Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Spjaldtölvur og börn með sérþarfir

PerlaAnnthorTalsvert hefur verið fjallað undanfarið um kosti iPad spjaldtölvunnar í leik og starfi barna með sérþarfir, það er að segja þeirra barna sem búa við skerta námshæfni hvort sem er vegna fötlunar eða þroskaskerðingar. Í þessari grein ætlum við að fjalla almennt um kosti tölvunnar í starfi með þessum börnum. Við skoðum hvaða kosti spjaldtölvan hefur umfram borð- og fartölvuna og einnig hvernig iPad stenst samanburð við aðrar spjaldtölvur á markaðnum.

Tölvur í þjónustu fatlaðra

Síðan á níunda áratugnum hafa tölvur verið að ryðja sér til rúms við kennslu fatlaðra barna. Kennarar og aðstandendur sáu fljótt í tækninni möguleika til þess að hjálpa fötluðum börnum að læra að tala, lesa, skrifa og aðstoð við nám almennt. Tölvur höfða mjög til sjónskynjunar og heyrnarskyns og bjóða upp á margbreytilega möguleika til að örva skynfærin; með litum, myndum og hljóði. Tölvan getur eflt einbeitingu og námsáhuga hjá þroskaheftum og fjölfötluðum börnum og er því kærkomin viðbót við nám þessara barna.

Áður en spjaldtölvan kom á markað voru til sérútbúnar tölvur með snertiskjái sem voru útbúnar sérstökum hugbúnaði fyrir fötluð börn. Spjaldtölva til almennra nota hefur það umfram þessar sérlausnir að hún er ódýrari auk þess sem hún bíður upp á uppsetningu hugbúnaðar frá þriðja aðila og er þar með fjölnota tæki.

Fötlun barna getur skert verulega leik- og félagsþroska þeirra og því er brýnt að þau fái næga örvun. Mörg þeirra vita ekki hvernig á að bera sig að við leik og þurfa á hjálp að halda til þess. Oft skortir þau leikföng við hæfi og einnig hefur skert hreyfigeta ásamt lakari samskiptahæfni áhrif á félagslega þáttinn. Notkun tölvu í leik örvar málþroska, minni og ímyndunarafl auk þess að styrkja fínhreyfingar og vekja áhuga barnsins á að gera sjálfstæðar tilraunir. Sem verkfæri til þjálfunar er því ljóst að tölvutæknin býður upp á mikla möguleika til að efla getu og þroska fatlaðra barna og munum við skoða hér hvað spjaldtölvur hafa upp á að bjóða fyrir þennan hóp.

iPad spjaldtölvan

Á síðustu árum hafa spjaldtölvur, ekki síst iPad breytt lífi fatlaðra einstaklinga og einhverfra. Það virðist svo vera að börn sem eru mjög einhverf og eru þar af leiðandi alveg lokuð gagnvart umhverfinu, geti tjáð sig upp að vissu marki með hjálp iPad. Talið er að 30% einhverfra barna eigi erfitt með að tjá sig en með tilkomu tækninnar hafa margir foreldrar fengið það staðfest sem þau grunaði, að börnin almennt skilja og vita meira en þau hafa áður getað miðlað [1].

Síðan iPad spjaldtölvan kom á markað á vormánuðum 2010 er búið að þróa margvísleg forrit fyrir hana sem hjálpa fötluðum og einhverfum að eiga samskipti við sína nánustu og hjálpa þar með til við að rjúfa einangrun þeirra. Þau geta jafnvel tekið þátt í samræðum og tekið virkari þátt í námi sínu í skólanum. Snertiskjárinn og viðmótið nær yfirleitt vel til barnanna og þau taka spjaldtölvum öðruvísi en öðrum tækjum, hvort sem um er að ræða þroskaleikföng eða kennslugögn. Spjaldtölvan bætir samskiptavilja barna sem oftar en ekki háir einhverfum börnum og eykur athygli þeirra og þau ná meiri einbeitingu. Einnig er spjaldtölvan hentugri en borðtölvur þar sem einstaklingar með hreyfihömlun eiga auðveldara með að snerta fleti á snertiskjá en að stjórna með mús og lyklaborði.Tölvur henta þó ekki öllum börnum en hjá þeim börnum sem ná lagni og ná að nýta sér tæknina er árangurinn mikill og sjáanlegur.

Samkeppnin

Þegar kemur að vali á spjaldtölvu fyrir börn með sérþarfir eru tvö lykilatriði sem skipta mestu máli, úrval forrita og verð búnaðarins. Hvað úrval forrita fyrir viðkomandi stýrikerfi varðar hefur iOS frá Apple staðið samkeppnisaðilunum framar. Skortur á viðeigandi forritum fyrir fötluð börn hefur þannig staðið í vegi fyrir því að Android spjaldtölvurnar séu raunhæfur valkostur.

Tzvi Schectman sem skrifar fyrir vefinn Friendship Circle taldi 7 forrit fyrir börn með sérþarfir í mars 2011 og sagði vera að minnsta kosti eitt ár í að Android gæti talist raunhæfur valkostur [6]. Ári síðar skrifar Francesc Sistach fyrir iAutism-vefinn grein um forrit fyrir Android stýrikerfið ætluðum fólki með einhverfu og segist finna 90 forrit í verslun Google fyrir Android, Google Play [7]. Að auki segir Francesc það vera að færast í aukana að framleiðendur sem hafa verið á iOS eingöngu séu að gefa út Android útgáfur af forritunum sínum. Android spjaldtölvur eru því að verða raunhæfur valkostur fyrir fötluð börn ef úrval forrita er skoðað, en búast má við að iOS muni standa eitthvað framar næstu árin. Þegar verð búnaðarins er skoðað standa Android spjaldtölvurnar framar iPad. Android spjaldtölvur eru allt að helmingi ódýrari en iPad með sambærilegum vélbúnaðareiginleikum.

Vefurinn Autism Plugged In fjallar um forrit fyrir börn með einhverfu og skrifar mikið um forrit gerð fyrir iPad. Í grein á vefnum þar sem fjallað var um Nexus 7 Android spjaldtölvuna segir Jack Kieffer spjaldtölvuna vera góða lausn fyrir þá sem vilja nýta sér spjaldtölvu fyrir börn með einhverfu en vilja lágmarka útgjöldin [5].
Verð og úrval forrita eru eins og áður segir lykilatriði við val á spjaldtölvum, en við magninnkaup stofnana á tölvubúnaði koma aðrir þættir til skoðunar eins og mál er varða öryggi og rekstur búnaðarins, til dæmis hversu auðvelt er að miðstýra uppsetningu búnaðarins og hugbúnaðar og aðstoða notendur með hann. Þessi atriði þarfnast nánari skoðunar og eru háð stefnu hverrar stofnunar.

Notkun í skólum á Íslandi

Sérdeild Hlíðaskóla gerði fyrst árið 1983 fjölfötluðum nemendum sínum kleift að nota sérhæfð tæki til vinnslu á Apple-tölvu [2]. Börn sem annars gátu ekki tjáð sig gátu nú með aðstoð tölvutækninnar gert sig skiljanleg. Ef skoðuð er staðan í dag virðist samkvæmt námsskrá leik- og grunnskóla ekki vera nein ákveðin stefni í gangi varðandi tölvunotkun barna með sérþarfir heldur virðist starfið frekar vera sjálfsprottið hjá hverjum og einum kennara, við hæfi viðkomandi barns. Þó er stefna Upplýsingatæknimiðstöðvar Reykjavíkurborgar að byggja upp þjónustu við spjaldtölvur líkt og annan vélbúnað í tengslum við upplýsingatækni, en til að auðvelda eftirlit og öryggi í rekstri var ákveðið að takmarka innkaup við eina tegund spjaldtölva, iPad [8].
Einnig er starfandi TMF tölvumiðstöð, áður Tölvumiðstöð fatlaðra, sem er sjálfstæð stofnun með það að sjónarmiði að bjóða upp á námskeið og einstaklingsmiðaða ráðgjöf á sviði upplýsingatækni [4].

Að lokum

Allir þeir kostir sem tölvan hefur upp á að bjóða í starfi með börnum með sérþarfir eru líka til staðar í spjaldtölvu sem gædd er snertiskjá samanber iPad. Til viðbótar er spjaldtölvan hentugri í notkun fyrir börn með fötlun hvort sem um er að ræða einstaklinga með skerta hreyfigetu eða einstaklinga með skerta athygli þar sem viðmótið er hnitmiðaðra hvað viðfangsefnið varðar og stjórntækin eru aðgengilegri fyrir þessa einstaklinga en lyklaborð og mús og þar með auðveldari í notkun.
Sem frumkvöðull á markaðnum hefur Apple auðsjáanlega forskot á aðra framleiðendur á spjaldtölvumarkaðnum, sérstaklega hvað varðar úrval forrita og samband við framleiðendur forritanna. Hins vegar er pláss á markaðnum til að keppa í verði eða öðrum þáttum og þar eru spjaldtölvur með Android stýrikerfinu raunhæfur valkostur fyrir þá sem hafa minna á milli handanna, að því gefnu að forritin sem sóst eru eftir séu í boði.

Höfundar: Arnþór Snær Sævarsson og Perla Þrastardóttir, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Birt 28. febrúar 2013

Heimildir
[1] CBS News, 60 Minutes : Apps for Autism: Communicating on the iPad - (júlí 2012) - [Vefur] Slóð http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7414970n
[2] KHÍ : Kristín Eyjólfsdóttir : Tölvur, upplýsingar og fötlun - (2001) - [Vefur] Slóð http://www.ismennt.is/not/kristineyjolfs/khi/marghug/tolvurupp.html
[3] Wall Street Journal - Using the iPad to Connect - (október 2010) - [Vefur] Slóð http://online.wsj.com/article/SB10001424052748703440004575547971877769154.html
[4] TMF Tölvumiðstöð : Um TMF - [Vefur] Slóð http://tmf.is/pages.php?idpage=650
[5] Autistm Plugged In - Nexus 7 Android Autism Apps - (júlí 2012) - [Vefur] Slóð http://www.autismpluggedin.com/2012/07/nexus-7-android-autism-apps.html
[6] Friendship Circle - 7 Special Needs Apps In The Google Android Market - (mars 2011) - [Vefur] Slóð http://www.friendshipcircle.org/blog/2011/03/09/7-special-needs-apps-in-the-google-android-market/
[7] iAutism - 90 apps for Android - (febrúar 2012) - [Vefur] Slóð http://www.iautism.info/en/2012/02/20/90-apps-for-android/
[8] Sólveig Jakobsdóttir o.fl. : Spjaldtölvur í Norðlingaskóla : þróunarverkefni 2012-2013 Áfangaskýrsla - Fylgiskjal H - Spjaldtölvustefna Reykjavíkurborgar - july 2012 - [Vefur] Slóð http://skrif.hi.is/rannum/files/2012/09/FylgiskjolDEFGH.pdf

BIrt 28.02.2013

Lesið 7549 sinnum Last modified on laugardagur, 23 February 2013 13:44