Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Displaying items by tag: Vefútgáfa sögunnar

Forsögu tölvuvinnslu á Íslandi má rekja aftur til miðrar tuttugustu aldar þegar Hagstofan fékk sérhæfða vél, sem vann með gataspjöld, til að gera manntal árið 1949. Árið 1952 voru Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar stofnaðar og það voru einnig nokkur tímamót. En upphafspunkturinn hér er þó engu að síður settur árið 1964, þegar fyrsta tölvan kom til Íslands, og fyrir því liggja gild rök. Engin saga getur verið tæmandi og á það sannarlega við um sögu upplýsingatækni á Íslandi. Það verður aldrei hægt að segja sögu allra fyrirtækja, verkefna eða þeirra sem komu að sögunni en leitast hefur verið við að stikla á stóru ásamt því að segja frá hvernig tölvuvæðingin hefur haft áhrif á íslenskt þjóðlíf. Upplýsingatækni spilar stórt hlutverk í þjóðfélagi nútímans og er nú einn af helstu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs. Því er það mikill ávinningur fyrir samfélagið og þau fyrirtæki og einstaklinga, sem tekið hafa þátt í að skapa söguna, að hún sé skráð.

Það mun hafa verið á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands (síðar Ský) 19. mars 1981 sem Oddur Benediktsson, fyrrverandi formaður félagsins, lagði fram eftirfarandi tillögu: „Aðalfundur félagsins biður stjórnina að athuga hvort fá megi sagnfræðing eða annan hæfan mann til að skrá bók um íslenska tölvuhætti.“ Tillagan var samþykkt en ekkert varð þó af þessu alllengi. Hjá félagsmönnum var fyrir hendi áhugi á því að halda heimildum til haga og festa „á blað“ meðan þær væru ferskar í minni. Og smám saman varð til safn greina sem vistaðar voru á söguvef Ský. En þótt þessi söfnun sé góðra gjalda verð þá varð ekki til neitt heildstætt yfirlit heldur frekar sundurleitar frásagnir. Því varð úr að stjórn Öldungadeildar Ský (ÖD) ákvað í apríl 2014 að kominn væri tími til að skrásetja sögu tölvuvæðingar á Íslandi og óskaði eftir því við stjórn Ský að fara í þetta verkefni. Á það var fallist og formanni ÖD falið að finna einstaklinga í ritnefnd. 

Var ráðinn verktaki til Ský í stuttan tíma til að afla fjár til verksins. Það gekk þannig að hafist var handa.

Þorgrímur Gestsson, blaðamaður, tók verkið að sér. Ritnefnd lagði línurnar; tímabilið sem fjalla átti um skyldi afmarkast frá þeim tíma sem fyrsta tölvan kæmi til Íslands og næstu fimmtíu ár, þ.e. frá 1964 til 2014. Einnig að þessu tímabili skyldi skipt upp í fimm styttri bil. Í vali á viðmælendum var lögð áhersla á að leita í viskubrunn þeirra sem tóku virkan þátt í að taka á móti fyrstu tölvunum sem komu til landsins og voru frumkvöðlar í að móta upplýsingatæknina á Íslandi. Einnig var haft í huga við val viðmælenda að fylla inn í skörðin þar sem rituðum heimildum sleppti. Alls voru tekin formleg viðtöl við um fimmtíu manns en fleiri veittu upplýsingar um einstök atriði. Eftir tæpt ár var Þorgrímur búinn að ræða við marga þeirra og taka saman talsvert efni um fyrstu þrjú tímabilin. En Þorgrímur komst að raun um að sér hefði verið skammtaður of naumur tími til að ljúka verkinu, meðal annars vegna þess að hann hefði ekki næga þekkingu á lokatímabilinu, og því varð úr að hann hvarf frá því. 

Ský samdi við nýjan höfund, Önnu Ólafsdóttur Björnsson, menntaðan sagnfræðing og tölvunarfræðing. Ákveðið var að stefna á útgáfu á vef og sjá svo til með útgáfu bókar síðar. Voru ýmsir kostir fólgnir í því að birta verkið á vef og þeir helstir að þannig gafst mönnum tækifæri til að gera athugasemdir og koma með viðbætur. Varð sú og raunin. Anna tók fleiri viðtöl og vann ötullega að skrifunum, með hléum. Vorið 2016, tveimur árum eftir að hafist var handa, var vefútgáfan formlega opnuð. Jafnframt voru á vef Ský birt myndviðtöl við nokkra einstaklinga sem höfðu tekið virkan þátt í tölvuvæðingu landsins.

Nú, tveimur árum síðar, kemur bókin svo út á fimmtíu ára afmæli Ský. Öllum sem að bókinni standa er vel ljóst að ekki er öll sagan sögð en einhvers staðar verður að setja punktinn og vefútgáfan verður áfram opin. Ritnefndin þakkar Ský fyrir framtakið og þá sérstaklega framkvæmdastjóra félagsins, Arnheiði Guðmundsdóttur, sem var í raun ritstjóri bókarinnar. Einnig bókarhöfundi, sem hefur lifað í þessu verki í nær þrjú ár.

Þá fá allir þeir einstaklingar sem rætt var við og gáfu upplýsingar og/eða ljósmyndir bestu þakkir fyrir framlag sitt. Sama gildir um þau fyrirtæki og einstaklinga sem lögðu fé í verkið og gerðu það þar með mögulegt. Loks þakka ég samstarfsfólki í ritnefnd kærlega fyrir samstarfið, þeim Sigurði Bergsveinssyni (sem var formaður fyrsta árið), Frosta Bergssyni, Gísla Má Gíslasyni, Gunnari Ingimundarsyni, Vilhjálmi Þorsteinssyni, Sigríði Olgeirsdóttur og síðast en ekki síst Þorsteini Hallgrímssyni, fyrrverandi formanni ÖD, en hann starfaði allan tímann ötullega með ritnefndinni.

Arnlaugur Guðmundsson
formaður ritnefndar frá júní 2015

 • Arnlaugur Guðmundsson Arnlaugur Guðmundsson,
  formaður ritnefndar
 • Arnheiður Guðmundsdóttir Arnheiður Guðmundsdóttir,
  framkvæmdastjóri Ský
 • Anna Ólafsdóttir Björnssson Anna Ólafsdóttir Björnssson,
  söguritari
 • Frosti Bergsson Frosti Bergsson,
  ritnefnd
 • Gísli Már Gíslason Gísli Már Gíslason,
  ritnefnd
 • Gunnar Ingimundarson Gunnar Ingimundarson,
  ritnefnd
 • Sigríður Olgeirsdóttir Sigríður Olgeirsdóttir,
  ritnefnd
 • Sigurður Bergsveinsson Sigurður Bergsveinsson,
  ritnefnd
 • Vilhjálmur Þorsteinsson Vilhjálmur Þorsteinsson,
  ritnefnd
 • Þorsteinn Hallgrímsson Þorsteinn Hallgrímsson,
  ritnefnd

Er ég fékk það hlutverk að taka við ritun fimmtíu ára sögu tölvuvæðingar á Íslandi (1964–2014) fyrir hartnær þremur árum höfðu margir þegar lagt hönd á plóg. Í fyrsta áfanga var skrifuð vefútgáfa sögunnar sem út kom vorið 2016 og síðan var staðfest að hún kæmi einnig út á bók. Snemma vissi ég af miklum áhuga Odds Benediktssonar á þessu verkefni og Jóhanni Gunnarssyni var einnig mjög umhugað um að sagan yrði skráð. Síðar frétti ég að öldungadeild Ský hefði tekið verkefnið í fóstur og loks var forveri minn í sögurituninni, Þorgrímur Gestsson, búinn að vinna gott verk er ég tók við henni með dyggum stuðningi ritnefndar. Þótt hann hafi gefið mér fullt leyfi til að fara með sinn texta eftir þörfum þá er framlag hans og nærvera í bókinni ótvíræð og sýnileg þeim sem til þekkja. Munurinn á vefútgáfu og bók um sama efni er ekki alltaf skýr. Við ritun þessarar sögu var þó leitast við að nýta kosti hvors fyrir sig. Í vefútgáfu er hægt að leyfa sér að birta ítarlegri upplýsingar og lengri pistla um einstök efni þar sem lesandinn getur auðveldlega sótt sér þær upplýsingar sem hann eða hana lystir með leit í efninu. Þar eiga líka heima nákvæmir listar yfir fyrirtæki í tölvutækni á Íslandi. Bókarformið er betur fallið til að segja heildstæða sögu, studda myndum og örsögum eftir því sem ástæða er til. Lesandinn á að geta sest niður, lesið bókina frá upphafi til enda og orðið nokkurs vísari um helstu atriði þeirrar sögu sem sögð er.

File0002
Árið er 1964. Hinum megin við Dunhagann sitja nemendur Hagaskóla og frétta hjá raungreinakennaranum sínum að verið sé að koma fyrir fyrstu rafeindareiknivél Háskólans. Sömu nemendur eru litlu síðar farnir að læra óútkomið kennsluefni eftir Harald Steinþórsson stærðfræðikennara, Tölur og mengi, og kynnast þar tvíundarkerfinu. Margt er að breytast.
Ljósmyndari: Þorsteinn Sæmundsson.

Engin saga er tæmandi og engum er greiði gerður með því að reynt sé að tína allt til sem gerst hefur á ákveðnu árabili, jafnvel þótt um afmarkað efni sé að ræða. Þarna reynir á höfund að velja og hafna og í þeim efnum studdist ég oft við mat þess fólks sem gerst þekkti hvert tímabil, en endanlegt val og niðurstaða er þó að sjálfsögðu mín. Oft varð mér hugsað til höfunda stærri sagna, Íslandssögunnar eða veraldarsögunnar, þegar ég vorkenndi sjálfri mér að þurfa að skera niður gott efni. Sá þá að hlutskipti mitt var harla gott í þeim samanburði.

Enn hefur ekki verið skrifað villulaust sagnfræðirit mér vitanlega. Vissulega væri ánægjulegt ef þessi bók væri það fyrsta, en svo er áreiðanlega ekki. Því er rétt og skylt að biðjast afsökunar á því sem kann að hafa misfarist og tek ég fulla ábyrgð á því.

apple.I.fyrsta.tolvan.fra.apple
Árið er 1976. Fyrsta Apple-tölvan lítur dagsins ljós. Hönnuðurinn Steve Wozniak handsmíðaði hana. Hún á fátt skylt með þeim tölvum sem síðar hafa komið fram frá sama framleiðanda annað en kannski það að hönnunin er nýstárleg, en það hefur oft verið einkennandi fyrir tölvurnar frá Apple. Eða getur verið að þarna örli á stílfærðu útliti komandi ferðatölva?

Formleg viðtöl sem tekin voru í tilefni af ritun bókarinnar voru á sjöunda tuginn við 51 viðmælanda, auk þess sem margir heimildarmenn lögðu söguriturum lið með misformlegum hætti, bæði í spjalli og með ábendingum, sem flestar bárust í tölvupósti. Sá háttur var hafður á að vakin var athygli félagsmanna í Ský á fyrstu vefútgáfu ritsins, sem var gerð aðgengileg á vef félagsins í maílok 2016. Hálfs árs frestur var gefinn til að skila inn viðbótarefni og ábendingum. Ýmislegt bitastætt barst innan þess tímaramma. Þá var auglýst eftir myndum og þakka ég öllum sem svöruðu því kalli. Eins og verða vill bárust allmargar ábendingar og tillögur eftir að fresturinn var útrunninn, jafnvel eftir að bókin var
komin í prentsmiðju. Reynt var að vega og meta hvað nauðsynlegt væri að færa til betri vegar en geyma annað til síðari tíma og nýta sem best í uppfærslu vefútgáfunnar þegar færi gæfist.

Askell Fannberg
Árið er 1988. Upp hafa sprottið fjölmargar tölvuverslanir og tölvuþjónustu-fyrirtæki, sum á gömlum merg. Þarna er Áskell Fannberg að störfum í þjónustudeild TKÓS, innan fyrirtækis sem stofnað var árið 1912. En sjá má á tölvunni sem hann hefur í höndum að nútíminn er genginn í garð. Mikil gróska er í hugbúnaðargerð og sölu vélbúnaðar um þessar mundir. Ljósmyndari: Ágúst Haraldsson.

Á heitum sumardegi í byrjun júní 2015 sat ég ásamt Elísabetu systur minni á útiveitingahúsi við fallegt torg í Neustadt í Hamborg þegar síminn hringdi. Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský var í símanum og spurði hvort ég væri tilbúin að taka að mér þetta verkefni, sem ég nú skila af mér. Þegar ég sagði systur minni erindið benti hún mér á að þetta verkefni væri sniðið fyrir mig, sagnfræðinginn og tölvunarfræðinginn. Enn var ég bundin í vinnu í Hamborg, en stefndi heim og hellti mér þá þegar út í að kynna mér efnið og eftir það varð ekki aftur snúið. Þessi saga er ævintýraleg og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í því ævintýri á minn hátt.

WILD MindGames
Árið er 2012. Hugbúnaðargerð á Íslandi stendur í blóma, þrátt fyrir að ekki sé langt frá bankahruni. Fyrir íslensk hugbúnaðar-fyrirtæki merkti það að auðveldara var að finna forritara því bankarnir urðu að fækka verulega í tölvudeildum sínum. Hugbúnaður af ýmsu tagi vekur athygli, meðal annars nýstárlegir tölvuleikir eins og W.I.L.D. frá MindGames, þar sem nota þarf einbeitingu til að sigra í pinball-leik. Hönnun: Ragnar Már Nikulásson og Katla Rós Völudóttir.

Sögusviðið er Ísland á umbreytingartímabili. Ári áður en fyrstu tölvunum var skipað í land á hafnarbakkanum í Reykjavík fengu ráðamenn og sérfræðingar smjörþefinn af því sem í vændum var er tölva hafði hér stuttan stans á leið milli heimsálfa. Tölvan var prófuð og kostir tölvutækninnar kynntir. Með einni skipun var hægt að prófa að hækka áfengisverð um hálft prósent og sjá hversu mikið ríkissjóður myndi hagnast á því. Það fór ekki framhjá ráðherranum sem prófaði þann útreikning að nýir möguleikar voru að opnast. Enda gekk það eftir að ári eftir þessa stuttu heimsókn komu fyrstu tölvurnar sem Íslendingar höfðu yfir að ráða til landsins. Þeirra biðu margvísleg verkefni og samfélagið þurfti að mennta þjóðina til starfa á nýjum vettvangi. Ný kaflaskipti voru í sjónmáli þegar sögunni lýkur, 2014. Þá var snjalltækjabyltingin að fara á flug, fjarskiptatækni að bjóða upp á mun meiri möguleika en fyrr, smáforrit að verða til á öllum sviðum og síðast en ekki síst var að verða að veruleika sá heimur sem ég sá í hillingum er ég lauk meistaraprófi í tölvunarfræði 2008: internet allra hluta.

Ég vil þakka eiginmanni mínum, Ara Sigurðssyni, fyrir þolinmæðina og áhugann, en fyrir hann las ég jafnóðum kaflana sem ég skrifaði fyrir fyrstu útgáfu sögunnar. Hann kom með fjölmargar gagnlegar ábendingar. Ritnefnd og framkvæmdastjóra Ský þakka ég ánægjulegt samstarf. Allir þeir sem sýnt hafa verkinu velvild og áhuga fá líka þakkir en í stærstri þakkarskuld er ég við þá sem skópu þessa sögu, tóku þátt í henni og miðluðu henni áfram til framtíðarinnar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson