Skip to main content
08. september 2022

Eyður

Mynd 1Ég er farinn að vinna fjarvinnu. Ef ekki hefði verið fyrir Covid hefði það sennilega aldrei gerst. Konan mín fékk spennandi starf á landsbyggðinni og ég ákvað að breyta til og fara með. Ég var svolítið hræddur og efins um fyrirkomulagið en allt hefur farið á besta veg. Í stað þess að keyra hálftíma í vinnuna er ég nokkrar mínútur á reiðhjóli þangað sem ég er með vinnuaðstöðu. Þar er þögn, ferskt loft og fegurð fyrir utan gluggann minn.

Landsbyggðin er orðin staður sem ég get búið á og notið allan ársins hring. Þeir sem búa hér fara ekki til Reykjavíkur að óþörfu og ég er farinn að skilja að Reykjavík er ekki eins ómissandi og ég hélt. Það þurfti þetta til að ég sæi það.

Ég leigi á skrifstofuhóteli og þar er kaffivél og góðir félagar sem ég get kjaftað við og borðað með í hádeginu. Ég vinn að vísu ekki með þeim í verkefnum en það skiptir ekki öllu máli. Ef ég ynni heiman frá yrði einveran leiðinleg en svona slepp ég við það.

Það kemur í ljós að póstverslun á Íslandi er orðin mjög góð. Í vikunni þurfti ég ný heyrnartól og þau komu daginn eftir, afhent á skrifstofuhótelið. Jafnvel litlar sérverslanir eru komnar með góðar vefsíður og sendingarkostnaður er oftar en ekki innifalinn. Íbúðarleigan er hressilega lægri en í Reykjavík. Ég er með risastóran skerm og ekki veitir af því nú þarf ég að hafa nokkra auka glugga opna vegna samskipta til viðbótar við þá sem ég forrita í.

Zoom nýtist best fyrir samkomur allra í vinnunni en það sem er gagnlegast dags daglega er forritið Slack. Því svipar til Facebook Messenger en með einum músasmelli er ég kominn í talsamband við þann sem ég er að skrifast á við. Sá möguleiki minnir á skammvalstakkana í gömlu borðsímunum. Facebook gæti ekki sinnt þessu samskiptahlutverki því það er athyglissjúkt og truflar vinnuflæði. Ég vona að íslendingar finni eitthvað heilbrigðara en Facebook til að eiga samskipti með.

Þegar ég deili forritunarglugga með kollega og hlusta á hann í heyrnartólunum er það betra en að vera með honum í herbergi því við sitjum í þægilegum stólum, sjáum vel á okkar skerma og heyrum vel, þökk sé heyrnartólunum. Paraforritun virkar vel svona.

Allar tölvur fyrirtækisins eru komnar í skýið. Ég þarf aldrei að heimsækja tölvu lengur. Ég sendi út docker skrár sem keyra einhversstaðar á sýndarvélum. Sá tími virðist liðinn að ég þurfi að sjá PC tölvu.

Yfirmaður okkar treystir fólki til að vinna enda getur hann vel séð hvernig gengur gegnum "git commit" og miðana sem færast frá vinstri til hægri á "Kanban" töflunni í "Jira" sem sér um að halda utanum það sem þarf að gera og hver er að vinna við hvað.

Ritvinnsla í "Word" hefur vikið fyrir skjölum í kerfum eins og Jira og Confluence. Tölvupósturinn hefur vikið fyrir "Slack" og "Zoom".

Eitthvað búr er að opnast og fólk mun sjá nýja möguleika á því hvernig best er að lifa lífinu. Til hvers eru þessar stóru byggingar með öllum skrifborðunum? Finnst fólki ómissandi að keyra þangað daglega?

Ef ég get búið úti á landi og unnið fyrir fyrirtæki í Reykjavík geta aðrir búið á ströndinni eða við skíða- eða fjallahjólasvæði. Staðir úti á landsbyggðinni geta þróað ferðamennsku fyrir þá sem vill vinna og sjá heiminn á sama tíma og þeir þurfa ekki að vera íslendingar. Þetta fólk þarf mat og gistingu og eitthvað skemmtilegt að gera en það þarf líka góða nettengingu, skrifborð og stóran skerm. Ég myndi ekki fjárfesta í skrifstofuhúsnæði í dag.

Þessar framfarir verða ekki alltaf einskorðaðar við einkafyrirtæki í tölvubransanum. Vonandi verður íslenska ríkið og sveitafélögin svo skynsamlega tölvuvædd að verkefni þeirra sem hafa unnið skrifborðsvinnu fara í sameiginlega gagnagrunna og eru framkvæmanleg hvar sem er á landinu. Við eigum að hlúa að störfum án staðsetningar.

Ég er ekki bjartsýnn á að breytingin gerist hratt. Samkvæmt lögmáli Conways hættir stofnunum til að hanna kerfi sem endurspegla þær í núverandi mynd. Conway tók sem dæmi að ef fjórir hópar skipta með sér að hanna forritsþýðanda mun sá þýðandi þýða forrit í fjórum umferðum.

Það er erfitt að endurnýja sig. Ég vann hjá franskri stofnun sem hafði brennt sig á því að verkefni héldu áfram endalaust og starfsmenn urðu smám saman ómissandi við verkefnin. Stofnunin gerði það að reglu að verkefni og vinnuhópar skyldu leyst upp reglulega og nýir vinnuhópar tækju við þeim.

Einn tölvunarfræðingur í rússneskum banka áttaði sig á því að tölvukerfið sem hann vann við hjá bankanum gerði nánast allt. Útibúin voru að loka og margir starfsmenn voru orðnir óþarfir. Þessi tölvunarfræðingur ákvað að stofna sinn eigin banka sem er lítið annað en tölvuþjónn í skýinu og app. Þessi nýi banki heitir "Revolut" og er dæmi um "Fintech", nýjar stofnanir sem ógna þeim gömlu í fjármálageiranum. Þessi þróun virðist ýta undir þá kenningu sem ég hélt fram áðan, að breytingin muni koma utan frá.

Þetta eru spennandi tímar!

En það eru mög ljón í veginum hjá stjórnsýslunni og er þetta t.d. í lögum um sveitarstjórnir sem samþykkt voru 13. júní 2021: „Þegar nefndarmaður tekur þátt í fundi með rafrænum hætti skv. 3. mgr. skal hann vera staddur í viðkomandi sveitarfélagi eða í erindagjörðum innan lands á vegum þess.". Gott að vita að búið er að girða fyrir að sveitarstjórnarmenn stelist til að sækja fundi rafrænt í einu sveitarfélagi á meðan þeir eru staddir í öðru. Aldrei að vita hvaða afleiðingar það gæti haft.

Frétti líka að landlæknir lagðist gegn öllum læknisskoðunum í gegnum síma eða fjarfundabúnað því einhver gæti legið á hleri. Vona að þetta sé ekki rétt.

Höfundur skrifar undir dulnefninu Eyður

Skoðað: 353 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála