Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

12.11.2013

Vel upplýstur en andlega fjarverandi? Jákvæð og neikvæð áhrif snjallsímanotkunar á félagsleg tengsl

AnitaogKristinEins og góðkunnugt er þá hefur á undanförnum árum átt sér stað bylting í þróun símtækja með tilkomu snjallsímans. Snjallsímar virðast vera orðnir þungamiðja í daglegum samskiptum fólks og virðast margir vart geta slitið sig frá tækinu meira en 10 mínútur í senn - ef marka má tilkynningar tæknirisans IBM á fréttamiðlum landsins. Í snjallsíma hefur einstaklingur tölvu, síma, dagbók, GPS tæki, tónlistaspilara, myndavél, leiktæki og tækifæri til skilaboðasamskipta - allt í vasanum. Sumir hafa gengið svo langt að segja að á næstu árum muni nánast allt fara í gegnum farsíma og að þeir muni jafnvel taka við af tölvum þegar kemur að einkanotkun (Anthony, 2012).

 Vinsældir snjallsímans

Nýting tækjanna virðist vera ótakmörkuð en snjallsímar eru jafnvel farnir að vera mikilvægur partur af rannsóknum og í vísindum almennt (Miller, 2012). Til dæmis er í þróun forrit sem gerir snjallsímum kleift að meta í hvernig skapi eigandinn er hverju sinni (LiKamWa, Liu, Lane, Zhong, 2011). Með öllu þessu nýja sem verið er að þróa með snjallsímum og í kringum þá, er óhætt að segja að snjallsímarnir séu komnir til að vera.

Tveir af hverjum þremur Íslendingum eiga snjallsíma

Svo virðist vera að allir geti notað snjallsíma en talað er um að í lok árs 2013 muni um 1 milljarður einstaklinga vera kominn með snjallsíma í hendurnar (Dufau o.fl., 2011). Ef Ísland er tekið fyrir þá hefur samkvæmt MMR verið um 20% aukning á snjallsímaeigendum síðan árið 2011 en nýjustu tölur sýna að um tveir af hverjum þremur Íslendingum eru nú orðnir snjallsímaeigendur.

Niðurstöður rannsóknar Chittaranjan, Blom og Gatica-Perez frá árinu 2011 voru sláandi en þar kemur fram að þau gætu með rúmlega 75% nákvæmni sýnt fram á hvaða persónuleikar væru líklegir til snjallsímanotkunar. Önnur rannsókn hefur sýnt að þeir sem teljast líklegir til snjallsímanotkunar eru svonefndir úthverfir einstaklingar en þeir eru taldir vera meirihluti þeirra sem nýta sér tækni snjallsímans (Lane, 2011).

Úthverfir einstaklingar eru opnir, félagslyndir og með mikla þörf fyrir að vera í góðum samskiptum við aðra. Til dæmis eru smáskilaboð, símhringingar og annars konar samskiptaforrit góð leið til þess að vera í stöðugu sambandi við vini og vandamenn og það gæti verið svarið við því af hverju úthverfir einstaklingar virðast vera með meiri þörf fyrir þessi tæki. Þetta er góður biti fyrir snjallsímaseljendur að vita þegar kemur að markaðssetningu hlutarins því með þessu er auðvelt að sjá til hvaða hóps þeir eiga að beina kröftum sínum er viðkemur sölu á tækjunum.

Áhrif mikillar snjallsímanotkunar á sambönd einstaklinga

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á neikvæð áhrif mikillar snjallsímanotkunar á félagsleg tengsl milli einstaklinga (Park, Han, og Kaid, 2012; Pénard og Poussing, 2010; Raento, Oulasvirta, og Eagle, 2009; Shaw og Gant, 2002). Nýleg rannsókn sýndi þó fram á annað. Í þeirri rannsókn sem framkvæmd var árið 2012 kemur fram að mikil notkun snjallsíma hafi alls ekki neikvæð áhrif á félagsleg tengsl. Þvert á móti getur aukin notkun snjallsíma haft jákvæð áhrif á þessi tengsl og í leiðinni aukið tengslanet einstaklingsins (Park o.fl., 2012). Ekki er þó hægt að komast fram hjá þeirri hugsun að snjallsími, sama hvernig hann er notaður, komi eða muni einhvern tíman geta komið í staðinn fyrir persónuleg samskipti á milli einstaklinga.

Í þarfapýramída Maslows er hægt að sjá á einfaldan hátt hans kenningar um grunnþarfir mannsins. Í honum er kærleikur, umhyggja, vinátta, virðing sjálfs og annarra sem og líkamlegar þarfir allsráðandi („Maslow's Hierarchy of Needs“, 2010). Með þeim samskiptaforritum sem í boði eru í dag er vissulega hægt að eiga gott samband við aðra, í gegnum snjallsímann, en fyrst og fremst er mikilvægt fyrir einstaklinga að eiga í persónulegum samskiptum (Pénard og Poussing, 2010). Einstaklingar þrá umhyggju, snertingu og samskipti við aðra og það mun aldrei vera hægt að fullnægja þeim þörfum í gegnum tæki eins og snjallsíma. Því er óhætt að segja að niðurstöður rannsóknar Park og félaga kom mikið á óvart, eða þá að eingöngu hafi verið litið til tengslanets óháð því hversu náin eða persónuleg tengslin voru fyrir einstaklinginn.

Að vera vel upplýstur en andlega fjarverandi

Með tilkomu snjallsímans gefst einstaklingum tækifæri til að vera vel upplýstir um það sem á sér stað í heiminum hverju sinni. Í nútímasamfélagi telst mikilvægt og stundum nauðsynlegt að vera vel upplýstur og snjallsíminn hefur hjálpað þeirri þróun til muna. Nú eru jafnvel fyrirtæki og aðrir farnir að útbúa sérstaka vefmiðla eða forrit eingöngu ætlað snjallsímum. Það ýtir undir kenningu Anthony um að smátt og smátt munu snjallsímar taka við af heima- og fartölvum. Það sem snjallsíminn hefur fram yfir hefðbundnar tölvur er að hægt er að nálgast upplýsingar og grípa til ýmissa aðgerða á mun skemmri tíma. Því er tilkoma snjallsímans mikilvæg þróun í nútíma upplýsingaþjóðfélagi.

Þó er óhætt að segja að þótt mikilvægt sé að vera upplýstur og virkur í því upplýsingaþjóðfélagi sem við lifum í í dag þá þarf að varðveita persónuleg samskipti við aðra. Þótt hægt sé að gera allt nánast í gegnum farsímann þá er ekki hægt að skipta umhyggju, ást og félagsskap út fyrir þá notkun. Maður getur verið vel upplýstur um allt sem gerist nær og fjær en varhugavert er þó að gæta að því sem á sér stað í nánasta umhverfi. Að eyða tíma með manneskju sem veitir farsímanum meiri athygli en þér getur verið fráhrindandi og hefur það ekki bein neikvæð áhrif á félagsleg tengsl einstaklingsins?

Með þetta til hliðsjónar er óhætt að segja að í nútíma upplýsingaþjóðfélagi er þessi aukna notkun snjallsíma jákvæð fyrir einstaklinginn – en öllu má ofgera. Ekki má gleyma sér í tækninni og hætta að njóta sín í núinu. Huga þarf vel að fólki í kringum sig og passa þarf að vera vel upplýstur án þess þó að vera andlega fjarverandi. Flókið samfélag sem við lifum í.

Þetta er efni sem höfundum finnst vert að rýna betur í með hliðsjón af áhrifum á persónuleg samskipti einstaklinga og tilhneigingu þeirra til að gleyma umhverfinu og því sem virkilega skiptir máli.

Höfundar: Anita Brá Ingvadóttir og Kristín Gunnarsdóttir, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

Chittaranjan, G., Blom, J. og Gatica-Perez, D., (2011). Who’s Who with Big-Five: Analyzing and Classifying Personality Traits with Smartphones. 2011 15th Annual International Symposium on Wearable Computers (ISWC) (bls. 29–36). Flutt á 2011 15th Annual International Symposium on Wearable Computers (ISWC). doi:10.1109/ISWC.2011.29
Dufau, S., Duñabeitia, J. A., Moret-Tatay, C., McGonigal, A., Peeters, D., Alario, F.-X., Balota, D. A., o.fl., (2011). Smart Phone, Smart Science: How the Use of Smartphones Can Revolutionize Research in Cognitive Science. PLoS ONE, 6(9), e24974. doi:10.1371/journal.pone.0024974
Janet A. Simons, Donald B. Irwing og Beverly A. Drinnien, (1987). Maslow's Hierarchy of Needs. New York: West Publishing Company
Lane, W., (2011). The impact of personality traits on smartphone ownership and use. International journal of business and social science, 2(17), 22.
Miller, G., (2012). The Smartphone Psychology Manifesto. Perspectives on Psychological Science, 7(3), 221–237. doi:10.1177/1745691612441215
Park, K.-G., Han, S. og Kaid, L. L., (2012). Does social networking service usage mediate the association between smartphone usage and social capital? New Media & Society, 1461444812465927. doi:10.1177/1461444812465927
Pénard, T. og Poussing, N., (2010). Internet Use and Social Capital: The Strength of Virtual Ties. Journal of Economic Issues, 44(3), 569–595. doi:10.2753/JEI0021-3624440301
Raento, M., Oulasvirta, A. og Eagle, N., (2009). Smartphones An Emerging Tool for Social Scientists. Sociological Methods & Research, 37(3), 426–454. doi:10.1177/0049124108330005
Robert LiKamWa, Yunxin Liu, Nicholas D. Lane og Lin Zhong, (2011). Can Your Smartphone Infer Your Mood? - Microsoft Research. Sótt 14. október 2013 af http://research.microsoft.com/en-us/projects/moodsense/
Sebastian Anthony, (2011). There can only be one: Smartphones are the PCs of the future. ExtremeTech. Sótt 14. október 2013 af http://www.extremetech.com/computing/134868-there-can-only-be-one-smartphones-are-the-pcs-of-the-future.
Shaw, L. H. og Gant, L. M., (2002). In Defense of the Internet: The Relationship between Internet Communication and Depression, Loneliness, Self-Esteem, and Perceived Social Support. CyberPsychology & Behavior, 5(2), 157–171. doi:10.1089/109493102753770552

 
Lesið 3689 sinnum