Skip to main content
28. mars 2022

Hönnunarkerfi

AstaHádegisfundur Ský var haldinn fyrir smekkfullum sal á Grand Hótel Reykjavik þann 23. mars síðastliðinn. Umfjöllunarefnið var hönnunarkerfi og ljóst að áhugi fyrir því efni var mikill. Hildur Björg Hafstein hjá Ríkiskaupum sá um fundarstjórn.

honnun.jpg

Fyrstur var Björgvin Pétur Sigurjónsson frá Jökulá með fyrirlesturinn Hönnunarkefi sem stenst tímans tönn. Björgvin fór aðeins í sögu hönnunarkerfa og benti á að alltaf hafi verið til ferli til að framleiða eftir, sama hver afurðin var.  Slíkt kerfi tryggir að byggt sé á góðum grunni eftir samræmdum aðferðum. Aukinn hraði kallar á kerfi sem bregst við breytingum og geri flókna hluti hratt, rétt og ódýrt. Hann fjallaði svo um hvernig hönnunarkerfi eru byggð upp. Finna þarf hver beinagrindin er og hvernig kerfið lítur út án innihalds. Huga þarf líka að því hvernig vefsíðan er í sinni bestu og verstu mynd. Innihald hennar mun alltaf taka breytingum hvort sem við viljum eða ekki og þá þarf hönnunin að geta séð það fyrir. Hlutir eins og skalanleiki, mismunandi skjástærðir og tæki hafa mikil áhrif. Því þarf að passa að hanna margar útfærslur og fyrst og fremst hugsa um hönnunarkerfi sem starfræna afurð.

Næst kom Guðrún Skúladóttir frá Íslandsbanki með Hönnunarkerfi: Allt sem fær Íslandsbanka til að líta út eins og Íslandsbanka. Guðrún fór með fundagesti í ferðalag Íslandsbanka við að setja upp hönnunarkerfi. Þetta ferðalag hófst árið 2017 þegar öll auðkenni (brand) fyrirtækisins voru uppfærð. Sjálft merkið fékk andlitslyftingu þar sem þunga rauða litnum var skipt út fyrir bjartari rauðan lit sem kemur betur út á skjám. Ný íkon voru gerð og ný lita palleta. Samhliða þessu var útbúinn auðkennisleiðarvísir (brand guide) fyrir fyrirtækið. Næst var farið í þá vinnu að búa til nýjan vef frá grunni. Tekin voru viðtöl við fólk og ný vefstefna mörkuð þar sem markmið, framtíðarsýn og mantra voru skilgreind. Lögð var áhersla á að skilgreina vel raddblæ þess texta sem fer á síðuna til að passa upp á samhengi fyrir alla sem skrifa og hanna efni fyrir hana.

Hönnunin sjálf fór fram í Figma en ekki höfðu allir aðgang að því kerfi enda svolítil vinna að læra á. Í staðinn var allt efni tekið saman inn á svæði hjá þjónustunni Zeroheight. Það er kerfi sem sameinar þá þætti sem fara í sköpun vefsvæðis og gerir notendum kleift að búa til beinagrind. Allir sem koma að verkefninu geta haft aðgang. Það er notendavænt og hægt að tengja það m.a. við Figma og Storybook. Þannig eru Íslandsbanki með allt íkonasafnið í Zeroheight sem og merki bankans og auðvelt að sækja þangað og senda þeim sem þurfa á að halda. Þar eru leiðbeiningar um hvernig á og á ekki að gera hluti. Leiðbeiningar um þarfagreiningu, vinnustofur, notendaprófanir, erkitýpur, hönnunarþætti, liti, letur og margt fleira. Íslandsbanki er núna að þróa nýjan netbanka og nýta sama ferli fyrir hann.

Hönnunarkerfið er opið almenningi og má skoða á design.islandsbanki.is.

Daði Oddberg frá Júní gat ekki verið í salnum en flutti fyrirlesturinn sinn, Jú-níd hönnunarkerfi, í gegnum netið. Daði lagði upp með spurninguna hvort allir þyrftu að hafa hönnunarkerfi. Svarið var já en samt ekki svo einfalt. Góð hönnun er þess virði því hún stuðlar að góðum starfrænum lausnum. Með góðri hönnun er hægt að fara hratt af stað með nýja ferla, stytta þróunartímann, minnka hönnunarskuld og gera allan viðbragðstíma hraðari. En það verður að huga að því að hönnunarkerfin sjálf þurfa að vera skalanleg. Oft getur það orkað tvímælis að hanna öll smáatriði í byrjun og betra er að byrja smátt og bæti við eftir því sem þörfin eykst og nýjar upplýsingar bætast við. Daði spurði svo hvort hönnun væri að drepa sköpun. Ja, hvað er að vera skapandi í hönnun? Er það út frá fagurfræði eða þörfum notenda? Samkvæmt honum leysa hönnunarkerfi vandamálin á skapandi hátt en það fer auðvitað eftir því hversu strangt eða sveigjanlegt kerfið er. Þar kemur 80/20 reglan inn sem dæmi um leið til að bjóða upp á skapandi hönnun. Þá eru ca. 80% af kerfinu hönnuð samkvæmt stöðlum hönnunarkerfisins og 20% sérhönnuð. Þessi sérhönnun þarf svo að passa inn í heildarhönnun en býður upp á sveigjanleika og framþróun. Gott er að finna einhvern meðalveg milli strangs og sveigjanlegs kerfis.

Síðastur á svið var svo Sigmundur Einar Másson frá Verði með fyrirlesturinn Hönnunarkerfi er klárt en hvað svo? Eins og Íslandsbanki fór Vörður í hönnunarferli þar sem allir vefir voru teknir í gegn og endurhannaði út frá einu hönnunarkerfi. Fyrirtækið var farið að reka sig á ósamræmi í efni, lítilli kunnáttu innan fyrirtækisins þar sem mikið af vefvinnunni var unnin af verktökum og hversu mikill tími fór í að gera breytingar og henda á plástrum. Vörður notaðist einnig við Zeroheight og gat sett fram samræmi í hönnun á sínum vefsvæðum sem starfsmenn innan sem utan fyrirtækisins gátu haft aðgang að. Með þessari samræmingu var hægt að tryggja hönnun sem viðskiptavinir þekkja strax, ekki bara á vefsvæðum heldur líka í auglýsingum og öllu útgefnu efni.

Viðkvæðið hafði verið, eins og hjá mörgum fyrirtækjum: „Þarf virkilega þetta hönnunarkerfi, þetta er alltof dýrt og tekur svo langan tíma.“ Það er kemur svo auðvitað á daginn er að með því að fjárfesta í hönnunarkerfi sparar það bæði tíma og peninga þegar fram líður og Vörður mun aldrei aftur vera án hönnunarkerfis.

Nokkrar umræðum sköpuðust í kjölfarið þar sem spurt var út í hvernig hönnunarreglum er framfylgt, hvar mörkin liggja milli sveigjanlegs og strangs kerfis og hvernig koma á í veg fyrir að hönnunin verði flöt og leiðinleg með notkun á formföstu hönnunarkerfi. Svörin við þeim eru svo sem ekki einföld og þetta er stutt og einfölduð samantekt á löngum umræðum: Mikilvægt er að hafa hönnuð með í öllu hönnunarferlinu og útnefna einhvern til að fylgjast með að reglum sé framfylgt. Hvað sveigjanleika varðar er erfitt að finna nákvæma línu en góð hönnunarbeinagrind gefur stoð sem hjálpar upp á að halda honum innan marka. Hann er samt nauðsynlegur svo hönnuður geti bætt við smá kryddi eða breytt ákveðnum þáttum.

Næsti hádegisfundur Ský verður haldinn miðvikudaginn 30. mars kl. 12.00 og kallast „Frá opnum gögnum til viðskiptagreindar“.

Ásta Gísladóttir tók saman.

Skoðað: 448 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála