Skip to main content
18. maí 2023

Upplýsingatækni í leikskólum

Robin William Varadaraj

Robin William VaradarajUpplýsingatækni hefur á undanförnum árum fest sig rækilega í sessi í skólakerfinu, þá ekki bara í framhalds- og grunnskólum, heldur einnig í leikskólum. Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla, sem gefin var út árið 1999 kom fram að leikskólar eigi að nota tölvur í starfi sínu og aðalástæður þess eðlis ræddar. Fram kemur að barn í leikskóla þurfi að kynnast tölvu og þurfi að læra að nota hana á sinn hátt (Mennta- og barnamálaráðuneytið, 1999). Í Aðalnámskrá leikskóla 2011 kemur fram að stafræn tækni sé búin að breyta því umhverfi sem lestur og ritun eigi sér stað í. Stafræn samskiptatækni og tölvur séu nær ómissandi á vinnustöðum sem og heima við og þykja einnig orðin sjálfsögð verkfæri í skólastarfi (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011).

Þrátt fyrir það að mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetji leikskóla til þess að taka inn meiri upplýsingatækni í leikskólastarfið þá eru skiptar skoðanir á gagnsemi eða skaðsemi tækninnar í námi og lífi barna. Það hafa verið gerðar fáar rannsóknir á áhrif tækni á nám barna sem sýna bæði neikvæð og jákvæð áhrif hennar (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019). Það hafa heldur ekki verið neinar stórar rannsóknir á viðhorfum kennara eða foreldra til upplýsingatækni í leikskólum en nokkrar minni kannanir hafa verið gerðar hér á landi fyrir nokkru síðan.

Anna M. Hreinsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir (2000) gerðu könnun þar sem viðhorf foreldra til tölvunotkunar í leikskólum og voru samkvæmt þeirra niðurstöðum 70% þeirra hlynntir því. Í tveimur öðrum könnunum voru niðurstöður þær að starfsfólk leikskóla var hlynnt upplýsingatækni í leikskólum (Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir, 2005).

Þegar horft er til reynslu leikskóla af upplýsingatækni síðustu ára þá var ákveðið að tölvur skyldu vera hluti af kennsluefni þeirra (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019). Árið 1999 þegar að aðalnámskráin tók fyrst gildi voru nú þegar nokkrir leikskólar búnir að stíga það skref að innleiða tölvur í kennslu og námi og í kjölfarið fylgdu fleiri skólar með (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019). Þrátt fyrir það að nokkrir skólar hafi verið búnir að innleiða tölvur og að upplýsingatæknin hafi verið getið í aðalnámskrá þá hafa sveitarfélög ekki lagt svipaða fjármuni í tækjabúnað fyrir leikskóla eins og t.d. grunnskólana (Sunneva Svavarsdóttir, 2017).

Tæki eins og snjallsímar og spjaldtölvur eru tiltölulega auðveld í notkun og eru því börn byrjuð að nota stafræna tækni mun yngri en nokkru sinni áður (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019). Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að tölvunotkun geti ýtt undir þroska barna á hinum ýmsu sviðum. Það skiptir þó máli hvernig hugbúnaður er notaður. Þegar að kemur að stafrænu tækninni að það er ekki bara nóg að leggja spjaldtölvu í hendurnar á börnum, snjalltækja notkun hefur ekki sjálfkrafa jákvæð áhrif á þroska heldur þarf að kenna börnum markvisst að nota hana rétt (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019). Félagsþroski er mikilvægur til þess að börn geti seinna meir fótað sig í leik og lífi og hafa rannsóknir á snjall tækni í skólastarfi sýnt að stafræn tækni getur haft jákvæð áhrif á maga þroskaþætti þar á meðal félagsþroska. Sömu rannsóknir hafa einnig sýnt jákvætt samspil milli upplýsingatækni í leikskólastarfi og framförum í þáttum eins og málþroska (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019).

Það er hægt að vinna með upplýsingatækni á svo marga vegu í leikskólanum. Spjaldtölvur eru mikið nýttar og eru þær notaðar í skapandi vinnu með börnunum og hægt er að færa rök með því að upplýsingatæknin snerti alla þá námsþætti sem kenndir eru í leikskólanum (Sunneva Svavarsdóttir, 2017). Börn nú til dags hafa mun meiri skilning og þekkingu á veröldinni og hefur það að miklu leiti komið til vegna upplýsingatækninnar. Börn eru hugmyndarík, þau eru að eðlisfari mjög forvitin og óhrædd við að prófa sig áfram og gera tilraunir (Sunneva Svavarsdóttir, 2017).

Tölvuforrit eru mörg og mismunandi sem leggja áherslu á að kenna ólíka hluti. Flest tölvuvinna og forrit geta verið lestrar hvetjandi og ráða börn við það að ýta á takka á lyklaborði mun fyrr en þau ráða við að skrifa stafi á blað. Sumum forritum fylgir talgervill sem hjálpar börnum með málþroska því börn geta þá heyrt hvernig stafirnir sem þeir slá inn á lyklaborðið hljóma. Ýmis teikniforrit eru til og fá börnin tækifæri til þess að vinna á eigin forsendum og láta hugmyndaflugið ráða. Einnig er hægt að vinna með tónlist í hinum ýmsu forritum og geta börn sem ekkert vita um hljóðfæri eða tónfræði sett saman hljóð og nótur og þá heyrt hvernig samsetningin hljómar (Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir, 2005).

Börn nota ímyndunarafl sitt í gegnum upplýsingatæknina í dansi, tónlist og listum og á hugmyndatíkan hátt tjá þau sig og miðla hugmyndum sínum, tilfinningum og hugsunum og læra að nota fleiri miðla í tjáningu (Sunneva Svavarsdóttir, 2017). Börnin læra líka að spyrja spurninga um hvernig hlutirnir virka og hvers vegna hlutirnir gerast og þau fá tækifæri til þess að upplifa áferð, liti, form, lögun og rými í tveimur og þremur víddum. Síðast en ekki síst læra börnin að deila með öðrum, bíða, skiptast á, velja og semja við aðra (Sunneva Svavarsdóttir, 2017).

Það liggur ljóst fyrir að upplýsingatækni í leikskólum er jafn mikilvæg og á öðrum skólastigum. Mín skoðun er sú að mikilvægt sé að kenna börnum á tækni á ábyrgan hátt svo að þau geti betur notað hana sér til gagns í framtíðinni ekki bara skemmtunar. Tæknin hefur marga kosti en einnig sína ókosti og tæknin er heldur ekkert að fara, því þykir mér mikilvægt að við grípum strax inn og kennum börnum að nota hana rétt.

Höfundur: Robin William Varadaraj nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

Anna Elísa Hreiðarsdóttir. (2019). Stafræn tækni í leikskólastarfi: Sjónarhorn frumkvöðla. Netla. Sótt af: https://ojs.hi.is/netla/article/view/3115

Anna Magnea Hreinsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir. 2000. Könnun á tölvunotkun leikskólabarna. Óbirt verkefni við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir. (2005). Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum. Netla. Sótt af: https://vefsafn.is/is/20201017175327/https:/netla.hi.is/greinar/2005/018/index.htm

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá leikskóla 2011. Reykjavík. Sótt af: https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Menntamal/Namskrar/adalnamskra-leikskola-2011-med-br-2021%20-%20Copy%20(1).pdf

Mennta- og barnamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá leikskóla 1999. Reykjavík. Sótt af: https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/ritogskyrslur/ALalmennurhluti.pdf

Sunneva Svavarsdóttir. (2017). Er ekki nóg að þau hangi í þessum tækjum heima hjá sér?: Upplýsingatækni í leikskólum. Reykjavík: Háskóli Íslands. Sótt af: http://hdl.handle.net/1946/28605

Skoðað: 243 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála