Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

26.09.2013

Nýsköpun sem samkeppnisforskot og daglegur rekstur

AgustValgeirssonMikið er talað um nýsköpun og oftar en ekki í tengslum við frumkvöðla eða sprotafyrirtæki. Á sama tíma  hefur verið skrifað töluvert um hvernig fyrirtæki eru að breytast úr framleiðslu fyrirtækjum í þjónustufyrirtæki í þekkingarfyrirtæki og nú er nýsköpun það sem koma skal. Augljóslega þurfa fyrirtæki að líta á nýsköpun sem tækifæri til aðgreiningar á markaði. Markaði sem í dag er oftar en ekki afmarkaður af internetinu frekar en landfræðilegum þáttum. Með skynsamlegri nýtingu á nýsköpun þá geta skapast miklir möguleikar.  

„Disruptive innovation“ truflandi nýsköpun

Algengt er að nýsköpun sé tengt við eitthvað sem er alveg nýtt, nýja tækni eða eitthvað sem er verulega frábrugðið því sem tíðkast í dag. Slík nýsköpun er nefnd á ensku „disruptive innovation“ (truflandi nýsköpun)  og  í þeim flokki er oft að finna hugmyndir sem hafa gjörbreytt hegðun neytandans. Hér má nefna hluti eins og snjallsíma sem hafa í  raun umbreytt hegðun okkar og opnað óteljandi möguleika á nýtingu snjallsíma sem verkfæri í dagsins önn. Clayton Christensen prófessor við Harvard háskóla skrifaði bókina „The innovators dilemma“ 1997, sem setti fram þá tilgátu að lítil fyrirtæki gætu í raun kollsteypt sér mikið stærri og þekktari fyrirtækjum með því að koma fram með truflandi nýsköpun sem myndi kippa stoðunum undan rekstri þessarra rótgrónu fyrirtækja. Við upplifum þetta augljóslega í dag með t.d. myndbandaleigur sem eru að deyja út vegna þess að afhending efnis hefur færst yfir á internetið og aðgengi notenda að því efni er mjög auðvelt.

Nýsköpun

Flest nýsköpunarverkefni eru ekki svona afgerandi en sameiginlegt með þeim hugmyndum sem virðast ná fótfestu er að þær kynna nýja nálgun á þekktum ferlum. Gott dæmi er kickstarter.com sem tók gamla nálgun um fjármögnun verkefna og bjó til umgjörð með þeirri tækni sem þegar var til staðar, en var nú sett saman á nýjan máta sem gjörbreytti hvernig er hægt að fá fjármögnum á hugmyndum sem einhver vill hrinda í framkvæmd. Annað dæmi er renttherunway.com sem gerir öllum kleift að klæðast hátískufatnaði án þess að þurfa að kaupa hann. Hugmyndir af þessum toga fá oftar en ekki mikla mótspyrnu frá þeim aðilum sem þær sækja að, sérstaklega í byrjun, en ef þær ná fótfestu vilja markaðsráðandi aðilar oftar en ekki kaupa hugmyndina eða koma með samsvarandi hugmynd á sínum forsendum.

Rauði þráðurinn virðist vera að taka það sem þegar er til og setja það saman á nýjan máta eða vinna úr því nýjar upplýsingar sem skapa ný verðmæti fyrir notendann. Vaknar þá eðlilega spurningin hvar liggur línan á milli vöruþróunar og nýsköpunar.

TESCO fyrirtækið hefur einfalda reglu þegar það kemur að nýsköpun, ef hugmyndin skilar ekki auðveldari eða betri ferlum fyrir bæði starfsmenn og viðskiptavini þá fær hugmyndin ekki stimpilinn nýsköpun. Þessi grundvallarhugsun að líta á bæði starfsmenn og viðskiptavini sem notendur á jafnræðisgrunni er að ryðja sér til rúms víða í dag.

Michael Schrage frá MIT lítur á nýsköpun út frá sjónarmiði viðskiptavinarins, nánar tiltekið „hver vilt þú að þinn viðskiptavinur verði“ (Who do you want your customer to become). Hann gerir ekki greinarmun á innri eða ytri viðskiptavinum heldur metur nýsköpun út frá þeirri nálgun að ef þú vilt breyta hegðun þinna viðskiptavina í ákveðna átt, hvernig getur þú nýtt núverandi tækni á nýjan máta til að ná því markmiði.  Sem dæmi má nefna ef banki vill fækka komum viðskiptavina í útibúin sín þá er svarið að veita honum aðgang að þeim ferlum án þess að þurfa að fara í bankann (sem sagt heimabankinn). En Michael Schrage vill að starfsmenn noti þá sömu kerfi til að gera sömu hluti fyrir viðskiptavinina. Með þessu þá er notendaupplifun starfsmanna sú sama og viðskiptavina og þeir geta betur sett sig í spor viðskiptavinarins og með því aukast líkur á því að starfsmenn komi fram með hugmyndir sem bæta ferlin eða bjóða nýjar leiðir (nýsköpun) sem nýtast öllum sem nota viðkomandi kerfi.

Nýsköpun í daglegum rekstri

En það hefur reynst mörgun fyrirtækjum erfitt að tileinka sér aðferðafræði nýsköpunar, því oft kallar það á örar breytingar sem ráðsettari rekstrareiningar reyna oft að forðast. Því er með þetta eins og margt annað að þetta snýst um hugarfar og viljan til að gera hlutina á nýjan máta og ekki síst viljan til að prófa eitthvað nýtt og þá í samvinnu við sína viðskiptavini.  Við sjáum í tæknigeiranum mörg einkenni sem eiga við hér, gott dæmi er agile eða scrum nálganir sem eru að reyna að gera þróunarferlið sveigjanlegara og líka styttra. Því í dag verða fyrirtæki að geta brugðist hratt við breytingum í samkeppnisumhverfinu ekki síður en tækniumhverfinu.  Fyrirtæki sem vilja hafa nýsköpun sem hluta af sínum daglega rekstri þurfa að hugsa skipulagsmálin á nýjan máta, boðleiðir og ákvarðanataka þarf að vera snögg, upplýsingaflæði gagnsætt og með þeirri sýn að lokamarkmið sé ávinningur fyrir bæði fyrirtækið og viðskiptavininn þá mun viðskiptasamband þeirra á milli þurfa að þróast og vera nánara að mörgu leiti.

Ef fyrirtæki ná að gera nýsköpun að daglegum rekstri þá þarf að nálgast reksturinn með annari sýn, því mælikvarðar sem byggja á óbreytanleika muni ekki eiga við. Mælingar á árangri munu þurfa að taka mið af því hvernig náðst hefur að skapa ávinning fyrir viðskiptavininn en ekki bara fjárhagslegir mælikvaraðar, því hvoru tveggja þarf til að vita hvort reksturinn sé að stefna í rétta átt.

Það er oft sagt að snerpa og þjónustulund sprotafyrirtækjanna sé eitt einkenni á litlum nýjum fyrirtækjum, en snerpa og þjónustulund er eins og annað skapað af þeim sem annast störfin og ef rétt er að málum staðið þá er stærð fyrirtækis ekki hindrun í að bjóða snögga og góða þjónustu.

Að lokum vil ég benda á að breytingar og þróun í okkar tækniumhverfi er alltaf að vera örari sem kallar á okkur sem miðla þekkingu tækninnar til viðskiptavinnanna að nýta þá möguleika sem ný tækni býður til að skapa ný verkfæri og/eða upplýsingar með þeim undirliggjandi ferlum og tækni sem knýja rekstur okkar viðskiptavina. Slík nýsköpun þarf að vera hluti af okkar daglegu störfum.

Höfundur: Ágúst Valgeirsson, forstöðumaður rafrænna viðskipta Advania

Heimildir:
Michael Schrage: Who Do You Want Your Customers to Become? (kindle)
Clayton Christensen: The Innovator’s Dilemma: When New Technologies Cause Great Firms to Fail
Michale Schrage:  Serious Play: How the World's Best Companies Simulate to Innovate
http://www.forbes.com/sites/carolinehoward/2013/03/27/you-say-innovator-i-say-disruptor-whats-the-difference/

Lesið 5202 sinnum