Skip to main content
26. ágúst 2021

Framtíð fortíðar

Inga Ingolfsdottir myndHér ætla ég að skoða hugmyndir um tækniþróun í gegnum tíðin með hliðsjón af stöðu mála í dag og núverandi framtíðarsýn. Ég nýtti mér valdar heimildir frá árunum 1990-2000 en einnig nýlegri umfjöllun um efnið. Gera má ráð fyrir því að ýmislegt hafi ræst og annað alls ekki. Óhjákvæmilega dettur mér í hug Y2K vandinn svokallaði, sem nánar verður greint frá hér fyrir neðan, ásamt öðrum heimsendaspám og vísindaskáldskap en ég mun líka leitast eftir því að skoða hvað sannspáir höfðu að segja og hvað þykir í dag líklegt eða ólíklegt að verði í náinni framtíð.

Hættan við hræðsluna

Eitt umtalaðasta vandamál sem upp kom á sviði tækniþróunar í aðdraganda aldamótanna síðustu hefur verið kallað Y2K. Málið var ekki umtalað vegna þess að fagmenn í upplýsingatækni hefðu miklar áhyggjur af því. Vandamálið var viðráðanlegt og í flestum tilfellum mátti leysa það með einfaldri uppfærslu. Aftur á móti var talin raunveruleg hætta á því að ótti almennings vegna yfirvofandi heimsendis gæti orðið vandamál í sjálfu sér, og valdið örvæntingu, hömstrun á vörum, og/eða áhlaupi á banka, líkt og þegar djúpar kreppur hafa verið í aðsiglingu eða þegar almenningur hefur af einhverjum ástæðum misst trú á kerfinu.

Á netinu má finna ótal söfn og samantektir af fréttaflutningi þess tíma sem í mörgum tilfellum einkenndist af hræðsluáróðri og spurningum á borð við „Will planes fall from the sky?“, en þeirri spurningu kastaði fréttamaður fram í myndbroti sem áhugamaðurinn Dan Wood tók saman í tilefni 20 ára afmælis aldamótanna (The Y2K Millennium Bug 20th Anniversary - Was It a Real Danger? - YouTube, e.d.).

Ætli taki því að læra á þetta?

Ein stórskemmtileg grein úr 4. tölublaði Tölvumála frá árinu 1990 (Tölvumál - 4. Tölublað (01.05.1990) - Tímarit.is, e.d.) fjallar um Markvissari rekstur með upplýsingatækni. Greinarhöfundur leggur áherslu á mikilvægi þess að þvinga ekki fólk til breytinga heldur kynna þær á varfærnislegan hátt og passa að það náist samstaða með rökréttri skynsemi. Einnig er minnst á að til þess að ná straumlínulöguðum framförum þurfi að nýta tæknina almennilega en ekki yfirfæra gamla ósiði yfir á nýjan vettvang. Þessi varnaðarorð eiga því miður fullan rétt á sér í dag, enda þekki ég af eigin reynslu endurtekin mistök hjá stórum fyrirtækjum, þar sem tekin er ákvörðun um að innleiða nýjan hugbúnað sem á að leysa öll vandamál. En á sama hátt og brennt barn forðast eldinn mæta fyrirtækin mótlæti starfsfólks ef trekk í trekk eru ráðist í innleiðingu hugbúnaðar sem reynist ekki koma að gagni. Mitt mat er að ákveðin atriði þurfi að liggja fyrir og að þeim þurfi að fylgja eftir. Ómissandi finnst mér m.a. eftirfarandi:

  • Að uppsetning sé vönduð frá upphafi, þú byggir ekki gott kerfi á brauðfótum.
  • Að viðeigandi þarfagreining hafi átt sér stað og starfsfólk treysti því.
  • Að fyrirtæki veiti starfsfólki þjálfun og tækifæri til að læra á hugbúnaðinn.
  • Að hugbúnaðurinn sé raunverulega til bóta en ekki trafala fyrir notendur.
  • Að starfsfólk og fyrirtæki raunverulega nýti það sem hugbúnaðurinn hefur uppá að bjóða.
    • Nýti flokkanir, merkingar og lykla til hins ýtrasta frá upphafi.
  • Að áætlanir, venjur og verkferlar séu fyrirfram ákveðnir en ekki öllum leyft að finna sínar eigin leiðir í kerfinu.

Uppáhalds dæmið mitt um mikilvægi þess að nota staðla er óformleg athugun sem fyrirlesari á námskeiði sem ég sat um árið gerði á hópnum.  

Athugunin var á þessa leið:mynd 5

Fyrirlesarinn bað okkur að skrifa niður dagsetningu þess tiltekna dags á blað án þess að skýra það nánar. Fæstir stöldruðu við, flestum fannst þetta hið einfaldasta mál. En það merkilega var að svo til enginn, í 20 manna hópi, skrifaði nákvæmlega það sama. Sumir skrifuðu bara vikudaginn aðrir dagsetningu, á nánast jafn fjölbreyttan hátt og myndirnar hér til hliðar sýna. 

Óþarflega oft hef ég heyrt stjórnanda fyrirtækis lýsa með stjörnum í augum fyrir starfsfólkinu hversu stórkostlegt nýja kerfið sé og telja upp allt það sem sölumaður kerfisins hafði lofað honum að væri í boði, sem stóð flest til boða í gamla kerfinu en var bara ekki nýtt. Svona er stórfé sóað vegna vanþekkingar og fljótfærni. Það er skemmst frá því að segja, að svona stjórnendur njóta sennilega lítils trausts næst þegar þeir rjúka af stað með flumbrugangi í innleiðingu nýs kerfis og ekki er ólíklegt að á kaffistofunni heyrist eitthvað á borð við: „Jæja, enn eitt kerfið. Tekur því eitthvað að læra á þetta eða verður komið nýtt í næstu viku?“.

Það er mjög mikilvægt er að hafa fjöldann með sér í liði þegar ákvarðanir um breytingar eru teknar. Það er fyrir mér lykilatriði að tilvonandi notendur, hvort sem um er að ræða starfsfólk fyrirtækis eða þegna í þjóðfélagi, beri traust til þeirra leiða sem eru farnar. Ef þetta traust er ekki tryggt, skapast tortryggni og ósamstaða sem getur valdið því að kerfi virka ekki vegna þess að kerfin fá ekki tækifæri, óháð gæðum þeirra.

Er framtíðin okkar?

Hvernig held ég að framtíðin verði? Ég tek undir með því sem Bergur Ebbi segir í bók sinni Skjáskot (Bergur Ebbi Benediktsson, 2019) að það sé hálf hrokafullt að fullyrða eitthvað um hvernig framtíðin muni verða, en það má velta vöngum. Mig langar að byrja á dæmi um það sem mér finnst vera reglulega góð þróun og fyllir mig þjóðarstolti sem er Stafrænt Ísland (Markmið | Stafrænt Ísland, e.d.). Yngri kynslóðir landsins og þeir sem hafa ekki búið erlendis gætu mögulega átt erfitt með að gera sér í hugarlund hversu hrópandi gott við höfum það á Íslandi í öllum þeim málefnum sem snúa að samskiptum við hið opinbera. Hvílík forréttindi sem smæð okkar fylgir í þessum málum og hversu hröð þróunin hefur í raun orðið.

Árið 1990 voru heimatengingar glænýjar og fátíðar. Ég stórefast um að margir hafi þá séð fyrir sér fyrir nokkrum árum að fljótlega yrði minnsta mál að sinna öllum helstu erindum, s.s. skattaskýrsluskilum og margs konar umsóknum, á nærbuxunum heima.

Samkvæmt skýrslu hagstofunnar í Hagtíðindum „töldust 96,5% íbúa á Íslandi til „netnotenda““ árið 2013 (Tölvu- og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum 2013, e.d.) og tek ég mér það bessaleyfi að fullyrða að það hlutfall hafi ekki lækkað. COVID ástandið 2020-2021 fleytti okkur svo flýtileiðina langt fram í tímann, ef svo má að orði komast. Við erum í raun komin talsvert lengra en annars hefði orðið varðandi fjarskiptatækni og normalíseringu (e. normalization) á ýmsu sem skömmu áður þótti undarlegt eða óhugsandi, s.s. rafrænir sálfræðitímar og fjarfundir með umsjónarkennurum grunnskólabarna. Við höfum líka rafrænt greiðslumat, millifærslur á símanúmer, vildarkort í formi smáforrita í snjallsímum, rafræn skilríki og svona mætti áfram telja. Hversu mikið meira getum við beðið um?

Eins nema betur?

Framtíðarsýn almennings virðist oftast mótast af ákveðnum hugsunarhætti,  sem takmarkast við endurbætta útgáfa af því sem er nú þegar til. Á 19. öld má til dæmis ímynda sér að framsæknasta framþróun í samgöngumálum sem almenningur sæi fyrir sér væri öflugt fæðubótaefni eða kynbótaræktun á hrossum. Fæstir hefðu sennilega getað spáð fyrir um uppfinningu vélknúins ökutækis, hvað þá um að hlutverk hrossa myndi í náinni framtíð breytast úr þarfasta þjóninum í lúxus-leikfang.

Ef við höldum okkur við samgöngumál sjáum við á hliðstæðan hátt nær undantekningarlaust manneskjur eða manneskjulegan einstakling (e. humanoid) við stýrið á farartækjum í vísindaskáldskap og framtíðarspám en í dag er allt kapp lagt á að sjálfvirknivæða akstur þannig að vélar geti leyst hold af hólmi. Þó þarf að útkljá ýmis siðferðismál áður en sjálfkeyrandi ökutæki taka alfarið við flutningi. Hver tekur ábyrgð á slysi,  framleiðandi ökutækisins, eigandinn, eða sá sem skipuleggur umferðina? Hvaða forgangsröðun viljum við forrita í vélarnar? Viljum við vernda farþega ökutækisins eða gangandi vegfarendur? Fórna þeim sem er í rétti eða fjórum börnum? Stöðvast ökutækið ef ekið er á dýr? Hvernig dýr? Bara gæludýr? Stór dýr? Spendýr? Fugl? Skordýr?

Svo þarf líka að muna eftir praktískum atriðum á borð við hvort yrði ómögulegt að komast á stað sem væri ekki kortlagður? Þetta eru mikilvægar spurningar sem við verðum að fá svör við til að tækniþróunin geti haldið áfram, eða hvað? Kannski eru þetta mál sem hafa engar réttar lausnir og við endum með því að spila bara eftir eyranu og löggjöfin fylgir svo bara þegar þar að kemur.

Fantasían

Fyrsta þáttaröðin af teiknimyndunum Futurama (West o.fl., 1999) var gefin út árið 1999 og fjallar um mann á þrítugsaldri sem býr í New York og slysast í frerageymslu (e. cryogenic freezing) 31. des 1999 en vaknar aftur á aldamótunum 2999 – 3000. Við honum blasir veröld sem má segja að endurspegli villtustu drauma handritshöfundanna, en í fljótu bragði má nefna fljúgandi bíla og geimskip (ekki sjálfkeyrandi) sem hversdagslegan ferðamáta, þrýstiloftsrör (e. pneumatic tube) sem minna á flókið leiðakerfi sem þótti sennileg framtíð áður en internetið kom til sögunnar. Þessu er skemmtilega lýst í greininni The golden era of the pneumatic tube — when it carried fast food, people, and cats (Edwards, 2015), stórir skjáir út um allt, markaðssettar vörur sem birtast fólki í draumi og viðbótarveruleiki (e. augmented reality) í speglum mátunarklefa sem lætur fólk líta betur út, lífaldur fólks langt yfir 100 ár.

Eðlilega eru allir orðnir samdauna þeim undraverða veruleika sem þeir búa í, en forfeðurnir fá á sig mikla gagnrýni vegna þeirra vandamála sem við glímum við á 21. öldinni, s.s. hnattræna hlýnun, mengun og úrgang.  En í framtíðinni dreymir okkur að sjálfsögðu um að búið sé að leysa allt þetta vesen… Þótt þessi tiltekna teiknimynd hafi reyndar leyst vandann með því að finna ísplánetu sem var hægt að höggva risastóran mola úr og sleppa í sjóinn, sem varð til þess að hitinn lækkaði niður í ákjósanlega gráðu… leyfum þeirri lausn að liggja milli hluta í bili.

Annað sem greip strax augað var að fyrstu kynni aðalpersónunnar við aðila í framtíðinni eru við geimveru sem ætlar að skanna hann til að úthluta honum tilgangi og ætlar að sprauta hann með tilheyrandi flögu sem ætlast er til að sé notuð sem einskonar skilríki. Geimveran virðist ekki draga sinn eigin tilgang í efa enda hafði henni verið úthlutað þessu starfi og hún aldrei gert annað.

Eitt af því sem mér finnst einkennaframtíðaskáldskap frá tíunda áratugnum hversu sterkur samrómur er í öllu þessu efni varðandi löggæslu. Helst langar mig að nefna kvikmyndirnar Judge Dredd (Cannon o.fl., 1995) sem á að gerast árið 2139 þegar New York er orðin að Mega-City-One, RoboCop 2 (Kershner o.fl., 1990) sem á að gerast u.þ.b. 2070 og hinni ógleymanlegu Total Recall (Verhoeven o.fl., 1990) sem á að gerast 2084.

Lokaorð

Eins og áður sagði finnst mér ákveðin firring að spá nákvæmlega fyrir um framtíðina. Það virðist vera innprentað í eðli mannsins að finnast allt venjulegt í samtímanum, allt vitleysa sem áður var, og framþróun tækninnar tortryggileg. Miðað við umhverfið í dag finnst mér þó harla líklegt að eftirlit muni halda áfram að aukast og jafnvel færast meira yfir í flygildi eða staura sem er ekki hægt að deila við, heldur þurfi bara að framvísa kóða til staðfestingar um persónu og tilskilin réttindi til að fá aðgengi að ákveðnum svæðum. Við sjáum þetta nú þegar á götum stórborga þar sem íbúar eru orðnir vanir því að löggæslumenn standi á götuhornum og fái að leita í töskum eða biðji um bólusetningarvottorð með löggildum skilríkjum. Þar eru líka víða eftirlitsmyndavélar með skönnum sem skrá og rekja andlit vegfarenda. Við þurfum að vera meðvituð um þetta vegna þess að með óbreyttri stefnu gætum við flest enda í ópersónulegum ofur-borgum þar sem refsivert er að láta ekki leita á sér.

Höfundur: Inga Ingólfsdóttir nemi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

Anderson, M. og Anderson, S. L. (2011). Machine Ethics. Cambridge University Press. http://ebookcentral.proquest.com/lib/reykjavik/detail.action?docID=691859

Bergur Ebbi Benediktsson. (2019). Skjáskot. Mál og Menning.

Cannon, D., Stallone, S., Assante, A. og Schneider, R. (1995, 21. júlí). Judge Dredd [Action, Crime, Sci-Fi]. Hollywood Pictures, Cinergi Pictures Entertainment, Edward R. Pressman Productions.

Edwards, P. (2015, 24. júní). The golden era of the pneumatic tube — when it carried fast food, people, and cats. Vox. https://www.vox.com/2015/6/24/8834989/when-the-pneumatic-tube-carried-fast-food-people-and-cats

Kershner, I., Weller, P., Allen, N. og Bauer, B. (1990, 12. október). RoboCop 2 [Action, Crime, Sci-Fi]. Orion Pictures, Tobor Productions.

Markmið | Stafrænt Ísland. (e.d.). Sótt 29. júlí 2021, af https://island.is/s/stafraent-island/markmid

The Y2K Millennium Bug 20th Anniversary - Was It a Real Danger? - YouTube. (e.d.). Sótt 29. júlí 2021, af https://www.youtube.com/watch?v=2x27GNNekAQ&ab_channel=DanWood

Tölvu- og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum 2013. (e.d.). 28.

Tölvumál - 4. Tölublað (01.05.1990) - Tímarit.is. (e.d.). Sótt 28. júlí 2021, af https://timarit.is/page/2361378?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/t%C3%B6lvum%C3%A1l

Verhoeven, P., Schwarzenegger, A., Stone, S. og Ironside, M. (1990, 27. júlí). Total Recall [Action, Sci-Fi, Thriller]. Carolco Pictures, Carolco International N.V.

West, B., DiMaggio, J. og Sagal, K. (1999, 21. september). Futurama [Animation, Comedy, Sci-Fi]. The Curiosity Company, 20th Century Fox Television, Fox Television Animation.

Skoðað: 607 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála