Skip to main content
14. July 2011

Tölvunotkun 5 ára barna í leikskólum í Garðabæ

Tölvur þjóna stóru hlutverki í samfélaginu. Í dag finnst varla það heimili þar sem ekki er að minnsta kosti ein tölva. Yngsta kynslóðin kemst því ekki hjá því að alast upp í umhverfi þar sem tölvan þykir sjálfsagður hlutur. En í hvað eru yngstu börnin að nota tölvuna? Er tölvan eingöngu notuð sem leiktæki þar sem börn sitja annað hvort ein eða í hóp og spreyta sig í hinum fjölbreytta heimi tölvuleikja? Eða nýta þau tímann í hugbúnað og heimasíður sem eru sérstaklega hannaðar til að auka vitsmunaþroska barna og kenna þeim mörg af grundvallaratriðum samfélagsins?

Leikskólar landsins nota tölvur í auknum mæli sem afþreyingu fyrir börn og kennslu í starfi sínu. Flest öll sveitarfélög á landinu styðja tölvunotkun inn á leikskólum og mörg þeirra gera hreinlega þá kröfu að leikskólar veiti börnunum tækifæri til að kynnast tölvunni. Það er algjörlega í höndum starfsmanna leikskólanna hvernig tölvunotkuninni er háttað og hvaða hugbúnaður er notaður.

Vorið 2011 var tölvunotkun leikskólabarna rannsökuð í Garðabæ í lokaverkefni í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík (Dagný Björk Stefánsdóttir, 2011). Markmiðið var að kanna hversu mikil tölvunotkun væri á leikskólum og hvernig henni væri háttað í leikstarfinu. Einnig þótti forvitnilegt að grennslast fyrir um þann hugbúnað sem börnin voru mest að nota. Til að afla gagna voru tekin átta viðtöl við starfsmenn sjö leikskóla í Garðabæ. Einnig var tekið viðtal við hönnuð tveggja íslenskra kennsluforrita. Greinarhöfundur var rannsakandi  í verkefninu og leiðbeinandi var Marta Kristín Lárusdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík.

Hversu mikil er tölvunotkun barna á leikskólum í Garðabæ?

Tölvunotkun í leikskólastarfi barna í Garðabæ reyndist vera þó nokkur. Af þeim sjö leikskólum sem voru skoðaðir voru fimm þeirra með tölvur sem börnin höfðu aðgang að. Misjafnt var á milli leikskóla hversu oft og lengi börnin fengu að vera í tölvunni en algengast var að börnin fengju að eyða 10 mínútum í senn í tölvunni. Viðverutíminn fór þó upp í klukkustund í einum leikskólanum.

Misjafnt var á milli leikskóla hversu oft á dag börnin gátu valið að fara í tölvur en var það þó gegnumgangandi að haldið var utan um hvaða börn fóru í tölvuna á hverjum degi og því stjórnað þannig að sama barnið færi helst ekki oftar en einu sinni á dag í tölvuna.

Hvernig er tölvunotkuninni háttað í leikskólastarfinu?

Algengast var að börnin gátu valið að fara í tölvuna í skipulögðum valtímum eða í svokölluðum frjálsum leik þar sem börnin flakka á milli hinna ýmsu leikstöðva á eigin forsendum. Lítið var um að leikskólarnir stæðu fyrir skipulögðum tölvukennslustundum en í staðinn var lögð áhersla á sjálfstæði og sjálfsnám barnanna í tölvunum.

Tölvurnar voru ýmist staðsettar inn listasmiðju, í vinnuherbergi eða misvæðis á leiksvæði barnanna. Viðmælendur voru flestir sammála um að tölvan væri best staðsett þar sem börnin upplifðu hana sem hluta af efnivið leikstarfsins en ekki spennandi hlut afsíðis. Í þeim fimm leikskólum sem voru með tölvur fyrir börnin töluðu allir viðmælendur um að mikil samvinna færi fram á milli barnanna fyrir framan tölvuna. Börnin væru ekki einangruð í tölvunni heldur þvert á móti skapaði hún oft samræður þar sem börnin hjálpuðu hvort öðru við hin ýmsu verkefni.

Af þessum sjö leikskólum voru tveir þeirra ekki að nota tölvur í starfi með börnunum. Ástæður sem viðmælendur frá þeim leikskólum gáfu voru meðal annars að það skorti fjármagn til að viðhalda bæði vél- og hugbúnaði, starfsfólk skorti áhuga og þekkingu á tölvunotkun barna og skoðun þeirra var einnig sú að börn hafa í dag greiðan aðgang að tölvum heima hjá sér og því sé ekki nauðsyn fyrir leikskólana að hafa þær í starfi barnanna.

Hvaða hugbúnað nota börnin á leikskólum Garðabæjar?

Leikskólarnir voru með fjögur til átta forrit sem börnin notuðu og var misjafnt hvaða kennsluforrit voru vinsælust. Flest öll forritin sem börnin gátu valið úr höfðu eitthvað ákveðið markmið þar sem lærdómur barnanna var hafður í fyrirrúmi. Algengast var að forritin kenndu börnunum tölustafina og grunn-reikniaðgerðir eða stafina og inngang að lestri. Kennsluforritin Doppa, Glói geimvera lærir að lesa, Kid Pix og Bogi blýantur vorur notuð í þremur af þeim fimm leikskólum sem voru með tölvu fyrir börnin.

Doppa er kennsluforrit sem er sérstaklega hannað fyrir yngstu börnin en í því forriti er til dæmis farið í tölustafi, bókstafi, liti og form. Bogi blýantur er kennsluforrit í stærðfræði og reyndist það vera mjög vinsælt meðal barnanna. Kid Pix er forrit sem leyfir börnunum að skapa sínar eigin myndir og þótti nokkrum viðmælendum mikilvægt að sköpunargleði barna væri í fyrirrúmi í leikstarfinu og því væri þessi leikur góður. Glói geimvera lærir að lesa er kennsluforrit í lestri og reyndist það vera mjög vinsælt meðal barnanna á þessum leikskólum.

Hvað er það sem einkennir góðan hugbúnað fyrir börn?

Viðmælendur á leikskólunum nefndu nokkur atriði sem að þeirra mati einkenndu þann hugbúnað sem væri góður fyrir börnin og vinsæll meðal barnanna. Þessi atriði pössuðu einkar vel við Doppu og Glóa geimveru að mati flestra viðmælenda og því var athyglisvert að fá álit hjá hönnuði þeirra kennsluforrita um það hvaða atriði skipta máli í hönnun slíkra forrita. Viðtalið við hönnuðinn leiddi í ljós að hann gerði sér mjög góða grein fyrir því hvernig tölvunotkun barnanna var háttað og hvaða eiginleikar gera kennsluforrit sem þessi áhugaverð. Sömu atriði voru nefnd hjá bæði starfsfólki leikskólanna og hönnuði þegar spurt var hvaða atriði einkenndu góðan hugbúnað, en þau voru:

    Möguleiki á að velja mismunandi þyngdarstig.
    Óvænt og spennandi hegðun í forritinu.
    Fjölbreyttar og einfaldar aðgerðir.
    Viðfangsefni sem á vel við börnin.
    Leiðbeiningar í formi talmáls.
    Litrík og glaðlegt viðmót.
    Markviss tilgangur.

Tölvur góð viðbót við leikskólastarfið

Viðmælendur þeirra leikskóla sem notuðu tölvur með börnunum sögðu að tölvan væri góð viðbót við leikskólastarfið. Ýmis verkefni sem börnin gætu leyst í tölvunum, svo sem stærðfræði og lestrarþrautir, væri erfitt að setja fram með öðrum efnivið leikskólans. Það kom einnig fram að tölvur væru góð lausn fyrir börn sem væru annað hvort bráðþroska eða seinþroska. Allir viðmælendur voru þó sammála um að mikilvægt væri að tölvunotkunin hefði markvissan tilgang og börnin væru raunverulega að læra eitthvað þegar þau sitja fyrir framan tölvuna. Tölvan opnar marga möguleika í starfi með börnum og verður áhugavert að fylgjast með þróun þess starfs á komandi árum og áratugum en ný tækni mun eflaust leiða okkur á nýjar slóðir.

Áhugasömum er bent á að skýrsla með niðurstöðum þessarar rannsóknar liggur á Bókasafni Háskólans í Reykjavík og er hægt að lesa ítarlegri umfjöllun þar (Dagný Björk Stefánsdóttir, 2011).

Höfundur: Dagný Björk Stefánsdóttir, tölvunarfræðingur

Heimild: Dagný Björk Stefánsdóttir, 2011. Tölvunotkun 5 ára barna á leikskólum í Garðabæ.Háskólinn í Reykjavík.

Skoðað: 5975 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála