi; ISnet stofnað (undir stjórn ICEUUG); Nafngiftum undir .is úthlutað til SURÍS; ISnet tekur upp svæðisnetföng.

1988: ISnet hefur tíu aðila tengda; Fyrstu IP-tölunum úthlutað til SURÍS; Hafró og RHÍ taka upp TCP/IP; NORDUnet (IP yfir X.25) sett á laggirnar; EARN-samband lagt niður.

1989: RHÍ tekur við rekstri ISnet undir hatti SURÍS, hættir rekstri X.400-gáttar; isgate er sett upp með styrk frá Rannsóknaráði; Útlandasamband flutt til NORDUnet (IP yfir X.25); ISnet verður hluti af Internet.

1990: DNS-þjónusta fyrir .is flutt á isgate; 9,6 bps föst lína til Stokkhólms tekin í notkun.

1991: Útlandalína uppfærð í 56 kbs.

1994: 70 aðilar tengdir við ISnet – tæplega 4000 tölvur tengdar; Útlandalína uppfærð í 128 kbs.

1995: SURÍS stofnar Internet á Íslandi hf. 17. maí; Internet á Íslandi hf. tekur yfir rekstur ISnet og aðrar skyldur SURÍS.

1996-2000: Internet á Íslandi hf. heldur áfram uppbyggingu og rekstri á ISnet og úthlutun léna.

2000: Íslandssími hf. kaupir um 90% hluta í Internet á Íslandi hf.; Netrekstur Internet á Íslandi hf., INTIS/ISnet, seldur til Fjarskiptafélagsins Títans hf.; Internet á Íslandi hf. leggur árherslu á skráningu léna. Stuttnafni breytt úr INTIS í ISNIC.[51] 

Tölvupóstur - prentuð netfangaskrá þótti nauðsynleg

Ýmsir voru þegar farnir að nota tölvupóst þegar hér var komið sögu. Flestir fengu tölvupóst í tengslum við vinnu sína en einnig voru dæmi um að tölvuskólar og tölvuþjónustufyrirtæki úthlutuðu notendum sínum netfangi. IBM á Íslandi hóf notkun tölvupósts innanhúss árið 1981 og árið 1983 var fengin föst símalína til útlanda og tengdust starfsmenn þá alheimsneti IBM. Hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð var farið að nota tölvupóst í samskiptum við Danmörku með sérstakri tækni um eða fyrir 1985.[56] Hjá Ríkisspítölunum voru um 90 manns með eigið netfang árið 1988. Í byrjun voru það fá netföng í notkun á Íslandi að gefin var út bók með öllum netföngum sem voru í notkun á landinu. Þetta var eins konar símaskrá þeirra sem höfðu aðgang að tölvupósti.[57]

Að tala um tæknina á íslensku

Fljótlega eftir að tölvuöld hófst á Íslandi byrjaði öflug barátta fyrir því að unnt væri að hafa orð á öllu sem þessa nýju tækni snerti, á íslensku.

Fljótlega eftir að Skýrslutæknifélagið var stofnað, árið 1968, hófust menn í forystu þess handa um að safna orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Ekki leið á löngu uns stofnuð var orðanefnd á vegum félagsins, sem varð strax mjög virk, og sex árum síðar (1974) gaf nefndin út fyrsta orðalista sinn, tölvuprentað handrit undir yfirskriftinni Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. Áður hafði nefndin sent frá sér stutta, óformlega orðaskrá. Frá 1978 störfuðu fjórar manneskjur í nefndinni að söfnun til útgáfu Tölvuorðsafns: Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns.

Fyrsta útgáfa orðasafnsins kom út 1983 og hafði að geyma rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum, en engar skilgreiningar fylgdu hugtökunum. Önnur útgáfa orðasafnsins kom út árið 1986, undir ritstjórn Sigrúnar, og innihélt tæplega 2600 hugtök. Þeim fylgdu skilgreiningar, skýringar og dæmi þar sem það átti við. Þriðja útgáfan kom út 1997 og hafði að geyma um 5800 íslensk og ensk heiti á rúmlega 5000 hugtökum; sú fjórða kom 2005 og innihélt um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti; skilgreiningar orðanna og skýringar fylgdu í þessum tveimur útgáfum. Ritstjóri tveggja síðastnefndu útgáfnanna var Stefán Briem. Baldur Jónsson lést sumarið 2009 og var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út og það var gefið út sem fimmta útgáfa orðasafnsins, eingöngu í rafrænu formi, aðgengilegt til leitar, á vef Skýrslutæknifélagsins. [58]

Þrjátíu ár í forystu tölvuorðanefndar

Sigrún Helgadóttir, formaður Tölvuorðanefndar, lærði stærðfræði og tölfræði í Bretlandi á árunum 1965 til 1971. Á þeim tíma þurftu nemendur í þessum fræðum einnig að læra forritun, en Bretar voru þá að stíga sín fyrstu skref í tölvuvæðingu, líkt og við hér á landi, og komu fljótlega upp stórum tölvumiðstöðvum við háskóla sína, sem námsmenn höfðu aðgang að. Sigrún vann á hinni ungu Reiknistofnun sumarið 1969, þegar hún var í námsleyfi, og eftir að hún kom heim frá námi, í árslok 1973, fékk hún vinnu þar. Hún gerðist félagi í Skýrslutæknifélaginu þegar í upphafi en þegar hún fór að vinna á Reiknistofnun var Oddur Benediktsson prófessor, forstöðumaður Reiknistofnunar, formaður félagsins og árið 1978 bað hann Sigrúnu að taka að sér formennsku í Orðanefndinni. Hún leiddi nefndina eftir það í þrjá áratugi. Sigrún segir svo frá:

Ég […] geri ráð fyrir að mönnum hafi þótt mikilvægt að unnt væri að tala um þessa nýju tækni á íslensku. Þegar ég kom heim frá námi var mjög erfitt að finna leiðbeiningar í forritun og ég fór að skrifa kennslubók í Fortran og leiðbeiningar með tölvukerfum Háskólans á íslensku. En það var ekki auðvelt. Orðin voru ekki til né heldur orðalagið. Núna er þetta allt orðið miklu þroskaðra, það er hægt að tala og skrifa um tölvutækni á íslensku að mestu leyti, nema menn séu komnir út í mjög tæknileg atriði. En það sem snýr að almenningi er auðveldara. Náttúrlega bætist alltaf við nýtt og þegar ekkert er unnið í þessu safnast vandamálin saman.[59]

Fyrstu árin var unnið allskipulega að orðasöfnun og stuðst við ISO-staðla. Sigrún kynnti sér hvað gert hefði verið annars staðar á Norðurlöndum og komst að því að bæði Norðmenn, Svíar og Danir hefðu tekið upp staðla en alþjóðlegar nefndir tekið fyrir orðaforða í tölvutækninni, flokkað hann niður og skilgreint.

Þessir staðlar voru bæði á ensku og frönsku og við gengum einfaldlega í þá þegar við unnum að Tölvuorðasafninu, fyrstu og annarri útgáfu. En eftir því sem á leið þurftum við að sjálfsögðu að taka fyrir heiti og hugtök sem voru ekki í stöðlunum. […] Síðan var þetta náttúrulega lesið yfir af sérfræðingum og þeir komu þá með tillögur um orð sem vantaði. Ég las líka mikið af orðalistum í alls konar bókum, þegar ég var ritstjóri, en þegar við gáfum út þriðju bókina var Stefán Briem ráðinn ritstjóri og þetta gekk þá betur því ritstjórinn gat unnið milli fundanna og undirbúið þá.

Vinnunni vatt síðan áfram, ár eftir ár, allt var unnið í sjálfboðavinnu, nema hvað safnað var fyrir launum ritstjórans hjá stofnunum og fyrirtækjum. Verkefni ritnefndarmanna var að finna hugtök sem þurfti að þýða, eða taka á móti ábendingum, finna skilgreiningar og leggja þær fyrir nefndina. Það kallaði oft og tíðum á talsverða eftirgrennslan og grúsk því að:

Eiginlega er ekki hægt að gefa einhverju heiti sem maður veit ekki hvað er, þannig að ef einhver spyr, sendir inn fyrirspurn: Hvað á að kalla þetta? þarf maður fyrst að finna út 99% hvað það merkir, annars er ekki hægt að gefa því almennilegt heiti. Þess vegna eru svona orðalistar dálítið erfiðir, það kemur ekki alltaf fram hvað það er sem er verið að gefa heiti.

ordanefnd3
Tölvuorðanefnd: Þorsteinn Sæmundsson, Baldur Jónsson, Sigrún Helgadottir og Örn Kaldalóns

Tölvuorðanefnd tók upp þau vinnubrögð að hafa skýringar á orðunum og index eða hugtakaskrá aftast í síðasta orðalistanum. Sigrún skrifaði mest af skilgreiningunum en orðanefndarmaðurinn Baldur Jónsson, íslenskufræðingur og lektor við Háskólann, og allmargir sérfræðingar aðrir lásu mismunandi kafla. Opinber stuðningur við þetta starf var alla tíð fremur lítill, styrkur fékkst þó frá Lýðveldissjóði, sem þá var enn til, Málræktarsjóði og Ráðgjafarnefnd um upplýsinga- og tölvumál. Íslensk málstöð var stofnuð 1985, mest fyrir forgöngu Baldurs Jónssonar, og orðanefndin hafði aðsetur hjá Málnefndinni. Fyrri útgáfur tölvuorðasafnsins voru settar á vef Málstöðvarinnar en hún hafði ekki bolmagn til að setja þetta nýja efni inn í íðorðabankann, sem hafði verið stofnaður 1997. Því var sett upp vefsetur Skýrslutæknifélagsins (sky.is) þar sem aðgangur er að tölvuorðasafninu eins og það leggur sig. En telur Sigrún að árangur hafi orðið af þessu orðasöfnunarstarfi?

Við fáum náttúrulega endalaust skammir fyrir hvað við séum gamaldags og þetta séu asnaleg orð og svoleiðis. En sama er, þegar upp er staðið og maður lítur í kringum sig og les það sem fólk skrifar er alveg greinilegt að ástandið er orðið allt annað en það var fyrir þrjátíu árum; það er hægt að skrifa um þetta efni og þessi orð seytla inn í orðaforðann, en hvaðan þau koma skiptir náttúrulega engu máli. Ég get nefnt dæmi um orð eins og gjörvi, sem við settum inn í fyrstu bókina í örvæntingu okkar, til að hafa eitthvað yfir processor. Ég heyrði allskonar skýringar á þessu orði; það er komið af orðinu örgjörvi sögðu sumir. En það er rangt, örgjörvar voru ekki til þegar bókin kom út, árið 1983.[60]

Staðgreiðsla skatta

Um miðjan níunda áratuginn var farið að ræða um nauðsyn þess að opinber gjöld yrðu staðgreidd í stað þess að skattgreiðendur þyrftu að telja fram laun liðins árs og standa skil á þeim sjálfir – eftir á. Um þetta var þvargað og þjarkað meirihluta árs 1987, alveg fram í desember. Sjálf lögin um staðgreiðslu skatta voru samþykkt í mars það ár[61] en lagabreytingar sem nauðsynlegar voru taldar vegna framkvæmda málsins ekki samþykktar fyrr en þegar komið var fram í desember 1987.[62]

Skúli Eggert Þórðarson, síðar ríkisskattstjóri, rifjar upp að þetta hafi valdið nokkrum vandræðum því starfsmenn skattsins hafi ekki getað byrjað á undirbúningi þessarar miklu kerfisbreytingar fyrr en í mars:

Staðgreiðslan er fyrsta tölvukerfi skattyfirvalda sem er hannað og skipulagt þannig að það er „online“, það er að segja lifandi kerfi frá degi til dags, en ennþá var það rekið inni í SKÝRR. Þetta var mikið verkefni því við höfðum svo lítinn tíma, níu mánuði til þess að undirbúa innheimtuna. SKÝRR-menn hömuðust við að setja þetta upp og það tókst að hefja innheimtu staðgreiðslunnar 1. janúar 1988, fyrir harðfylgi starfsmanna Ríkisskattstjóra og SKÝRR, sem var mikið afrek. Þetta lagði grunninn að frekari vélvæðingu og virðisaukaskattinum, sem kom tveimur árum seinna, og ákveðið var að gera sama með hann 1990, hafa hann „online“. [63]

rsk005
Verkefni ríkisskattstjóra voru margvísleg á ofanverðum níunda áratugnum, en þá var meðal annars tekin upp staðgreiðsla skatta. Þessi mynd er frá árinu 1987 og er af Jóni Zóphoníassyni og Guðríði Jóhannsdóttur skoða gögn á tölvuskjá.

Næsta stóra skrefið sem tekið var í tölvuvæðingu skattkerfisins var þegar keypt var fyrsta miðtölvan fyrir Ríkisskattstjóra, árið 1992. Tvö árin á undan höfðu tölvuráðgjafar velt því fyrir sér hvað best væri að gera og niðurstaðan var að setja upp svokallaðan „biðlara-miðlara“ þannig að ein tölva eða hugbúnaður sækir upplýsingar til miðlara annars hugbúnaðar eða tölvu í öðru tölvukerfi, í gegnum tölvunet; biðlari getur líka hegðað sér eins og miðlari og sent önnur gögn til baka.[64] Þetta var gert til þess að draga úr kostnaði en rekstur tölvukerfanna var orðinn mjög dýr. Í framhaldi af þessu var sett upp „víðnet skattkerfisins“, og vélar á öllum skattstofunum og síðar hjá yfirskattanefnd og Ríkisskattstjóra þegar þau urðu til. Allt þetta var að lokum tengt saman.

Gagnsemi þessara tæknilegu framfara sýndi sig berlega árið 1991. Þá voru gerðar umfangsmiklar skattbreytingar, sem ollu miklum breytingum á framtölum eftir að frumáætlun á þeim fór fram, og breyta þurfti framtölum tugþúsunda framteljenda. Áður voru breytingarnar reiknaðar út í vélum en síðan þurfti að breyta framtölunum handvirkt. En þegar allt hafði verið tengt saman og samband komið milli hinna ýmsu kerfa skattsins dugði að breyta viðkomandi reit á framtalinu og reiknaðist þá skattbreytingin inn í viðkomandi kerfi og barst til innheimtumanns.[65]

Framhald tölvuvæðingar í bankakerfinu

Breytingar voru að verða í tölvuvæðingu í bankakerfinu og kenndi þar margra grasa. Hér verður stiklað á því stærsta.

Tölvumiðstöð sparisjóðanna stofnuð

Í byrjun árs 1989 stofnuðu stærstu sparisjóðirnir Tölvumiðstöð sparisjóðanna. Henni var ætlað að sjá um kerfi sem Reiknistofan gat ekki séð um, alls kyns skýrslugerð, bókhald og fleira. Hér var tekið næsta skref í þróuninni: Reiknistofa bankanna byggðist á stórtölvukerfinu, miðlægri tölvu og skjáum á útstöðvum en hin nýja tölvumiðstöð sparisjóðanna byggðist á miðlægum miðlara og einmenningstölvum úti í sparisjóðunum, sem tengdar voru við miðlarann. Sparisjóðirnir sameinuðust síðar allir um tölvumiðstöðina, einnig lánastofnun sparisjóðanna, og úr varð Sparisjóðabanki Íslands.[66]

Reiknistofa bankanna í vexti

Holberg Másson skrifaði í Morgunblaðið að Reiknistofa bankanna (RB) hefði á þessum tíma verið stærsta tölvumiðstöð landsins ásamt SKÝRR. Árið 1990 var velta Reiknistofunnar reyndar ögn meiri en starfsmenn færri, en þó 120 talsins. Þá höfðu SKÝRR og RB tekið upp samstarf um öryggismál. Í grein sinni um RB veltir Holberg því upp hvort ef til vill ætti að huga að frekari samvinnu.

Í viðtali við Þórð Sigurðsson forstjóra RB kom fram, að dregið hefur úr aukningu aðgerða í stórtölvu RB. Samt var 20,1% aukning á aðgerðafjölda fyrstu 6 mánuði þessa árs miðað við í fyrra. …

Að nokkru leyti má segja að RB hafi verið í samkeppni við tölvudeildir bankanna. Meðan RB hefur getað veitt góða þjónustu á góðu verði, hefur lítil tilhneiging verið hjá bönkunum að fara út í eigin tölvuvæðingu, en með aukinni samkeppni verða til sérþarfir, sem ekki nýta hagkvæmni sameiginlegrar vinnslu. [67]

Holberg fjallar síðan um reynslu annarra landa, meðal annars í Danmörku.

Þórður sagði, að engin athugun hefði verið gerð á því hjá RB, hvort hagkvæmt væri að flytja eitthvað af þeim verkefnum, sem í dag eru keyrð á stórtölvu yfir á minni tölvur. […] Hann sagði, að enda þótt RB væri stórtölvumiðstöð á íslenskan mælikvarða, þá væri RB það ekki á alþjóða mælikvarða og þess vegna væri margt það hægt hér, sem ekki er hægt annarsstaðar. Ísland er eina landið í heiminum, þar sem allt bankakerfið sameinaðist í einni miðstöð og því fylgdu ýmsir kostir […] Síaukið tölvuafl vegna beinlínuvinnslu á afgreiðslutíma bankanna skapar ónotað tölvuafl utan þess tíma og hafa bankar og sparisjóðir fengið 40% afslátt af þeim föstu keyrslum, sem framkvæma má á nóttunni. [68]

Á þessum tíma voru sameiningar bankanna á Íslandi mál málanna og því var möguleg sameining SKÝRR og RB skoðuð í því samhengi.

Ljóst er að sameiginlegur rekstur á tölvusamstæðum og tölvuneti Reiknistofu bankanna og Skýrr myndi skila umtalsverðum sparnaði. Reynslan erlendis sýnir að sameining skilar a.m.k. 20% lækkun í rekstrarkostnaði slíkra tölvumiðstöðva. …

Slæmt væri ef sparnaður bankakerfisins vegna sameiningar banka og fækkunar starfsfólks tapaðist að nokkru leyti vegna aukins kostnaðar við tölvu og upplýsingavinnslu.[69]

Afgreiðslukerfi (POSar) - „rafgreiðslur á sölustað“

Upp úr 1990 komu til skjalanna hinir svokölluðu POSar. Þeir voru meðal annars nauðsynlegir fyrir debetkortagreiðslur, en kreditkortin hafði verið hægt að „strauja“ og kröfðust þau því ekki rafrænnar tengingar.

POS stóð fyrir „Point of Sale“ og hver posi var í raun sérstakur sölustaður, en tengdur miðlægu kerfi. „Þetta var rosaleg breyting og í raun gerbylting,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson verkfræðingur um þessa breytingu er hann lítur til baka.[71]

Greiðslur um posa eða sérstök kassakerfi voru á tímabili kallaðar „Rafgreiðslur á sölustað“, eða RÁS-kerfið (EFTPOS: Electronic Fund Transfer at Point of Sale). Kjartan Jóhannsson hjá Reiknistofu bankanna lýsti fyrstu posunum hér á landi þannig:

Posi er lítil tölva með innbyggðu mótaldi, segulrandarlesara og prentara, litlum skjá og takkaborði og hefur möguleika á að safna og geyma nokkurt magn gagna. …

Flestir posar hér á landi eru í eigu Greiðslumiðlunar hf. sem leigir þá söluaðilum. RÁS-þjónustan, sem er sjálfstætt apparat, samstarfsverkefni kortafyrirtækjanna, banka og sparisjóða en rekið af Greiðslumiðlun hf. Annast RÁS-þjónustan forritun og þjónustu við posana og sér einnig um mikinn hluta samskipta við söluaðila og verslanir vegna þeirra.[72]

Einnig skilgreinir Kjartan kassakerfi og notendur þeirra með þessum hætti:

Stærri verslanir hafa oft á tíðum í stað posa svokölluð búðakassakerfi, sem meðal annars leysa hlutverk posanna, þ.e. að lesa segulrönd, senda heimildarbeiðni og prenta kvittun. Kassakerfin hér á landi eru aðallega frá þremur aðilum: EJS hf, Hugbúnaði hf. og Tákni hf, en einnig hafa stærri aðilar s.s. olíufélög sérstök kassakerfi af ýmsu tagi.[73]

Debetkortin voru tekin upp á Íslandi 1993 og var gengið út frá því að nýta fyrirliggjandi tækjakost og kerfi sem byggt hafði verið upp fyrir kreditkortin, það er RÁS-kerfið. Þá voru um fjögur þúsund kassar og posar tengdir því kerfi en fimm árum síðar, 1998, hafði þeim fjölgað í rúmlega átta þúsund.[74]

Posavélar með innbyggðum GSM-símum komu til skjalanna árið 1999. Í 1. tbl. Tölvumála það ár segir svo frá þessum áfanga:

Point á Íslandi hefur nú nýverið hafið sölu á posavél með innbyggðum GSM síma til heimildarhringingar. … Point hefur einnig hannað hugbúnaðinn í hann þannig að hann getur tekið á móti öllum greiðslukortum sem aðrar posavélar taka á móti hérlendis.

Í stuttu máli má segja að GSM posinn vinni alveg eins og hefðbundinn posi nema í stað þess að nota hefðbundna símalínu þá notar hann GSM til tengingar við greiðslukortafyrirtækin auk þess hefur hann innbyggt batterí og verður þannig óháður rafmagni og símalínu[75]

Stórfelld verðlækkun á tölvum

Einmenningstölvur voru að sækja mjög í sig veðrið um þetta leyti, ekki síst sökum þess að árið 1982 ákváðu stjórnvöld að fella niður 30% vörugjöld sem lögð höfðu verið á „tölvubúnað til samkeppnisiðnaðar“ og í febrúar árið eftir var felldur niður 23,5% söluskattur, sem lagður hafði verið ofan á 7% toll, þannig að 1984 lækkaði verð á öllum tölvum og búnaði sem þeim tilheyrði um liðlega 32%. Salan tók verulegan kipp.[76] Dráttur varð þó á því að tollyfirvöld felldu niður aðflutningsgjöldin vegna óskýrleika í orðalagi þar um, en það var gert í september.[77]

 • fyrsti.IBM.PC IBM 5150 PC-tölva
  Fyrsta PC-tölvan, 1981
 • Makki.1984 Fyrsta Macintosh-einkatölvan
  Hún kom á markaðinn árið 1984.
 

Netið og notendurnir

Með útbreiðslu internetsins og einkatölvunnar voru almenningur, fyrirtæki og stofnanir komin í alveg nýja stöðu. Notkun á tölvum varð útbreiddari og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.

MUD: Fjölspilunarleikur án grafísks viðmóts

Tölvuleikir voru ekki ný bóla á áratugnum 1985–1995. Hins vegar varð áhugaverð breyting á leikhegðun í tölvuleikjum með tilkomu internetsins. Rætur leiksins MUD (Multi User Dungeon) eru í eldri gerð hans, sem rakin er til ársins 1978. Nýrri internetútgáfa leiksins var til umfjöllunar í Tölvumálum árið 1992 í greininni „Hvað er þetta MÖDD?“ sem félag áhugamanna um MUD er skrifað fyrir.[78] Leikurinn var þá orðinn vinsæll fjölnotendaleikur yfir internetið, en margir MUD-leikir voru á markaði. Það merkilega við hann þá var að viðmótið var ekki grafískt og krakkarnir, sem voru kjarni spilaranna, þurftu að nota örvatakka og önnur tákn á lyklaborðinu til að spila leikinn.[79] Ef viðmót MUD-leiks frá 1992 er skoðað sést að það þarf innvígðan spilara til að finna eitthvað af viti út úr því sem sést á skjánum.

Tolvuleikurinn.mud
Viðmót MUD-leikjanna var ekki flókið.

Foreldrar MUD-spilara þessa tíma komust fljótt að raun um að nauðsynlegt var að fá aðra símalínu inn í húsið, því MUD- spilarinn í fjölskyldunni teppti símalínuna, sem mótald heimilisins tengdist. Ein þeirra sem hvað áköfust voru í spilamennskunni skrifaði síðar lokaritgerð í mannfræði árið 1993 um MUD: „Myndun samfélags á tölvuneti“.[80] Eitt af því sem einkenndi samfélagið voru samskiptin milli spilaranna:

Samskipti við aðra eru einmitt afar stór og jafnvel stærsti þátturinn þegar MUD er spilað og er félagslegi þátturinn ekki síst það sem fólk er að sækjast eftir. Þarna gefst möguleiki á því að kynnast fólki frá fjarlægum heimshlutum og eru mörg dæmi um vináttusambönd sem hafa orðið til í gegnum þennan leik. Þó nokkur fjöldi útlendinga hefur komið til Íslands til að hitta vini sína … og jafnframt eru þeir orðnir æði margir staðirnir erlendis þar sem íslenskir muddarar eru velkomnir gestir.[81]

Spilarar hérlendis töldu ekki eftir sér að leggja á sig talsverða vinnu til að geta spilað eins og fram kemur í greininni í Tölvumálum. Umhverfi MUD-spilara á Íslandi er lýst þannig:

Í dag eru 200 stór, opin MUD í heiminum. Á Íslandi er einungis eitt kerfi sem opið er öllum, starfrækt í dag, en eru þó uppi áform um uppsetningu á fleirum. […]

Íslenska kerfið varð til fyrir um tveimur árum og var notkun í fyrstu takmörkuð við vissa tíma dags, en nú er kerfið opið allan sólarhringinn.[82]

Þótt MUD-leikir þessa tímabils hafi verið ólíkir þeim tölvuleikjum sem seinna komu á markað, einkum fjölspilunarleikjum, þá kom það ekki í veg fyrir að höfundar greinarinnar frá árinu 1992 í Tölvumálum sæju fram í tímann, kannski furðu langt fram í tímann, um þróun tölvuleikja:

Nýlega hafa komið fram myndræn MUD en þau hafa þó ekki náð mikilli útbreiðslu, meðal annars vegna tæknilegra örðugleika. Ef til vill á þetta eftir að þróast meira í átt til þeirra nýjunga sem komið hafa fram í hugmyndum um „virtual reality“ þar sem fólk spennir á sig hjálm með sjónvarpsskjá, setur á sig hanska og getur gripið um ímyndaða hluti ásamt því að ganga um og skoða svæði sem hvergi eru til nema í minni tölvunnar. Slíkt krefst þó tækni sem ekki er orðin almenn í dag, hvað svo sem síðar verður.[83]

Þótt spilararnir sem spiluðu MUD væru að stærstum hluta ungt fólk og krakkar er forvitnilegt að skoða þá skilgreiningu á spilurunum, sem sett er fram í nefndri grein:  

Flestir muddara eru skólafólk, nemendur og kennarar við hinar ýmsu greinar í háskólum heimsins. Marga muddara er einnig að finna meðal stærri stofnana sem halda uppi öflugum tölvukerfum, svo sem banka, háskólastofnana og tölvufyrirtækja. Einnig hafa nemendur og jafnvel kennarar í greinum sem varða mannleg samskipti og eðli mannsins haft mikinn áhuga á muddinu […] Dæmi eru um það að fatlaðir einstaklingar sem hafa fjarlægst hið raunverulega líf eigi sér í rauninni sitt líf í mudheiminum.[84]

Sjálfsafgreiðslutölva á Reykjavíkurflugvelli 1990–1991

Merkileg nýjung, sem kom fram tiltölulega snemma en náði þá ekki að slá í gegn, var sjálfsafgreiðslutölva fyrir farmiðakaup frá IBM sem var sett upp á Reykjavíkurflugvelli veturinn 1990–1991. Sjálfsalinn var settur upp og virkaði vel, en vandinn var sá að illa gekk að fá fólk til að nota hann. Ekki tókst að fá fjárveitingu fyrir fólk sem kenndi almenningi á sjálfsalann, þótt rök mætti færa fyrir því að þessi nýjung myndi spara vinnu síðar, þegar fólk yrði orðið vant því að afgreiða sig sjálft. Tilraunin varð því skammvinnari en vonir höfðu staðið til.[85]

Villur og vandræði

Eitt af því sem hefur ávallt verið öruggur fylgifiskur hugbúnaðargerðar og vélbúnaðarsölu er að villur koma upp og undarleg hegðun krefst skoðunar, skýringa eða lagfæringar. Notendur klóra sér í kollinum og skilja hvorki upp né niður þegar eitthvað gerist sem á ekki að geta gerst. Með vaxandi hugbúnaðargerð var farið að huga að hugbúnaðarprófunum en vélbúnaðarprófanir eiga sér lengri sögu, þótt ekki hafi þær alltaf dugað til að skýra skrýtna hegðun tækja og tóla. Sögur eru til af furðulegum bilunum og oftar en ekki heyrist það fornkveðna: „Já, en þetta virkar á minni tölvu!“ – eða þá að illa gengur að endurframkalla vandamál þegar tölvusérfræðingar eða -viðgerðarmenn eru mættir á staðinn.

Í fyrirtæki einu í Reykjavík á níunda áratugnum komu æ ofan í æ upp vandamál við notkun á dýrum prentara; truflanir og hökt. Innflytjendur prentaranna voru duglegir að koma á staðinn eftir vinnutíma en það brást ekki að þá prentuðu tækin hnökralaust. Það var ekki fyrr en prentarinn var staðinn að verki á vinnutíma að vandamálið kom í ljós. Það var notkun rafmagnsheftara á sömu skrifstofu sem olli truflunum og nauðsynlegt reyndist að aðskilja prentarann og heftarann.[86]

Sumar villur og vandamál sem upp hafa komið hafa verið vandleystari og krafist grunnbreytinga á kóða. Þekktast þeirra vandamála er auðvitað 2000-vandinn sem fjallað er um í sérstökum kafla en fleiri vandamál sem tengjast tölustöfum fengu fólk til að klóra sér í kollinum. Þannig virkaði röntgenkerfið á Borgarspítalanum á níunda áratugnum ekki rétt á öllum tölvum. Vandinn lá í því að sumar tölvurnar meðtóku ekki að tímasetningar notuðu ýmist einn eða tvo tölustafi til að tákna klukkustundina, það er einn tölustaf fram til klukkan tíu á morgnana og síðan tvo. Truflanirnar hættu klukkan tíu að morgni en fram að því var tíminn skráður vitlaust, til dæmis 80:5 eða 90:5. Það var ekki fyrr en svo hittist á að sérfræðingur var mættur fyrir klukkan tíu að unnt var að takast á við málið og lagfæra villuna.[87]

Frumkvöðlar í fámennum tölvufyrirtækjum á Íslandi þurftu því að bregða sér í alls konar hlutverk og leysa hin ólíklegustu vandamál.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga

Rekja má upphaf tölvuvæðingar sveitarfélaga til þess að Logi Kristjánsson, sem þá var bæjarstjóri í Neskaupstað, aflaði sér menntunar á sviði rafrænnar gagnavinnslu (EDV) og vakti áhuga sveitarstjórnarmanna á málinu á 33. fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga haustið 1977. Sveitarstjórnarmenn áttuðu sig á því að tölvur væru framtíðin í stjórnsýslunni og samþykktu tillögu Loga um að skipuð yrði samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga og tekið yrði upp samstarf við SKÝRR. Af hvorugu varð en ákveðið að komið yrði á fót „samskiptamiðstöð sveitarfélaga“.

Í upphafi keypti samskiptamiðstöðin fjárhags- og gjaldendabókhald Endurskoðunar hf. og samið var við Loftleiðir um rekstur, keyrslu og viðhald kerfanna. Ljóst var að nauðsynlegt væri að Samband íslenskra sveitarfélaga legði miðstöðinni til stofn- og rekstrarstyrk á meðan hún væri að slíta barnsskónum en í framtíðinni yrðu þeir sem nytu þjónustu hennar að bera rekstrarkostnaðinn.

Rekstur Samskiptamiðstöðvarinnar hófst árið 1979 og fyrsta heila starfsárið nutu tuttugu sveitarfélög þjónustu hennar. Um ári síðar voru sveitarfélögin orðin þrjátíu, með íbúatölu frá 250 manns til 12.000. Liðlega fjórðungur þjóðarinnar bjó í þessum sveitarfélögum. Samskiptamiðstöðin notaði tvö tölvukerfi fyrir þjónustu sína, annað var fyrir fjárhagsbókhald en hitt fyrir gjaldendabókhald. Árið 1983 var nafni samskiptamiðstöðvarinnar breytt í Tölvuþjónusta Sambands íslenskra sveitarfélaga og Logi Kristjánsson, sem verið hafði stjórnarformaður samskiptamiðstöðvarinnar, var ráðinn framkvæmdastjóri hennar frá haustinu 1984. Starfsemin var rekin sem aðskilinn þáttur í rekstri sambandsins og var til húsa á fjórðu hæð að Háaleitisbraut 11, og sveitarfélög sem nutu orðið þjónustu miðstöðvarinnar voru þá orðin áttatíu. Tölvuþjónustan var samstarfsvettvangur og samræmingaraðili sveitarfélaga á sviði tölvumála og hafði frumkvæði að gerð hugbúnaðar, annaðist viðhald hans og þróun, veitti ráðgjöf um val á vél- og hugbúnaði og leiðbeindi um notkun hans.

Fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög

Árið 1985 bauð Tölvuþjónustan út vinnu við að smíða hugbúnað fyrir einkatölvur, staðlað fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög. Sex tilboð bárust, og voru opnuð 15. febrúar. Stjórn Tölvuþjónustu sveitarfélaga ákvað að semja við Tölvumiðlun hf., sem átti lægsta tilboðið.[88] Um sumarið kynnti Tölvuþjónustan hugbúnað sem saminn hafði verið hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og fékk heitið SATS-10. Þetta var samhæfður hugbúnaður fyrir rúmfræðilega útreikninga og hönnun, kerfi sem fyrst og fremst var sniðið að þörfum tæknimanna sveitarfélaga en átti einnig að henta verkfræðistofum, verktökum og öðrum sem unnu að skipulagi.[89]  

Einkatölvur fyrir sveitarfélögin – tvöfalt diskettudrif og 720.000 tákn

Vorið 1985 auglýsti Tölvuþjónustan að hún vildi kaupa „einkatölvur og annan búnað fyrir sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki þeirra“ og reiknaði með að fá afhentar fimmtíu vélar með mismunandi fylgibúnaði, á tveimur árum.[90] Þetta leiddi til þess að gerðir voru hagstæðir samningar fyrir sveitarfélögin við nokkra tölvusala um tölvur, prentara, teiknara og disklinga á hagstæðu verði. Einnig nauðsynlegan hugbúnað fyrir stóru tölvurnar, sem notaðar voru fyrstu árin, sem og PC-tölvur starfsmanna sveitarstjórna.[91] Verðkönnun Tölvuþjónustunnar vorið 1985 bar þann árangur að ákveðið var að mæla með því við sveitarfélögin að þau keyptu Advance 88d-tölvur og Microline-prentara, samkvæmt tilboði frá Míkró hf. Þeir höfðu umboð fyrir OKI-prentara og hugbúnað og höfðu leyst ýmis mál varðandi íslenska stafasettið. Logi Kristjánsson lýsti þessum tækjum svo að þetta væru tölvur með „tvöföldu diskettudrifi og væri hægt að geyma 720.000 tákn inni á hverju þeirra“. Hver tölva kostaði 54 þúsund krónur og einnig mátti fá hana með tíu megabæta diski, en þá kostaði hún 89 þúsund krónur.[92] Til þess að setja það í samhengi hversu dýr tæki slíkir prentarar voru á þeim tíma þá nægði Míkró að selja einn prentara á mánuði til að eiga fyrir húsaleigu og launum starfsmanna, sem um þær mundir voru reyndar fáir.[93]

Náð í gögnin

Árið 1986 var ákveðið að Tölvuþjónustan skyldi reka gagnabrunn, svo sveitarfélögin hefðu aðgang að ýmsum gagnaskrám og þeim væru auðveldaðar boðsendingar sín á milli. Gagnabrunnur sveitarfélaganna var tengdur við tölvu SKÝRR og veitti sveitarfélögunum aðgang að þeim skrám sem höfðu þýðingu fyrir þau, í gegnum „mini-tölvur“ starfsmanna. Starfsmenn hringdu í símanúmer gagnabrunnsins á tölvuneti Pósts og síma og fengu þá upp valmynd ýmissa skráa. Meðal þeirra voru Þjóðskrá, fasteignaskrá, Lagasafn, reglugerðasafn um sveitarstjórnarmál, vinnumiðlun og atvinnuleysisskráning, hagtölur sveitarfélaga, lánasjóður sveitarfélaga, launatöflur og launasamningar, gagnabanki bókasafna, tölvuþing og gagnabrunnur Byggðastofnunar. Þá var unnið að því í samvinnu við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bókhaldskerfi bæjarins yrði opnað og almenningur ætti aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu bæjarins, til að mynda með aðgangi um skjá í bókasöfnum, og hafið var samstarf við bæjarstjórn Kópavogs um að dreifa fundargerðum og dagskrá bæjarstjórnarfunda til bæjarbúa um net Pósts og síma.

Logi Kristjánsson rifjar upp að margar skemmtilegar hugmyndir í þessa veru hafi verið í farvatninu, sem urðu þó aldrei að veruleika. „Þó að mörg skref hafi verið stigin síðar vantar nokkuð á að hugmyndum um gagnsæi og gagnvirkni hafi verið komið á. Tengingin við SKÝRR var til staðar en því miður ekki mikið notuð. Ein orsökin var verðskráin hjá opinberu aðilunum,“ segir hann.[94]

Tekið mið af stærð sveitarfélaga

Í lok níunda áratugarins voru viðskiptavinir Tölvuþjónustunnar orðnir um 95 með íbúafjölda nálægt 140 þúsundum, eða 90% íbúa utan Reykjavíkur. Kerfum sem voru í notkun hafði fjölgað verulega, þau voru orðin tólf eða þrettán, en grunngerðir kerfanna þrjár, eftir stærð sveitarfélaga. Verkefnum fjölgaði, staðgreiðsla skatta var tekin upp á þessum tíma og skipt úr nafnnúmerum í kennitölur, sem hvort tveggja jók mjög álag á Tölvuþjónustuna. Aðeins einn starfsmaður vann hjá Tölvuþjónustunni fram til 1986.

Tölvuþjónustan varð að bregðast við fjölgun tölva því ekki voru á markaðnum forrit sem stóðust þær kröfur sem gerðar voru til að mynda til samræmds bókhaldslykils. Því var slíkt kerfi boðið út á árinu 1985 og samið við Tölvumiðlun. Einkatölvur urðu smám saman allsráðandi og því fækkaði kerfisgerðum Tölvuþjónustunnar. Árið 1993 voru meginlínurnar orðnar tvær, annars vegar einkatölvulína, með eða án nettengingar, og hins vegar IBM System/36-línan, en síðar á því ári tóku við AS/400-tölvur. Verkefnum Tölvuþjónustunnar fjölgaði stöðugt en fjölmörg sveitarfélög voru komin með mótöld og því gátu starfsmenn Tölvuþjónustunnar unnið í beinum tengslum við tölvur viðkomandi sveitarfélaga auk þess sem þeir fóru um landið og héldu námskeið fyrir starfsmenn sveitarfélaga og leiðbeindu þeim.

Þremur árum síðar, árið 1996, voru 112 sveitarfélög með 156.387 íbúa orðin aðilar að þessu samstarfi en utan þess stóðu 53 sveitarfélög, með 7.161 íbúa, en þar er Reykjavíkurborg undanskilin. Samstarfið náði til fjögurra tölvukerfa: Fjárhagsbókhalds sveitarfélaga, launakerfis, gjaldendabókhalds, álagningakerfis fyrir fasteignagjöld og leikskólakerfisins MÖMMU. Tölvuþjónusta sveitarfélaga var eigandi kerfanna en ýmis hugbúnaðarfyrirtæki skrifuðu þau.

Lóðsinn og ALSAM II

Tölvukerfið Lóðsinn var samstarfsverkefni sjávarútvegsráðuneytisins, Hafnarsambands sveitarfélaga og Tölvuþjónustunnar. Fyrsta útgáfa var skrifuð hjá Íslenskri forritaþróun en sú næsta hjá TölvuMyndum. Kerfið hélt utan um ferðir skipa, landaðan afla og annan flutning um hafnir landsins, ásamt gerð reikninga, og sendi upplýsingar daglega til Fiskistofu. Annað kerfi, sem hét ALSAM II, hélt utan um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun og var í notkun hjá 50–60 vinnumiðlunarskrifstofum um allt land. Nokkru fleiri sveitarfélög áttu aðild að síðastnefndu tveimur kerfunum en voru í reglulegu samstarfi við TS.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga lögð niður

Rekstur Tölvuþjónustu sveitarfélaganna gekk upp og ofan þessi árin, vegna mikils stofn- og viðhaldskostnaðar við vélbúnað og hugbúnað, óstöðugs efnahagsástands og gríðarlegrar verðbólgu. Almælt var það viðhorf ráðamanna sveitarfélaganna að þjónustugjöld væru of há en árið 1995 voru viðhorf sveitarstjórnarmanna til Tölvuþjónustu sveitarfélaganna könnuð og niðurstaðan var fremur jákvæð; nærri helmingur taldi að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að bjóða áfram upp á tölvuþjónustu. Hins vegar fannst svipuðu hlutfalli enn að þjónustugjöldin væru of há.

Engu að síður var Tölvuþjónusta sveitarfélaganna lögð niður sumarið 1997 og utanumhald fært út til þeirra tölvufyrirtækja sem skrifað höfðu hvern og einn hugbúnað. En fjórtán árum síðar, árið 2011, lagði framtíðarhópur SSH til að sveitarfélögin létu gera athugun á hagkvæmni þess að taka upp sameiginleg upplýsingakerfi vegna bókhalds, uppgjörs og fjármálastjórnar sveitarfélaganna. Í rauninni var með þessu verið að leggja til að Tölvuþjónusta sveitarfélaganna yrði endurvakin. Eftir að hún var lögð niður fóru sveitarfélögin hvert í sína áttina og allt samráð um samstarf í rekstri tölvukerfa sveitarfélaganna rann út í sandinn. Framtíðarnefndin taldi að þótt sveitarfélögin gætu þá orðið tengst í gegnum internetið væri mikilvægt að þau hefðu sameiginlegt upplýsingakerfi um bókhald, uppgjör og fjármálastjórn sveitarfélaganna. Með því að sameinast um sömu kerfislausnir ættu sveitarfélögin að geta tryggt gæði kerfanna.[95]

 

[1] Halldór Kristjánsson var ráðgjafi í þessu verkefni og man vel átök milli PC-manna og stórtölvusinna.

[2] Þjóðviljinn 17. október 1985, aukablað: Ný sókn.

[3] Þjóðviljinn 9. nóvember 1983, 12. BYLTING í prentiðnaðinum -  Örtölvutæknin gerir tvísetningu á texta óþarfa.

[4] Prentarinn 5.-8. tbl. 1979, 12. Breytt viðhorf við útgáfu dagblaða.

[5] Tækniþróun í 10 ár. Morgunblaðið 251.tbl. II. (2.11.1983), bls. 52-53.

[6] NT 11. okt. 1985. Sá fyrsti sinnar tegundar í heimi íslensk Forritaþróun sf. þróar ADA þýðanda fyrir einkatölvur.  Þjóðviljinn 17. okt. 1985. Hugvit Ríflega í askana látið?

[7] Morgunblaðið 5. feb. 1987. Tíminn vinnur með Artek Forráðamenn fyrirtækisins eru bjartsýnir. Ada þýðandinn hlýtur góðar móttökur og erlendir aðilar bjóða fjármagn og samvinnu.

[8] Frjáls verslun 6. tbl. 1987. Artek gerir sölusamning við Lattice.

[9] Viðtal við Vilhjálm Þorsteinsson 26. sept. 2014.

[10] Morgunblaðið 8, október 1987, B 16. Með myndræna framsetningu gagna að leiðarljósi.

[11] Frosti Bergsson, 2016.

[12] Viðtal við Friðrik Sigurðsson. Tíminn 14. mars. 1996. Strengur hf. og Skyggnir-TölvuMyndir hf.: Hugbúnaðarrisi hefur senn störf

[13] Morgunblaðið 17. febrúar 2005, B 2. TölvuMyndir verða TM Software.

[14] Morgunblaðið 20. desember 2006, 17. Hættir hjá TM Software. Viðtal  við Friðrik Sigurðsson.

[15] Viðtal við Friðrik Sigurðsson í mars 2015.

[16] Morgunblaðið 19. sept. 1991, B 16. Samtök hugbúnaðarfyrirtækja stofnuð - Markmiðið er að vinna að hagsmunamálum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja

[17] Hættir eftir 47 ára starf fyrir bændur. Bændablaðið, 15. júlí 2015. https://www.bbl.is/folk/haettir-eftir-47-ara-starf-fyrir-islenska-baendur/11499/. Sótt 29.12.2015.

[18] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[19] Mun auðvelda stjórnun veiðanna. Þjóðviljinn. 14. tbl. (18.01.1984), bls. 8.

[20] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[21] Auglýsing í Frjálsri verslun, 4.tbl. 42.árg. 1983, bls. 18.

[22] Sama heimild.

[23] Starfsmennt. Auglýsing í Frjálsri verslun, 1.tbl. 44.árg. 1985, bls. 82.

[24] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[25] Arnlaugur Guðmundsson, 2016.

[26] Sama.

[27] Hewlett Packard hreppti kortaupplýsingakerfi borgarinnar. Morgunblaðið – viðskiptablað, 18. janúar 1990. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/43966/

[28] Stefán Ingólfsson: Fagfélag tölvuráðgjafa. Tölvumál, 1. tbl. (01.01.1988), 13. árg.  Bls. 4.

[29] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[30] Halldór Kristjánsson: Tölvuráðgjöf, er þörf á uppstokkun. Tölvumál, 2. tbl. (01.02.1988), 13. árg., bls. 16.

[31] Sama heimild., bls. 17-18.

[32] Tölvuráðgjafar þiggja sölulaun. DV, 55. tbl. 7. mars 1988, bls. 8.

[33] Sama heimild.

[34] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[35] Einar Haukur Reynis, athugasemd í tölvupósti til SKÝ, 27.5. 2016.

[36] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[37] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals. 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.

[38] Sama heimild.

[39] Morgunblaðið 29. ágúst 1985, 2. IBM á íslandi gefur Háskóla Íslands tölvubúnað: Kemur Íslandi í mikilvæg sambönd við umheiminn — segir Guðmundur Magnússon rektor.

[40] Morgunblaðið 11. apríl 1985, C 1. AFMÆLISGJÖF.

[41] Maríus Ólafsson. Athugasemdir í tölupósti, apríl 2016.

[42] Nánar er fjallað um áhrif Péturs í kaflanum um menntamál.

[43] Svar Maríusar Ólafssonar á tölvupósti við fyrirspurn  11. mars 2015

[44] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið 2.9. 2015.

[45] Norræn stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sinnir menntun og rannsóknum.

[46] Hann var forstöðumaður RHÍ 1982-1983 eb frá 1983-1987 framkvæmdastjóri.

[47] Skilgreining á því hvað átt er við með breiðbandi er ekki alltaf sú sama á þessum árum. Það sem virðist vera átt við hér er að fyrirhugað hafi verið að nýta einhvers konar símatækni við að netvæða háskólasvæðið. Að mati Maríusar Ólafssonar hefði slíkt verið tímaskekkja á sama tíma og háskóla vítt og breitt um heiminn voru taka upp Ethernet staðla.

[48] Mbl. 12. des. 1985, B 6-7. Um tölvunet og norræna samvinnu — eftir Gunnar Ingimundarson.

[49] Morgunblaðið 24. mars 1985. 14-15. Boðveitukerfi – breiðbandsnet: Hindrar einokun Pósts og síma eðlilega þróun?

[50] Sama heimild.

[51] Helgi Jónsson: Úr tölvupósti frá árinu 2000. SURÍS var stofnað 9. febrúar 1987.

[52] Úr fórum Maríusar Ólafssonar.

[53] Yfirlit fengið frá Maríusi Ólafssyni, 2016.

[54] ftp://ftp.ripe.net/ripe/hostcount/History/RIPE-Hostcount.90-Oct-10

[55] Frekari upplýsingar um fjölda léna má sjá hér: https://www.isnic.is/tolur/hostcount-history.html

[56] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[57] Arnheiður Guðmundsdóttir. Minnispunktar vegna viðtala 2014 og 2015.

[58] Söguvefur Sky: http://sky.is/index.php/forsiea11

[59] Viðtal við Sigrúnu Helgadóttur 5. nóv. 2014.

[60] Sama heimild.

[61] Althingi.is Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda 1987 nr. 45 30. mars. Sótt á vefinn 18.3. 2015

[62] Althingi.is 130. Frumvarp tillaga [125. mál] um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sótt á vefinn 18.3. 2015.

[63] Viðtal við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[64] http://is.wikipedia.org/wiki/Bi%C3%B0lari sótt a vefinn 18. mars 2015.

[65] Byggt á viðtali við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[66] Viðtal við Jón Ragnar Höskuldsson 3. okt. 2014.

[67] Holberg Másson: Reiknistofa bankanna er stærsta tölvumiðstöð landsins. Morgunblaðið – viðskiptablað. 29. ágúst 1991. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/73023/

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[71] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[72] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild, bls. 9.

[75] Elfar Guðjónsson: GSM posar fáanlegir. Tölvumál 24. árg. 1. tbl. 01.03. 1999, bls. 14.

[76] Morgunblaðið 2. mars 1983, 17. Tölvubúnaður til samkeppnisiðnaðar:  Fella niður að- flutningsgjöld.

[77] Alþýðublaðið 6. sept. 1983, 1. Félag íslenskra iðnrekenda kvarta undan tollyfirvöldum: Tafið fyrir afgreiðslu á tölvum

[78] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 35.

[79] Maríus Ólafsson. Viðtal tekið 23.11. 2015.

[80] Arnlaugur Guðmundsson, tölvubréf 9.11.2015. Dóttir hans Hlíf Arnlaugsdóttir var spilarinn og höfundur BA-ritgerðarinnar. http://stirni.is/thankar/. Sótt 29.11.2015.

[81] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 36.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild, bls. 37.

[84] Sama heimild.

[85] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[86] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[87] Sama heimild.

[88] NT 19. mars 1985. Tölvuþjónusta sveitarfélaga.

[89] Morgunblaðið 7. júlí 1985. SATS-10 hugbúnaðurinn kynntur.

[90] DV 4. maí 1985, auglýsing.

[91] Þar sem annarra heimilda er ekki getið er stuðst við óútgefna samantekt Loga Kristjánssonar um sögu Tölvuþjónustu sveitarfélaga 1979-1997.

[92] Morgunblaðið 4. júlí 1985, B 5. Samband íslenskra sveitarfélaga  valdi Advance-tölvu .

[93] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[94] Logi Kristjánsson, athugasemd við texta, gerð í apríl. 2015.

[95] Byggt á: Tölvuþjónusta sveitarfélaga 1979 – 1997. Samantekt Loga Kristjánssonar 2015.

Ský - Skýrslutæknifélag Íslands (The Icelandic Computer Society)
480870-0189 | Engjateigi 9 | 105 Reykjavík | 553 2460 | sky@sky.is