Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Upplýsingatæknin og sakamál

 sverrir darri 

Það er áhugavert að hugsa um þau andstæðu áhrif sem upplýsingatækni hefur á sakamál. Önnur hliðin er sú að rannsakendur lögreglu hafa fengið sífellt öflugri tæki upp í hendurnar til þess að hafa hendur í hári glæpamanna. Hin hliðin er sú að glæpamenn hafa fundið sífellt fleiri leiðir til þess að fremja glæpi. 

 

 

Sjónarhóll lögreglunnar

Árið 1887 gaf Sir Arthur Conan Doyle út fyrstu söguna af rannsóknarlögreglumanninum Sherlock Holmes. Það er ekki skrýtið að á þeim tímum hafi kostir lögreglumannsins falist í rökhugsun og yfirburða þekking. Hann hafði ekki á öðru að byggja, hann hafði ekki aðgang að öðrum tólum eða tækjum.

Árið 2000 hófst þáttaröðin Crime Scene Investigations á CBS sjónvarpsstöðinni sem árin á eftir átti eftir að verða einn vinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma. Rúmlega hundrað árum eftir að Sherlock Holmes steig fram á sjónarsviðið hafði umhverfi rannsóknarlögreglumannsins tekið stökkbreytingum. Tækni skipar stóran sess í starfi lögreglumanna nútímans og upplýsingatæknin þá sérstaklega. Löggæslustörf hafa undanfarna áratugi þróast úr því að vera vinnuaflsfrek yfir í að vera fjármagnsfrek, þar sem ýmis tæknibúnaður hefur tekið yfir eða einfaldað ýmis verk lögreglumanna. Það skín í gegn í þáttum á borð við CSI þar sem ekki er hægt að leysa eitt einasta morðmál eins og fyrri söguhetjur á borð við Columbo eða Derrick hefðu gert það, tæknin kemur alltaf þar við sögu.

Aðgangur að upplýsingum í gegnum gagnagrunna lögreglunnar, eða einfaldlega internetið, hefur auðveldað lögreglustörf til muna. Miðlægir gagnagrunnar alþjóðlegra löggæslustofnana á borð við Interpol hafa minnkað heiminn og fækkað felustöðum glæpamanna. Alþjóðasamstarf hefur stóraukist með hjálp upplýsingatækni sem og þekkingarmiðlun milli lögregluembætta.

Við upphaf 20. aldarinnar var farið að nýta samanburð á fingraförum til þess að leysa sakamál og fyrst um sinn var það tímafrekt verk unnið af sérfræðingum. Þegar fingraför fundust á vettvangi glæps gat það verið stór ákvörðun að bera förin saman við gagnabanka lögreglunnar á staðnum, til þess að kanna hvort þau væru í eigu einhvers góðkunningja hennar. Sú vinna gat tekið fingrafarasérfræðing marga daga, og var oft unnin til einskis. Jafnvel gátu fingraförin verið til á skrá hjá lögreglunni í næsta bæ, en engin leið var þá til þess að komast að því, nema með því að eyða enn meiri tíma í vinnu sem mögulega myndi engu skila. Nú á tímum, þegar persónuverndarákvæði í lögum stoppa það ekki, er hægt að sameina stóra fingrafarabanka með hjálp tölvutækni og hugbúnaður er notaður til þess að bera fingraför saman við þúsundir annarra á tíma mældum í mínútum.

Á sama hátt hefur tölvutækni einfaldað samanburð á niðurstöðum DNA rannsókna þó að líklega eigi enn eftir að verða framfarir í þeim efnum á komandi árum. Á allra síðustu árum hefur einnig verið þróaður hugbúnaður til þess að greina andlit af myndböndum sem gerir það nánast ómögulegt að leynast í miðborgum margra stórborga.

Sá þáttur glæparannsókna sem hefur breyst hvað mest með tilkomu upplýsingatækni eru rannsóknir á verðbréfatengdum glæpum. Fyrir tíma tölvutækninnar var nánast ómögulegt að greina ýmsa glæpi. Markaðsmisnotkun þar sem reynt var að hafa áhrif á markaðinn með því að kaupa mikið magn af bréfum, eins og gert var hér á landi fyrir hrun bankanna, var mjög erfitt að greina. Gagnasettin sem fylgja slíkum viðskiptum skipta oft þúsundum eða jafnvel milljónum lína. Nú notast efnahagsbrotadeildir við sérhæfð greiningartól og hugbúnaður Kauphalla er með innbyggt viðvörunarkerfi sem á að nema óeðlileg viðskipti.

Innherjaviðskipti fyrr á tímum fór oftast fram í kjölfar upplýsingaflæðis sem fram fór maður á mann og því fylgdi engin pappírsslóð. Nú á tímum er upplýsingaflæði oftast í gegnum tölvupóst, í gegnum Netið eða á annan rekjanlegan hátt. Sönnunarfærsla í þessum málum hefur því auðveldast til muna með tilkomu upplýsingatækni.

Hér hafa verið tekin nokkur dæmi um aðkomu upplýsingatækni að störfum rannsóknarlögreglumanna. Auðvitað má taka til fjölda annarra dæma en líklega er ein stærsta en almennasta breytingin fólgin í aukinni skilvirkni vegna hraðari samskipta, bættrar skjölunar og hraðara og betra aðgengi að upplýsingum, upplýsingum sem eru líklegri til þess að vera réttar.

Sjónarhóll glæpamanna

Glæpamenn hafa einnig fengið ný tækifæri upp í hendurnar í kjölfar upplýsingatæknibyltingarinnar. Í kjölfarið er líklega ekki rétt orðanotkun, þar sem snjöllustu glæpamennirnir hafa nánast verið á undan tækninni og farið að misnota hana um leið og hún kemur til sögunnar. Í rauninni má flokka breytta stöðu glæpamanna í tvennt. Annars vegar má telja til ný tæki og tól sem glæpamenn hafa fengið upp í hendurnar til þess að fremja „hefðbundna“ glæpi. Hinsvegar má segja að upplýsingatækni hafi skapað fjöldann allan af „nýjum“ glæpum.

Hefðbundnir glæpir

Glæpir hafa þróast með manninum og með breytingum á hverjum þætti í hinu daglega lífi koma nýjar leiðir til þess að nýta sér þessar breytingar. Á árum áður tíðkaðist það meðal þjófa að ræna viðskiptavini banka á leið þeirra út eftir að hafa tekið út pening. Með tilkomu hraðbanka þróaðist glæpurinn fyrst á þann veg að viðskiptavinir voru oft þvingaðir til þess að taka út pening en svo þegar menn urðu enn tæknivæddari var ofbeldið tekið út úr jöfnunni og kort manna einfaldlega afrituð með þar til gerðum búnaði á hraðbankanum.

Hin hefðbundnu bankarán eru enn til staðar. Ræningjar þurfa að hafa á brott með sér peninginn sjálfan en geta síður gengið að gjaldkeranum með byssu og neitt hann til þess að millifæra pening af einum reikningi yfir á annan sökum rekjanleika, þó að það væri mögulega hægt að nota mismunandi reikninga til þess að reyna að fela slóðina. Óhefðbundin bankarán hafa komið til sögunnar þar sem brotist er inn í tölvukerfi banka en öryggisdeildir banka eru í sífelldri baráttu til þess að vera skrefinu á undan.

Ýmsar falsanir, hvort sem það eru peningafalsanir, skilríkjafalsanir eða aðrar skjalafalsanir hafa orðið mun auðveldari með tilkomu teiknihugbúnaðar.

Í síðari heimsstyrjöldinni höfðu nasistar mikil áhrif á efnahag Breta með því að falsa sterlingspund. Það verk var hins vegar seinunnið (aðallega af gyðingum í útrýmingarbúðum) þar sem stækkunargler var í rauninni eini aukahluturinn sem notast var við, til viðbótar við skriffæri og pappír. Tilkoma rafrænna skilríkja og rafrænna greiðslumiðla er meðal þess sem hefur unnið gegn fölsunum. Þar má því sjá eitt af mörgum dæmum um „vopnakapphlaup“ á milli yfirvalda og glæpamanna.

Mörg önnur dæmi mætti telja upp varðandi nýjar útfærslur á hefðbundnum glæpum en stærsta breytingin felst líklega í auknu aðgengi að upplýsingum. Einföld notkun á www.ja.is og leitarvél getur gefið innbrotsþjófi upplýsingar um það hver búi í húsinu sem hann stendur fyrir framan og hvort að viðkomandi sé líklegur til þess vera efnaður. Sé samskiptamiðlum bætt við getur hann komist að því hvort viðkomandi sé jafnvel með fjölskyldunni í sólarlandaferð. Þetta aukna aðgengi að upplýsingum auðveldar glæpamönnum að finna skotmörk og skipuleggja glæpi sína.

Nýjar tegundir glæpa

Upplýsingatæknin hefur opnað leið fyrir fjölda glæpa sem ekki þekktust áður. Oft eru þetta afleiður af öðrum tegundum glæpa. Í hvert skipti sem ný tækni kemur til sögunnar hefur fólk tilhneigingu til þess að vera grunlaust í notkun hennar og ekki nægilega tortryggið. Í árdaga hverrar tæknibyltingar virðist vera sem glæpamennirnir komi fyrst á staðinn og nýti sér einfeldni fólks áður en reglusetningar og betri þekking á tækni gerir þeim erfiðara um vik.

Besta dæmið um þetta eru samskiptamiðlar. Vitundarvakning hefur orðið undanfarið í þessum efnum en betur má ef duga skal. Börn eru enn að lenda í klóm níðinga, fólk er enn að gefa upp of mikið af persónuupplýsingum og lenda í klóm svindlara og fólk er enn að smella á vafasama hlekki með misalvarlegum afleiðingum.

Í gegnum Netið hefur verið hægt að stela heilu „persónunum“. Með myndum af samskiptamiðlum, persónulegum upplýsingum, kennitölum og fleiri upplýsingum hafa óprúttnir aðilar sótt um kreditkort, keypt vörur eða jafnvel komið fram sem aðrar persónur á Netinu. Þetta er stærra vandamál erlendis, þó að svona mál hafi komið upp á Íslandi. Smæð þjóðarinnar veitir ákveðna vernd í þessum efnum.

Tölvuveirur hafa verið til staðar frá því snemma á 8. áratug síðustu aldar og hafa frá þeim tíma verið notaðar til þess að gera allt frá því að hræða fólk frá því að hvetja það til þess að fara í tölvurnar sínar á föstudeginum 13. til þess að sigrast á geimveruinnrás sem var við það að eyða jörðinni á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna (mögulega erum við að rugla raunveruleikanum saman við bíómynd þarna). Þær eru notaðar til þess að skemma, skemmta, stela upplýsingum, eða einfaldlega til þess að sýna fram á yfirburði þess sem hann skrifar.

Hægt að tína til fjölda annarra atriða, eins og netárásir milli landa, nýjar leiðir til eineltis, meiðyrða og jafnvel svokölluð nethryðjuverk.

Lokaorð

Það sem skrifað er hér að ofan er ekki tæmandi listi yfir áhrif upplýsingatækni á glæpi og glæparannsóknir til þess þyrfti þessi stutti pistill að færast upp í tugi eða hundruð blaðsíðna. Hér er einfaldlega stiklað á stóru og persónulegar hugleiðingar höfunda reifaðar. Niðurlagið er í rauninni það að á meðan það felast gífurleg tækifæri í tæknibyltingu þarf að hafa varna ár, en á sama tíma nýta sér þær til að berjast gegn mögulegum neikvæðum áhrifum þeirra.

Höfundar: Sverrir Þorvaldsson og Kristinn Darri Röðulsson, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 

 
Lesið 2605 sinnum Last modified on fimmudagur, 02 January 2014 14:36