Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Fjarnám - mín reynsla

einarA1Vorið 2011 var ég búinn að vera í góðri, traustri vinnu til 5 ára en að þeim tíma liðnum fannst mér þó eins og einhverskonar stöðnun væri að byrja í kollinum. Ekkert skrýtið þegar maður er búinn að ganga nokkrum sinnum í gegnum flest það sem kemur upp í vinnunni.

Ég var ekki sáttur við þessa stöðu þar sem ég vill helst vera kvikur og lifandi í hugsun. Helst vill ég stöðugt vera að læra eitthvað nýtt. Þannig líður mér best. Fyrir mér voru því tveir kostir í boði: Finna mér aðra vinnu eða fara í nám.

Þar sem ég var í tiltölulega góðu starfi vildi ég helst ekki sleppa því. Að fara í fullt nám var heldur ekki kostur sem ég gat leyft mér af fjárhagsástæðum. Námslánaupphæðir á Íslandi í dag standa jú engan veginn undir kostnaði við að lifa. Að minnsta kosti ekki upphæðirnar fyrir einhleypan einstakling. Það varð ákvörðun mín að sækja um í Kerfisfræði í fjarnámi við Háskólann í Reykjavík. Ég var samþykktur inn og um haustið 2011 hófst námið.

Ég verð að viðurkenna að það var svolítið áfall í byrjun. Námið byrjaði af fullum krafti á fyrsta degi og verkefni byrjuðu að streyma inn strax. Fyrir mann sem ekki hafði komið nálægt námi í 15 ár var þetta því töluvert átak og í 2. viku spurði ég sjálfan mig hvern fjárann ég hefði verið að koma mér út í. En svo kom þetta smátt og smátt. Kollurinn hrökk í gang og hraðinn vandist.

Ég er nú á minni 4. önn í náminu. Þetta hefur gengið nokkuð vel á heildina litið. Háskólinn í Reykjavík er metnaðarfullur og gerir miklar kröfur til sinna nemenda. Það er nokkuð sem ég er mjög ánægður með.

Fjarnámið í Háskólanum í Reykjavík er sett upp á þann hátt að notast er við sérstakan vef til að halda utan um námið. Inni á þeim vef kemst maður í allt efni sem kennarar koma til nemenda sinna. Þar skilar maður inn verkefnum og fær einkunnir afhentar. Á vefnum er umræðukerfi sem einstaka kennari notar en flestir eru farnir að nota Facebook til að halda utan um dagleg samskipti við nemendur, sem nemendur nota líka mikið sín á milli. Kennari býr þá til hóp (grúppu) á Facebook fyrir viðkomandi námskeið og bætir nemendum sínum í hópinn. Þetta nýtist vel og gerir samskipti við bæði kennara og aðra nemendur mun líflegri og skemmtilegri. Þetta er einstaklega gott fyrir fjarnemendur sem fá þarna tækifæri til samskipta við alla aðra þátttakendur á auðveldan og aðgengilegan hátt.

Námsefnið samanstendur yfirleitt af hljóðglærum/skjáupptökum sem nemendur hlaða niður og horfa á, ítarefni og tenglum. Allt er þetta aðgengilegt á vefnum. Það er misjafnt hvort efnið sé tekið upp sérstaklega eða hvort um er að ræða upptökur beint úr tímum í staðarnámi. Mín reynsla er að það er oftast skemmtilegra að fá upptökur úr tímum. Þar er kennarinn að tala beint til nemenda, þeir fá að skjóta að spurningum og oft koma spaugileg tilvik. Námið verður fyrir fjarnemandann svo miklu meira lifandi við þetta. Misjafnt er hvort kennarar sýni bara glærur/skjámyndir undir fyrirlestri eða hvort þeir notfæri sér búnað sem gerir þeim kleift að skrifa/teikna inn á skjámyndirnar líka.

Mér finnst þetta ágætis form á fjarnámi. Kennarinn stjórnar hraðanum gróflega. Að mínu mati er mikilvægt að fá verkefni mjög reglulega. Það heldur manni við efnið og gefur manni nauðsynlegt aðhald. Það er nefnilega svo auðvelt að falla í þá gryfju að "fresta" lærdómnum þegar maður er svona einn að læra. Til að verkefnaaðhaldið virki sem best verða verkefnin að gilda sem hluti af lokaeinkunn. Það er aðalhvatningin.

Ef eitthvað má gagnrýna í sambandi við fjarnámið í Háskólanum í Reykjavík þá er það kannski helst að það þyrfti þrengri reglur til kennara varðandi fyrirkomulag/vinnubrögð. Það er ekki alltaf samræmi í hvar kennarar staðsetja efnið inni á vefkerfinu. Sumir fylla námskeiðssvæðið strax af öllu efni á meðan aðrir setja inn efnið smátt og smátt eftir því sem líður á námskeiðið. Mér finnst betra að fá efnið smátt og smátt. Að sjá allt efnið strax á fyrstu dögum getur gert það svolítið yfirþyrmandi og jafnvel dregið úr manni mátt. Ég geri mér þó fulla grein að bæði nemendur og kennarar eru misjafnir og örugglega eru margir nemendur sem finnst betra að fá allt efnið inn í einu.

Því er ekki heldur að neita að í sumum námskeiðum kemst maður ekki hjá því að líða eins og að fjarnámið sé nokkurskonar aukaþjónusta. Viðkomandi námskeið er þá í raun ekki orðið alveg tilbúið fyrir kennslu í fjarnámi. Það að ætlast t.d. til þess að fjarnemendur komi í skólann nokkrum sinnum á önninni er ekki æskilegt. Fjarnám er jú fjarnám og það er mismunandi auðvelt/erfitt fyrir nemendur að koma í skólann. Einnig verð ég að nefna að það er ekki alltaf jafnmikið efni í boði fyrir fjarnema, t.d. í einu námskeiði þá eru fyrirlestrar sem settir eru inn á vef námskeiðsins á einu tungumáli en tímar staðarnemanna oftast á öðru. Þannig fá staðarnemar aðgang að efninu á tveimur tungumálum en fjarnemar aðeins öðru þeirra.

Höfundur: Einar Ársæll Hrafnsson, nemandi í Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík 

Birt 4. apríl 2013

Lesið 5760 sinnum Last modified on fimmudagur, 04 Apríl 2013 14:48