Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Spjaldtölvunotkun í grunnskólum

meÁ síðastliðnum tveimur til þremur árum hafa spjaldtölvur verið  teknar í notkun í nokkrum grunnskólum hér á landi.  Mér lék forvitni á að vita hvernig til hefur tekist og  hvernig spjaldtölvurnar eru að nýtast. Meðal annars  hvernig kennarar eru að nota þær í kennslu t.d. með tilliti til nemenda með sérþarfir. Ég leitaði fanga í nýlegri skýrslu um spjaldtölvur í sérkennslu í leik og grunnskólum Hafnarfjarðar og einnig  skýrslu Reykjavíkurborgar frá því í haust um spjaldtölvur í skólastarfi.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði keyptu 15 Apple spjaldtölvur síðastliðið haust til reynslu og var um tilraunaverkefni að ræða. Átti að nota spjaldtölvurnar í sérkennslu nokkurra skóla sem áttu að skila sameiginlegri skýrslu um notagildi, kosti og galla þeirra í lok verkefnisins. Upplýsingarnar áttu síðan að nota til stefnumótunar í notkun spjaldtölva í sérkennslu í Hafnarfirði.

Að sögn kennaranna voru byrjendaörðugleikar þó nokkrir þegar kom að því að fara að vinna með spjaldtölvurnar. Kom meðal annar í ljós að nettenging í skólunum var vandamál og þurftu kennarar því að mestu leiti að hlaða niður forrit heima hjá sér. Einnig fannst kennurum skorta mjög á forrit á íslensku, einkum sem hægt væri að nota við lestrarkennslu.

Þrátt fyrir þetta er augljóst að spjaldstölvan sló í gegn hjá kennurum og nemendum. Þótti hún frábær viðbót við námið.  Sérstaklega virkaði hún vel á börn sem erfitt var að fá í samvinnu.  Þá þótti hún henta mjög vel í vinnu með tvítyngdum nemendum og einnig fyrir nemendur með ADHD ( athyglisbrest með ofvirkni).  Vinnusemi þeirra, einbeiting og úthald þeirra jókst til muna. Hún var notuð til þess að örva fínhreyfingar, til málörvunar, til sögugerðar, notuð sem  atferlismeðferð fyrir einhverfa og til að efla félagsfærni svo eitthvað sé nefnt. Hún er því að mati kennarana sem hana prófuðu  afar góð viðbót og jók stórlega fjölbreytni í námi og kennslu barna með sérþarfir.

Nokkur forrit sem notuð voru og reyndust vel voru t.d. Bitsboard, en það æfir hljóðblöndun, hljóðgreiningu, lestur og stafi.  Ýmis forrit frá Grasshoopers s.s. Little speller, little reader og fleiri æfa meðal annars að spora stafi, stafaþekkingu, lestur orða, ritun orða og fleira. Story maker er forrit þar sem börnin búa til eigin myndabækur og rita texta við myndirnar. Puppet pals er gott forrit sem hægt er að nota til að æfa félagfærni. Leo´s pad er forrit þar sem leysa þarf hin ýmsu verkefni tengd formum, litum, stöfum og tölum.

Nokkur góð stærðfræðiforrit eru Finger count, Math kid, Mathbugs, Montessori numbers, hungry fish og Math versus zombie.
Önnur skemmtileg forrit eru svo sem Talking Tom og Talking Ben. Þar endurtekur fígúra allt sem notandinn segir og getur það nýst vel í talþjálfun. Tasty tadpoles er ætlað yngstu börnunum og æfir hreyfingar um skjáinn. Ýmis forrit frá Taco boco eru líka skemmtileg en þar er hægt að elda fyrir skrímsli og fara í hárgreiðsluleiki.

Kostir þess að vinna með spjaldtölvurnar voru þeir að hún er handhæg, litil og meðfærileg. Þær eru einfalt fjölnotatæki sem getur komið í stað tölvu, myndavélar og upptökutækis. Þær bjóða upp á fjölbreytileika í kennslu. Fjöldi forrita auka möguleika á einstaklingsmiðuðu námi. Nemendur fá endurgjöf strax fyrir verkefnin sín. Nemendur læra á sínum hraða og auka úthald og árangur sérstaklega hjá þeim sem forðast ritun og vinnubækur. Spjaldtölvur virka einnig mjög hvetjandi á börn sem eiga erfitt með samvinnu. Einfalt er að nota spjaldtölvur til að taka upp speglaða kennslu. Hægt er að stilla eina spjaldtölvu sem móðurvél annarra í sömu stofnun og þá sækja þær sjálfkrafa forrit sem sótt eru í móðurvél. Ýmis forrit eru til sem halda utan um ýmsar skráningar. Catalyst heldur t.d. utan um skráningar í atferlisþjálfun nemenda á einhverfurófi í leikskólum. Stöðugt bætist í þann gríðarlegan fjölda smáforrita sem í boði eru og eru möguleikarnir því á nýtingu í kennslu því margir og  fjölbreyttir.

Nokkrir ókostir voru hinsvegar að 16 GB spjaldtölva rúmar ekki nægilega mikið af gögnum, en hægt er þó að finna laust á því hvar eigi að geyma gögn. Mörg forrit voru ófullkomin eða með ákveðna galla og ekki borgar sig að nota ókeypis forrit. Gögn geta tapast þegar forrit eru uppfærð. Vegna mikils framboðs á smáforritum er stundum erfitt að finna út úr því hvaða forrit virkilega koma að notum. Litið er til af íslenskum forritum og þá sérstaklega tengt lestrarkennslu.

Í skýrslu Reykjavíkurborgar um spjaldtölvur í skólastarfi er meðal annar bent á mikilvægi þess að skólar bregðist við nýjungum á borð við spjaldtölvur til að búa nemendur betur undir framtíðina. Þær bjóði upp á fjölbreytta notkunarmöguleika og þróunin er hröð. Þær eru í raun  allt í senn fartölvur, myndavél, hljóðfæri, upplýsingaveita, bókasafn, lesstuðningstæki, samskiptatæki, hljóðupptökutæki og myndbandsupptökuvél.  Þó ber að hafa í huga að  í skólastarfi má ekki gleyma  að mæla árangur af notkun þeirra í námi, gera grein fyrir tilgangi með notkun þeirra og á hvaða hátt spjaldtölvan muni bæta nám nemendanna.  

Nemendur með frávik gætu haft mikið gagn af spjaldtölvum. Má þar meðal annars nefna nemendur með annað móðurmál en íslensku, nemendur með heyrnarskerðingu, og nemendur  með einhverfu og önnur þroskafrávik sem þurfa á sérstökum stuðningi á að halda. Spjaldtölvan gæti nýst þessum nemendum á margvíslegan hátt. Hún gæti auðveldað þeim að læra nýtt tungumál, auðveldað þeim samskipti og  skipulagningu námsins, við leit að upplýsingum, í skapandi verkefnum og síðast en ekki síst við þjálfun á tali og tjáningu.
Forsenda útbreiðslu spjaldtölva í skólum er gott og öflugt þráðlaust net, þjálfun og þekking  kennara á þeim og mótun stefnu og skýrum reglum um notkun þeirra. Kennslufræðilegt gagn af þeim verður  að vera á hreinu áður en hafist er handa. Það er augljóst að samkvæmt þessum tveimur skýrslum sem ég leitaði fanga, að spjaldtölvur geta hentað mjög vel við nám og kennslu, möguleikarnir eru endalausir og æ fleiri og fleiri áhugaverð forrit líta dagsins ljós.

Vonandi nær spjaldtölvan útbreiðslu í grunnskólum landsins því ég tel hana afar  gott tæki til að efla sjálfstæði nemenda í námi, við skipulagningu náms, til að efla frumkvæði og síðast en ekki síst geta spjaldtölvur, ef rétt er á haldið gert kennslu og nám skemmtilegra og áhugaverðara.

Höfundur: Berglind Þórisdóttir nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 
Lesið 3079 sinnum Síðast breytt þriðjudagur, 19 November 2013 09:55