Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Print this page
15.03.2012

Forritun í grunnskólum og framhaldsskólum

43242Skortur á færum forriturum hefur lengi verið viðvarandi vandamál í heiminum. Áður fyrr, fyrir áratugum síðan, var oft byrjað að skera niður í tölvudeildinni þegar kreppti að. En forritaraskorturinn hefur vaxið, meðal annars vegna þess að upplýsingatækni er orðinn svo snar þáttur í rekstri margra fyrirtækja að fyrirtækin verða ekki rekin án forritara.

 Við höfum séð á síðustu árum að þrátt fyrir kreppu og niðurskurð í ýmsum geirum er sár vöntun á forriturum fyrir atvinnulífið. Reyndar á þetta ekki aðeins við um forritara heldur er almennur skortur á tæknimenntuðu fólki.

 

Vandamálið er ekki aðeins skortur á framboði heldur einnig að framboðið hefur verið sveiflukennt lengi. Ein veigamikil ástæða þessa er að fjöldi þeirra sem hefja nám í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði hefur sveiflast mjög mikið. Þessar breytingar eru alþjóðlegar og ástæður þeirra eru ekki mjög ljósar. Ég hef kennt tölvunarfræði í Háskóla Íslands síðan 1985 og hef séð þrjár stórar uppsveiflur, fyrst upp úr 1985, síðan kringum árið 2000, og nú virðist enn ein uppsveiflan vera að hefjast. Við getum glaðst yfir því að það stefni að auknu framboði forritara á markaðnum, en hins vegar væri betra fyrir alla ef framboðið væri stöðugt og nægjanlegt. Framboðið er hvorki stöðugt né nægjanlegt.

Stóru háskólarnir tveir, Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur eru ýmist að bregðast við mikilli fjölgun eða mikilli fækkun nemenda. Þeir hafa hvorki raunhæfar leiðir til að meta eftirspurn né til að auka hana. Háskólarnir geta ekki brugðist við þörfum atvinnulífsins ef þeir fá ekki árlegan stöðugan fjölda af hæfum nemendum.

Kennum meiri forritun

Nýlega hefur vaknað meiri umræða um þetta vandamál og hafa fulltrúar SUT, HÍ og HR (Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja, Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur) rætt saman um það og ákveðið að taka höndum saman að reyna að finna ráð til að bæta stöðuna. Eitt sem allir eru sammála um er að auka ætti kennslu í forritun í grunnskólum og framhaldsskólum.

Rökin fyrir þörf á aukinni forritunarkennslu á yngri skólastigum eru margvísleg.

Lítum fyrst á málið frá sjónarmiði háskólanna. Nauðsynlegt er að nemendur séu betur upplýstir áður en þeir hefja háskólanám. Þeir sem hafa hæfileika til að verða góðir forritarar eru þá líklegir til að vita það áður en þeir hefja háskólanám og eru þá líklegri til að velja slíkt nám. Aftur á móti munu upplýstir nemendur sem ekki hafa hæfileika til að verða góðir forritarar einnig vita það og eru þá líklegri til að velja sér annað nám. Hið skelfilega mikla brottfall nemenda á fyrsta ári í háskólunum orsakast að miklu leyti af því að nemendur vita fyrirfram lítið hvað þeir eru að fara út í þegar þeir hefja nám. Það er dýrt að reyna að þjóna miklum fjölda nemenda sem aldrei klára námið. Einnig er líklegt að sveiflur í fjölda nemenda verði minni ef nemendur eru betur upplýstir þegar þeir taka ákvörðun um háskólanám.

Frá sjónarmiði nemenda gilda svipuð rök. Það er slæmt fyrir nemendur að hefja nám í fagi sem ekki hentar þeirra hæfileikum. Það er einnig slæmt fyrir þá að missa af því að hefja nám í fagi sem hentar þeirra hæfileikum.

Frá sjónarmiði þeirra fyrirtækja sem þarfnast forritara er augljóst að nauðsynlegt er að hafa framboð á starfsfólki. Verði forritun skylda í grunnskólum og framhaldsskólum mun framboðið aukast og jafnast.

Frá almennu þjóðfélagslegu sjónarmiði er gott ef borgarar nýta vel þá verðmætu hæfileika sem þeir hafa. Það er hins vegar slæmt að borga háskólunum fyrir að reyna að þjálfa nemendur til að vinna verkefni á sviðum sem þeir ráða ekki við. Eitt meginhlutverk skóla á yngri skólastigum hlýtur því að vera að kynna nemendum nægilega mikið af vinnubrögðum á ýmsum starfsvettvöngum til að nemendur geti tekið upplýstar ákvarðanir um framtíðarnám sem henti þeim. Ég tel að hér sé gott tækifæri fyrir skólana að gera miklu betur hvað varðar störf í upplýsingatækni.

Núverandi staða

Í byrjun einkatölvualdar á Íslandi, á níunda og tíunda áratugum síðustu aldar, lögðu ýmsir kennarar, bæði í framhaldsskólum og grunnskólum, mikið á sig til að koma upp forritunarkennslu fyrir sína nemendur. Á þeim tíma var erfitt var að koma upp tölvubúnaði, viðhalda honum, skrifa kennslubækur og annað efni, semja um kaup á hugbúnaði og setja hann upp, finna húsnæði fyrir tölvurnar, skipuleggja aðgang nemenda að tölvunuum, og svo framvegis, og svo framvegis. Það er engin furða þótt margir kennararnir hafi snúið sér að einfaldari viðfangsefnum. En við búum nú að því fólki sem þessir kennarar fræddu og sem margt lagði síðan upplýsingatækni fyrir sig sem sinn atvinnuvettvang.

Nú er öldin önnur og þeir innviðir sem þarf til að kenna forritun eru að mestu leyti til staðar í öllum skólum og einnig á langflestum heimilum. Einnig eru til ýmis einföld og ódýr, jafnvel ókeypis, forritunarumhverfi sem henta til forritunarkennslu á ýmsum skólastigum. Við ættum að nýta betur þau tækifæri sem felast í þessum innviðum sem þegar er búið að byggja upp.

Það er gott og blessað, og nauðsynlegt, að kenna nemendum almenna tölvunotkun svo sem ritvinnslu, notkun töflureikna, notkun teikniforrita, notkun vefsins, og svo framvegis. En slík menntun kemur ekki í staðinn fyrir forritunarkennslu. Nemendur sem kynnast forritun ná mun dýpri og víðtækari skilningi á upplýsingatækni. Þeir sem ná tökum á forritun fá vald yfir tölvunni og skilning á henni sem aðrir hafa ekki og eiga erfitt með að ímynda sér. Það er nauðsynlegt í upplýsingaþjóðfélagi nútímans að sem flestir hafi slíkt vald. Þeir sem síðan læra tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði ná tökum á þeim fræðum og þeim vinnubrögðum sem gera þeim kleift að skilgreina, hanna og þróa hugbúnað og upplýsingakerfi á kerfisbundinn og traustan hátt. Slík vinna er sívaxandi þáttur í þjóðfélagi nútímans.

Þeir sem ekki vinna í hugbúnaðargeira atvinnulífsins hafa samt sem áður ríka þörf fyrir þá grunnþekkingu á tölvutækni sem reynsla í forritun gefur. Við lærum öll smíði í grunnskóla. Ekki vegna þess að allir eigi að verða smiðir heldur vegna þess að grunnþekking á smíði er mikilvæg, ef ekki nauðsynleg, fyrir alla til að geta leyst vandamál daglegs lífs og til að geta talað við smiði um þeirra vinnu fyrir okkur. Svipað gildir um forritun.

Kynjahlutföll

Í byrjun einkatölvualdar voru hlutfallslega mun fleiri stúlkur sem stunduðu nám í tölvunarfræði heldur en nú. Ég tel að stór ástæða þess sé sú að þá voru margar stúlkur sem kynntust forritun í grunnskólum og framhaldsskólum og sáu að hér var fag sem hentaði þeim. Það er synd að ekki séu fleiri stúlkur að stunda slíkt háskólanám núna og almennt nám í tæknigeiranum. Ef svo væri þá myndu þær hjálpa til að fylla þau skörð í atvinnulífið sem nú eru ófyllt. Ég tel að fjöldi þeirra myndi aukast til muna ef þær hefðu þá forritunarþjálfun í lok grunnskóla og í lok framhaldsskóla sem gerði þeim kleift að taka upplýsta ákvörðun.

Hvað þarf til?

Stefna ætti að því að bæði í grunnskólum og framhaldsskólum fái allir nemendur lágmarksþjálfun í forritun. Forritun þarf, þegar fram líða stundir, að verða skyldunám. Hins vegar þarf ekki mikla slíka þjálfun til að uppfylla þau markmið sem hér er verið að ræða um. Markmiðin eru tvíþætt. Annars vegar er markmið að gera nemendum kleift að taka fullan þátt í upplýsingasamfélaginu með því að gefa þeim þann grundvallarskilning sem nauðsynlegur er. Hins vegar er markmið að gefa nemendum nægilega kynningu á forritun til að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun hvort það henti þeim að stefna að starfsframa í upplýsingatæknigeiranum eða almennt í tæknigeiranum.

Snorri Agnarsson, prófessor við Háskóla Íslands

Mynd fengin á http://www.fileshome.com/prolog_programming_language_object_oriented_43242.html

Lesið 8190 sinnum