Skip to main content
9. febrúar 2023

Nám í heimi gervigreindar

ArnarThorSveinssonMikið hefur verið ritað og rætt um að gervigreind muni stela störfunum okkar í framtíðinni. Þó að í einhverjum tilfellum sé þetta örugglega rétt, þá held ég að það sé langur tími þangað til meirihluti fólks þurfi að hlýða fyrirmælum vélrænna yfirmanna sinna. Ég held að það sé langt í að gervigreind verði það nákvæm að hægt sé að búa til heilt hugbúnaðarkerfi, markaðsherferð eða framkvæmt skurðaðgerð án hjálpar frá manneskju, en engu að síður er hægt að fá mikla hjálp frá gervigreind við öll þessi verkefni í dag.

Á seinasta ári komu út þrjú mismunandi gervigreindar verkefni sem geta breytt mjög miklu varðandi það hvernig fólk vinnur vinnuna sína. Þetta eru verkefnin ChatGPT frá OpenAI, Copilot frá Github sem hjálpar forriturum að skrifa kóða og Midjourney frá Midjourney rannsóknarsetrinu sem býr til myndir út frá lýsingu notandans. Áhrifin á vinnu fólks eru mikil með öllum þessum verkefnum, en ég held að áhrifin á nám séu enn meiri. ChatGPT er án efa það sem mun hafa mest áhrif á nám af þessum þremur, skoðum það aðeins betur.

ChatGPT
ChatGPT er gervigreindar forrit sem skilur ritaða ensku og getur haldið uppi samtali. Þetta hefur fengið mikla athygli frá því að þetta kom út í nóvember á seinasta ári. Meðal verkefna sem ChatGPT hefur leyst eru inntökupróf í MBA nám við Wharton háskóla og læknaleyfis prófið í Bandaríkjunum (Varanasi, 2023).

Ég ákvað að prófa hverju ég gæti áorkað með þessari tækni með nokkrum dæmum úr tölvunarfræðinámi við Háskólans í Reykjavík.

Viðskiptagreind
Fyrsta verkefni sem ég lagði fyrir ChatGPT var verkefni úr námskeiðinu Viðskiptagreind þar sem ég var beðinn um að útskýra muninn á gögnum, upplýsingum og þekkingu og má sjá niðurstöðurnar í myndinni hér að neðan. Svarið var ítarlegt og gott og nýttist mér vel sem upphafspunktur sem hægt var að ítra á í þessu verkefni.

Mynd 1

Tölfræði
Næst ákvað ég að prófa hvort þetta gæti hjálpað mér með tölfræði. Ég fór í tölfræðipróf í desember 2022 og var prófið tekið á tölvu, þar af leiðandi átti ég prófið enn þá á PDF skrá á tölvunni. Ég ákvað að sjá hvað myndi gerast ef ég setti allan texta úr prófinu inn í ChatGPT og tók síðan sérstaklega fram að ég vildi rökstuðning og að kerfið myndi sýna mér útreikninga. Niðurstaðan er of löng til að setja í eina mynd, en ég bar svarið hjá ChatGPT saman við lausnirnar sem voru gefnar út af kennaranum eftir áfangann. Svar ChatGPT hefði, miðað við þann samanburð, skilað mjög hárri einkunn á þessu prófi.

Forritun 1
Að lokum ákvað ég að prófa að setja inn dæmi um verkefni sem gæti verið sett fyrir í forritun 1. Þá bað ég ChatGPT um að búa til fyrir mig skipanalínuforrit í Python sem mætti ekki nota nein auka hugbúnaðarsöfn, ætti að taka við tölu sem inntaki og reikna Fibonacci runu þeirrar tölu. Ég bað sérstaklega um villumeðhöndlun fyrir neikvæðum tölum og inntökum sem væru ekki tölur. Einnig bað ég um að kóðinn væri skjalaður ítarlega. Svarið sem ég fékk var keyranlegur og réttur Python kóði fyrir þetta verkefni. Niðurstöðurnar má sjá í mynd 2 hér að neðan.

Mynd 2

Þessar niðurstöður koma út frá þremur einföldum dæmum sem ég valdi af handahófi og má ætla að nánast öll verkefni í áföngum eins og Forritun, Gagnaskipan, Tölfræði, Stærðfræði og svo gott sem öllum áföngum í tölvunarfræði og verkfræði séu að einhverju leyti leysanleg með gervigreind. Þessi svör eru öll búin til jafnóðum og notandi spyr, þannig ólíklegt er að þetta yrði gripið af ritstuldar greiningu.

Nokkuð ljóst er að þessi tól verða bara betri á næstu árum og er því mikil áskorun framundan fyrir kennara og skólastofnanir að finna leiðir til þess að efla nemendur í að vinna með þessi tól. Nemendur munu nota þessi tól í námi og síðar á vinnumarkaðnum og því held ég að endurhugsun á verkefnum og prófum sé nauðsynleg núna til að tryggja að nemendur séu enn þá að læra námsefnið þó að tólin hjálpi þeim að klára verkefnin.

Markaðsherferð Advania
Það kom frétt nýlega um að Advania hefði framleitt heila markaðsherferð með gervigreind. Þau nýttu sér ChatGPT til að búa til texta um Advania sem starfsmenn markaðs deildarinnar þýddu síðan yfir á íslensku. Þau nýttu sér Midjourney og Dall-E gervigreindar forritin til að búa til myndefni fyrir herferðina. Síðast en ekki síst nýttu þau Smartly.io til að setja saman efnið og dreifa því á samfélagsmiðla.

Þarna er frábært dæmi um hvernig gervigreind getur stytt verkefni stórkostlega og lækkað kostnað. Öll herferðin tók einungis 4 daga í framleiðslu og er launakostnaður umtalsvert minni í ljósi þess að ekki þarf að borga grafískum hönnuðum til að teikna mikið magn mynda, ekki borga leikara til að lesa upp textann og ekki borga textahöfundum til að skrifa grípandi auglýsinga texta (Sigurðsson, 2023; Advania, 2023).

Höfundur: Arnar Þór Sveinsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Skoðað: 536 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála