Skip to main content
9. mars 2023

Ný starfræn Evrópa – tækifæri til sóknar

Sigþrúður Guðnadóttir

Sigthrudur GudnadottirEvrópusambandið hefur sett sér háleit markmið varðandi sameiginlegan evrópskan stafrænan markað sem byggir á trausti og gagnsæi. Áhersla er lögð á skýr samfélagsleg gildi og að þróun og notkun starfrænnar tækni innan Evrópu skuli tryggja grundvallarréttindi allra íbúa álfunnar.

Traustur, gagnsær sameiginlegur evrópskur starfrænn markaður á m.a. að efla samkeppnishæfni Evrópu á alþjóðlegum starfrænum markaði og byggir á þéttu reglu- og lagaumhverfi sambandsins sem hefur verið í þróun síðastliðin ár. Flestir tóku líklega eftir umtalsverðum breytingum með tilkomu nýrra persónuverndarlaga (GDPR). GDPR hafði áhrif á ýmiskonar stafræna starfsemi, sérstaklega stærri fyrirtækja á alþjóðlegum markaði og ekki er séð fyrir endann á því hvernig evrópsk löggjöf mun móta stefnu sambandsins á þessu sviði. Eitt af markmiðum Evrópusambandsins virðist vera að tryggja að stafrænn markaður Evrópu sé ekki eingöngu keyrður áfram af stafrænum stórfyrirtækjum. Í því samhengi er sérstaklega verið að horfa til stórfyrirtækja sem eru að miklu leyti drifin áfram af gervigreind og eru talin starfa gegn samfélagslegum gildum og jafnvel grundvallarréttindum Evrópubúa.

Þó að regluverk Evrópusambandsins muni hafa áhrif á stafræna markaðinn, þá má einnig líta á þessar breytingar sem tækifæri til sóknar fyrir evrópsk fyrirtæki og þá sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Með því að setja auknar kröfur á starfsemi tæknirisa innan sambandsins er verið að skapa svigrúm fyrir minni fyrirtæki til að komast inn á markaðinn með sérhæfðar lausnir, byggja þær upp undir eigin vörumerki án þess að selja þær til stórfyrirtækja.

Digital Europe Programme
Það liggur fyrir að þessar breytingar taka tíma og að fjármagn þarf að fylgja með svo opinberar stofnanir og fyrirtæki geti aðlagað sig að nýju regluverki. Í því sambandi hefur Evrópusambandið sett á stofn nýja styrktaráætlun sem kallast Digital Europe Programme (DEP) sem gildir til ársins 2027. Ísland tekur þátt í áætluninni sem er sett fram með það að markmiði að efla stafræna hæfni innan Evrópu, byggja upp örugg og sjálfbæra innviði og styðja við starfræna umbreytingu fyrirtækja og opinberrar þjónustu. Áætlunin er að mörgu leyti annars eðlis heldur en aðrar styrktaráætlanir Evrópusambandsins. Lítil sem engin áhersla er á rannsóknarmiðuð verkefni, heldur uppbyggingu innviða sem styðja við öruggan og opinn starfrænan markað og nýtingu þeirra meðal opinberra stofnana og fyrirtækja. Áætlunin mun styrkja verkefni á fimm lykilsviðum: Gervigreind, ofurtölvum, netöryggi, stafrænni hæfni og rekstri stafrænna miðstöðva.

Í ljósi allra þeirra breytinga sem liggja fyrir á starfrænum markaði er mikilvægt að íslensk stjórnvöld sem og fyrirtæki nýti sér þau fjölmörgu úrræði sem eru í boði hjá Evrópusambandinu. Í DEP liggja tækifæri fyrir opinbera aðila í stafrænni vegferð til að fjármagna hluta af þeim verkefnum sem þeir standa frammi fyrir. Einnig er DEP tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að efla samkeppnishæfni sína með því að þróa lausnir á öruggum og opnum stafrænum markaði Evrópu. Fyrstu úthlutanir styrktaráætlunar hafa t.d. verið með áherslu á að styðja við þekkingaruppbyggingu, uppbyggingu sameiginlegra evrópska gagnarýma, netöryggismál og áframhaldandi þróun á regluverki á fjölbreyttu sviði innan stafrænnar umbreytingar. Gera má ráð fyrir að næstu úthlutanir miði í auknum mæli að fyrirtækjum sem þróa og nýta sér stafræna innviði Evrópusambandsins.

Stafrænar miðstöðvar – EDIH
Fyrsta verkefni sem DEP áætlunin styrkir á Íslandi er stofnun stafrænnar miðstöðvar, EDIH (European Digital Innovation Hub). Miðstöðin verður hluti af evrópsku netverki yfir tvö hundruð stafrænna miðstöðva. Á fyrsta ársfjórðungi 2021 auglýstu stjórnvöld eftir áhugasömum aðilum að leiða starf miðstöðvarinnar á Íslandi. Hópur íslenskra samstarfsaðila, sem var samþykktur af stjórnvöldum, sendi inn umsókn um þátttöku í EDIH og nú er orðið ljóst að Evrópusambandið mun styðja við rekstur miðstöðvarinnar á Íslandi með um 100 milljóna framlagi á ári. Þeir sem standa að miðstöðinni eru Auðna-tæknitorg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Origo, Syndis og Rannís. Til stendur að miðstöðin hefji starfsemi haustið 2022.

Markmið með EDIH er að styðja við víðtæka innleiðingu stafrænna lausna á sviðum sem varða almannahagsmuni, svo sem heilsu, grænna lausna, snjallborga og menningar. Í hverju aðildarríki munu stafrænar miðstöðvar veita stuðning og aðstoða fyrirtæki við að grípa stafræn tækifæri. Lögð er áhersla á að veita opinberum aðilum og fyrirtækjum aðgang að stafrænum lausnum og byggja upp trausta ferla stafrænnar umbreytingar.

Miðstöðin mun aðstoða fyrirtæki við að bregðast við stafrænum áskorunum, tryggja að þróun lausna sé í samræmi við regluverk Evrópusambandsins og að þau séu samkeppnishæf á alþjóðamarkaði. Aðgangur verður veittur að tæknilegri sérfræðiþekkingu og aðstöðu til að þróa og prófa afurðir áður en þær eru tilbúnar á markað. Auk þess mun miðstöðin nýta styrkleika Enterprise Europe Network (EEN) sem er starfrækt innan Rannís. EEN er stærsta viðskiptatengslanet heims og aðstoðar m.a. lítil og meðalstór fyrirtæki varðandi tækifæri á alþjóðamarkaði. Fyrirtæki hljóta stuðning við að besta viðskipta- og framleiðsluferla með því að nota stafræna tækni. Einnig verður veitt þjónusta og ráðgjöf tengd fjármögnun og stafrænni hæfni, sem er nauðsynleg fyrir farsæla stafræna umbreytingu. Sérstaklega verður litið til umhverfismála, einkum með tilliti til orkunotkunar og lítillar kolefnislosunar. Eitt helsta hlutverk miðstöðvanna mun vera að auka getu fyrirtækja og opinbera aðila að sækja stuðning úr Digital Europe áætluninni.

Hver verður ávinningurinn?
Hvort áætlanir Evrópusambandsins verði íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum til framdráttar á eftir að koma í ljós, en það er mikilvægt að við séum meðvituð um þessar breytingar og nýtum þau tækifæri sem felast í þeim. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sitt á vogaskálarnar með þátttöku í Digital Europe áætluninni. Þannig er tryggt að íslensk fyrirtæki og opinberir aðilar hafi fullan aðgang að þeim innviðum sem Evrópusambandið er að byggja upp og að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki verði áfram samkeppnishæf á alþjóðamarkaði.

Höfundur: Sigþrúður Guðnadóttir, sérfræðingur Rannís

Skoðað: 338 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála