Skip to main content
3. júní 2021

Aðgengi í víðara samhengi

Hlynur thor AgnarssonÞegar kemur að aðgengismálum er venjan að einblína á ákveðna hópa fólks og hvernig við þurfum að mæta þeirra þörfum. Það er vissulega nauðsynlegur hluti ferlisins að greina mismunandi þarfir einstaklinga þannig að sú vara eða þjónusta sem við bjóðum upp á geti talist aðgengileg öllum. En er það ekki einmitt það sem áherslan á að vera á? Í mínu starfi verð ég gjarnan var við viðhorf líkt og „Blindir þurfa að geta notað vefsíðuna okkar.“ Ekki misskilja mig, mér finnst alltaf frábært þegar vilji er sýndur til að gera vel í aðgengismálum, enda er það sjálfsagt og sú ætti raunin alltaf að vera. Mér finnst það þó fallegri hugsun að lausnir séu hugsaðar „fyrir alla“ frekar en „fyrir alla og líka blinda og sjónskerta“. Athugið að þarna er ég einungis að tala um hvernig við meðhöndlum hugtakið aðgengi og hugsum um það. Leyfið mér að útskýra nánar.

Að mínu mati ætti stóra hugmyndin að vera að sú lausn sem við vinnum að, sama hvort það er vara, þjónusta, vefsíða, eyðublað eða eitthvað annað, á að vera aðgengilegt fyrir alla. Við mismunum engum og allir eru velkomnir! Þá er fallega, stóra verkefnið okkar komið með tilgang og stóru línurnar orðnar skýrar. Við vitum öll til hvers er ætlast og þá er bara að hefjast handa og brjóta verkefnið niður í smærri einingar. Þar þurfum við vissulega að líta á mismunandi hópa, þarfagreina hvern og einn, finna mögulegar lausnir, gera notendaprófanir o.s.frv. Þá kemur hugsunin sem ég nefndi áðan að „blindir þurfa að geta notað vefsíðuna okkar“ eðlilega til sögunnar en í þetta sinn sem undirverkefni í stóru, fallegu hugsjóninni okkar að allir séu velkomnir.

Á undanförnum árum höfum við hjá Blindrafélaginu fundið fyrir því að fólk er mun meðvitaðra um mikilvægi góðs aðgengis og er það af hinu góða. Við vitum þó einnig að góðum vilja er ekki alltaf fylgt eftir með viðeigandi aðgerðum. Fram undan eru stórar áskoranir sem felast meðal annars í því að fylgja eftir vinnu síðustu ára og þeim aukna áhuga sem aðgengismálin hafa fengið. Því öll viljum við hafa okkar mál á þurru landi þegar kemur að aðgengi. En hvernig gerum við það?

Fyrir það fyrsta þurfum við að vera meðvituð um að aðgengi er ekki áfangastaður heldur ferðalag. Það þarf að innleiða áherslur á aðgengi í alla ferla, það þarf einhver að vera ábyrgur fyrir því að aðgengismálum sé sinnt og einnig þarf öllum að vera ljóst hver skal laga það sem út af bregður, hvenær það skal gert og með hvaða hætti. Ef við tökum vefsíðu sem dæmi þá geta aðgengismálin verið í góðu lagi á mánudegi, en með innsetningu á nýju efni og öðrum breytingum getur staðan verið orðin allt önnur nokkrum dögum síðar. Þannig þarf almenn kunnátta á aðgengismálum helst að vera til staðar og einnig þarf ávallt að vera einhver innanhúss sem hefur einhverja sérfræðiþekkingu í þessum málum. Einnig er mikilvægt að aðgengismál séu í hávegum höfð innan veggja fyrirtækja og stofnana vilji þau gera vel í þeim málum, auk þess sem hægt er að innleiða þau inn í fyrirtækjamenninguna.

Aðgengi er mjög vítt hugtak og þar er ekki einungis verið að taka á litavali, stórum texta eða merkingum á hnöppum fyrir skjálestur. Uppsetning og skipulag hefur einnig mikið að segja. Vefsíða með gott skipulag, vel skilgreinda valmynd og skýra uppsetningu gerir fólki almennt auðveldara að verða sér út um upplýsingar og ferðast innan síðunnar og samhliða því má ætla að síðan sé aðgengilegri fyrir alla. Þannig ber að hafa upplifun og ásetning notanda að leiðarljósi þegar kemur að aðgengismálum og þar koma notendaprófanir að gagni. Ef fólki er gert að fara flóknar og langar krókaleiðir til að framkvæma einfaldar aðgerðir er strax búið að hækka flækjustigið.

Að lokum vil ég benda á þá staðreynd að einn af hverjum fimm einstaklingum býr við einhvers konar skerðingu. Við erum því að tala um mjög fjölmennan hóp sem þarf á því að halda að aðgengismálin séu í lagi og margir geta hreinlega ekki athafnað sig án þess. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að allir geti tekið jafnan þátt í samfélaginu og það er með öllu ólíðandi að ætla sér að útiloka 20% fólks, sama hvaða ástæður kunna að liggja þar að baki.

Fjöldi lausna er í boði til að ná fram og viðhalda góðu aðgengi og eru margar þeirra lausna ókeypis í þokkabót. Fjöldi námskeiða, forrita, fyrirlestra og Youtube myndbanda stendur öllum þeim sem áhuga hafa til boða og ég vil því hvetja fólk til að kynna sér málin og hugsa hvernig það getur bætt sín eigin vinnubrögð og breitt út boðskapinn til annarra.

Hjá Blindrafélaginu starfa einnig sérfræðingar í aðgengismálum sem geta aðstoðað við ýmis mál og veitt frekari upplýsingar auk þess sem við getum heimsótt fyrirtæki og stofnanir með fyrirlestra og umræður um aðgengismál. Hægt er að hafa samband við skrifstofu Blindrafélagsins í síma 525 0000 eða á netfangið adgengi@blind.is.

Nánar um aðgengi: Hér má sækja virkilega vel framsett plaköt á ensku þar sem ýmsar þarfir mismunandi hópa eru teknar fram í „Do and don‘t“ formi. Skoða má aðgengisplaköt hér: https://github.com/UKHomeOffice/posters/blob/master/accessibility/dos-donts/posters_en-UK/accessibility-posters-set.pdf

Höfundur: Hlynur Þór Agnarsson, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins

Skoðað: 725 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála