Skip to main content
13. október 2022

Sjálfvirknivæðing í heilbrigðisþjónustu

sky

Hádegisfundur SKÝ var haldinn á Grand Hotel Reykjavík þann 5. október 2022. Efni fundarins að þessu sinni var sjálfvirknivæðing í heilbrigðisþjónustu. Spurt var hvernig okkur gengur að nýta tæknina til að útrýma tímafrekum og handvirkum ferlum og hve næstu skref í sjálfvirknivæðingu sé. Fyrirlesarar dagsins voru fimm og komu víða að.  

Fyrstur var Freyr Hólm Ketilsson, framkvæmdastjóri Heilsutækniklasans, en hann var jafnframt fundarstjóri. Heilsutækniklasinn er samstarfsvettvangur heilsu og líftæknifyrirtækja og stofnanna innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi og tengipunktur við aðra klasa. Freyr talaði um mikilvægi þess að stækka heilsu- og líftæknigreinina og koma henni meira inni í almenna umræða sem og auka alþjóðasamstarf.

Næst kom Jórlaug Heimisdóttir hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Fyrirlesturinn hennar fjallaði um heilsueflandi móttökur í heilsugæslu og hvernig upplýsingartækni og rafrænar lausnir bæta þjónustu við aldraða og fólk með langvinnan heilsuvanda. Jórunn talaði um að það væru svo margir og misjafnir áhrifaþættir á heilsu (svefn, næring, lyf, erfðir, hreyfing o.s.frv.) að áhrifaríkast væri að setja fram einstaklingsmiðaða áætlun.  Hún benti á nú væri sóknarfæri varðandi skráningu. Ýmsar rafrænar lausnir séu til staðar en meiri skráningu í gagnagrunninn þarf til að uppfylla allar kröfur sem gerðar eru. Best sé að allir skrái í sama viðmót og tryggja þurfi samræmi við slíka skráningu, að rétt sé skráð og að hægt sé að nálgast gögn.

Næsti fyrirlestur bar titilinn HeilbrigðisTal og var fluttur af Eydísi Huld Magnúsdóttur frá Tiro. Hún fjallaði um þau tækifæri sem eru á næsta leiti fyrir íslenska heilbrigðisgeirann að nýta máltækni í sinni starfsemi. Tiro var upphaflega innan Háskólans Í Reykjavík og heldur ennþá góðum tengslum við meistarnámið í gervigreind og máltækni. Árið 2016 fékk Tiro styrk til að hanna talgreini sem var tilbúinn árið 2019 en þá kom í ljós að fári vissu hvað ætti að gera við hann. Í framhaldi fóru þau því að þróa platform (ritil) og API og á sama tíma settu stjórnvöld fram máltækniáætlun. Talgreinirinn þekkir íslensk mál og getur skrifað upp tal í rauntíma, sé talað nokkuð skýrt og sýndi Eydís fundargestum dæmi um þetta af vefsíðu Tiro. Það sem þarf til að koma talgreini í notkun er að tengja hann við hin ýmsu kerfi. Mörg erlend kerfi vilja ekki sinna litlum íslenskum markaði og því mælir Eydís með séraðlögun fyrir sem flestar sérgreinar. Í dag er fyrirtækið að vinna með Persónuvernd við innleiðingu á gagnagrunni, tilraunaverkefni með Origo og Orkuhúsinu og við innleiðing fyrir röntgenlækna hjá LSH.

Þorbjörg Þórhildur Snorradóttir, verkefnastjóri hjá Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar flutti næst fyrirlestur um sjálfvirknivæðingu í heimaþjónustu. Velferðartæknismiðjan var stofnuð árið 2018 og árið 2022 var sett fram ný stefna sem gildir til ársins 2026.  Í dag er verið að veita ýmsa þjónustu þar sem tæknin er nýtt eins og skjáheimsóknir, fjarvöktun og þjónustu með lyfjaskammtara. Þorbjörg talaði um að áskorunin fælist í því aldursamsetning íbúa væri að breytast sem kallaði á aukna þörf á heilbrigðisþjónustu. Því þyrfti að breyta leiknum og efla velferðartæknina m.a. með því að efla grunnstoðir og hugsa hvað notendur geti gert sjálfir svo ekki þurfi að fjölga starfsfólki of mikið. Nauðsynlegt sé að vera opin fyrir nýrri tækni meðfram breytingu á þörfum.

Síðasti fyrirlestur dagsins var fluttur af Þórhalli Harðarsyni, framkvæmdastjóra fjármála- og stoðþjónustu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Hann byrjaði á því að benda á að HSN næði yfir ansi stórt svæði sem spannaði 400 km og því væri nauðsynlegt að nýta tæknina og þá sérstaklega stafrænar vinnslur til að veita sem besta þjónustu. Helmingur starfsmanna HSN sé undir 45 ára sem gerir þá móttækilegri en áður fyrir innleiðingu nýrra ferla. Sérstök áhersla hefur verið lögð á hugbúnað sem nýtir þjarka (bots) og líkja eftir mannlegri framkvæmd viðskiptaferla. Markmikiðið er að innleiða stafrænt vinnuafl (RPA – Robotic Process Automation) til þess að hámarka nýtingu auðlinda og auka gæði. Í byrjun árs 2021 hóf HSN samtarf við Úkraínu sem þýddi 60-70% lægri þróunarkostnað en ella. Einnig hefur stofnunin verið í samstarfi við Microsoft og var nýlega tilnefnd til verðlauna á þeirra vegum. Stofnunin er útbúið ríflega 30 ferla og er með marga aðra í bígerð. Með smá aðlögun er hægt að nýta þá fyrir fleiri stofnanir.

Þegar öllum fyrirlestrum lauk voru umræður sem undirrituð missti því miður af en ljóst að stofnanir og fyrirtæki eru meðvituð um bæði þá þörf sem er til staðar innan heilbrigðisgeirans eftir lausnum og þau tækifæri sem tæknin getur veitt.

Ásta Gísladóttir tók saman.

Skoðað: 237 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála