Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

/sys/tur

Stelpur2/sys/tur er félag kvenna innan tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Félagið var stofnað í haust af Áslaugu Eiríksdóttur, Elísabetu Guðrúnar- og Jónsdóttur, Helgu Guðmundsdóttur og Ingibjörgu Ósk Jónsdóttur, nemendum við Háskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun /sys/tra er að skapa vettvang fyrir stelpur þar sem þær geta fjallað um nördalega hluti án þess að hafa áhyggjur af því að fá á sig ljóskustimpilinn. Félagið er opið öllum stelpum innan tölvunarfræðideildarinnar.

Nafnið /sys/tur er vísun í skráarkerfi stýrikerfisins Linux og póstlistann Systers sem Anita Borg stofnaði árið 1987. Póstlistinn var hugsaður sem tengslanet kvenna innan tæknigeirans en þegar Anita Borg byrjaði með hann voru 12 konur skráðar. Nú hefur póstlistinn stækkað mikið og er orðinn að heimsins stærsta póstlistasamfélagi kvenna í tæknigeiranum.

Stofnfélögum /sys/tra hefur þótt vanta stelpur í hinar ýmsu keppnir innan tölvunarfræðideildarinnar. Þess má geta að Helga Guðmundsdóttir, einn af stofnendum /sys/tra, er eina stelpan sem hefur tekið þátt í hakkarakeppnini en hún náði glæsilegum árangri í síðustu keppni eða 3. sæti. Eitt af markmiðum /sys/tra er að fá fleiri stelpur í þessar keppnir og auka sjálfstraust þeirra á þessu sviði. Stelpur í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík eru aðeins 18% af öllum nemendum deildarinnar og því er ekki að furða að það getur verið áskorun fyrir þær að t.d. spyrja spurninga í tímum innan um strákana sem hafa margir hverjir forritað frá 12 ára aldri.

Starf félagsins /sys/tra fer þannig fram að tvisvar í mánuði eru svokölluð /sys/tra/kvöld. Þá verða konur úr tæknigeiranum fengnar til að koma og segja stelpunum frá starfi sínu og reynslu. Þar að auki verða settar upp tæknilegar vinnustofur. Þá munu /sys/tur gera eitthvað tæknilegt saman eins og að taka í sundur tölvu eða fara í gegnum áskoranirnar í hakkarakeppninni. Með þessu er vonast til þess að efla sjálftraust stelpnanna í tæknilegum atriðum þannig að þær taki frekar frumkvæði innan um strákana.

Á fyrsta /sys/tra/kvöldinu kom Andie Nordgren, Senior Producer hjá CCP, og hélt fyrirlestur um það hvernig er að vera kona í tæknigeiranum. Fyrirlesturinn var áhugaverður og átti vel við en málefnið var Andie mjög mikilvægt. Hún og Heidi Harman stofnuðu, Geek Girl Meetup, í Svíþjóð sem var í fyrstu hugsað sem atburður þar sem konur úr tæknigeiranum gætu komið og kynnst öðrum konum innan geirans. Nú er þetta orðið að alþjóðlegri ráðstefnu en slíkar ráðstefnur hafa verið haldnar í níu mismunandi löndum. Á síðasta /sys/tra/kvöldi var fjallað um Raspberry Pi sem er lófastór tölva á einu spjaldi. Þessi tölva var í upphafi hugsuð sem kennslutæki til forritunarkennslu í skólum og hægt er að forrita hana til þess að gera ýmislegt.  /sys/tur vinna nú að því að panta þessi tæki og vinna saman að skemmtilegum verkefnum. Vonin er sú að hægt verði að sýna afraksturinn eftir jól.

/sys/tur hafa fengið góðar viðtökur í skólanum og fjölmargar stelpur hafa lagt leið sína á /sys/tra/kvöld. Þessi starfsemi er mikilvæg fyrir stelpurnar til þess að styrkja þær og auka sjálfsöryggi þeirra á tæknilegum sviðum. Ein af ástæðunum fyrir því að svo fáar stelpur stunda nám innan tölvunarfræðinnar er sú að þær skortir fyrirmyndir. Því teljum við mikilvægt að fá til okkar flottar konur úr tæknigeiranum til þess að deila með okkur reynslu sinni.  Með stuðningsneti eins og /sys/trum getum við þjappað hópnum saman og komið í veg fyrir að stelpurnar týnist í strákahafinu.

Allar stelpur sem hafa áhuga eru velkomnar fundi /sys/tur.

Höfundur: Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Lesið 3230 sinnum Last modified on fimmudagur, 02 January 2014 13:31