Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Tölvuvæðing í hálfa öld

- fyrstu 50 árin

Vefsvæði var opnað fimmtudaginn 26. maí 2016 en þá voru birt frumdrög að sögunni sem telst útgáfa 0.9 og tilgangurinn með því sá að gefa fólki tækifæri á að senda inn tilbúnar ljósmyndir ásamt tilbúnum frásögnum til viðbótar.  Tekið var við efni til 1. nóvember 2016 og eftir það var útgáfa 1.0 birt á vefnum. Í ársbyrjun 2019 var ný útgáfa sett á vefinn og er það textinn og myndirnar úr bókinni og útgáfu 1.0 lokað á sama tíma.
Sagan heldur áfram og er tekið við nýju efni til birtingar á vefnum um ókomna framtíð.

Þann 6. apríl 2018 kom út bókin "Tölvuvæðing í hálfa öld - Upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014".  Hægt er að nálgast bókina í Forlaginu, Eymundsson og Bóksölu stúdenta.

Hér til hliðar eru allir kaflar bókarinnar sem tekin var saman á árunum 2014-2016 í tilefni þess að liðin eru 50 ár frá því að fyrsta tölvan kom til Íslands. Veldu það tímabil sem þú vilt skoða og njóttu!

Engin saga getur verið tæmandi og á það sannarlega við um sögu upplýsingatækni á Íslandi.  Hér er um að ræða mikið og víðtækt efni sem tekið var saman af Skýrslutæknifélagi Íslands að ósk Öldungadeildar félagsins í tilefni þess að árið 2014 voru 50 ár liðin frá því að fyrsta tölvan kom til Íslands og því komið að hálfrar aldar afmæli tölvubyltingarinnar á Íslandi. Það verður aldrei hægt að segja sögu allra fyrirtækja, verkefna eða þeirra sem komu að sögunni en leitast hefur verið við að stikla á stóru ásamt því að segja frá hvernig tölvuvæðingin hefur haft áhrif á íslenskt þjóðlíf. 

Söguritarari megintexta sögunnar var Anna Ólafsdóttir Björnsson - en fleiri komu að verkinu um lengri eða skemmri tíma. Ritnefnd skipuðu: Arnlaugur Guðmundsson (formaður ritnefndar), Sigurður Bergsveinsson, Frosti Bergsson, Vilhjálmur Þorsteinsson, Gunnar Ingimundarson, Sigríður Olgeirsdóttir, Gísli Már Gíslason, Þorsteinn Hallgrímsson og Arnheiður Guðmundsdóttir. Kostnaður við ritun sögunnar var fjármagnaður með styrkjum og þökkum við öllum þeim sem styrktu verkefnið. Enn er tekið við styrkjum ef einhver vill leggja sögunni lið.

Markmið sögunnar er að leggja megináherslu á þær breytingar, sem urðu á starfsemi fyrirtækja, stofnana og þjóðfélagsins í heild því með tölvuvæðingunni breyttust starfshættir bæði hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum. Ennfremur skapaðist nýr iðnaður, upplýsingatækni, með hugbúnaðariðnað, tæknibúnað, og vélbúnaðarþjónustu sem hefur haft gríðarleg áhrif á þróun mannlífs á Íslandi. Upplýsingatækni spilar stórt hlutverk í þjóðfélagi nútímans og er nú einn af helstu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs. Því er það mikill ávinningur fyrir samfélagið og þau fyrirtæki sem tekið hafa þátt í að skapa söguna að hún sé tekin saman.

Frumkvöðlar á sviði upplýsingatækninnar eru í dag komin til ára sinna og því þótti brýnt að ná að skrásetja þessa sögu, á meðan enn var hægt að ræða beint við þá þátttakendur í sögunni sem enn nýtur við. Í vali á viðmælendum var lögð áhersla á að leita í viskubrunn þeirra sem tóku virkan þátt í að taka á móti fyrstu tölvunum sem komu til landsins og voru frumkvöðlar í að móta upplýsingatækni á Íslandi. Þá var einnig haft í huga við val viðmælenda að fylla inn í skörðin þar sem rituðum heimildum sleppti. Alls voru tekin formleg viðtöl við hátt í fimmtíu manns en fleiri veittu upplýsingar um einstök atriði.

© Ekki má afrita eða nota texta úr sögunni án skriflegs leyfis Skýrslutæknifélags Íslands (sky@sky.is)