Skip to main content
27. janúar 2022

Getum við hætt á Facebook?

Atli TýrHæ. Ég heiti Atli og ég er Facebookfíkill.

Eða… ég er kannski ekki fíkill. Viðvera mín þar hefur snarminnkað síðustu eitt til tvö árin eða svo. Notkun mín hefur líka breyst frá því sem hún var í upphafi. Ég þarf ekki lengur að tjá mig á samfélagsmiðlum á hverjum degi. Oft líða dagar eða vikur á milli þess sem ég segi frá merkilegum og ómerkilegum hlutum sem gerast í lífi mínu. Ég þarf ekki að segja frá hverju einasta hóstakasti sem ég fæ, tjá mig um atburði líðandi stundar á hverjum degi eða segja hvað ég borðaði í morgunmat. Og stundum sleppi ég því að opna Facebook í einn eða tvo daga, jafnvel í heila viku. Á undanförnu ári hef ég mest komist upp í tíu daga í röð án Facebook. Hugur minn leitar samt alltaf þangað aftur.

Ég hef stundum velt því fyrir mér að hætta á Facebook. Því mér finnst það ekkert skemmtilegt lengur, a.m.k. ekki eins og það var fyrstu árin. Árið 2018 hafði tæplega þriðjungur Íslendinga hugsað um það sama undanfarna tólf mánuði.[1] En það er ekki svo einfalt að hætta. Aðgerðin sjálf er vissulega einföld. Það þarf bara nokkra músarsmelli til að loka reikningnum fyrir fullt og allt. En erum við tilbúin að ganga svo langt?

Samfélag mannanna

Við tilheyrum alls konar hópum. Bæði í raunheiminum og stafræna heiminum. Gamlir skólafélagar hópa sig saman og skipuleggja endurfundi. Foreldrar skipuleggja félagsstarf fyrir börnin sín með hjálp samfélagsmiðla. Húsfélagið er með sinn eiginn Facebook-hóp. Ættingjar eru saman í Facebook-hópum. Við tökum þátt í alls konar félagsstarfi sem krefst þess að við hittum fólk reglulega: saumaklúbbum, kórum, björgunarsveitum, lúðrasveitum, íþróttafélögum, lestrarklúbbum, hlaupahópum, svo fátt eitt sé nefnt.

Á milli funda eða æfinga spjöllum við saman í þessum hópum á Facebook. Við deilum sögum, tenglum og efni sem okkur finnst ástæða til að leyfa öðrum hópmeðlimum að sjá. Partý og árshátíðir eru skipulögð í þessum hópum. Við fáum upplýsingar um hvenær við þurfum að greiða inn á utanlandsferðina sem hópurinn er að fara í, eða borga fyrir matinn á árshátíðinni.

Og svo eru það allir viðburðirnir sem okkur er boðið á og þurfum að mæta á – eða að minnsta kosti láta vita að við mætum kannski. Allir tónleikarnir, leiksýningarnar, fundirnir, myndlistarsýningarnar, afmælin, brúðkaupin, árshátíðirnar, mótmælin á Austurvelli, starfsmannapartýin – og svona mætti áfram telja. Hvar eigum við að fylgjast með öllum þessum viðburðum ef stígum út úr heimi Facebook? Hvað verður um okkur ef við stígum út úr þessu samfélagi mannanna?

Hótel Kalifornía

Grunnhugsunin með Facebook og öðrum samfélagsmiðlum er falleg: Að auðvelda samskipti milli manna og hjálpa okkur að tengjast hvert öðru, jafnt í stafræna heiminum sem í þrívíddarheiminum. Það er snilld að geta fylgst með gömlum og nýjum vinum og það alveg ókeypis. Það er líka frábært að geta skipulagt viðburði og samkomur með svona einföldum hætti.

Facebook á líka sínar dökku hliðar. Alveg eins og þrívíddarheimurinn. Til dæmis allt dægurþrasið og bullið. Glæpamenn selja þar þýfi, reyna að svíkja af okkur fé eða fylgjast með hverjir eru að heiman til að skipuleggja innbrot. Og svo eru það allar falsfréttirnar og röngu upplýsingarnar.

En forsvarsmönnum fyrirtækisins hefur samt tekist að heilaþvo okkur. Þeir vilja að við dveljum þar sem lengst.

Mér verður hugsað til Facebook þegar ég  hlusta á textann við Hotel California með hljómsveitinni Eagles.

Við erum fangar á Facebook, okkar eigin tækja og tóla. („We are all just prisoners here, of our own device“). Ef við skráum okkur út erum við að reyna að drepa partýið á samfélagsmiðlinum. En við getum ekki drepið sjálft skrímslið. („They stab it with their steely knives, / But they just can't kill the beast“).

Við getum skráð okkur út hvenær sem við viljum, en við getum aldrei hætt. („You can check-out any time you like, But you can never leave!“) Líta má á Facebook sem okkar nýja guð, sem segir okkur frá því sem er að gerast í kringum okkur. Og við tímum ekki eða þorum ekki að afneita honum af ótta við að missa af öllu saman.

En þótt þú gleymir guði, þá gleymir guð ekki þér. Því netið gleymir engu. Facebook geymir alltaf einhverjar upplýsingar um okkur þó við eyðum reikningnum okkar þar. Það vill ekki slíta sambandinu þótt við viljum það.[2]

Hvernig eigum við að hætta?

Það eru til ýmsar leiðbeiningar og ráðleggingar um hvaða skref við getum tekið áður en við lokum reikningnum[3]. Hér er samantekt eða sambræðingur úr slíkum leiðbeiningum, auk atriða sem ég mundi hafa í huga. Við getum farið eftir þessum atriðum. En við getum líka bara horfið þaðan án þess að láta nokkurn vita.

  1. Láttu vini þína sem þú vilt eiga í samskiptum við vita að þú ætlir að loka reikningnum. Þau geta þá gert ráðstafanir til að hafa samband við þig með öðrum leiðum. Ef þú tekur þátt í hópa- eða félagsstarfi, láttu þá vita að það verði að hafa samband við þig með öðrum leiðum.
  2. Sæktu gögnin þín. Þú getur þá geymt þau í tölvunni þinni (eða uppi í skýinu), skipulagt minningarnar ef þú vilt og útbúið þinn eigin „Á þessum degi“-lista.
  3. Skráðu hjá þér afmælisdaga sem þú vilt muna, til dæmis í dagatalið í símanum þínum. Þú getur líka notað gamaldags dagbók og penna til þess.
  4. Ákveddu hvort þú vilt nota Messenger-spjallið áfram. Það á að vera hægt án þess að eiga Facebook-reikning, með því að skrá símanúmer vina þinna.
  5. Aftengdu allar innskráningarsíður við Facebook ef þú hefur notað það til innskráningar. Breyttu svo innskráningarupplýsingum á þessum reikningum.
  6. Eyddu Facebook-færslum sem þú vilt ekki að netið geymi að eilífu.
  7. Ef þú sérð um Facebook-síðu fyrirtækisins eða vinnustaðarins þíns, vertu þá viss um að einhver annar taki við henni. Þetta gildir líka um félög eða samtök sem þú skrifar fyrir á samfélagsmiðilinn.

Kostirnir og gallarnir

Ég hef töluvert hugsað um kosti og galla þess að hætta á Facebook. Það hefur verið skrifað mikið um alls konar kosti þess.[4]

Mér líður svo vel þegar ég skrái mig út þaðan. Þá meina ég ekki að loka bara vafraglugganum, heldur að smella á útskráningarhnappinn. Mér líður eins og ég hafi verið með ryksugu- eða borvélarhljóð í kringum mig, sem síðan þagnar. Ég finn fyrir létti. Laus við hávaðann. Það fylgja því ótvíræðir kostir að skrá sig út af miðlunum öðru hvoru og taka sér smá hlé.

Ég get þá einbeitt mér að einhverju öðru í staðinn. Því Facebook er tímaþjófur. Ég hef til dæmis meiri athygli til að sinna vinnunni á vinnutíma. (Það kemur samt stundum fyrir að ég þurfi að skrifa á Facebook undir nafni vinnustaðarins þar sem ég vinn). Utan vinnutímans get ég gripið í bók eða sest fyrir framan sjónvarpið. Eða sinnt vefnum mínum eða skoðað og skipulagt myndasafnið mitt á Flickr. (Já, ég tek ógrynnin öll af myndum, þó ég deili þeim ekki öllum opinberlega). Eða farið í sund eða út í göngutúr.

Útskráning af Facebook verður einnig til þess að áreitið minnkar. Geðheilsan batnar. Stanslausi hávaðinn hverfur af tölvuskjánum. Ég verð ekki eins pirraður, því ég sé ekki allar óþolandi auglýsingarnar eða fréttirnar. Og það besta er að ef ég skrái mig út sé ég ekki umræður virkra í athugasemdakerfum fréttamiðla!

Helsti gallinn sem ég sé við að hætta á Facebook er óttinn við að missa af öllu; verða útundan. Þessi galli er ansi stór. Því það er leiðinlegt að vera skilinn útundan. Ég vil vita af viðburðum sem mér stendur til boða að mæta á.

Hver fer að senda þessum eina úr hópnum skilaboð, tölvupóst eða hringja í hann? Það er alveg nóg að setja tilkynningu á Facebook-síðu hópsins. Það eru allir í honum hvort sem er. Ef þú ert ekki á Facebook missirðu bara af.

Hér hef ég talið upp kosti og galla þess að segja skilið við Facebook. Kostirnir sem ég sé eru fleiri, en gallinn vegur samt þyngra hjá mér, enn sem komið er. Þess vegna hef ég ekki gengið lengra en að skrá mig bara út öðru hvoru. Ég hef ekki ennþá þorað að slíta samvistum við Facebook og eyða reikningnum mínum fyrir fullt og allt. En ég vona að einhvern tímann takist mér að safna nógu miklum kjarki til að láta vaða.

Höfundur: Atli Týr Ægisson, verkefnisstjóri vefmála við Háskóla Íslands

Heimildir:

[1] Fréttablaðið 25. október 2018: Hvað veit Facebook um þig? (http://www.visir.is/paper/fbl/181025.pdf).

[2] De Silva, Matthew. 2019. Thinking about quitting Facebook? Here’s what it’s like: https://qz.com/1776702/thinking-about-quitting-facebook-heres-what-its-like/

[3] Tvær greinar sem ég studdist við: https://mashable.com/article/how-to-delete-facebook-account og https://www.wikihow.com/Quit-Facebook.

[4] Sjá t.d. Vísir, 13. apríl 2021: Getur hjálpað mikið að hætta á Facebook: https://www.visir.is/g/20212096124d.

Skoðað: 512 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála