Skip to main content
20. janúar 2022

Þróun samfélagsmiðla

SigurdurHvenær byrjaðir þú á samfélagsmiðlum? Manstu það? Fyrir einhverja þá var MySpace fyrsti samfélagsmiðillinn, en Facebook tók fljótlega við og náði gríðarlegri útbreiðslu á afar skömmum tíma.

En hvenær byrjaði þetta allt saman? Árið 1997 kom fyrsti samfélagsmiðillinn fram á sjónarsviðið, að nafni SixDegrees. Um þetta leyti voru innan við 2% mannkyns tengd internetinu og því voru notendur þessa samfélagsmiðils ekki ýkja margir. Það var svo nokkrum árum seinna sem allt fór á flug og mismunandi samfélagsmiðlar spruttu upp eins og gorkúlur. Sumir slógu í gegn en aðrir ekki. Einn af þessum miðlum var MySpace sem var stofnaður árið 2003 og var hann um tíma stærsti samfélagsmiðill heims. Fjöldi notenda varð mestur árið 2008 þegar rúmlega 70 milljón manns voru skráðir notendur. Helsti samkeppnisaðili MySpace á þessum tíma, var miðill að nafni Friendster sem svipar mjög til fyrstu útgáfu af Facebook en MySpace var nokkuð fljótur að taka fram úr honum í vinsældum. Helsta ástæða vinsældanna voru notendavænar nýjungar, notendur gátu til að mynda uppfært útlitið á sinni síðu, raðað vinum eftir vinsældum og sett tónlist inn á síðuna sem endurspeglar persónuleikann, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Nýr stafrænn veruleiki

Það var svo árið 2004, einu ári eftir að MySpace var stofnað sem Facebook kom fram í sinni fyrstu mynd, undir nafninu The Facebook. Miðilinn var á þessum tíma tileinkaður háskólanemum í Harvard, sem eins konar innri vefur þar sem nemendur gátu tengst hver öðrum og sent skilaboð sín á milli. Miðillinn varð svo gríðarlega vinsæll í Harvard að það spurðist út og fleiri háskólar fengu aðgang að Facebook á næstu tveimur árum. Þann 26. september 2006 var Facebook opnað fyrir almenningi; hver sem er, hvar sem er í heiminum sem hafði náð 13 ára aldri og hafði löglegt tölvupóstfang, gat skráð sig sem notanda. Tveimur árum síðar voru virkir mánaðarlegir notendur orðnir 100 milljónir, og tveimur árum eftir það, árið 2010, voru þeir meira en 500 milljónir.

Þarna var á mjög skömmum tíma orðinn til nýr stafrænn veruleiki. Aldrei áður hafði samfélagsmiðill haft jafn marga notendur, og það sem meira er, haft jafn mikil áhrif á líf notenda sinna í raunheimum. En hvað gerðist eiginlega og hvernig tókst Facebook að fá næstum tífalt fleiri notendur en Myspace á aðeins fjórum árum?

Mynd 1

Mynd 1. 

Með netið í vasanum

Það hefur líklega skipt sköpum að Mark Zuckerberg færði hægt út í kvíarnar í byrjun og þjónustaði eingöngu háskólanema. Það var mikilvægur tími í þróunarvinnu sem varð til þess að þegar Facebook kom loks fyrir almenningssjónir var vefurinn léttur og auðveldur í keyrslu, sem gerði biðtíma stuttan og alla notendaupplifun mjög góða. Facebook lagði aukna áherslu á samtal notenda, sem hefur líklega haft úrslitaáhrif á að notendur veldu Facebook fram yfir Myspace. Á Facebook varstu ekki með sérstakan bakgrunn á síðunni þinni og lög sem þú taldir túlka þína persónu - þú skilgreindir þig einungis með nafninu þínu og hvað þú sagðir, á eigin síðu og í samtölum á veggjum vina þinna.

Það voru líka tæknilegar ytri aðstæður sem urðu þess valdandi að samfélagsmiðlar, og þá sérstaklega Facebook, blómstruðu svo hratt á þessum örfáu árum sitt hvoru megin við 2010. Í rauninni eiga flestir samfélagsmiðlar sem við notum í dag uppruna sinn á þessum tíma, Twitter 2006, Instagram 2010 og Snapchat 2011. Þar vó örugglega þyngst snjallsímavæðingin sem margfaldaði veftíma hjá ört stækkandi hóp á Vesturlöndum sem var nú í raun sítengdur allan sólarhringinn og með internetið í vasanum.

Fólk elskar fólk

Þá eins og svo oft áður kom það í ljós að það sem fólk hefur mestan áhuga á internetinu er ekki fróðleikur, afþreying eða brandarar – heldur annað fólk! Fólk hefur áhuga á vinum sínum, kunningjum, fyrrverandi kærustum, vinnufélögum, fjarskyldum ættingjum, skólafélögum úr grunnskóla og vinkonum mömmu sinnar. Við viljum fylgjast með lífi þessa fólks, forvitnast um skoðanir þeirra á mönnum, listum og stjórnmálum og eiga í samskiptum við það – það var þessi eftirspurn sem Facebook svaraði betur en nokkuð annað og gerði samfélagsmiðlinum kleift að stækka á áður óþekktum hraða á upphafsárunum.

Stjórnendur Facebook voru auk þess klókir að kynna snemma til leiks möguleika miðilsins í markaðssetningu. Strax árið 2007 voru meira en 100.000 fyrirtæki komin með Facebook-síður.

Facebook var í raun byltingarkennd nýjung í markaðssetningu fyrir smá og meðalstór fyrirtæki. Kerfið var einfalt í notkun og engin þörf fyrir milliliði eins og birtingahús, og birtingarnar mun ódýrari en áður hafði þekkst í útvarpi, prenti og sjónvarpi. Birtingarnar voru svo ekki bara ódýrari heldur líka betri, og hægt að nánast klæðskerasauma þær að þröngt skilgreindum markhópum og engum öðrum.

Árið 2020 voru heildartekjur Facebook af auglýsingasölu 84 milljarðar dollara og meirihluti þeirra, um 50 milljarðar, voru vegna birtinga í snjalltækjum. Frá árinu 2009 hefur miðillinn alltaf skilað hagnaði en á árinu 2020 var hann um 30 milljarðar dollara, eða 3.840 milljarðar íslenskra króna.

Twitter kemur úr nokkuð annarri átt heldur en hinir stóru miðlarnir og var í byrjun eins konar snertiflötur milli GSM-síma og internetsins fyrir örstutt skilaboð í rauntíma um málefni líðandi stundar. Árið 2007 kynntu þeir myllumerkið til leiks, til að flokka og halda utan um brotakennda umræðu á mörgum stöðum, og byrjuðu árið 2010 að nota það til að koma auga á heit eða „trending“ málefni ámiðlinum.

Mynd 2

Mynd 2.

Minna bull, meira myndefni

Instagram var stofnað árið 2010 þar sem helsti tilgangurinn var að deila myndum sem notendur tóku sjálfir. Helsti drifkraftur miðilsins var efnissköpun notenda hans, sem tóku nýjungum eins og filterunum fagnandi. Facebook keypti Instagram á milljarð dollara árið 2012 og eftir það varð vart við ákveðna værukærð og stöðnun hjá þessum risa á markaði. Snapchat komu ferskir inn á markaðinn 2011 með nýjungar eins og myndbönd sem eyðast eftir að horft hefur verið á þau og „sögur“ sem eyðast að sólarhring liðnum. Facebook reyndi að kaupa Snapchat á þrjá milljarða dollara árið 2013 en var hafnað, en voru þá orðnir meðvitaðir um ógnina. Þá var mikil innspýting sett í nýsköpun á Instagram og breytingar og þróunarstarf er þar nú mun öflugra en áður, Instagram voru til dæmis mjög fljótir að koma sér upp „reels“ sem mótsvari við TikTok.

Eftir rúman áratug af ráðandi stöðu í fjölmiðlalandslagi samtímans eru samfélagsmiðlar og það hvernig fólk notar þá að taka róttækum breytingum. Í stað þess að opna okkur fyrir framan allan heiminn, eins og við gerðum í upphafi á Facebook-veggjum, tjáum við okkur frekar í einkaskilaboðum, lokuðum Facebook-hópum um sértæk áhugamál eða með því að senda myndir af börnunum okkar gegnum Snapchat. Efnissköpun notenda er að verða meira „real“, við sjáum betur með tímanum í gegnum glansmyndina og hið fullkomna líf áhrifavalda og fögnum fjölbreyti- og breyskleikanum í flóknu lífi nútímamanneskjunnar. Við pössum betur upp á persónulegar upplýsingar sem við deilum og friðhelgi einkalífsins er okkur ofar í huga eftir Cambridge Analytica skandalinn. Fólk hefur mun minna umburðarlyndi fyrir bulli og falsfréttum, sem og að samfélagsmiðlar láti slíkt vaða uppi óáreitt. Facebook er til dæmis farið að styrkja félagasamtök sem berjast gegn upplýsingaóreiðu með ókeypis auglýsingum.

Ef við horfum til framtíðar er ljóst að „stories“, „reels“ og annað myndbandsefni verður sífellt oftar fyrir valinu á kostnað ritaðs máls. Fólk hefur almennt minni þolinmæði fyrir lengri textum og algóritmi samfélagsmiðlana verðlaunar myndbönd með mestri dreifingu. Raddstýrðar leitir skipta sífellt meira máli og kaup Facebook á Oculus er sterk vísbending um að stærsti samfélagsmiðillinn hyggi á landvinninga í sýndarveruleikanum á allra næstu árum. Auk þess eigum við eftir að átta okkur til fulls á möguleikanum sem felast í 5g.

Höfundur: Sigurður Svansson, stofnandi og eigandi SAHARA

Skoðað: 494 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála