Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Framboð og eftirspurn

ragnh2Þeir sem fylgjast með atvinnuauglýsingum hafa örugglega tekið eftir því hve mikið er auglýst eftir vefforriturum. Vefbransinn er í blóma þessa dagana, margt að gerast og spennandi verkefni á öllum vígstöðvum. En bransann vantar fleira fólk og satt best að segja er kominn tími til að háskólar þessa lands taki sig til og skoði þetta betur sem hluta af tölvunarfræðináminu, enda er það umtalað að það sé ójafnvægi milli þarfa atvinnulífs og menntakerfis.

Það sem vefbransann vantar er

  • Fólk með þekkingu á vefviðmóti og notendaupplifun (UX)
  • Fólk með góðan tölvunarfræðibakgrunn
  • Fólk sem er metnaðarfullt og lítur ekki á viðmótið sem annars flokks

Það sem við höfum tekið eftir er

  • að þeir sem útskrifast úr tölvunarfræði vilja allra helst vera bakendaforritarar enda er þeirri hlið gerð betri skil í náminu
  • að tölvunarfræðinemar eru frekar einsleitur hópur

Við erum þeirrar skoðunar að þeir sem hafa áhuga á viðmóti, notandaupplifun og hönnun líta alls ekki á tölvunarfræði sem valkost fyrir sig.

Þeir sem hafa mikinn áhuga á þessari hlið tölvunafræðinnar eru í mörgum tilvikum að fara í erlenda skóla eða henda sér í heimanám og stúdera þessa hluti í gegnum vefinn og annað fólk í vefbransanum.

vefur

Ég hef skorað á Háskólann í Reykjavík að skoða þessi mál og hafa þau tekið áskoruninni og eru að íhuga það að bæta við fimmta áherslusviðinu í tölvunarfræðináminu.

Ég gleðst mikið yfir þessu og hvet bransann til að styðja við þetta, t.d. með því að koma að kennslu. Ég er meira en til í að fá ábendingar og pælingar sendar ef fólk hefur skoðun á málinu og koma þeim á framfæri.

Ég er sannfærð um að ef vefforritunarnám verður að veruleika munum við sjá breiðari hóp einstaklinga flykkjast í tölvunarfræði, þ.e. þann hóp sem hefur auga fyrir hönnun og mannlega þættinum þegar tölvuvinna er annars vegar.

Ég er Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar og áhugamanneskja um tæknimál. 

Lesið 5215 sinnum Last modified on fimmudagur, 18 Apríl 2013 20:01