Skip to main content
21. apríl 2022

Hljóðkirkjan - Viðtal við Snæbjörn Ragnarsson

SnæHlaðvarpsfyrirtækið Hljóðkirkjan var stofnað formlega vorið 2020 og var þá þegar komin með fjóra þætti á dagskrá. Í dag eru 5 þættir sendir út í hverri viku og eru meðal þeirra vinsælustu á landinu, en mest hafa þeir farið upp í 8. Hljóðkirkjan er rekin af bræðrunum Snæbirni og Baldri Ragnarssonum og samþykkti sá fyrrnefndi að svara nokkrum spurningum Tölvumála um þetta spennandi fjölmiðlaform.

SP1: Hlaðvörpin eru orðin mjög áberandi í afþreyingarmenningunni síðustu ár. Heldurðu að þau hafi fundið sér varanlega stað innan hannar?

Já ég held það. Við erum ennþá að slíta barnskónum og smátt og smátt komumst við að því hvað virkar og hvað ekki, en ég hef þá trú að á endanum verði til jafnvægi þar sem hlaðvarpið verður hluti af daglegri fjölmiðlaneyslu enn fleira fólks. Eins og staðan er núna er þetta frumskógur og í raun og veru gengur módelið ekki alveg upp. En það er nú oft staðan með hluti sem slá í gegn áður en strúktúrinn er tilbúinn.

SP2: Hvað telur þú að hafi valdið skyndilegri sprengingu í hlaðavarpa vinsældum? Eru þau að fylla í tómarúm sem aðrir miðlar hafa skilið eftir sig?

Ég held að þetta með tómarúmið sé hluti af ástæðunni. Miðlarnir sem fyrir voru eru orðnir mjög meitlaðir og niðursoðnir. Allt er framleitt eftir einhverjum módelum, þarf að falla inn í ákveðnar tímalengdir, lýtur ákveðinni ritskoðun og eftirliti fjölda fólks úr ólíkum áttum. Það vantaði kannski svolítið upp á framleiðslu einstaklinganna, að fá efnið inn til sín milliliðalaust, hæfilega kærulaust og laust í reipunum. Svo er þetta bara eins og allt annað, það sem gott er lifir af, hitt gleymist og hverfur. Það sem heillar við formið er þessi beina tenging við stjórnendur, hversu laust og eftir þínu eigin höfði allt getur verið, og hráleikinn. Við sjáum þessi áhrif víðar, streymisveitur bjóða okkur orðið þáttaraðir þar sem þættir eru mjög mislangir og allt virðist vera að losna úr forminu.

SP3. Hverjar voru helstu áskoranir við að ýta þessu fyrirtæki úr vör?

Ég hugsa að það hafi ekkert verið svo ólíkt öðrum sprotaverkefnum. Þetta er bara brjáluð vinna fyrir lítinn pening og alltaf einhverjir áfangar handan hornsins. Aðgerðin sjálf, að búa til hlaðvarpsþætti og koma þeim frá sér, er ekki stóra málið. Það er margt sem fylgir og í mörg horn að líta. En við bræður þekkjum þetta ferli ágætlega og mikilvægi þess að seiglast í gegnum það allt. Við vitum mjög vel að það er ekki nóg að semja skemmtilegt lag til að vera í hljómsveit — það er öll vinnan þar fyrir utan sem skilar árangri. Þannig að, helsta áskorunin er eiginlega bara að gefast ekki upp.

SP4:: Sem sjálfstæður miðill er ríkið ekki að standa straum af kostnaði líkt og hjá t.d. hlaðvörpum RÚV. Hvaða áhrif hefur það á starfsemina? Stendur þetta undir sér?

Við höfum látið reyna á þá leið að fá fyrirtæki með okkur og láta auglýsingar þeirra borga brúsann. Og við förum alls ekki leynt með það og segjum mjög opinskátt frá því að þessi fyrirtæki borgi fyrir framleiðsluna til þess að hlustandinn geti hlustað frítt. Þá verður til einhver tilfinning um samvinnu, frekar en harða auglýsingasölu. Og það hefur komið á daginn, fyrirtækin sem vinna þetta með okkur vinglast inn í verkefnin, vilja vera með og njóta samvinnunnar. Þetta er að sjálfsögðu mjög huglægt, en við trúum statt og stöðugt á þetta módel. En hvort þetta standi undir sér? Nei, ekki eins og staðan er í dag — eða í það minnsta erum við alveg á mörkunum. En við vissum að við þyrftum að byggja hægt upp og græja, vinna vinnuna dag frá degi og búa til traustan grunn. Þetta var rétt á mörkum þess að vera gerlegt í byrjun, núna 70 vikum síðar er þetta rétt að detta í að vera þolanlegt og vonandi fögnum við tveggja ára afmæli með tilfinningu um að þetta sé orðið stöðugt. Það er oft talað um tveggja ára brjálæðistímann sem tekur að koma sprotahugmyndum á lappirnar. Mér sýnist það vera tilfellið hjá okkur líka.

SP5: Hefurðu orðið var við einhverjar breytingar á viðtökum fólks frá því þú byrjaðir?

Já, sá ferill er mjög fyndinn og þetta virðist eiga við um allt sem maður gerir og nær ákveðinni hylli. Fyrst verða allir ógeðslega glaðir og þakklátir og taka öllu sem maður gerir óskaplega vel og stappa í mann stálinu. Eftir ákveðinn tíma fær fólk svo á tilfinninguna að það eigi heimtingu á einhverju, að það eigi eitthvað í manni. Og þá hikar fólk ekki við að kvarta og koma með óraunhæfar tillögur. Mér þykir það yfirleitt vera merki um að ég hafi náð árangri með eitthvað, þegar beturvitrungarnir fara að segja manni hvað maður sé að gera rangt. Þá þarf maður líka að muna að 99,9% fólksins er ennþá ánægt og hópurinn hefur aldrei verið stærri.

SP6: Hefur tæknin eitthvað breyst frá því þú hófst að gera hlaðvörp?

Tæknin sjálf er nú ekki flókin — í það minnsta ekki í þessu spjallformi sem við erum mest að nota. Hlaðvarp er auðvitað mjög opið form og allskonar efni aðgengilegt, leikið, mikið klippt og pródúserað og stundum rándýrt. Ef við tökum þetta form sem við leikum okkur með, að opna fyrir hljóðnema og tala um eitthvað áhugavert, þá er tækjabúnaðurinn ekkert annað en hljóðnemar á öðrum endanum og eitthvað sem vistar hljóðið á hinum endanum. Ég held að stóra þróunin sé sú að fólk hefur minna þol fyrir illa hljómandi efni. Og það er gott. Enda þótt fæstir hugsi út í gæðin verður alltaf óþægilegra og þreytandi að hlusta á illa hljómandi efni og sérstaklega finnur maður muninn þegar þátturinn á undan hljómaði frábærlega og allt í einu skellur á manni suð og bergmál. Þannig að, tæknin breytist ekki mikið, en hugsunin gerir það sem og kunnátta fólks. Reyndar mætti benda á að ódýrari og aðgengilegum lausum hefur fjölgað og gæðin batnað þar. Við sem erum í þessu af fullu afli notum þó frekar gamaldags aðferðir, hljóðvershljóðnema, öfluga formagnara og almennileg forrit.

SP7: Hefur tilkoma Covid haft einhver áhrif á vinsældir hlaðvarpa eða hefur fólk jafnt og þétt verið að uppgötva þau?

Covid gerði mjög mikið gott fyrir hlaðvarpið, það er bara þannig. Þessi aukning hefði alltaf átt sér stað en þetta var stökkpallur. Við erum á blússandi siglingu.

SP8: Hversu stór partur af þessu er samspil við hlustendur

Það fer aðeins eftir efnistökum. Við höfum gaman af því að búa til þætti sem fjalla beinlínis um að hafa skoðun á einhverju, tónlist, sögulegum viðburðum eða hversdagslegum hlutum. Þá er samtalið við fólkið sem hlustar ótrúlega skemmtilegt og samfélagsmiðlarnir henta vel þar. Í öðrum tilfellum hentar það ekki. Ég er til dæmis ekki með Facebook-grúppu fyrir skoðanaskipti í tengslum við viðtalsþáttinn minn vegna þess að það væri bara undarlegt að bjóða fólki að tjá skoðanir sínar á hverjum einasta viðmælanda. En Draugar fortíðar, Besta platan og Dómsdagur taka öllum skoðanaskiptum hlustenda fagnandi og stundum hefur umræðan bein áhrif á þættina.

SP9: Hvað er framundan?

Við tökum þetta svolítið bara dag frá degi. Við erum að horfa í kringum okkur eftir húsnæði og betri aðstöðu, en við erum á ágætu róli hvað varðar framleiðsluna. Svo erum við bara opnir fyrir góðum hugmyndum.

SP10: Eitthvað ákveðið sem þér liggur á hjarta?

Hlaðvarpskúltúrinn er afskaplega skemmtilegur og vonandi náum við að byggja hann þannig áfram. Ég er mjög hrifinn af samkeppnisumhverfi þar sem allir vinna saman líkt og við sjáum gerast með litlu brugghúsin og annað slíkt. Ef manneskja drekkur áhugaverðan bjór frá einum kviknar áhuginn á að prófa bjór frá öðrum. Allir vinna saman, barirnir eru með vörur til sölu frá vinabrugghúsum og eru óhræddir við að mæla með vörum frá samkeppninni. Þetta viljum við. Meira hlaðvarp úr ólíkum áttum, gæðastandard og kunnátta sem allir geta nýtt sér, gleði og samvinna. Við erum ekki í keppni heldur vinnur þetta hvert með öðru. Það er auðvelt að prófa að búa til þátt og það er ógeðslega gaman. Mér finnst að allir eigi að prófa.

hljóðkirkjan logo

Skoðað: 546 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála