Skip to main content
1. september 2022

Vefhönnun og siðfræði við hönnun þjónustu- og tæknilausna

fyrirlesarar 2214H f1c5a285Flest notum við vefinn til að fylgjast með því sem er að gerast í okkar nánasta umhverfi og í samfélaginu öllu og finnst alveg sjálfsagt að geta notað allt sem þar er að finna. Í Covid faraldrinum komust flestir á bragðið með að nota vefverslun og þjónustu, afþreyingu og upplýsingaleit. Þeir sem ekki kunnu að fylla út hin ýmsu eyðublöð og panta tíma í ýmiskonar þjónustu lærðu það skjótt, en ekki allir því að aðgengi var ekki fyrir alla. Hvernig er hönnunin á bakvið alla þessa möguleika, allt sem við notum á netinu? Er verið að hugsa um lausnir fyrir alla eða ákveðna hópa? Er hægt að vera með algilda hönnun eða er það skylda? Þetta og margt fleira var rætt á góðum hádegisfundi Ský 31. ágúst sl. þar sem haldnir voru fjórir efnismiklir og mjög áhugaverðir fyrirlestrar sem verða raktir lauslega hér.

Fyrstur var Páll Rafnar Þorsteinsson frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands með erindið Sjálfstætt fólk og vefarinn mikli. Páll byrjaði á að ræða hvað felst í því að vera frjáls og talaði um neikvætt frelsi og jákvætt frelsi og vísaði í Berlin sem sagði frelsi felst í að vera: „hugsandi vera…ábyrg fyrir vali mínu og þess megnug að útskýra það með hliðsjón af eigin gildum og markmiðum“. Hann útskýrði hnipp (nudge) og torfærur (sludge) sem eru nýttar í hönnun ákvarðanaumhverfis og tengjast því vefhönnun sem stýrir notandanum í gegnum margskonar ákvarðanir. Einnig ræddi hann um myrk mynstur (dark patterns) þar sem verið er að þvinga, stýra eða villa um fyrir notendum, m.a. með tálmun, upplýsingaofgnótt, tímapressu, skorti, villandi leiðbeiningum og þvinguðu vali. Hann ræddi hættur á vefnum, s.s. hraða ákvarðanatöku, óljós mörk og ósýnilega tækni og hversu berskjölduð við erum gagnvart ákvarðanaumhverfinu og stýrðu vali. Hann lagði áherslu á að vefhönnuðir yrðu að horfa til afleiðinga af sinni hönnun, skyldu gagnvart notendum, eigin dygða og færni notenda.

Næst var Ástríður Stefánsdóttir frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og kallaði hún sitt erindi sitt Hvers vegna skiptir algild hönnun máli? Ástríður lagði áherslur á hindranir og algilda hönnun. Hún benti á margskonar hindranir, s.s. í byggingum, í hönnun húsgagna, sálrænar hindranir og netstýrðar og hvernig hindranir hafa áhrif og eru notaðar til að skipta fólki í hópa og aðskilja það. Algild hönnun er leið til að brjóta niður þennan aðskilnað og greiða öllum leið að gæðunum. Hún benti einnig á hvernig hindranir geta verið notaðar til góðs, s.s. til að stýra biðröðum á flugvöllum og umferð með ljósum. Hún benti á að margar hindranir eru ósýnilgat og þeir sem eru í veikri stöðu verða undir í samkeppninni því hindranir eru of margar. Félagslegt réttlæti, fötlunarfræði og hönnun voru henni ofarlega í huga enda tengist það algildri hönnun. Algild hönnun er skilgreind sem ferli sem hvetur og valdeflir ólíka þjóðfélagshópa með því að bæta getu þeirra, heilsu og vellíðan ásamt því að tryggja þátttöku allra (Steinfeld & Maisel). Algild hönnun skiptir máli til að tryggja mannréttindi, til að viðurkenna fjölbreytileika mannlífsins og aðgengi að gæðum samfélagsins og greinir hindranir með það að markmiðið að ryðja þeim úr vegi. Í lokin brýndi hún fyrir vefhönnuðum að fá upplýsingar frá fjölbreyttum notendahópum til að tryggja gæði og aðgengi.

Þá var komið að Ingu Björk Margrétar-Bjarnadóttir frá Þroskahálp með fyrirlesturinn Ný veröld: hindranir og áskoranir fatlaðs fólks í stafrænum heimi. Inga byrjað í á að benda á að einn af hverjum 15 í heiminum er fatlaður og flest eigum við eftir að verða fötluð á einhverjum tíma, t.d. vegna slysa, veikinda eða aldurs. Hún ræddi um ableisma, þ.e. að líta á faltað fólk sem óæðra og að aðlaga eigi fatlaða að samfélaginu en ekki öfugt. Því miður þá skorti rannsóknir og tölfræði á Íslandi um fatlaða almennt og sérstaklega á notkun á tæknilausnum. Margir binda vonir við að tæknin brúi gjánna milli fatlaðra og ófatlaðra, en það er langur vegur í að svo verði. Gjáin er djúp og fer ekki minkandi, fatlaðir eru fjölbreyttur hópur sem upplifir mismunandi hindranir á netinu og nota netið mikið en upplifa sig samt ekki sem hlutir af starfrænu samfélagi. Hún bent á að oft er notkun á netinu mismunandi, t.d. blogga fatlaðir mun meira en ófatlaðir. Inga lagði áherslu á stöðu þroskahamlaðra sem þyrfti að taka mun meira tillit til við vefhönnun, t.d. með því að hafa navigation auðvelda, nýta myndrænt efni, talgervla, hafa texta auðlesinn og nota myndbönd, animation og hljóð. Inga ræddi ýmsa áhættuþætti sem bitna illa á fötluðum, s.s. óhófleg gagnasöfnun, fátækt, jarðarsetning og aðgengi og hvernig gervigreind og sjálfvirkni gæti stuðlað að flokkun fólks og útilokað ákveðna hópa. Inga sagði einni sláandi sögur um þá stöðu að það geta ekki allir fengið rafræn skilríki og lokast því inni á vefnum, t.d. varðandi bankareikninga, niðurstöður læknisrannsókna og lyfseðla, því „computer says no“. Lokaorðin voru þau að niðurstaðan má ekki vera að fatlað fólk geti bara ekki lært á tækni.

Að lokum héldu Unnur Sól Ingimarsdóttir og Jón Bjarni Ólafsson frá Origo erindið Þróun á stafrænum lausnum nútímans með áherslu á aðgengismál. Þau kynntu WCAG (Web Content Accessibility Guidelines) staðalinn sem á að tryggja að vefurinn sé aðgengilegur öllum og nefndu þá þrjá hópa sem hafa áhrif á aðgengisgæði veflausnar, hönnuði, forritara og efnishöfunda og fjölluðu síðan um þessa hópa. Þau lögðu áherslu á að huga þarf strax að aðgengismálum á hönnunarstigi verkefna og fóru lauslega yfir margar lausnir sem hægt er að nýta við vefhönnun til að bæta aðgengi. Þau sýndu mörg dæmi um góðar lausnir tengdar, t.d. litanotkun, letri og valhnöppum. Þau voru með áhugaverða umfjöllun um litblinda og hvað væri hægt að gera til að aðstoða þau og aðra á vefnum. Meðal lausna sem þau nefndi voru t.d. Color Oracle, WhoCanuse.com, WAVE Evaluation Tool, Google Light House, Sitelmprove, Storybook, Code review CD/CI og USERWAY.

Fundarstjóri var Björn Gíslason, Markaðs- og samskiptasvið Háskóla Íslands, og leysti hann það starf af hendi með prýði.

Ásrún Matthíasdóttir tók saman

Skoðað: 380 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála