Skip to main content
4. ágúst 2022

Er vísindaskáldskapur orðinn vísindi?

Karl FridrikssonÞað er stutt síðan að viðhorf sumra sem störfuðu undir regnhlífaheitinu, rannsóknir og þróun, litu niður á hugtök eins og nýsköpun eða vöruþróun (hönnun). Samþætting faggreina fékk ekki mikla athygli undir framangreindu regnhlífaheiti, hvað þá listræn sköpun eða vísindaskáldskapur.

Framfarir samtímans byggjast auðvitað á vísindum, þrotlausum rannsóknum og metnaðarfullum verkefnum. Grunnur að slíkum verkefnum er hins vegar oftar en ekki þrá til að „ná aðeins lengra“ og í sumum tilvikum, nauðsyn þess að leysa áskoranir framtíðarinnar.

Spútnik áhrif svokölluð höfðu til að mynda veruleg áhrif á alla tækniþróun tuttugustu aldar, en þau áhrif má rekja til þess þegar Sovétríkin komu gervitunglinu, Spútnik 1, á braut um jörðu fyrst þjóða árið 1957. Í kjölfarið voru sett lög í Bandaríkjunum um stóraukinn stuðning við menntun í stærðfræði og raungreinum og hvatningu til nemenda um að stunda þessar greinar.

Ein af áhrifamestu yfirlýsingu sem gefin hefur verið út má einnig rekja til Spútnik áhrifanna, yfirlýsingu John F. Kennedy Bandaríkjaforseta árið 1961 um að senda mann til tunglsins og koma honum örugglega til jarðar aftur. Þetta verkefni varð áskorun til margra á ólíkum sviðum og er nútíminn enn að uppskera ávinning þessa á sviði vísinda og tækni. Ávinningurinn birtist einnig í formi nýunga sem einkenna okkar daglega líf og má þar nefna ýmis snjalltæki og tækni á sviði fjarskipta og læknavísinda.

Framtíðin hér áður fyrr

Að spá um framtíðina er ekki nýtt meðal samfélaga. Líklega eitt að því sem fylgt hefur samfélögum alla tíð. Faglegar framtíðarspár í dag byggja hins vegar á mótun ólíkra framtíða (sviðsmynda), þar sem áhrif mismunandi drifkrafta á framvindu mála eru kortlagðir. Þær spegla eigin samtíma, eins og vísindaskáldskapurinn gerir. Einnig koma ólíkar greinar inn í myndina til að fá heilstæða og raunhæfa sýn.

Í frægu samtali árið 1964 fjallaði uppfinningamaðurinn og vísindaskáldið Arthur C. Clarke um framtíðarsamskipti og miðlun heimshorna milli, fimm árum áður en fyrsta frumgerð af netinu varð til. Þar fjallar hann um að í framtíðinni yrðu til „störf óháð staðsetningu“ og hæfni til að vinna hluti yrðu óháð fjarlægðum svo sem í tengslum við lækningar og aðrar þekkingargreinar. Ein frægasta skáldsaga Arthurs C. Clarke var Space Odyssey sem kom út árið 1968 og samnefnd mynd undir leikstjórn Stanley Kubrick. Sú saga, ásamt fjölda annarra vísindaskáldssagna og kvikmynda, hefur haft veruleg áhrif á framþróun mála í gegnum tíðina. Ein af frægustu teiknimyndapersónum vísindaskáldskaparins var Tom Swift, en sögur af honum komu fyrst út árið 1910. Í æsku hreyfst maður af teiknimynda blöðunum af þessum snillingi sem fjallaði um hluti sem taldir voru fjarlægðir og óraunhæfir en sem urðu að hversdagsleika seinna meir.

Mynd1

 Mynd. Vísindaskáldskapur Errós, samruni mannsins við tæknina. Árið 1963.

Þannig hefur vísindakalskapurinn haft hvetjandi áhrif á uppfinningamenn og veitt vísindamönnum innblástur við rannsóknir og þróun nýrra lausna. Hugarflug skáldskaparins hefur ómeðvitað, en stundum meðvitað, samtvinnast inn í vísindaheiminn og verið hvatning við hverskyns rannsóknir.

Ógerlegt verður gerlegt

Margar af framförum undanfarinna áratuga hefðu verið taldar óraunhæfar í samtölum vitrustu manna á nítjándu öld. Hugarórar af verstu gerð. Á þessum tíma var að vísu kominn á sjónarsviðið heimspekilegar hugleiðingar um framtíðina, allt frá bókum eins og Ríkið eftir Platon (380 f.kr.), Utopia eftir Thomas More, og framtíðarskáldsögur eftir höfunda eins og Jules Verne og H. G. Wells. Framangreind rit, ásamt öðrum, eru oft talinn leggja ákveðin grunn að framtíðarfræði nútímans. Einn þekktasti framtíðarhugsuður síns tíma var líklega Leonardo da Vinci (1452-1519), en í verkum sínum samtvinnar hann list, arkitektúr og vísindi.

Hugsuðurinn Gunnar Dal, tilgreinir orðið framtíðarfræði í bók sinni Þriðja árþúsundið. Framtíð manns og heims, sem kom út árið 2004. Gunnar segir: „Ég á von á því að strax í upphafi þriðja árþúsundsins verði mótuð merkileg fræðigrein sem kalla mætti framtíðarfræði.“ Hann nefnir líka hvað hinir virtustu sérfræðingar og athafnamenn hafi verið skeikulir gegnum tíðina um framvindu mála og oftar en ekki lagst gegn nýjungum. Hann nefnir meðal annars setningu eftir frægum prófessor á sínum tíma, Díonysius Larder: „Þið getið alveg eins fengið mig til að trúa því að maðurinn geti einhvern tímann spígsporað um á tunglinu eins og það að hægt sé að komast yfir Atlantshafið á gufuskipi.“ Gunnari var hugleikið þær breytingar sem við gætum vænst á þriðja ársþúsundinu. Hann spyr: „Hvað gerist ef á tuttugustu og fimmtu öld kæmi fram einstaklingur hliðstæður Leonardo da Vinci?“

Þrátt fyrir yfirburða þekkingu á sínu sviði var Gunnar skeikull, í umfjöllun sinni um framtíðarfræði, þar sem sú grein hafið verið mótuð erlendis nokkurn veginn samhliða greinum á sviði stjórnunar og rekstrar. Einnig má segja að við höfum nú þegar átt okkar Leonardo da Vicni, má þar nefna snillinga eins og Ray Kurzwei og Elon Musk.

Hraði framfara í dag er ótrúlegur og fer vaxandi, þökk sé breyttum viðhorfum og samstarfi ólíkra faggreina, stóraukinni getu örgjafa og þar með gervigreindar. Samþætting manns og véla mun fara vaxandi og mun gefa manninum viðbótargetu á ólíkum sviðum.

Er hægt að rannsaka það sem ókomið er?

Félagsvísindagreinin Framtíðarfræði (future studies) er sú grein vísinda sem rannsakar framtíðina. Oft er spurt hvernig hægt sé að fjalla vísindalega um það, sem ekki er til. Framtíðin er jú ekki til, óþekkt, ókomin. Í því sambandi hefur verið bent á að fortíðin er ekki heldur til, liðin, horfin, búin að vera. Samt fjalla yfirgripsmiklar vísindagreinar um fortíðina: mannkynssaga, jarðsaga o. s. frv. Já, en fortíðin hefur raunverulega verið til á einhvern hátt; þess vegna er hægt, með vísindalegum vinnubrögðum, að ná í upplýsingar um það, hvernig fortíðin var. Við höfum minjar frá fortíðinni, bækur, handrit, áhöld, myndir, sem sýna okkur hvernig hún var. Það eru ekki til neinar slíkar minjar um framtíðina. Að vísu eru ekki til minjar um framtíðina, en það er til heilmikið af upplýsingum um framtíðina: fjöldi fæddra barna á hverju ári segir nokkuð nákvæmlega fyrir um fjölda unglinga í öðrum bekk grunnskóla á tilteknu ári; áframhaldandi loftslags- og mengunarvandamál mun valda vaxandi ókyrrð og hörmungum víða um heiminn á næstu áratugum. Breytt aldurskipting samfélaga mun hafa veruleg áhrif á hagræn og samfélagleg viðfangsefni næstu áratugi. Sama má segja um skipan heimsmála, þróun flutninga og ég tala ekki um áhrif ofurgervigreindar á vinnumarkaðinn, menntun og heilbrigðismál. Viljum við vera sem línulegt rekhald í þessari þróun eða nálgast faglega þær breytingar sem framundan eru með aðferðum framtíðarfræða? Nauðsynlegt er að samtvinna framtíðarfræði við hag-, félags- og raungreina, og virða vísindaskáldskap og önnur listform, til að móta enn betri framtíð.

Við virðum fortíðina. Höfum ástríðu fyrir framtíðinni.

Höfundur: Karl Friðriksson, framtíðarfræðingur, forstöðumaður Framtíðarseturs Íslands.

Skoðað: 298 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála