Skip to main content
25. maí 2023

Að æfa framkomu í sýndarheiminum

Ágústa Katrín Kristjánsdóttir

Ágústa Katrín KristjánsdóttirAð standa fyrir framan hóp af fólki og tala. Þetta er setning sem lætur næstum 75% af íbúafjölda heims fá hnút í magann og jafnvel finna fyrir kvíða. Þar á meðal er stór hluti nemendur (Edpuzzle staff, 2020). Það að tala fyrir framan hóp af fólki getur verið kvíðavaldandi fyrir mjög marga. Margir þróa m.a.s. með sér ákveðna fælni við verknaðinn. Á ensku nefnist þessi fælni „glossophobia“. Þessi fælni veldur ýmsum einkennum eins og auknum blóðþrýstingi, hröðum hjartslætti, þurrki í munni og getur einnig valdið kvíðaköstum eða ofsahræðslu.

Margar ástæður geta verið fyrir því að aðilar þrói með sér þessa fælni. Sumir glíma við alvarlega hræðslu við það að verða vandræðalegir fyrir framan aðra eða fá neitun frá öðrum. Fælnin getur einnig komið út frá fyrri reynslu. Ef einstaklingur hefur upplifað slæma reynslu af því að tala fyrir framan aðra þá getur hann óttast að sú slæma reynsla endurtaki sig næst þegar hann á að tala fyrir framan hóp af fólki. Einnig er algengt fyrir suma einstaklinga að þróa með sér þessa fælni þegar aðilinn er beðinn um að tala fyrir framan hóp án þess að fá möguleika til að undirbúa sig fyrir fram (Rosemary Black, 2019).

Af og til, í þónokkur ár, hefur verið heit umræða í gangi á samfélagsmiðlum varðandi það að fella niður ræður og kynningar nemenda í kennslustundum í skólum. Skiptar skoðanir eru um málið. Margir sem hafa tjáð sig, aðallega táningar, telja þessar æfingar valda meiri skaða heldur en gagni fyrir nemendur. Þó eru nokkrir aðilar sammála hinni hliðinni á peningnum og telja sem svo að skólar ættu að halda þessu áfram einfaldlega vegna þess að nemendur hræðast þetta. Þau telja nemendur hafa gott af þessu og að þetta sé ótti sem mikilvægt er fyrir þau að sigrast á til að komast áfram í lífinu þar sem þetta er eftirsóknarverður eiginleiki í atvinnulífinu (Edpuzzle staff, 2020).

Ég er sammála báðum þessum hliðum. Ég tel þetta vera mikilvægur lærdómur fyrir nemendur en aftur á móti er ekki gott að þau finni fyrir of miklu stressi eða jafnvel kvíða í gegnum lærdómsferlið. Auðvitað er eðlilegt að finna fyrir stressi þegar maður talar fyrir framan hóp af fólki, en erfitt er að átta sig á því hvenær þetta stress er orðið of mikið og jafnvel orðið að kvíða. Sumir nemendur gætu jafnvel verið með geðraskanir og fundist það að standa fyrir framan hóp óhugsanlegt, hvað þá að tala fyrir framan hópinn. Þó mér finnist mikilvægt fyrir nemendur að læra þetta þá finnst mér ekki sniðugt að þessu fylgi svona mikil vanlíðan og hræðsla. Því tel ég það nauðsynlegt að endurhugsa hvernig þetta er nálgast í skólum og þar getur tæknin komið sterk til leiks.

Þegar ég hugsa um mína skólagöngu þá átta ég mig á því að mér var aldrei kennt að tala fyrir framan hóp af fólki. Á vissum aldri var þessu einfaldlega bætt við námsmat nemenda; að kynna verkefnin sín, halda ræðu eða lesa ritgerðina sína upphátt. Þetta er svo sem ekki efni sem er hægt að kenna nemendum, þeir læra með því að gera og æfa sig. Þó getur verið stressandi fyrir nemendur að standa allt í einu fyrir framan hóp af samnemendum sínum og tala. Þetta stress gæti auðveldlega fest sig í nemendum og þau gætu því tengt þessa óþægilegu tilfinningu við verknaðinn.

