Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Displaying items by tag: Háskóli Íslands

Reiknifræðin – norðan við stríð

Stundum er sagt að Íslendingar hafi skriðið á sauðskinnsskónum út úr torfkofunum í byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar og orðið ríkir á einni nóttu af því að vinna fyrir útlendan her. En eigi vera landans í torfkofum fram að því að merkja að þeir hafi lifað gjörsamlega í frumstæðri fortíð er það langt frá því að vera rétt. Menntunarþrá hafði lengi lifað með fólkinu og einstaka hugmyndaríkir framfarasinnar fóru jafnvel að tala um háskólamenntun á Íslandi upp úr miðri 19. öld.

Hugmyndin að íslenskum háskóla varð að veruleika árið 1911, sjö árum áður en Ísland varð fullvalda ríki. Námsframboð var takmarkað. Lengi framan af 20. öldinni urðu Íslendingar að fara utan ef þeir vildu stunda verkfræðinám og langflestir sóttu til Kaupmannahafnarháskóla. En vegna hernáms Þjóðverja í Danmörku í stríðinu lokaðist leiðin þangað. Það varð til þess að hér norðan við stríð var farið að undirbúa að Háskóli Íslands tæki upp kennslu í verkfræði og haustið 1945, þegar hildarleiknum var nýlokið, hófst það sem kallað var „fyrrihlutanám“ verkfræði, sem tók þrjú ár. Þannig var staðan að mestu fram eftir sjöunda áratugnum, þegar farið var að bæta við fleiri raungreinum.

Það voru einmitt íslenskir verkfræðistúdentar við nám í útlöndum – Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku – sem fyrstir komust í kynni við hina ungu og vaxandi tölvutækni, og unnu að því að tölva yrði keypt til Íslands. Þegar það var í höfn fóru forgöngumennirnir að undirbúa kennslu í meðferð og notkun þessarar fyrstu tölvu í kjallara Raunvísindahússins nýja. Það kom í hlut þeirra Magnúsar Magnússonar prófessors og doktors Odds Benediktssonar að setja saman fyrstu drög að námsefni í tölvunarfræðum, sem þá voru nefnd „reiknifræði“ og felld undir námsgreinina „hagnýtt stærðfræði“. Á þessum námskeiðum var fyrst og fremst kennt forritunarmálið Fortran II. Fyrstu námskeiðin voru haldin skólaárið 1965 til 1966 og að auki var stutt tilraunanámskeið fyrir þriðja árs nema í verkfræði á vormisseri 1965, við litla hrifningu sumra.[1] Þessi kennsla var eftir það lítið breytt næstu tvo áratugina, að því undanteknu að forritunarmálið breyttist með tímanum, frá Fortran II í Fortran 77 og síðar C++.[2] 

Skólaárið 1972–1973 tók Háskólinn upp kennslu til BS-prófs í hagnýtri stærðfræði og árið 1976 varð tölvunarfræði sjálfstæð grein í sérstakri deild.[3] Námskrá var sniðin eftir námskrá ACM (Association for Computing Machinery), sem er alþjóðlegt fagfélag tölvunarfræðinga, og enn er leitast við að fylgja þeirri námskrá við kennslu í tölvunarfræðum í Háskóla Íslands.[4]

Faðir tölvunarfræðinnar á Íslandi

Vélaverkfræðingurinn og stærðfræðingurinn Oddur Benediktsson (1937­–2010) er oft nefndur „faðir tölvunarfræðinnar“ við Háskóla Íslands og munu það orð að sönnu. Hann lauk doktorsprófi í hagnýtri stærðfræði, starfaði sem sérfræðingur hjá Reiknistofnun á fyrstu árum hennar en kenndi jafnframt miklum fjölda fólks, innan og utan HÍ, forritunarmál. Hann hætti kennslu við HÍ um hríð þegar honum var farin að leiðast biðin eftir því að nauðsynlegar framfarir yrðu í tölvufræðum og réðst til IBM.[5] Hann varð svo dósent við stærðfræðiskor Háskólans árið 1973 og var einn af aðalskipuleggjendum hinnar nýju námsbrautar í tölvunarfræðum og formaður nefndar sem skipulagði námskrá í hugbúnaðarverkfræði. Hann var prófessor við tölvunarfræðiskor á árunum 1982 til 2007 og stundaði á ferlinum einkum rannsóknir á upplýsingakerfum og gæðastjórnun í hugbúnaðargerð.[6]

Tölvur og stærðfræðikennsla

Ekki voru margar konur voru áberandi meðal þeirra sem létu heillast af þessari nýju tækni í upphafi tölvualdar en þær voru þó einhverjar. Ein þeirra var Anna Kristjánsdóttir, sem hóf háskólanám árið 1961 og innritaðist í stærðfræði. Þá var enginn að tala um rafeindareikna, hvað þá tölvur. Hún tók ekki eðlisfræði með stærðfræðinni eins og venjulegast var heldur sagnfræði og lauk BS-gráðu í þeim fræðum. Síðan hélt hún áfram námi haustið 1965 og tók námskeið í hagnýtri stærðfræði hjá Magnúsi Magnússyni og Oddi Benediktssyni „til að fylla upp í námið“ eins og hún orðar það sjálf. Þá kynntist hún forritunarmálinu Fortran, sem henni þótti „afskaplega glæsilegt stærðfræðimál, það var svo fjölvídda, hafði margar breytur sem maður gat haft í einu. Hins vegar skilur það enginn nema þeir sem hafa lært þó nokkuð mikla stærðfræði,“ eins og hún orðar það sjálf.

Anna hélt til Danmerkur í framhaldsnám og kynntist þar forritunarmálinu Basic, sem gaf fólki með tiltölulega litla stærðfræðiþekkingu kost á að vinna með tölvutækni. Hún skrifaði lokaritgerð um tölvunotkun í stærðfræðinámi fyrir unglinga til átján ára aldurs og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að tölvutæknin myndi ekki komast almennilega inn í skólana fyrr en komnir væru kennarar sem hefðu kynnst þessari tækni sjálfir frá unglingsaldri. Strangt til tekið hefði hún þó ekki mátt fjalla um tölvutækni, ritgerðin átti að fjalla um stærðfræði!

„Svo tók það náttúrulega miklu lengri tíma en það. Fólk er afskaplega fast í skoðunum sínum um það hvað á að kenna,“ segir Anna, sem vann síðan sem kennsluráðgjafi, kennari og námsstjóri í stærðfræði. Hún var síðast prófessor við Kennaraháskóla Íslands og lagði mikla áherslu á notkun tölvutækninnar við kennslu, einkum stærðfræðikennslu, sem síðar verður vikið að. [7]

Íslenskir kerfisfræðingar útskrifast frá dönskum skólum

Önnur kona, sem kynntist forritunarmálinu Basic í menntaskóla, var Arnheiður Guðmundsdóttir, sem síðar varð framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar. Hún lýsir upplifun sinni af forritunarmálinu svo: „Þar komst ég að því að forritun er ekkert annað en að raða saman í rökrétta röð þeim aðgerðum sem maður vill framkvæma til að leysa ákveðin verkefni.“[8] Hún fékk áhuga á forritun, sem varð til þess að hún ákvað að læra kerfisfræði í Odense í Danmörku, 1985–1986. Það var vinsæll valkostur fyrir þá sem höfðu áhuga á að vinna við forritun en höfðu ekki hug á að fara í tölvunarfræðinámið sem boðið var upp á við Háskóla Íslands. Það var lengra nám og meiri áhersla á stærðfræði en í kerfisfræðináminu.[9] „Á Íslandi var þá einungis kennd tölvunarfræði (Computer Science) en mörgum fannst það ekki henta sér og fóru góðar sögur af kerfisfræðináminu í Danmörku.“[10] Námið byggði á sama grunni og tölvunarfræðinámið. Sumir bættu síðar við sig einu ári í tölvunarfræði við háskóla á Íslandi og urðu þá tölvunarfræðingar. Þetta sama nám var svo tekið upp í Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands og síðan í Háskólanum í Reykjavík sem kerfisfræðinám og varð mjög vinsælt.

Ný fræði fæðast í Háskóla Íslands

Tímamót urðu í kennslu í tölvufræðum við Háskóla Íslands árið 1976 þegar tölvunarfræði varð að sjálfstæðu þriggja ára námi við stærðfræðiskor verkfræði- og raunvísindadeildar og kennt var til BS-prófs. Námið var frá upphafi 90 einingar en kjarninn í tölvunarfræðinni sjálfri var 59 einingar, sem nemendur gátu ráðstafað að vild, í samráði við kennara. Fyrsta veturinn var kennsla fyrir fyrsta og annað námsár og voru fimmtán nemendur í tölvunarfræði á báðum árunum. Fleiri en tölvunarfræðinemendur nutu kennslunnar því allir nemendur í verkfræði- og raunvísindadeild tóku eitt námskeið í tölvuforskrift og nemendur í viðskiptafræði tóku námskeið sem nefndist Rafreiknar I og fjallaði um uppbyggingu tölva og meðferð helstu upplýsingastrúktúra. Í kjarna tölvunarfræðinnar voru fög eins og stærðfræðigreining, töluleg greining, rafreiknifræði, gagnavinnsla og gagnasafnsfræði, forritunarmál, kerfishönnun, kerfisgreining og kerfishönnun. Hópinn sem undirbjó námið skipuðu Oddur Benediktsson, Guðmundur Magnússon frá viðskiptafræðideild Háskólans og Jón Zóphoníasson frá SKÝRR. Áhersla var lögð á námskeið í kerfishönnun og kerfisgreiningu þannig að í upphafi var námið skyldara hugbúnaðarverkfræði en annars staðar tíðkaðist. Enda þótti mönnum hjá háskólum víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, námið óvenjulegt og það var ekki fyrr en eftir 1990 að farið var almennt að skipuleggja nám í hugbúnaðarverkfræði í þessum háskólum.[11]

Tölvunarfræði varð sjálfstæð skor innan raunvísindadeildar árið 1988.

Eftirspurnin svo mikil að fólk náði varla að ljúka námi

Í umfjöllun um tölvunarfræðinám við Háskóla Íslands í Alþýðublaðinu 1977 spurði blaðamaður hvort þörf væri á sérstakri námsbraut í tölvunarfræðum og hvort þessir stúdentar fengju vinnu í sínu fagi. Svarið var að þeir þyrftu varla að kvíða atvinnuleysi í framtíðinni, svo virtist sem eftirspurn eftir kerfisfræðingum og forriturum væri meiri en framboð á menntuðu fólki í þeim greinum, sem atvinnuauglýsingar í blöðum bentu meðal annars til.[12] Þetta áttu eftir að reynast orð að sönnu og næstu árin voru þess fjölmörg dæmi að fólk hyrfi frá námi og færi að vinna í þessu fagi, svo mikið var sóst eftir fólki með tölvuþekkingu. Tölvutæknin var sem óðast að breiðast út í alla króka og kima atvinnulífsins. Frá 1978 til 2013 útskrifuðust alls 1574 tölvunarfræðingar með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, sem tók til starfa árið 1998, en samt sem áður hefur ætíð verið skortur á menntuðu fólki í greininni. Í kringum netbóluna um árþúsundamótin bar jafnvel á því að nemendur hyrfu frá námi og í vel launuð störf rétt eftir innritun í tölvunarfræði,[13]

Sveiflukennd fjölgun

Sífellt fleiri sækja sér nám á háskólastigi og á Íslandi hefur fjöldi nemenda í háskólum (öllum greinum) farið úr 2249 nemendum árið 1977, um það leyti er tölvunarfræðinám hófst á Íslandi, í 19.183 nemendur árið 2010. Fjöldi umsókna í nám í tölvunarfræði hefur fylgt þessari þróun að nokkru leyti þó að sveiflur hafi verið á milli ára. Uppsveifla kom í aðsóknina þegar útbreiðsla einkatölva gerði tölvunotkun almennari, kringum árið 1987, en stærsti útskriftarárgangurinn úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands á árunum 1980-2014 var árið 1989 þegar 52 útskrifuðust. Aftur kom toppur í aðsóknina í kringum árþúsundamótin. Aðsóknin kringum árið 2014 bendir til þess að áhuginn hafi aukist og sé nálægt því sem var áratug fyrr, í Háskóla Íslands einum innrituðust það ár 408 nemendur í tölvunarfræði og eftir 2014 hefur fjöldi útskriftarnemenda vaxið.[14] Forritun er ein af undirstöðunum í námi í tölvunarfræði og yfirleitt með fyrstu námskeiðum sem nýnemar taka. Í gegnum árin hafa kennarar rætt hvernig best sé að kenna nýnemum forritun, aðferðir, forritunarmál og hvernig best megi styðja við nemendur og hafa hvetjandi áhrif á námsvenjur þeirra til að laða þá að forritun.[15]

  • stereo2
  • stereo1
Úr kennslustund í Tölvugrafík í Háskóla Íslands vorið 2001. Nemendurnir áttu að gera verkefni í þrívíddargrafík, þannig að hægt væri að sjá þrívíddaráhrif með einföldum þrívíddargleraugum (rauð og blá filma). Myndir: Hjálmtýr Hafsteinsson.

Athyglisvert er að skoða þróun aðsóknar í námið út frá kynjaskiptingu. HÍ útskrifaði fyrstu tölvunarfræðingana árið 1978, tvær konur og einn karl. Engin kona útskrifaðist næstu tvö ár en eftir það ein til tvær á hverju ári þar til sex konur útskrifuðust árið 1984, en þá voru karlarnir sjö. Um það leyti voru tíu konur og tíu karlar í einum árganginum, þótt útskriftin hafi eitthvað dreifst á milli ára.[16] Eftir það jókst aðsókn í námið verulega og náði hámarki árið 1989, þegar 52 tölvunarfræðingar luku námi, 13 konur og 39 karlar. Síðan dró talsvert úr aðsókn en hún tók að aukast á ný þegar kom fram undir aldamót. Þá tók þess að gæta að Háskólinn í Reykjavík hafði tekið til starfa og útskrifaði meðal annars tölvunarfræðinga. Flestir ungir tölvunarfræðingar komu á vinnumarkaðinn á árunum 2003 til 2005, 90 til 95 á hverju ári, og þá fjölgaði einnig konum sem menntuðu sig í tölvunarfræði, þær voru 22 árið 2002 en flestar 38 árið 2004.

Það er einnig athyglisvert að eftir það, einmitt á árum útrásar og þenslu á Íslandi, fækkaði þeim talsvert sem lögðu stund á háskólanám í tölvunarfræðum og voru fæstir hrunárið 2008 en tók að fjölga aftur næstu árin „eftir hrun“. Ein skýring á þessu er að í byrjun þessarar aldar hafi tölvunarfræði orðið eins konar tískufag en eftir að þenslu hagkerfisins og stækkunar bankanna tók að gæta fyrir alvöru þótti vænlegra að leggja stund á viðskipta- og hagfræðigreinar. [17]

UtskrifadirTolvunarfraedi
Útskrifaðir með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík 1976-2014.

Fyrstu háskólanemarnir í tölvunarfræði á Íslandi

En hvernig skyldu fyrstu háskólanemarnir í tölvunarfræði á Íslandi hafa upplifað námið? Í minningarbrotum Gunnars Linnet, eins af fyrstu útskriftarnemendum háskólagráðu í tölvunarfræði frá íslenskum háskóla, segir:

Ég var í fyrsta stúdentsárganginum frá Flensborgarskóla og heillaðist af þessu sem boðið var upp á í vali. Heimsótti sendiráð Bandaríkjanna og Bretlands og þar var hægt að komast í námskrár. Þar sá ég nám í flestum námskrám sem nefndist Computer Science.

Gunnars Linnet ákvað að hefja nám í stærðfræði/reiknifræði og einnig fór hann og heimsótti Odd Benediktsson tölvukennara við verkfræði- og raunvísindadeild og Guðmund Magnússon deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans.

Á þessum tíma var tölvukennslan hluti af reiknifræði innan stærðfræðinnar.

Við fórum tveir í þessi viðtöl og var samstúdent minn Karl Rosenkjær með mér. […]

Viðtökur Odds voru mjög góðar fyrir okkur nýstúdenta og hvatti hann okkur til að senda inn erindi til verkfræði- og raunvísindadeildar. Hann benti okkur á að þetta færi fyrst til umsagnar stærðfræðiskorar og það væri mikilvægt að hafa gott „þak“ á stærðfræðinni, þannig að erindinu yrði ekki vísað frá í byrjun.

Við félagarnir settumst niður og skrifuðum erindi til Háskóla Íslands þar sem við óskuðum eftir því að hafin yrði kennsla í tölvufræðum […] Við lögðum til kúrsa og höfðum þar töluverða stærðfræði, að ráðum Odds, en námskráin var bæði byggð upp miðað við þær upplýsingar sem höfðu komið fram við lestur á erlendum námskrám og ráðleggingar Odds.

Við félagarnir förum til Odds með bréfið og fengum hann til að lesa það yfir. Þar skrifuðum við að við vildum hafa gott þak á stærðfræði í náminu. Oddi fannst það ekki gott til að byrja með, en sagði svo: „Það skilst“.[18]

Í mars 1976 barst Gunnari bréf frá Háskóla Íslands þar sem honum var sagt að samþykkt hefði verið að hefja kennslu í tölvunarfræði við háskólann. Hann ásamt fleirum hóf þar nám og varð meðal þeirra þriggja fyrstu tölvunarfræðinga sem útskrifuðust frá skólanum í júní 1978 en auk hans útskrifuðust í þessum fyrsta hópi Hólmfríður Pálsdóttir og Sigríður Gröndal. Um tilhögun námsins segir Gunnar meðal annars:

Mjög margir hófu nám, en stærðfræðin var mikill þröskuldur að yfirstíga. Jafnframt var mikil ásókn í starfsmenn með einhverja þekkingu og strax að afloknu fyrsta ári komu atvinnutilboðin og enn fleiri þegar tveimur árum var lokið. Þetta til samans leiddi til þess að mjög fáir útskrifuðust. Ég gekk t.d. frá minni ráðningu ári fyrir útskrift.

[…] Oddur Benediktsson var eini tölvukennarinn og aðrir voru stundakennarar sem kenndu tölvugreinar. Stærðfræðinám og viðskiptanám var að sjálfsögðu í höndum kennara viðkomandi greina. Tölvunarfræðin var undir stærðfræðiskor og ég fékk upplýsingar um að heimild hefði verið fengin til að ráða prófessor fyrir tölvunarfræðina, þá lyftist brúnin. Í kjölfarið var búist við því af okkur nemendunum að við hefðum einn dósent og einn prófessor. Stöðugildið var veitt til stærðfræðiskorar og þar var auglýst eftir stærðfræðikennara. Oddur var ekki talinn hæfur, en hæfur stærðfræðikennari var valinn. Þetta voru gífurleg vonbrigði. Fyrsti prófessorinn í tölvunarfræði við Háskólann var ekki ráðinn fyrr en Oddur fékk ráðninguna 1982.

Það var áhugavert að upplifa þessa miklu breytingu á tölvukosti sem átti sér stað á þessum þremur vetrum sem ég var við nám. Á fyrsta vetri var kennt Fortran II á IBM 1620 vél. Inntak þessara véla var gataspjöld og óverulegt geymslurými á diskum. Á öðrum vetri var komin IBM 360, en það var gömul tölva sem IBM á Íslandi gaf Háskóla Íslands. Þessi vél var með diskarými, en inntak var með spjöldum. […] Á síðasta árinu var kennt á Digital PDP vél. Sú vél var með skjái sem inntaksmiðla, margfalda afkastagetu á við fyrri vélar Háskólans. Á þessum þremur árum var kennt á þrjár mismunandi kynslóðir tölva.[19]

Tölvunám á ýmsum skólastigum

Snemma vaknaði áhugi á að kenna börnum og unglingum á hina nýju tækni sem var að ryðja sér til rúms. Því fer fjarri að sú barátta að koma því námi á laggirnar hafi alltaf verið dans á rósum.

Tölvufræði á framhaldsskólastigi

Það fer ekki fram hjá neinum sem kynnir sér umfjöllun og umræðu um tölvutækni á fyrri áratugum að hún vakti mjög fljótt forvitni og áhuga. Enda liðu ekki mörg ár frá því farið var að kenna tölvunarfræði við Háskóla Íslands þar til menn fóru að huga að tölvukennslu á menntaskólastigi. Halla Björg Baldursdóttir, ein af fyrstu konunum sem lærðu það sem þá hét stærðfræði og reiknifræði, útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 1977. Hún hóf þegar um haustið að kenna við Menntaskólann við Tjörnina, sem síðar varð Menntaskólinn við Sund, og tók fljótlega að sér að kenna um tölvur. Einhvers konar tölvukennsla hafði raunar verið við skólann í fáein ár, en afar frumstæð. Ekki var til nema ein borðtölva og kennslan fólst aðallega í því að kenna á hana og semja eitt eða tvö Fortran-forrit fyrir 1620-tölvu Háskólans.

handskrifud.kennslubok
Úr kennslubók Höllu Bjargar Baldursdóttur: Forritunarmálið Basic, sem kom fyrst út árið 1980.

Halla Björg byggði upp tölvufræðslu sem valgrein fyrir allar deildir þriðja og fjórða bekkjar og tölvufræði, sem var skyldugrein í fjórða bekk. Einnig gátu þeir nemendur síðasta bekkjarins sem þess óskuðu fengið að stunda sjálfstætt nám í tölvufræði, sem fékkst metið sem tæplega áttatíu kennslustundir. Aðstæður voru ekki góðar, skólinn átti eina forritanlega reiknivél og prentara og tvær skjátölvur, aðra frá Wang, sem jafnframt var notuð við nemendabókhald skólans, en hin var af gerðinni Commodore, sem var hvað algengust þá. Einnig notuðu aðrir kennarar tölvurnar í vaxandi mæli vegna annarra námsgreina. Halla Björg samdi allmikið af kennsluefni enda var það torfengið utan frá, þó kenndi hún bókina Hvað er tölva? eftir Gunnar M. Hansson um tíma.[20] Hún stundaði tölvukennslu til ársins 1987 þegar hún hélt utan til framhaldsnáms. Ekki var mikið framboð af hugbúnaði til að vinna flókið töfluefni fyrir prentvinnslu á þeim tíma svo Halla hikaði ekki við að handskrifa og -teikna skýringarefni í kennslubók sína. Kennsluefni hennar varð ýmsum hvatning til að leggja út á þessa braut.[21]

Þegar Flensborgarskólinn færðist yfir á framhaldsskólastig var einn nemenda skólans Gunnar Linnet og hann rifjar hér upp hvernig staðið var að tölvukennslu í skólanum:

Á árunum 1973 til 1974 átti sér stað umtalsverð þróun á smátölvum, en það voru forritanlegar tölvur. Stærðin varð mun minni en áður og verðið lækkaði verulega. Ég var í Flensborgarskóla og þegar kom að skólabyrjun haustið 1974 var boðið upp á forritunarnámskeið sem valgrein. Flensborgarskóli var nýr menntaskóli og var fyrstu tveimur útskriftarárgöngunum boðið upp á þessa valgrein, þ.e. 3. og 4. bekk.

Tölvurnar voru litlar miðað við það sem síðar varð, með mjög takmarkaða möguleika. Þá reyndi mjög á útsjónarsemi að nýta þessi takmörkuðu afköst til að framkvæma það sem ætlunin var að gera. Einnig var boðið upp á Fortran II-forritunarnámskeið í húsakynnum Raunvísindastofnunar við Dunhaga. Forritunarnámskeiðin við Háskóla Íslands höfðu verið í gangi um einhvern tíma fyrir framhaldsskóla landsins. Hér var verið að kynna menntaskólanemum þessa nýju tækni.[22]

Nokkrir framhaldsskólar með sérstaka áherslu á tölvunám

Framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík og Tækniskólinn buðu upp á kennslu í tölvufræði um 1980.[23] Tækniskólinn er sprottinn upp úr tveimur skólum sem sérhæfðu sig í upplýsingatækni og tölvutengdum greinum á framhaldsskólastigi, Iðnskólanum í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Í Tækniskólanum var öflugt grunnnám í upplýsingatækni, meðal annars á tölvubraut og á seinustu árum einnig sérstakt nám í vefhönnun. Á hverjum vetri voru fjórir til sex hópar í tölvunámi og í hverjum hópi frá 10­­–12 nemendum, upp í um og yfir 20.[24]

Kennsla hófst í tölvufræðum í Verzlunarskóla Íslands árið 1971 en var síðan tekin upp sem valgrein í sjötta bekk, og nefnd Rafreiknar. Engin tæki voru notuð við kennsluna heldur var hún fyrst og fremst almenn fræðsla um tölvunotkun. Árið 1977 var farið að kenna valgrein sem hét Stærðfræði II og rafreiknar og stóð sú kennsla í tvo vetur. Sama ár var skólinn tengdur tölvu Reiknistofnunar með fastri símalínu og settur upp einn skjár í skólanum, og prentari. Árið 1978 var keypt ein míkrótölva af gerðinni Commodore og haustið 1980 keypti skólinn 25 tölvur af þeirri gerð, ásamt kassettutækjum sem voru notuð til að geyma gögn, prentara og diskettustöð.

Haustið 1981 keypti Verzlunarskólinn forrit hjá Tölvubúðinni til að fá broddstafi, ásamt öðrum íslenskum sértáknum, í tölvurnar. Loks var ákveðið að kaupa tengikerfi fyrir allar tölvurnar sumarið 1982 þannig að nemendur hefðu aðgang að öllum tækjunum, óháð hver öðrum, en tengingarnar reyndust alltof flókar og veikbyggðar svo aldrei fékkst öruggt samband. Þá var pantað annað kerfi frá Kanada, sem reyndist mun betur, og einnig ritvinnsluforrit. En þá vildi ekki betur til en svo að íslensku sértáknin lentu aftur á röngum stöðum. Því bjargaði nýútskrifaður verslunarskólamaður, Örn Hansen, og loks virkaði allt ágætlega, samtengdu tölvurnar 25 og ritvinnsluforritið.[25]

Þrautaganga tölvunnar inn í grunnskólann

Fyrstu árin lá ekki endilega í augum uppi hvernig kennarar gætu haft not af tölvum við almennt skólastarf, hvernig þær gætu nýst við nám og kennslu, nema helst í stærðfræði. Árið 1975 unnu þrír stúdentar við Háskóla Íslands lokaverkefni í reiknifræði sem þeir kölluðu „námskrá fyrir tölvukennslu í stærðfræðideildum menntaskólanna“. Þetta voru Yngvi Pétursson, seinna rektor MR, Helgi Þórsson, sem var forstöðumaður Reiknistofnunar um tíma, og Halla Björg Baldursdóttir. En fátt gerðist í þessum efnum næstu árin, enda höfðu tölvur þá náð takmarkaðri útbreiðslu.

Tölvunámskeið fyrir kennara

Anna Kristjánsdóttir stærðfræðingur vann á þessum árum sem námsráðgjafi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og efndi til tölvunámskeiðs fyrir kennara á unglingastigi sumarið 1978 í samstarfi við endurmenntunardeild Kennaraháskólans, sem stóð straum af kostnaði, og Reiknistofnun Háskólans. Forsendan var sú að þá voru ódýrar einmenningstölvur komnar á markaðinn, á viðráðanlegu verði. Námskeiðið var auglýst fyrir kennara í landafræði, efnafræði, eðlisfræði, jarðfræði og stærðfræði á unglingastigi. „Málakennarar voru ekki þarna, vegna þess að ég þorði ekki að setja jafnólíka kennara saman á námskeið, en gerði það óhrædd seinna,“ segir Anna þegar hún rifjar þetta upp. [26] Á námskeiðinu var kennd forritun, farið í heimsókn á vinnustaði þar sem tölvur voru notaðar og fjallað um hvernig mætti nota tölvur við kennslu. Viðbrögð fólks við námskeiðinu voru á ýmsa lund og á göngum heyrðist hvíslað að þetta væri nú meiri vitleysan, eins og barnakennarar hefðu eitthvað með að gera að fræðast um tölvur! En Anna lét það sem vind um eyru þjóta og stóð fyrir einum fimmtíu tölvunámskeiðum fyrir kennara næstu árin.[27]

Anna Kristjánsdóttir hóf kennslu við Kennaraháskólann haustið 1981 og fór strax að ræða við nemendur um tölvur og fékk góðar undirtektir. Seinni hluta vetrarins stóðu hún og nemendur hennar fyrir ráðstefnu fyrir kennaranema og kennara um tölvur í skólastarfinu. Á sama ári var hún skipuð í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins, sem doktor Oddur Benediktsson stýrði. Sú nefnd átti að gera úttekt á því sem var að gerast í þessum málum og koma með tillögur. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um sumarið, lauk störfum um haustið og skilaði lokaskýrslu en síðan gerðist ekkert. „Þær fóru bara niður í skúffu í ráðuneytinu, voru aldrei birtar, aldrei sagt frá þeim, aldrei farið eftir þeim og nefndin var aldrei kölluð til ráðuneytisins til að ræða málin,“ segir Anna í viðtali rúmum þrjátíu árum síðar.

Tölvukostur Kennaraháskólans

Ekki var miklu meira líf í yfirstjórn Kennaraháskólans en menntamálaráðuneytinu og ekki tókst að kaupa nema eina tölvu fyrir skólann. En Anna var iðin við að skrifa greinar í blöð um tölvur og skólastarf og var einnig tíður viðmælandi um það efni í útvarpi. Þá flutti hún fjölda fyrirlestra úti í skólum og fann áhuga meðal foreldra og kennara. Haustið 1983 var Anna einu sinni sem oftar í viðtali um tölvur og skólamál í útvarpinu. Gunnar Hansson, forstjóri IBM á Íslandi, hringdi í framhaldi af viðtalinu og bauð skólanum búnað. Henni þótti í fyrstu fráleitt að skólinn þægi slíka gjöf en úr varð að nýr rektor skólans, Jónas Pálsson, skrifaði í samráði við hana og Gunnar bréf til IBM um nauðsyn þess að Kennaraháskólinn eignaðist tölvubúnað til að auðvelda kennurum nýja háskólans að stunda rannsóknir á áhrifum tölvuvæðingar á íslensku, stærðfræði og sérnám. Í framhaldi af bréfinu eignaðist skólinn nokkrar PC-tölvur frá IBM og tölvunám varð í fyrsta sinn fastur þáttur í menntun kennaraefna.[28] Á sama ári ákvað ráðuneytið að tölvukaup fyrir framhaldsskóla og grunnskóla yrðu samræmd, og ráðuneytið kæmi að hálfu til móts við skóla í tölvukaupum – innan ákveðinna marka. Úr varð að keyptar voru Apple IIe-tölvur, en misjafnt var hvort fólk vildi Apple- eða PC-tölvur.[29]

Tölvurnar tínast inn í skólana

Grunnskólarnir áttu frekar á brattann að sækja í þessum efnum en framhaldsskólarnir. Frekar var litið á tölvufræðslu sem undirbúning undir þátttöku í atvinnulífinu eða framhaldsnám en almenna þekkingu. Smátt og smátt opnuðust þó augu fólks, ekki síst vegna tíðra kennaranámskeiða, og tölvur tóku að tínast inn í skólana, oft sem gjafir félagasamtaka eða foreldra eða frá sveitarfélögunum. Áhugasamir og starfsfúsir kennarar beittu sér fyrir tölvuvæðingunni. Einnig hafði nokkur áhrif að Námsgagnastofnun stóð fyrir hálfs mánaðar fræðsludagskrá í ársbyrjun 1984, í samstarfi við Kennaraháskólann, menntamálaráðuneytið, fyrirtæki og einstaklinga, undir heitinu Tölvur og grunnskóli.

Kennsla í tölvutækni fyrir grunnskólanema var í boði á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur á bernskudögum tölvuvæðingar á Íslandi, á árabilinu 1981­–1985. Þá tók ráðið, sem þá var til húsa á Fríkirkjuvegi 11, að bjóða efstu bekkjum grunnskóla kennslu á tölvur og fjárfesti í BBC-tölvum í upphafi. Síðan voru nemendur sendir á Fríkirkjuveginn í kennslu sem síðar fluttist í Tónabæ. Þetta var gert til að bæta upp skort á slíkri kennslu í grunnskólunum. Kennt var vélamál og BASIC-forritunarmálið.[30]

Leikskólar fara nýjar leiðir

Tölvutækni var snemma nýtt á leikskólum eins og á öðrum skólastigum, í upphafi einkum til hagsbóta fyrir starfsfólk og samband við fjölskyldur leikskólabarna en síðar með þátttöku leikskólabarnanna sjálfra.

Notkun tölva í leikskólastarfi í námi og leik hefur verið með margvíslegum hætti og línurnar voru lagðar í aðalnámskrá leikskóla frá 1999 þar sem segir: ,,Barn í leikskóla þarf að kynnast tölvu og læra að nota hana á sinn hátt.“ Í námskránni er bent á að þá höfðu ekki öll börn aðgang að tölvum á heimilum sínum og því þyrfti að gæta þess að öll börn hefðu tækifæri til að vinna með tölvu. Þá er lögð áhersla á að nýta tölvur til að efla samvinnu og gæta jafnvægis milli stúlkna og drengja í tölvunotkun.[31] Greina má áhrif samfélagsbreytinga í námskránni frá 2011 þar sem bent er á þátt leikskólanna í að stuðla að stafrænu læsi, miðlamennt og miðlalæsi barnanna til að hjálpa þeim að verða virkir þátttakendur í samfélagi þar sem mikið framboð er af miðlum og tækni.[32]

Á árunum kringum árþúsundamótin voru nokkrir leikskólar farnir að prófa ýmsar leiðir í notkun tölvutækni í starfi með leikskólabörnum. Meðal annars voru tveir leikskólar á Seltjarnarnesi og einn á Akureyri farnir að gera tilraunir í þá átt.[33] Árið 2004 kom út skýrsla um slíkt starf í sex leikskólum, þar á meðal skólunum tveimur á Seltjarnarnesi, og var hún hluti af stærra rannsóknarverkefni um notkun upplýsinga- og samskiptatækni (UST) á öllum skólastigum, NámUST. Leikskólarnir fóru misjafnar leiðir í tölvunotkun þegar kom að starfi með börnunum.[34] Notuð voru kennsluforrit og tölvuleikir og mikil áhersla lögð á samvinnu barnanna og að kenna þeim að nota tölvuna sem verkfæri við ýmiss konar sköpun.[35] Nýir möguleikar voru kannaðir, einn skólinn nýtti Kidlink-verkefnið til að mynda til að gefa börnunum tækifæri til að kynnast lífi barna í öðrum löndum. Þá voru margir sem töldu að tölvunotkunin hefði jákvæð áhrif á læsi barnanna og fleiri jákvæð áhrif voru tilgreind,[36] en einnig ókostir, sem þó voru ekki ýkja margir.

Í framhaldi af þeim upplýsingum sem fengust um reynslu þessara sex leikskóla voru framleidd þrjú myndbönd sem fræðsluefni til að styðja við leikskólakennara í hlutverki sínu og verkefninu fylgt eftir á margvíslegan annan hátt.[37]

Fjar- og netkennsla

Með batnandi umhverfi til net- og fjarkennslu um og eftir árþúsundamótin hefur framboð á fjarnámi og námi í gegnum netið farið vaxandi.

Fjar- og netkennsla á framhaldsskólastigi hefur … vaxið hröðum skrefum undanfarin ár (tuttugufaldaðist frá 1997 til 2008 – 232 nemar til 4782) þó bakslag hafi komið í þá þróun í kjölfar kreppunnar (Hagstofa Íslands, 2011). Ef litið er til þróunar t.d. í Bandaríkjunum á framhalds- og háskólastigi er líklegt að sífellt meiri kennsla og nám fari fram á netinu, bæði formlegt og óformlegt …. Margir líta svo á að um byltingu sé að ræða með nýjum miðlum […][38]

Tölvukennsla grunnskólanna metin að verðleikum

Snemma á níunda áratugnum hófust nokkrir áhugamenn handa við að þýða frumskipanir forritunarmálsins Logo til að greiða fyrir tölvunotkun í stærðfræði og fleiri námsgreinum. Almennt var afstaða kennara og skólastjóra til tölvuvæðingar skóla jákvæð, sem kom meðal annars í ljós í skoðanakönnun kennaranema í grunnskólum vorið 1985. Af þeim sem voru spurðir töldu 60% efnið mjög mikilvægt, 30% mikilvægt og 10% í meðallagi mikilvægt. Enginn taldi að það skipti ekki máli, enda höfðu um sex hundruð grunnskólakennarar í Reykjavík skrifað undir ályktun vorið 1983 þar sem skorað var á menntamálaráðherra að hann sæi til þess að kennurum á grunnskólastigi yrði hið fyrsta gefinn kostur á námskeiðum í undirstöðuatriðum tölvunotkunar og hvernig tengja mætti tölvur námi í grunnskólum.

Tölvunám verður hluti af kennaramenntun

Árið 1982 bauð Háskóli Íslands tvö valnámskeið, 60 stunda, um upplýsingatækni og skólastarf fyrir uppeldis- og kennslufræðinema við skólann. Kennaraháskólinn gerði 24 stunda[39] grunnnámskeið í tölvufræðslu að skyldu fyrir alla kennaranema sem útskrifuðust 1984 eða síðar. Á næstu árum voru haldin tvö til þrjú sumarnámskeið í tölvunotkun og sóttu þau nær fimm hundruð kennarar. Fleiri sóttu um en komust að, vegna takmarkaðra fjárveitinga til endurmenntunar við Kennaraháskólann. Því leituðu margir kennarar í námskeið ýmissa tölvuskóla, þar sem áherslur voru ekki miðaðar við þarfir þeirra.[40]

Kennarar leita sér tölvukennslu utan skólanna

Skortur á heppilegum hugbúnaði var einnig tilfinnanlegur í grunnskólunum; þar eins og víðar skorti fé frá ríkinu og lítið hafði þokast í tölvuvæðingu skólanna. Anna Kristjánsdóttir brá á það ráð að skrifa grein, sem birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 1985, undir titlinum „Einkabréf til ráðherra – frá Önnu Kristjánsdóttur“. Hún átaldi menntamálaráðherra harðlega fyrir að hafa staðið slælega að uppbyggingu á tölvukennslu í skólakerfinu og að ekki bólaði á því að fé væri veitt til kaupa á fjögur hundruð tölvum fyrir tvö hundruð skóla á árunum 1986 til 1988, eins og lofað hefði verið. Hún gagnrýndi að öllum skýrslum starfshópa ráðuneytisins hefði verið stungið undir stól, sem og skort á nauðsynlegri endurmenntun. Kennarar þyrftu að sækja dýr námskeið utan skólakerfisins og greiða fyrir úr eigin vasa og með styrk frá Kennarasamtökunum.[41] Sverrir Hermannsson var þá nýtekinn við menntamálaráðuneytinu. Hann brá við skjótt eftir að hafa lesið bréfið frá Önnu og spurði hvað væri að gerast í ráðuneytinu í þessum efnum og þar urðu menn að viðurkenna að það væri ekkert. En eftir þetta fékk Kennaraháskólinn leyfi til að ráða ráðgjafa í tölvumálum og réð Jóhann Malmquist í það starf, en hann var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsgráðu í tölvunarfræði. Jafnframt fékk Anna Samtök fræðslustjóra og Námsgagnastofnun til liðs við sig til að knýja á um að menntamálaráðuneytið gengist fyrir ráðstefnu um tölvumál, og sneri sér síðan beint til ráðherra. Sverrir brást vel við og ráðstefnan var haldin. En eftir það féll allt í sama farið, ekkert gerðist og árið 1988 kom ný námskrá, án þess að þar væri nokkuð að finna um tölvunám.

Í krafti upplýsinganna

Á tíunda áratugnum var reynt að þoka málum er vörðuðu tölvukennslu áfram, ýmsir kennarar fjölluðu um málefni tölva og kennslu, en yfirvöld menntamála tóku samt ekki við sér. Árið 1995 gagnrýndi Anna Kristjánsdóttir í fyrirlestri að enn væri engin stefnumótun komin frá ráðuneytinu og um sumarið skipaði Björn Bjarnason menntamálaráðherra enn einn starfshópinn, „og hafði vit á að velja alla forystukólfana, sem höfðu verið að vinna í þessum málum í fimmtán til tuttugu ár, og út úr því kom stefnumörkun sem nefnist „Í krafti upplýsinga“.[42]

Upphaf Íslenska menntanetsins

Á meðan tölvutæknin var að springa út og búa sig undir að blómstra voru tæknimenn ekki lengi að sjá hvaða möguleikar væru fólgnir í henni. Svo virðist sem mörgum hafi gengið verr að átta sig á mikilvægi þess að fá tölvur inn í grunnskólana og koma tölvufræðslu inn í skólakerfið. Gerendur í því efni í upphafi voru fyrst og fremst einstaklingar með brennandi áhuga á tölvum og möguleikanum á að nýta þær í þágu menntunar.

Imba verður til

Pétur Þorsteinsson, skólastjóri Grunnskólans á Kópaskeri, er einn þeirra sem sannfærðir voru um að tölvutæknin ætti erindi við skólana. Hann og örfáir kennarar aðrir byrjuðu, jafnskjótt og fyrstu einkatölvurnar fóru að berast til landsins upp úr 1980, að kynna fyrir nemendum sínum forritunarmálið Logo. Á árunum 1985 og 1986 kynntist Pétur internetinu, sem þá var í fæðingu. Hann keypti sér tölvu sem unnt var að keyra með Unix-stýrikerfinu, nefndi hana Imbu, og sótti nokkrar norrænar ráðstefnur um tölvumál. Þar var meðal annars talað um nýtingu tölvuneta fyrir lægri skólastig en eingöngu horft á ósamtengd net, Bulletin board system (BBS) eða Videotext. En Pétur talaði fyrir því að byggt yrði á internetinu og fékk heldur dræmar undirtektir enda var internetið nánast óþekkt á þessum tíma utan háskóla- og rannsóknaheimsins.

Um miðjan níunda áratuginn átti Pétur á hættu að missa skólastjórastöðuna því hann hafði ekki kennararéttindi, en hann brá við og sótti réttindanám við Kennaraháskólann og skrifaði lokaritgerð um forritunarmálið Logo hjá Önnu Kristjánsdóttur. Hann hafði þá þegar hafist handa, í samvinnu við nokkra áhugamenn, við að byggja upp nettengingu milli nokkurra skóla og var einn hinna fyrstu sem fengu símatengingu við internetið, sem hafði þá verið flutt frá Hafrannsóknastofnun til Reiknistofnunar Háskólans. Með hjálp Maríusar Ólafssonar og fleiri starfsmanna RHÍ tengdi Pétur saman nokkra skóla, fyrst sinn eigin skóla á Kópaskeri og grunnskólana á Ísafirði, Ólafsfirði og Laugum í Aðaldal.

Markmiðið var að byggja upp boðskiptakerfi innan menntakerfisins, um internetið, og opna menntastofnunum landsins aðgang að upplýsingaveitum heimsins, eftir því sem tækni og fjárhagur leyfðu. Menntastofnanir byrjuðu að tengjast Imbu hver af annarri árið 1990 og í ársbyrjun 1992 var ljóst að tölvusamskipti voru orðin sjálfsögð staðreynd á lægri skólastigum. Þá hafði Pétur heimsótt meira en helming íslenskra grunnskóla og haldið fjölda fyrirlestra og kynningarfunda um land allt.

Kópasker – Akureyri ­– Reykjavík

Um mitt árið 1992 stofnaði Pétur Íslenska menntanetið hf. og réð nokkra starfsmenn, sem settu upp þrjár miðstöðvar, á Kópaskeri, Akureyri og í Reykjavík, allar tengdar saman innbyrðis og við SURÍS, yfir háhraðanet Pósts og síma.

Íslenska menntanetið fékk ýmiss konar stuðning, meðal annars frá Alþingi, menntamálaráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Kennaraháskólanum og Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Það vó einnig þungt að Reykjavíkurborg ákvað að veita öllum grunnskólum Reykjavíkur aðgang að netinu. Það var mikilvægt vegna þess að hvergi var unnt að tengjast internetinu með upphringiaðgangi nema hjá Reiknistofnun Háskólans en aðgangur þar var það dýr að hann var ekki á færi allra skóla. Því var nauðsynlegt að tryggja skólunum aðgang með þessum hætti og því var fylgt eftir með markvissri fræðslu fyrir kennara og heimsóknum í skóla og menntastofnanir. Á fyrstu þremur árunum sáu starfsmenn Íslenska menntanetsins um að tengja skólana við netið. Síðan var kennurum kennt að nota Menntanetið og samhliða voru haldin námskeið sem öllum stóð til boða, og að liðnum fyrstu fjórum starfsárunum var byggt upp íslenskt menntanet sem náði til 85–90% skóla í landinu.

Töluvert líf var í Íslenska menntanetinu á árunum 1992 til 1997. Meðal annars byggðist sú fjarmenntun sem fram fór á þeim árum, svo sem á vegum Kennaraháskólans, Fósturskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, á tilvist þess og einnig hélt Menntanetið sjálft allmörg námskeið. Menntanetið var opið öllum sem áhuga höfðu á tölvusamskiptum og nokkuð var um aðild einstaklinga að því. Þegar brautin hafði verið rudd vildu forsvarsmenn fyrirtækja einnig nýta sér kosti internetsins með því að fá aðild að Menntanetinu. Síðla árs 1994 jókst aðsókn einstaklinga og fyrirtækja verulega og notkun þessara hópa á Menntanetinu varð sífellt meiri.

Kostir og gallar menntanetsins

Nokkuð skiptar skoðanir voru meðal skólamanna á ágæti Menntanetsins og Anna Kristjánsdóttir, prófessor við KHÍ, telur að það hafi ekki verið notað mikið til að byggja upp nýbreytni í kennslu og kennarar hafi lítið hugleitt hvað þyrfti að gera í þeirra námsgreinum.[43] En ýmislegt gagn gerði Íslenska menntanetið þó, ekki síst að rjúfa einangrun kennara í litlum skólum úti á landi.

Auk þess var þetta dýr rekstur og haustið 1995 var Íslenska menntanetið komið í þrot. Ráðamenn menntamála töldu að það væri þess virði að komið yrði í veg fyrir að það legðist niður. Því keypti menntamálaráðuneytið nafnið Íslenska menntanetið og hugmyndina á bak við það af Pétri í júlí 1996 fyrir verð sem gerði að hann færi skaðlaus út úr ævintýrinu. Sjálfur vélbúnaðurinn var orðinn úreltur og talinn lítils virði. Íslenska menntanetið var síðan rekið innan veggja Kennaraháskóla Íslands þar til í desember 1999 þegar ráðuneytið ákvað að efna til útboðs á rekstrinum með það í huga að honum yrði haldið áfram í þágu skólakerfisins. SKÝRR hf. keypti eignir og viðskiptasamninga Menntanetsins. Árið 2014 var það enn á veraldarvefnum og í nafni þess, undir slóðinni ismennt.is, eru reknir ýmsir vefir sem tengjast námi, kennslu og skólum.[44]

Tölvuskólar á vegum einkaaðila

Fáum árum eftir að tölvufræðin var efld í Háskóla Íslands tóku að skjóta upp kollinum tölvuskólar fyrir almenning, og ekki lét áhuginn og aðsóknin standa á sér. Sagan byrjaði þó ögn fyrr.

Tölvuskóli IBM á Íslandi

Árið 1968 hóf IBM að halda námskeið þar sem kennd var forritun og kerfisfræði og þróaðist þetta yfir í sérstaka deild innan fyrirtækisins. Gefin var út ítarleg námskrá á hverju hausti og starfsemin orðin mjög umfangsmikil um tíma. Hún var mikilvæg fyrir þá þróun íslensks hugbúnaðariðnaðar sem tók að myndast á áttunda áratugnum. Um 1990 rann þessi deild síðan inn í skóla Stjórnunarfélags Íslands.[45]

Tölvuskólinn

Fyrsti skólinn slíkrar tegundar, Tölvuskólinn, tók til starfa haustið 1979. Stofnandi hans var Reynir Hugason, verkfræðingur og atorkusamur frumkvöðull. Reynir áttaði sig á þörfinni fyrir tölvukennslu fyrir almenning, þegar fóru að koma á markað míkrótölvur á viðráðanlegu verði fyrir almenning og meðfærilegar fyrir aðra en sérfræðinga. Hann fékk húsnæði að Borgartúni 29 og samdi við Þór hf., sem var farinn að flytja inn tölvur en var annars dráttarvélainnflytjandi, um kaup á slatta af Commodore PET-tölvum. Þegar þær voru komnar á sinn stað í skólastofunni var þar líklega samankominn einhver mesti fjöldi tölva sem sést hafði á einum stað á Íslandi. Tölvuskólinn virðist ekki hafa vakið mikla athygli fjölmiðla þetta fyrsta haust enda þótt Reynir auglýsti námskeiðin nær daglega í Dagblaðinu, Vísi og Morgunblaðinu en orðalagið í auglýsingunni var vissulega til þess fallið að vekja athygli fólks:

Viltu læra á smátölvur? Við kennum forritunarmálið Basic sem notað er á allar smátölvur (microcomputers). Við bjóðum efnismikil, samþjöppuð og nýtízkuleg námskeið. Þrautreynt kennslukerfi. Kennt er með aðstoð tölva. Skemmtileg húsakynni og nútímalegur tæknibúnaður. Tveir nemendur eru um hverja tölvu. Ný námskeið hefjast síðari hluta nóvember. Innritun stendur yfir.[46]

Aðsóknin að skólanum var með ágætum og meira en tvö hundruð manns luku þeim tuttugu tíma námskeiðum sem boðið var upp á, frá því í nóvember og fram að jólum.[47] Sumarið 1981 opnaði Reynir svo Tölvubúðina að Laugavegi 20, ásamt Unni Steingrímsdóttur og Vilhjálmi Þorsteinssyni, pilti sem hafði sest í skóla hans og sýnt undraverða hæfileika í þessum efnum.

Fjölgun og fjölbreyttara námsval

Í byrjun níunda áratugarins höfðu bæst við fleiri sérhæfðir tölvuskólar í Reykjavík: Tölvuskólinn Framsýn og Tölvufræðslan sf. ásamt Stjórnunarfélagi Íslands, sem rak umfangsmikla tölvukennslu árum saman, en Stjórnunarfélagið lagði sérstaka áherslu á ritvinnslu. Arkimedes, sem byrjaði starfsemi 1982, kenndi nemendum sínum forritunarmálið BASIC, skráavinnslu og kerfisfræði.[48]

Tölvufræðslan sf. og Stjórnunarfélagið

Tölvufræðslan sf. bauð upp á námskeið fyrir unglinga og fullorðna byrjendur, auk þess forritunarnámskeið, meðal annars á forritunarmálinu BASIC, sérhæfð námskeið fyrir ákveðnar tölvutegundir og starfsgreinar, þar á meðal læknisfræði, lögfræði og verkfræði. Stjórnunarfélagið var stofnað árið 1960 og hélt fyrstu tölvunámskeiðin árið 1980. Félagið bauð sérhönnuð námskeið fyrir ýmsa starfshópa og fyrirtæki, bæði almenn námskeið í meðferð tölva og hverskyns forritun og bauð upp á leiðbeiningar fyrir stjórnendur í vali tölva og hvernig nota mætti þær til stjórnunar.[49]

Tölvuskólinn Framsýn – einkatölvur til leigu

Tölvuskólinn Framsýn var stofnaður árið 1982 og stóð fyrir námskeiðum fyrir alla starfs- og aldurshópa, almenn grunnnámskeið og ýmis forritunarnámskeið. Einnig var kennd notkun ýmissa tilbúinna forrita. Á útmánuðum 1984 auglýsti Tölvuskólinn Framsýn tilboð til nemenda sinna og annarra, sem áhuga hefðu: Að fá tölvu til leigu, viku í senn. Þarna var um að ræða stærri gerðir heimilistölva ásamt lyklaborði, skjá, kassettubandi, handbók tölvunnar, forritunarmálinu BASIC, kassettu með leikjum og íslenskum leiðbeiningum um uppsetningu tölvunnar.[50] Þetta var í upphafi innflutnings á einkatölvum, sem voru meðfærilegar fyrir almenning, og forvitnileg nýjung fyrir flesta. Um sumarið gerði Tölvufræðslan sf. út tvo námskeiðahópa, sem ferðuðust um landið og héldu námskeið í undirstöðuatriðum tölvutækninnar, forritun í BASIC, ritvinnslu og áætlanagerð, á fimmtíu stöðum.[51] Einkatölvubyltingin var hafin.

Blómatími tölvuskólanna

Áratugurinn 1985–1995 var ákveðinn blómatími tölvuskólanna. Með einkatölvubyltingunni var sífellt meiri eftirspurn eftir kennslu í tölvunotkun, ekki síður en í forritun. Jafnframt áttu sér stað miklar breytingar á tölvunotkun. Í upphafi tímabilsins var full þörf á kennslu í ritvinnslu og grunnatriðum í notkun einkatölvunnar. Um miðbik þess hafði þeim farið fjölgandi sem voru sjálfbjarga um notkun tölva, en þá var gluggakerfið að ryðja sér til rúms. Undir lok þessa tímabils varð síðan ein afdrifaríkasta breytingin á tölvunotkun almennings sem orðið hefur, er internetið kom til sögunnar.

Markhópar námskeiða einkaaðila

Skipta má tölvukennslu einkaaðila í nokkur tímabil eftir áherslum. Í upphafi var mest áhersla lögð á að þjálfa fagfólk í notkun flókinna kerfa og byggja ofan á þekkingu úr skóla. Þá kom tímabil þar sem notendur einkatölva, allt frá börnum til eldri borgara, þurftu á kennslu halda í því sem nú þykir sjálfsagt: Ritvinnslu, einföldum töflureiknum og tölvupósti. Alltaf var markaður fyrir lengri og flóknari námskeið í ýmsum tækjum og tólum sem notuð eru, allt frá kerfisstjórn til myndvinnslu. Með netvæðingunni breyttist ýmislegt og snjalltækin juku enn á þá þróun. Sumir voru hættir að nota ritvinnslu árið 2014 og létu samskipti gegnum tölvupóst og samfélagsmiðla duga. Á vissan hátt má segja að þróunin sé komin í hring, því margir nota frekar einfalda textaritla frekar en flókna valkosti ritvinnsluforrita. Það er þá helst fyrir skýrslur og ritgerðir sem ritvinnsla á borð við Word er notuð.

Einkatölvan öflug, notendur kröfuharðir en ekkert net – ennþá

Snemma árs 1992 var gerð ágæt úttekt á tölvuskólum á höfuðborgarsvæðinu í DV. Á þessum tíma var notkun einkatölva orðin mjög útbreidd, afl þeirra og virkni alltaf að batna og notendur sífellt kröfuharðari. Námskeið í Word og Excel voru vinsæl og einnig skrifstofutækninám, en netið var ekki komið til sögunnar, sem valkostur fyrir almenning, nema að litlu leyti. Þá voru starfandi fimm skólar sem höfðu verið til mismunandi lengi. Tölvuskóli EJS, Tölvuskóli Stjórnunarfélagsins og IBM, Tölvuskóli Íslands, Tölvuskóli Reykjavíkur og Tölvuskóli Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar. Auk þess voru haldin tölvunámskeið á vegum ýmissa aðila, til dæmis Macintosh-námskeið hjá Tölvustofunni og ýmis námskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands auk þess sem ýmis hugbúnaðarfyrirtæki buðu upp á kennslu á hugbúnað sem þau framleiddu eða seldu.[52]

Tölvuskóli Reykjavíkur

Tölvufræðslan var skóli sem hafði boðið upp á ýmiss konar kennslu, meðal annars var hann framarlega í því að bjóða upp á svokallað skrifstofutækninám, sem byggðist á tölvu- og viðskiptagreinum. Námið var 250 stundir í heild. Meðal annars var farið í stýrikerfi, ritvinnslu, töflureikna og gagnagrunna. Tölvufræðslan varð gjaldþrota en nokkrir starfsmenn ákváðu að stofna Tölvuskóla Reykjavíkur í kjölfarið. Árið 1992 var talið að um þúsund manns hefðu lokið skrifstofutækninámi, bæði hjá þessum skólum og einnig Tölvufræðslunni á Akureyri og Tölvuskóla Íslands.[53]

Tölvuskóli Reykjavíkur gekk vel og komst í eigin húsnæði við Borgartún. Þar var IBM síðar með sín námskeið. Þegar internetið kom til skjalanna bauð skólinn upp á að fólk gæti fengið netföng á vegum skólans.[54]

Sérhæfing og verkaskipting

Talsverð verkaskipting var milli þeirra skóla sem buðu upp á löng og stutt tölvunámskeið. Námskeið á vegum hugbúnaðar- og vélbúnaðarfyrirtækja voru miðuð að því að kenna á ákveðinn hugbúnað, kerfi eða vélbúnað. Promennt/Þekking sá meðal annars um kennslu fyrir Microsoft, Rafiðnaðarskólinn var mjög öflugur á tímabili og bauð upp á mjög breitt úrval námskeiða. Sérhæfðari námskeið voru á vegum Upplýsingatækniskólans og Örtölvuskólinn sá meðal annars um að kenna kerfisstjórn fyrir Novell-net.

Á seinustu árum hefur sérhæfingin aukist enn frekar meðal þeirra sem bjóða upp á tölvunámskeið. Promennt og NTV eru til að mynda dæmi um skóla sem hafa þróast í þá átt að vera með langt nám í bókhaldi og tölvugreinum en Tölvu- og verkfræðiþjónustan býður nú eingöngu upp á stutt námskeið sem fyrirtæki senda starfsmenn sína á. Þar njóta ýmis Excel-námskeið langmestra vinsælda.

NTV

Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn, NTV, var stofnaður árið 1996. Bræðurnir Jón Vignir Karlsson og Sigurður Karlsson settu hann á laggirnar.[55] Skólinn var upphaflega til húsa í Hólshrauni í Hafnarfirði en opnaði síðan útibú í Hlíðarsmára í Kópavogi og þangað var starfsemi hans flutt að fullu árið 2003. Þá voru kennslustofur skólans orðnar fjórar en fjölgaði síðar í sjö. Skólinn er annar þeirra skóla sem hafa smátt og smátt fært sig yfir í að veita heildstæða menntun á lengri námskeiðum og er viðurkenndur fræðsluaðili af hálfu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þannig að unnt er að nýta nám í skólanum til eininga í framhaldsskólum.

Skólinn hefur lengi boðið upp á nám í kerfisstjórnun, bæði fyrir Windows og Linux, auk margs konar mismunandi námsleiða í kerfisstjórnun. Eins árs forritunarnám skiptist í diplómanám, forritunarbraut og það nýjasta: skýjaforritun. Auk þess er boðið upp á fornám. Tengt þessu er nám í grafík og margmiðlun sem meðal annars felst í að veita nemendum góða menntun í vefsíðugerð.

iSoft-Þekking verður að Promennt

Tölvuskólinn Promennt var stofnaður árið 2011 á grunni tölvuskólans iSoft-Þekkingar, sem á rætur mun lengra aftur í tímann og tengist sögu fyrirtækisins Þekkingar, sem fjallað er um í þessari sögu á öðrum stað. Tölvuskólinn Þekking var stofnaður árið 2002 en skipti um eigendur 2006 og hóf þá starfsemi á Akureyri um hríð og var þá til húsa í Faxafeni í Reykjavík og við Glerárgötu á Akureyri. Skólinn rann saman við iSoft árið 2008 við samruna fyrirtækjanna iSoft og Tölvuskólans Þekkingar.

Promennt hefur verið til húsa frá upphafi í Skeifunni eins og fyrirrennarinn var. Skólinn breytti einungis um nafn en starfsemi hélt áfram undir sömu kennitölu. Líkt og áður var sérhæfir Promennt sig meðal annars í Microsoft-vottuðum námskeiðum og prófum. Það beinir áherslum sínum bæði að byrjendum og starfsfólki sem fyrirtæki vilja þjálfa til meiri kunnáttu. Þá er einnig kennd kerfis- og netstjórnun, vefnámskeið og almenn tölvunámskeið, meðal annars fyrir eldri borgara. Promennt hefur líka haft fjarkennslu sem valkost fyrir nemendur sína.

Tölvu- og verkfræðiþjónustan

Tölvu og verkfræðiþjónustan (TV) hóf að bjóða upp á tölvukennslu árið 1986. Það var Halldór Kristjánsson verkfræðingur sem kom henni á fót. Í upphafi var skólinn í lítilli skrifstofu í Ármúlanum og seinni hluta dagsins var boðið upp á námskeið á sex til átta Macintosh-einkatölvur í þröngu húsnæði. Fljótlega flutti TV á Grensásveg í nýtt húsnæði sem var ögn rýmra en það gamla og þar hefur verið hægt að stækka kennslurýmið í tvígang með því að skipta og taka yfir húsnæði annarra sem voru með starfsemi í húsinu, síðast árið 2003. Kennslustofurnar urðu fimm og tíu manns störfuðu við ráðgjöf og kennslu þegar mest var.

IMG 0155
Mikil gróska var í starfsemi tölvuskólanna á tíunda áratug síðustu aldar. Þúsundir sóttu námskeið á vegum skólanna, gróska var í útgáfu fréttabréfa og fræðsluefnis af ýmsu tagi, en enn var það á pappír. Fréttabréf Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar, Tölvuvísir, kom út nokkrum sinnum á ári frá árinu 1989 og flutti námskeiðsfréttir og ýmiss konar fróðleik. Hér sjást vinsæl námskeið árið 1990. Næstu árin stígur fjöldi nemenda jafnt og þétt og var hann orðinn um þrjú þúsund árið 1997.

Kennsla á töflureikni, fyrst á Lotus 123 og síðar Excel, naut frá upphafi vinsælda á námskeiðum Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar. Í fyrstu var markhópurinn í kennslunni einkaaðilar sem lærðu að nota Macintosh-einkatölvur en síðar var áherslan fremur á fagmenn og loks þjálfun starfsmanna fyrir ýmis fyrirtæki. Þörfin fyrir slíka kennslu er aðallega tvenns konar: Annars vegar setja fyrirtækin fólk sitt á námskeið til að læra grunnatriði í tölvunotkun út frá því sem gagnast því í starfi. Hins vegar senda fyrirtæki tölvufært starfsfólk á tölvunámskeið til að auka þekkingu þess. Við notkun á Excel hefur viljað brenna við að fólk hafi einungis grunnþekkingu og námskeið eru haldin til að bæta úr því. Með bættum vinnubrögðum getur sparast mikill tími í vinnu. Jafnvel þeir sem telja sig nokkuð færa í notkun töflureikna kunna oft ekki á auðveldustu leiðirnar. „Ef einhver þarf til að mynda að slá inn sömu tölurnar í lista tvisvar, þegar nóg er að gera það einu sinni og tengja við upprunalega listann, þá má hugsa sér að tvær stundir í viku sparist, svo þetta er fljótt að telja.“[56]

Menntun og margbreytileiki

Kennsla í tölvunotkun, kerfisstjórnun og hugbúnaðargerð hefur tekið ýmsum breytingum frá því hún hófst fyrir alvöru.

Skýrslutæknifélag Íslands hélt ráðstefnu ásamt Félagi tölvukennara og Kennaraháskóla Íslands á árinu 1996. Í ávarpi Jóhanns Gunnarssonar við setningu ráðstefnunnar segir meðal annars:

Upplýsingasamfélagið, upplýsingabyltingin er að koma yfir okkur. Um það fáum við ekki vélað. Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar, reyndar að hluta þegar orðnar, á því hvernig einstaklingar og þjóðir heimsins eiga samskipti sín á milli. Nýjar auðlindir kunna að verða gjöfulli ein þær hefðbundnu, til dæmis auður mannsandans.[57]

Kynjahallinn í tæknigreinum ekkert náttúrulögmál

Ýmislegt hefur verið gert til að lagfæra kynjahallann í tölvunarfræðinámi. Fundir og ráðstefnur hafa verið haldnar og ýmislegt ritað um þetta efni.

Háskólinn í Reykjavík hefur gripið til ýmissa úrræða á seinustu árum til að auka hlut kvenna í upplýsingatækninámi. Þær hafa einkum beinst að framhaldsskólunum en einnig hefur verið farið í grunnskóla til að kynna upplýsingatækninám. ­­„Við höfum boðið nemendum í efri stigum grunnskóla í hús og þá í tengslum við starfsvalsdaga í 9. og 10. bekk grunnskólanna. Það er auðvitað takmarkað sem við komumst yfir að gera í sjálfboðavinnu,“ segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR. Annað verkefni sem miðar að því að auka hlut kvenna í upplýsingatækni er að konur í tæknistörfum hjá ýmsum fyrirtækjum bjóða stelpum að koma og skoða fyrirtækin og í leiðinni sjá þær fyrirmyndir í slíkum störfum. Hvað sem veldur þá hafði hlutur kvenna í upplýsingatæknigreinum í HR farið vaxandi á lokaárum tímabils þessarar sögu og hlutfall kvenna meðal nýnema var farið að nálgast 30% árið 2014. Í skólanum hafa stelpurnar stofnað með sér ákaflega virkt félag, /sys/tur, sem hefur byggt upp stemningu meðal stelpnanna í tæknigreinum í skólanum.[58]

systur
Veturinn 2013-2014 voru stelpurnar í Háskólanum í Reykjavík orðnar mjög áberandi í félagsstarfi tölvunarfræðinema. Þær voru í góðum meirihluta stjórnar Tvíundar, félags tölvunarfræðinema við HR og höfðu stofnað félagið /sys/tur sem hefur beitt sér fyrir því að efla stelpur í tölvunarfræðinámi. Enn voru þó aðeins 20% nemenda í tölvunarfræðideildinni konur. Morgunblaðið 20. apríl 2014.

Í tímaritinu Tölvumál 2013 er fjallað um sérstakan upplýsingatæknidag kvenna sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í apríl 2014:

HR mun í apríl 2014 standa fyrir sérstökum degi tileinkuðum konum í upplýsingatækni – GIRLS IN ICT 2014 en atburðurinn er hluti af ECWT verkefninu. Dagurinn á að vekja athygli á mikilvægi þess að kynna upplýsingatækni fyrir konum og stuðla að því að störf við tæknigreinar séu aðgengileg og lifandi starfsvettvangur sem laðar til sín ungt fólk af báðum kynjum. [59]

Nánar segir um framkvæmd þessa dags á vef skólans nokkrum dögum seinna:

Hátt í hundrað stelpur úr 8. bekk fimm grunnskóla var boðið í Háskólann í Reykjavík og í fjögur fyrirtæki sem sérhæfa sig í upplýsingatækni á fyrsta „Stelpu og tækni“ deginum sem haldinn er hér á landi. Markmiðið með honum er að kynna fyrir stelpunum ýmsa möguleika í þessari atvinnugrein.

Skólarnir sem taka þátt eru Austurbæjarskóli, Laugalækjaskóli, Hlíðaskóli, Hörðuvallaskóli og Garðaskóli. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.[60]

Mentor og Skema – með árherslum kvenna

Tvö fyrirtæki byggð upp af konum, innbyrðis ólík, hafa vakið athygli í menntageiranum á undanförnum árum. Annað þeirra, Mentor ehf., var stofnað árið 2000 en sænski hluti fyrirtækisins á rætur aftur til ársins 1990. Vilborg Einarsdóttir er meðal stofnenda og það er hún sem stýrt hefur fyrirtækinu á því tímabili sem þessi saga nær til. Nýsköpunarsjóður er meðal fjárfesta sem hafa komið að Mentor.

Mentor sérhæfir sig í heildstæðu upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum og unglingum. Markmiðið er að auka árangur í skólastarfi með Mentor-kerfinu en þar er fókus á einstaklingsmiðað nám. Fyrirtækið hefur fært út kvíarnar til fleiri Evrópulanda og keypti með aðkomu Nýsköpunarsjóðs meðal annars sænskt fyrirtæki, PODB, sem sérhæfir sig í upplýsingakerfum sérhönnuðum fyrir kennara með sérstakri áherslu á einstaklingsmiðaðar námsáætlanir og foreldraviðtöl árið 2007.[61]

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk UT-verðlaun Ský árið 2014. Hún stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og það hefur vaxið hratt síðan þá. Við veitingu verðlaunanna var eftirfarandi rökstuðningur valnefndar hafður að leiðarljósi:

Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.[62]

Fjölbreyttur bakgrunnur frumkvöðla

Forvitnilegt er að rýna í menntun og bakgrunn frumkvöðlanna sem hafa sett svip sinn á sögu upplýsingatækni á Íslandi. Áður en farið var að kenna tölvunarfræði á háskólastigi á Íslandi var kominn fram stór hópur fagfólks í tölvu- og upplýsingamálum sem hafði mótað þann veruleika sem fagið bjó við á Íslandi. Meðal þeirra voru stærðfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, jarðeðlisfræðingar og viðskiptafræðingar. „Þetta var nokkuð sérstakur, lokaður heimur fólks með alls konar bakgrunn. Það voru fáir sem voru innvígðir í bransann.“[63]

Breyting varð á þessu þegar kennsla í tölvunarfræði varð útbreidd á Íslandi en áfram bættist við fólk með alls konar bakgrunn. Og smátt og smátt var ekki þörf á því að vera innvígður.

Háskólanámskeið fyrir frumkvöðla í aldarfjórðung

Aldarfjórðungur er síðan kennsla hófst við Háskóla Íslands í námskeiði sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum en hefur lengi heitið: Frá hugmynd til veruleika. Þetta námskeið er í boði bæði fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi.

Það sem er sérstakt við þetta námskeið er að það hefur reynst hálfgerð útungunarstöð fyrir frumkvöðla og nægir að nefna að einn af nemendunum fyrstu árin var Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP. Í tengslum við þetta námskeið hafa ýmsir fleiri lagt grunninn að vel heppnuðum hugbúnaði, til dæmis má nefna tvíburamóðurina Guðrúnu Eiríksdóttur sem ákvað ásamt öðrum nemanda að vinna tölvuleik sem kennir leikskólabörnum tákn með tali, þar sem hún þekkti þessa aðferð frá sínum börnum. Leikurinn heitir Tumi og táknin og náði útbreiðslu til um 40% íslenskra leikskóla eftir útkomu. Einnig má nefna kerfið XPC Network, verkfærakista þjálfarans, frá Sideline sports, sem er alþjóðlegt íþróttaþjálfunarkerfi. Þetta er kerfi sem Guðbrandur Ágúst Þorkelsson hefur þróað frá hugmynd og yfir í veruleika, rétt eins og heiti námskeiðsins gefur til kynna. Loks má nefna gítarstilli sem hefur verið í notkun í yfir 200 löndum, Tunerific, sem Guðmundur Freyr Jónasson þróaði. 

„Ég reyni að kveikja einhvern neista og ýta fólki af stað,“ segir Jóhann Pétur Malmquist, sem séð hefur um kennslu þessa námskeiðs. „Og segi nemendum frá reynslunni sem hefur safnast upp í hugbúnaðargerð, ekkert síður mistökunum en því sem vel hefur gengið.“

Tölvunotendur mismunandi vel upplýstir

Á níunda áratugnum varð tölvunotkun almenn á Íslandi. Hvort tveggja var að almenn einkatölvunotkun fór vaxandi en ekki síður að sífellt fleiri vinnustaðir voru að gera breytingar á tölvunotkun innan sinna fyrirtækja. Í stað þess að stjórnun og notkun tölva væri afmörkuð við sérhæft starfsfólk eða þjónusta tölvanna keypt utan úr bæ var farið að ætlast til þess að starfsfólk væri sjálfbjarga á þeim tölvukosti sem notaður var innan fyrirtækisins. Ekki voru allir jafnvel undir þær breytingar búnir eins og eftirfarandi klausa úr Vikunni snemma árs 1984 ber með sér:

Kunningi okkar var nýverið staddur í verslun sem selur tölvubúnað af ýmsu tagi og varð það á að hlusta á mann sem ætlaði að fara að fjárfesta í tölvubúnaði fyrir fyrirtæki sitt. Hann þurfti að sjá um póstsendingar fyrir nokkra aðila og vildi meðal annars geta tölvuunnið skrá fyrir 2000 manns.

Sölumaðurinn sýndi honum meðalstóra borðtölvu með harðdiski og forrit sem gerði honum kleift að flokka skrána á ýmsan hátt – eftir heimilisföngum, skilvísi í innborgunum og meðalstærð pantana. Forritið mátti líka nota til að geyma stöðluð bréf og auðvitað skrifaði það út límmiða, gíróseðla og annað þess háttar.

Maðurinn sem ætlaði að kaupa tölvubúnaðinn sýndi áhuga og spurði hvernig maður kæmi upplýsingunum inn í kerfið.

„Það þarf bara að lesa þær inn,“ svaraði sölumaðurinn.

–Nú, hvernig á ég að gera það? Hvernig kem ég listunum sem ég er með inn í tölvuna?

Sölumaðurinn var undrandi á svipinn þegar hann svaraði: „Auðvitað með því að vélrita á lyklaborðið.“

–Vélrita? Á ég að fara að vélrita fleiri þúsund nöfn alveg upp á nýtt? spurði maðurinn alveg eins og sölumaðurinn væri að reyna að plata einhverju inn á hann. […]

Til skamms tíma hefur „vélritunarkunnátta æskileg“ verið dulnefni fyrir óskir um konu í rútínu-skrifstofuvinnu. Röggsamir stjórnendur læra ekki að vélrita, svo hljómar boðorðið. Þeir fá sér bara einkaritara.[64]

Þar sem tölvukennslu í grunnskóla og framhaldsskóla sleppir sækir fólk sér tölvuþekkingu á ýmis námskeið, en alltaf verða þó einhverjir sem verða útundan. Í samfélagi sem er jafntölvuvætt og Ísland nútímans er finnast vitanlega allmargir sem það á við um. Aldurshópurinn 55 ára og eldri er mjög misvel að sér í notkun tölva og því hefur verið mætt á ýmsan hátt, ekki síst með tölvunámskeiðum sem beint er sérstaklega að þessum aldurshópi. Námskeiðin hafa bæði verið í boði sem hluti af félagsstarfi aldraðra og á vegum einkaaðila. Þó eru allmargir sem hvorki vilja né geta, oft af efnahagsástæðum, eignast tölvu og lært á hana. Annar hópur, sem minni gaumur hefur verið gefinn, er hópur ungs fólks sem hættir snemma í skóla og fer út á vinnumarkaðinn, í störf sem krefjast lítillar eða engrar tölvukunnáttu, og byggir ekki upp þekkingu á því sviði.[65]

Sigrún Eva Ármannsdóttir þekkir vel til þess í starfi sínu sem forstöðumaður veflausna Advania hvernig tölvuþekking fólks sem þarf að festa kaup á dýrum hug- eða vélbúnaði fyrir fyrirtæki sín getur verið mismunandi, burtséð frá menntun þess. Þeir sem ekki hafa fengið sérstaka menntun á sviði upplýsingatækni geta átt erfitt með að taka upplýstar ákvarðanir um hvaða búnaður henti best, grunnhugtök geta verið framandi þeim sem ekki hafa kynnst upplýsingatækni í starfi sínu. Það á við um þorra starfsfólks furðu margra fyrirtækja. Hún telur nauðsynlegt að byrja að kenna læsi í upplýsingatækni strax í grunnskólum. Það er gott og gilt að kenna forritun, en það vantar svo miklu víðtækari menntun á öllum skólastigum, að hennar mati. Upp getur komið sú staða að til upplýsingatæknifyrirtækja komi langmenntaðir kaupendur sem finnst erfitt að útskýra hvað þeir vilja, vegna þess að þeir hafa ekki grunnskilning á þeim búnaði og þjónustu sem þeir ætla að kaupa. Þetta er jafnerfitt fyrir kaupendur og seljendur og þarna þarf menntakerfið að taka sig á, því upplýsingatæknin er orðin allt um lykjandi og er ekkert á leiðinni úr lífi okkar.[66]

Framhaldsnám í upplýsingatækni og tölvufræðum á háskólastigi

Nokkrir íslenskir háskólar hafa boðið upp á framhaldsnám í tölvu- og upplýsingatækni frá því fyrir árþúsundamótin en áfram hafa margir nemendur haldið áfram að sækja sér þekkingu út fyrir landsteinana.

Háskóli Íslands hefur kennslu til meistaraprófs í tölvunarfræði

Meistaranámið í tölvunarfræði hafði verið í bígerð um nokkurt skeið áður en það var sett á laggirnar og var byggt á tillögum frá starfshópi um stuðning við hugbúnaðariðnað, sem starfaði á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Formaður hópsins, Oddur Benediktsson, skrifaði um þetta fyrirhugaða nám í júlíblað Tölvumála árið 1996 og bendir þá meðal annars á að um það bil 1200 manns starfi þá við hugbúnaðargerð og -þjónustu á Íslandi. Hugbúnaðargerð sé eina hátæknisviðið þar sem stöðug eftirspurn virðist vera eftir háskólamenntuðu fólki. Og hann bætir við: „Á meginlandi Evrópu þekkist varla að háskólamenntun ljúki með þriggja ára BS prófgráðu. Til þess að teljast full menntað þarf fólk að hafa lokið MS eða sambærilegu námi.“[67] 

Þau þáttaskil urðu að boðið var upp á meistaranám í tölvunarfræði í fyrsta sinn á Íslandi árið 1998. Ebba Þóra Hvannberg skrifaði um það í Tölvumál í árslok 1998. Þar segir hún meðal annars: „Það er okkar mat að markaðurinn þurfi nú að auki fólk með framhaldsmenntun […] Einnig er brýn þörf að mennta kennara, bæði fyrir háskólastig og framahaldsskólastig.“[68] Árið 2001 var einnig farið að kenna hugbúnaðarverkfræði við skorina. Þeir sem luku meistaraprófi í hugbúnaðarverkfræði fengu full réttindi sem verkfræðingar. [69]

Framhaldsnám við Kennaraháskóla Íslands og menntavísindasvið Háskóla Íslands

20121002 180649
Á vinnustofu í Skálholti fyrir frumkvöðla um uppbyggingu og stuðning við starfssamfélög 2.-3. október 2012. Vinnustofan var á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og var hluti af undirbúningi að stofnun svonefndrar Menntamiðju, samstarfsfélags skólafólks á netinu. Hér eru Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Salvör Gissurardóttir, Svava Pétursdóttir og Sigurbjörg Jóhannesdóttir.

Árið 1998 var ákveðið að setja af stað námsbraut í tölvu- og upplýsingatækni við Framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands og var í fyrstu boðið upp á diplómanám í notkun á tölvum og upplýsingatækni í skólastarfi. Við sameiningu KHÍ og HÍ og þegar kennaranámið var lengt urðu breytingar á framhaldsnáminu. Lenging námsins fól það í sér að kennaranámið skiptist þá í grunnnám og meistaranám. Í meistaranáminu er margvíslegir námsmöguleikar í upplýsingatækni, bæði fyrir nemendur sem leggja aðaláherslu á nám og rannsóknir á því sviði og þá sem velja upplýsingatækni sem hluta af framhaldsnámi sínu. Margvísleg þátttaka í innlendum og fjölþjóðlegum verkefnum hefur verið einkennandi í tengslum við námið og námsbrautina. Nánari upplýsingar um þetta efni er að finna í sérstökum ítarefniskafla.

Íslenskir doktorar í tölvunarfræði

Samkvæmt yfirliti yfir doktorsritgerðir Íslendinga í tölvunarfræði á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni höfðu 28 Íslendingar lokið doktorsnámi í fræðigreininni frá því fyrsti doktorinn, Jóhann Malmquist, lauk doktorsprófi 1979 til 2013. Mögulega eru þeir fleiri. Þrír þeirra luku doktorsprófi frá íslenskum háskólum, tveir frá HR og einn frá HÍ og gerðist það undir lok sögutímabilsins, 2012-2013. 

Fleiri skólar og aukin fjölbreytni á háskólastigi

Lengi vel var Háskóli Íslands eini skólinn á háskólastigi sem bauð upp á nám í tölvunarfræði. Í lok níunda áratugarins[70] bættist Tölvuháskóli Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) við og útskrifaði fyrstu kerfisfræðingana 1989 en skólinn breyttist í Háskólann í Reykjavík árið 1998, eftir að ný lög höfðu verið sett um háskóla árið áður.

Um markmiðið með námi í TVÍ segir Helga Sigurjónsdóttir aðstoðarkennslustjóri TVÍ í grein í Tölvumálum í maí 1996: „Í TVÍ hefur alltaf verið lögð áhersla á verklega hlið námsins og stefnt er að því að nemendur hafi öðlast verulega hagnýta þjálfun þegar þeir ljúka námi.“[71] 

TVÍ og síðar Háskólinn í Reykjavík lögðu mikla áherslu á að nemendur ynnu sín lokaverkefni í nánum tengslum og oft með stuðningi eða styrk frá fyrirtækjum, þar sem þeir hefðu starfsaðstöðu.[72]

Samstarfsaðili er í hlutverki verkkaupa gagnvart nemendum í verkhóp. Ætlast er til að nemendur hafi greiðan aðgang að tengilið, sem getur veitt upplýsingar um kröfur verkkaupa til verksins, og hafi tækifæri til að kynnast væntanlegum notendum. Í flestum tilvikum sér samstarfsaðili verkhópnum fyrir vinnuaðstöðu og faglegri aðstoð eftir því sem þörf er á.[73]

Tækniháskóli Íslands sinnti einnig tölvunarfræðikennslu, fyrst á framhaldsskólastigi og síðar á háskólastigi, er hann var færður upp á háskólastig árið 2002. Hann sameinaðist Háskólanum í Reykjavík árið 2005 undir nafni þess síðarnefnda. Kennsla í tölvunarfræði hefur verið við Háskólann á Akureyri með hléum frá því upp úr árþúsundamótum og er nú í samstarfi við HR eftir nokkurt hlé.[74]

Aukning á námsframboði – HR útskrifar flesta á nýrri öld

Háskólinn í Reykjavík hefur á nýrri öld haft forystu meðal íslenskra háskóla hvað varðar námsframboð og fjölda nemenda í upplýsingatækni og tölvunarfræði. Um 60–80% nemenda í tölvunarfræði á Íslandi hafa á seinustu árum stundað nám við skólann. Árið 2014 voru umsækjendur um nám í upplýsingatæknigreinum um fimm hundruð og inn voru teknir um þrjú hundruð. Það var talsverð aukning á nemendafjölda frá árunum á undan. HR var einmitt stofnaður formlega þegar mikil eftirspurn var eftir fólki með menntun í upplýsingatækni. Er netbólan sprakk minnkaði eftirspurn eftir kerfis- og tölvunarfræðingum um hríð. „Árið 2007 vorum við á forvitnilegum stað í upplýsingatækninámi,“ segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR, sem þá kom heim frá Bandaríkjunum til að taka við forstöðu tölvunarfræðinámsins við skólann. „Það ár útskrifaði HR 20 af þeim 30 tölvunarfræðingum, sem útskrifuðust á landinu. Það var um það bil 10% af þörfinni þá. Þeir fóru allir til eins atvinnuveitanda, Landsbankans.“ Þar sem skólinn lagði sérstaka áherslu á að vera skóli atvinnulífsins var hafist handa við að fjölga fólki í upplýsingatæknigreinum við skólann og um haustið þar ár bárust sjötíu umsóknir um námið.

Margt hefur verið gert til að auka áhuga framhaldsskólanema á náminu og einnig hefur það verið kynnt í grunnskólum. Haldnar hafa verið forritunarkeppnir sem „laða ungt fólk að tæknigreinunum. Það er svo fjöldamargt sem keppir um athygli ungmenna og verður sífellt fleira. Keppnir eru leið til að gera námið sýnilegt fyrir fleira fólki og sýna fram á að það er hægt að keppa í fleiru en Morfís.“[75]

Þá hefur námsframboð verið aukið verulega á seinustu árum og þar er tekið mið af síbreytilegum þörfum atvinnulífsins. Árið 2014 voru alls um 900–1000 manns í námi á hinum ýmsu námslínum í upplýsingatækni við HR, bæði í tölvunarfræðideild og í þverfaglegu námi. Upp úr árinu 2010 fór að bera á eftirspurn eftir fólki, sem hefði sambland af tölvunarfræði- og viðskiptafræðimenntun, og slíkt nám var því sett á laggirnar með mismiklu vægi beggja námsgreinanna. „Þetta er langdýrasta, útselda vinnan hjá fyrirtækjunum, sem sóttust eftir þessu fólki,“ segir Ari.[76] Auk þess var meistaranámi í upplýsingastjórnun (information management) komið á til að mæta þörf atvinnulífsins fyrir slíka menntun.  

Menntun fyrir sjávarútveginn

Eitt af því sem hefur komið mörgum nemendum í upplýsingatækni á óvart er hversu tæknivæddur íslenskur sjávarútvegur er. Hugað hefur verið að því að bæta þar um enn betur og í því skyni gerðu Háskólinn í Reykjavík og Landsamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, með sér samstarfssamning árið 2014, samning sem reyndar nær til fleiri greina en upplýsingatækni. Í frétt um það á vef HR 4. júní 2014 segir:

Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur á Íslandi og stendur undir fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Hlutfall sjávarútvegs af öllum útflutningi vöru og þjónustu árið 2012 var rúmlega 28%. Þá benda greiningar Íslenska sjávarklasans til þess að áætla megi að sjávarútvegur standi með beinum og óbeinum hætti undir 15-20% starfa í landinu, en það samsvarar til 25-35 þúsund starfa. 

Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið í heild að efla enn frekar rannsóknir og nýsköpun í atvinnugreininni, meðal annars til að auka sjálfbærni, nýta afurðir eins vel og mögulegt er og skapa fleiri störf.

Þetta verður gert meðal annars með því að gera nemendum HR kleift að vinna nýsköpunarverkefni í starfsnámi hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og meistaranemum að tengja verkefni sín fyrirtækjum í greininni.[77]

Fyrirkomulagið hefur fallið í góðan jarðveg hjá nemendum og að sögn Ara Kristins Jónssonar rektors snýst samstarfið ekki síst um að „gefa nemendum hugmynd um hvað sjávarútvegurinn snýst um, sem er fyrst og fremst tækni, upplýsingatækni og viðskipti. Það er vandaverk að markaðssetja svo viðkvæma vöru sem sjávarafurðir eru. Það var líka gaman að sjá viðhorf nemenda til sjávarútvegs breytast. Og svo hefur verið dálítil keppni í kringum þetta samstarf og það hafði jákvæð áhrif.“[78]

Gagnvirkt íslenskunám á vegum háskóla

Icelandic Online er gagnvirkt og samfellt íslenskunámskeið á netinu. Fyrirrennari þess var verkefni sem kalla má „glorious failure", og hét Learning Icelandic. Árið 1978 fengu Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Háskólinn í Madison Wisconsin 25.000 dollara styrk frá A. W. Mellon-sjóðnum til að skilgreina verkefnið og vinna umsókn til sjóðsins. Það var gert fyrri hluta árs 1999 en Mellon-sjóðurinn hafði aðrar hugmyndir en komu fram í umsókninni og því fékkst ekki verkefnisstyrkur. 

Verkefnið var svo tekið upp hjá HÍ um mitt árið 2000 og þá fengust styrkir frá ýmsum aðilum og sumarið 2004 var vefurinn icelandiconline.is opnaður. Hann byggist á nýjustu rannsóknum í kennslufræði erlendra tungumála og einnig er stuðst við áralanga reynslu af íslenskukennslu við Háskóla Íslands. Beitt er nýjustu tæknilausnum til að kenna tungumálið og þjálfa helstu færniþætti málsins. Með kennslukerfinu hafa verið þróaðir stuðningsmiðlar, eins og málfræðigrunnur og rafræn orðabók. Námskeiðin eru bæði ætluðu háskólanemum og öðrum sem áhuga hafa á að læra íslensku hér á landi og erlendis eins og fram kemur á vef Háskóla Íslands. 

Í árslok 2014 voru yfir 150.000 skráðir á vefinn. Þar af höfðu um 40.000 sótt námskeið og um 600 til 700 eru virkir hverju sinni. 

 

[1] Þorsteinn Hallgrímsson, apríl 2015.

[2] O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Presented at The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology.

[3] Dr. Oddur Benediktsson í samtali við Ebbu Þóru Hvannberg  prófessor, viðtal á stafrænu formi, í vörslu bókasafns HÍ.

[4] Ebba Þóra Hvannberg, viðtal höf. 5. des. 2014.

[5] Viðtal Ebbu Þóru Hvannberg við Odd 2006. Upptaka varðveitt á skjalasafni Háskóla Íslands.

[6] http://www.sky.is/index.php/um-felagie/eldri-frettir/1464-andlat-oddur-benediktsson. Sótt á vefinn 19. feb. 2015.

[7] Anna Kristjánsdóttir. Viðtal tekið 3.11. 2014.

[8] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[9] Anna Kristjánsdóttir, spjall á UTmessu, febrúar 2016.

[10] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[11] Viðtal Ebbu Þóru Hvannberg við Odd Benediktsson 2006. Alþýðublaðið 23. feb. 1977. Bls. 4; TÖLVUNARFRÆÐI TEKIN UPP SEM SÉRGREIN VIÐ HÁSKÓLANN. Paper presented at History of Nordic Computing, Throndheim, June 2003 Early curricula in computer science at the University of Iceland.

[12] Alþýðublaðið 23. feb. 1977. Bls. 4.

[13] Viðbótarupplýsingar frá Jóhanni Malmquist, febrúar 2018.

[14] Gögn frá Jóhanni Malmquist, febrúar 2018.

[15] Ásrún Matthíasdóttir: Vandi nýnema í forritun. Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls.  36. 2015.http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf Sótt 14.11. 2015.

[16] Ágúst Guðmundsson um sinn útskriftarárgang, sem var einmitt 1984. Viðtal tekið 25.11.2015.

[17] Arnheiður Guðmundsdóttir, Ský, línurit: „Útskrifaðir BSc Comp. Science BÁÐIR 1976-2014.

[18] Byggt á tölvubréfi frá Gunnari Linnet frá 7. júní 2016.

[19] Sama heimild.

[20] Viðtal við Höllu Björgu Baldursdóttur 4. des. 2014; „Fyrsta íslenska kennslubókin um tölvumálið BASIC“. 19. júní, 1. tbl. 34. árg., bls. 30.

[21] Vilhjálmur Þorsteinsson. Viðtal tekið 9.9.2015.

[22] Gunnar Linnet, efni sent til Ský 7. júní 2016.

[23] Þetta kemur fram í sérblaði Tímans um tölvur 11.11.1982 þar sem rætt er við einn kennara skólanna í tölvufræði, Steinþór Diljar Kristjánsson stærðfræðing. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278822&pageId=4019661&lang=is&q=t%F6lvur. Sótt 1.febrúar 2016.

[24] Viðtal við Höllu Björgu Baldursdóttur 4. des. 2014 og fyrirlestur hennar á fundi Ský 10. júní 1981, í fórum hennar.

[25] Tölvumál 6. tbl. 1983, 4. UM TÖLVUKOST OG TÖLVUKENNSLU Í VERZLUNARSKÖLA ÍSLANDS.

[26] Anna Kristjánsdóttur. Viðtal tekið 3.10.2014.

[27] http://www.simnet.is/konur/reynslusogur/anna_kristjansdottir.htm Tekið á netinu 21. mars 2015.

[28] Anna Kristjánsdóttir. Viðtal tekið 3.10.2014.

[29] Tölvumál september 1993, 45. Anna Kristjánsdóttir: Dæmi um upphaf tölvuvæðingar Íslenskir skólar.

[30] Upplýsingar frá Jóni B. Lorange í tölvubréfi 27. maí 2016. Jón kom sjálfur að því að byggja upp þessa fræðslu.

[31] Aðalnámskrá leikskóla 1999. http://brunnur.stjr.is/mrn/utgafuskra/utgafa.nsf/SearchResult.xsp?documentId=D26D13FDEBE9810C002576F00058D4C0&action=openDocument. Sótt 27.1. 2018.

[32] Aðalnámskrá leikskóla 2011. https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/namskrar/. Sótt 27.1.2018.

[33] Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir: ,,Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum.“ Desember 2004. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, bls. 6. ;,,Tölvur til að örva sköpunargáfu barnanna.“ Morgunblaðið, 22. september 1998, bls. 26.

[34] Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir: ,,Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum.“ Desember 2004. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, bls. 37.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild, bls. 67.

[37]  http://mennta.hi.is/vefir/namust/leikskkólar.htm. Sótt 27.1. 2018; Anna Elísa Hreiðarsdóttir, janúar 2018.

[38] Sólveig Jakobsdóttir: Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni. Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 7. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf. Sótt 14.11. 2015.

[39] Síðar lengt í 36 stundir.

[40] Tölvumál september 1993, 46-47. Anna Kristjánsdóttir: Dæmi um upphaf tölvuvæðingar Íslenskir skólar.

[41] Morgunblaðið 6. nóvember 1985, 32-33. Einkabréf til ráðherra — frá Önnu Kristjánsdóttur.

[42] Anna Kristjánsdóttur. Viðtal 3.10. 2014.

[43] Sama heimild.

[44] http://www.ismennt.is/main.asp?id=1&uid=1

[45] Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 188

[46] Dagblaðið 20. nóv. 1979; smáauglýsingar.

[47] Morgunblaðið 3. feb. 1980 Heimilistölvur, liður í sjálfvirkni framtíðarinnar! 24.

[48] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278822&pageId=4019661&lang=is&q=t%F6lvur. Sótt 1.febrúar 2016.

[49] Vikan 19. tbl. 10. maí 1984. Kynning á tölvuskólum ; DV 12. nóv. 1982. Tölvufræðsla Stjórnunarfélagsins: Fyrir stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja.

[50] Morgunblaðið 25. mars 1984, auglýsing.

[51] Morgunblaðið 23. maí 1984, 24. Tölvukennsla á landsbyggðinni.

[52] Tölvunámskeið – aukin samkeppni. Dagblaðið VísirDV, 12. febrúar 1992, bls. 18. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=193899&pageId=2594881&lang=is&q=Tölvuskóli Tölvuskóli Tölvuskóli Reykjavíkur Tölvuskóli. Sótt 6.12.2015.

[53] Sama heimild.

[54] Arnlaugur Guðmundsson fékk til að mynda fyrsta netfangið sitt hjá skólanum. Viðtal tekið 2.9. 2015.

[55] Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Fjarðarpósturinn. 23.1.1997. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=360121&pageId=5789408&lang=is&q=N%FDi%20t%F6lvu%20og%20vi%F0skiptask%F3linn%20og

[56] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 5.10.2015.

[57] Ávarp Jóhanns Gunnarssonar við setningu ráðstefnunnar Skólastarf og upplýsingatækni. Tölvumál, x. tbl. x. árg. október 1996, bls. 5.

[58] Svana Helen Björnsdóttir. Viðtal tekið 20.10.2015; Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[59] Ásrún Matthíasdóttir og Kristine Helen Falgren: Konur og tölvunarfræði. Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 49. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf. Sótt 15.11.2015.

[60] http://www.ru.is/haskolinn/frettir/nr/30762

[61] http://www.visir.is/nyskopunarsjodur-fjarfestir-i-mentor/article/200770630039

[62] http://www.sky.is/index.php/9-felagidh/1679-2014-ut-verdhlaun-sky

[63] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[64] Hvert er frumskilyrði nútíma tölvunotkunar? Vikan 9. tbl. 46. árg. 1984, bls. 36-37. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299622&pageId=4504334&lang=is&q=vélritun Vikan

[65] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 5.10.2015.

[66] Sigrún Eva Ármannsdóttir. Viðtal tekið 28.10. 2015.

[67] Oddur Benediktsson: Tillaga um MS nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Tölvumál, 4. tbl. 21. árg, bls. 23.

[68] Ebba Þóra Hvannberg: M.S.-nám við tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands. Tölvumál, 4. tbl. 23. árg. 01.12.1998, bls. 9.

[69] Oddur Benediktsson: Tölvunarfræði við Háskóla Íslands í tuttugu og fimm ár. Algrímur. Fréttablað útskriftarnema í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. 1. tbl. 3. árg. 2003, án blaðsíðutals.

[70] 1988.

[71] Helga Sigurjónsdóttir:  Lokaverkefni við tölvuháskólann. Tölvumál, 2. tbl. 21. árg. maí 1996, bls. 27.

[72] Björg Birgisdóttir: Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Tölvumál, 4. tbl, 23. árg, 01.12. 1998, bls. 5.

[73] Helga Sigurjónsdóttir:  Lokaverkefni við tölvuháskólann. Tölvumál, 2. tbl. 21. árg. maí 1996, bls. 28.

[74] Í grein Odds Benediktssonar er sagt að hún hafi hafist árið 2001 en í frétt í Vísi er greint frá því að námið hafi fallið niður skólaárið 2008-2009 vegna lítillar aðsóknar og kennurum þá sagt upp. Námið var tekið upp að nýju eftir nokkurra ára hlé, árið 2015, og þá í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Oddur Benediktsson: Svipmyndir af kennslu í upplýsingatækni. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 196-197; visir.is, 22. ágúst 2008. http://www.visir.is/haskolinn-a-akureyri-innritar-ekki-nemendur-i-tolvunarfraedi-i-ar/article/200811135887. Sótt 3.10.2015.

[75] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[76] Sama heimild.

[77] http://www.ru.is/haskolinn/frettir/nr/30952

[78] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

formali forsagan
Úr formála manntals á Íslandi 1. desember 1950. Hagskýrslur Íslands II. Rv. 1958. Bls. 7.

Forsögu tölvuvinnslu á Íslandi má rekja aftur til miðrar tuttugustu aldar, en nákvæmlega hvenær hún hófst hlýtur ávallt að vera háð mati. Þá er gott að ganga í sjóð fólks sem hefur lifað og hrærst í heimi íslenskrar upplýsingatækni áratugum saman. Mögulegur upphafspunktur er þegar Hagstofan fékk fyrst sérhæfða vél, mekaníska vél, til að gera manntal árið 1949. Árið 1952 var fyrirtækið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar stofnað og það voru einni g nokkur tímamót. Upphafspunktur þessa rits er þó engu að síður settur árið 1964, þegar fyrsta alvörutölvan kom til Íslands, og fyrir því liggja gild rök. Aðdragandinn var nokkur og er stiklað á því stærsta áður en merkisárið 1964 er skoðað.

Háskólinn fær rafeindareiknivél

Fyrsti Íslendingurinn sem kynntist þessari nýju rafeindatækni að einhverju marki, svo vitað sé, var Magnús Magnússon, síðar prófessor við Háskóla Íslands. Árið 1950 var hann við nám í Cambridge í Englandi og vann þá við EDSAC I-rafeindareikninn og áratug síðar um þriggja mánaða skeið í Regnecentralen í Kaupmannahöfn. Nokkrir íslenskir verkfræðistúdentar kynntust þessari nýju tækni á sjötta áratugnum í námi sínu í Bandaríkjunum. Áhugi þeirra vaknaði á því að fá tæki af þessu tagi til landsins. Fyrstu athuganir bentu reyndar til þess að það væri ekki raunhæft; vélarnar voru allt of dýrar, en ungir og áhugasamir raunvísindamenn létu ekki deigan síga. Haustið 1960 kom Niels Bech, forstjóri Regnecentralen, til Reykjavíkur og orðaði þá hugmynd að sett yrði upp útibú dönsku reiknistofunnar, með rafreiknum af gerðinni GIER (Geodætisk Instituts Elektroniske Regnemaskine). Aftur varð niðurstaðan sú að það væri ekki raunhæft. Sama haust sendi Ottó Michelsen forstjóri Skrifstofuvéla hf. (IBM) verkfræðideild Háskóla Íslands og Rannsóknaráði Íslands tilboð um leigu eða kaup með 60% afslætti á IBM 1620 Model I-rafreikni, sem hafði verið kynntur á árinu 1959. Þessu tilboði var aldrei svarað. Tíminn leið, enn var gerð tilraun til að koma hreyfingu á málið árið 1963. Íslenska stærðfræðifélagið sendi tvo menn, Björn Kristinsson rafmagnsverkfræðing og Helga Sigvaldason verkfræðing, til að kynna sér GIER-rafreikna hjá Regnecentralen í nokkra mánuði og læra viðhald og samsetningu vélanna. Þeir stungu upp á að keyptir yrðu einstakir vélarhlutar í Danmörku, fluttir til Íslands og vélin sett saman þar. Það gekk þó ekki eftir. [i] Þess í stað hófst sú saga sem hér er greint frá.

[1] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003; Dr. Oddur Benediktsson. Viðtal við Ebbu Þóru Hvannberg  prófessor, í vörslu skjalasafns Háskóla Íslands.

Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla samfélagsbreytinga og framfara á Íslandi. Ýmis höft frá fyrri áratugum voru afnumin, konum á vinnumarkaði fjölgaði verulega og velmegun jókst með mikilli síldveiði. Undir lok áratugarins hvarf síldin af Íslandsmiðum og við tóku erfiðir tímar með landflótta. Sumir lögðu í búferlaflutninga allt suður til Ástralíu og margir skiluðu sér ekki aftur til Íslands frekar en síldin. Um allan heim voru þetta tímar mikilla tækniframfara og trúar á að tæknin myndi gerbreyta lífskjörum fólks, enda varð sú að mörgu leyti raunin. Varla er það tilviljun að einmitt á þessum tíma hafi fyrstu tölvurnar komið til Íslands. Tíminn var runninn upp bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

IBM og dvergarnir sjö

Í tölvuheiminum gnæfði risinn IBM yfir aðra með stórtölvur og eigin stýrikerfi. Paul Allen, annar stofnenda Microsoft, notar orðalagið „IBM og dvergarnir sjö“ í æviminningum sínum, en dvergarnir voru Burroughs, Control Data, General Electric, Honeywell, NCR, RCA og UNIVAC. Auk þess voru DEC og fleiri nýrri aðilar að hasla sér völl. Annað einkenndi markaðinn á þessum tíma og það var að hverri tölvu fylgdi sérhæfður hugbúnaðarheimur og þessir heimar sköruðust ekki, ólíkt því sem síðar varð. [1] Í upphafi áttunda áratugarins blés ekki byrlega í íslensku samfélagi; ofan á hrun síldarstofnsins bættist að þjóðin átti í þorskastríði við Englendinga vegna útfærslu landhelginnar. Sjávarútvegurinn var mikilvægasta útflutningsgrein Íslendinga og varla tilviljun að vísindamenn á sviði sjávarútvegs tóku nýjungum í tölvutækni fagnandi. Ásókn í háskólanám jókst, en lítið var um tækifæri fyrir fólk sem vildi starfa í tölvugeiranum.

Íslenskt samfélag var einsleitt og það endurspeglaðist í hinu nýja umhverfi tölvuvæðingar. Tölvurnar voru fáar og stórar og sömuleiðis viðskiptavinirnir, sem voru nær eingöngu stærri fyrirtæki og stofnanir. Síbreytileiki og nýsköpun framtíðarinnar mátti bíða enn um sinn.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1964–1974

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Í upphafi IBM 1401 og IBM 1620, síðar IBM 360-tölvuhögunin (360/xx og 370/xxx) og IBM S/3X-tölvurnar. Tölvur voru fáar fyrstu árin en fjölgaði í u.þ.b. nítján í lok tímabilsins. Hins vegar voru margir viðskiptamenn.

Öll gagnavinnsla var runuvinnsla, í upphafi eingöngu á gataspjöldum en segulbönd og diskar komu fljótt til sögunnar og í lok tímabilsins disklingar til skráningar á færslum. Engar skjástöðvar.

Stýrikerfi: Fyrir IBM 1401 og 1620 – ekkert stýrikerfi. Fyrir IBM 360 og 370 – Disk Operating System (DOS/360) og VM/370, fyrir IBM S/3-tölvurnar – mjög einfalt Operating Control Language (OCL).

Forritunarmál þessa tíma voru Fortran, COBOL, PLI, SPS, Assembler, RPG.

Fyrstu tölvurnar koma til Íslands: Varúð, viðkvæmar vélar!

Háskóli Íslands og SKÝRR fengust á þessum tíma við ýmis verkefni sem hentuðu tölvuvinnslu vel, og það vissu margir starfsmenn HÍ og SKÝRR. Hún gæti stóraukið getu þess mannafla og skrifstofubúnaðar sem tiltækur var. Bæði verkfræði- og viðskiptadeild HÍ sinntu verkefnum þar sem tölvutækni nýttist vel. Almanak Háskólans krafðist einnig mikilla útreikninga sem hentuðu vel fyrir tölvuvinnslu. SKÝRR hélt utan um ýmiss konar tölfræðigögn, verslunar- og hagskýrslur og með því að taka tölvur í sína þjónustu var jókst bæði reiknigeta og úrvinnslugeta.

Keypt mbl Innsida
5. okt 1964 - Fyrsta tölvan/reiknivélin kemur til landsins með Goðafossi til SKÝRR. Ljósmyndasafn Ólafs K. Magnússonar / Morgunblaðsins. Ól.K.M.

Tölvuöld er sögð hafa hafist á Íslandi haustið 1964 þegar tveimur fyrstu tölvunum sem keyptar höfðu verið til landsins var skipað á land í Reykjavík: Fimmta október voru hífðir úr Goðafossi þrír trékassar sem á var letrað stórum stöfum: „Electronic System – Delicate Machine – Handle with care – Very fragile“. Í þeim var vélasamstæða sem Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar höfðu tekið á leigu hjá bandaríska stórfyrirtækinu IBM. [2] Níu dögum síðar, miðvikudaginn 14. október, var skipað upp annarri vélasamstæðu, sem einnig var frá IBM, og átti að fara til Háskóla Íslands. Hún vakti ekki mikla athygli fjölmiðla og var aðeins getið í eins dálks frétt í Morgunblaðinu: „Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins,“ og fátt annað tekið fram en að vélinni hefði verið komið fyrir í hinu nýja raunvísindahúsi Háskólans. [3]

Raunar er ofmælt að tala um tölvuöld að svo komnu máli því enn hafði engum dottið í hug að nefna þessar nýju vélar tölvur. Þær voru oftast nefndar rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili, rafreiknir eða eitthvað slíkt enda voru þetta fyrst og fremst afskaplega afkastamiklar reiknivélar. Orðið tölva var ekki smíðað fyrr en árið eftir að fyrsta tölvan kom til landsins.

rafheili.kemur.til.Islands
Rafheili kemur til Íslands. „Varúð, viðkvæmar vélar!“ Morgunblaðið, 06.10.1964

Það var engin tilviljun að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar og Háskóli Íslands fengu fyrstu tölvurnar sem fluttar voru til landsins. Slík tæki hentuðu ákaflega vel fyrir stofnanir þar sem þörf var fyrir öflugar reikni- og skýrslugerðarvélar. Sú staðreynd að IBM-vélar urðu fyrir valinu var heldur engin tilviljun. Á þessum árum bar bandaríska fyrirtækið International Business Machines höfuð og herðar yfir aðra tölvuframleiðendur. Ottó A. Michelsen, aðaleigandi og forstjóri Skrifstofuvéla hf., sem flutti meðal annars inn IBM-gataspjaldavélar, fylgdist grannt með uppgangi þeirrar tækni sem var tekin að breiðast um hinn vestræna heim og átti eftir að gegna lykilhlutverki í upphafi tölvuvæðingar Íslands.  

Forveri kemur við á Íslandi - 1/2% áfengishækkun könnuð

Ísland var á hraðri leið inn í framtíðina og koma fyrstu tölvanna átti sér aðdraganda. Haustið 1963 fékk Ottó Michelsen leyfi hjá IBM til þess að sýna og kynna á Íslandi reiknivélasamstæðu sem verið var að senda frá Kanada til Finnlands. Sýning á vélinni hófst í húsakynnum fyrirtækisins Ottó A. Michelsen hf., að Klapparstíg 25, miðvikudaginn 23. október, og fjölda manns var boðið að skoða gripinn. Þeirra á meðal voru ráðherrar, framámenn í atvinnulífinu, hagstofustjóri, bankastjórar og fleiri og vakti vélbúnaðurinn hrifningu og þótti nýstárlegur. Meðal gesta var Gylfi Þ. Gíslason, menntamála- og viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Í ævisögu Ottós Michelsen segir að Gylfi hafi umsvifalaust sest við vélina „og með tiltölulega lítilli tilsögn fór hann strax að keyra hana. Hann spurði vélina hversu mikil tekjuaukning fyrir ríkissjóð myndi fylgja því að hækka brennivínið um hálft prósent. Hann fékk svarið á tveimur sekúndum og varð stórhrifinn og hefur sennilega strax hækkað áfengið sem þessu nam. Um það veit ég ekki. Ég er bindindismaður“. [4]

Háskólinn

Heili sem skilur Fortran og getur spilað púsluspil með eldspýtum

Vélin vakti fleiri aðila og Háskólinn stóð fyrir námskeiðum þar sem „kennt hefur verið sérstakt táknmál, „Fortran“, sem heilinn skilur og getur unnið úr“, eins og Alþýðublaðið skýrði frá.[5] Í þeirri frétt er haft eftir Ottó að þetta tæki sé ekki hægt að kalla „rafeindaheila“ heldur sé það einungis reiknivél, sem geti auk þess spilað „pússluspil“ með eldspýtum. Ottó upplýsti blaðamanninn um að vélin hefði tiltölulega stórt minni og unnt væri að mata hana á fimmtíu þúsund atriðum, sem hún ynni síðan úr.

vinnur.arsverk.a.8.klst
Mikil afköst tölvunnar sem kom við á Íslandi voru lofuð í blaðaumfjöllun. Alþýðublaðið, 23.okt. 1963

Ýmsir vísindamenn fengu tækifæri til að láta vélina vinna úr gögnum fyrir sig meðan hún var höfð til sýnis hér. Doktor Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur kom til að mynda með útreikninga tengda athugunum á segulsviðinu. Vélin leysti þá á átta klukkustundum en doktorinn sagði að tekið hefði heilt ár að leysa verkefnið með venjulegum aðferðum. Fleiri vísindamenn lögðu verkefni fyrir nýju reiknivélina: Páll Theódórsson eðlisfræðingur, sem var að fást við rannsóknir á trítíummagni í regnvatni, Sigurjón Rist vatnamælingamaður og Aðalsteinn Sigurðsson fiskifræðingur. Veðurstofan lét einnig gera ýmsa útreikninga fyrir sig sem ella hefðu ekki verið gerðir og Stefán Aðalsteinsson erfðafræðingur lét vinna úr þúsundum skýrslna frá sauðfjárræktarfélögum. [6] Ottó Michelsen segir í ævisögu sinni að þegar hann hafi komið til vinnu klukkan sex að morgni hafi dr. Stefán komið út frá reiknivélinni líkt og ölvaður, faðmað hann að sér og sagt: „Ó, Ottó. Nú er ég úrvinda, en svo glaður, því að ég veit að ég er búinn að inna af hendi tíu ára verk í nótt.“ [7]

Leitað til ríkisstjórnar um fjármögnun

Reiknivélin nýja var fokdýr, kostaði 2,8 milljónir króna, sem var ámóta og verð 5–6 venjulegra íbúða, og samsvarar rúmlega 54 milljónum króna miðað við meðalverðlag ársins 2014. [8] Ottó var hins vegar mikið í mun að Háskólinn eignaðist slíkan grip og beitti sér fyrir því að móðurfyrirtæki IBM í Bandaríkjunum gæfi eftir 60% af kaupverði reiknivélarinnar, eins og áður hafði verið rætt um, og það var kallað háskólaafsláttur. [9] Þá átti enn eftir að fjármagna þau 40% sem eftir stóðu og Ármann Snævarr háskólarektor fól Magnúsi Magnússyni prófessor að afla fjár til kaupanna. Háskólinn hafði ekkert bolmagn til þess að standa straum af þeim sjálfur og var því ákveðið að leita beint til ríkisstjórnar og Alþingis, og hugsanlega fleiri aðila, um fjárframlög til að gera skólanum kleift að taka reiknivélina á leigu, eins og þá voru venjulegir viðskiptahættir IBM.

Fjörutíu kílóbæta tölva á stærð við þrjú píanó

Magnús Magnússon prófessor ræddi málið við Gylfa Þ. Gíslason, viðskipta- og menntamálaráðherra, og hann sýndi því mikinn áhuga en lagði áherslu á að tryggja yrði að tekjur af rekstri vélarinnar stæðu að minnsta kosti undir hluta rekstrarkostnaðarins. Magnúsi var falið að setja á stofn sérstaka reiknistofu sem skyldi annast reksturinn. Hann setti sig í samband við forstöðumenn ýmissa opinberra stofnana og stórfyrirtækja og tókst að sannfæra þá flesta um kosti þess að skipta við hina nýju reiknistofu þannig að þegar í upphafi tókst að tryggja henni fasta viðskiptavini, sem hver lofaði að nota reiknivélina í eina til þrjár klukkustundir í hverjum mánuði.

365 skólar Háskóli Íslands 5
Desember 1963 - Ármann Snævarr rektor Háskóla Íslands skrifar undir samning um kaup á. Til vinstri er Ottó A. Michelssen, í baksýn eru Trausti Einarsson, Magnús Magnússon og Jóhannes L.L. Helgason háskólaritari. Ljósmyndari Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Næsta verkefni Magnúsar var að skrifa fjárlaganefnd Alþingis og biðja um fjárstyrk til kaupanna. Meðan hann sat við að skrifa bréfið hringdi Gylfi Þ. og spurði hvað myndi kosta að kaupa vélina í stað þess að leigja hana. Þótt Magnús hefði gert ráð fyrir því að taka vélina á leigu gat hann upplýst ráðherrann um nokkuð nákvæmt kaupverð í íslenskum krónum. Um tíu mínútum síðar hringdi Gylfi aftur og sagði að ákveðið hefði verið að í tilefni þess að tíu ár væru frá því að Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður myndi bankinn gefa Háskóla Íslands þá fjárupphæð sem vantaði upp á heildarkaupverð reiknivélarinnar. Í ljós kom að Gylfi var á fundi bankaráðsins þegar hann hringdi, og var raunar formaður þess. Þar hafði einmitt komið til umræðu hvernig væri við hæfi að minnast þessara tímamóta í sögu bankans og Gylfi lagði þetta til. Það var samþykkt og með því tryggt að Háskóli Íslands fengi sinn fyrsta rafeindareikni af gerðinni IBM 1620 Model II, í þremur hlutum og hver hluti á stærð við píanó. [10]

Í byrjun vetrar 1964 var rafeindareikninum komið fyrir í nýju húsi Raunvísindadeildar Háskólans vestur á Melum og samtímis tók til starfa nýja stofnunin, Reiknistofnun Háskólans, undir stjórn prófessors Magnúsar Magnússonar. Vélin var reiknivél af nýjustu gerð, sem hafði verið kynnt í fyrsta sinn í desember ári fyrr, og var talsvert fullkomnari en næsta módel á undan. Nú er hægt brosa yfir tæknilegri lýsingu á þessari vél: Hún hafði 40 þúsund tákna minni, sem eru 40 kílóbæti eða 0,04 megabæti, inntaks-/úrtakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari en henni fylgdu hvorki seguldiskar né prentari. Síðar voru keypt með fjárstyrk frá bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) tvö utanáliggjandi seguldiskadrif, sem hvort um sig hafði tveggja milljóna tákna minni, það er tvö megabæti, og línuprentari var fenginn að láni hjá IBM. [11] Síðar var minni reikniheilans aukið úr 40 kílóbætum í 60. Hjálmtýr Guðmundsson var einn þeirra sem prófuðu að vinna á þessari vél þegar hann vann hjá Ottó A. Michelsen/IBM. Hann reyndi að nota vélina til að finna samhengi milli ýmissa breytna og forritunartíma og kostnaðar. Verst þótti honum að hafa ekki getað hellt sér meira út í að forrita á þessari vél, því það var sérlega áhugavert að hans mati. [12]

Sólarhringur í að reikna út þriggja stunda veðurspá

Þegar reiknivélinni nýju hafði verið komið fyrir voru haldin kynningarnámskeið fyrir yfirmenn stofnana og forráðamenn verkfræðifyrirtækja um gagnsemi vélarinnar. Kynnt voru ýmis forrit sem notuð voru á þessum upphafsárum: COGO (Coordinate Geometry) og PERT (Program Evaluation and Review Technique) og fljótlega fjölgaði verkefnum Reiknistofnunar. Margar verkfræðistofur svo og verkfræðideild HÍ hófu að nýta sér háskólatölvuna, og þótti hún hafa gríðarlega mikil og góð áhrif á árangur starfs þeirra. Kennarar og stúdentar úr viðskiptadeild Háskólans sýndu tilkomu hennar hins vegar takmarkaðan áhuga. Á vormisseri 1965 var haldið Fortran-námskeið fyrir verkfræðinema á þriðja ári. Haustið 1965 komst fastara skipulag á þessi námskeið og þau gerð að skyldunámskeiðum fyrir verkfræðistúdenta. Háskóli Íslands mun hafa verið meðal fyrstu háskóla á Norðurlöndum til að gera forritun að föstum þætti í námi við skólann.

Undir árslok 1964 skrifaði doktor Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, einn af þeim ungu mönnum sem höfðu kynnst þessu nýja undratæki nútímans, í Tímarit verkfræðingafélags Íslands:

Tæp átján ár eru liðin síðan fyrsta rafeindareiknivélin kom fram á sjónarsviðið. Á þessum stutta tíma hefur notkun slíkra véla rutt sér svo til rúms, að þær mega nú heita ómissandi í flestum greinum vísinda og tækni. Rafeindareiknirinn, sem Reiknistofnun Háskólans hefur nú tekið í notkun, boðar því tímamót í tæknimálum hér á landi. Að vissu leyti mætti líkja þessum atburði við þá breytingu, sem varð, þegar jarðýtur og skurðgröfur tóku við af skóflu og haka.[13]

Fjöldi verka var unninn með hjálp nýju tölvunnar. Verkfræðingar Vegagerðar ríkisins notuðu tölvuna til að reikna út og hanna seinni hluta Reykjanesbrautar, milli Hafnarfjarðar og Keflavíkurflugvallar, sem var fyrsta stórverkefni í vegagerð á Íslandi. Verkfræðingar hjá borgarverkfræðingi Reykjavíkur hófu hönnun á götum í Reykjavík með þessari nýju tækni. Unnin var langtímaáætlun um orkukerfi landsins og áætlun um notkun uppistöðulóna og nýtingu jarðhita í samvinnu við Raforkumálaskrifstofuna sem síðar varð Orkustofnun. Veðurstofan vann úr upplýsingum um veðurfar og meðal annars var reynt að spá fyrir um sjólag við Íslandsstrendur svo gefa mætti út viðvaranir til fiskiflotans. Þá var tölvan mötuð á veðurgögnum frá Veðurstofunni síðdegis og síðan var ætlunin að gefa út spá á miðnætti. Þetta gekk vel, að því undanskildu að það tók IBM 1620 heilan sólarhring að reikna út þriggja klukkustunda spá!

Hafrannsóknastofnunin og síldargöngurnar

Eðlilega var reynt að beita þessari nýju reiknitækni á undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn. Hafrannsóknastofnun sendi verkefni á gataspjöldum til úrvinnslu í tölvu til Noregs áður en fyrstu tölvurnar komu til Íslands. Sérfræðingar stofnunarinnar unnu úr gögnum um síldargöngur og greindu meðal annars upplýsingar um veiðisvæði, aflamagn, fjarlægð og siglingartíma til næstu löndunarhafnar. Tilgangurinn var að skipuleggja veiðar og löndun á sem hagkvæmastan hátt til að geta beint veiðiskipunum til þeirrar hafnar sem best hentaði hverju sinni. Eigendur síldarskipanna og síldarverksmiðjanna sýndu þessu þó lítinn áhuga, hugsanlega með það í huga að gæta hagsmuna verksmiðjueigenda.[14]

Hafrannsóknastofnun notaði eigið starfsfólk til að forrita og laga erlend forrit að þörfum stofnunarinnar[15] og innan hennar byggðist upp mikil þekking og því engin furða að stofnunin væri framarlega á sviði framfara í tölvutækni á Íslandi.

Manntalsgögn

Á árinu 1965 tók Reiknistofnun að sér merkilegt verkefni í erfðafræði, sem styrkt var af bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) og byggði á manntali 1910 og yngri gögnum. Þessar manntalsskrár voru með hjálp forritsins Symbolic Programming System (SPS) tengdar við þjóðskrá fyrir lifendur, eða andlátsskýrslur, með tilliti til dauðaorsakar. Einnig voru fæðingartölur frá 1910 og eftir það tengdar þjóðskrá eða andlátsskýrslum. Þannig var sett upp gagnasafn um 85 þúsund manns í manntalinu og 165 þúsund fæddra eftir það, að samanlögðu um 250 þúsund manns. Þá voru blóðflokkaskýrslur 27 þúsund manna tengdar gagnasafninu. Þessi einstaki gagnabanki var síðan notaður til ýmiss konar erfðarannsókna á fólki. Verkefnið vakti umtalsverða athygli á alþjóðavettvangi, var kynnt víða í Bretlandi og Bandaríkjunum og leiddi til þess að Reiknistofnun fékk lausa seguldiska, sem hvor rúmaði tvær milljónir bæta. 

365 skólar Háskóli Íslands 6
Maí 1965, rafreiknir Háskóla Íslands, Reiknistofnun Háskólans. F.v. Þórhallur Einarsson, dr. Ragnar Ingimarsson, Helgi Sigvaldason, Oddur Benediktsson og prófessor Magnús Magnússon forstöðumaður deildarinnar.
Ljósmyndari: Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Þegar á fyrsta ári Reiknistofnunar Háskólans voru gerðar áætlanir um að setja upp módel fyrir íslenskt efnahagslíf, meðal annars í samráði við hollensk-bandaríska prófessorinn Tjalling Koopmans, sem hlaut síðar nóbelsverðlaun í hagfræði (1975). Þetta var talið fremur auðunnið, einkum vegna þess hve einhæft efnahagslífið var. Forrit sem var sérsniðið fyrir verkefni af þessu tagi fékkst frá háskólanum í Vínarborg en lítið varð úr þessum áformum, vegna áhugaleysis íslenskra hagfræðinga. Árið 1966 var fasteignamat á Íslandi tölvuvætt og grundvöllur lagður að því fasteignamati sem enn er stuðst við, einnig tölvuvæðingu borgarskipulags í Reykjavík og útreikningum á „byggingavísitölu“. Þetta var síðar tengt fasteignaskráningu, fasteignaverði og byggingarkostnaði.

Fyrstu tilraunir til útreikninga á hagkvæmni fiskveiða

Árið 1969 gerðu starfsmenn Reiknistofnunar Háskólans, í samvinnu við Fiskifélag Íslands, tilraun til að auka hagkvæmni fiskveiða. Byggt var á söfnun og greiningu mikils magns gagna frá íslenska togaraflotanum, meðal annars um stærð og fjölda togara, aflamagn, helstu veiðisvæði og ýmislegt fleira. Borin var saman hagkvæmni togara af mismunandi stærð og niðurstaðan varð sú að hagkvæmasta stærð togara væri milli 400 og 500 tonn. En hvorki stjórnvöld landsins né forystumenn í sjávarútvegi sýndu minnsta áhuga og eftir þetta voru smíðaðir stærri og óhagkvæmari togarar.[16]

Umsvif utan háskólasamfélagsins

Varla verður fjallað um fyrstu ár tölvuvæðingar á Íslandi án þess að fjalla um þátt IBM og SKÝRR í þeirri sögu en hún var oft nátengd, eins og sjá má.

SKÝRR – frá stórum og þungum reiknivélum til gataspjalda

Fyrirrennarar Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar, skammstafað SKÝRR, voru Hagstofa Íslands, sem tók til starfa árið 1914, og Rafmagnsveita Reykjavíkur, sem hóf starfsemi 1921. Stærstu verkefni þessara stofnana voru að halda utan um mannfjöldatölur, breytingar á búsetu og annað slíkt, verslunar- og hagskýrslur, rafmagnsnotkun, innheimtu og bókhald. Báðar stofnanirnar fengu fljótt stórar og þungar reiknivélar og vélar til að skrifa út reikninga. Sumarið 1949 fékk Hagstofan skýrslugerðarvélar frá IBM í Bandaríkjunum, fyrst og fremst í tengslum við úrvinnslu á tíu ára manntali, sem þá var unnið að.

skrytla.ur.morgunbladinu
Skrýtla úr Morgunblaðinu um nýja rafeindaheilann. Morgunblaðið, 15.10.1964

Árið 1952 tókst samstarf með stofnununum tveimur um að taka á leigu hjá IBM gataspjaldakerfi, sem var margfalt afkastameira en gömlu vélarnar. Þannig varð til sérstakt fyrirtæki, sem fékk nafnið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Vélarnar voru settar upp í skrifstofu Rafmagnsveitunnar að Tjarnargötu 12, yfir gömlu slökkvistöðinni, en stofnanirnar áttu sinn helming hvor í þessu nýja fyrirtæki. Fljótlega gat SKÝRR tekið að sér verkefni fyrir ýmsar aðrar skrifstofur ríkis og bæjar og fleiri aðila, og 1957 flutti fyrirtækið í eigið leiguhúsnæði, að Skúlagötu 50. Upprunalega hugmyndin að stofnun Skýrsluvéla kom raunar frá dr. Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni, sem varð síðar landlæknir. Hann lagði til að Rafmagnsveitan, Hagstofan og Heilsuverndarstöð ríkisins hefðu samvinnu í þessum efnum af því að árið 1950 stóð til að Alþjóða heilbrigðisstofnunin (World Health Organization, WHO), tæki verulegan þátt í berklarannsóknum hér á landi. Ekkert varð þó af því og ekki heldur að Heilsuverndarstöðin yrði með í hinu nýja skýrslugerðarfyrirtæki en dr. Sigurður mun hafa setið í stjórn Skýrsluvéla um skeið vegna aðildar sinnar að málinu.

Þjóðskrá – fyrsta véltæka skrá í heimi

Með nýju skýrslugerðarvélunum sparaðist talsverður mannskapur á skrifstofum stofnananna tveggja, sem nýttist til annarra verka. Ákveðið var að nýta þetta svigrúm til að koma á vélaspjaldskrá yfir alla landsmenn, sem fékk heitið þjóðskrá, og var aðalverkefni Hagstofunnar á árunum 1952 til 1954. Klemens Tryggvason var hagstofustjóri á þessum tíma og bar ábyrgð á nýja verkefninu en Áki Pétursson stýrði þessu nákvæmnisverki á metnaðarfullan hátt. Talið er að hin íslenska véltæka þjóðskrá sé sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, líkt og manntalið 1703 er talið fyrsta manntal heillar þjóðar sem tekið hefur verið og enn er varðveitt.

Sérhannað hús fyrir vélasamstæðu

Gataspjöldin sköpuðu nýja og áður óþekkta möguleika. Snemma árs 1960 var hér á ferð sænskur maður frá IBM í Stokkhólmi og hann kynnti stjórn Skýrsluvéla nýjasta vélbúnaðinn frá fyrirtækinu, vélakerfin 1401 og 1620, af nýrri kynslóð sem þá voru nefndir rafreiknar eða rafeindareiknar á íslensku. Stjórn Skýrsluvéla tók að afla sér upplýsinga um þessar nýju vélar og um tíma stóð til að samstarf yrði haft við Háskóla Íslands um vélakerfi en skólinn hafði eigin hugmyndir og ekkert varð úr því samstarfi. Stjórn SKÝRR hélt ótrauð áfram að undirbúa kaup á þessu nýja vélakerfi og sendi starfsmenn til útlanda í nám og þjálfun í meðferð þessara töfratækja. Vorið 1963 var ákveðið að ráðast í að byggja hús við Háaleitisbraut 9, sérhannað fyrir það vélakerfi sem til stóð að taka á leigu hjá IBM. Húsið var 330 fermetrar að grunnfleti, tvær hæðir ásamt 80 fermetra kjallara og var tilbúið að taka við nýju vélasamstæðunni þetta merka haust, 1964.[17]

Minnisskortur

Fyrstu tölvurnar tvær sem komu til landsins þættu vísast hálfklénar og ekki til stórræðanna nú. Segulminni vinnslueiningar eða miðverks SKÝRR-tölvunnar, IBM 1401, var 4000 stafir, tæplega það sem kallast 4 kB í dag. Hvert bæti, eða stafur, var sex bitar, sem gaf 64 stafagildi, eða möguleika á að skrá 64 mismunandi stafi eða tákn. Til viðbótar voru tveir bitar, annar fyrir „wordmark“, en hinn fyrir „parity check“. Til samanburðar eru bæti nútímatölva átta bitar eða 256 stafagildi, auk parity-bita. Minnið var takmarkað og þessi eining vélarinnar var varla á stærð við skókassa að ummáli. Minniseiningarnar sjálfar voru smágerð völundarsmíð: Hver biti minnisins var agnarsmár málmhringur, þræddur á hring þar sem fjórir vírar fóru í gegnum hvern hring, tveir til að kveikja og tveir til að slökkva auk skynjaravírs. Hins vegar var boxið utan um minnið með öllum tengingum, mögnurum, kælingu og fleiru slíku á stærð við tvo ísskápa.[18]

Áður en tölvurnar komu til landsins notuðu nokkur fyrirtæki svokallaðar skýrsluvélar (Unit Record (UR) machines) til alls konar gagnavinnslu. Þær voru ekki forritanlegar en var eftir atvikum stýrt af töflum og öll gögn, það er skrár og færslur, voru á gataspjöldum.

Stökkið frá gömlu stýranlegu skýrsluvélunum yfir í 1401-vélina var stórt að því leyti til að nú var hægt að skrifa forrit sem mátti geyma og nota aftur og aftur, en UR-vélarnar voru með víruðum tengitöflum og þurfti oftast að tengja þær upp á nýtt við næstu vinnslu því ekki var hægt að geyma svo margar. Það var mikil vinna að tengja slíka töflu.[19] „Mig minnir að við ættum einar þrjátíu tengitöflur í IBM 407 á Klapparstíg 27 í Skýrsluvinnslu Ottó A. Michelsen. Töfluskápurinn náði frá gólfi og upp í loft.“[20]

Áfram var gamla spjaldagatatæknin notuð til að mata vélina á gögnum en undirbúningur vinnslu varð hins vegar talsvert einfaldari. Spjaldalesarinn/-gatarinn skiptist í tvo meginhluta annars vegar inntak eða lesara fyrir gataspjöld, sem annaði 800 spjöldum á mínútu, og hins vegar úttak, spjaldagatara sem gat skilað allt að 250 götuðum spjöldum á mínútu.

Prentarinn var sannkallaður hraðprentari á þess tíma mælikvarða, gat spýtt frá sér allt að 600 línum á mínútu og 48 mismunandi stöfum eða táknum. Hver lína var 132 stafir á breidd og allir stafir jafnbreiðir.[21] Það var mikil framför frá gömlu skrifurunum, sem nefndir voru „tabúlatorar“. Hann hafði það einnig fram yfir þann gamla, og raunar tölvur í mörg ár eftir það, að íslensku stafirnir voru ekki vandamál, hvorki Ð, Þ, Æ Ö og ekki heldur broddstafirnir Á eða É. Síðar komu stafirnir Í, Ó, Ú og Ý. En íslensku sérstafirnir áttu eftir að valda dálitlum vandræðum síðar eins og fram kemur í sérstökum kafla.

Ekki var sérstakt stýrikerfi í IBM 1401 fyrir vinnslu vélarinnar heldur var hvert forrit lesið úr gataspjöldum þegar átti að nota það. Því var til að mynda ekki unnt að vinna fleiri en eitt verkefni samhliða né heldur geyma verkefni í biðminni. Ef forrit klikkaði, sem gat komið fyrir í prófunum, stöðvaðist tölvan og skilaboðin „Process check“ birtust með rauðum stöfum. Þá varð að finna villuna, laga forritið, þýða upp á nýtt og prufukeyra aftur. Enda þótt minni vélarinnar væri ekki nema 4000 tölvustafir mun hún hafa dugað merkilega vel því notað var svonefnt SPS-forritunarmál (Symbolic Programming System), sem innihélt engar fjölskipanir en gerði mönnum kleift að nýta vel þetta takmarkaða minni, með því að beita ýmsum klókindum. Elías Davíðsson fann leið til að beita fjölskipunum í IBM 1401. Forrit hans var nokkurs konar „precompiler“ sem las gataspjald með fjölskipun og gataði ný spjöld með skipunum sem 1401 skildi. Spjaldadekkið sem úr því kom var svo þýtt í SPS eins og venjulega.[22]

Unnt var að vinna launakerfi, bókhald, reikninga, tölfræði og sitthvað fleira með því að nota SPS. Öll forritin voru, rétt eins og gögnin, geymd á gataspjöldum.[23]

Þessi tölva var, eins og allar fyrstu tölvurnar sem komu á vegum IBM, einungis fáanleg til leigu og allt var innifalið. Allur hugbúnaður var innifalinn í leigu vélbúnaðarins, en hann var langdýrastur. Síðar var tekinn upp sá háttur að verðleggja hugbúnað sérstaklega, eða um 1972.[24] Áskilið var að væri tölva tekin úr notkun skyldi flytja hana til baka úr landi eða farga henni, sem gat verið ærið mál og þurfti jarðýtu til að sjá um slík verk.[25]

Hjólin í rafeindareiknivél SKÝRR fóru að snúast þegar í stað því verkefnin voru næg: Fyrir lágu 27 verkefni sem áætlað var að kölluðu á 250 daga vinnu við forritun. Hjá SKÝRR störfuðu átján menn og af þeim voru aðeins þrír forritarar en þeim fjölgaði fljótlega og stjórn félagsins hafði úti öll spjót til að finna hæfa menn til þeirra starfa. Smám saman fjölgaði þeim sem kunnu til þessara verka og átta árum síðar, árið 1972, voru starfsmenn orðnir fimmtíu talsins og rauntekjur Skýrsluvéla höfðu ríflega þrefaldast. [26]

Nýyrðið tölva

Orðið tölva var ekki til haustið 1964 þótt tölvuöld hafi þá hafist á Íslandi. Framan af voru tækin yfirleitt nefnd rafreiknar eða rafmagnsheilar; einnig rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili og rafreiknir. Allt voru þetta tilraunir til að þýða orðið „computer“, því Íslendingar voru ekki á því að taka upp erlent tökuorð fyrir þetta nýja tæki.

vjelraenn.heili
Orðalagið vjelrænn heili var notað í blaðafregn árið 1949. Morgunblaðið, 17. nóvember 1949.

Orðið „rafheili“ sást fyrst í Morgunblaðinu síðla árs 1949 í grein sem bar nafnið „Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum?“[27]

Orðið „vélheili“ sást fyrst í Vísi sumarið 1946, en eins og sjá má af textanum er þar verið að tala um ákveðna vél:

„Vélheili“, eða öðru nafni algerlega sjálfvirk reiknivél, var fundin upp af Howard H. Aiken, sjóliðsforingja. Hafði hann unnið að vélinni í sex ár. Leysir hún verkefni, sem áður tók margar vikur að vinna að, á fáum klukkustundum.[28]

Orðið „rafeindaheili“ sást líklega fyrst í tímaritinu Úrvali árið 1953 í greininni „Geta Rafeindaheilarnir hugsað?“

Einn þeirra sem veltu fyrir sér íslenskun orðsins „computer“ var Páll Bergþórsson veðurfræðingur. Hann ræddi þessi nýju verkfæri í útvarpsþætti sem hann nefndi „Veðrið í vikunni“ og var fluttur 19. desember 1964, einmitt þegar nýbúið var að koma nýju vélinni fyrir í kjallara Raunvísindastofnunar vestur á Melum. Vafalaust hefur hann vitað að árið áður höfðu veðurstofumenn rennt ýmsum tölum sem vörðuðu veður í tilraunaskyni gegnum tölvuna sem Ottó Michelsen fékk lánaða til landsins og fyrr er frá sagt. Fyrst hugleiddi hann hvert væri hlutverk þessa verkfæris: 

Í stuttu máli er það að leysa verkefni og svara spurningum, sem fyrir hann eru lagðar. Næst er svo að athuga, hvort til er á íslensku nafn á hlut eins og þessum, og sé það til, á það að sjálfsögðu að ganga fyrir tilbúnum nöfnum. Það ætti að vera ein meginreglan við nafngiftir nýrra tækja.

Páll vék síðan að gamalli þulu þar sem í er þetta:

Segðu mér nú, vala mín,
það sem ég spyr þig um:
ég skal með gullinu gleðja þig
og silfrinu seðja þig,
ef þú segir mér satt,
en í eldinum brenna þig
og koppinum kæfa þig
ef þú lýgur að mér.

Þetta skýrði Páll með því að fyrr á tíð hefðu börn sett sauðarvölu á höfuð sér, farið með þessa þulu og síðan spurt spurningar, sem svara mátti með já eða nei. Svo steyptu þau völunni fram af höfðinu og niður á gólf. Kæmi kryppan upp sagði valan já, sneri hvilftin upp merkti það nei en legðist valan á hliðina vildi hún ekki svara. Síðan vék Páll að því að vafalítið væri skyldleiki með orðunum vala og völva og vitnaði um það í Völuspá. Þar með var komin sú tillaga Páls, að rafeindareiknivélarnar yrðu kallaðar vala en rafmagnsvala við hátíðleg tækifæri. Hann taldi þetta eiga býsna vel við „þá galdranorn rafeindatækninnar, sem menn leita til með erfiðastar ráðgátur nú á dögum, rafeindareiknivélina“. Ýmsum þótti þessi tillaga Páls skemmtileg, ekki síst samlíkingin við sauðarvöluna, sem svaraði ýmist með já eða nei. Tvíundarkerfið er einmitt undirstaða í tölvutækni, byggð á tölunum 1 eða 0.

Það var hins vegar Sigurður Nordal prófessor sem skaut fram afbrigðinu „tölva“ á árinu 1965 í samtali við Magnús Magnússon prófessor. Sigurður sagði að það orð væri dregið af orðunum vala og tala, en málfræðileg rök eru fyrir því að v komi inn í orðið og vísar það þá til orðsins völva, sem er af sama uppruna.

Menn í Háskólanum voru á báðum áttum og notuðu flestir áfram um sinn orð eins og rafeindareiknivél, rafreiknir og reikniheili. Einn maður hafði þó gripið orðið á lofti og rak harðan áróður fyrir því. Það var Þorsteinn Sæmundsson, ritstjóri Almanaks Háskólans. Í fyrstunni varð honum lítið ágengt meðal þeirra sem unnu við hin nýju tæki, en svo varð almanakið fyrir 1967 fyrsta verkefni rafeindareiknis Háskólans og fékk verknúmerið H0001.[29] Það var prentað og kom út á árinu 1966, og á blaðsíðu 40 greinir ritstjórinn frá því að tölva hafi í fyrsta sinn verið notuð við útreikning almanaksins, en til öryggis hafði hann þó orðið rafeindareiknir innan sviga. Eftir það fékk orðið góðan byr og náði fótfestu óvenjufljótt, af nýyrði að vera. Það er ekki síst þakkað Þorsteini en hann hefur sagt að sú virðing sem Sigurður Nordal naut hafi átt drjúgan þátt í því að menn tóku að nota orðið enda hafi hann óspart beitt nafni Sigurðar fyrir sig í áróðrinum fyrir orðinu.[30]

Tæknin í upphafi: Hraðfleyg þróun

Frá gataspjöldum til seguldiska

Íslendingar fikruðu sig inn á tölvuöld innan við tveimur áratugum eftir að fyrsta frumstæða útvarpslampatölvan var ræst. Það kann að virðast fljótt, en þeir sem tóku þátt í brautryðjendastarfinu benda á að við höfum í rauninni verið sein til að slást í hópinn. Báðar tölvurnar sem komu í upphafi til Háskólans og SKÝRR árið 1964 komu á markað 1960 og voru því orðnar nokkuð úreltar. Næsta kynslóð tölva var komin á markaðinn um það leyti sem Íslendingar voru að gangsetja sínar fyrstu tölvur af eldri kynslóðinni. Að vísu átti SKÝRR-tölvan að koma fyrr en kaupunum var frestað vegna þess að húsið við Háaleitisbraut var ekki tilbúið.

Stjórn SKÝRR tók fljótlega að huga að næsta skrefi og í ágúst 1967 var pöntuð ný tölvusamstæða til að taka við af IBM 1401, en þá voru IBM 360-tölvurnar komnar til sögunnar. Í fyrstunni var hugmyndin að taka afbrigði af þeirri vél sem einungis ynni með spjöld og talið að minnisstærð 8 kB myndi nægja, tvöfalt meira minni en í þeirri vél sem fyrst var tekin í notkun. En í desember, þegar pöntunin var staðfest, hafði hún tekið talsverðum breytingum, og fyrir valinu varð IBM 360/30, sem hafði 16 kB minniseiningu með tveimur diskastöðvum (IBM 2311), segulbandsstöðvum, pappírsræmulesara (IBM 2671) og fleiru. Vélin átti einnig að geta keyrt óbreytt 1401-forrit.

fyrstu.seguldiskar.skyrr
Fyrstu seguldiskar SKÝRR. Laus diskur sést ofan á samstæðunni á neðri myndinni. Þjóðviljinn 29.09.1968

Fljótlega var farið að undirbúa komu hinnar nýju tölvu og starfsfólk Skýrsluvéla fékk meðal annars námskeið fyrir forritara og „operatöra“, eða tölvara eins og starfið var nefnt síðar. Vélin kom til landsins haustið 1968 og var tekin í notkun 1. október. Hún var notuð í tæp þrjú ár en fljótlega kom í ljós að 16 kB minni var bagalega lítið og 1970 var það stækkað í 32 kB. Vinnubrögð breyttust talsvert á þeim tíma sem 360/30-vélin var í notkun og meðal annars var farið að færa skrárnar yfir á segulbönd. Sú færsla, sem var áður tímafrek nákvæmnisvinna í hjálparvélum, var nú unnin í tölvunni sjálfri. Farið var að varðveita hugbúnaðinn á seguldiskum þar sem tölvan gat nálgast forrit á augabragði, og flýtti það gangsetningu verka.

Eftir sem áður voru inntaksgögn skráð á gataspjöld og frá 1969 einnig á gatastrimla að hluta, en lesari fyrir gatastrimla var tekinn í notkun í byrjun þess árs.

Gataspjöld með 80 táknum

Skýrsluvélarnar, sem voru forverar tölvanna (UR-vélar), voru ekki forritunarlegar en var stýrt af töflum og öll gögn þeirra á gataspjöldum. Gataspjaldið var á stærð við dollaraseðil við upphaf 20. aldar og hafði tólf láréttar raðir og áttatíu lóðrétta dálka. Þannig rúmuðust áttatíu bókstafir, tölustafir og tákn í hverju spjaldi. Í upphafi tölvuvinnslu á Íslandi voru einnig öll forrit skráð á gataspjöld og geymd þannig. Þrátt fyrir tilkomu segulbanda og seguldiska voru gataspjöldin í notkun vel fram á áttunda áratuginn.

gataspjald1
Lýsing á heiti raða og því hvernig bókstafir, tölvur og tákn voru geymd á gataspjaldi.

Spjöldin voru skráð í skráningarvélum, sem nefndust gatarar. Skráningarfólkið var langoftast stúlkur og nefndust þær götunarstúlkur. Þær voru margar og mikilvægar, því að götun var upphafsliður í gagnavinnslunni og götunin var mikil nákvæmnisvinna.

0.gataspjald
Gataspjald

Gataspjöldin gátu mest geymt áttatíu stafi og olli það oft vandræðum. Til dæmis var ekki hægt að skrá í þjóðskrá nöfn sem voru lengri en þrjátíu stafir og ekki var bætt úr því fyrr en komið var fram á þessa öld. Notendur gerðu þó ýmislegt til að ráða bót á plássleysinu og til dæmis má nefna að þegar Loftleiðir fluttu höfuðskrár sínar af spjöldum á seguldiska var starfsfólk á söluskrifstofum ekki ánægt því það hafði skrifað á spjöldin ýmsar gagnlegar upplýsingar um farþegana sem ekki var gert ráð fyrir í diskaskránum.

Skýrslugerðarvélar gátu lesið götin á meðan spjöldin runnu undir svokallaða bursta, sem þreifuðu á götunum. Vélarnar voru margs konar en hjá IBM voru þessar helstar:

  • Gatari (card punch)
  • Endurgatari (verifier)
  • Raðari (sorter)
  • Samraðari (collator) kallaður „collator“
  • Áritari (interpreter)
  • Summugatari (reproducer)
  • Kalkúlator/reiknivél (calculator)
  • Skýrslugerðarvél (tabulator) kölluð „tabbi“
029.endurgatari
IBM IBM029-gatari/endurgatari
082.radari
IBM 082-raðari
087.samradari
IBM 087-samraðari
0.552.aritari
IBM 552-áritari
0.519.summugatari
IBM 519-summugatari
0.602.reiknivel
IBM 602-reiknivél

Gatarar IBM voru einkum tvenns konar: 024 annars vegar og hins vegar 026, sem gat áritað, það er prentað innihald efst á spjaldið. Það var tiltölulega auðvelt að lesa tölustafi (1 gat), en snúnara að lesa bókstafi (2–3 göt) út úr götunum. Það gat komið sér vel að hafa spjaldið áritað, en áritandi gatari var dýrari en hinn.

Endurgatari (IBM 029) las gataspjald og bar saman við það sem skráð var. Kæmi villa mátti reyna aftur, en ef það sem skráð var passaði ekki í tvígang þá kom hak í spjaldið beint fyrir ofan dálkinn sem villan var í. Fyndist villa varð að endurgera (dúplísera) spjaldið.

Raðarar voru nauðsynlegir til að flokka spjöldin og koma þeim í rétta röð. Raðari las spjöld og flokkaði þau í þrettán mismunandi vasa (stackers). Spjaldabunki sem átti að raða var settur í „fídið“ (the feed), það er kjaftinn, stillt á aftasta dálk svæðisins sem raða átti, og spjöldunum rennt í gegn. Spjöldin voru hirt úr vösunum í réttri röð, stillt á næstaftasta dálk og rennt aftur í gegn og svo koll af kolli, þar til endað var á fyrsta dálki svæðisins. Það var afar mikilvægt að gera ekki „lúkufeil“ því það gat kostað umröðun á öllu slenginu (spjaldabunkanum).
Til að raða stórum skrám, til dæmis yfir 10.000 spjöldum, var byrjað á að „blokka“ spjöldin með því að raða öllu slenginu eftir fyrsta staf og raða síðan einum bunka í einu. Áki Pétursson stærðfræðingur og skákmaður var snillingur í að raða og aðrir lærðu handtökin af honum.

Samraðari (IBM 087 collator) gat lesið tvær skrár í einu og raðað þeim saman (merging) eða borið saman (matching). Hann hafði tvo kjafta og fjóra vasa. Stundum var færsluspjöldum raðað saman við viðskiptamannaskrá til undirbúnings við að prenta út reikninga eða skuldalista, enda spjöldin öll í röð á viðskiptanúmer. Spjöldin urðu að vera í réttri röð, annars stöðvaðist samraðarinn með rauðu ljósi. Eins mátti raða færsluspjöldum saman við vöruskrá til að prenta sölulista með heiti og verði vöru.
Samraðarinn hafði litla töflu sem hægt var að stýra honum með.

Áritari(IBM 552 card interpreter) las spjöld og prentaði innihaldið efst á spjaldið. Það þurfti ekki ef gatað var í IBM 026-gatara. Tengitaflan var afar einföld.

Summugatarinn (IBM 519) gat lesið inntak, til dæmis vörumaster, og gatað upplýsingar á borð við verð í færsluspjöld sem fylgdu á eftir. Það var gert til að undirbúa útreikning í kalkúlator. Einnig gat summugatarinn tengst tabúlator og gatað samtalstölur í spjöld eftir að „tabbinn“ var búinn að leggja saman per viðskipta- eða vörunúmer, eða raunar hvaða númer sem var.

Reiknivélin (IBM 602 calculator) gat lesið svæði í spjaldinu, reiknað útkomu og gatað annars staðar í spjaldið. Kalkúlatorinn skipti sér ekkert af röð spjaldanna. Tengitaflan var sömu gerðar og summugatarinn, en flóknari.

Skýrsluprentarinn (IBM 407 tabulator) var langstærsta og merkilegasta vélin. Hann las spjöld og prentaði út um leið. Ef hvert spjald var prentað var talað um að „lista“ spjöldin, einnig voru prentaðar summutölur. Þegar prentaðir voru til dæmis reikningar, þá prentaðist hausinn úr nafnspjaldinu (viðskiptamaster), hver lína úr færsluspjöldunum og summan neðst úr tabbanum sjálfum. Þá rumdi gjarnan í summugataranum, ef hann var tengdur tabbanum.   

0.407.skyrsluprentari
IBM 407-skýrsluprentari

Skýrsluprentaranum var stýrt með tengitöflu sem var um hálfur metri á kant. Götin í töflunni skiptust í „entry“ og „exit“. Þessu má líkja við það að styðja á hnapp. Straumur sem kom út úr „exit“-inu samsvarar fingrinum en „entry“-ið sem tók við straumnum samsvarar hnappi sem tekur við skipun. Skipunin gat verið ýmiss konar: leggðu saman, dragðu frá, prentaðu summu, hlauptu yfir á nýtt blað og svo framvegis. Úr „exit“-inu komu straumar úr götum gataspjaldanna, en einnig ef vélin fann að nú kom nýtt númer. Númerin urðu að vera í réttri röð og voru á nokkrum stigum, minor, inter, major og final. Tengitöflurnar mátti skipta um eftir verkefnum og á Klapparstíg 25–27 í Skýrsluvinnslu Ottós Michelsen var til dæmis skápur sem tók um þrjátíu töflur og náði frá gólfi til lofts.

Með komu tölvanna var hætt að nota reiknivélina og skýrslugerðarvélina og þegar segulbönd og síðar seguldiskar komu til sögunnar var ekki lengur þörf fyrir raðara, samraðara og summugatara.

Fyrstu tölvurnar (IBM 1401 og IBM 1620) unnu í upphafi eingöngu með gataspjöld. IBM 1401 gat lesið spjöld í spjaldalesara (feed) og gatað út ný spjöld í spjaldagatara.  IBM 1620 tengdist mjög fljótlega seguldiskum. Forrit á eigin táknmáli voru götuð og keyrð í gegnum „þýðara“, sem þýddi yfir á vélamál, sem tölvan skildi. Nokkurra hundraða gataspjalda forrit (source deck) gat komist fyrir á fáeinum gataspjöldum þegar tölvan hafði sett það yfir á vélamál (object deck). Forritið var sett í spjaldamatara (fídið) á undan gagnaspjöldunum og stutt var á „load“-hnappinn. Þá las tölvan inn forritið og keyrði það, tók svo við stjórninni og las spjaldabunkann eftir kúnstarinnar reglum. Þar sem ekkert stýrikerfi var í IBM 1401 og 1620 kviknaði rauða „process check“-ljósið og vinnslan stöðvaðist ef forritið klikkaði. Því var um að gera að prófa forritin rækilega.[31]

Segulbönd og disklingar – hraðinn eykst

Með tilkomu næstu IBM-tölvukynslóðar, IBM 360/xx, voru segulbandastöðvar teknar í notkun. Þá las ein stöðin forritið, en hinar gögnin. Allt gerðist hraðar eins og gefur að skilja. Segulbönd mátti lesa og rita á margfalt hraðar en gataspjöld og langtum minna fór fyrir þeim. Þau buðu hins vegar eingöngu upp á „runuaðgang“ (sequential access). Til að hægt væri að raða gögnum þurftu segulbandastöðvarnar að vera minnst fjórar. Röðun gat verið tímafrek, en gerðist að mestu sjálfkrafa, það er án þess að mannshönd kæmi nærri.

Þegar seguldiskar voru tengdir tölvunum varð gífurleg framför. Þeir voru mun hraðari en segulböndin og buðu auk þess upp á „beinan aðgang“ (direct access) og lyklaðar skrár sem flýtti fyrir og kom sér vel við alls konar vinnslu. Diskar gátu verið ýmist lausir (removable) eða fastir.

Forrit mátti einnig geyma á seguldiskum, jafnvel forritshluta. Minni tölvu (core storage) var kallað „innra minni“ en seguldiskar og -bönd „ytra minni“. Vel fór á að hafa bæði segulbönd og diska; þessi tæki unnu vel saman.[32]

Árið 1973 var loks tekið í gagnið skráningartæki fyrir disklinga af gerðinni IBM 3742 og var það fyrir átta tommu disklinga. Eftir það fór að draga úr notkun gataspjaldanna sem inntaksmiðils. Viðamesta verkefnið sem enn byggðist á gataspjöldum árið 1973 var úrvinnsla mikillar mergðar fylgispjalda með skeytum og langlínusamtölum fyrir Landssímann, sem raða þurfti og undirbúa í hjálparvélum. Um þær mundir var þó unnið að því að breyta þessari vinnslutilhögun og leysa gataspjöldin af hólmi með nýrri tækni.[33]

Tölvur sem taka ekki meira rými en þrjú skrifborð

Til marks um hina hröðu tækniþróun í upphafi tölvualdar á Íslandi er að sama haust og tölvurnar tvær komu til Íslands kallaði Ottó Michelsen blaðamenn til fundar til að skýra frá því nýjasta á þessu sviði. Þá var IBM 360 þegar kominn fram og með honum varð stórbylting í þróun tölva, sem átti að gera minni fyrirtækjum kleift að taka þær í sína þjónustu. IBM 360 var raunar heiti á nokkrum tölvum sem komu á næstu árum og leystu hver aðra af hólmi.

Markvert þótti blaðamanni Vísis að tæknimenn IBM sögðu allt stefna í að tölvur (rafreiknar) framtíðarinnar yrðu ekki stærri en mannsheilinn en sú nýja kynslóð tölva sem var verið að kynna var þó ekki komin svo langt. Tækið var þó talsvert minna en tölvurnar tvær sem áður voru komnar voru til landsins og tók ekki meira rými en þrjú meðalskrifborð. Með þeirri vél mátti að sögn tæknimannanna vinna verkefni á borð við bókhald, reikningsyfirlit, viðskiptamannabókhald, söluskýrslur, útreikning vaxta og iðgjalda og ýmsa tölfræði, jafnvel vísindalegar rannsóknir, líkt og þá var þegar gert í tölvu Háskólans. Ein af skýringunum á því að vélin hafði minnkað svona, og minnkaði fljótlega enn meira, var transistorinn, sem hlaut íslenska heitið smári og ruddi sér mjög til rúms á þessum árum. Hann var þá þegar svo smár að hundruð eða jafnvel þúsundir þeirra komust fyrir í einni fingurbjörg. Þetta var náttúrulega gríðarleg breyting ef litið var til útvarpslampanna sem áður voru notaðir og þurftu heilu vélasalina. [34]

Frá vélabókhaldi til tölvuforrita – og nokkur orð um spjaldamokara

Auk Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar voru nokkur fyrirtæki með gataspjaldakerfi og ber þar að nefna Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS), Landsbanka Íslands, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsöluna, Loftleiðir, Búnaðarbankann og Verslunarbankann. Öll unnu þau að eigin verkefnum.

Það var því nokkur nýlunda þegar Skýrsluvinnsla Ottós A. Michelsen tók að bjóða fyrirtækjum úrvinnslu á bókhaldi árið 1963. Fram að því hafði slík starfsemi einungis farið fram hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurbæjar, sem sinnti einvörðungu opinberum fyrirtækjum.

Ottó reið þó ekki feitum hesti frá þeirri starfsemi því rekstur af þessu tagi var á ýmsan hátt erfiður með þeirri tækni sem þá var notuð. Þótt úrvinnslan í gataspjaldavélunum væri vélræn voru vélarnar mataðar handvirkt á upplýsingunum. Minnsta yfirsjón við það starf olli villum í niðurstöðum, sem erfitt gat verið að skilja og leiðrétta, og síðan þurfti að endurtaka vinnsluna. Stundum voru þeir sem mötuðu vélarnar kallaðir „spjaldamokarar“.[35] Algengt var að vinnsla bókhalds fyrir meðalstórt fyrirtæki tæki tvo til fjóra daga og endurtekin vinnsla þýddi að sjálfsögðu töf á því að niðurstöðum væri skilað. Einnig voru vélarbilanir tíðar og tafsamt gat verið að finna þær og gera við. Það gat eðlilega valdið megnri óánægju meðal launafólks þegar útborgun dróst af þessum sökum. Ýmsar sögur eru til af því, þeirra á meðal af flökurunum hjá Sænska frystihúsinu, sem hótuðu því að koma með hnífana fengju þeir ekki borgað.

Það varð úr að IBM yfirtók rekstur Skýrsluvinnslunnar og ýmsa fleiri þætti rekstrar Ottós árið 1967. Þegar SKÝRR fékk nýju tölvuna, System 360/30, var til ráðstöfunar gamla 1401-tölvan sem hafði komið haustið 1964. Sú vélasamstæða samanstóð af spjaldlesara, stjórntölvu, minniseiningu og prentara. Þar eð ekki varð séð að nein verkefni væru fyrir hana nema hjá Skýrsluvinnslunni ákváðu Ottó og hans menn að taka hana í notkun þar. Þeir gerðu það í stað þess að farga þessari aflóga tölvu ellegar senda hana til útlanda. En í ljós kom að hjá hinu alþjóðlega tölvufyrirtæki var ekki til þess ætlast að þannig væri staðið að málum.

Svo var litið á að útibúið á Íslandi hefði í heimildarleysti farið í fjárfestingu. Málið þvældist milli IBM í Danmörku og aðalstöðvanna í París með tilheyrandi skriffinnsku: útreikningar voru gerðir og skýrslur samdar og á endanum var skrifuð löng „réttlætingar- og nauðsynleikagreinargerð“. En á meðan þessu fór fram settu Íslendingarnir búnaðinn upp eins og ekkert hefði í skorist og tóku hann í notkun, og gamla tölvan þjónaði hlutverki sínu dyggilega árum saman. Einhver mun þó hafa fengið skömm í hattinn og Danirnir nöldruðu um „óviðeigandi hátterni“ og að farið hefði verið á svig við það regluverk sem vinna hefði átt eftir. Nokkrum mánuðum síðar kom þó heimild fyrir fjárfestingunni.

Tölva af næstu kynslóð, System 360 Model 20, leysti þessa gömlu tölvu af hólmi nokkrum árum síðar og fljótlega var bætt við diskum og segulböndum, þegar þau komu til sögunnar. Nýjar kynslóðir 360-tölvanna komu svo hver eftir aðra, og var hver þeirra öflugri en sú fyrri.[36]

Flest þeirra fyrirtækja sem voru með gataspjaldakerfi, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsalan, Loftleiðir hf., Samband íslenskra samvinnufélaga og Landsbanki Íslands, fengu árið 1967 tölvur af gerðinni IBM 360/20 og voru tölvur í landinu þá orðnar átta talsins. Eðli verkefnanna breyttist þó lítið því áfram voru notuð gataspjöld, en segulbönd og síðar seguldiskar urðu allsráðandi geymsluform.

Vandi hjá SKÝRR – misst af verulegum tekjufjárhæðum

Þótt ný og öflug tölva væri tekin í notkun hjá Skýrsluvélum haustið 1968 leysti það í sjálfu sér ekki öll fyrri vandamál. Ný vandamál komu í ljós og tók langan tíma og fyrirhöfn að leysa þau.

Grundvallarvandinn lá í skipulagningu verka og „gerð forskrifta“ eins og það er haft í fundargjörð stjórnar Skýrsluvéla 1969, og líklega var átt við að vandinn lægi í forritun. Þeim vanda höfðu menn ýtt á undan sér um hríð óleystum og leiddi af sér að ekki hafði tekist að anna þeim verkefnum sem lágu fyrir, og hægt var „að finna stað með greinilegum dæmum, að þetta ástand hefur orðið til þess að fyrirtækið hefur um skeið misst af verulegum tekjufjárhæðum,“ eins og segir í fundargjörðinni.

365 Skýrsluvélar ríkisins 6
Starfsfólk SKÝRR að vinna að ýmsum verkefnum 1976. Ljósmyndari: Loftur Ásgeirsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sú skýring sem Óttar Kjartansson, höfundur Sögu SKÝRR, gefur á þessum vandræðagangi í bók sinni er að sambúð stjórnar og forstjóra hafi verið stirð um þessar mundir. Víst er að Óttar hafði góða innsýn í innri málefni stofnunarinnar því hann gegndi þar sjálfur ábyrgðarstörfum.

Stjórnin virðist hafa á tímabili hugleitt að gera forstjórann, Bjarna P. Jónasson, að eins konar tæknilegum yfirmanni eða forstjóra en „losa hann undan“ hinni almennu yfirstjórn, en hann óskaði sjálfur eftir leyfi frá störfum í eitt ár frá 1. apríl 1971. Þremur mönnum var falin stjórn fyrirtækisins, Jóni Zóphoníassyni, Hjörleifi Hjörleifssyni og Óttari Kjartanssyni. Jón og Óttar tóku að sér stjórn skipulagningar og forritunar en Hjörleifur varð fulltrúi stjórnarinnar við daglegan rekstur. Í raun var Skýrsluvélum ríkisins skipt upp í deildir með þessu, þannig að kerfishönnun og forritun voru unnin í eigin deild, rétt eins og Hjörleifur hafði stungið upp á. [37]

Í júlí 1972 var doktor Oddur Benediktsson ráðinn til starfa hjá Skýrsluvélum sem ráðunautur stjórnarinnar og til að sinna ákveðnum verkefnum. Þar á meðal var honum ætlað „að gera grein fyrir fyrirkomulagi og afstöðu til Háskóla Íslands varðandi hugsanlegt samband um APL fjarvinnslukerfi og reyna að koma í gang notkunarbókhaldi fyrir tölvuna, þ.e. „Job Accounting““. Eitt af fyrstu verkum Odds var að kanna, ásamt deildarstjóra vinnsludeildar, hagkvæmni þess að skrá inntaksgögn á disklinga í stað gataspjalda, en sú tækni var þá nýlunda. Niðurstaðan varð sú að tekið skyldi á leigu „IBM 3742-skráningatæki“ (IBM 3742 Dual Data Station) en jafnframt að kannaðir skyldu möguleikar á að fá sambærileg tæki frá öðrum en IBM. Þetta sætti nokkrum tíðindum og boðaði breytingar, því ítök IBM á þessum markaði höfðu verið algjör fram að því. Snemma árs 1971 hafði verið pöntuð ný tölva, IBM 370/135 með 96 kB minni, með fjórum bandstöðvum og þremur diskastöðvum. Afgreiðslutíminn var hins vegar áætlaður tvö ár og því ekki von á gripnum fyrr en í byrjun árs 1973. [38]

Árið 1972 voru liðin tuttugu ár frá stofnun SKÝRR og var þess minnst með veglegum hátíðarhöldum 2. júní. Hjörleifur Hjörleifsson stjórnarformaður ritaði af því tilefni grein sem birtist í Morgunblaðinu og lauk á hugleiðingum hans um framtíð Skýrsluvéla og gagnavinnslu á Íslandi, sem telja verður að séu athyglisverðar í ljósi þeirrar þróunar í tölvutækni sem orðið hefur á þeim fjórum áratugum sem síðan eru liðnir:

Eftir aðstæðum hér á landi, má teljast óhjákvæmilegt að SKÝRR hafi forgöngu um það að skapa aðstöðu til þess að nútímakröfum varðandi tölvutækni verði fullnægt, þ.e.a.s. að málum verði þannig hagað, að nægilega stór tæki séu fyrir hendi, að minnsta kosti á einum stað, til þess að leysa úr öllum þeim verkefnum, sem þessu tæknisviði henta með nútíma tækjum. Því er ekki að neita, að við hér höfum dregizt afturúr í hagnýtingu tækninnar, og fyrirsjáanlegt er að breytingar muni verða á næstu árum.[39]

Hjörleifur benti einnig á að fjarvinnsla hefði rutt sér til rúms erlendis og varla myndi dragast að slík vinnubrögð yrðu tekin upp hér. Síðan minntist hann á að athugun á vegum póst- og símamálasambandsins í Evrópu á fjarvinnsluþörf í álfunni benti til þess að eftir 12–15 ár yrði fjarvinnsla á þessu sviði jafnalgeng og talsímanotkun. Ný tæki voru einmitt væntanleg til Skýrsluvéla en stjórnarformaðurinn minnist ekki á það í grein sinni. Þó kemur fram í að minnsta kosti tveimur dagblöðum að þáverandi vél sé orðin of lítil og von á stærri vél, af gerðinni 370/136, sem var þrefalt stærri en sú gamla og hafði sexfalt meira geymslurými.[40]

Blaðamönnum var boðið að heimsækja SKÝRR í tilefni afmælisins. Í umfjöllun blaðanna kom meðal annars fram að fimmtíu starfsmenn ynnu þar störf um 800 manna, sem þörf hefði verið á ef ekki hefði verið sá vélakostur sem stofnunin hafði til umráða. Þar eru einnig nefnd helstu verkefni stofnunarinnar: þjóðskrá, skattskrá og launaútreikningar. Vinnsluhraðinn vakti athygli blaðamannanna; vélin var 52 sekúndur að skrifa 1100 línur með 132 stöfum í hverri, sem eru nærri 150 þúsund stafir. Sagt var frá því að upplýsingar um viðskiptavini stofnunarinnar væru geymdar á 800 segulbandspólum og sem dæmi um hve fljótlegt væri að sækja upplýsingarnar var nefnt að þennan dag hefðu borist 700 greiðslur til Gjaldheimtunnar og það hefði tekið vélarnar sex mínútur að finna þær úr samtals 70 þúsund greiðslum, og færa þær inn.[41]

Stækkandi minni – fjarvinnsla hefst

Verkefnum SKÝRR fjölgaði mjög eftir tilkomu segulbanda- og diskastöðvanna og starfsemin byggðist að nokkru leyti á vinnslu fyrir Þjóðskrá, þar á meðal kjörskrá, auk vinnslu á skattframtölum og innheimtu fyrir ýmsar opinberar stofnanir, þar á meðal rafmagns- og vatnsveitur, síma og Ríkisútvarpið. Til að hafa undan varð starfsfólk SKÝRR að hafa hraðar hendur við tæknilega framþróun fyrirtækisins.[42]

Tölvan sem beðið hafði verið í tvö ár kom loks snemma árs 1973. Hún var búin fjórum bandastöðvum og þremur diskastöðvum en bilaði mikið fyrstu mánuðina. Talið var að minni hennar hefði verið í knappara lagi miðað við þau verkefni sem henni voru ætluð en þá var hafin svonefnd samhliðakeyrsla, farið að setja prentun inn á biðskrá og keyra notkunarskrá, að ógleymdri fjarvinnslunni, sem þá var hafin. Reynt var að bæta þetta með því að auka minni vélarinnar, fyrst í 240 kB seint á árinu. Það bætti úr skák en dugði þó skammt og í ársbyrjun 1974 var minnið enn stækkað, þá í 384 kB.[43]

Það var orðið ljóst þegar árið 1974 að nýja vélin myndi ekki duga til frambúðar og farið var að huga að næsta skrefi. Forstjórinn lagði fram tillögur um vélakaup í janúar 1975 þar sem gert var ráð fyrir að innan tveggja ára yrði bætt við einni tölvu, IBM 370/145, svo Skýrsluvélar yrðu með tvær samtengdar vélasamstæður. Þær átti að keyra næstu þrjú árin með einu aðalstjórnkerfi fyrir runuvinnslu og fjarvinnslu. Nýja vélin var tekin í notkun í mars 1976, sú stærsta fram að því, minni hennar var 786 kB. Þessum tveimur tölvum voru síðan tengdar sjö diskastöðvar, sex bandastöðvar, tveir prentarar, stýritæki, stjórnskjáir og fleira.[44]

Árið 1973 var stigið það mikilvæga skref að tengja saman í fjarvinnslu þær tvær stofnanir sem rutt höfðu brautina í tölvuvinnslu á Íslandi, Háskóla Íslands og SKÝRR. Þessi fyrsta tenging var með svonefndu APL/360-sambandi en það byggðist á forritunarmáli sem þróað hafði verið á sjöunda áratugnum. Það mun hafa verið fyrsta fjölnotakerfið sem hingað barst, sniðið fyrir vísinda- og stærðfræðileg viðfangsefni og notað af nemendum og kennurum Háskólans. Það var ekki vandalaust að keyra fjarvinnsluna því kerfið olli miklu álagi á tiltölulega litla vél SKÝRR. Tengingin við Háskólann var ekki notuð nema í þrjú ár og var oft brösótt. Um sama leyti var komið á tengingu við gjaldkerakerfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík, sem gekk betur, og hún var rekin óslitið þar til Gjaldheimtan var lögð niður, í árslok 1997. [45]

Borgarspítalinn í Reykjavík tengdist SKÝRR árið 1974. Vinnslan fór fram með runuvinnslu sem keyrð var á kvöldin og olli því minna álagi en ella. Þetta kerfi var notað í fjögur ár, eða þar til spítalinn fékk sitt eigið tölvukerfi. Árið 1978 var komin sívinnslu-/fjarvinnslutenging við Borgarspítalann, Háskóla Íslands, Bifreiðaeftirlit ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands en önnur verkefni SKÝRR voru launa- og bókhaldsvinnsla fyrir ríkið og Reykjavíkurborg og umfangsmikil vinnsla fyrir Póst og síma, meðal annars reikningaskrift og orlofsvinnsla, einnig Þjóðskrá, rafmagnsreikningar og margs konar vinnsla fyrir skattyfirvöld.[46]

Tölvuviðgerðir í stað lyfjafræði

Haustið 1956 hófu fjórir ungir menn fornám í lyfjafræði, sem var á vegum lyfsala á Íslandi og var að hluta starfsnám í apótekum. Sama haust hófst kennsla í þeim fræðum í Háskóla Íslands án þess að þessir lyfjafræðinemar hefðu frétt af því, en lyfsalarnir drógu fram eftir haustinu að gera við þá námssamning. Einn þessara fjórmenninga var Jóhann Gunnarsson og hann ákvað að hætta við þetta nám en settist þess í stað í heimspekideild Háskólans og hóf nám í ensku og eðlisfræði og hugðist verða kennari.

Árið 1959 auglýsti Ottó Michelsen eftir tæknimanni og þar sem Jóhann hafði þá stofnað fjölskyldu ákvað hann að sækja um starfið, og fékk það. Ottó og hans menn voru raunar tregir til að taka „svona strák, sem hafði enga reynslu“, eins og hann orðar það sjálfur, þeir vildu fá rafvirkja eða einhvern slíkan. En Jóhann kannaðist við Ottó og bauð honum og Jóni Óttarri Ólafssyni, aðstoðarmanni hans, heim og tókst að sannfæra þá, sýndi þeim meðal annars útvarpsviðtæki og fleira af slíkum toga sem hann hafði sett saman.

365 Skýrsluvélar ríkisins 1
Október 1964, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, SKÝRR. Starfsmenn IBM vinna við að setja upp fyrsta rafeindaheilann sem kemur til Íslands, IBM-1401 hjá SKÝRR. Bjarni P Jónasson forstjóri SKÝRR og Jóhann Gunnarsson við heilann. Ljósmynd: Vísir. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sumarið eftir sendi Ottó hann í skóla hjá IBM í Þýskalandi, eins og hann tíðkaði alla tíð þegar hann réð ungt fólk til starfa, og þar var Jóhann í hálft ár. Svo komu fyrstu tölvurnar til Íslands haustið 1964 og ungir verkfræðingar sem höfðu kynnst þessari nýju undratækni komu heim frá námi, hver af öðrum: Oddur Benediktsson kom með doktorspróf frá Bandaríkjunum, einnig Björn Kristinsson prófessor, Ragnar Ingimarsson, Magnús Magnússon og Helgi Sigvaldason.

Jóhann Gunnarsson rifjar það upp rúmlega hálfri öld síðar að þeir sem unnu við að koma fyrstu vélinni fyrir í kjallara nýbyggingar Raunvísindadeildar vestur á Melum hafi verið hálfhræddir um að þetta gengi ekki, kjallarinn var frekar hrár, þótt hann héldi veðri og vindum. Ýmis vandamál fóru að hrjá vélina, hún átti það til að bila á dularfullan hátt og tók talsverðan tíma að komast að því hvað var að. Einn, ef ekki tveir sérfræðingar voru fengnir að utan til þess að líta á þetta og annar þeirra skrifaði skýrslu um ferðina, þar sem hann kenndi því meðal annars um að tölvan hefði verið sett þarna í kjallara ófullgerðrar byggingar. Svo kom í ljós að þetta var vegna galla í framleiðslu.

Rafeindabúnaðurinn á þessum tölvum var á spjöldum, sem voru heldur stærri en venjuleg spil, og þeim var stungið inn í grindur. Bak við grindurnar voru pinnar og svo voru þræðir, einangraðir vírar, vafðir utan um pinnana og lágu upp og niður, framhjá öðrum pinnum. Þetta var þrætt í vélum í verksmiðjunni og í ljós kom að vírarnir voru of fast dregnir utan um pinnana og þar sem vír fór í vinkil utan um tiltekinn pinna gat hann rofið einangrunina og þá gaf hann samband inn á vitlausan stað. Þetta fór jafnvel eftir veðri eða hitastigi eða einhverju svoleiðis og var óskaplega erfitt að eiga við. En svo fannst út úr því á endanum hvar þetta lá og það var skipt út einhverjum vírum og þetta var lagað, og var alls ekki byggingunni að kenna.[47]

Jóhann kynntist báðum tölvunum í öndverðu, aðallega þó tölvu Skýrsluvéla:

Þessar gömlu tölvur voru ekki flóknari tæknilega en það að maður þurfti aðallega að þekkja elektróníkina, hún var dálítið sundurlaus og hana þurfti að þekkja út í hörgul. Ég lærði aldrei formlega á Háskólatölvuna heldur á hina, sem kom á Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Þær voru ekki eins en það líkar að maður gat áttað sig á þessu. Það var félagi minn sem lærði á Háskólatölvuna en ég þurfti oft að vera með honum í henni, þegar þetta vesen var, og skildi það nógu vel til að það var ekki mikið mál. Þegar maður kunni á aðra þá var þetta ekki svo ólíkt.

Jóhann Gunnarsson vann hjá IBM í 23 ár, fram til 1982, og upplifði gríðarlegar breytingar á tölvutækninni. Frá IBM fór hann til Reiknistofu Háskólans, var forstöðumaður þar í eitt ár og nefndur framkvæmdastjóri í önnur fjögur. Á þessum árum blandaði hann sér talsvert í staðlamál sem tengdust tölvutækni og staðall fyrir íslensk tákn í stýrikerfum einmenningstölva er meðal annars við hann kenndur, nefndur „JG-staðall“, eins og sagt er frá í sérkafla.

Reiknistofa bankanna

Eitt af áhrifamestu afsprengjum tölvutækninnar, sem fór þó hljótt um, er Reiknistofa bankanna. Í nóvember 1970, þegar ekki voru liðin nema sex ár frá því tvær fyrstu tölvur landsins voru ræstar, vestur í Háskóla og á Háaleitisbrautinni, var farið var að ræða í fullri alvöru um stofnun sameiginlegrar reiknimiðstöðvar fyrir íslensku bankana, eins og það var orðað.[48] Ákveðið var að skipa svonefnda „rafreikninefnd“ til að athuga málið og hún skilaði stjórnum bankanna greinargerð tæpu ári síðar. Eftir það var skipuð ný nefnd til að undirbúa stofnun reiknimiðstöðvarinnar. Í henni voru bankastjórarnir Helgi Bergs, Jóhannes Nordal, Jónas Rafnar og Stefán Hilmarsson en þeir fengu sér til aðstoðar dr. Guðmund Guðmundsson hjá Seðlabankanum, Ólaf Rósmundsson hjá Landsbankanum og Þórð Sigurðsson hjá Búnaðarbankanum. Lýst var eftir tilboðum um vélbúnað, sem leiddi til þess að vélar tveggja tölvuframleiðenda þóttu koma til greina, frá IBM og Burroughs. Tilboðinu frá IBM var tekið og leigusamningur undirritaður um IBM-tölvu 370/135 148 kB, tvo OCR-B lesara, 100 MB diska (3330), segulbandastöðvar (80 kB, 3420), 80 og 96 dálka spjaldalesara og prentara sem gat skrifað allt að 2000 línur/mín. Þann 23. mars 1973 voru kjörnir í fyrstu stjórn Reiknistofu bankanna, eins og ákveðið var að hún yrði nefnd, bankastjórarnir Helgi Bergs, Höskuldur Ólafsson, Jónas G. Rafnar, Stefán Hilmarsson og Svanbjörn Frímannsson. Þann 1. september var Einar Pálsson ráðinn forstjóri, en hann hafði starfað um árabil hjá IBM í Danmörku. Starfsfólk var ráðið síðustu mánuði ársins 1973 og hóf flest störf í janúar 1974. [49]

Hjarta viðskiptalífsins

Liður í undirbúningnum á rekstri Reiknistofu bankanna var að Bankamannaskólinn, sem hafði starfað frá árinu 1959, hélt námskeið í mars, apríl og maí til að kynna starfsmönnum bankanna þá þróun sem myndi hefjast með tilkomu Reiknistofunnar. Var þar meðal annars fjallað um „optískan lestur“ (OCR eða rafaugnalestur), fjarsendingar og hönnun sameiginlegs bankabókhalds. Námskeiðið sóttu 38 bankastarfsmenn og ljóst var að fleiri höfðu hug á að kynna sér allar þessar nýjungar svo haldið var annað námskeið, sem 33 sóttu. Kennarar voru Einar Pálsson forstöðumaður, Jón V. Karlsson og Gunnar Ingimundarson frá IBM. [50]

Á árinu 1974 og 1975 birtust allmargar auglýsingar í dagblöðum þar sem Reiknistofa bankanna lýsti eftir starfsfólki:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða eftirfarandi starfsfólk 1. Sérfræðing í stjórnforskriftum. Kostur að hafa þekkingu á DOS, BAL og PL/1 en ekki skilyrði. Umsækjandi verður að geta farið til þjálfunar erlendis. 2. Tölvustjórar. Reynsla eða þekking á tölvustjórn eða forskriftagerð kostur en ekki skilyrði. Keyrslur fara fram undir DOS/VS IBM 370/135. 3. Aðstoðarfólk við móttöku og frágang verkefna, fyrir og eftir tölvuvinnslu. Óskað eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi eða tilsvarandi. […] Skriflegar umsóknir sendist Reiknistofu bankanna, […] fyrir 1. desember 1974.[51]

Og um mitt ár 1975 birtist þessi auglýsing í öðru dagblaði:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða KERFISFRÆÐINGA. Óskað er eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi, viðskiptafræði, eða tilsvarandi. Laun samkvæmt launakerfi bankamanna og eftir menntun og reynslu. Reiknistofa bankanna þjónar bönkum og sparisjóðum landsins. Mjög skemmtilegt starfssvið við þróun og uppbyggingu nýtízku bankakerfa, sem byggist á nýjustu tækni í rafreiknikerfum. Ennfremur þjónusta við viðskiptalíf almennt gegnum bankakerfið.[52]

Starfsemi Reiknistofu bankanna hófst haustið 1973, en í byrjun árs 1974 hófu störf sex starfsmenn til að sinna kerfissetningu, enginn þeirra með reynslu nema Ólafur I. Rósmundsson sem ráðinn var sem kerfisfræðingur og fulltrúi forstjóra. Á þeim tíma var ekki farið að kenna tölvunarfræði í Háskóla Íslands og eins konar meistarakerfi gilti, þannig að fólk sem áhuga hafði á þessu fagi þurfti að ráða sig til fyrirtækja sem höfðu starfsemi á sviðinu og læra af þeim sem reynslu höfðu.

Til að byrja með var Reiknistofan ekkert annað en skrifborð í húsi Búnaðarbankans við Hlemm og við sátum þarna í eitt ár, lásum handbækur og leystum æfingaverkefni í forritun með hjálp gataspjalda. Við röltum svo með spjöldin niður Laugaveginn til IBM, sem var þá á horni Hverfisgötu og Klapparstígs, þar sem spjöldin voru lesin og forritin þýdd. Daginn eftir gat maður svo hugað að niðurstöðunum, en oft fékk maður í fangið blaðastafla með villutilkynningum, ef til dæmis hafði gleymst að skrá semíkommu í enda setningar. Þá var ekki um annað að ræða en skunda upp á Hlemm, leiðrétta og strunsa svo aftur niður á Klapparstíg og gera aðra tilraun. Í ársbyrjun 1975 var Reiknistofan flutt suður í Kópavog, í hús Útvegsbankans í Hamraborg. Þá fékk Reiknistofan sínar fyrstu tölvur, undirbúningur verkefna hófst fyrir alvöru og starfsfólki fjölgaði verulega.[53]

Ákveðið var að fyrsta verkefnið á Reiknistofu bankanna skyldi verða að búa til, hanna og forrita launabókhald bankanna. Það var valið fyrsta verkefnið því það var einfalt og því kjörið æfingakerfi. Áætlað var að það yrði tilbúið um haustið og gæti þá annað launabókhaldi þeirra aðildarbanka sem þess óskuðu. Fyrsta bankaverkefnið sem ákveðið var að ráðast í var að koma á vélrænu eftirliti með ávísana- og hlaupareikningum, sem myndi gera kleift að lesa og „cleara“ allar ávísanir daglega milli banka. Gert var ráð fyrir að þessu verkefni yrði lokið upp úr miðju ári 1975.[54]

Reiknistofan útrými gúmmítékkum

Með vélrænu ávísanaeftirliti vonuðust menn til þess að ná mætti tökum á vandamáli sem hafði aukist verulega hin síðustu ár: Fjöldi innistæðulausra ávísana, svonefndra „gúmmítékka“, olli mörgum miklum áhyggjum. Ein aðferðin í þessum tékkamisferlum var að leggja innistæðulausa ávísun inn í eitt bankaútibú og taka fé út í öðru, áður en fyrri færslan var könnuð og skráð. Menn bundu miklar vonir við að reiknistofan myndi útrýma þessu vandamáli.

Útvegsbankinn flutti í nýtt húsnæði í desember 1974 og Reiknistofa bankanna flutti þangað á útmánuðum 1975.[55] Í skyndikönnun Seðlabankans í byrjun nóvember 1975 reyndust 1254 tékkar vera án innistæðu, að samanlagðri fjárhæð 102,5 milljónir króna (þetta var fyrir gjaldmiðilsbreytingu, þegar tvö 0 voru strikuð aftan af íslensku krónunni). Þetta var þrisvar sinnum meira en í næstu skyndikönnun á undan, sem farið hafði fram í mars sama ár, svo ástandið virðist hafa farið versnandi. Bankarnir höfðuðu miskunnarlaust mál gegn þeim sem staðnir voru að tékkamisferli og í nóvember 1975 voru í gangi um fjögur þúsund slík innheimtumál. Bankamenn höfðu eðlilega áhyggjur af þessu og Morgunblaðið hefur eftir Birni Tryggvasyni, aðstoðarbankastjóra hjá Seðlabankanum:

Það er engum blöðum um það að fletta að ávísanamál bankanna hafa farið úr böndum … Það munu vera nálægt 100 þúsund ávísanareikningar í gangi á landinu og það hefur komið í ljós, að ekki hefur reynzt unnt að hafa nægilegt eftirlit með þeim. En það er að því stefnt að hér verði breyting á og eftirlit með tékkaútgáfunni hert.[56]

Unnið var að málinu hjá Reiknistofu og Einar Pálsson sagði við Alþýðublaðið nokkrum dögum síðar:

Við erum komnir það langt núna, að það sem kemur inn í bankana í dag af tékkum, það er allt lesið vélrænt inn að kvöldi, þannig að þetta liggur allt fyrir daginn eftir. Þetta nær reyndar ekki enn til allra bankanna, en er sem sagt á dyraþrepinu. Viðskiptabankarnir hér í Reykjavík eru komnir inn í þetta kerfi, en einstakir bankar úti á landi ekki enn.[57]

Blaðamaðurinn spurði þá hvort rétt væri að fólk hefði verið að „leika sér með tékka á milli banka“ og fékk þetta loforð frá forstöðumanninum: „Já, en ég mundi segja, að áramótagjöfin verði sú, að það verði lokað fyrir það algerlega.“

Það stóðst og þar með var komin sameiginleg tölvuþjónusta allra banka og sparisjóða eins ríkis, nánast alls fjármálaheims þess. Leiðin, sem valin var, var einsdæmi í heiminum og gerði alla bankaþjónustu lipurri, þægilegri og fljótlegri en væru kerfin fleiri, bæði fyrir bankana og viðskiptavinina. Gunnlaugur G. Björnson, deildarstjóri í Útvegsbanka Íslands, orðaði það svo í samtali við Dagblaðið vorið 1978, þegar reiknistofan var óðum að taka á sig mynd:

Ísland verður eini staðurinn í heiminum þar sem samtímis er bókað milli banka og „clearing“-miðstöðvar þar sem allir tékkar eru eins og fara allir í gegnum sömu vél, eru færðir inn á reikning eiganda og til tekna hjá bankanum sem innleysti hann. Það er ekki bara smæð landsins og peningakerfisins sem gerir þetta mögulegt heldur samvinnan sem um þetta hefur tekizt. Með nútímabúnaði er hægt að koma bókhaldi allra banka á einn stað. Þá þarf ekkert bankaeftirlit, að minnsta kosti ekki eins og það er í dag.[58]

Skýrslutæknifélag Íslands – fyrstu árin

Þannig var staðan í lok fyrsta áratugar tölvuvæðingar. Þessi tiltölulega nýja tækni hafði þá þegar valdið ótrúlegum samfélagsbreytingum, meðal annars gerbreytt viðskiptaháttum og auðveldað öll samskipti manna og upplýsingaöflun. En meiri áttu þó breytingarnar eftir að verða.

Árið 1968, aðeins fjórum árum eftir að fyrstu rafeindareiknarnir voru gangsettir, hóuðu framsýnir menn saman hópi sem hafði áhuga á þessari nýju tækni og stofnuðu Skýrslutæknifélag Íslands. Eins og nafnið bendir til á félagið rætur í því hlutverki sem þessar skrásetningar- og reiknivélar sinntu í upphafi, að auðvelda alls kyns skráningu og skýrslugerð. Félagar SÍ, eins og nafnið var skammstafað í upphafi, hafa ætíð verið áhugafólk um upplýsingatækni, sem kom víða að úr atvinnu- og viðskiptalífinu og spannaði litríka flóru upplýsingatækninnar. Starfsemi félagsins endurspeglar það á margvíslegan hátt.

Fyrsti formaður félagsins var Hjörleifur Hjörleifsson, fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður SKÝRR um hríð. Hann gegndi formennsku til ársins 1975 og mótaði mjög starfshætti félagsins. Fljótlega var stofnuð orðanefnd félagsins, sem varð einn hornsteina starfseminnar. Aðrir í fyrstu stjórn Skýrslutæknifélagsins voru Gunnlaugur Björnsson varaformaður, Jakob Sigurðsson ritari, Svavar Jóhannsson féhirðir, Bjarni P. Jónasson skjalavörður og Magnús Magnússon meðstjórnandi en varamenn voru Sigfinnur Sigurðsson og Sigurður Þórðarson. Um sögu og starfsemi Skýrslutæknifélagsins er fjallað nánar í sérkafla.

 

[1] Paul Allen: Idea Man: A Memoir by the Co-founder of Microsoft, staðsetning (location) 718­–721 af 5087. Kindle-útgáfa. 2012.

[2] Fyrsti rafeindaheilinn kominn til landsins. Verður notaður hjá Skýrsluvélum ríkis og bæjar. Morgunblaðið, 6. okt. 1964, baksíða.

[3] Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins. Morgunblaðið, 16. okt. 1964, bls. 21.

[4] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 149.

[5] Vinnur ársverk á 8 klukkustundum. Alþýðublaðið, 230. tbl., 44. árg., 23. okt. 1963, bls. 16.

[6] Alþýðublaðið, 23. okt. 19 63, bls. 16 og 10.

[7] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[8] Nákvæm tala er 54.222.217 kr. miðað við neysluverðsvísitölu, með húsnæðisliðnum, en 50.102.336 kr. án hans. Útr. Hagstofa Íslands, apríl 2015.

[9] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 150.

[10] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[11] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[12] Hjálmtýr Guðmundsson: Tölvusaga – punktar. 2015.

[13] Rafeindareiknirinn og segulmælingar. Tímarit verkfræðinga 5.­–6. tbl. 1964, bls. 78.

[14] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[15] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[16] Magnús Magnússon: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003; O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Kynnt á The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology, bls, 45­–60.

[17] Að mestu byggt á: Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 16–85.

[18] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[19] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[20] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[24] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[25] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[26] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 81–91.

[27] Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum? Morgunblaðið, 17. nóvember 1949. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=107991&pageId=1274354&lang=is&q=rafheila

[28] Vélheili. Vísir, 9. ágúst 1946, bls. 2. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=80308&pageId=1160040&lang=is&q=V%E9lheili

[29] Þorsteinn Hallgrímsson í athugasemdum í apríl 2016: „Árið 1966 var almanakið stækkað að mun, eða upp í 32 síður. Það ár var tölva háskólans notuð í fyrsta sinn við hina stjörnufræðilegu útreikninga, og var þá unnt að birta sólargangstöflur fyrir sex staði á landinu. Einnig var bætt við kafla um hnetti himingeimsins, tímaeiningar o.fl.“

[30] Baldur Jónsson: Um orðið tölva, Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum, 1994, bls. 37–38.

[31] Þessi kafli er byggður á innsendum texta: Hjálmtýr Guðmundsson, Örn Kaldalóns og Þorsteinn Hallgrímsson unnu textann í samvinnu í mars og apríl 2016 með athugasemdum frá Jóhanni Gunnarssyni.

[32] Sama.

[33] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 91–93.

[34] Tekur rúm á við þrjú meðalskrifborð. Vísir, 28. nóv. 1964, bls. 16.

[35] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir við handrit, apríl 2016.

[36] Í vist hjá IBM, svipmyndir úr sögu IBM á Íslandi. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Skýrslutæknifélag Íslands, öldungadeild, Reykjavík 2008, bls. 53-55 og 57–58.

[37] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 93-94.

[38] Sama heimild, bls. 99.

[39] Sama heimild, bls. 101–102; Lesa 1000 tákn á sek. — prenta 150 þúsund stafi á mínútu. Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkur 20 ára. Morgunblaðið 1. júní 1972, bls. 15.

[40] Skýrsluvélar þrefalda tölvubúnaðinn. Alþýðublaðið, 1. júní 1972; Skýrsluvélar 20 ára. Þjóðviljinn, 3. júní 1972.

[41] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 103-105. Þar er getið um dagblöðin sem þetta er tekið út, og dags.

[42] O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Presented at The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology.

[43] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 107–108.

[44] Sama heimild, bls. 110.

[45] Sama heimild, bls. 109.

[46] Upplýsingar um Tölvustofnanir. Tölvumál, 1. tbl. 1979, bls. 11.

[47] Jóhann Gunnarsson. Viðtal tekið 28.10.2014.

[48] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 6.

[49] Sama heimild.

[50] Gunnar H. Blöndal: Stutt yfirlit um starfsemi Bankamanna skólans frá stofnun 1959 til 1975, Bankablaðið 1. april. 1975, bls. 58.

[51] Auglýsing. Þjóðviljinn 26. nóv. 1974, bls. 12.

[52] Auglýsing. Vísir, 3. júní 1975, bls. 4.

[53] Jón Ragnar Höskuldsson. Viðtal tekið 2.12 2014; Jón Ragnar Höskuldsson, athugasemdir í tölvupósti apríl 2016.

[54] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 7–8.

[55] Heimasíða Reiknistofu bankanna: http://www.rb.is/um-rb/saga/ Sótt 7.2. 2015.

[56] Bankarnir ætla að láta til skarar skríða vegna tékkamisferlis: Nálægt 4 þúsund tékkamál í gangi. Morgunblaðið 13. nóv. 1975, bls. 2.

[57] Áramótagjöf bankanna: Tékkasvik úr sögunni. Alþýðublaðið 21. nóv. 1975, 1.

[58] Þetta er bara hægt á Íslandi: EIN MIÐSTÖÐ FYRIR ALLA OKKAR BANKA. Dagblaðið 23. maí 1978, bls. 4.