Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Print this page

Framsetning frekar en innihald - Ferlið í hugbúnaðarþróun

HofundurVið þróun á hugbúnaði eru forritarar stundum gagnrýndir fyrir að sjá hlutina of mikið út frá undirliggjandi kerfum. Mjög mikil áhersla er lögð á að gera bakendann vel þar sem öll vinna forritsins fer fram. Sá hluti er prófaður í þaula og reynt að tryggja eins vel og hægt er að allt virki eins og hönnun forritarans gerði ráð fyrir. Forritið er hannað og smíðað út frá þeim útreikningum sem það á að framkvæma. Í grunninn kann þetta að virðast gott verklag, en gallinn er að viðmót forritsins mætir afgangi. Viðmótið er samt það eina sem notandinn sér, í hans augum er forritið ekkert nema glugginn sem hann sér á skjánum.

Afraksturinn úr ferlinu hérna að ofan getur því verið mjög tæknilega fullkomið forrit sem getur gert nákvæmlega það sem það á að gera. Viðmót forritsins varð hinsvegar eftir alla vinnuna lítt heillandi samsuða til að hægt væri að nota alla góðu fítusana sem eru undir yfirborðinu. Notandinn skilur síðan hvorki upp né niður í því sem er að gerast þar sem viðmótið er hannað til að virka fyrir forritið, ekki notandann. Það er jafnvel auðveldara fyrir hann að gera hlutina bara í höndunum.  

Ferlið í gerð kennsluefnis

Færum okkur núna yfir í allt annað. Ég ímynda mér að ferlið við að skrifa kennslubók fyrir áfanga í framhaldsskóla sé nokkurnvegin eftirfarandi: Fræðimaður tekur sig til og skrifar bók út frá námsefni sem verið er að kenna í tilteknum áfanga í framhaldsskólum. Hann skoðar greinar og annað efni sem gert hefur verið um viðfangsefnið og tekur saman og byggir líka á eigin þekkingu. Textin er skrifaður yfir langan tíma og hefur verið marglesinn af höfundinum og mikið lagt upp úr að hann sé sem réttastur. Textinn er yfirfarinn af kennurum og öðrum fræðmönnum og jafnvel breytt til að hann nái örugglega yfir allt það sem rétt þykir að fjalla um. Myndum er síðan bætt við til að styðja við textan. Nemandinn kaupir síðan bókina og les hana jafnvel líka, en man ekki nema brot af því sem þar kom fram.

Í mínum augum er textinn í þessu tilfelli nákvæmelga eins og bakendaforritið sem ég talaði um í upphafi. Ritari bókarinnar horfir of mikið á innihald efnisins og of lítið er spáð í framsetningunni. Þetta leiðir af sér námsefni sem inniheldur allt það sem þarf til að kenna tiltekinn áfanga en nemandinn á ekkert alltof auðvelt með að nýta sér það til að læra. Hann getur jafnvel sleppt því að lesa bókina án þess að það komi mikið niður á útkomu hans úr áfanganum sem bókin var skrifuð fyrir.

Hvað er til ráða?

Í forritunarheiminum er til lausn á þessu vandamáli: Notendamiðuð hugbúnaðargerð (e. User-centerd design). Notendamiðuð hugbúnaðargerð gengur út á að hugsa forritið sem er verið að skrifa út frá þörfum, vilja og takmörkunum notandans á öllum stigum þróunarvinnunar.

Notendamiðuð hugbúnaðargerð hefur reyndar ekki átt upp á pallborðið hjá mörgum forriturum og í sumum tilfellum er það afþví þeir skilja ekki út á hvað hún gengur. Þeir halda að afþví þeir eru sérfræðingarnir í hugbúnaðargerð þá sé það jafnvel til trafala að fá notendur. iPod er stundum notaður sem dæmi, engum notanda hefði dottið í hug að biðja Apple um að gera eitthvað sem líkist iPod á þeim tíma sem geislaspilarar og kasettuspilarar voru vinsælistu ferða-tónlistarspilararnir. Þeir vilja meina að afþví notendur á þeim tíma hefðu bara hugsað um endurbætur á þáverandi tækjum hefði iPod ekki getað orðið til með notendamiðaðri hugbúnaðargerð. Þetta er grundvallarmisskilningur.

Notendamiðuð hugbúnaðargerð snýst ekki um að spyrja notandann hvað hann vill og gera svo það sem hann biður um, heldur að nota tilteknar aðferðir til að skilja hvað það er sem notandinn þarf og hvernig er best fyrir hann að ná sínum markmiðum. Forritið er orðið samvinnuverkefni milli forritarans og einhverra dæmigerðra notenda forritsins. Forritð er áfram skrifað af forritaranum og hans sérfræðiþekking nýtist eftir sem áður, en til viðbótar er komin bein tenging við notendurna sem er oft ekki til staðar í forritunarverkefnum. Forritið er prófað með formlegri rannsókn, niðurstöðurnar eru notaðar til að bæta forritið og það er síðan prófað aftur til að athuga hvort lausnin er tilbúin.

Ég er ekki menntaður kennari eða sérfræðingur í gerð kennsluefnis, en ég hef verið nemandi í hátt í 20 ár. Það sem ég er að velta fyrir mér og varð kveikjan að þessari grein er hvort sama vandamál sé til staðar í gerð kennsluefnis. Er verið að nota vísindalegar aðferðir til að meta gæði kennsluefnisins út frá því hvernig það reynist fyrir nemendur? Á „viðmótið“ á kennsluefninu og þar með árangurinn af notkun þess ekki að vera aðalatriðið?

Höfundur: Guðmundur Ólafsson, tölvunarfræðinemi við Háskólann í Reykjavík

Birt 23. mars 2013

Lesið 4941 sinnum Last modified on fimmudagur, 21 March 2013 16:33