Það þarf ekki endilega að vera þannig að nemendur hoppi beint í djúpu laugina þegar þeir stíga sín fyrstu skref að tala fyrir framan hóp. Hér getur sýndarveruleiki hjálpað til við aðlögun nemenda. Sýndarveruleiki hefur verið notaður í meðferðum til að hjálpa skjólstæðingum að vinna á sinni fælni, t.d. fælni sinni við að standa fyrir framan hóp og tala. Skjólstæðingur setur á sig sýndarveruleikagleraugu og er kominn í sýndarveruleika sem svipar til aðstæðna í raunveruleikanum. Í þessu tilfelli stendur einstaklingurinn fyrir framan hóp af fólki og á að tala fyrir framan þau. Þessi tegund meðferðar hefur reynst einstaklingum með fælni nokkuð vel (Sülter o.fl., 2022). Svipaðar aðferðir geta verið notaðar í skóla til að aðlaga nemendur og æfa þau að standa fyrir framan hóp og tala. Með þessu er möguleiki á að koma í veg fyrir að fælnin nái að þróast hjá nemendum.

Árið 2022 var gerð tilraun sem notaðist við sýndarveruleika til að æfa nemendur að tala fyrir framan samnemendur. Aðeins helmingur hópsins notaðist við sýndarveruleika til að æfa sig fyrir kynninguna sem var haldin í skólanum og hinn helmingurinn var samanburðarhópur sem æfði sig án sýndarveruleika. Spurningalistar voru notaðir til að mæla kvíða hjá nemendum fyrir og eftir kynningar. Eins og við mátti búast, var kvíði mældur minni hjá hópnum sem fékk að notast við sýndarveruleikann í æfingum (Sülter o.fl., 2022). Niðurstöður þessarar tilraunar lofa góðu og sýna fram á að sýndarveruleiki geti hjálpað nemendum.

Ég tel að halda eigi áfram að fá nemendur til að standa fyrir framan samnemendur sína og í kennslustundum, en mér finnst ferlið eiga að vera öðruvísi. Í stað þess að nemendur æfi sig heima fyrir framan spegil, þá geta þau notast við sýndarveruleika og verið þá komin í mjög svipaðar aðstæður og þau myndu vera í, t.d. í kennslustofunni. Ef að einhverjir nemendur eiga áfram erfitt með kynningar þá er hægt að setja fleiri verkefni fyrir þau í sýndarveruleikanum til að bæta sjálfstraustið og minnka kvíðann, þar til þau eru tilbúin að tala fyrir framan hópinn í kennslustund. Þegar sjálfstraustið er komið, þá er einnig hægt að setja fyrir verkefni í sýndarveruleikanum til að bæta það hvernig þau koma fram í kynningum eða ræðum. Hægt er að þjálfa þau í því að stilla hljóðstyrk og hraða raddarinnar rétt og kenna þeim hvernig þau eiga að bera sig á meðan þau tala.

Sýndarveruleiki býður upp á mörg tækifæri fyrir nemendur til að bæta sig í námi og ekki síst til að æfa ýmis konar færni. Með því að æfa nemendur reglulega að tala fyrir framan hóp er möguleiki á að sporna gegn því að þeir þrói með sér fælni við verknaðinn. Þeir sem þurfa meiri þjálfun geta auðveldlega fengið hana í sýndarveruleikanum. Tæknin er sterkt tól sem getur hjálpað nemendum í skólastarfi nútímans.

Höfundur: Ágústa Katrín Kristjánsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

Edpuzzle staff. 4 Tips for Using Technology to Teach Public Speaking. (2020, 24. febrúar).Edpuzzle. https://blog.edpuzzle.com/edtech/technology-teach-public-speaking/

Rosemary Black. (2019, 12. september). Glossophobia (Fear of Public Speaking): Are You Glossophobic? Psycom. https://www.psycom.net/glossophobia-fear-of-public-speaking

Sülter, R. E., Ketelaar, P. E., og Lange, W.-G. (2022). SpeakApp-Kids! Virtual reality training to reduce fear of public speaking in children – A proof of concept. Computers & Education, 178, 104384. https://doi.org/10.1016/j.compedu.2021.104384

Skoðað: 484 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála