Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

15.01.2015

Ætti að græða tölvuflögur í fólk?

mikroTölvuflögur eru orðnar mikill og stór þáttur í okkar daglega lífi. Flest berum við á okkur ýmis konar búnað sem inniheldur flögur í mis miklu magni t.d farsíma, fartölvur og jafnvel greiðslukort með örgjörva. Búnaðurinn er orðinn það mikilvægur þáttur í okkar daglegu venjum að fæstir gætu hugsað sér líf án þessara hluta. Kort eru orðin mikilvægur hluti af mynstri okkar og erum við háð þeim til þess að komast inn í hinar ýmsu byggingar, til að greiða fyrir vörur og þjónustu, opna og gangsetja bíla svo eitthvað sé nefnt. Það má einnig halda því fram að hin hefðbundni húslykill sé að verða úreltur enda er um mjög óáreiðanlegt aðgangsstýringartæki að ræða. Flestir gæludýraeigendur eru nú þegar að nota örflögur til að merkja gæludýrin sín. Á sama máta mætti græða örflögur í manneskjur sem myndi útrýma nauðsyn þess að hafa með sér greiðslukort, skilríki og ýmis aðgangskort. En hvers vegna er þetta ekki orðin útbreidd tækni þar sem að þetta myndi einfalda líf okkar til muna.

Hver er staðan?

Þegar nánar er að gáð og upplýsingar kannaðar á veraldarvefnum má sjá að þessi tækni er í mótun og eru einstaklingar og fyrirtæki út um allan heim að velta þessum möguleika fyrir sér. Árið 2004 bárust fréttir um að fyrirtækið Applied Digital Solutions of Delray Beach hafi hafið framleiðslu á örflögu sem þeir nefndu VeriChip. FloridaTrend gerði VeriChip að umfjöllunarefni og kemur þar fram að flagan er aðeins stærri en hrísgrjón og var henni komið fyrir undir húð manna með nál. Aðgerðin tók ekki nema 20 mínútur og skildi ekki eftir sig nein sjáanleg ummerki. Upphaflega var flögunni ætlað það hlutverk að veita upplýsingar um sjúkrasögu einstaklinga og þá sérstaklega hugsað fyrir alzheimer sjúklinga sem mögulega gátu ekki gert grein fyrir sér (Keller, 2010). Eins og gefur að skilja myndi notkun slíkra flagna hafa í för með sér gífurlega hagræðingu í öllum heilbrigðisgeiranum og það mætti færa rök fyrir því að það væri einfaldlega lýðheilsusamleg nauðsyn að allir myndu láta setja í sig flögur. Hin vegar eru fleiri þættir sem þarf að taka inn í heildarmyndina.

VeriChip gekk ekki vel og var framleiðslu flögunnar hætt og nafni fyrirtækisins breytt árið 2010 í PositiveID. PositiveID tók aðra stefnu og fór að einbeita sér að sjúkdómsgreiningum með örflögum. Í fljótu bragði eru ástæður þess að VeriChip gekk ekki vel óljósar en samkvæmt grein á Wikipedia er orðrómur um að það hafi ekki gengið sem skildi að koma búnaði á spítala sem átti að lesa upplýsingar af flögunni (VeriChip, 2014). Það er í raun ekki óeðlilegt að tækni sem þessi hljóti misjafnar móttökur. Þegar um er að ræða nýungar sem eru jafn umdeildar og lítið rannsakaðar og þessi þá er gefið að sú þróun muni ekki ganga þrautalaust fyrir sig.

Kostir og gallar

Í skýrslu sem gerð var fyrir American Medical Association kemur fram að notkun Radio Frequency Identification Device (RFID) búnaðar sé til mikillar hagræðingar innan heilbrigðisgeirans. Aftur á móti er sett út á að upplýsingar um áhrif RFID á sjúklinga og umhverfi þeirra séu ófullnægjandi og að óvíst sé að búnaðurinn muni reynast heilsusamlegur. Einnig eru settar fram athugasemdir um friðhelgi einkalífsins í skýrslunni og hvatt til þess að einungis sé hægt að lesa auðkenni af flögunni og það sé svo meðhöndlað í þar til gerðum hugbúnaði af fagaðilum (The Council on Ethical and Judicial Affairs [CEJA],2007). Auðkennisþjófnaður er enn áhættuþáttur og það þarf að þróa varnir gegn honum vel áður en að almenn notkun má eiga sér stað. Mögulega væri hægt að taka afrit af gögnum einnar flögu og búa til aðra flögu með sömu gögnum. Þar af leiðandi væri hægt að ræna læknisupplýsingum og mögulega auðkenni einstaklinga, en með þessari aðferð væri hægt að minnka líkurnar á að auðkennisþjófnaður ætti sér stað. En þó er þetta ekki fullkomin lausn.

Einnig er til sá möguleiki að örflögur yrðu útbúnar með staðsetningarbúnaði þannig að það mætti rekja ferðir einstaklinga. Sú útfærsla myndi hafa þann kost í för með sér að hægt væri að staðsetja fólk nákvæmlega ef t.d. slys ber að höndum eða til að hafa eftirlit með afbrotamönnum. Einnig væri hægt að nota þessar upplýsingar til að leysa ýmis lögbrot. Hægt væri að rekja ferðir allra þeirra sem koma nálægt vettvangi glæps og nota þau gögn til að finna sökudólgin að glæpnum. En það vekur upp spurningar um friðhelgi einkalífsins og hvort að sú tækni gæti mögulega verið misnotuð af stjórnvöldum í þeim tilgangi að njósna um hinn almenna borgara. Þannig gætu örflögur með staðsetningarbúnaði verið ógn við það frelsi sem að við þekkjum í dag.

Þróunin

Vísindamenn hafa verið að gera ýmsar aðrar tilraunir með örflögur í þeim tilgangi að stjórna hlutum í sínu umhverfi. Í grein sem var birt á vef Newsmax kom fram að árið 1998 græddi Dr. Kevin Warwick, breskur verkfræðingur og prófessor við háskólann í Reading, í sig örflögu í þeim tilgangi að stýra hita, ljósum og opna hurðir. Árið 2001 gekk Warwick skrefinu lengra og græddi í sig búnað sem átti að geta stýrt vélarmi og hafði sá búnaður einnig þann eiginleika að geta tengst tölvukerfi Columbia háskóla og með því stýrt vélarminum yfir netið. Annar vísindamaður við háskólann í Reading, Dr. Mark Gasson, græddi í sig flögu sem notuð var í staðinn fyrir kort til að opna hurðir og einnig virkja farsíma sinn. Hann vildi sanna að þetta væri óáreiðanlegt tól og sýkti flöguna með tölvuvírus og bar hann með sér í kerfi innan háskólans. Gasson gantaðist með það að með þessu athæfi varð hann því fyrsti maðurinn til að sýkjast af tölvuvírus (Hirsen, 2010).

Möguleikarnir við frekari þróun þessara hugmynda eru miklir og það sem gæti orðið mest til muna í okkar daglega lífi er að þessi tækni myndi ná fótfestu. Það er bara spurning um útfærsluatriði að koma í veg fyrir öryggisholur í örflögum en það er samt sem áður vandamál sem við glímum við í dag. Farsímar og ýmis hugbúnaður, aðgangskort og fleira eru allt tól sem hægt er að brjóta og nýta sér í óheiðarlegum tilgangi og er það eitthvað sem þarf að leysa. Helsti varnaglinn í öllum öryggismálum er mannlegi þátturinn og ef það kæmi til dæmis fram tækni sem myndi binda örflögur við notanda sinn í gegnum taugakerfið eða með því að tengja DNA notandans við flöguna. Það er í raun ekki svo fjarlægur möguleiki því að samkvæmt grein sem birtist á vef The Guardian þá eru örgjörva framleiðendur farnir að horfa til DNA strengja við framleiðslu örgjörva og er framþróun á því sviði mjög spennandi (Johnson, 2009).

Þegar á heildina er litið er jafnvel um nauðsynlega tækni að ræða þar sem hún gæti aukið öryggi almennings til muna. Þó ber einnig að hafa ókostina í huga en ígræðsla örflaga í almenning gæti haft gríðarlega slæm áhrif á frelsi, friðhelgi og mannréttindi fólks. Þessi tækni gæti vissulega veitt ríkistjórnum gríðarlegt vald til að hafa eftirlit með borgurum sínum og veitt þannig aukið öryggi. Valdið gætu þeir hins vegar einnig notað til að bæla niður og stjórna almenningi. Sem dæmi mætti nefna möguleikann á því að staðsetja einstaklinga sem mótmæla eða vinna gegn málstað stjórnmálamanna. Einnig er möguleikinn fyrir hendi að óprúttnir einstaklingar fái aðgang að þessari tækni og mögulega valdið almenningi töluverðum skaða þá með sama hætti og stjórnvöld gætu gert.

Að lokum

Séu kostirnir aftur teknir til skoðunar getur örflögunotkun af þessu tagi verið gífurlega gagnleg til að leysa af hólmi ýmsa tækni sem hamlar okkur í daglegu lífi. Örflögur framtíðarinnar gætu mögulega verið notaðar til að vernda og gera við frumur líkamans, til að auka getu heilans og/eða líkamans og jafnvel komið í veg fyrir öldrun. Einnig gæti meðferð við hinum ýmsu sjúkdómum orðið mun einfaldari og þægilegri fyrir fólk með tilkomu örflögu og eða nanótækni, en svipuð tækni hefur verið notuð til að valda einstaklingum skaða. Möguleikar tækninnar á að breyta lífsgæðum mannkynsins eru fyrir hendi en einungis tíminn mun leiða í ljós hvert þessi tækni stefnir. Í það minnsta gæti verið ótvíræður kostur að losna við að burðast með allt það hafurtask sem raun ber vitni í dag eins og lykla, kort og þess háttar. Örflögur gætu einfaldað líf okkar til muna og hinum ýmsu fylgihlutum verið skipt út fyrir eina litla örflögu, svo ekki séu nefndir læknisfræðilegir möguleikar sem og þættir tengdir almennu öryggi hinna ýmsu samfélaga.

Höfundar: Bjarnþór Sigurðarson og Theodór Tómas Theodórsson nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá:
Hirsen, James(2014, 28. apríl) Mandatory Microchipping May Be in Our Future. Newsmax. Sótt 15. október 2014 af https://www.newsmax.com/Hirsen/MandatoryMicrochippingFuturebiohackers/2014/04/28/id/568183/
Johnson, Bobby(2009, 17. ágúst). Scientists pioneer method for DNA microchips. The Guardian. Sótt 15. október 2014 af https://www.theguardian.com/technology/2009/aug/17/ibm-dna-microchips
Keller, Amy(2010, 1. júlí). A chip of the old block: Update on Implant Microchips. Florida Trend. Sótt 15. október af https://www.floridatrend.com/article/3722/a-chip-off-the-old-block-update-on-implanted-microchips
Microchip implant (human). (2014, Október 9). Wikipedia, The Free Encyclopedia. Sótt 15. október 2014 af https://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Microchip_implant_(human))&oldid=628924888  
THE COUNCIL ON ETHICAL AND JUDICIAL AFFAIRS. (2007). Radio Frequency ID Devices in Humans (CEJA Report 5A07). Washington, DC: Höfundur. Sótt 15. október 2014 af https://epic.org/privacy/rfid/ama-report.pdf
VeriChip. (2014,16. september). Wikipedia, The Free Encyclopedia. Sótt 15 október 2014 af https://en.wikipedia.org/w/index.php?title=VeriChip&oldid=625793734

Lesið 2626 sinnum