Hver og hver og vill og verður?

26. maí 2022

AM 2Aðgengi að menntun er sífellt að batna um heim allan og þó að COVID hafi dregið úr þróuninni á sumum svæðum þá hefur COVID leitt til aukinnar tækninotkunar á öðrum svæðum sem getur stuðlað að betra aðgengi og jafnvel betra námi og kennslu. Margir hafa lært að nota Zoom og Teams og aðrir kannast við Slack, Asana, and Trello. En það þarf ekki bara tækni og hugbúnað, það þarf menntað fólk sem getur hannað og þróað tæknina og stuðlað þannig að framförum fyrir okkur öll.

Í miðri fjórðu iðnbyltingunni, sem felur m.a. í sér, sjálfvirknivæðingu, stafræna umbreytingu (digitalization), hlutanet (IoT) og ýmsa háþróaða tækni, sjáum við eftirspurn eftir sérþekkingu á tækni sífellt aukast. Þrátt fyrir þetta virðist sem nemendur laðist síður að námi í vísindum, tækni, verkfræði, og stærðfræðigreinum (science, technology, engineering, mathematic, STEM) og á Norðurlöndum virðist fjöldi kvenkyns nemenda í STEM námi hafa dregist saman undanfarið.

Ein af hindrununum sem enn er til staðar hér á vesturlöndum er menningin þar sem hugmyndir um hlutverk kvenna og karla í samfélaginu eru hamlandi og draga úr að því að kynin sæki jafnt í allar greinar. Því miður eru enn í dag eru of margir sem gera ráð fyrir að ákveðnar greinar og verkefni henti betur stelpum en strákum og öfugt. Samfélagslegar væntingar hafa mikil áhrif og móta einstaklinga en geta líka miðlað fordómum áfram til næstu kynslóðar.

Karlmenn hafa sótt meira í menntun og starfsferil í tæknigreinum, STEM greinum (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði). Konur eru aðeins um 28% af vinnuafli á STEM-tengdum sviðum í Bandaríkjunum og þær eru um 33% vísindafólks um allan heim. Konur fá færri rannsóknarstyrki, fá síður stöðuhækkun og eru sjaldnar í stjórnendastöðum en karlar. Eingöngu 22% af þeim sem starfa við hönnun gervigreindar eru konur. Staðan þykir þokkaleg í verkfræði en þó eru konur ekki nema 28% af þeim sem útskrifast úr verkfræði. Og þó að nokkur verkefni, eða átök, hafi verið unnin á síðustu áratugum sem miða að því að auka áhuga kvenna á STEM greinum þá þarf meira til og hér geta foreldrar og kennarar lagt sitt af mörkum.

Foreldrar og aðrir uppalendur gegna mikilvægu hlutverki í að móta skoðanir barna frá fæðingu. Þau koma skoðunum sínum á framfæri bæði meðvitað og ómeðvitað og skapa þannig umhverfi sem mótar börnin og hefur áhrif á sjálfsmynd þeirra, gildi og skoðanir. Þetta mótar þær leiðir sem börnin velja sér síðar meir í námi og starfi. Það er mikilvægt að gefa börnum og ungmennum svigrúm til að uppgötva styrkleika sína eða hvar áhugasvið þeirra liggja, ekki sveigja þau að því sem foreldrarnir telja best eða eðlilegast.

Skólakerfið hefur mjög mótandi áhrif á ungt fólk og þar geta viðhorf oft verið kynbundin, bæði sýnilega og ósýnilega. Námsefnið, verkefnin, umhverfið og framkoma kennara og annara hefur mikil áhrif, allt hefur áhrif og hér eru margir möguleika á að breyta viðfangsefnum og skoðunum með það í huga að auka möguleika nemenda til að finna sitt sérsvið, áhugasvið óháð fyrir fram ákveðnum gildum, ímyndum og fordómum. Fyrirmyndir skipta miklu máli og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um áhrif sín og forðast óviðeigandi staðalímyndir, þeir þurfa að hvetja nemendur sína til að skoða heiminn með opnum huga og hvetja öll börn til að skoða sem flesta möguleika og ekki festast í því sem er talið „viðeigandi“ hverju sinni. Hér þarf einnig að huga að því að ekki öll börn og ungmenni vilja teljast vera stelpa eða strákur en í mínum huga gefur það kennurum enn meiri tækifæri til að sýna börnum að heimurinn er fyrir alla, tækni (eða hvaða grein sem er) hefur ekkert kyn og ætti að vera opin öllum sem hafa áhuga óháð kyni.

Sem betur fer er aðgengi að búnaði, tækni og hugbúnaði orðin meiri með aðstoð netsins, það er því hægt að finna aragrúa af námskeiðum sem kosta lítið eða ekkert. Þetta auðveldar þeim sem eru forvitin að prófa, t.d. forrita hreyfimyndir að öðlast færni á því svið eða að minnsta kosti prófa hvort áhuginn liggi einmitt þar. Skilgreining á kyni skiptir þar engu máli, allir geta prófað sig áfram á mismunandi sviðum.

Það kostar mikla vinnu að breyta viðhorfum og staðalímyndum en upplifun mín er að við séum á réttir braut, sem dæmi má nefna að það virðist hafa tekist að sveigja viðhorf til iðnnáms á betri veg og þá getum við örugglega unnið svipað starf í þágu STEM greina og aukið fjölda vísindamanna, tölvunarfræðinga og verkfræðinga af öllum kynjum. Hér má einnig bæta við listafólki því að oft er bókstafnum A (fyrir Arts) bætt inn í STEM svo úr verður STEAM og með því meiri áhersla lögð á sköpun sem á vel við í vísindum þar sem mikil nýsköpun og þróun á sér stað. Fjölbreytni og samvinna þvert á greinar og kyn er það sem við þurfum að stefna að.

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

Attracting (female) adolescents into STEM studies – where’s the beef? https://www.sefi.be/wp-content/uploads/2019/10/SEFI2019_Proceedings.pdf#page=1123 bls. 1123

 The-Gender-Gap-in-Technology-in-Scandinavia_Full-report.pdf (telenor.com)

In focus: International Day of Women and Girls in Science. https://www.unwomen.org/en/news-stories/in-focus/2022/02/in-focus-international-day-of-women-and-girls-in-science

Computer Science Trends and Trade-offs in California High Schools. Computer Science Trends and Trade-offs in California High Schools - Paul Bruno, Colleen M. Lewis, 2021 (sagepub.com)

STEM Education in Today‘s Society. https://stem.educationtechnologyinsights.com/cxoinsights/stem-education-in-today-s-society-nid-1622.html

What is STEM Education and Why Is It Important? https://www.thestemkids.co/a/blog/what-is-stem-education-and-why-is-it-important

Skoðað: 518 sinnum

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála

Ský - Skýrslutæknifélag Íslands (The Icelandic Computer Society)
480870-0189 | Engjateigi 9 | 105 Reykjavík | 553 2460 | sky@sky.is