Skip to main content
24. nóvember 2011

Ég er ástfangin!

Ég er ástfangin! Ég hef lengi verið svona ástfangin og ástin vex með hverjum degi sem líður. Þannig lýsi ég viðhorfi mínu og tilfinningum til kindla, lesara, lesbretta, lestölva, paddna, rafbóka, rafrænna bóka, skjábóka, spjaldtölva og taflna. Mér finnst gaman að lesa og ég er heilluð af þessari  nýju tækni.

Kannski er rétt að skilgreina þau orð sem ég nota daglega:

    Rafræn bók = tölvuskráin, sama á hvaða formi hún er
    Rafbók = tækið sem notað er til þess að lesa rafrænu bókina
    Kindill = kindle, rafbók (núverandi uppáhaldsgræja)
    Padda = iPad (verðandi uppáhaldsgræja)

Hvernig rafbók á ég að fá mér? Þetta er sama spurningin og við þurftum að spyrja okkur þegar PC, Makkinn og Wang tölvurnar komu fram á sjónarsviðið. Já, munið þið eftir Wang? Hvort er betra að fá sér VHS eða Beta myndbandstæki? Borgar sig ekki að bíða? Lækkar verðið ekki fljótlega? Sama er að segja um/með rafbækurnar. Það eru alltaf einhver tæki sem skara fram úr á hverjum tíma og önnur sem verða undir í samkeppninni. Það er bara að hrökkva eða stökkva. Kaupa sér þá rafbók sem manni líst best á með tilliti til buddunnar, tækni og framboðs á INNIHALDI. Á endanum er það innihaldið sem skiptir máli. Annað er í raun hjóm. Ekki hjálpar hið opinbera okkur valið með sínum álögum, tollum, vörugjaldi, VSK-i og jafnvel STEF-gjöldum. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað er best og sniðugast að kaupa – þið gúglið það sjálf.

Það er ekki flókið að taka sér bók (gerða úr pappír) í hönd og byrja að lesa. Hafi maður ekki við höndina þá bók, sem maður vill eða þarf að lesa, kaupir maður hana eða fær hana lánaða, hjá vini eða á bókasafni. Svo byrjar maður bara að lesa. Lífið er ekki svona einfalt þegar kemur að rafrænum bókum. Þá er komið í frumskóg tækja og skráarforma sem útgefendur og tækjaframleiðendur hafa leitt okkur inn í. Það er bara hægt að lesa sumar bækur í sumum tækjum og þær verða að vera keyptar af sumum – ekki öðrum.

Hér ætla ég að horfa á hlutina út frá Amazon og kindlinum mínum, sem er sú veröld sem ég þekki best. Ég keypti mér kindil ... leiðrétting; við hjónin keyptum okkur sinn kindilinn hvort til þess að hafa aðgang að einni stærstu bókaverslun í heimi – Amazon. Við skráðum báða kindlana á einn reikning hjá Amazon.com til þess að geta bæði lesið bækurnar sem við kaupum. Allt gott um það að segja. Við kaupum lesefni og lesum okkur til mikillar ánægju. Kindilinn er afar gott tæki til þess að lesa af og fer vel í hendi – hægt að skrifa athugasemdir og fletta upp í orðabók ef maður skilur ekki orð sem koma fyrir í bókinni. Það má lesa af kindlinum jafnvel þótt lampaljós eða blessuð sólin skíni á hann. Ekki skemmir lágt bókarverð í kindilbúðinni fyrir. En ég er Íslendingur og Evrópubúi í mér. Stundum þreyta amerískar bækur mig og mig langar til þess að þefa af Evrópu. Þá vandast málið. Ég get farið inn á vef Amazon í Bretlandi og séð þar hvaða bækur eru þar til sölu í kindilútgáfu. En ég get ekki keypt þær! Það gilda önnur höfundarréttarákvæði í Evrópu en í Ameríku. Ég reyndi einu sinni að plata Amazon og gerði tilraun til þess að kaupa bók frá Amazon.co.uk þegar ég var stödd í London (bresk IP-tala) og notaði kreditkort (breskt MasterCard) skádóttur minnar sem býr þar. Nei – þar sem reikningurinn okkar er skráður í Ameríku get ég ekki keypt bækur sem breskur höfundarréttur nær yfir. Ég ætlaði ekki að gera neitt ólöglegt – mig langaði bara til þess að lesa. Enn vesnar í því ef maður vill lesa nýjar íslenskar bækur. Þær eru ekki til –  auðn og tóm. Eymundsson opnaði rafbókaverslun um daginn. Ég hugði gott til glóðarinnar, fór þar inn og keypti bók sem ég hafði horft á löngunaraugum á Amazon.co.uk. Hvílík vonbrigði. Ég gat bara lesið hana í Adobe Digital Editions og í tölvunni. Ég gat ekki flutt hana yfir í kindilinn minn og lesið hana þar – nema brjóta DRM (Digital Rights Management) höfundarréttarvörnina á bókinni. Það kæri ég mig ekki um. Ég get keypt mér aðra rafbók til þess að geta lesið hana þar, en það er fáránlegt. Svo get ég heldur ekki lánað vinum mínum rafrænu bækurnar mínar – því þá verð ég að lána kindilinn minn með og hann vil ég helst alltaf hafa nálægt mér.

Það fer óendanlega í taugarnar á mér þegar forráðamenn ýmissa vefja, þar sem er að finna stafrænar endurgerðir bóka sem komnar eru úr höfundarétti dásama hversu mikið er til af rafrænum bókum sem lesa má í mismunandi gerðum rafbóka. Hver vill endalaust vera að lesa gamla klassíkera – í  nýju græjunum? Eftirspurnin er eftir nýjum bókum, mest eftir skáldverkum, les reyfurum og kennslubókum. En þar eru „varnirnar“ mestar. Eigendur höfundarréttar og útgefendur sitja þar í bílstjórasætinu með belti og axlabönd búnir að setja í bakkgír, standa á bremsunni og toga í handbremsuna. Er ekki nær að einfalda hlutina, gera rafrænar bækur aðgengilega fyrir lestrarhesta,  semja um höfundarrétt, leyfa flutning skráartegunda milli tækja,  treysta viðskiptavinunum. Með öðrum orðum, taka upp eðlilega viðskiptahætti. Ég skil vel að rithöfundar, útgefendur og bóksalar vilji ekki lenda í sömu hremmingum og eigendur höfundarréttar tónlistar og bíómynda hafa gert. Öllu stolið og ólögleg dreifing góssins er íþrótt sem keppt er í. Er ekki alltaf verið að segja við okkur að „ögrun skapi tækifæri“? Þá er þetta bara verkefni til þess að leysa.

Ég leyfi mér að taka mér í munn orð Hrafnhildar Hreinsdóttur, formanns Upplýsingar sem hún lét falla á 10 ára afmælisráðstefnu Landskerfis bókasafna hf þann 11. nóvember sl.: „Bók er bók, sama á hvaða formi hún er.“

Leyfið ástinni að blómstra!

Skrifað í nóvember 2011 í Plaka, Aþenu
Þóra Gylfadóttir, upplýsingafræðingur í bókasafni Háskólans í Reykjavík

Skoðað: 6041 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála