Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

Konur og tölvunarfræði

asrunM  Kristine2 

Mikil umræða hefur átt sér stað á síðustu árum um mikilvægi þess að auka hlutfall kvenna í tölvunarfræði og tengdum greinum. Þó að jákvæð þróun hafi orðið undarfarið  t.d. aukið hlutfall kvenna innritaðist í tölvunarfæði í háskólum landsins á þessu ári, þá þarf að vinna áfram í þessum málum. Því miður gleymist stundum í umræðunni af hverju þarf að auka hlutfallið. Þessi umræða er mikilvæg núna þegar upplýsingatækniiðnaðurinn á Íslandi stendur frammi fyrir alvarlegum skorti á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki og það sem verra er, fyrirtæki á þessu sviði eru að flýja land í auknum mæli.

 Af hverju er þessi umræða mikilvægt?

Árið 2012 kom út umfangsmikil skýrsla á vegum The National Center for Women & Information Technology (NCWIT) í Bandaríkjunum.  NCWIT er bandarísk stofnun sem vinnur að því að leiðrétta kynjahlutfall í tæknigreinum og sér í lagi tölvunarfræði. Í skýrslunni eru teknar saman nýlegar rannsóknir og reynslan af aukinni þátttöku kvenna í tölvunarfræði. Markmiðið er að gera grein fyrir stöðunni og kortleggja það sem hindrar aukið hlutfall þeirra og að draga fram hver sé besta leiðin til að yfirstíga hindranir. Skýrslan tekur að auki saman helstu rök fyrir því af hverju þessi umræða er mikilvæg en þeim má skipta í þrennt:

 • Aukið hlutfall kvenna er nauðsynleg til að tryggja samkeppnishæft vinnuafl
 • Þörf er á nýsköpun í tækni
 • Auka þarf starfsmöguleika kvenna

Starfsfólk í upplýsingatækniiðnaðinum er mikilvægur hluti af vinnuafli í evrópska hagkerfinu en engu að síður er ekki hægt að manna störf tengd upplýsingatækni, jafnvel þó að atvinnuleysi sé til staðar í mörgum löndum. Þörf fyrir starfsfólk með menntun á sviði upplýsingatækni óx um 3% á árunum 2006 til 2010 en á sama tíma fækkaði útskrifuðum tölvunarfræðingum um 10%. Ef þessi þróun heldur áfram mun skorta um 900.000 starfsmenn á þessu sviði í Evrópu einni árið 2015. Í Bandaríkjunum er staðan svipuð þar sem ekki hefur tekst að ráða í nema hluta af nýjum störfum í upplýsingatækni og áætlað er að fram til ársins 2020 muni skapast um 1.4 miljón störf tengd tölvutækninni. Ætla má að þörfin sé einnig mikil hér á landi og mikilvægt er að kynna þennan stafsvettvang fyrir báðum kynjum svo þau geti tekið upplýsta ákvörðun um starfsval byggða á þekkingu. Við þurfum að fá til starfa bæði konur og karla með mismunandi bakgrunn og með fjölbreytta menntun til að vinna við margþætt störf tengd upplýsingatækni.

Upplýsingatæknin býður upp á fjölbreytt störf sem ættu að henta báðum kynjum, s.s. störf við stjórnun, ráðgjöf, rannsóknir og kennslu og alla þætti hugbúnaðargerðar, s.s. greiningu, hönnun, forritun og prófanir. Ef tækni er þróuð að mestu leyti af öðru kyninu þá erum við hugsanlega að missa um 50% þeirra nýjunga, lausna og nýsköpunar sem hitt kynið gæti lagt til í þróuninni. Því þarf að skoða sérstaklega hvernig efla má konur í tækni og vísindum og þá sér í lagi í upplýsingatækni. Mikilvægt er að líta til kvenna og kynna þeim starfsvettvang á þessu sviði sem er fjölbreyttur og áhugaverður og kveikja áhuga þeirra á að kynna sér fög á borð við tölvunarfræði, tæknifræði og verkfræði en einnig styttri námsbrautir.

Hvað er til ráða?

Rannsóknir hafa sýnt að ástæður þess að fáar konur sækja í nám og starfsframa í fögum eins og tölvunarfræði eru margvíslegar en í skýrsla NCWIT eru helstu fjórir orsakaþættirnir dregnir saman í eitt líkan (tafla 1). Það byggist á þeirri forsendu að skynjun, áhugi, sjálfstraust og ákvarðanir um nám og starfsframa mótist ekki  í tómarúmi heldur eru það félagslegir áhrifaþættir sem móta ákvarðanir um nám og störf.

 1. Hér er í fyrsta lagi nefnt hlutverk og áhrif menntunar og er þá er helst verið að vísa í áhrif námsefnis sem sjaldan er tengt áhugasviði stúlkna og áhrif námsumhverfis sem er ekki hvetjandi fyrir stúlkur. Kennslufræðirannsóknir hafa fjallað um mikilvægi þess að tengja námsefni við áhugamál og reynsluheim nemenda og einnig mikilvægi þess að nota virkar kennsluaðferðir sem hvetja til samstarfs. Rannsóknir benda einnig til þess að innan tæknigreina séu þessar aðferðir ekki notaðar í sama mæli og í mörgum öðrum greinum.
 2. Rannsóknir styðja þetta og sýna að helstu þættir sem fæla konur frá tölvunarfræði eru 1) óviðeigandi námsefni, 2) kennsluaðferðir sem ekki hvetja til samstarfs, 3) skortur á möguleikum til að taka áhættu og gera mistök og 4) of mikil áhersla á fyrirlestra miðað við verkefni þar sem hægt væri að taka virkari þátt og vinna að raunhæfum verkefnum. Eitt af því sem þarf að skoða eru kennsluaðferðir í tölvunarfræði og hvort breyta megi þeim til að laða að fleiri nemendur, ekki bara  konur heldur einnig karlmenn sem gætu dafnað enn frekar í náminu með breyttum kennsluaðferðum.
 3. Eitt af því sem auðveldlega má bæta er góð kynning á náminu og hvaða starfsmöguleikar eru fyrir hendi að loknu námi en kennsla og kynning á þessu efni hefur verið lítil, bæði í grunn- og framhaldsskólum landsins, og því mörg tækifæri til úrbóta. Þá þarf að leiðrétta þann misskilning að í tölvunarfræði sé einungis kennd forritun. Mikið er í umræðunni að auka forritunarkennslu í grunnskólum og framhaldsskólum og er það af hinu góða en það eitt og sér breytir ekki öllu. Það veldur áhyggjum í þessu samhengi að kennara vantar með viðeigandi menntun inn í skólakerfið og þá skortir einnig tækifæri til menntunar til að geta fylgt þessari þróun eftir.
 4. Í öðru lagi er vísað í áhrif umhverfisins en þá er talað um áhrif fjölskyldu, nærsamfélags og fyrirmynda en stúlkur og drengir alast oft upp við mismunandi framkomu og hvatningu sem leiðir til mismunandi reynslu snemma í lífinu. Í nánasta umhverfi stúlkna eru það helst foreldra og aðrar fyrirmyndir sem eru mótandi áhrifavaldar þegar kemur að ákvörðun um nám og starfsframa en minna er vitað um það hvernig slík áhrif tengjast tölvunarfræði. Í skýrslu NCWIT er bent á að sú staðalímynd sem oft er birt í fjölmiðlum af tölvunarfræðingum sem „loner“ og „nörd“  er síðan styrkt af umhverfinu en ekki eru til nægar rannsóknir um efnið til að hægt sé að fullyrða um áhrifin.
 5. Hægt er að fullyrða að viðhorf til kvenna innan fags skiptir miklu máli og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á góðar fyrirmyndir hafa jákvæð áhrif. Þess vegna skiptir miklu máli ef reynt er að fá fleira konur til að velja tölvunarfræði að þær hafi góðar kvenfyrirmyndir og að kynna slíkar fyrirmyndir til sögunnar. Ein leið er að fá konur sem náð hafa langt á þessu sviði til að fara í heimsóknir í skólana til að sýna hvert nám í upplýsingatækni hefur leitt þær.
 6. Í þriðja lagi nefnir skýrsla NCWIT áhrif jafninga en það getur verið erfitt að vera eina konan í hópnum og í minnahluta. Þetta er ein af röksemdafærslunum fyrir því að gera ætti forritun að skyldufagi á grunnskólastigi því það stuðli að því að öllum finnist þeir eiga heima í faginu og að þeir séu á meðal jafningja.
 7. Í fjórða lagi er bent á áhrif fjölmiðla og dægurmenningar sem hefur sett fram fyrirfram ákveðnar staðalímyndir af  „tölvunarfræðingi“ og sérstaklega „forritara“ og þá er gjarnan sett samasem merki þar á milli. Hann er þá oftast karlkyns og mjög nördalegur. Mikilvægt er þess vegna að breyta staðlaðri ímynd tölvunarfræðingsins því tölvunarfræðin býður upp á margt annað en forritun og er líka fyrir konur.

Tafla 1: Áhrifaþættir sem halda stúlkum frá tölvunarfræði (módel NCWIT)

 • Áhrif menntunar – bæði formlegrar og óformlegrar: Kennsluefni í upplýsingatækni sem ekki er í tengslum við áhugasvið nemenda og umhverfi sem er ekki hvetjandi fyrir stúlkur.
 • Fjölskyldan, samfélagshópar og fyrirmyndir: Ólík tækifæri stúlkna og drengja og mismunandi reynsla tengt tölvum snemma í lífinu.
 • Áhrif jafningja: „Stundum er erfitt að vera eina konan“.
 • Fjölmiðlar og dægurmenning: Tölvunarfræði er álitið karlafag og nördalegt.
Heimild: National Centre for Women in Science and Technology, http://www.ncwit.org 

ECWT (European Centre for Women and Technology)    

Háskólinn í Reykjavík (HR) hefur frá upphafi beitt sér fyrir uppbyggingu tæknimenntunar á Íslandi með aðkomu að viðburðum, samstarfi um kennslu og menntun og með þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. ECWT er heiti á nýjasta átaki háskólans til að gera enn betur en HR mun nú í haust stofna miðstöð fyrir konur í tækni og vísindum.

Markmið ECWT er að tryggja aukna þátttöku kvenna í menntun, nýsköpun, störfum og forystu í upplýsingatækniiðnaði og tengdum greinum, byggða á samstarfi fjölbreyttra hagsmunahópa með þátttakendum úr viðskiptaheiminum, frá hinu opinbera, háskólasamfélaginu og hagsmunasamtökum. Miðstöðvar ECWT á Íslandi munu einblína á að fjölga konum í tæknigeiranum, sér í lagi í leiðtogastöðum og við frumkvöðlastörf með því að:

 • Hafa áhrif á stefnumörkun stjórnvalda og aðgerðir þeirra til úrbóta
 • Standa fyrir rannsóknum og mælingu á framvindu
 • Miðla þekkingu og stuðla að auknum samskiptum
 • Hafa áhrif á hindrandi þætti sem tengjast umgjörð og menningu í tæknigeiranum

Verkefnið fékk styrk Framkvæmdasjóðs jafnréttismála sem hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og mun HR vinna náið með mennta- og menningamálaráðuneytinu um framkvæmd verkefnisins.

Þar að auki er gaman að segja frá því að 2014 var stofnaður hópur kvenna í tölvunarfræði, /sys/tur, sem er tengslanet kvenna í tölvunarfræðideild við HR en mikil áhersla er lögð á það innan háskólasamfélagsins að veita málefninu meiri hljómgrunn (sjá t.d. https://www.facebook.com/rusystur).

Upplýsingatæknidagur kvenna

HR síðí apríl 2014 fyrir sérstökum degi tileinkuðum konum í upplýsingatækni – GIRLS IN ICT 2014 en atburðurinn er hluti af ECWT verkefninu. Dagurinn vakti athygli á mikilægi þess að kynna upplýsingatækni fyrir konum og stuðla að því að störf við tæknigreinar séu aðgengileg og lifandi starfsvettvangur sem laðar til sín ungt fólk af báðum kynjum. Viðburðurinn var eitt af undirmarkmiðum í stefnumótun Evrópusambandsins um upplýsingaþjóðfélagið en markmiðið er að sambærilegur dagur verði haldinn um alla Evrópu á ári hverju.

Lokaorð

Samkvæmt fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í október 2014, staðfesta rannsóknir að ef jafn marga konur og karlmenn störfuðu í upplýsingatækniiðnaðinum gæti verg þjóðarframleiðsla Evrópu hækkað árlega um 9 billjón evrur. Þá segir í tilkynningunni að upplýsingatækniiðnaðurinn mundi hagnast á þessu þar sem fyrirtæki þar sem eru með hærra hlutfall kvenna í stjórnarstöðum ná 35% hærra arðsemi á eigin fé og 34% meiri arð til hluthafa en önnur sambærileg fyrirtæki.

Ýmislegt hefur verið gert undanfarinn áratug hér á landi .t.d. á vegum HR og UT-kvenna, til að fjölga konum í tæknigreinum og þá sérstaklega innan tölvunarfræði og þær aðgerðir virðast hafa haft áhrif því eins og sagði í upphafi þá er fjöldi kvenna sem sækja í fagið smásaman að aukast. En betur má ef duga skal og er hér með auglýst eftir góðum hugmyndum að verkefnum sem hvetja stúlkur til að kynna sér tæknigreinar.

Höfundar: Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og Kristine Helen Falgren, fulltrúi Iðnaðar- og atvinnulífstengsla í Háskólanum í Reykjavík og fulltrúi fyrir ECWT á Íslandi.

Lesið 3381 sinnum Síðast breytt fimmudagur, 28 Maí 2015 12:15