Skip to main content
24. maí 2011

Hvað vill notandinn geta gert á vefnum?

Síðastliðin 10 ár höfum við hjá Sjá viðmótsprófunum ehf. unnið að því með viðskiptavinum okkar, fyrirtækjum og stofnunum, að þróa og framkvæma prófanir, unnið með rýnihópa og hugmyndavinnu í því skyni að bæta, skipuleggja og hanna betri vefi. Vefurinn hefur breyst mikið á aðeins þessum tíu árum og það verður æ mikilvægara fyrir fyrirtæki og stofnanir að geta svarað hinni einföldu spurningu:  Hvað vill notandinn geta gert á vefnum?

Leiðakerfi vefsins

Vefir eru leiðakerfi líkt og umferðargötur.  Í gegnum þá sækja notendur sér upplýsingar og þjónustu. Hægt er að auka líkur á að notendur heimsæki vefinn  með markaðssetningu og kynningu. Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt að hafa gengið úr skugga um að notendur sem koma á vefinn skilji hvernig á að nota hann. Hér getur góð hönnun og notendavænt skipulag skipt öllu máli. Ólíkir vefir kalla á ólíka meðhöndlun efnis og hver vefur er sérstakur að því leyti. Hins vegar er það svo að flestir vefir miðast við einhverskonar upplýsingagjöf. Upplýsingagjöfina þarf hins vegar að greina. Hver er tilgangur upplýsinganna? Er verið að upplýsa um hvernig viðkomandi þarf að standa að einhverju nú sem hann leysir á vefnum með því að fara í gegnum ákveðið ferli eða er verið að halda úti upplýsingasafni sem notendur geta leitað í hverju sinni?

Greiningarvinna sem skilar hagnaði

Mikilvægt er að hugsa um hvað verður mest notað eða algengustu aðgerðirnar á vefnum. Þá langar okkur að kynna til sögunnar Gerry McGovern sem er vel þekktur í veffræðunum. Gerry heldur úti bloggi á vefnum www.giraffeforum.com og hefur kynnt til sögunnar ákveðna kenningu. Hann heldur því fram að fimm prósent af efni hvers vefjar skili a.m.k. 25 prósent af hagnaði eða verðmæti þess vefjar. Því liggi helstu viðskiptaferlarnir innan þessara fimm prósenta, eða „The long neck“ eins og hann kallar það.  Hins vegar fylgir sá böggull skammrifi að þeir sem vinna með vefina hafi ekki hugmynd um hvaða efni eða ferli falla undir þessi fimm prósent og geti því ekki vingsað úr það efni sem virðist ekki hafa mikla skírskotun til notenda og einbeitt sér að þeim sem hins vegar gera það til að auka gæði vefjanna. Þetta hefur okkur þótt ágætis innlegg í umræðuna um vefmálin. Til þess að geta nýtt hönnun og skipulag til að draga helstu ferla eða leiðir fram er nauðsynlegt að vera búinn að velta fyrir sér og gera kannanir á því hvaða ferlar séu mikilvægastir. Hér getur að sjálfsögðu orðið eitthvað misræmi milli notenda og stjórnenda vefjarins en til þess að taka ákvarðanir um hvernig vefur  fyrirtækis eða stofnunnar verður betri er nauðsynlegt  að fara í greiningarvinnunna og  draga þessa vitneskju fram.
Notendur þurfa leiðarvísa

Að vissu leyti hefur orðið til ákveðinn vísir að slíkum vinnubrögðum í gegnum tíðina. Nú er mörgum vefjum gjarnan skipt eftir markhópum s.s. einstaklingar vs. fyrirtæki, annars staðar hefur markhópum vefjanna verið raðað upp og reynt að koma til móts við hvern hóp með því.  Ennþá eimir hins vegar mjög eftir af því að vefir eru eins og risasúpermarkaðir þar sem hægt er að villast svo mínútum skiptir til að finna hinar og þessar upplýsingar eða þjónustu og allt of mikið af hvoru tveggja.  Fyrirtækin hafa ekki lagt út í þá vinnu að greina helstu ferla sem þau vilja að notendur fari í gegnum. Vefir verða æ flóknari, þeir hafa tilhneigingu til að stækka án þess að á þeim fari fram hreinsun, ekki síst vegna þess að fólki finnst gjarnan að allt eigi að vera á „Netinu“.  Mikilvægt er að gera bragarbót hér á, vinna að þessu verkefni sem er mikið meira sálfræðilegs eðlis en tæknilegs.

Höfundur: Áslaug Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Sjá efh.

Skoðað: 5470 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála