Skip to main content
16. mars 2023

Tvíeggja sverð tölvuvæðingar

Ari Kristinn Jónsson

Ari Kristinn JónssonTölvumál tóku viðtal við Ara Kristinn Jónsson, fyrrum rektor í Háskólanum í Reykjavík og forstjóri AwareGO um þá umbyltingu sem átt hefur sér stað í tölvumálum á þessari öld, sérstaklega hvað varðar gervigreind og tölvuöryggi.

Nú hafa verið örar breytingar í tölvumálum síðustu 15 ár eða svo. Hvaða stendur helst upp úr hvað það varðar?
Það hafa orðið svo gríðarlegar breytingar á þessum 15 árum að það er næstum eins og í dag búum við í öðrum heimi en fyrir 15 árum. Munum að fyrsti iPhone síminn kom út fyrir 15 árum og síðan þá hefur allt okkar líf gerbreyst vegna snjallsímanna og því sem þeim hefur fylgt. Í dag þykir okkur sjálfsagt að geta átt í samskiptum, aflað upplýsinga og stýrt heiminum í gegnum snjalltækin okkar á hátt sem ómögulegt hefði verið að ímynda sér fyrir 15 árum.

Í grunn-tölvutækni hafa svo orðið stórkostlegar framfarir í vinnslugetu, tengingum, þráðlausri tækni, skjátækni, tölvugrafík, sýndarveruleika og fleiru og fleiru. Öll þessi tækniþróun hefur svo nýst til að gera mögulegt að gera hluti sem ekki var hægt að gera áður. En fyrir utan snjalltækjabyltinguna, þá er það auðvitað á mínu eigin sviði sem mér finnst þróunin vera einna markverðust, þ.e.a.s. í gervigreindinni.

Hvaða breytingar hafa orðið í gervigreind á þessum tíma. Hversu ört er þessi grein að þróast?
Á sviði gervigreindar hefur orðið alger bylting á síðustu 15 árum. Þegar ég sagði skilið við NASA árið 2007, þá var rétt að byrja að komast skriður á nýtingu gervigreindar. Hjá NASA var komin kjarnatækni sem nýtt var við stjórn flókinna geimferða og Stanford teymi hafði nýlega unnið verðlaun fyrir sjálfkeyrandi bíl sem nýtti tækni sem er náskyld því sem við þróuðum hjá NASA en nýtti líka vélnám (machine learning). Google keypti svo tækni sjálfkeyrandi bílsins og byrjaði að stunda vélnámsrannsóknir af miklum krafti. Samhliða unnu fjölmargir háskólar og stofnanir að rannsóknum í gervigreind. Þessi tímamót urðu svo grunnurinn að þeirri þróun sem síðan varð.

Í dag er gervigreind nýtt í alls kyns lausnum og má nefna skilning á töluðu máli, sjúkdómsgreiningar, sjálfvirk farartæki, greiningu myndefnis og margt fleira. Kjarninn í þessari byltingu er ný tækni í vélnámi samhliða auðveldara aðgengi að gríðarlega miklu reikniafli sem þarf til að gervigreindin geti lært flókna hluti. Í raun er það svo að ef til er nógu mikið af gögnum fyrir vélnámið til að læra af, þá getur vélnámið lært næstum hvað sem er. Til að setja þetta í samhengi við hluti sem við tengjum betur við, þá eru gervigreindarforrit orðin mjög góð í að bera kennsl á myndir og þekkja hvað er á þeim. En í framhaldi hefur svo tekist að láta þau læra að þekkja hvað er að gerast í hreyfimyndum og jafnvel að búa til góðar myndir út frá textalýsingu.

Gervigreindin mun halda áfram að þróast gríðarlega hratt. Annars vegar vegna þess að tækifærin til nýtingar vélnáms eru næstum óendanleg og hins vegar vegna áframhaldandi þróunar þar sem vélnám og önnur gervigreindartækni koma saman og gera tölvum kleift að taka flóknar ákvarðanir í breytilegu umhverfi. Það er einmitt það sem þarf til að sjálfvirk vélmenni og önnur tæki færist af tilraunastiginu yfir í almenna notkun.

Hver er helsti ávinningur gervigreindar?
Það er af svo miklu að taka þegar kemur að ávinningnum af gervigreind að ég ætla bara að fá að nefna nokkur dæmi.

Best þekkta nýtingardæmið er án efa sjálfvirk farartæki, en þau munu umbylta flutningum á landi, í lofti og á sjó. Ef við hugsum fyrst um ökutækin, þá mun svo margt breytast þegar þau verða ráðandi á götunum. Í fyrsta lagi er engin ástæða fyrir einstaklinga til að eiga slíkt tæki og láta það svo standa ónotað stærsta hluta sólarhringsins. Þess í stað verður hægt að panta ferðir auðveldlega hvenær sem þörf er á og þegar tækin eru ekki að sinna flutningi á fólki má nýta þau til að afhenda vörur. Í öðru lagi mun gatnakerfið nýtast miklu betur því ekki þarf lengur að stýra umferð heldur sammælast tækin sín á milli um hvernig verði best að hafa hlutina. Hægri umferð, umferðarljós, biðskylda og fleira mun heyra sögunni til. Í lofti verður hægt að flytja hluti sjálfvirkt þar sem torfært er á jörðu niðri og á sjó verður hægt að ná mun meiri hagkvæmni í flutningum.

Gervigreind mun líka umbylta heilbrigðismálum, bæði með því að styðja við forvarnir og fylgjast vel með heilsu fólks, en líka með því að vera sérfræðingum innan handar þegar kemur að greiningu sjúkdóma og meðferð. Þetta var sannreynt í tilraun með Watson gervigreindarkerfið sem greindi niðurstöður tugþúsunda fræðigreina um krabbamein og meðferð þeirra og veitt ráðgjöf sem var jafngóð og stundum betri en læknanna.

Ef við svo horfum til Íslands, þá getur gervigreindin hjálpað okkur að varðveita tungumálið með því að vera grunnur sjálfvirkra þýðinga, talskilnings og talaðs máls, hvort sem er í tölvutækjum, afþreyingu eða bara í samskiptum þar sem hjálpar er þörf.

Loks má nefna að varla er byrjað að snerta tækifærin í afþreyingu þótt vel sé þekkt að gervigreind sé orðin betri en manneskjan í öllum mögulegum borðspilum, þar með talið skák og Go. Í tölvuleikjum verður hægt að nýta gervigreind til að gera leikjaheiminn raunverulegan eins og sjá má til dæmis í nýjustu útgáfu af Unreal Engine sem er hugbúnaður nýttur í fjölda leikja, en þetta mun líka nýtast í sýndarveruleika, bíómyndum og svo mörgu fleiru.

Hverjar eru hætturnar?
Langstærsta hættan sem ég sé í dag er nýting gervigreindar í hernaði, bæði hefðbundnu stríði og upplýsingahernaði. Þessi tækni sem getur hjálpað okkur að lifa betra og lengra lífi getur nefnilega líka nýst til að beita ofbeldi gegn fólki, innviðum og samfélögum. Ein skelfilegasta myndin af slíkri notkun eru sjálfvirk tæki sem taka ákvarðanir um beitingu drápsvopna án þess að manneskja komi að.

Þetta þýðir þó ekki að við þurfum að hafa áhyggjur af því að vélmennin taki yfir og ákveði að útrýma okkur. Það er nokkuð sem engin tækni í sjáanlegri framtíð getur gert enda hefur engin gervigreind neina getu sem ekki er vísvitandi forrituð inn í hana. En engu að síður er veruleg hætta á að nýting gervigreindar í hernaði eigi eftir að valda ómælanlegum skaða fyrir mannkynið – slík tækni hræðist ekki um líf sitt og þeir sem beita henni eru ekki að fórna neinu af sínu fólki.

Hvar eru sóknarfæri?
Ég var búinn að nefna tækifæri í tengslum við flutninga, heilbrigði og fleira, en það er eitt til viðbótar sem mér er mjög hugleikið líka sem sóknarfæri en það er framlag gervigreindar til aukinnar sjálfbærni og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Við þekkjum þegar hagnýtingu eins og betri spár um matvælaneyslu og þar með minni sóun, en það er hægt að gera miklu meira til að hjálpa. Það að ná aukinni sjálfbærni og draga úr kolefnislosun er í eðli sínu flókið viðfangsefni. Við þekkjum til dæmis að flestir grænir orkugjafar, eins og vindorka og sólarorka, eru í eðli sínu óstöðugir og því flóknara að tryggja stöðugt nægt framboð af orku. En með því að nýta gervigreindartækni er hægt að stýra framleiðslu og dreifingu betur, sem og að aðlaga nýtingu sem best að framleiðslugetunni. Sem dæmi um þetta má nefna að í framtíðinni verða rafbílar með stórar Lithium rafhlöður á næstum hverju heimili, auk þess sem mörg heimili verða líka með auka geymslugetu til að jafna álag og minnka kostnað. Það má nýta þessar rafhlöður til að geyma og nálgast orku eins og þarf, svo fremi að hægt sé sjá fyrir þarfir heimilisins, til dæmis með hagnýtingu gervigreindar, og þannig verður til stór orkugeymsla sem getur fleytt samfélögum yfir lægðir í grænni framleiðslu.

Nú hefur þú nýlega snúið þér að tölvuöryggi. Sérðu mikla breytingu á þróun í þeim geira?
Já, það eru miklar breytingar að eiga sér stað í tölvuöryggi. Þegar tölvuglæpir komu fyrst fram á sjónarsviðið, fyrir mörgum áratugum síðan, þá lágu veikleikarnir fyrst og fremst í tækninni og hakkarar brutu sér leið inn í kerfi með því að nýta sér veikleika, vírusa, Trjójuhesta, hugbúnaðarvillur og fleira. Áherslan var því á að þróa vélbúnað og hugbúnað sem stoppaði innbrotin. Það hefur skilað því að í dag tekst að stöðva langstærstan hluta tilrauna til innbrota. Vandinn er að þrjótarnir eru búnir að snúa sér að mannlegum veikleikum í stað tæknilegra. Þannig er staðan núna að níu af hverjum tíu innbrotum sem takast nýta veikleika mannfólksins til að komast inn. Þetta er gert með ýmsum hætti, tölvupóstum með óværu, fölsuðum vefsíðum, símhringingum, fölsum tölvupóstum sem virðast frá yfirmönnum, USB lyklum með spillihugbúnaði, leit að lykilorðum og fleira og fleira. Áherslan er því að færast núna meira á aðferðir og tækni sem hjálpa fólki að standa rétt að málum þegar kemur að tölvuöryggi.

Hin stóra breytingin sem hefur orðið er að tölvuglæpir eru ekki lengur áhugamál eða fikt. Tölvuglæpir í dag eru iðnaður sem veltir hundruðum milljarða dollara og eru stundaðir af skipulögðum glæpahópum og jafnvel stjórnvöldum ríkja. Á sama tíma er mun meira undir en áður var, því allir okkar innviðir, okkar eignir, okkar vinnustaðir og okkar líf eru tengd netinu og því mögulegur skotspónn glæpamanna. Það er því gríðarlega mikilvægt að allir séu meðvitaðir um tölvuglæpi og þær aðferðir sem notaðar eru til að plata fólk. Þannig er best hægt að koma í veg fyrir að tilraunir til tölvuglæpa takist.

Góðu fréttirnar eru að stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar eru stöðugt að verða meðvitaðri um hættuna og hvað þurfi að gera til að bregðast við. Það verður að segjast að við erum alls ekki nógu örugg eins og er, en við erum hægt og bítandi á réttri leið. Ef við erum tilbúin til að gera það sem þarf, þá getum við stórlega minnkað hættuna, en þar þarf annars vegar að huga að forvörnum, þjálfun og breytingu á hegðun og hins vegar að varnaraðgerðum og viðbragðsáætlunum til að lágmarka skaðann ef eitthvað fer úrskeiðis. Til að gefa einfalt dæmi, þá ættu öll fyrirtæki að hafa hugbúnað til að vernda kerfi og gögn, kerfi til að þjálfa og mæla hegðun starfsfólks, örugg afrit af öllu og áætlun um hvernig brugðist verði við innbroti. Með lausnum fyrir fólkið og kerfin er áhættan lágmörkuð og með afritum og viðbragði er komið í veg fyrir alvarlegan skaða.

Skoðað: 401 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála