Skip to main content
11. mars 2021

Heilsuvera til þekkinga og verndar. Sjöll lausn á tímum Covid-19.

Fyrir vefinnKröfur samfélagsins um aukna nýtingu upplýsingatækni verða sífellt meiri, ekki síst innan heilbrigðisþjónustu. Aukin nýting upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustu eykur öryggi sjúklinga, árangur, skilvirkni og gæði þjónustunnar. Undanfarin ár hefur áhersla víða um heim verið að notendur séu í auknum mæli upplýstir og virkir þátttakendur í eigin meðferð. Ein leið að því markmiði er þróun á öruggri heilbrigðisgátt þar sem einstaklingar geta nálgast sín gögn, sem verða til við samskipti þeirra innan heilbrigðisþjónustunnar, ásamt því að geta átt í öruggum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk um gáttina. Hér á landi er Heilsuvera slík heilbrigðisgátt.

Hvað er Heilsuvera?

Heilsuvera (Mínar síður) er öruggt vefsvæði þar sem landsmenn hafa aðgang að sínum heilbrigðisupplýsingum óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun upplýsingarnar eru skráðar. Þegar notandi vill skoða sínar upplýsingar eru þær sóttar í gagnagrunna þeirra heilbrigðisstofnana sem Heilsuveru notandi hefur átt samskipti við, en eru ekki geymdar í Heilsuveru sjálfri. Upplýsingar um lyf og lyfjaafgreiðslur eru sóttar í lyfjagagnagrunn landlæknis og upplýsingar um bólusetningar eru sóttar í bólusetningargagnagrunn sóttvarnalæknis.

Íslenska heilbrigðisnetið Hekla miðlar upplýsingum úr sjúkraskrám og gerir þær aðgengilegar í Heilsuveru, en Hekla tengir saman sjúkraskrárgagnagrunna á landsvísu. Þannig er möguleiki að hafa einn aðgangspunkt, Heilsuveru, fyrir aðgang notenda að sínum upplýsingum og samskiptum við heilbrigðiskerfið, en erlendis þurfa notendur að nota fleiri en einn aðgangspunkt (sjúklingaportal) fyrir sín samskipti við heilbrigðisþjónustuna.

Tilgangur með þróun Heilsuveru

Tilgangurinn með Heilsuveru er að þróa öruggan rafrænan aðgang fyrir landsmenn að eigin heilbrigðisupplýsingum, hvar og hvenær sem þörf er á og óháð því á hvaða heilsugæslustöð, sjúkrahúsi, eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar eru skráðar. Áhersla er lögð á að auka öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu með því að bæta aðgengi notenda að eigin heilsufarsupplýsingum og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Þróun Heilsuveru á sér stoð í lögum um sjúkraskrá nr. 55/2009, stefnu embættis landlæknis og heilbrigðisstefnu til 2030. Er stefnt að fullum aðgangi notenda að eigin heilsufarsupplýsingum eigi síðar en 2030. Allir landsmenn hafa aðgang að Heilsuveru þeim að kostnaðarlausu. 

Aðgangur að Heilsuveru

Rafræn skilríki eru nauðsynleg til að fá aðgang að Heilsuveru þar sem um er að ræða aðgang að heilbrigðisupplýsingum, en þær teljast viðkvæmar upplýsingar og því þarf að huga að hámarksöryggi og upplýsingavernd.

Hvað er hægt að gera í Heilsuveru?

Innleiðing Heilsuveru hófst árið 2014 og eru allar heilsugæslustöðvar landsins tengdar við hana. Auk þess hafa nokkrar starfsstofur sjálfstætt starfandi lækna tengst og innleiðing í sjúkrahúsumhverfi er hafin.

Í Heilsuveru er hægt að senda beiðni um lyfjaendurnýjun, skoða virkar lyfjaávísanir og stöðu lyfseðla, ásamt notkunarleiðbeiningum lyfja og hlekkur er yfir á Sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar. Hægt er að skoða upplýsingar um lyfseðlaafgreiðslur apóteka síðustu þrjú árin.

Yfirlit er yfir bólusetningar frá árinu 2010, en þá var miðlægur bólusetningargagnagrunnur tekinn í notkun. Upplýsingar eru annars vegar um bóluefnið og hins vegar um sjúkdóminn sem bólusett er fyrir.

Möguleiki er að senda fyrirspurn á heilbrigðisstarfsmenn í öruggu umhverfi samskipta. Samskiptin og svar heilbrigðisstarfsmanns vistast í sjúkraskrá sjúklings og stuðlar þannig að aukinni samfellu í meðferð sjúklings. Ef um bráðatilvik er að ræða á ávallt að hafa samband við 112 en ekki nota samskipti í Heilsuveru, þar sem einhver tími getur liðið þar til heilbrigðisstarfsmaður skoðar skilaboðin.

Hægt er að bóka tíma rafrænt í Heilsuveru. Heilsugæslustöðvar stilla sjálfar hvaða tímabókanir eru bókanlegar rafrænt. Nokkrar starfsstofur sjálfstætt starfandi sérfræðinga bjóða einnig upp á rafrænar tímabókanir og ekki er langt að bíða að sjúkrahús landsins geti nýtt sér þessa þjónustu fyrir göngudeildir. Skiljanlega hefur þó verið dregið úr rafrænum tímabókunum núna á tímum COVID-19, enda alls ekki gott ef einstaklingar sem eru smitaðir mæti í bókaðan tíma án þess að hafa áður haft samband við heilbrigðisstarfsmann, þannig að hægt sé að tryggja fulla smitgát og vernda viðkvæma hópa.

Skilyrði fyrir að hægt sé að biðja um lyfjaendurnýjun, eiga í samskiptum við heilbrigðisstarfsmann og bóka tíma rafrænt, er að notandi sé skráður á heilsugæslustöð. Þannig veit Heilsuvera hvert á að senda erindið.

Heilsuvera býður einnig upp á að skrá takmörkun á líffæragjöf eða að hafna henni ef ekki er vilji til að vera líffæragjafi.

Yfirlit er yfir dagsetningar koma á heilsugæslustöðvar, komur til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og innlagnir á sjúkrahús, þ.e. hjá þeim aðilum sem hafa tengst Heilsuveru.

Haustið 2019 fengu allar verðandi mæður aðgang að sinni mæðraskrá. Aðgangur er að skoðunarsögu, mælingum, blóðflokki og mynd af fóstri/fóstrum þegar fósturómun hefur farið fram. Mögulegt er að vista myndirnar á eigin tæki. Þessi aðgangur hverfur við fæðingu barns, en unnið er að umbótum þannig að meðgöngusagan verði aðgengileg einnig eftir fæðingu barns. Fæðingaskráin verður einnig aðgengileg í náinni framtíð.

Þátttakendur í hreyfistjórnun geta skráð hreyfingu og hafa yfirlit yfir sína hreyfiáætlun. Einnig er hægt að skrá eigin mælingar eins og hæð, þyngd, blóðþrýsting, púls, hita og blóðsykur í mælingar í Heilsuveru.

Á þessu ári var skimunarsaga hjá Krabbameinsfélagi Íslands gerð aðgengileg í Heilsuveru. Síðar verða einnig rannsóknarniðurstöðurnar aðgengilegar.

Ef einstaklingur hefur greinst með ofnæmi og það verið skráð á heilsugæslustöð viðkomandi, sjást upplýsingar um það á forsíðu Heilsuveru. Ekki er um miðlæga skráningu að ræða, þannig að ofnæmi sem hefur verið greint og skráð á sjúkrahúsi sést ekki í Heilsuveru enn sem komið er, en unnið er að slíkri birtingu.

Þeir sem eru 16 ára og eldri geta veitt umboð til annarra að sækja fyrir sig ávísuð lyf í apótek.

Aðgangur foreldra fyrir börn sín

Foreldrar og forráðamenn hafa í dag aðgang að upplýsingum sinna barna upp að 16 ára aldri. Þetta er í samræmi við réttindi barna um að leita sér heilbrigðisþjónustu án vitundar foreldra þegar 16 ára aldri er náð, en frá 16 ára aldri eru börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga nr.74/1997. Slíkt er einnig stutt af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Heilsuvera er í sífelldri þróun og nýir möguleikar fyrir notendur bætast stöðugt við. Þegar ljóst var að heimsfaraldur COVID-19 hafði teygt rætur sínar til Íslands þurfti að hafa hraðar hendur á til að tryggja að hægt væri að veita áfram góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu og jafnframt að vernda íbúa landsins sem best gegn smiti. Þar sannaði Heilsuvera tvímælalaust mikilvægi sitt.

Þróun á tímum Covid-19

Þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall á Íslandi og mikið álag var á símaþjónustu heilsugæslunnar, gátu notendur strax verið í beinum samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn með Heilsuveru. Einnig var strax hafist handa við að þróa viðbótarlausnir innan Heilsuveru til að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu, auka öryggi í meðferð einstaklinga og draga úr útbreiðslu smits eins og kostur er.

Áhersla hefur verið lögð á að gera þjónustu heilbrigðiskerfisins sem skilvirkasta. Því lá beint við að niðurstöður úr neikvæðum sýnatökum færu í Heilsuveru, þegar þær lægju fyrir. Jákvæðar sýnatökur birtast ekki í Heilsuveru, en rakningarteymið hringir í alla einstaklinga sem reynast smitaðir. Ef mótefnamæling fyrir COVID-19 hefur verið framkvæmd, birtast niðurstöðurnar í Heilsuveru. Auk þess var opnað fyrir þann möguleika að eiga myndsamtal við heilbrigðisstarfsmann um öruggt umhverfi Heilsuveru.

Mögulegt er að sækja um og prenta út ýmis vottorð, eins og vottorð til atvinnurekenda, vottorð til staðfestingar á skipaðri sóttkví og vottorð til staðfestingar á að viðkomandi hafi fengið COVID-19 sjúkdóminn. Nokkur þúsund vottorð eru núna send vikulega og þurfa einstaklingar þar af leiðandi ekki að mæta á heilsugæslustöð til að sækja vottorðin. Beiðni um einkennasýnatöku og skimanir er hægt að senda úr Heilsuveru.

Hvað er framundan í þróun Heilsuveru?

Embætti landlæknis heldur áfram að þróa Heilsuveru og smám saman verður aukinn aðgangur að eigin heilbrigðisupplýsingum með hjálp Heilsuveru. Má t.d. nefna aðgang að upplýsingum um helstu greiningar og meðferðir, rannsókna- og myndgreininga niðurstöður, blóðflokkun, hverjir hafa flett upp í sjúkraskrá einstaklingsins og möguleika á að svara gagnreyndum spurningalistum um eigin líðan. Svörin vistast í sjúkraskrárkerfinu og óeðlilegar niðurstöður munu kalla eftir tafarlausu viðbragði heilbrigðisstarfsmanns. Einnig verður hægt að senda einstaklingsbundið fræðsluefni um meðferð til viðkomandi. Auk þess er unnið að því að bæta yfirlit yfir meðferðaáætlun þegar sjúklingar gangast undir krabbameinsmeðferð. Meðferðarviðmótið mun einnig ná yfir aðrar meðferðaráætlanir. Unnið er að því að koma á veitingu umboðs til aðstandenda/forráðamanna um að sýsla með mál eins og tímabókanir og lyfjaendurnýjanir fyrir aldraða, fatlaða og langveik börn sem eru orðin 16 ára. Unnið er að samtengingu við réttindagátt Sjúkratrygginga og stefnt er að tilraunaverkefni nú í haust sem veitir aðgang að allri sjúkraskránni á tiltekinni heilsugæslustöð. Embætti landlæknis mun einnig standa fyrir notendakönnun á Heilsuveru í október.

Notkun Heilsuveru

Fjöldi þeirra sem nota Heilsuveru eykst árlega. Rúmlega 42% Íslendinga, 16 ára og eldri, notuðu heilbrigðisgáttina á árinu 2019. Það sem af er þessu ári hefur fjöldi einstaklinga aukist um 43% (Mynd 1) og fjöldi innskráninga tvöfaldast og er á árinu yfir tvær milljónir (Mynd 2). Á mynd 2 má sjá topp í innskráningum í mars 2019 þegar mislingafaraldur gekk yfir og svo koma COVID-19 topparnir í mars og júlí á þessu ári.

Mynd1

Mynd 1: Fjöldi einstaklinga sem nota Heilsuveru

Mynd2

Mynd 2: Fjöldi innskráninga í Heilsuveru

Lokaorð

Aðgengi einstaklinga að eigin sjúkraskrárupplýsingum gefur þeim möguleika á að verða meiri þátttakendur í eigin meðferð. Þróun Heilsuveru er áframhaldandi verkefni til að bæta við þjónustu, auka öryggi, gæði og skilvirkni innan heilbrigðiskerfisins.

Höfundur: Guðrún Auður Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri, Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna, Embætti landlæknis

 

Skoðað: 656 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála